Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Líkamsóvirðing

  Sjónvarp Símans er skemmtilegt.  Þar eru endursýndir þættir árum saman þangað til öruggt er að áhorfandinn kunni þá utanað.  Þannig er haldið þétt utan um hlutina. 

  Ein áhugaverðasta þáttaserían heitir Love island.  Hún sýnir mannlegt eðli ungs fólks.  Þættirnir ganga út á það að breskum ungmennum er holað niður í afskekkt hótel á Spáni.  Þar býr það í vellystingum.  Eina kvöðin er að para sig.  Sem er létt verk og löðurmannlegt. 

  Ýmsu er bryddað upp á til að freista.  Við það skapast drama, ótryggð, afbrýðisemi og allskonar breskleiki.  Til að skerpa á hefur þátttakandi möguleika á að eignast 20 milljón kall eða álíka. 

  Strákarnir í hópnum eru hugguleg húðflúruð líkamsræktartröll.  Þeir tala um stelpur á máli boltaleikja.  Þeir tala um að skora.  Koss er fyrsta höfn,  kynlíf önnur höfn og eitthvað svoleiðis.  Öllum þreifingum er fagnað sem sigri.

  Strákarnir eru íklæddir boxer sundskýlum.  Stelpurnar eru íklæddar efnislitlu bikini.  Þær farða sig svo ríflega að þær eru nánast óþekkjanlegar hver frá annarri.  Sítt slétt hár niður á bak er litað ljóst.  Allar eru með gerviaugnhár.  Allt í góðu með það.  Nema að þær eru með þrútnar botox-varir.  Það er ekki flott.  Ég fordæmi það sem vonda fyrirmynd ungra kvenna.  Mér að meinalausu mega konur á elliheimilum þrykkja í ýktar botox-varir.  Það er svo sem ekki margt annað um að vera á elliheimilum.  Ef frá er talin harmónikkumúsík.    

varir avarir b       

          


Afi hótar bónda - framhald

  Hvort bróðir minn braut rúðuna i skólanum er óvíst.  Aldrei hefur fengist úr því skorið.  Hann hélt fram sakleysi sínu.  Og gerir enn.  Þó er eins og hann verði pínulítið skömmustulegur á svipinn þegar þetta ber á góma.  Bróðir húsbóndans hélt því fram að hann hafi séð bróðir minn brjóta rúðuna. 

  Afi trúði engu upp á sonarson sinn.  Hann sór þess eið að ná fram hefndum.  Tækifærið kom næst er hann fékk far með mjólkurbílnum að skólanum. Ekki var von á skólabílnum á allra næstu mínútum.  Bóndinn bauð afa í kaffi.  Á borð voru bornar kökur og tertur af ýmsu tagi.  Segja má að afa hafi verið haldin veisla.  

  Afi sat gegnt bóndanum við eldhúsborðið.  Þeir spjölluðu um heima og geima.  Virtist fara vel á með þeim;  uns bóndinn spurði:  "Hvað er Mundi með margar ær í hverri kró í vetur?"

  Afi brá við skjótt.  Eldsnöggt teygði hann sig yfir borðið.  Lætin voru svo mikil að gusaðist úr kaffibollanum hans.  Hann lagði krepptan hnefa að kinn bóndans.  Hann kýldi ekki.  Lagði bara hnefann að kinn,  skók hann og hrópaði reiðilega:  "Sonur minn heitir Guðmundur.  Ekki Mundi!"

  Bóndanum dauðbrá.  Hann hikstaði og stamaði:  "Já,  ég hérna...já, meina Guðmundur."

  Afi róaðist þegar í stað og fékk sér síðasta kaffisopann um leið og hann svaraði sallarólegur:  "Það eru ýmist 20 eða 21."

  Næstu daga hældi afi sér aftur og aftur fyrir að hafa hrellt bóndann svo rækilega að hann myndi dreyma martraðir næstu nætur.

  


Afi hótar bónda

  Afi var mikill flakkari.  Alveg til dauðadags. Hann lét gönguerfiðleika ekki aftra sér.  Vegna brjóskeyðingar í mjöðmum var hann skakkur og skældur;  gat ekki rétt úr sér og staulaðist áfram með tvo stafi.  Hann var seigur að snapa far,  hvort heldur sem var til og frá Sauðárkróki,  Svarfaðardal,  Reykjavík eða eitthvert annað.   

  Þegar ég var 7 eða 8 ára var ég í fámennum barnaskóla í Hjaltadal.  Skólastofan var rúmgóð stofa á bóndabæ.  Það hentaði afa.  Hann fékk far með mjólkurbílnum frá Sauðárkróki til skólans.  Þaðan fékk hann far með skólabílnum heim í Hrafnhól.  Þar bjuggum við.

  Eitt sinn í lok skóladags stóðum við krakkarnir og afi úti á hlaði og biðum eftir bílnum. Skyndilega birtist bóndinn á bænum,  gekk að eldri bróður mínum og sakaði hann um að hafa brotið rúðu.  Strákur neitaði sök.  Bóndinn greip um hálsmál hans,  felldi hann á bakið,  settist yfir honum með hnefa á lofti.  Hótaði að berja úr honum játningu.  Afi brá við skjótt;  hóf annan staf sinn á loft og hrópaði:  "Slepptu drengnum eða ég læt stafinn vaða af fullu afli í hausinn á þér!"

  Bóndanum brá.  Hann þaut eins og eldibrandur inn í hús.  Lengi á eftir hældi afi sér af því við hvern sem heyra vildi hvað bóndinn varð hræddur við hann.  Bætti svo við:  "Verst hvað kvikindið var snöggt að flýja.  Ég hefði vilja dúndra í hausinn á honum!

 


Smásaga um fót

  Bænastund er að hefjast.  Bænahringurinn raðar sér í kringum stóra bænaborðið.  Óvænt haltrar ókunnugur gestur inn á gólf.  "Ég er með mislanga fætur," segir hann.  "Getið þið beðið fyrir kraftaverki um að þeir verði jafn langir?"

  "Ekki málið," svarar forstöðumaðurinn. "Leggstu á bakið hér ofan á borðið.  Við græjum þetta."

Sá halti hlýðir.  Forstöðumaðurinn leiðir bæn. Svo sprettur hann á fætur og grípur um fót gestsins,  hristir hann kröftuglega og hrópar:  "Í Jesú-nafni skipa ég þér fótur að lengjast!"

  Þetta endurtekur hann nokkrum sinnum.  Að lokum hrópar hann sigri hrósandi:  "Ég fann fótinn lengjast!  Þú ert heill, félagi."

  Hann hjálpar gestinum að renna sér niður af borðinu.  Þar fellur hann í gólfið en bröltir á fætur og fellur jafnharðan aftur í gólfið.  Það fýkur í hann.  Hann hrópar:  "Helvítis fúskarar!  Þið lengduð vitlausan fót!"

  Forstöðumaðurinn reiðist líka.  Hann hvæsir:  "Það má ekki á milli sjá hvor fóturinn er vitlausari.  Báðir snarvitlausir!"

  Hann grípur um axlir gestsins og dregur hann að útidyrunum.  Gesturinn er á fjórum fótum og spyrnir við.  Hann minnir á kind í réttum sem þráast við að vera dregin í dilk. 

  Forstöðumaðurinn nær að henda honum út á hlað.  Þar sparkar hann kröftulega í rassinn og hrópar:  "Þakkirnar fyrir hjálp okkar eru ekkert nema vanþakklæti.  Nú er munurinn á fótunum sá sami og þykkt gangstéttarhellu.  Þú getur ólað hana á þig og gengið óhaltur."

  Gesturinn fylgir ráðinu.  Það reynist heillaráð. 

 


Afi forvitinn

  Við vorum í jólaboði hjá nágrönnum og ættingjum.  Með í boðinu var sameiginlegur heimilisvinur,  ungur maður.  Afi kom öllum á óvart með tíðindi er hann spurði unga manninn:  "Er það rétt sem ég hef hlerað að þú sért tekinn upp á því að gera hosur þínar grænar fyrir Hönnu?"

  Unga manninum var brugðið.  Hann eldroðnaði og tautaði hikstandi og stamandi:  "Það er kannski eitthvað verið að slúðra um það."

  Þetta var greinilega viðkvæmt feimnismál.  Til að hressa hann við, sýna honum stuðning og hughreysta bætti afi við:  "Assgoti var það lipurt hjá Ella að hnoða í hana barn.  Þar með sannaði hann fyrir þér að hún er ekki óbyrja!

 


Skemmtilegt námsefni

  Þetta eru skrýtnir tímar.  Við erum flestöll í sjálfskipaðri sóttkví.  Eða forðumst að minnsta kosti margmenni og óþarfa heimsóknir og ráp.  Þetta er einkar erfitt ástand fyrir börn.  Þá er gott að vita af kennslubókunum Lærum saman.  Þær eru fjórar saman í handhægri öskju ásamt spennandi verkefnabók, fjórum spilastokkum og lykilorði að hljóðbókum með öllum sögunum og níu myndböndum.

  Verkefnabókin inniheldur æfingar og fylgigögn; föndur, leiki og spil. 

  Pakkinn er miðaður við aldurshópinn 5 - 8 ára.  Sögubækurnar segja frá systkinum sem eru einmitt 5 - 8 ára.  Þau fást við ýmislegt áhugavert sem býr þau undir skólagönguna sem framundir er.  Uppskriftin er þannig að hún veki löngun og áhuga barna á að læra meira.

  Bækurnar eru ríkulega myndskreyttar af Brimrúnu Birtu Friðþjófsdóttur.  Höfundur efnisins er Kristín Arnardóttir.

  Nánar um þetta á www.laerumsaman.is 

Laerum_saman_pakki  


Bíll Önnu frænku á Hesteyri

  Góður frændi okkar Önnu Mörtu heitinnar á Hesteyri í Mjóafirði gaf henni bílpróf og bíl.  Þetta var á níunda áratugnum og Anna á sextugsaldri.  Bílprófið yrði hún að taka í Reykjavík.  Á ýmsu gekk.  Í sjálfu bilprófinu festist hún inni í hringtorgi.  Prófdómarinn sagðist ekki geta hleypt henni út í umferð þegar tæki hana 7 hringi að komast út úr hringtorgi.

  Anna var snögg að semja við hann.  Á Austfjörðum sé ekkert hringtorg.  Hún muni skuldbinda sig til að aka aldrei út fyrir Austfirði.  Þar með verði hringtorg ekkert flækjustig.  Eftir langar samningaviðræður keypti prófdómarinn rök Önnu.  Hún stóð við sitt. 

  Er hún var komin með bílpróf hringdi hún í mömmu.  Mamma hvatti hana til að heimsækja sig á Akureyri.  Anna spurði:  "Er hringtorg á Akureyri?"  Þegar mamma játaði því upplýsti Anna um heiðursmannasamkomulagið.

  Anna ók bílnum eins og dráttarvél.  Hún hélt sig við fyrstu tvo gírana.  Ók óvarlega yfir stokka og steina.  Að því kom að bíllinn pikkfestist í á.  Hún sagði mömmu tíðindin;  að bíllinn væri búinn að vera.  Mamma spurði hvort hann væri ekki bara fastur ofan á steini og mögulegt væri að draga hann af steininum.  Anna hafnaði því.  Sagðist oft hafa ekið bílnum yfir miklu stærri grjót.  Þetta væri alvarlegra.  Bíllinn væri dauður.  "Bílar endast ekki í mörg ár," útskýrði hún skilningsrík. 

  Anna sagði Gauja frænda okkar frá dauða bílsins.  Hún sagði:  "Hann er svo fastur að ég prófaði meira að segja að setja hann í kraftgírinn.  Samt haggaðist hann ekki."  Gauji frændi hefur í hálfa öld unnið með vélar af öllu tagi og átt marga bíla.  Hann veit ekki ennþá hvað kraftgír er.  Því síður ég. 

 

 


Afi landsfrægur til áratuga

  Afi var heljarmenni;  nautsterkur og fylginn sér.  Skapið hljóp iðalega með hann í gönur. Hann var varla kominn á unglingsár þegar hann var farinn að slást við fullorðna menn.  Þeir lömdu hann.  Pabbi hans brá á það ráð að koma honum til náms í hnefaleikum.  Eftir að hafa sótt tvo tíma gekk kennarinn á fund föðurins;  tjáði honum að ekki væri hægt að kenna afa.  Hann kynni ekki að taka leiðsögn.  Þegar taka ætti létta æfingu þá missti afi ætið stjórn á skapi sínu og færi að slást eins og upp á líf og dauða. 

  Eljan í afa dugði vel til bústarfa.  Hann breytti stórgrýttum melum í grösug tún.  Hann greip ótal misstórra steina í fangið og henti þeim út fyrir túnstæðið.  Sumum svo stórum að undrun sætir að hægt hafi verið að bifa þeim.  Þetta þótti svo mikið afrek að Kristján 10. Danakonungur verðlaunaði afa fyrir ótrúlegar jarðumbætur.  Verðlaunin voru fjármunir sem hjálpuðu afa að reisa glæsilegt íbúðarhús með samfastri hlöðu, fjósi og haughúsi 1937.  Það var fyrsta steinhúsið í Hjaltadal. 

  Þremur áratugum síðar bankaði farandsölumaður á dyr.  Hann var að selja stóla.  Mamma keypti af honum skrifstofustól og bauð honum í kaffi.  Í eldhúsinu sat afi.  Þeir sölumaðurinn kynntu sig með nafni.  Við að heyra nafn afa sagði sölumaðurinn:  "Stefán Guðmundsson á Hrafnhóli.  Þetta hljómar kunnuglegt.  Ég hef heyrt þetta nafn áður."

  Afi svaraði:  "Það er nú líkast til.  Það var sagt frá því í útvarpinu er ég fékk peningaverðlaun frá Kristjáni 10. Danakonungi."

kristján 10.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kristján 10.

Hrafnhóll

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hrafnhóll


Afmælisveisla aldarinnar

  Guddi ákvað að halda upp á sjötugsafmæli sitt með stæl.  Hann talaði um það sem afmælisveislu aldarinnar.  Hann bauð sínum bestu vinum.  Þeir voru foreldrar mínir og hjónin á Hólkoti í Unadal í Skagafirði.  Fleiri yrðu ekki í veislunni.  Þeir myndu bara flækjast fyrir.  Veislan yrði á Hótel Mælifelli á Sauðárkróki.  Ekkert til sparað:  Dýrustu forréttir,  dýrustu aðalréttir,  dýrustu desertar,  dýrasta koníakið,  dýrustu vindlarnir.   

  Guddi stóð við sitt og stýrði veisluhöldum með glæsibrag. Eftir desertinn pantaði Guddi dýrustu vindla á línuna.  Gestirnir afþökkuðu vindlana.  Hann fékk sér hinsvegar rándýran vindil.  Þjónninn benti honum á að bannað væri að reykja vindil inni.  Guddi sýndi því skilning.  Sagðist bara bregða sér út og reykja vindilinn þar.  Sem hann og gerði.  Nema hann skilaði sér ekki aftur inn.  

  Þegar ekkert bólaði á Gudda í langan tíma tóku gestir að ókyrrast.  Að lokum fór pabbi út að leita að honum.   Þar var enginn Guddi. 

  Sem betur fer voru gestirnir með ávísanahefti og gátu gert upp við Mælifell.  Annað hefði orðið vandræðalegt. 

  Næstu misseri varð Gudda tíðrætt um veislu aldarinnar.  Sagði hverjum sem heyra vildi frá henni.  Ekki síst þótti honum gaman að rifja upp við gestina og spyrja hvort að þetta hafi ekki verið veisla aldarinnar.  Mamma spurði hvers vegna hann hafi stungið af úr veislunni.  Guddi svaraði:  "Veislan var búin og þá fóru náttúrulega allir heim til sin." 

veisla  

  

    


Kenning Gudda

  Guddi keðjureykti.  Sennilega áttu reykingarnar einhvern þátt í miklum hóstaköstum sem hann fékk í tíma og ótíma.  Oftar í ótíma.

  Guddi slóst í hóp með systkinum mínum er þau skelltu sér á dansleik í Varmahlíð.  Er dansleik lauk sýndu gestir á sér fararsnið.  Þar á meðal Guddi og systkinin.  Líka piltur sem sýndi systir minni áhuga.  Gudda þótti hann full ágengur.  Hann snöggreiddist,  greip þéttingsfast um hálsmálið á kauða og reiddi hnefann til höggs.  Í sama mund fékk hann langt og heiftarlegt hóstakast.  Hnefinn lak niður.  En Guddi sleppti ekki takinu á hálsmálinu.  Né heldur rauf hann augnsambandið.  Hann starði heiftúðlegum augum á drenginn á meðan hann hann hóstaði og hóstaði.  Gaurinn sýndi engin viðbrögð.  Starði bara í forundran á Gudda.  Hann var töluvert stærri og kraftalegri en Guddi.  

  Er hóstakastinu linnti var Guddi búinn á því.  Hann sleppti takinu og bað systkinin um eitthvað að drekka.  Hann yrði að væta kverkarnar eftir svona hóstakast.

  Guddi var alltaf eldfljótur til svars.  Hann, ég og pabbi vorum að stinga út úr fjárhúsum.  Guddi lét reykingar sinar ekki trufla vinnuna.  Hann hélt sígarettum á milli vara og hafði hendur lausar til athafna. 

  Bróðir minn,  4ra eða 5 ára,  spurði Gudda:  "Af hverju reykir þú svona mikið?"

  Guddi svaraði þegar í stað:  "Þeir sem vinna mikið þurfa að reykja mikið!"

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband