Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
29.5.2022 | 04:01
Mögnuð saga á bakvið smellinn
Paul Simon er í hópi bestu söngvaskálda tónlistarsögunnar. Mörg laga hans hafa trónað á toppi vinsældalista út um allan heim. Bæði í flutningi hans sjálfs sem sólólistamanns, sem og annars helmings dúettsins Simon & Garfunkel; og ennfremur í flutningi annarra.
Frægasta lag hans er "Bridge over troubled water". Fast á hæla þess kemur "The sound of silence". Forsaga þess lags er eftirfarandi:
Gyðingurinn Art Garfunkel fór í Columbia-háskólann í Bandaríkjunum. Herbergisfélagi hans á heimavistinni var Sandy Greenberg. Fljótlega uppgötvaðist að hann var með skæðan augnsjúkdóm sem leiddi til blindu. Hann féll í þunglyndi. Gafst upp á lífinu og einangraði sig með sjálfsvíg að markmiði. Hélt heim í föðurhús fullur samviskubits yfir að verða baggi á fjölskyldunni. Hann svaraði hvorki bréfum né símtölum.
Art sætti sig ekki við þetta. Hann keypti sér flugmiða á heimaslóðir Sandys. Bankaði upp og sór þess eið að koma honum í gegnum háskólanámið. Verða hans augu og námsfélagi. Ekkert væl um blindu.
Til að Sandy upplifði sig ekki sem einstæðing uppnefndi Art sig "Darkness" (Myrkur). Með dyggri hjálp Arts menntaðist Sandy, kom sér vel fyrir á vinnumarkaði og tók saman við menntó-kærustuna.
Einn daginn fékk Sandy símtal frá Art. Erindið var hvort hann gæti lánað sér 400 dollara (60 þúsund kall). Hann væri að hljóðrita plötu með vini sínum, Paul Simon, en vantaði aur til að græja dæmið. Svo vildi til að Sandy átti 404 dollara. Honum var ljúft að lána Art þá. Platan kom út en seldist slælega. Ári síðar fór lagið "Sound of silence" óvænt á flug á vinsældalistum. Texti Pauls Simons byggir á sambandi Arts og Sandys.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
8.5.2022 | 01:30
Minningarorð
Söngvari Baraflokksins, Ásgeir Jónsson, féll frá núna 3ja maí. Hann var 59 ára. Baraflokkurinn stimplaði Akureyri rækilega inn í rokksöguna á nýbylgjuárunum upp úr 1980. Árunum sem kennd eru við "Rokk í Reykjavík".
Geiri var laga- og textahöfundur hljómsveitarinnar og allt í öllu. Frábær söngvari og frábær tónlistarmaður. Hann vissi allt og kunni í músík. Hljómsveitin átti sinn auðþekkjanlega hljóm; blöndu af pönkuðu nýróman-kuldarokki.
Ég kynntist Geira þegar hann var hljóðmaður Broadway á Hótel Íslandi um aldamótin (þekkti hann reyndar lítillega áður til margra ára). Ég bjó í næsta húsi. Þar á milli var hverfispöbbinn Wall Street. Þegar færi gafst frá hljóðstjórn brá Ásgeir sér yfir á Wall Street. Þar var bjórinn ódýrari og félagsskapurinn skemmtilegri.
Vegna sameiginlegrar músíkástríðu varð okkur vel til vina. Stundum slæddist Ásgeir heim til mín eftir lokun skemmtistaða. Þá hélt skemmtidagskrá áfram. Það var sungið og spilað. Einnig spjölluðum við um músík tímunum saman. Einstaka sinnum fékk Ásgeir að leggja sig heima hjá mér þegar stutt var á milli vinnutarna hjá honum, skjótast í sturtu og raka sig.
Geiri var snillingur í röddun. Sem slíkur kom hann við á mörgum hljómplötum. Hann var einnig snillingur í að túlka aðra söngvara. Það var merkilegt. Talrödd hans var hás (að hans sögn "House of the Rising Sun"). Engu að síður gat hann léttilega sungið nákvæmlega eins og "ædolin" David Bowie og Freddie Mercury.
Eitt sinn fór Bubbi Morthens í meðferð. Upptaka af hluta úr söng hans á plötunni "Konu" glataðist. Búið var að bóka pressu í Englandi en ekki mátti ræsa Bubba út. Geiri hljóp í skarðið. Söng það sem á vantaði. Það er ekki séns að heyra mun á söngvurunum. Þetta er leyndarmál.
Geiri var einstaklega ljúfur og þægilegur náungi. Eftir að Broadway lokaði vann hann á Bítlapöbbnum Ob-La-Di. Það var gaman að heimsækja hann þar. Hann lék ætíð við hvurn sinn fingur.
Fyrir nokkrum árum urðum við samferða í geislameðferð vegna krabbameins. Ég vegna blöðruhálskirtils. Hann vegna krabbameins í raddböndum og síðar einnig í eitlum. Við kipptum okkur lítið upp við það. Við töluðum bara um músík. Ekki um veikindi. Enda skemmtilegra umræðuefni.
Vinir og fjölskylda | Breytt 9.5.2022 kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
25.4.2022 | 02:12
Veitingaumsögn
- Réttur: Beikon ostborgari
- Staður: TGI Fridays í Smáralind
- Verð: 2895 kr.
- Einkunn: ****
TGI Fridays er fjölþjóðleg matsölukeðja með bar. Fyrsti staðurinn var opnaður í New York á sjötta áratugnum. Staðirnir eru mjög bandarískir, hvort heldur sem eru innréttingar, veggskreytingar, matseðill eða matreiðsla.
Beikon ostborgarinn (World Famous Bacon Cheeseburger) er matmikill hlunkur. Sjálfur borgarinn er 175 gr nautakjöt. Ofan á hann er hlaðið stökku beikoni, hálfbráðnum bragðgóðum bandarískum osti, tómatsneiðum, rauðlauk og salatblaði. Á kantinum eru franskar (úr alvöru kartöflum) og hunangs-sinnepssósa. Sú er sælgæti.
Bæði borgarinn og frönskurnar eru frekar bragðmild. Það var ekkert vandamál. Á borðinu voru staukar með salti og pipar. Ég bað um kartöflukrydd sem var auðsótt mál.
Ég er ekki mikill hamborgarakall en get með ánægju mælt með þessum.
1.4.2022 | 06:43
Ofsahræðsla
Um síðustu helgi keypti erlendur ferðamaður í Færeyjum sér nesti og nýja gönguskó. Tilefnið var að hann hugðist rölta upp fjallshlíð nyrst í Norðureyjum. Fjallið heitir Borgarinn og er á Kalsey. Það nýtur vinsælda meðal útivistarfólks. Útsýni er stórfenglegt og hlíðin ekki brött en lögð þægilegum göngustíg. Enda var leiðin greið upp hana.
Er karlinn hugðist hreykja sér í miðri hlíð brá svo við að hann var gripinn ofsahræðslu. Þegar hann horfði niður hlíðina sundlaði hann af lofthræðslu. Í taugaveiklun tók hann að góla tryllingslega og baða út höndum ótt og títt. Nærstaddir skildu ekki hvað hann kallaði af því að hann gólaði á útlensku. Svo fór þó að einn maður áttaði sig á vandamálinu. Hann greip fjallgöngugarpinn föstum tökum og rölti með hann niður á jafnsléttu. Þar jafnaði hann sig hægt og bítandi, Náði úr sér skjálftanum að mestu og fékk aftur lit í kinnar.
Til að hlífa samborgurum mannsins við háði og spotti er þjóðernið ekki gefið upp.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
9.3.2022 | 07:47
Afi og flugur
Börnum er hollt að alast upp í góðum samskiptum við afa sinn og ömmu. Rannsóknir staðfesta það. Ég og mín fimm systkini vorum svo heppin að alast upp við afa á heimilinu. Hann var skemmtilegur. Reyndar oftar án þess að ætla sér það.
Afi hafði til siðs að vera með hálffullt vatnsglas á náttborðinu. Ofan á glasinu hafði hann pappírsblað til að verja það ryki. Stríðin yngsta systir mín tók upp á því að lauma flugu ofan í glasið. Ekki daglega. Bara af og til.
Þetta vakti undrun afa. Honum þótti einkennilegt að flugan sækti í vatnið. Ennþá furðulegra þótti honum að hún kæmist undir pappírsblaðið. Afi sagði hverjum sem heyra vildi frá uppátæki flugunnar. Allir undruðust þetta jafn mikið og afi.
Aldrei varð afi eins furðu lostinn og þegar könguló var komin í glasið.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 07:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
1.3.2022 | 07:53
Hlálegur misskilningur
Miðaldra íslensk kona var búsett erlendis. Einn góðan veðurdag ákvað hún að fljúga til Íslands til að heimsækja vini og ættingja. Það hafði hún vanrækt í alltof langan tíma. Aldraður faðir hennar skutlaðist út á flugvöll til að sækja hana. Hún var varla fyrr komin í gegnum toll og heilsa honum er hún áttaði sig á klaufaskap.
"Bölvað vesen," kallaði hún upp yfir sig. "Ég gleymdi tollinum!"
"Hvað var það?" spurði pabbinn.
"Sígarettur og Jack Daniels," upplýsti hún.
"Ég næ í það," svaraði hann, snérist á hæl og stormaði valdmannslegur á móti straumi komufarþega og framhjá tollvörðum. Hann var áberandi, næstum tveir metrar á hæð, íklæddur stífpressuðum jakkafötum, með bindi og gyllta bindisnælu.
Nokkru síðar stikaði hann sömu leið til baka. Í annarri hendi hélt hann á sígarettukartoni. Í hinni bar hann Jack Daniels.
Er feðginin héldu af stað til Reykjavíkur sagði konan: "Ég skipti gjaldeyri á morgun og borga þér tollinn."
"Borga mér?" spurði öldungurinn alveg ringlaður.
Í ljós kom misskilningur. Hann hélt að dóttir sín hefði keypt tollvarninginn en gleymt að taka hann með sér. Gamli var svo viss um þetta að hann borgaði ekkert.
Vinir og fjölskylda | Breytt 9.4.2022 kl. 08:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.1.2022 | 00:06
Spaugilegar sjálfur
Fyrir daga myndsímanna voru ljósmyndir dýrt sport. Kaupa þurfti filmur og spandera í framköllun. Þess vegna vönduðu menn sig við verkefnið.
Í dag kostar ekkert að smella mynd af hverju sem er. Ungt fólk er duglegt að taka myndir af sjálfum sér og birta á samfélagsmiðlum. Í hamaganginum er ekki alltaf aðgætt hvað er í bakgrunni. Enda skjárinn lítill. Þegar ljósmyndarinn uppgötvar slysið er vinahópurinn búinn að gera myndirnar ódauðlegar á netinu. Hér eru nokkur sýnishorn:
- Strákur kvartar undan því að kærastan sé alltaf að laumast til að mynda hann. Í bílrúðunni fyrir aftan sést að stráksi tók myndina sjálfur.
- Einn montar sig af kúluvöðva. Í spegli fyrir aftan sést að hann er að "feika".
- Kauði smellir á mynd af ömmu og og glæsilegu hátíðarveisluborði hennar. Hann áttar sig ekki á að í spegli sést hvar hann stendur á brókinni einni fata.
- Stúlka heimsækir aldraðan afa. Það er fallegt af henni. Hún notar tækifærið og tekur sjálfu á meðan kallinn dottar.
- Önnur dama telur sig vera óhulta í mynd á bak við sturtuhengi. Ef vel er að gáð sést efst á myndinni í gægjudóna. Þetta sést betur ef smellt er á myndina.
- Enn ein er upptekin af sjálfu á meðan barn hennar berst fyrir lífi sínu í baðkari.
- Pabbi tekur mynd af feðgunum. Snati sleppur inn á sem staðgengill hárbrúsks.
- Myndarlegur gutti tekur sjálfu. Ekkert athugavert við það. Nema ef vel er rýnt í bakgrunninn. Þar speglast í rúðu að töffarinn er buxnalaus.
