Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
21.8.2020 | 00:04
Afmælisveisla aldarinnar
Guddi ákvað að halda upp á sjötugsafmæli sitt með stæl. Hann talaði um það sem afmælisveislu aldarinnar. Hann bauð sínum bestu vinum. Þeir voru foreldrar mínir og hjónin á Hólkoti í Unadal í Skagafirði. Fleiri yrðu ekki í veislunni. Þeir myndu bara flækjast fyrir. Veislan yrði á Hótel Mælifelli á Sauðárkróki. Ekkert til sparað: Dýrustu forréttir, dýrustu aðalréttir, dýrustu desertar, dýrasta koníakið, dýrustu vindlarnir.
Guddi stóð við sitt og stýrði veisluhöldum með glæsibrag. Eftir desertinn pantaði Guddi dýrustu vindla á línuna. Gestirnir afþökkuðu vindlana. Hann fékk sér hinsvegar rándýran vindil. Þjónninn benti honum á að bannað væri að reykja vindil inni. Guddi sýndi því skilning. Sagðist bara bregða sér út og reykja vindilinn þar. Sem hann og gerði. Nema hann skilaði sér ekki aftur inn.
Þegar ekkert bólaði á Gudda í langan tíma tóku gestir að ókyrrast. Að lokum fór pabbi út að leita að honum. Þar var enginn Guddi.
Sem betur fer voru gestirnir með ávísanahefti og gátu gert upp við Mælifell. Annað hefði orðið vandræðalegt.
Næstu misseri varð Gudda tíðrætt um veislu aldarinnar. Sagði hverjum sem heyra vildi frá henni. Ekki síst þótti honum gaman að rifja upp við gestina og spyrja hvort að þetta hafi ekki verið veisla aldarinnar. Mamma spurði hvers vegna hann hafi stungið af úr veislunni. Guddi svaraði: "Veislan var búin og þá fóru náttúrulega allir heim til sin."
Vinir og fjölskylda | Breytt 26.8.2020 kl. 18:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
13.8.2020 | 03:28
Kenning Gudda
Guddi keðjureykti. Sennilega áttu reykingarnar einhvern þátt í miklum hóstaköstum sem hann fékk í tíma og ótíma. Oftar í ótíma.
Guddi slóst í hóp með systkinum mínum er þau skelltu sér á dansleik í Varmahlíð. Er dansleik lauk sýndu gestir á sér fararsnið. Þar á meðal Guddi og systkinin. Líka piltur sem sýndi systir minni áhuga. Gudda þótti hann full ágengur. Hann snöggreiddist, greip þéttingsfast um hálsmálið á kauða og reiddi hnefann til höggs. Í sama mund fékk hann langt og heiftarlegt hóstakast. Hnefinn lak niður. En Guddi sleppti ekki takinu á hálsmálinu. Né heldur rauf hann augnsambandið. Hann starði heiftúðlegum augum á drenginn á meðan hann hann hóstaði og hóstaði. Gaurinn sýndi engin viðbrögð. Starði bara í forundran á Gudda. Hann var töluvert stærri og kraftalegri en Guddi.
Er hóstakastinu linnti var Guddi búinn á því. Hann sleppti takinu og bað systkinin um eitthvað að drekka. Hann yrði að væta kverkarnar eftir svona hóstakast.
Guddi var alltaf eldfljótur til svars. Hann, ég og pabbi vorum að stinga út úr fjárhúsum. Guddi lét reykingar sinar ekki trufla vinnuna. Hann hélt sígarettum á milli vara og hafði hendur lausar til athafna.
Bróðir minn, 4ra eða 5 ára, spurði Gudda: "Af hverju reykir þú svona mikið?"
Guddi svaraði þegar í stað: "Þeir sem vinna mikið þurfa að reykja mikið!"
7.8.2020 | 22:30
Guddi í áflogum við mannýg naut
Guddi hét maður. Hann varð heimilisvinur foreldra minna á Hrafnhóli í Hjaltadal. Kom og dvaldi þar dögum saman. Ég var fluttur að heiman. Hitti hann aðeins einu sinni er ég heimsótti foreldrana.
