Færsluflokkur: Vísindi og fræði
20.4.2015 | 23:10
Tónlist hefur gríðarlega mikil áhrif á bragðskyn
Við vitum að augað hefur áhrif á bragðskyn. Mjög svo. Af skynfærum okkar er bragðskynið frekar lélegt í að skilgreina hlutina. Það er auðvelt að plata bragðskynið út og suður.
Það er engin tilviljun að til sé músíkstíll kenndur við kvöldmáltíð, dinnerdjass. Dinnerdjass sveipar kvöldmáltíð veislulegri og afslappaðri stemmningu. Þegar veitingastaður með asískan mat er heimsóttur skiptir miklu máli að þar sé spiluð asísk músík. Þegar spænskur veitingastaður er sóttur heim skiptir máli að þar sé spiluð spænsk músík.
Tónlistin getur stýrt bragðskyni á borð við krydd á borð við salt, súrsætt bragð og svo framvegis. Til gamans má geta að samkvæmt rannsókn þá bragðast breski þjóðarrétturinn fiskur og franskar (fish & chips) best við undirleik tónlistar Bítlanna.
Kaffi, desertar og aðrir eftirréttir bragðast best undir flutningi óperusöngva.
Vísindi og fræði | Breytt 4.5.2016 kl. 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.4.2015 | 20:04
Blautklútar fjarlægðir úr verslunum vegna skaðsemi
Fyrir mánuði síðan - eða því sem næst - skýrði ég samviskusamlega frá því á þessum vettvangi hversu hættulegir blautklútar geta verið. Í því sambandi vísaði ég til skelfilegrar reynslu Evu Tausen af þeim. Hún situr uppi með skaddaða sjón. Svo skaddaða að hún er ófær um að aka bíl.
Eva er ein þekktasta söngkona Færeyja. Hún hefur jafnframt náð frama á heimsmarkaði í kántrý-deildinni. Náð toppsæti kántrý-vinsældalista víða um heim og hlotið alþjóðleg verðlaun. Um þetta má lesa með því að smella snöfurlega á þennan hlekk: hér
Færeyskir fjölmiðlar fjölluðu eðlilega vel og rækilega um sjónskaða Evu. Þá spruttu upp hinar ólíklegustu konur og vitnuðu um hliðstæða reynslu af blautklútunum. Kornið sem fyllti mælinn var þegar Oda Kjartansdóttir Ström steig fram í vikunni og lýsti í færeyska útvarpinu sjónskaða sem klútarnir ollu henni. Nú hafa blautklútarnir verið fjarlægðir úr færeyskum verslunum. Þeir heita First Price. Eru til sölu í íslenskum búðum. Fólki er ráðlagt að nota í andlitið einungis blautklúta með svansmerkinu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2015 | 00:23
Ótrúlega skörp fylgni dánarorsaka og tónlistarstíla
Fyrir nokkru bloggaði ég um 27-klúbbinn, sem svo er kallaður. Hann telur rokkstjörnur sem féllu frá 27 ára að aldri. Um og upp úr miðjum áttunda áratugnum var talað um að rokkstjörnur væru komnar yfir þröskuldinn er þær náðu 28 ára aldri. Það var ávísun á langlífi.
Dánarorsök almennings ræðst af ýmsum þáttum. Til að mynda vinnuumhverfi, starfi og lífsháttum. Sumum störfum fylgir meiri slysahætta en öðrum. Sumum störfum fylgir meira andlegt álag en öðrum. Sum störf kalla á óreglulegan svefn. Önnur bjóða upp á óhollt mataræði og hreyfingarleysi. Þannig mætti áfram telja.
Í völundarhúsi tónlistar eru margar og ólíkar vistaverur. Hinum ýmsu tónlistarstílum fylgir ólíkur lífsmáti. Vísna- og þjóðlagasöngvarar sem spila órafmagnaða tónlist hafa lengst af komið fram á litlum stöðum. Þar eru þeir í nálægð við áheyrendur. Fyrir daga reykingarbanns á skemmtistöðum voru þessir tónlistarmenn huldir sígarettureyk frá áheyrendum. Sama má segja um djassista.
Þriðjungur þjóðlagasöngvara og djasstónlistarmanna hefur orðið krabbameini að bráð. Til samanburðar hafa aðeins 6 - 8% hipp-hoppara og rappara fallið fyrir hendi krabbameins. Munurinn er sláandi.
Helsta dánarorsök hipp-hoppara og rappara er morð. Hlutfallið er yfir 50%. Það er svakalegt. Við erum að tala um meirihluta. Innan við 2% djassista og kántrýsöngvara eru myrtir.
Sjálfsvíg eru algengust meðal þungarokkara. Um fimmtungur þeirra fellur fyrir eigin hendi. Sjálfsvíg eru fátíð meðal sálar- (r&b) og gospelsöngvara. Innan við 2%.
Þungarokkarar og pönkarar farast af slysförum umfram aðra. Pönkarar í 30% tilfella og þungarokkarar í 36,2% tilfella. Blúshundar og djassgeggjarar eru varkárari. Rétt um tíundi hluti þeirra verður slysum að bráð.
Blúsararnir fá hjartaáfall umfram aðra. Hjartaáfall er dánarorsök 28% þeirra. Hjartaáföll draga innan við 7% hipp-hoppara og rappara til dauða.
Vísindi og fræði | Breytt 18.4.2016 kl. 20:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.3.2015 | 20:52
Börn framtíðarinnar verða ljót
Í aldanna rás hefur mannkynið fríkkað jafnt og þétt. Fólk fyrri alda var ljótt. Karlmenn laðast frekar að fallegum konum en ljótum. Aðrir eiginleikar skiptu minna máli. