Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Höfundaréttur

siggi-valur

  Besti,  mesti og frábærasti teiknari Íslands,  Sigurður Valur Sigurðsson (www.siggivalur.blog.is) hefur höfðað mál gegn Eddu-útgáfu vegna brota á höfundarrétti.  Forsaga máls er sú að Sigurður Valur teiknaði yfir 500 myndir fyrir  Plöntuhandbókina  sem var gefin út af Erni & Örlygi bókaútgáfu 1986.   Sú útgáfa fór á hausinn.  Mál & Menning eignaðist útgáfurétt (Björgólfs-feðgar) og bókin var endurútgefin af Eddu-forlagi.

  Þetta er athyglisvert mál og vekur upp spurningar.  Fyrir 20 - 30 árum hannaði ég fjölda plötuumslaga.  Jafnframt sá ég um markaðssetningu á viðkomandi plötum.  Þetta var pakki.  Ég hannaði tiltekna heildarímynd fyrir viðkomandi plötur:  Forsíðu umslags,  bakhlið,  innvols og auglýsingaherferð.

  Að undanförnu hefur Morgunblaðið boðið upp á áhugaverða úttekt á ferli poppstjarna og hljómsveita.  Án undantekninga eru plöturnar sem ég markaðssetti lang söluhæstu plöturnar á ferli viðkomandi.

  Þessar plötur hafa margar hverjar verið endurútgefnar af öðrum forlögum en þeim sem ég átti aðild að.  Í endurútgáfu hefur mín hönnun jafnan haldið sér að mestu á forsíðu en öðrum þáttum útgáfunnar verið klúðrað vegna skilningsleysis á heildarpakkanum.  Sumar plötur sem hafa verið endurútgefnar á geisladisk (en voru hannaðar af mér fyrir 12" vinyl) hafa fengið yfirbragð sem er frábrugðið því sem ég stillti upp.  Nafn mitt er ekki lengur á uimbúðum þessara platna heldur þeirra sem böðlast hafa á verri veg við geisladisksútgáfu platanna.  Ég nefni til að mynda "Loftmynd" Megasar sem dæmi og margar plötur Bubba Morthens (Das Kapital, Blús fyrir Rikka,  Kona,  Frelsi til sölu,  Dögun,  Skapar fegurðin hamningjuna?...).

  Ég hef svo sem ekkert verið að stressa mig á þessu.  Læt mér þetta í léttu rúmi liggja.  Hinsvegar ætla ég að fylgjast með framvindu málaferla Sigurðar Vals gegn Eddu-útgáfu. 


Furðulegt samtal

omg2

  Ég var að borða á matsölustað.  Við næsta borð sat hópur vinnufélaga.  Í þann hóp bættist síðan maður sem greinilega hafði ekki hitt þau hin í einhvern tíma.  Manninum var fagnað eins og týnda syninum.  Hann fór fljótlega að spyrja frétta.  Þá átti sér stað eftirfarandi samtal (nöfnum breytt):

  - Er Jói ennþá að dinglast með konunni hans Gumma?

  - Já, já.  Hún er flutt inn til Jóa.

  - Nú?  Og skilin við Gumma?

  - Nei,  hún er ekki búin að afskrifa hjónabandið. 

  - Hvernig gengur það fyrir sig?

  - Ja,  hún fór til dæmis í helgarferð norður á skíði með Gumma um þar síðustu helgi.  Þau ætluðu að láta reyna á hjónabandið.  Hún heldur samt áfram að búa með Jóa.

  - Hvað segja þeir kallarnir um þetta?

  - Það er stirt á milli þeirra.  Jói er ósáttur við að konan skilji ekki við Gumma. 


Furðulegt myndband

  Einn kunningi minn var að fikta í tölvunni sinni.  Svo hnerraði hann og allt í einu var meðfylgjandi myndband komið inn á youtube.  Þetta er alveg furðulegt dæmi.  Næstu daga verð ég staddur í reiðuleysi í Austur-Evrópu.  Þar eru engar tölvur.  Bara fátækt og eymd.  Ekkert heyrist frá mér.  En ég kem alltaf aftur.  Aftur og aftur.


Önnur tilkynning frá Sigga Lee Lewis

siggileelewis1 

TILKYNNING FRÁ SIGGA LEE LEWIS 

07/02/09


  Ég undirritaður,  er lýsti mig í bindindi fyrr í vikunni,  sjá fyrri tilkynningu 05/02/09  (http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/796076/),   geri nú hinum sömu vinum mínum og kunningjum vitanlegt að ég,  sakir ýmsa nauðsynja-orsaka er hafa síðan fyrir mig komið,  er nú genginn úr bindindinu aftur.

Siggi Lee Lewis,  Hafnarfirði


Ný plata frá Högna

högnilisberg

  Íslendingar kynntust Högna Lisberg fyrst sem trommari Clickhaze,  trip-hop hljómsveitar Eivarar.  2002 kom Clickhaze fram á nokkrum glæsilegum hljómleikum hérlendis.

