Veitingahús - umsögn

panel_fish_01

Veitingastaður:  Icelandic Fish & Chips,  Tryggvagötu 8,  Reykjavík

Réttur:   Djúpsteikt langa

Verð:  1590 kr.

Einkunn: ***1/2 (af 5)

  "Fiskur og franskar" er einskonar þjóðarréttur Breta;  djúpsteiktur skyndibiti afgreiddur á pappadiskum og snæddur með berum puttunum.   Veitingastaður sem kallast Icelandic Fish & Chips hljómar þess vegna ekki spennandi.  Til viðbótar er kjánalegt að íslenskur veitingastaður í Reykjavík skuli heita útlendu nafni.  Ekki síst vegna þess að staðurinn kennir sig við íslenskt hráefni.  Því ekki að nota íslenskt mál líka? 

  Þegar inn á staðinn er komið blasir við að IF&C er ekki "ódýr" eða subbulegur skyndibitastaður.  Þetta er staður í milliflokki.  Við getum staðsett hann til hliðar við Pítuna og American Style. 

  Gestir sækja sér sjálfir hnífapör.  Ef þá langar í vatn sækja þeir sér það einnig sjálfir.  Það er þó engin ástæða því hálfur lítri af bjór kostar 650 kall,  100 kalli minna en á Hróa hetti.  Ef maður nær að drekka 3 bjóra með matnum sparast þannig 300 kall.   

  Á borðum loga kerti.  Það gefur góða stemmningu. 

  Ég pantaði löngu með ofnbökuðum kartöflum og chillí-skyronnesi.  Ég rétti afgreiðsludömunni 5000 kall og hún gaf mér til baka eins og ég hafi látið hana fá 2000 kall.  Mér var alveg sama.  Engu að síður þótti mér þetta vera þjórfé í hærri kantinum.  Ég hugsaði með mér að sennilega væri um að ræða fátæka einstæða móðir með húsaleigu í vanskilum.  Svo bara hætti ég að hugsa um þetta og fór að leita uppi dagblöð til að lesa á meðan maturinn væri eldaður.

  Nokkru síðar spurði daman hvort verið gæti að ég hafi látið hana fá 5000 kall.  Ég kannaðist við það.  Hún lét mig þá fá einhverja seðla.

  Maturinn er borinn fram á ílöngum mjóum glerdiskum.  Það er stæll á því.  Ekkert pappadrasl. 

  Langan er mjúkur fiskur og laus í sér.  Það þarf varla að skera hann því hann dettur sjálfur í sundur þegar ýtt er við honum eða honum gert hverft við á annan hátt.  Það er milt og ferskt bragð af honum.  Deigið sem hann er steiktur í er úr spelti og bankabyggi.  Það er þunnt og stökkt með bragðgóðum heilsukeim.  Ég er lítið fyrir djúpsteiktan fisk en þetta er sá besti sem ég hef bragðað.  Ég mun fara oftar á ID&C og kanna djúpsteikta rauðsprettu eða hlýra - fyrst langan kemur svona vel út.

  Ofnsteiktu kartöflurnar eru baðaðar í ólífuolíu og kryddaðar með salti og steinselju.  Þær eru skornar í þunnar flögur og blessunarlega vel bakaðar;  dökkar,  stökkar og bragðið er skarpt. 

   Eins og nafnið gefur til kynna er skyr uppistöðuhráefni í skyronnesi.  Hin og þessi krydd eru hrærð saman við þannig að úr verður köld sósa,  eða ídýfa.  Það er hægt að velja um margar gerðir af skyronnesi,  svo sem hvítlauks,  sinneps og svo framvegis.  Ég óttaðist pínulítið að chillí-skyronnesið væri heldur sterkt með þessum mat.  Óttinn var ástæðulaus.  Chillí-skyronnesið er létt og gefur frísklegt bragð.

  Ég held að músíkin á staðnum hafi verið spiluð úr tölvu fremur en að stillt hafi verið á útvarp.  Að minnsta kosti var ekkert talað á milli laga og músíkin við hæfi:  Kunnir slagarar með Róbertu Flack,  Nancy og Frank Sinatra. 

  Ef mælikvarðinn á matinn er í heilum stjörnum talið erum við að tala um 4 af 5.  En 3 og hálf er nær lagi.  Myndin er ekki af mat á IF&C.

Aðrar umsagnir um veitingahús:

 - American Style

 - Pítan
 - Hrói höttur

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Já einmitt það.  Flott hjá þér þetta nýja nafn á skyrsósu, skyronnes hehehhehe.... eða bjóst þú það ekki til, trúi ekki að staðurinn böglist svona með íslenskuna okkar.

Ía Jóhannsdóttir, 15.9.2008 kl. 12:33

2 Smámynd: Ómar Ingi

Og hvað náðirðu að spara mikið í bjórum talið

Ég borða að öllu jafna ekki vini mína úr sjónum en þegar ég ætla mér það fer ég á þennan stað og ekki er annað hægt en að mæla með honum , en ég þekki líka stúlku kindina sem á hann. Falleg snót sem ég kýs að kalla Erna Þerna.

Ómar Ingi, 15.9.2008 kl. 12:50

3 Smámynd: Jens Guð

  Ingibjörg,  ídýfan er kölluð þessu nafni,  skyronnes,  á IF&C.  Það er meira að segja merkt sem skrásett vörumerki.

  Ómar,  ég sparaði 300 kall á bjórnum. 

Jens Guð, 15.9.2008 kl. 13:32

4 identicon

Mér finnst óþokkabragð (ekki af matnum) heldur af þeirri gjörð þinni að "leyfa" stúlkunni, þessari einstæðu með húsaleiguna í vanskilum og bílalán í hörmungum, að gefa þér rétt til baka.

Kveðja,

Guðmundur

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 15:27

5 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

hef borðað á þessum stað, nafnið á staðnum stóð aðeins í mér áður en ég ákvað að láta vaða inn, er inn var komið leið mér bara vel, maturinn góður fannst ég finna keim af hollustu og verðið alveg þolanlegt, hef ekki átt svona 5 þúsund kall lengi því reyndi ekki á gjafmildina, borgaði með debet ef ég man rétt

Jón Snæbjörnsson, 15.9.2008 kl. 16:06

6 identicon

  Ég er viss um að nafnið á staðnum fælir marga frá.  Enskukunnátta Íslendinga er ofmetin.  Ég afgreiddi í nokkur ár í verslun.  Þegar fólk var að spyrja spurninga um tæknileg mál dró ég upp leiðbeiningar á ensku og benti á tilteknar upplýsingar.  Ósjaldan varð viðskiptavinurinn vandræðalegur og stamaði að hann væri ekki nógu góður í ensku.  Þetta var mjög algengt með eldra fólk.

Jóhannes (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 17:42

7 identicon

Hljómar afar girnilegt!  Verð að prófa við tækifæri, og það jafnvel þó alíslenskur staður geti ekki truntast til að heita íslensku nafni.  Þetta enskusnobb Íslendinga sem margir vilja halda að ljái stöðum einhvern stíl er hreinlega bara kjánalegt og pirrandi.  Maður skilur það upp að vissu marki þegar erlendar keðjur hreiðra um sig hér að vörumerkinu sé haldið en sé ekki nokkra ástæðu fyrir íslenska staði á Íslandi til að heita erlendum nöfnum s.s. Icelandic Fish and Chips, Steak and Play o.fl.

Enskusnobbið brýst einnig t.d. út í því að kvikmyndir sem ekki eru á ensku eru engu að síður kallaðar þýddu ensku heiti hér.  Hví ekki bara að kalla myndirnar þá íslenskuðu heiti ef ekki er notast frumheitið?!  Skil ekki svona kjánaskap.  Ég sakna reyndar þegar öll heiti þátta og kvikmynda voru þýdd sem mörg hver urðu jafn þekkt og upprunalegt heiti.  Og þó telst ég nú enn ungur maður, er enginn íslenskufasisti og altalandi á nokkrar tungur... finnst bara eðlilegt að reyna að brúka mállýsku þess lands sem ég er staddur í að hverju sinni.

En hvað um það, er kominn langt út fyrir umræðuefnið... diskinn miiiinn, namminamminamm!

...désú (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 20:07

8 Smámynd: Jens Guð

  Guðmundur,  ég kunni ekki við að vera með leiðindi við dömuna.  Leyfði henni bara að ráða þessu.

  Jón,  nafnið stóð líka í mér.  Ég fæ mér stundum siginn fisk og selspik á Sægreifanum hinumegin við götuna og hef tekið eftir að það er ágæt traffík inn á IF&C.  Það eru meðmæli út af fyrir sig og réði för þrátt fyrir fráhrindandi nafnið.

  Jóhannes,  fæstir Íslendingar komnir yfir sextugt kunna ensku.

 ...désú,  ég tel það bera vott um einhverskonar minnimáttarkennd og óöryggi að kalla íslenskan veitingastað útlendu nafni án nokkurrar auðsjáanlegrar ástæðu. 

