Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
16.7.2023 | 13:52
Skipti um andlit og fann ástina
2018 sat Joe DiMeo í bíl í New Jersey í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þetta var ungur og hraustur drengur, 24 ára. Þá lenti hann í hroðalegu bílslysi. Á augabragði breyttist bíllinn í skíðlogandi eldhaf. Joe brenndist illa. 80% líkamans hlaut 3ja stigs bruna. Andlitið varð ein klessa og læknar þurftu að fjarlægja nokkra fingur.
Læknar reyndu hvað þeir gátu að lagfæra andlitið. Þeir sóttu húð, bandvefi og fleira en varð lítið ágengt í 20 tíma aðgerð. Nokkrum árum síðar var afráðið að taka andlit af nýdánum manni og græða á Joe. 140 manns tóku þátt í 23ja tíma aðgerð. Þetta voru skurðlæknar, hjúkrunarfræðingar og allskonar.
Aðgerðin tókst eins og bjartsýnustu menn þorðu að vona. Að vísu er nýja andlitið of stórt og af 48 ára manni. Joe þykir þetta skrýtið. En það venst. Mestu skiptir að vera kominn með andlit.
32 ára hjúkrunarfræðingur í Kaliforniu, Jessy Koby, frétti af aðgerðinni. Starfandi á sjúkrahúsi heillaðist hún af uppátækinu. Til að fá nánari vitneskju af þessu setti hún sig í samband við Joe. Eftir því sem þau kynntust betur kviknuð tilfinningar í garð hvors annars.
Nú er hún flutt inn til hans og ástin blómstrar.
Vinir og fjölskylda | Breytt 17.7.2023 kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.5.2023 | 14:07
Dvergur étinn í ógáti
Þetta gerðist í Norður-Taílandi. Dvergur var með skemmtiatriði í sirkuss. Hann sýndi magnaðar listir sínar á trampólíni. Eitt sinn lenti hann skakkt á trampólíninu úr mikilli hæð. Hann þeyttist langt út í vatn. Næsta atriði á dagskrá var að flóðhestur í vatninu átti að kokgleypa melónu sem var kastað til hans úr töluverðri fjarlægð. Við skvampið frá dvergnum ruglaðist flóðhesturinn í ríminu. Hann gleypti dverginn undir dynjandi lófaklappi 2000 áhorfenda. Þeir héldu að þetta væri hápunktur skemmtunarinnar.
30.4.2023 | 16:33
Fólkið sem reddar sér
Fjórar fjölskyldur í Essex á Englandi urðu heimilislausar eftir að íbúðir þeirra brunnu til kaldra kola. Þetta atvikaðist þannig að húsbóndinn á einu heimilinu tók eftir því að útimálningin var farin að flagna af. Honum hraus hugur við að þurfa að eyða sólríkum degi í að skafa málninguna af. Til að spara sér puð brá hann á ráð: Hann úðaði bensíni yfir húsið og kveikti í. Málningin fuðraði upp eins og dögg fyrir sólu. Líka húsið og nálæg hús.
Orkuboltinum Christina Lamb í Cornwall á Englandi datt í hug að reisa verönd við hús sitt. Hún hófst þegar handa við að grafa grunn. Í ákafa tókst henni að höggva í sundur gasleiðslu bæjarins sem stóð eftir í ljósum loga.
Mike Howel í Bristol á Englandi var ekkert að æsa sig yfir því að festa fingur í smíðabekk sínum. Fingurinn var pikkfastur. En hann var svo sem ekki að fara neitt. Mike hafði fátt betra að gera þann daginnn en rölta með fingurinn og smíðabekkinn 3ja kílómetraleið á sjúkrahús. Það tók aðeins 8 klukkutíma. Hefði tekið styttri tíma ef vegfarendur hefðu ekki stöðugt verið að stoppa og spyrja út í dæmið.
Vinir og fjölskylda | Breytt 3.5.2023 kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
23.4.2023 | 13:18
Smásaga um trekant sem endaði með ósköpum
Jonni átti sér draum. Hann var um trekant með tveimur konum. Þegar hann fékk sér í glas impraði hann á draumnum við konu sína. Hún tók því illa.
Árin liðu. Kunninginn færði þetta æ sjaldnar í tal. Börnin uxu úr grasi og fluttu að heiman. Hjónin minnkuðu við sig. Keyptu snotra íbúð í tvíbýlishúsi. Í hinni íbúðinni bjuggu hjón á svipuðum aldri. Góður vinskapur tókst með þeim. Samgangur varð mikill. Hópurinn eldaði saman um helgar, horfði saman á sjónvarp, fór saman í leikhús, á dansleiki og til Tenerife.
Einn daginn veiktist hinn maðurinn. Hann lagðist inn á sjúkrahús. Á laugardagskvöldi grillaði Jonni fyrir þau sem heima sátu. Grillmatnum var skolað niður með rauðvíni. Eftir matinn var skipt yfir í sterkara áfengi. Er leið á kvöldið urðu tök á drykkjunni losaralegri. Fólkið varð blindfullt.
Þegar svefndrungi færðist yfir bankaði gamli draumurinn upp hjá Jonna. Leikar fóru þannig að draumurinn rættist loks. Morguninn eftir vaknaði kappinn illa timbraður. Konurnar var hvergi að sjá. Sunnudagurinn leið án þess að málið skýrðist. Á mánudeginum hringdi frúin loks í mann sinn. Tjáði honum að þær vinkonurnar hefðu uppgötvað nýja hlið á sér. Þær ætluðu að taka saman. Sem þær gerðu. Eftir situr aleinn og niðurbrotinn maður. Hann bölvar því að draumurinn hafi ræst.
Vinir og fjölskylda | Breytt 24.4.2023 kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.1.2023 | 11:33
Sjaldan launar kálfur ofeldi.
Ég þekki konu eina. Við erum málkunnug. Þegar ég rekst á hana tökum við spjall saman. Hún er fátæk einstæð móðir 23ja ára manns. Þrátt fyrir aldurinn býr hann enn heima hjá henni. Hann er dekurbarn. Konan er í vandræðum með að ná endum saman um hver mánaðarmót. Eini lúxus hennar er að reka gamla bíldruslu. Það er eiginlega í neyð. Hún á erfitt með gang vegna astma og fótfúa. Hún kemst ekki í búð án bílsins.
Núna um helgina varð hún á vegi mínum. Hún sagði farir sínar ekki sléttar. Kvöldið áður bað sonurinn um að fá bílinn lánaðan. Honum var boðið í partý. Konan tók vel í það. Sjálf þurfti hún að fara einhverra erinda út í bæ. Það passaði að sonurinn skutlaði henni þangað í leiðinni.
Er hún var komin á leiðarenda tilkynnti hún syninum að hann þyrfti að sækja sig um klukkan 11.
- Ekki séns, svaraði kauði.
- Hvað átt þú við? Ég þarf að komast heim, útskýrði konan.
- Ég er að fara í partý. Það verður nóg að drekka. En það verður enginn ölvunarakstur.
- Ég er að lána þér bílinn minn. Þú skalt gjöra svo vel og sjá mér fyrir fari heim.
- Þú verður að redda þér sjálf.
- Hvernig á ég að redda mér fari? Ég get hvorki tekið strætó né gengið heim.
- Hefur þú aldrei heyrt talað um taxa? hrópaði sonurinn um leið og hann reykspólaði burt.
Vinir og fjölskylda | Breytt 14.1.2023 kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
24.12.2022 | 12:44
Rökföst
Í gær ræddi ég við unga stúlku um jólin.
- Hvað verður í matinn hjá ykkur á aðfangadag? spurði ég.
- Það er alltaf tvíréttað; lamb og svín, svaraði hún.
- En á jóladag?
- Ég veit það ekki. Enda er það ekkert merkilegur dagur!
- Jú, jóladagurinn er eiginlega skilgreindur sem aðal jóladagurinn.
- Í útlöndum, já. Á Íslandi er aðfangadagur aðal jóladagurinn. Þá bjóðum við hvert öðru gleðileg jól; þá er mesta veislan og við opnum jólapakkana, lesum á jólakort og leikum okkur.
- Það er rétt hjá þér að þetta er misvísandi. En orðið aðfangadagur þýðir að þetta sé dagurinn fyrir jóladag; aðdragandi jóla.
- Hvers vegna heldur þú að í súkkulaðijóladagatalinu sé síðasti dagurinn 24. des? 25. des er ekki einu sinni í dagatalinu.
Ég var mát!
![]() |
Jólunum er aflýst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt 29.12.2022 kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.12.2022 | 23:58
Óvinafagnaður
Ég var gestkomandi úti í bæ. Þar hittust einnig tvær háaldraðar systur. Þær höfðu ekki hist í langan tíma. Það urðu því fagnaðarfundir. Þær höfðu frá mörgu að segja. Þar á meðal barst tal að frænku þeirra á svipuðum aldri. Þær báru henni illa söguna. Fundu henni allt til foráttu. Sögðu hana vera mestu frekju í heimi, samansaumaðan nirfil, lúmska, snobbaða, sjálfselska, ósmekklega, ófríða, vinalausa, drepleiðinlega kjaftatík...
Systurnar fóru nánast í keppni um að rifja upp og segja af henni krassandi sögur. Í æðibunuganginum hrökk upp úr annarri: "Það er nokkuð langt síðan ég hef heyrt frá henni."
Hin tók undir það og bætti við: "Eigum við ekki að kíkja snöggvast til hennar?"
Það gerðu þær.
Vinir og fjölskylda | Breytt 19.12.2022 kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
5.11.2022 | 20:51
Snúður og kjulli
Börn, unglingar og fullorðnir hafa verulega ólík viðhorf til veislumatar. Þegar ég fermdist - nálægt miðri síðustu öld - bauð mamma mér að velja hvaða veislubrauð yrði á boðstólum í fermingarveislunni. Ég nefndi snúða með súkkulaðiglassúr. Mamma mótmælti. Eða svona. Það var kurr í henni. Hún sagði snúða ekki vera veislubrauð. Svo taldi hún upp einhverja aðra kosti; tertur af ýmsu tagi og einhverjar kökur. Ég bakkaði ekki. Sagði að snúður væri mitt uppáhald. Mig langaði ekki í neitt annað.
Leikar fóru þannig að mamma bakaði eitthvað að eigin vali. Fyrir framan mig lagði hún hrúgu af snúðum úr bakaríi. Ég gerði þeim góð skil og var alsæll. Í dag þykir mér snúðar ómerkilegir og ólystugir. Ég hef ekki bragðað þá í áratugi.
Þetta rifjaðist upp þegar ég spjallaði í dag í síma við unglingsstelpu. Hún á afmæli. Hún sagði mér frá afmælisgjöfum og hvernig dagskrá væri á afmælisdeginum. Nefndi að um kvöldið yrði farið út að borða veislumat. "Hvar?" spurði ég, Svarið: "KFC".
Vinir og fjölskylda | Breytt 6.11.2022 kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.10.2022 | 00:02
Skemmtileg bók
- Titill: Glaðlega leikur skugginn í sólskininu
- Höfundur: Steinn Kárason
Sögusviðið er Skagafjörður á sjöunda áratugnum. Segir þar frá ungum dreng - 10 - 11 ára - á Sauðárkróki. Bakgrunnurinn er sjórinn, sjómennska og sveitin í þroskasögunni. Inn í hana blandast kaldastríðið, Kúbudeilan og Bítlarnir. Steinn kemur andrúmslofti þessara ára vel til skila.
Ég ætla að stór hluti sögunnar byggi á raunverulegri upplifun höfundar. Ég kannast við suma atburði sem sagt er frá. Ég var barn í Skagafirði á þessum tíma. Fyrir bragðið var sérlega gaman fyrir mig að rifja upp bernskubrekin. Bókin er þar fyrir utan líka skemmtileg og fróðleg fyrir fólk sem veit ekki einu sinni hvar Skagafjörður er. Mörg brosleg atvik eru dregin fram. En það skiptast á skin og skúrir. Ógeðfelldir atburðir henda sem og mannlegur breyskleiki í ýmsum myndum.
Þetta er stór og mikil bók. Hún spannar 238 blaðsíður. Káputeikning Hlífar Unu Bárudóttur er flott.
Steinn Kárason er þekktur fyrir fræðibækur, blaðagreinar, tónlist og dagskrárgerð í ljósvakamiðlum.
7.8.2022 | 04:13
Buxnalaus
Fyrir nokkrum árum bjó ég í Ármúla 5. Það var góð staðsetning. Múlakaffi á neðstu hæð og hverfispöbbinn í Ármúla 7. Hann hét því einkennilega nafni Wall Street. Skýringin var sú að í götunni voru mörg fjármálafyrirtæki. Fyrir daga bankahrunsins, vel að merkja. Áður hét staðurinn Jensen. Síðar var hann kenndur við rússneska kafbátaskýlið Pentagon. Það var ennþá undarlegra nafn.
Þetta var vinalegur staður. Ekki síst vegna frábærra eigenda og starfsfólks. En líka vegna þess að staðurinn var lítill og flestir þekktust. Ekki endilega í fyrsta skipti sem þeir mættu á barinn. Hinsvegar sátu allir við borð hjá öllum og voru fljótir að kynnast.
Eitt kvöldið brá svo við að inn gekk ókunnugur maður. Það var sláttur á honum. Hann var flottari en flestir; klæddur glæsilegum jakka, hvítri skyrtu með gullslegnum ermahnöppum, rauðu hálsbindi og gylltri bindisnælu. Hann var í dýrum gljáburstuðum spariskóm.
Undrun vakti að hann var á brókinni, skjannahvítri og því áberandi. Hann bað eigandann um krít. Hann gæti sett giftingarhring í pant. Sem var samþykkt en athugasemd gerð við buxnaleysið. Útskýringin var þessi: Honum hafði sinnast við eiginkonu sína. Hún sparkaði honum út. Þá tók hann leigubíl í Ármúlann. Á leiðarenda uppgötvaðist að hann var án peninga og korts. Úr varð að leigubílstjórinn tók buxur hans í pant.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)