Færsluflokkur: Vefurinn
22.7.2024 | 08:39
Staðin að verki!
Meðfylgjandi mynd tók 22ja ára ensk stelpa er hún greip kærastann og móður sína glóðvolg í bólinu. Stelpan og strákurinn höfðu verið par í 10 mánuði. Hún var barþjónn. Af ótilgreindum ástæðum féll vakt hennar óvænt niður að hálfu eitt kvöldið. Hún ákvað að nota fríið til að heimsækja móðir sína.
Er hún gekk inn í íbúð mömmunnar blöstu skór kærastans við. Frá efri hæðinni barst músík og ástarbrími. Það fauk í hana. Hún læddist upp og smellti ljósmynd af því sem mætti henni. Myndina setti hún á Facebook. Hún fór eins og stormsveipur um netheima og bresku götublöðin.
Sumum þótti myndbirtingin ósmekkleg refsing. Stelpan spurði: "Er hún ósmekklegri en að vera svikin af kærastanum og móður?"
Mamman kenndi stráksa um allt. Hann hafi platað hana með fagurgala og herðanuddi á meðan hún vaskaði upp. Eiginlega gegn sínum vilja tók hún þátt í að tína af sér spjarirnar og skríða með kauða undir sæng.
Mamman segist þakklát dótturinni fyrir að bjarga sér úr vondum aðstæðum. Þær mæðgur séu báðar fórnarlömb tungulipurs loddara.
Pilturinn segist aðeins hafa þegið það sem stóð honum til boða. Hann væri ástralskur skiptinemi og stutt í heimferð. "Mér gæti ekki verið meira sama," segir hann kotroskinn.
Dóttirin sættist með semingi við mömmuna. Sagði auðveldara að henda lélegum bólfélaga í ruslið en afskrifa mömmu.
Á myndunum til hægri eru mamman og stráksi fullklædd.
Vefurinn | Breytt 24.7.2024 kl. 08:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
9.4.2023 | 12:38
Keypti karl á eBay
Staurblankur enskur vörubílstjóri, Darren Benjamin, sat að sumbli. Hann vorkenndi sér mjög. Bæði yfir blankheitunum og ennfremur yfir að vera alltaf einn. Það er einmanalegt. Eftir margar og miklar vangaveltur yfir stöðunni fékk hann hugmynd. Hún var sú að auglýsa sig til sölu á uppboðsvefnum eBay. Hann hrinti henni þegar í framkvæmd. Hann lýsti söluvörunni þannig: "Kynþokkafullur en blankur vörubílstjóri til sölu."
Viðbrögð voru engin fyrstu dagana. Síðan fór Denise Smith að vafra um eBay. Hún rakst á auglýsinguna. Henni leist vel á ljósmyndina af kallinum. Hún bjó í Milton Keynes eins og hann. Henni rann blóðið til skyldunnar. Yfir hana helltist vorkunn vegna aðstæðna hans. Jafnframt blossaði upp í henni löngun til að veita ummönnun.
Denise bauð 700 kr. í kauða. Hún var viss um gagntilboð. Það kom ekki. Tilboðinu var tekið. Hann flutti þegar í stað inn til hennar. Enda lá það í loftinnu. Hann var orðinn eign hennar. Þar með gat Darren sagt leiguíbúð sinni upp. Það sparaði pening.
Umsvifalaust var blásið til formlegs brúðkaups. Eða eiginlega brúðgumakaups.
Vefurinn | Breytt 10.4.2023 kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
11.12.2022 | 06:03
4 milljónir flettinga
Á dögunum brá svo við að flettingar á þessari bloggsíðu minni fóru yfir fjórar milljónir. Það er gaman. Flettingar eru jafnan 10 - 15% fleiri en innlit. Innlit eru sennilega einhversstaðar á rólinu 3,5 milljón.
Velgengni bloggsíðunnar kitlar hégómagirnd. Samt er ég ekki í vinsældakeppni. Til að vera í toppsæti þarf að hengja bloggfærslur við fréttir á mbl.is og blogga rúmlega daglega. Ég geri hvorugt. Ég blogga aðeins þrisvar eða fjórum sinnum í mánuði. Það dugir mér fyrir útrás blaðamannsbakteríu frá því að ég til áratuga skrifaði um popptónlist fyrir allt upp í 12 tímarit þegar mest gekk á.
Það er skemmtun að velta vöngum yfir ýmsu í tónlist. Ekki síst þegar það kveikir umræðu. Jafnframt er ljúft að blogga um það sem vinir mínir eru að bardúsa í tónlist, bókmenntum, kvikmyndum eða öðru áhugaverðu.
Fyrir nokkrum árum - þegar barnabörn mín stálpuðust og lærðu að lesa - tók ég ákvörðun um að láta af neikvæðum skrifum um menn og málefni. Núna skrifa ég einungis vel um alla. Sumir eiga erfitt með að meðtaka það. Ekki svo mjög á blogginu. Það er frekar á Facebook. Þar vilja sumir fara í leðjuslag við mig. Sem var gaman áður en ég hætti neikvæðni. Nú er runnin upp stund jákvæðninnar. Og meira að segja stutt í sólrisuhátíðina jól.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
4.6.2019 | 08:02
Fölsk Fésbókarsíða
Fésbókarvinur minn, Jeff Garland, sendi mér póst. Hann spurði af hverju ég væri með tvær Fésbókarsíður með samskonar uppsetningu. Sömu ljósmyndir og sömu Fésbókarvinir. Draugasíðan hafði sent honum vinarbeiðni. Mín orginal-síða er með 5000 vinum. Draugasíðan var með 108 vini. Öllum sömu og orginal-síðan mín.
Ég fatta ekki húmorinn eða hvaða tilgangi draugasíðan á að þjóna. Enda fattlaus. Jeff hefur tilkynnt FB draugasíðuna. Vonandi er hún úr sögunni. Draugasíðan hefur blessunarlega ekki valdið neinu tjóni. Þannig lagað. En ginnt 108 FB vini mína til að svara vinarbeiðni.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.9.2017 | 09:28
Gott að vita
Tímareimin í bílnum mínum var komin á tíma. Ég hringdi í nokkur bifreiðaverkstæði. Spurði hvað skipti á tímareim kosti. Heildarverð með öllu. Verðin reyndust mismunandi. En öll eitthvað á annað hundrað þúsund. Af einhverri rælni álpaðist ég til að leita á náðir "gúgglsins". Fann þar nokkrar jákvæðar umsagnir um Bifreiðaverkstæði Jóhanns í Hveragerði. Þar á meðal að verðlagning sé hófleg.
Næsta skref var að hringja þangað. "Vinnan kostar 35 þúsund," var svarið sem ég fékk. "Þú getur sjálfur komið með varahlutina sem til þarf ef þú ert með afslátt einhversstaðar."
Ég var ekki svo vel settur. Spurði hvort að ég gæti ekki keypt þá hjá honum. Jú, ekkert mál. "Þá verður heildarpakkinn um 70 þúsund."
Ég var alsæll. Brunaði austur fyrir fjall. Þegar til kom reyndist vélin miklu stærri en venja er í bíl af mínu tagi. Fyrir bragðið tók vinnan klukkutíma lengri tíma en tilboðið hljóðaði upp á.
Er ég borgaði reikninginn var þó slegið til og tilboðið látið standa. Endanlegur heildarreikningur var 68 þúsund kall.
Tekið skal fram að ég hef engin tengsl við Bifreiðaverkstæði Jóhanns. Vissi ekki af tilvist þess fyrr en "gúgglið" kynnti það fyrir mér.
Af þessu má læra: Nota tæknina og "gúggla". Fyrir mismuninn á fyrstu tilboðum og því síðasta er hægt að kaupa hátt í 200 pylsur með öllu í Ikea. Samt langar mig ekkert í pylsu.
Vefurinn | Breytt 9.9.2017 kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
20.7.2015 | 10:27
Fésbókin sannar sig
Samfélagsmiðillinn Fésbók er öflugt eftirlitskerfi. Ekki síst hérlendis Yfir 8 af hverjum 10 Íslendingum eru skráðir notendur. Þar af heimsækja margir hana daglega. Jafnvel oft á dag. Þegar mynd af stolnum bíl, tjaldvagni eða öðru er sett inn á Fésbók og óskað eftir aðstoð við leit að gripnum líður ekki má löngu uns myndinni hefur verið dreift/deilt mörg þúsund sinnum. Þá er stutt í að hluturinn finnist, sem og þjófurinn.
Þetta sannreyndi ég nokkrum vikum eftir að ég skráði mig fyrst inn á Fésbók. Það eru nokkur ár síðan. Þá kom ég seint heim úr vinnu og kíkti á "bókina". Sá að verið var að deila mynd af stolnum bíl. Ég deildi myndinni. Hálftíma síðar fékk ég póst frá fésbókarvini. Hann hafði ákveðið að kíkja á síðuna mína. Sá myndina af bílnum; fór út á hlað, skimaði yfir bílastæðin, kom auga á bílinn og hafði samband við eigandann. Sá kom með hraði í leigubíl og endurheimti bílinn. Aðeins örfáum klukkutímum eftir að honum var stolið.
Þess eru dæmi að menn hafi fundið sjálfan sig á Fésbók.
.
Fann þjófana með hjálp Facebook | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.6.2015 | 01:12
Afmyndaður Íslendingur
Færeyskir fjölmiðlar eru duglegir við að segja fréttir af Íslendingum og Íslandi. Mun duglegri en íslenskir fjölmiðlar við að segja fréttir af Færeyingum og Færeyjum. Þeir þegja þunnu hljóði um Færeyinga og Færeyjar. Samt eiga svoooo margar færeyskar fréttir erindi við Íslendinga. Aðdáendur færeysku álfadrottningarinnar Eivarar eru ótal margir. Hún selur alveg um 10 þús. eintök af stakri plötu á Íslandi. Fyllir alla tónleikasali og svo framvegis. En íslenskir fjölmiðlar hafa ekki rænu á að flytja fréttir af því að hún sé komin í stríð við færeyska Fólkaflokkinn. Í ljósvakaauglýsingum gerir hann út á lag með Eivöru í óþökk hennar.
Í íslenskum fjölmiðlum er hljótt um að bandarísku hryðjuverkasamtökin Sea Shepherds séu að streyma til Færeyja þessa dagana. Innanborðs hafa þau frægan breskan leikara og njóta - að því er virðist - stuðnings danska forsætisráðherrans.
Þó að íslenskir fjölmiðlar leiði Færeyinga og Færeyjar hjá sér þá gleyma færeyskir fjölmiðlar ekki Íslendingum. Ein aðalfréttin í færeyskum fjölmiðlum þessa dagana er af bassafantinum knáa, Hauki Viðari Alfreðssyni (Morðingjarnir, Hellvar). Hann sofnaði í sófa. Vinnufélagarnir tóku ljósmynd af honum sofandi. Á færeysku heitir það að vera "afmyndaður". Svo var brugðið á leik með myndirnar. Sjá hér:
http://www.vp.fo/islendingurin-haukur-sovnadi-a-arbeidsplassinum/
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 01:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2014 | 17:42
Hvaða þjóðir njóta mesta netfrelsis?
Í útlöndum er til stofnun sem mælir netfrelsi hinna ýmsu þjóða. Hún heitir Freedom house. Allt sem snýr að netfrelsi er skoðað. Meðal annars út frá því hvort eða hvaða skorður yfirvöld setja á umgengni almennings við netið. Til að mynda hvort að einhver forrit séu bönnuð eða aðgengi að þeim takmörkuð og bara allskonar. Listinn yfir þær þjóðir sem búa við mesta netfrelsi er forvitnilegur. Ekki síst fyrir okkur Íslendinga. Þessi lönd tróna á toppnum:
1 Ísland
2 Eistland
3 Kanada
4 Ástralía
5 Þýskaland
Íranar búa við minnst netfrelsi. Þar er eiginlega flest blokkerað eða stranglega bannað. Sýrlendingar koma þar næst. Síðan eru það Kínverjar. Kúbanar eru í fjórða neðsta sæti. Á hæla þeirra koma Eþíópar.
Ekki reyndist unnt að mæla netfrelsi í N-Kóreu. Enginn þeirra íbúa sem rannsóknarteymið ræddi við þar í landi hafði hugmynd um hvað internet er.
-----------------------------------------------------------
Vefurinn | Breytt 10.1.2016 kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.5.2014 | 01:09
Íslenskir tónlistarmenn geta auðveldlega náð heimsyfirráðum
Ef þú getur komið á framfæri öflugu lagi á sex sek. er möguleiki á að verða heimsfræg poppstjarna. Dæmin sanna það. Snjallsímaappið Vine er málið. Vine er einskonar þútúpa. Munurinn liggur í því að öll myndbönd á Vine eru aðeins 6 sek. Þetta knappa form virðist henta hröðum heimi unga fólksins í dag.
Sala á lagi með bandaríska rapparanum Glasses Malone, That Good, óx um 700% þegar notandinn SheLovesMeechie setti inn á Vine myndband af sér dansa við þetta lag. Skyndilega hafði það verið spilað yfir milljón sinnum á þútúpunni. Þetta er bara eitt dæmi af mörgum. Fjöldi áður óþekktra og ósamningsbundinna tónlistarmanna hefur náð heimsfrægð og risasölu á sinni músík í gegnum Vine.
Lagið Burn með Ellie Goulding & Jason Derulo er annað dæmi. Myndbrot á Vine hefur skilað því lagi yfir 200 milljón spilunum á þútúpunni. Verst hvað þessi lög eru djöfull leiðinleg. En þá er bara málið að setja á Vine 6 sek myndband með skemmtilegu íslensku lagi. Þetta er trixið í dag fyrir ósamningsbundna og óþekkta íslenska tónlistarmenn til að ná inn á heimsmarkaðinn og leggja hann undir sig án mikils tilkostnaðar.
Vefurinn | Breytt 14.5.2014 kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.3.2014 | 00:14
Lærum af dæminu með Hildi
Nú er lag að læra af dæminu um Hildi Lillendahl. Láta eitthvað gott koma út úr því dapurlega dæmi. Skerum upp herör gegn dulnefnum. Þau bjóða ekki upp á annað en óábyrgar yfirlýsingar, hótanir, heitingar og óábyrga umræðu. Gerum þá kröfu til netmiðla að notendur skrifi undir fullu nafni. Þannig er notendum gert að standa við orð sín án þess að felast á bakvið dulnefni.
Netmiðlar þurfa að taka ábyrgð á því sem fær að standa í umræðudálkum þeirra. Ég er ekki að kalla eftir neinni ríkisrekinni netlöggu. Netmiðlarnir sjálfir verða að sýna ábyrgð með því að eyða "kommentum" sem fela í sér hótanir um nauðganir, dráp og annað ofbeldi.
Þeir sem verða fyrir netníði þurfa að bregðast snöggt við og kæra umsvifalaust allar hótanir og annað níð. Ekki bíða eftir því að þetta líði hjá og fyrnist á tveimur árum. Dómstólar þurfa að taka á netníði af festu. Líðum ekki netníð. Við eigum alveg að ráða við það að ræða ágreiningsmál án hatursumræðu. Erum við ekki nógu félagslega þroskuð til þess? Öll dýrin í netheimum eiga að vera vinir.
Vildi drepa Svein Andra með hamri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)