Þegar ég hitti hann þá sagði hann mér margar grobbsögur af sér. Þær líktust sögum Munchausens. Ein var af því þegar nautahjörð réðist á hann. Nautin komu hlaupandi í halarófu að honum með hausinn undir sig. Hátt í tuttugu skepnur. Hraðinn á þeim var svo mikill að Guddi sá að vonlaust væri að flýja. Eina ráðið var að standa gleiður og takast á við nautin. Hann greip um hornin á þeim og snéri svo hratt upp á þau að kvikindin urðu afvelta. Hann snéri þeim til skiptis til vinstri og hægri. Þegar atinu lauk var hjörðin í tveimur hrúgum. Svo dösuð var hún að Guddi gat gengið í rólegheitum á braut. En nokkuð móður.
Hann sagðist hafa sagt fólki í - eða frá - Keflavík frá þessu. Það hefði ekki trúað sér. Ég svaraði því til að það væri afar dónalegt að rengja frásagnir fólks. Guddi sagði: "Þú ert góður maður. Ég ætla að gefa þér skyrtuna mína." Svo reif hann síg úr skyrtunni og rétti að mér. Ég sagðist eiga alltof margar skyrtur og bað hann um að fara aftur í skyrtuna sína. Enda dálítið kjánalegt að sjá hann sitja beran að ofan við eldhúsborðið.
Vinir og fjölskylda | Breytt 8.8.2020 kl. 18:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
1.8.2020 | 20:51
Afi tískufrumkvöðull
Undir lok sexunnar (sjöunda áratugarins) datt afa í hug gott sparnaðarráð. Í stað þess að fara til hárskera á Sauðárkróki - með tilheyrandi kostnaði - gæti ég klippt hann. Ég var um það bil 12 - 13 ára. Uppskriftin var sú að renna greiðu um hársvörð hans og klippa hárin sem stóðu upp úr greiðunni.
Til að gera þetta skemmtilegra þá brá ég á leik. Ég fylgdi uppskriftinni að undanskildu því að ég lét afa safna skotti neðst í hnakkanum. Afi vissi aldrei af þessu. Lyftigeta handa hans náði ekki til hnakkans.
Klippingin vakti undrun og kátínu hvert sem afi fór. Foreldrar mínir stóðu í þeirri trú að afa þætti þetta flott. Sennilega laug ég því í þau. Einhverra hluta vegna nefndi enginn þetta við afa. Mér er minnisstætt er mágkona pabba tók mömmu afsíðis og spurði hvaða uppátæki þetta væri hjá afa að vera með skott. Þær voru sammála um að þetta væri furðulegt uppátæki hjá tengdapabba þeirra en svo sem ekkert furðulegra en margt annað í hans fari.
Svo skemmtilega vildi til að um og uppúr 1980 komst svona skott í tísku. Bæði hérlendis og erlendis. Afi var fyrstur. Hann var frumkvöðullinn.
Vinir og fjölskylda | Breytt 2.8.2020 kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
5.7.2020 | 04:07
Svínað á Lullu frænku
Mín góða og skemmtilega frænka úr Skagafirðinum, Lulla, var ekki alveg eins og fólk er flest. Oft var erfitt að átta sig á því hvernig hún hugsaði. Viðbrögð hennar við mörgu voru óvænt. Samt jafnan tekin af yfirvegun og rólegheitum. Henni gat þó mislíkað eitt og annað og lá þá ekki á skoðun sinni.
Hún flutti ung til Reykjavíkur. Þar dvaldi hún af og til á geðdeild Borgarspítala og á Kleppi í bland við verndaða vinnustaði. Henni var alla tíð afar hlýtt til Skagafjarðar og Skagfirðinga.
Aksturslag hennar var sérstætt. Sem betur fer fór hún hægt yfir. 1. og 2. gír voru látnir duga. Aðrir bílstjórar áttu erfitt með að aka í takt við hana.
Á áttunda áratugnum var mágur minn farþegi hjá henni. Þá tróðst annar bíll glannalega fram úr henni. Lulla var ósátt og sagði: "Þessi er hættulegur í umferðinni. Hann svínar á manni."
Mágur minn benti henni á að bílnúmerið væri K. Þetta væri skagfirskur ökuníðingur. Lulla svaraði sallaróleg: "Já, sástu hvað hann tók fimlega framúr? Skagfirðingar eru liprir bílstjórar!"
Fleiri sögur af Lullu frænku: HÉR
3.3.2020 | 22:25
Fjölmiðlar ljúga gróflega
Íslenskir fjölmiðlar hafa hamrað á því dögum og vikum saman að coronaveiran - Covid 19 - sé komin til allra Norðurlandanna. Framan af var reyndar hengt við fréttina að Ísland væri undanskilið. Svo kom veiran til Íslands.
Stóra lygin í þessum fréttaflutningi er að veiran hefur ekki borist til Færeyja (í þessum skrifuðu orðum). Hafa Færeyingar þó hvergi dregið af sér að spígspora um Tenerife og Ítalíu.
Ólíklegt er að Færeyingar sleppi við veiruna til frambúðar. Samt. Færeyingar eru heilsubesta þjóð í Evrópu (og kannski í heiminum?). Líka hamingjusamasta þjóð Evrópu (og kannski heims?). Atvinnuþátttaka Færeyinga er sú mesta í Evrópu. Bæði meðal karla og kvenna. 85,4 Færeyinga, 15 ára og eldri, vinna sér til gagns og gamans. Að auki eru Færeyingar frjósamasta þjóð Evrópu. Þannig mætti áfram telja.
Annað en þó þessu skylt. Samkvæmt óstaðfestum fréttum greindist maður í N-Kóreu með veiruna. Hann var skotinn með það sama.
Vinir og fjölskylda | Breytt 4.3.2020 kl. 01:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
27.1.2020 | 00:37
Hvaða Bítlar voru nánastir?
Svarið við spurningunni er ekki augljóst í fljótu bragði. Bítlarnir voru allir afar nánir lengst af. Þeir voru bestu vinir hvers annars. Hnífur gekk ekki á milli þeirra. Þeir heldu hópinn í frítímum; héngu saman öllum tímum. Á hljómleikaferðum - eftir að þeir slógu í gegn - fengu þeir sitthvert hótelherbergið en söfnuðust alltaf saman í eitthvert eitt herbergið. Þar var mikið grínast og mikið hlegið.
1957 hélt þáverandi hljómsveit Johns Lennons, The Quarrymen, hljómleika í Liverpool. Hann var 16 ára. Paul McCartney var nýorðinn 15 ára. Hann heilsaði upp á John og spilaði fyrir hann nokkur lög. John hreifst af og bauð honum í hljómsveitina.
Þeir smullu saman; urðu samloka. Hófu þegar að semja saman lög og texta. Þeir vörðu öllum tímum saman. Ýmist við að semja eða til að hlusta á plötur. Þeir voru mestu aðdáendur og fyrirmynd hvors annars. Áreiðanlega taldi Paul þá vera nánasta. Sennilega John líka.
Áður en Paul gekk í The Quarrymen var besti vinur hans George Harrison. Hann var ári yngri og í sama skóla. Paul suðaði í John um að fá George í hljómsveitina. Lengi vel án árangurs. George fékk þó að djamma af og til með. Þeir John kynntust, urðu miklir mátar og hann var fullráðinn í hljómsveitina vorið 1958.
Innkoma Pauls og George kallaði á mannabreytingar. 1962 gekk Ringo Starr í hljómsveitina. Þá hét hún The Beatles.
Ringo yfirgaf vinsælustu þáverandi hljómsveit Liverpool er hann gekk til liðs við Bítlana. Þetta var áður en þeir urðu þekktir og vinsælir. Ringó elskaði að umgangast þá og þeir elskuðu glaðværð hans, húmor og trommuleik.
Af Bítlunum áttu John og Paul mest saman að sælda. Þeir sömdu og sungu söngvana, útsettu tónlistina og réðu ferðinni. Paul er stjórnsamur, ofvirkur og óþolinmóður. Það pirraði George og Ringo er á leið og stjórnsemi Pauls óx. Hann vildi semja gítarsóló George og átti til að spila sjálfur á trommurnar. 1968 gekk Ringo á fund Johns og tilkynnti uppsögn. Hann upplifði sig utanveltu. Það tók John tvær vikur að dekstra hann aftur í bandið.
Vinátta getur birst í örfínum smáatriðum. Á myndum standa Bítlarnir jafnan þétt saman. Iðulega snertast þeir með höndunum. Þeir eru svo miklir og nánir vinir að þeir gefa hver öðrum ekki persónulegt rými. Persónulega rýmið nær aðeins yfir hljómsveitina í heild. Algengast er að John og George séu hlið við hlið. Svo sem undantekningar þar á. En við bætist að þegar Bítlarnir ferðuðust þá sátu John og George alltaf saman, hvort sem var í flugvél, lest eða bíl. Er Bítlarnir gistu í 2ja manna hótelherbergjum þá deildu John og George alltaf saman herbergi. Eftir að Bítlarnir hættu voru John og George í mestum samskiptum. Meðal annars spilaði George á plötu Lennons Imagine. Hann lýsti yfir löngun til að þeir John myndu stofna nýja hljómsveit og svo framvegis.
Vinir og fjölskylda | Breytt 10.10.2020 kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.11.2019 | 00:01
Skammir
Ég var staddur í matvöruverslun. Þar var kona að skamma ungan dreng, á að giska fimm eða sex ára. Ég hlustaði ekki á skammirnar og veit ekki út á hvað þær gengu. Þó heyrði ég að konan lauk skömmunum með því að hreyta í drenginn: "Þú hlustar aldrei á mig!"
Hún gat ekki varist hlátri - fremur en viðstaddir - þegar strákurinn svaraði hátt, snjallt og reiðilega: "Stundum finnst mér nú eins og ég hlusti of mikið á þig!"
24.10.2019 | 07:32
Dularfullt í Ikea
Ég átti erindi í Ikea. Eða réttara sagt gerði ég mér upp erindi þangað. Ég átti leið um Hafnarfjörð og fékk þá snilldar hugmynd í kollinn að koma við í Ikea og kíkja á veitingastaðinn á annarri hæð. Ég tek fram og undirstrika að ég hef engin tengsl við Ikea. Kann hinsvegar vel við verð og vöruúrval fyrirtækisins.
Eftir að hafa keypt veitingar settist ég sæll og glaður niður við borð. Á næsta borði var diskur með ósnertum hangiskanka, meðlæti og óopnaðri Sprite-flösku. Enginn sat við borðið.
Fyrst datt mér í hug að eigandi máltíðarinnar væri að sækja sér bréfaþurrku eða eitthvað annað. En ekkert bólaði á honum. Ekki þær 20 mínútur sem ég dvaldi á staðnum. Þetta er skrýtið. Ég velti fyrir mér möguleikum: Hvort að viðkomandi hafi verið geimvera sem var geisluð upp áður en máltíðin var snædd. Eða hvort að minnisglöp (Alzheimer) hafi komið við sögu. Þriðji möguleikinn er að útlendur ferðamaður hafi keypt matinn. Tilgangurinn hafi ekki verið að borða hann heldur taka ljósmynd af honum til að pósta á Fésbók; sýna vinum og vandamönnum hvernig séríslensk máltíð lítur út. Hlutverk gosdrykksins hafi þá verið það eitt að sýna stærðarhlutföll. Eða hvað?