  Það er hægt að heimfæra þetta upp á íslenskar hljómsveitir.  Þeim er mörgum gefin ensk nöfn á meðan liðsmenn eru að ná tökum á viðfangsefninu.  Þegar sjálfsöryggið eykst er iðulega skipt yfir í íslensk nöfn.  Til að mynda eru flestar hljómsveitir sem keppa í Músíktilraunum með ensk heiti.  Síðar þroskast hljómsveitirnar,  finna sinn stíl og gefa hljómsveitunum íslensk nöfn.  Dæmi um þetta eru Sigur Rós og 200.000 naglbítar. 

Jens Guð, 15.9.2008 kl. 21:08

9 Smámynd: Ómar Ingi

Hvaða hvaða

International staður með International nafn , svo er líka einn af eigendunum frá USA en allir þekkja Fish and Chips.

Ég er líka svo asnalegur að mér sumt bara einfaldlega fallegra á Enskri tungu en annað mikið fallegra á móðurmálinu , svo er enskan mikið þjálli.

En annars borða ég ekki nafnið

Jens 300 kall þú ert alger tankur

Ómar Ingi, 15.9.2008 kl. 21:32

10 Smámynd: Jens Guð

  Ómar,  300 kallinn;  ég er vanur.  Kann þetta. 

  Varðandi nafn á matsölustað:  Það er stór hluti af þeirri tilfinningu sem fólk fær fyrir staðnum áður en hann er heimsóttur.  Og heldur áfram að hafa einhver áhrif á þá tilfinningu eftir að staðurinn hefur verið heimsóttur. 

  Nafn á matsölustað skiptir máli,  ekki síður en viðmót starfsfólks,  umhverfið og útlit og lykt matarins.  Allt telur þetta.

Jens Guð, 15.9.2008 kl. 23:09

11 Smámynd: Ómar Ingi

Góður skál fyrir 300 kallinum hehe

Telur allt er rétt en mismikið ekki satt

Ómar Ingi, 15.9.2008 kl. 23:45

12 Smámynd: Jens Guð

  Jú,  jú, vægi hvers þáttar er mismikið.  Nafnið skiptir mestu máli á meðan maður þekki staðinn ekki af reynslu.  Þá er nafnið nefnilega það eina sem dregur upp ímynd af staðnum.

Jens Guð, 16.9.2008 kl. 00:06

13 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég fékk mér fisk og franskar þarna í sumar, ég fékk mér bara ýsu og þótti mér hún besti djúpsteikti fiskur sem ég hef smakkað.  Ótrúlega fersk og bragðgóð, og frönsku kartöflurnar eru bakaðað í ofni með olívuolíu, maldon salti og grænu kryddi.  Ef ég man rétt er staðurinn lífrænn, eða organic.  Allt hollt og gott. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 16.9.2008 kl. 01:35

14 identicon

Já, nafnið skiptir miklu máli. Ég hef ekki haft neinn áhuga á að kíkja þarna inn, mér þótti nafnið svo fráhrindandi. Ef þeir eru að beina þessu að ferðamönnum, hefði verið auðvelt að hafa 'IF&C' undir íslenska nafninu.

Enn þessi jákvæði dómur fær mann til að langa að kíkja þarna inn.

Guðmundur A. (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 09:38

15 identicon

Mér finnst þessi staður einn sá besti lífræni veitingastaður á íslandi, fór oft þarna með bróður mínum þegar ég bjó á Íslandi og varð aldrei fyrir vonbrigðum.  Steinbíturinn og Rauðsprettan eru sérstaklega gómsætir réttir.  Timian-skyroness var borið með öðrum réttinum ef ég man rétt.

 Ég myndi hiklaust gefa staðnum 4,5 stjörnur fyrir matinn, þó svo að umhverfið sé ekki af háum standardi.  Eins er inngangurinn að staðnum sérkennilega illa merktur og mætti vera með glugga í hurðinni til að gera staðinn hlýlegri.

En ég er ósammála ykkur öllum með nafngiftina á staðnum og bendi þér á "American Style" í því samhengi, ekki hef ég orðið var við kvartanir af þinni hálfu á þeirri nafngift. :)

Þetta á vel við því þegar staðurinn var stofnaður var erlendur meðeigandi sem kom með sérkunnáttu sína sína í "fisk&frönskum", veit ekki hvort hann á nokkuð í staðnum í dag.

og íslensk útgáfa af þessu nafni væri einstaklega hallærisleg... ímyndaðu þér.  Fiskur&Franskar.... eða Steiktur Fiskur og Karftöflur....

Nei... Icelandic Fish&Chips blívar vel á mínu ylhýra, við erum jú orðin fjölmenningarsamfélag.

Kv. Hafþór

Hafþór (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 18:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband