Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
1.1.2009 | 00:10
ÁRIÐ, IÐ FER
27.12.2008 | 01:08
Skemmtileg eldamennska fyrir stórfjölskylduna
Hvað er skemmtilegra um jól og áramót en að stórfjölskyldan komi saman og allur hópurinn skipti með sér verkum við að elda einiberjakryddað lúxus lambalæri? Einn, til að mynda aðal töffarinn í hópnum, hefur leik á því að versla með tilþrifum og þokkalegum stæl eins og eitt stykki af einiberjakrydduðu lambalæri. Einhver annar sviðsetur fjörlegan leik við að finna á umbúðum þyngd lærisins. Þriðja manneskjan þarf að kunna á vasareikni, vinsælustu fermingargjöf áttunda áratugarins.
Viðkomandi slær inn á vasareikninn þyngd lærisins og margfaldarann x 44 mínútur á hvert kíló. Útkoman úr því dæmi sýnir hvað lærið þarf lengi að malla í skúffu eldavélarinnar.
Á meðan skenkir fjórða manneskjan heimilisfólkinu og gestum rauðvín. Fimmta manneskjan laumar - svo lítið ber á - skotum af Jameson viskýi (má einnig vera Jack Daniels) á liðið. Sjötta manneskjan þarf að vera í jólasveinabúningi og dreifir jólabjór og syngja: "Hó, hó hó!" (nema fólk sé statt í Ástralíu. Þar er bannað með lögum að segja: "Hó, hó, hó!". Ástæðan er sú að í enskuframburði Ástrala er ekki munur á orðinu hóra og "Hó"). Í bakgrunni er heppilegast að hafa plötuna Never Mind the Bollocks með Sex Pistols. Það er best að hafa hana á rúmlega meðalstyrk. Til tilbreytingar má líka spila plötur með Fræbbblunum.
Það skerpir á stemmningunni að att sé keppni í loftgítar.
Á meðan lærið mallar kemur vel út að smjörsteikja niðurskornar kartöflur (eða epli, eins og Færeyingar kalla kartöflur) og sjóða blandað grænmeti svo snöggt að sú eldamennska líkist töfrabrögðum - með tilheyrandi handahreyfingum galdrakarls.
Ef einhver er nógu edrú til að treysta sér í að útbúa sósu þá er uppskriftin þannig:
6 dl. kjötsoð (soð úr skúffunni, vatn og kjötkraftur)
5-6 einiber
1 tsk steinselja
2 dl rjómi
1 msk hunang
Salt og pipar
Setjið kjötsoð, einiber og steinselju saman í pott og sjóðið í 8 mín. Bætið í rjóma og hunangi og bragðbætið með salt og pipar. Þykkið sósuna með sósujafnara. Syngið á meðan yfir pottinum "Jólamaðurinn kemur í kvöld" (sjá tónspilara). Gætið að því að bera fram orðið "jólamaðurinn" sem "jólameavurinn".
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.12.2008 | 17:36
Bert ein lítil jólaheilsan
Kærar heilsanir.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.12.2008 | 23:14
Bókarumsögn
- Titill: Ég hef nú sjaldan verið algild - Ævisaga Önnu á Hesteyri
- Höfundur: Rannveig Þórhallsdóttir
- Útgefandi: Hólar bókaútgáfa
- Einkunn: **** (af 5)
Faðir Önnu á Hesteyri og afi minn voru bræður. Ég hef þekkt Önnu frá því ég fæddist. Þessi frábæra kona verður áttræð á næsta ári. Hún er einstakt náttúrubarn. Hún hefur sterkar skoðanir sem sumar koma stundum skemmtilega á óvart. Spjall við Önnu er ætíð uppspretta kátínu og gleði. Eitthvað sem gaman er að segja öðrum frá.
Í áratugi hafa ættingjar okkar Önnu skiptst á ævintýralegum sögum af henni. Oft hefur þá verið nefnt að einhver verði að safna þessum sögum saman og gefa út á bók.
Í fyrravor er ég byrjaði að blogga hef ég rifjað upp nokkrar sögur af Önnu. Það skiptir ekki máli hvort fólk þekkir Önnu eða ekki. Sögurnar eru jafn skemmtilegar fyrir ókunnuga.
Það var mikið fagnaðarefni þegar fréttist af því að Rannveig Þórhallsdóttir, bókmenntafræðingur, væri farin að skrásetja ævisögu Önnu. Bók um Önnu gat ekki orðið annað en bráðskemmtileg. Eina áhyggjuefni ættingjanna var að broslegar sögur af Önnu kæmu ekki almennilega til skila hvað þetta er merkileg manneskja. Að þær myndu draga upp mynd af Önnu sem "fígúru" sem er hlegið að á kostnað þess að sögurnar séu afgreiddar þannig að hlegið sé með Önnu.
Rannveigu hefur tekist virkilega vel að draga upp rétta mynd af Önnu. Koma til skila hversu heilsteypt og áhugaverð þessi manneskja er. Manneskja sem auðvelt er að bera mikla virðingu fyrir. Um leið og bókin er sneisafull af sprenghlægilegum sögum.
Þegar ég fékk bókina í hendur fletti ég henni fram og til baka og greip niður í hana hér og þar. Allsstaðar kom ég niður á mergjaðar smásögur. Síðan las ég bókina í tvígang frá upphafi til enda. Eftir það hef ég nokkrum sinnum haldið áfram að glugga í hana og rifja upp broslegar frásagnir.
Þetta er bók sem fólk á að kaupa handa sjálfum sér til að komast í gott skap um jólin. Og líka til að gleðja vini sína. Bókin er í 5. sæti yfir söluhæstu ævisögur. Mér skilst að hálft sjötta þúsund eintaka af bókinni séu komin í dreyfingu. Þar af séu um 5000 eintök seld. Það þýðir að margir munu skemmta sér konunglega við lestur þessarar bókar um jólin um hið kostulega náttúrubarn, Önnu á Hesteyri. Ekki láta bókina framhjá þér fara.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.12.2008 | 17:43
Það getur verið gott að vita þetta
Eftirfarandi fékk ég sent undir yfirskriftinni "Fyrir þig sem borðar helst bara fisk :)". Það er upplagt að miðla þessum fróðleik til fleiri. Ég hef grun um að einhver annar en ég borði fisk og geti gert sér að góðu þessar upplýsingar. Svo undarlega vill til að ég hef nokkrum sinnum snætt á umræddum stað. Meðal annars gerði ég grein fyrir einni heimsókninni þangað: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/643187
Þann 8. desember 2006 opnaði Erna Kaaber veitingastaðinn Icelandic fish & chips Organic Bistro að Tryggvagötu 8, á horni Tryggvagötu og Norðurstígs, rétt fyrir ofan smábátabryggjurnar.
Eins og nafnið ber með sér býður staðurinn upp á djúpsteiktan fisk og bakaðar kartöflur. Það sem aðgreinir staðinn frá öðrum sem bjóða sambærilegt er að leitast er við að gera réttina eins holla og hugsast getur, m.a. með því að nota ekki hefðbundið orly deig heldur deig sem inniheldur ekki hvítt hveiti. Mikið er lagt upp úr að bjóða gestum salat og auka þar með á hollustu réttanna og síðast en ekki síst má til að nefna sósu úr skyri sem fylgir og má velja úr sex bragðtegundum, en þessar sósur ásamt deiginu eru sérstaða þessa veitingastaðar.
Erna hefur þróað deigið og sósurnar í samráði við matgæðinginn David Rosengarten, en hann er þekktur fyrir matarklúbb sinn þar sem hann leiðbeinir sælkerum um gæði í mat og drykk. Deigið er leynd uppskrift og skyrsósurnar hefur Erna skrásett undir vörumerkinu Skyronnes
Staðarinn er opinn alla daga frá 12-21, nema sunnudaga þá er opið frá 17-21. Um hátíðirnar er lokað 24. og 25. desember og einnig nýjársdag, en föstudaginn 26. annan í jólum er opið 17-21, laugardag og sunnudag 27. og 28. desember frá 14-21 og gámlásdag frá 12-16.
Verðlag er verulega stillt í hóf og upplagt að líta inn og smakka hollan og góðan mat hvort sem er á staðnum, eða taka með heim. Icelandic fish & chips Organic Bistro er klárlega spennandi staður sem vert er að prófa.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.12.2008 | 22:56
Upplýsingar vegna greinar í Fréttablaðinu
Í Fréttablaðinu í dag er merkileg grein eftir blaðamanninn Kjartan Guðmundsson. Fyrirsögnin er Poppbókin - enn í fyrsta sæti. Greinin fjallar um bók sem kom út 1983. Kjartan segir Árna Daníel Júlíusson fá undarlega veglegan sess í Poppbókinni.
Málið er mér skylt. Þess vegna sé ég ástæðu til að draga fram eftirfarandi: Árni var áberandi í þeim hópi sem hratt pönk- og nýbylgjunni úr hlaði á Íslandi ´79/´80. Hann blés í saxófón í einni af allra fyrstu íslensku pönksveitunum, Snillingunum. Hann var maðurinn sem kýldi á hlutina og lét verkin tala. Sem dæmi þá stóð hann fyrir fyrstu hljómleikum Utangarðsmanna. Hljómleikunum sem ollu straumhvörfum í sögu íslenska rokksins.
Árni Daníel spilaði á bassa í Taugadeildinni og hljómborð með Tea for Two og Q4U. Þegar bókin kom út var Q4U stórt nafn. Kvikmyndin Rokk í Reykjavík var frumsýnd árið áður og hafði gífurlega sterk áhrif á það sem var að gerast í rokkinu. Q4U var áberandi í myndinni. Platan með lögunum úr myndinni seldist vel. Myndbandsspólan með Rokk í Reykjavík var nýlega komin út þegar bókin var skrifuð. Spólan seldist eins og heitar lummur og var mjög umtöluð. Q4U sendi frá sér plötu þarna um sumarið og lagið Böring af henni naut mikilla vinsælda.
Þetta var þó ekki megin ástæðan fyrir því að í Poppbókinni er viðtal við Árna Daníel heldur að hann hafði mikinn sagnfræðilegan áhuga á rokkmúsík. Hann las allt sem hann komst yfir um rokkmúsík. Hann skrifaði vikulega heilu og hálfu opnugreinarnar um rokkmúsík í DV og Vikuna. Hann velti öllum flötum rokkmúsíkur fyrir sér, skoðaði þá og skilgreindi. Hann sótti alla rokkhljómleika sem voru í boði á suðvesturhorni landsins. Hann kynnti sér allar íslenskar rokkplötur sem komu út og flestar þær helstu sem komu út erlendis. Hann var einn mesti viskubrunnur landsins um þann suðupott sem kraumaði í rokkmúsík þessara ára. Árni Daníel þekkti þennan pott frá öllum hliðum: Sem innsti koppur í búri, hljóðfæraleikari og tónleikahaldari, sem blaðamaður, sem fræðimaður. Ef einhverjum vantaði upplýsingar um eitthvað sem hafði gerst, var að gerast eða var framundan í íslensku rokksenunni var hringt í Árna Daníel. Hann var maðurinn sem vissi allt.
Það kom ekki á óvart að skömmu eftir útkomu Poppbókarinnar skellti Árni Daníel sér í sagnfræðinám. Síðan hefur hann skrifað fjölda bóka um allt frá íslenskum landbúnaði til jarðeigna kirkjunnar á Íslandi.
Þar fyrir utan er Árni Daníel úr Svarfaðardal.
Ljósmyndin er af Q4U. Árni Daníel er lengst til hægri.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.12.2008 | 20:45
Til hamingju, Andrea snillingur!
Samtónn, FTT, TÍ, FÍH og FHF hafa nú í annað sinn veitt svokallað Bjarkarlauf þeim sem ötulast hafa stuðlað að vexti og viðgangi íslenskrar tónlistar. Í fyrra fékk Árni Matthíasson, blaðamaður Morgunblaðsins, Bjarkarlaufið. Hann var virkilega vel að þeim kominn. Í ár fellur Bjarkarlaufið í skaut Andreu Jónsdóttur. Hún er ekki síður vel að viðurkenningunni komin.
Andrea hefur starfað við útvarp næstum svo lengur sem ég man. Lengst af á rás 2 og þar áður á rás 1 þegar sú rás var eina íslenska útvarpsstöðin. Ég held að poppþátturinn Á nótum æskunnar hafi verið fyrsti fasti útvarpsþátturinn hennar. Þar kynnti hún það nýjasta í rokkmúsík þess tíma.
Þó ég ávarpi Andreu í fyrirsögn þá veit ég að hún les ekki blogg. Það er allt í lagi. Hún er jafn frábær fyrir því.
Andrea hefur löngum verið plötusnúður á skemmtistöðum. Þekktust er hún kannski fyrir að halda uppi fjöri á Dillon. Hún hefur sömuleiðis skrifað um músík í áraraðir. Síðast fyrir poppblaðið Sánd.
Íslensk músík hefur alltaf staðið henni nærri og hún lagt drjúgt að mörkum við að kynna íslenska músík. Ég hef sterkan grun um að hún hafi verið hvatamaður að tilurð kvennahljómsveitarinnar Grýlurnar. Hún tók líka saman merkilega plötu um íslenskt stelpnarokk.
Ég man ekki hvernig Andrea orðaði það svo skemmtilega að fordómar séu í lagi en miklir fordómar séu hið versta mál. Sjálf hefur Andrea merkilegt fordómaleysi gagnvart músík. Hún hefur góðan músíksmekk en jafnframt umburðarlyndi gagnvart, ja, því sem ég kalla vondri músík. Hún gefur allri músík "sjéns". Þannig er hún. Jákvæð og umburðarlynd. Og yndisleg manneskja.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.12.2008 | 10:59
Frábær saga
Þessari broslegu sögu hnupla ég af bráðskemmtilegu bloggi Kristínar Bjargar Þorsteinsdóttur, skólasystur minnar frá Laugarvatni ( www.konukind.blog.is ). Til að fanga söguna þarf að hafa í huga að fjölskyldan var í útlöndum. Ég grenjaði út hlátri þegar ég las söguna. Hún kemur þér áreiðanlega í gott skap líka:
Hver gefur hverjum hvað?
Á afmælisdeginum dró Gulli upp úr pússi sínu gjöf frá sér og stelpunum.
Ég opnaði full forvitni (og var mjög hissa á að hann skildi geta smyglað þessu út án þess að ég sæi) og í skartgripa kassanum lá fallegt silfurhálsmen með íslenskum steini.
Í undrun minna sagði ég - Nei frá Jens - Guð -
Nei, frá mér og stelpunum - mælti þá minn maður.........
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
10.12.2008 | 22:32
Að ritskoða sjálfa/n sig
Tjáningarfrelsi er gott fyrirbæri. Íslendingar - eins og aðrir norðurlandabúar - búa við mesta tjáningarfrelsi í heimi, samkvæmt mælingu stofnunar sem kallast Free Press. Það er gott. Verra er að stofnunin mælir ekki þá tegund ritskoðunar sem kallast sjálfsritskoðun.
Vinkona mín hefur verið að blogga hér á moggablogginu. Hún hefur tjáð sig um ýmis hitamál í þjóðfélaginu. Á vinnustað hennar hafa skoðanirnar sem hún viðrar á blogginu fallið í grýttan jarðveg. Jafnvel svo að í kjölfar sumra bloggfærslnanna hefur andað köldu til hennar.
Nú er sú staða uppi í þjóðfélaginu að allt umhverfis konuna er verið að skera niður og segja upp fólki. Hún er lent í þeirri stöðu að þurfa að ritskoða sjálfa sig til að veikja ekki stöðu sína á vinnumarkaði. Reyndar hefur hún stigið það stórt skref í ritskoðuninni að hún er hætt að blogga, komin í bloggfrí, þangað til um hægist.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
6.12.2008 | 23:49
Jóna Ágústa Gísladóttir
Þegar ég byrjaði að blogga í fyrravor vissi ég ekkert hvað blogg er. Ég hélt að þetta væri ágætur vettvangur til að eiga orðastað við ættingja og vini. Sem það reyndar er. En ég sá ekki fyrir að þetta væri líka vettvangur til að lesa sér til skemmtunar bloggfærslur ókunnugs fólks.
Fljótlega uppgötvaði ég að gaman var að kíkja á bloggfærslur Ásthildar Cesil, Jennýar Önnu, Gurríar Har og margra annarra. Jafnframt uppgötvaði ég að í bloggheimi voru gömul skólasystkini á borð við prakkarann (Jón Steinar), Krístínu Björgu, Ippu og gamlir kunnigjar úr rokkbransanum eins og Kiddi Rokk og Jakob Smári.
Áður en langt um leið tók ég eftir að ein af þeim bloggsíðum sem ég heimsótti daglega var www.jonaa.blog.is. Jóna skrifar einstaklega góðan og áhugaverðan texta um einhverfan son sinn. Pennafærni hennar er aðdáunarverð. Frásagnir hennar snerta mann. Ég held að ég muni það rétt að bloggsíða hennar hafi verið sú fyrsta af örfáum sem ég hef haft frumkvæði af að óska eftir bloggvináttu. Þannig var auðveldara að smella á það sem mig langaði að lesa á daglegum blogglestrarrúnti.
Það kom ekki á óvart þegar upplýst var að von væri á samantekt á úrvali (best of) af bloggi Jónu Á. í bókarformi. Bókin er komin út og er kærkomin lesning. Meiriháttar flott bók, vel skrifuð, einlæg og í aðra röndina bráðskemmtileg. Í hina röndina jákvæð og upplýsandi um einhverfu, sem ég vissi ekki neitt um. Það er mannbætandi að lesa þessa bók. Þetta er bók sem fólk á að kaupa fyrir sig til að lesa og einnig til að gefa vinum og vandamönnum.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)