Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
13.8.2009 | 23:11
Best á nautið - loksins!
Fyrir mörgum árum var umtöluð í Skerjafirði kryddblanda sem Stefán Halldórsson hafði þróað og notað á lambakjöt. Kryddblandan þótti einstaklega vel heppnuð og gerði lambakjöt að meira sælgæti en áður þekktist. Þeir sem smökkuðu urðu friðlausir og gátu ekki hugsað sér að elda lamb án þessarar rómuðu kryddblöndu. Eftirspurn varð slík að fyrir nokkrum árum setti Stefán á almennan markað kryddblönduna Best á lambið. Hún sló í gegn og fæst nú í flestum íslenskum matvöruverslunum og einnig í Færeyjum.
Síðan hefur Stefán bætt við öðrum vinsælum kryddblöndum: Best á fiskinn, Best á kjúklinginn og Best á kalkúninn. Í síðustu viku bættist við kryddblandan sem margir hafa beðið eftir: Best á nautið.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.8.2009 | 22:47
Léttsteikt smásaga
Hrafnkell hefur aldrei verið jafn taugaóstyrkur á ævi sinni. Samt margfaldaðist sjálfstraust hans þegar hann sigraði í kvennahlaupi karla í Grindavík fyrir nokkrum dögum. Sigurinn gaf honum kjark til að kalla foreldra sína á fjölskyldufund. Hann á 16 ára afmæli eftir nokkra daga og ætlar að halda upp á daginn frjáls, laus við leyndarmál. Fjölskyldufundurinn er að hefjast.
"Ég ætla ekki að sitja undir einhverju andskotans rugli," þrumar pabbi hans eins og sá sem valdið hefur. "Ég ætla að standa!"
Pabbinn gnæfir yfir Hrafnkel sem horfir vandræðalegur niður fyrir sig. Pabbinn er 2ja metra hár rumur og breiður eftir því. Hann er með krosslagða handleggi. Netabolurinn leyfir ótal húðflúrum af hauskúpum, sveðjum og blóðugum aftökum að njóta sín. Þykkt og fagurgult hárið er skipti í miðju og nær niður á mitt bak. Skeggið hefur ekki verið snyrt í áratugi.
Mamman situr, lítil og nett. Ljóst hár hennar er stuttklippt. Hún er alltof mikið máluð í andlitinu. Hún er áhyggjufull.
"Það er erfitt fyrir mig að segja þetta," viðurkennir Hrafnkell. Hann slær á kjólinn sinn eins og til að slétta ósýnilega krumpun á honum. Svo togar hann í síðar svartar fléttur sínar eins og 10 ára stelpa, herðir upp hugann og lætur vaða: "Ég er Kínverji."
"Hvurn djöfulinn ertu að segja, drengur?" öskrar pabbinn. "Nú verður einhver drepinn!" Heiftarleg reiði og kvíðakast hellast samtímis yfir hann. Það er að líða yfir hann. Á síðustu stundu nær hann að snúast á hæl og hlaupa öskrandi fram í eldhús. Þar rífur hann langan og flugbeittan skurðarhníf upp úr hnífaparaskúffunni. Hann heldur áfram að öskra að nú verði einhver drepinn. Með eldsnöggum hreyfingum sækir hann tertudisk upp í skáp og raðar snyrtilega á hann nokkrum niðurskornum brauðsneiðum. Úr ísskápnum sækir hann smjör, tómata, agúrku og fleira. Hann smyr brauðsneiðarnar vandvirknislega, sneiðir grænmetið ofan á þær, sprautar majónesi yfir miðjuna, setur ýmist rauðan eða svartan kavíar ofan á, rífur upp dós með niðursoðnum apríkósum og sker örlitlar sneiðar sem hann setur á miðju hverrar brauðsneiðar. Apríkósurnar eru frekar til skrauts en bragðbætis. Samt passa þær vel við. Það fá Hrafnkell og mamman að sannreyna eftir að pabbinn hefur lagt diskinn á stofuborðið á milli þeirra.
Mamman er hágrátandi en pabbinn hefur náð jafnaðargeði. Hann spyr þó hálf ringlaður: "Heitir þú þá ekki Hrafnkell? Hvert er kínverska nafnið þitt?"
"Þetta hefur ekkert með nafnið að gera," leiðréttir Hrafnkell. "En ætlarðu að segja mér að þig hafi aldrei grunað neitt?"
"Ójú, mig hefur grunað," viðurkennir pabbinn með fullan munn af brauði. "Á tímabili var ég viss um að mamma þín væri að halda framhjá mér. Hún hvarf úr húsi allar nætur - nema þegar hún var á túr - og kom ekki aftur fyrr en undir morgun. Eina helgina þurfti ég út á land. Vegna óveðurs varð ég að snúa við. Ég náði aftur heim um miðja nótt. Ég læddist inn til að vekja engan. Niðri í gangi sá ég ókunnuga fjallgönguskó. Ég læddist upp á loft í myrkri og heyrði að mamma þín var ekki ein í svefnherberginu. Ég stökk öskrandi inn í herbergið. Þá lágu þær þarna naktar mamma þín og Sigga sæta í næsta húsi. Þær voru að hamast í píkunni hvor á annarri. Þær sögðu mér að lús væri að ganga og presturinn eða hreppsstjórinn hefði beðið þær um að leita að lús. Það voru þær einmitt að gera þegar ég truflaði þær.
Ég notaði þetta vandræðalega augnablik til að spyrja út í næturferðir kellu. Hún sagðist stundum verða heitt á nóttunni. Þá væri hressandi að fara út og láta norðangarrann lemja sig í andlitið í nokkra klukkutíma. Það passaði við að hún kom alltaf rjóð og sæl inn aftur. Það sem ég skammaðist mín fyrir að hafa vantreyst þessari elsku." Pabbinn varð hálf klökkur og klappaði grátandi konunni á kinn.
Hrafnkell lætur þessa ljúfu sögu ekki slá sig út af laginu og heldur áfram: "Pabbi, hefur þér aldrei fundist skrýtið að ég sé svarthærður, skáeygður og með gula húð?"
"Nei, Hrafnkell minn," fullyrðir pabbinn glaður í bragði. "Björk er uppáhaldssöngkonan mín og það er gaman hvað þú líkist henni. Þess vegna hef ég alltaf keypt á þig samskonar kjóla og hún er í á myndböndunum sínum. Það er næstum eins og að hafa Björk daglega inni á heimilinu. Þetta eru forréttindi. En án þess að mér komi það við: Áttar þú þig á því hvers vegna þú ert Kínverji?"
Hrafnkell verður vandræðalegur og tautar stamandi: "Ja, Sigga sæta var búin að eignast stelpu. Fólkið í næsta húsi var búið að eignast tvíbura og einn strák til viðbótar. Þá fæddist ég. Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum er fimmta hvert barn sem fæðist Kínverji. Ég var einfaldlega fimmta barnið í þessu tilfelli."
"Ég hefði getað sagt mér þetta sjálfur," segir pabbinn drjúgur með sig. Hann lítur á klukkuna og bætir við: "Ég ætla að fara og fá mér bjór með strákunum. Ég styð þig alltaf strákur minn. Mér kemur ekkert við hvort þú ert Kínverji, Reyðfirðingur eða Skoti svo framarlega sem þú ert ekki Dani. Ég er samt ekki sáttur við framkomu ykkar í garð Tíbeta."
Áður en pabbinn stekkur út úr dyrunum kallar hann: "Burt séð frá skammarlegu ofríki ykkar gagnvart Tíbetum er ég að mörgu leyti stoltur af þér, Hrafnkell minn. Þú hefur náð íslenskunni ótrúlega vel. Yfirleitt eiga Kínverjar erfitt með að læra íslensku."
----------------------------------------
Vinir og fjölskylda | Breytt 10.8.2009 kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
20.7.2009 | 21:44
Til hamingju með afmælið, Sæunn!
Kjarnakonan knáa, Sæja pæja, á afmæli í dag. Sæunn er húsfreyja á Uppsölum í Svarfaðardal og formaður Aflsins, systursamtaka Stígamóta á Akureyri. Næsta víst er að mikið er um vegleg veisluhöld í dag og næstu daga á Uppsölum og nágrannabæjum í tilefni dagsins. Hvað Sæunn er nákvæmlega gömul veit enginn. Það breytist ár frá ári og er allt í rugli. En eitthvað er hún að skríða upp fimmtugsaldurinn. Á myndinni hér fyrir ofan er Sæunn lengst til vinstri með vinkonum sínum hjá Aflinu, www.aflidak.is.
Til hamingju með afmælið, Sæunn systir!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
30.6.2009 | 01:48
Ég festist í lyftu
Í gær rétt slapp ég við að festast í lyftu. Ég var ekki jafn heppinn kvöldið áður. En í gær tókst ungri systurdóttur minni með snarræði að forða mér frá því að lenda í sömu vandræðum. Hún fylgdi mér snöfurlega niður á jarðhæð í lyftunni og passaði af samviskusemi upp á að allt gengi fyrir sig á besta veg. Forsagan er sú að kvöldið áður heimsótti ég systir mína og hennar fjölskyldu í orlofsíbúð bænda í fjölbýlishúsi í Reykjavík. Þau eru utan af landi. Þegar ég yfirgaf partýið hjá þeim í fyrrakvöld festist ég í lyftunni. Ég fór í lyftuna og beið eftir að lyftan skilaði mér á jarðhæð. Ég beið og beið í lyftunni. Stóð þar aleinn og lyftan skilaði mér ekki á jarðhæð. Ég tók upp á því að raula íslensk dægurlög til að stytta mér stundir. Þegar mínútur liðu og ekkert gerðist fór ég að ókyrrast. Eftir 10 mínútur lokaður inni í lyftunni sljákkaði í söng mínum og ég fór að velta fyrir mér vandamálinu. Enda kominn með leið á íslensku dægurlögunum sem ég raulaði. Þá áttaði ég mig loks á að ég hafði aldrei ýtt á hnappinn í lyftunni sem átti að bera mig niður á jarðhæð. Ég brá við skjótt og ýtti á þann hnapp. Það var eins og við manninn mælt: Ég var á augabragði kominn á jarðhæðina.
Daginn eftir tók systurdóttir mín að sér að halda utan um dæmið. Hún fylgdi mér í lyftuna, ýtti á hnappinn fyrir jarðhæð og fylgdi mér alveg út að útidyrum blokkarinnar. Þetta gekk hratt og vel fyrir sig. Ég festist ekki í lyftunni.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
22.6.2009 | 23:24
Aflið fær styrk
Fréttinni hér fyrir neðan er hnuplað af heimasíðu Vikudags á Akureyri. Heimasíða Aflsins, systursamtaka Stígamóta á Norðurlandi, er www.aflidak.is. Mín kæra systir, Sæunn, er formaður samtakanna. Slóðin á fréttina í Vikudegi er http://vikudagur.is/?m=news&f=viewItem&id=3817
Aflið nýtir peningastyrk til útgáfu kynningarbæklings
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.6.2009 | 00:15
Sjálfsfróun og Sjálfstæðisflokkurinn
Á dögunum var sýnd í sjónvarpinu (RÚV) stuttmynd þar sem minn góði vinur, Bjarni heitinn Móhíkani (Bjarni Þórir Þórisson), las á áhrifamikinn hátt kvæði eftir Halldór Laxness og fór með aðalhlutverk. Bjarna kynntist ég þegar hann var 14 - 15 ára og árið 2000 fór hann með mér í eftirminnalega hljómleikaferð til Grænlands í kjölfar þess að lag mitt Þorraþrællinn fór í 6. sæti grænlenska vinsældalistans. Lagið er í tónspilarunum hér til vinstri.
Bjarni sló í gegn í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík sem söngvari og bassaleikari pönksveitarinnar Sjálfsfróun. Með okkur Bjarna til Grænlands fór dauðapönksveitin Gyllinæð (einnig í tónspilaranum) og þar var enginn bassaleikari.
Í kjölfar þess að horfa á stuttmyndina með Bjarna í sjónvarpinu fór ég inn á youtube til að vita hvort þar væri eitthvað með Bjarna. Þegar ég sló inn nafni frægustu hljómsveitar hans, Sjálfsfróunar, birtist mér listi yfir 40 myndbönd. Þar af 38 um Sjálfstæðisflokkinn.
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.6.2009 kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)
13.5.2009 | 19:46
Hann á afmæli á morgun
Það er skammt stórra högga á milli. Trommusnillingurinn Viðar Júlí Ingólfsson á Reyðarfirði átti afmæli í gær. Til hamingju með það, öllsömul! Á morgun er það forsetinn sem á afmæli. Það er gott að vita fyrir þá sem eiga eftir að pósta til hans afmælispakka.
Hvað gefur Dorrit kauða á morgun? Ég grísa á að hún byrji morguninn á að gefa honum selbita og síðan læknagrímu fyrir vitin svo hann fái ekki svínaflensu. Í sama pakka verður Immiflex af sömu ástæðu. Það svínvirkar. Sem aukagjöf fær kallinn kvikmyndina ömurlegu "Grease" á DVD,
Síðdegis bakar Dorrit skúffuköku handa forsetanum og skreytir hana með Smarties. Enginn veit hvað forsetinn er gamall. Þess vegna verður bara eitt risastórt útikerti ofan á kökunni. Hvers óskar forsetinn sér þegar hann blæs á kertið? Mig grunar að hann óski þess að fá grísasamloku í kvöldmat.
Vinir og fjölskylda | Breytt 14.5.2009 kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
28.4.2009 | 00:43
Partý aldarinnar
Fyrir nokkrum árum ákvað kunningi minn að halda upp á þrítugsafmæli sitt með stæl. Hann var nýskilinn við kellu sína. En blankur. Hann sló bankalán fyrir því sem kallað var "partý aldarinnar". Enda var hann í leiðinni að halda upp á skilnaðinn. Þar fyrir utan var þetta einnig innflutningspartý vegna íbúðar sem hann hafði tekið á leigu.
Ekkert var til sparað þó ekki væri gengið jafn langt og hjá íslenskum auðmönnum sem buðu upp á Elton John eða Duran Duran. Blessunarlega ekki.
Kunninginn keypti bílhlass af bjór og kampavíni. Hann skreytti íbúðina ótal uppblásnum blöðrum, utan sem innan, og allskonar partýglingri. Keypti helling af furðulegum pappírshöttum, ýlum og dóti sem er áberandi á gamlárskvöldi.
Hann fékk vin sinn til að spila á hljómborð (skemmtara) inn á geisladisk undirleik við helstu rútubílasöngva. Hann lét fjölrita texta þessara sömu slagara: Fatlafól, Stál og hnífur, Undir bláhimni og svo framvegis. Það átti að syngja vinsælustu slagarana fram undir morgun.
Allur eftirmiðdagur fór í að smyrja snittur og smábrauð. Jafnframt voru skálar fylltar kartöfluflögum og raðað innan um ídýfur af ýmsu tagi.
Um klukkan 23:00 kíkti ég við. Enginn var mættur í partý aldarinnar. Ég stoppaði stutt við og hélt síðan á hverfispöbbinn. Kunninginn gaf mér fyrirmæli: "Ekki vera of lengi. Partý aldarinnar hefst upp úr miðnætti. Þú mátt ekki missa af fjörinu."
Ég ílengdist á pöbbnum. Skilaði mér í partý aldarinnar um klukkan 2. Þá var allt með sama sniði og klukkan 23:00. Enginn hafði mætt. Ekki ein einasta manneskja. Ef undan er skilin ein fullorðin útlend kona sem kunninginn hafði rekist á í stigaganginum. Hann náði að hella í hana einu bjórglasi. En þau gátu ekki spjallað saman. Konan talar hvorki ensku né íslensku. Bara pólsku.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
18.4.2009 | 03:26
Í sviðaveislu hjá mótorhjólagengi
Í gærkvöldi var mér boðið í sviðaveislu hjá kærri vinkonu, Rannveigu Höskuldsdóttur, og til langs tíma félaga mínum í Frjálslynda flokknum. Mér skilst á henni að hún sé nú búin að yfirgefa flokkinn. Það breytir ekki því að Rannveig er jafn frábær manneskja fyrir því og hefur í engu breytt afstöðu gangvart baráttu gegn kvótakerfinu.
Þegar á reyndi kom í ljós að sviðaveisla Rannveigar var samfundur mótorhjólagengis. Það var gaman að kynnast í persónu Ingva Högnasyni, mótorhjólatöffara og stríðnispúka á blogginu. Ég biðst forláts á að hafa jafnóðum gleymt nöfnum annarra mótorhjólatöffara í sviðaveislunni. En sviðin voru eðal góð veisla með rófum. Bestu þakkir fyrir mig. Við Siggi "ginseng" vorum þeir einu í veislunni sem vitum ekkert um mótorhjól en hlustum þeim mun meira á hljómsveitina Motorhead og mótorhjólalög á borð við Born to be Wild með Steppenwolf.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 03:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
31.3.2009 | 22:29
Skúbb! Framboðslisti í Reykjavík norður
Ég var að koma af fjörlegum félagsfundi kjördæmafélags Frjálslynda flokksins í Reykjavík norður. Mæting var góð. Eða næstum hálft hundrað manna. Eftir snarpar umræður og mótframboð var framboðslistinn sem stjórn kjördæmafélagsins lagði fram samþykktur. Ég ætlaði ekki að fara nánar út í það en sé að þetta er komið fram á www.xf.is: Að Viðar Helgi Guðjónssen, formaður LUF, bauð sig fram í 1. sæti gegn Karli V. Matthíassyni. Framboðslistinn sem var samþykktur er eins og að neðan greinir. Karl V. Matthíasson þarf ekki að kynna. Helga er vinsæll kennari og systir Sigurjóns Þórðarsonar sem í prófkjöri var kosinn í 2. sæti í NV kjördæmi og var farsæll þingmaður FF á þarsíðasta kjörtímabili. Karl Sigurðsson og Margrét Kristín Þorgrímsdóttir eru fulltrúar ungu kynslóðarinnar. Karl Sigurðsson sá um margra ára skeið um vinsæla útvarpsþætti á Útvarpi Suðurlands og á rás 2, Ungmennafélagið og fleiri slíka þætti. Tók einnig þátt í dagskrárgerð sjónvarpsþátta á borð við 0. Samdi leikrit sem var fært upp af MS og naut vinsælda. Þannig mætti áfram telja upp afrek þessa 20 ára drengs.
1 Karl V. Matthíasson, þingmaður (www.kallimatt.blog.is)
2 Helga Þórðardóttir, kennari (www.helgatho.blog.is)
3 Karl Sigurðsson, forseti nemendafélags MS
4 Margrét Kristín Þorgrímsdóttir, barnshafandi
5 Hallgrímur Magnússon, læknir
6 Diana P Rostan Viurrarena frá Úrúgvæ
7 Árni Grétar Jóhannsson, tónlistarmaður frá Tálknafirði. Var í hinni mögnuðu teknópönkhljómsveit Equal
8 Matthías Leifsson
9 Reynir Gunnarsson
10 Inga Valdís Heimisdóttir
11 Daníel Ívar Jensson, gítarleikari Gyllinæðar (sjá tónlistann hér til vinstri)
12 Ásdís Sigurðardóttir
13 Erlingur Þorsteinsson
14 Jóhann Sigfússon, formaður félags leigubílstjóra
15 Guðlaug Þorkelsdóttir
16 Reynir Árnason
17 Róbert Bjargarson
18 Jens Guð
19 Laufey E. S. Þorsteinsdóttir
20 Gunnar Hólm Hjálmarsson
21 Laufey Kristjánsdóttir
22 Kjartan Halldórsson, sægreifi
Vinir og fjölskylda | Breytt 1.4.2009 kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (42)