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
24.7.2019 | 23:44
Smásaga um kærustupar
Unga kærustuparið gat ekki verið ástfangnara og hamingjusamara. Það var nýflutt inn í litla leiguíbúð. Sambúðin var ævintýri upp á hvern dag. Í innkaupaferð í matvöruverslun rákust þau á gamla skólasystur konunnar. Þær þekktust samt aldrei mikið. Skólasystirin fagnaði þó samfundinum eins og þær hafi alla tíð verið æskuvinkonur. Knúsaði konuna í bak og fyrir. Spurði frétta og sagði frá sjálfri sér. Hún flutti til Frakklands en var þarna stödd á Íslandi í örfáa daga. Vandamálið var að hún hafði ekki áttað sig á hvað gistimarkaðurinn á Íslandi er verðbólginn. Kostnaðurinn var að slátra fjárhag hennar.
"Er smuga að ég fái að gista hjá ykkur í örfáa daga?" spurði hún. "Þess vegna í svefnpoka á eldhúsgólfinu eða eitthvað? Það myndi gjörsamlega bjarga fjárhagnum."
Unga parið var tvístígandi. Konan spurði kærastann hvort hann myndi sætta sig við að hún gisti í stofusófanum í nokkra daga. Hann sagði að það muni ekki "bögga" sig. Eflaust yrði gaman fyrir þær dömurnar að rifja upp gamla skóladaga.
Nokkrum dögum síðar fékk kærastan slæmt kvef. Hún hóstaði heilu og hálfu næturnar. Kallinn missti svefn og varð eins og uppvakningur í vinnunni. Á þriðja degi sagði hann við kærustuna: "Ég get ekki verið svefnlaus í marga daga til viðbótar. Ég neyðist til að biðja þig um að sofa í stofunni þangað til kvefið er gengið yfir."
Hún hafði fullan skilning á því. Vandamálið var hinsvegar að stofusófinn var eiginlega of lítill fyrir skólasysturnar að deila honum. Um morguninn tilkynnir skólasystirin að hóstinn hafi haldið fyrir henni vöku. "Ég verð að fá að sofa í svefnherberginu," sagði hún. "Hjónarúmið er alveg nógu breitt til að deila því með kærastanum þínum án vandræða."
Þetta var samþykkt. Hóstinn varð þrálátur. Um síðir hjaðnaði hann. Kærastan vildi eðlilega endurheimta sitt pláss í hjónarúminu. Skólasystirin hafnaði því. Sagðist vera ólétt. Barnið væri getið í þessu rúmi. Foreldrarnir væru sammála um að ala það upp í sameiningu sem par.
Kærustunni var brugðið við að vera óvænt x-kærasta (fyrrverandi). Hún lét þó ekki á neinu bera. Sagði: "Ég styð það."
Skólasystirin varð hægt og bítandi stjórnsöm. Hún fór að gefa x-inu fyrirmæli: Það þurfi að strjúka af gólfunum; nú þurfi að þurrka af. X-ið sá um eldamennsku eins og áður. Um helgar fékk hún fyrirmæli um bakstur: Pönnukökur, vöfflur, ástarpunga og svo framvegis.
Ef gest bar að garði fékk hún fyrirmæli: "Skottastu út í búð eftir gosi og kökum."
Þegar barnið fæddist fékk hún nóg að gera: Bleyjuskipti, böðun, út að ganga með barnavagninn. Allan tímann vann hún sem kassadama í matvöruverslun. Fjármál heimilisins voru sameiginleg. Heimilisfaðirinn var með ágætar tekjur sem starfsmaður í álverinu í Straumsvik. Skólasystirin vann aldrei úti. Eiginlega ekki inni heldur ef frá er talið að hún var dugleg við að vakta sjónvarpið. Hún fékk einn daginn hugmynd um að heimilið vantaði meiri innkomu. Þá skráði hún x-ið í útburð á dagblöðum á morgnana. Benti á að það væri holl og góð hreyfing sem bónus ofan á launin. Sem er alveg rétt.
Vinir og fjölskylda | Breytt 25.7.2019 kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)