Vinir og fjölskylda | Breytt 8.1.2022 kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.12.2021 | 09:07
Jólakveðja
Heims um ból höldum við jól;
heiðingjar, kristnir og Tjallar.
Uppi í stól stendur í kjól
stuttklipptur prestur og trallar.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.8.2021 | 03:31
Líkamsóvirðing
Sjónvarp Símans er skemmtilegt. Þar eru endursýndir þættir árum saman þangað til öruggt er að áhorfandinn kunni þá utanað. Þannig er haldið þétt utan um hlutina.
Ein áhugaverðasta þáttaserían heitir Love island. Hún sýnir mannlegt eðli ungs fólks. Þættirnir ganga út á það að breskum ungmennum er holað niður í afskekkt hótel á Spáni. Þar býr það í vellystingum. Eina kvöðin er að para sig. Sem er létt verk og löðurmannlegt.
Ýmsu er bryddað upp á til að freista. Við það skapast drama, ótryggð, afbrýðisemi og allskonar breskleiki. Til að skerpa á hefur þátttakandi möguleika á að eignast 20 milljón kall eða álíka.
Strákarnir í hópnum eru hugguleg húðflúruð líkamsræktartröll. Þeir tala um stelpur á máli boltaleikja. Þeir tala um að skora. Koss er fyrsta höfn, kynlíf önnur höfn og eitthvað svoleiðis. Öllum þreifingum er fagnað sem sigri.
Strákarnir eru íklæddir boxer sundskýlum. Stelpurnar eru íklæddar efnislitlu bikini. Þær farða sig svo ríflega að þær eru nánast óþekkjanlegar hver frá annarri. Sítt slétt hár niður á bak er litað ljóst. Allar eru með gerviaugnhár. Allt í góðu með það. Nema að þær eru með þrútnar botox-varir. Það er ekki flott. Ég fordæmi það sem vonda fyrirmynd ungra kvenna. Mér að meinalausu mega konur á elliheimilum þrykkja í ýktar botox-varir. Það er svo sem ekki margt annað um að vera á elliheimilum. Ef frá er talin harmónikkumúsík.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
26.6.2021 | 07:28
Afi hótar bónda - framhald
Hvort bróðir minn braut rúðuna i skólanum er óvíst. Aldrei hefur fengist úr því skorið. Hann hélt fram sakleysi sínu. Og gerir enn. Þó er eins og hann verði pínulítið skömmustulegur á svipinn þegar þetta ber á góma. Bróðir húsbóndans hélt því fram að hann hafi séð bróðir minn brjóta rúðuna.
Afi trúði engu upp á sonarson sinn. Hann sór þess eið að ná fram hefndum. Tækifærið kom næst er hann fékk far með mjólkurbílnum að skólanum. Ekki var von á skólabílnum á allra næstu mínútum. Bóndinn bauð afa í kaffi. Á borð voru bornar kökur og tertur af ýmsu tagi. Segja má að afa hafi verið haldin veisla.
Afi sat gegnt bóndanum við eldhúsborðið. Þeir spjölluðu um heima og geima. Virtist fara vel á með þeim; uns bóndinn spurði: "Hvað er Mundi með margar ær í hverri kró í vetur?"
Afi brá við skjótt. Eldsnöggt teygði hann sig yfir borðið. Lætin voru svo mikil að gusaðist úr kaffibollanum hans. Hann lagði krepptan hnefa að kinn bóndans. Hann kýldi ekki. Lagði bara hnefann að kinn, skók hann og hrópaði reiðilega: "Sonur minn heitir Guðmundur. Ekki Mundi!"
Bóndanum dauðbrá. Hann hikstaði og stamaði: "Já, ég hérna...já, meina Guðmundur."
Afi róaðist þegar í stað og fékk sér síðasta kaffisopann um leið og hann svaraði sallarólegur: "Það eru ýmist 20 eða 21."
Næstu daga hældi afi sér aftur og aftur fyrir að hafa hrellt bóndann svo rækilega að hann myndi dreyma martraðir næstu nætur.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)