  Nokkru síðar var Clickhaze leyst upp og flestir liðsmenn hljómsveitarinnar hófu farsælan sólóferil.   Högni hóf sólóferilinn með plötunni  Most Beautiful Thing.  Lágstemmdri kassagítarplötu.  

  Næsta sólóplata,  Morning Dew,  naut töluverðra vinsælda á Íslandi.  Lög af henni fengu góða spilun í útvarpi og seldist vel.  Í Færeyjum var  Morning Dew  verðlaunuð sem besta plata ársins.  Platan fékk útvarpsspilun í Danmörku,  Swiss og víðar.  Högni spilaði á nokkrum vel sóttum hljómleikum hérlendis og víða á meginlandi Evrópu.

  Núna var Högni að senda frá sér 3ju sólóplötuna,  Heré! Heré!  Þar fer Högni á kostum sem góður flytjandi og dálítið Prince-legur flytjandi/túlkandi.  Ég fékk plötuna í hendur í gær og geri betur grein fyrir henni síðar,  þegar ég hef hlustað oftar á hana.   Heré!  Heré!  fæst ekki ennþá í íslenskum búðum.  Fyrri sólóplötur hans fást meðal annars í Píer í glerturninum við Smáratorg og í Korputorgi.

  Kíkið á:

 www.hogni.com 

www.myspace.hogni.com 

www.tutl.com

hare_hare_tumb

Morning-dewMost-beautiful


Nýtt lag frá Hilmari Garðars

Hilmar Garðarsson

  Fyrir mörgum árum sá ég mega flott húðflúr.  Mynd af Bob Marley á ungum manni frá Austfjörðum,  Hilmari Garðarssyni.  Mig minnir að ég hafi birt ljósmynd af húðflúrinu í unglingablaðinu Smelli.  Síðar sá ég Hilmar spila og syngja ljómandi vel lög eftir Bob Marley,  Talking Heads og John Lennon á skemmtistað á Egilsstöðum.  Það er skrítið hvað ég man vel flutning hans á lögum þessara kappa.  En þó ekki skrítið.  Flutningurinn var það flottur.

  2004 kom út plata með Hilmari.  Aldeilis flott plata.  Dálítið Nick Cave-leg.  Sem er bara gott.  Nú er að koma út nýtt lag frá Hilmari,  Aleinn á ný.  Ljúf lagasmíð og gaman að heyra Hilmar vera farinn að syngja á íslensku.  Lagið má heyra á http://www.myspace.com/gardarsson

  Lagið byrjar sjálfkrafa að hljóma skömmu eftir að netsíðan birtist/opnast.  Ég mæli þó með því að fyrst sé hlustað á eldri lög Hilmars sem eru neðar í tónspilaranum á síðunni.  Sérstaklega hið ágæta  Snowstorm.  Þannig næst betri tenging við það skref sem Hilmar er að stíga á ferlinum. 

  Þess má til gamans geta að pabbi Hilmars,  Garðar Harðar hefur verið að spila á gítar í áhugaverðri blúshljómsveit með Bjögg Gísla gítarsnillingi,  Þorleifi Guðjónssyni bassaleikara (úr Egó) og fleirum.


Brosleg ljósmynd

olíufurstiljósmyndar

  Það er ljótt að hlæja að framandi menningu.  Samt verða menn að leyfa sér það einstaka sinnum.  En gæta þess að grínið sé góðlátlegt og litað umburðarlyndi.  Á þessari ljósmynd má sjá olíufursta frá Mið-Austurlöndum.  Hann brá sér í ferðalag með eiginkonum sínum.  Til að hópurinn gæti síðar meir yljað sér við upprifjun á vel heppnaðri skemmtiferð var myndavél brugðið á loft.  Sá sem tók myndina af olíufurstanum að ljósmynda konur sínar heyrði olíufurstann kalla eitthvað um leið og hann smellti af.  Það er ágiskun að hann hafi kallað:  "Tilbúnar!  Allar brosa núna!"  

  Óskar Þorkelsson bendir á það í athugasemd hér fyrir neðan að átt hafi verið við myndina í "fótósjopp".  Ég reyndi að finna "orginalinn".  Þetta var það sem fannst:

fjölskyldumynd ársins

  Mér finnst ég kannast við dömuna sem er næst lengst til hægri.  Þó getur verið að hún sé bara svona lík einhverri sem ég þekki.


Breytingar á bloggi

  Áramótin eru tíminn þegar fólk setur sér markmið.  Ákveður að byrja að reykja á nýja árinu eða byrja að klæðast sokkaleistum.  Áramót eru góður tími til að endurskoða og endurmeta hluti.  Bloggið mitt fer ekki varhluta af því.  Nú verður heldur betur breyting á því.

  Ég byrjaði að blogga fyrir einu og hálfu ári.  Þá hafði ég aldrei lesið blogg og vissi ekkert um blogg.  Fram að þeim tíma höfðum við bræðurnir og systursynir skipst daglega á "reply to all" tölvupósti.  Aðallega til að spjalla um músík.  En einnig til að benda hver öðrum á sitthvað broslegt sem við rákumst á í fjölmiðlum,  rifja upp sögur af afa eða Önnu frænku á Hesteyri,  ræða um pólitík og bara sitthvað.  Stundum var tölvupósturinn þess eðlis að hann var áframsendur til fleiri.   

  Bloggið átti að vera framhald á minni þátttöku í "reply to all" tölvupóstinum.  Eitthvað fór úrskeiðis þegar frá leið.  Í stað þess að bloggið mitt væri bundið við samskipti við ættingja og vini fór það að fá 1000 - 1500 innlit á dag.  Ég á ekki svo marga ættingja og vini.

  Þessu hefur fylgt vaxandi fjöldi óska um að ég veki athygli á einu og öðru á blogginu.  Auglýsi þetta og fjalli hitt.  Sumar vikur hafa allt upp í 8 af hverjum 10 bloggfærslum mínum komið til á þennan hátt.  Þessu hafa fylgt heilmikil tölvupóstsskipti og ennþá fleiri símtöl.  Ekki síður frá ókunnugum en fólki sem ég þekki.  Pósturinn og símtölin hefjast alltaf á orðunum:  "Af því að það eru svo margir sem lesa bloggið þitt..."

  Ekki misskilja mig.  Það er gaman að vera í aðstöðu til að hjálpa fólki.  Það er líka gaman að vera í samskiptum við fólk.  Á hinn bóginn hefur þetta leitt til þess að alltof mikill tími fer í bloggið.  Sú er ástæðan fyrir því að ég ætla að fækka verulega innlitum á bloggið mitt.  Það geri ég með því að láta fara minna fyrir mér og mínu bloggi.  Einkum með því að blogga sjaldnar,  hafa bloggfærslurnar "látlausari",  tengja ekki við fréttir o.s.frv.

  Annað:  Munið að kjósa í skoðanakönnun um best jólalagið hér vínstra megin á síðunni.


ÁRIÐ, IÐ FER

  Nú tímaglasið fyri 2008 er um at renna út og 2009 stendur fyri durunum vil eg ynskja tykkum øllum eitt gott nyggjár og um góðan byr í nyggja árinum.  Eg takk fyri tað sem skjótt er farið.  Blíðar heilsanir. 

Skemmtileg eldamennska fyrir stórfjölskylduna

Einiberjakryddad_luxus_lambalaeri

  Hvað er skemmtilegra um jól og áramót en að stórfjölskyldan komi saman og allur hópurinn skipti með sér verkum við að elda einiberjakryddað lúxus lambalæri?  Einn,  til að mynda aðal töffarinn í hópnum,  hefur leik á því að versla með tilþrifum og þokkalegum stæl eins og eitt stykki af einiberjakrydduðu lambalæri.  Einhver annar sviðsetur fjörlegan leik við að finna á umbúðum þyngd lærisins.  Þriðja manneskjan þarf að kunna á vasareikni,  vinsælustu fermingargjöf áttunda áratugarins. 

  Viðkomandi slær inn á vasareikninn þyngd lærisins og margfaldarann x 44 mínútur á hvert kíló.  Útkoman úr því dæmi sýnir hvað lærið þarf lengi að malla í skúffu eldavélarinnar.

  Á meðan skenkir fjórða manneskjan heimilisfólkinu og gestum rauðvín.  Fimmta manneskjan laumar - svo lítið ber á - skotum af Jameson viskýi (má einnig vera Jack Daniels) á liðið.  Sjötta manneskjan þarf að vera í jólasveinabúningi og dreifir jólabjór og syngja:  "Hó, hó hó!" (nema fólk sé statt í Ástralíu.  Þar er bannað með lögum að segja:  "Hó,  hó,  hó!".  Ástæðan er sú að í enskuframburði Ástrala er ekki munur á orðinu hóra og "Hó").  Í bakgrunni er heppilegast að hafa plötuna  Never Mind the Bollocks  með Sex Pistols.  Það er best að hafa hana á rúmlega meðalstyrk.  Til tilbreytingar má líka spila plötur með Fræbbblunum.

  Það skerpir á stemmningunni að att sé keppni í loftgítar.

  Á meðan lærið mallar kemur vel út að smjörsteikja niðurskornar kartöflur (eða epli,  eins og Færeyingar kalla kartöflur) og sjóða blandað grænmeti svo snöggt að sú eldamennska líkist töfrabrögðum - með tilheyrandi handahreyfingum galdrakarls. 

  Ef einhver er nógu edrú til að treysta sér í að útbúa sósu þá er uppskriftin þannig:


6 dl. kjötsoð (soð úr skúffunni, vatn og kjötkraftur)
5-6 einiber
1 tsk steinselja
2 dl rjómi
1 msk   hunang
Salt og pipar

Setjið kjötsoð, einiber og steinselju saman í pott og sjóðið í 8 mín. Bætið í rjóma og hunangi og bragðbætið með salt og pipar. Þykkið sósuna með sósujafnara.  Syngið á meðan yfir pottinum "Jólamaðurinn kemur í kvöld" (sjá tónspilara).  Gætið að því að bera fram orðið "jólamaðurinn" sem "jólameavurinn".


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband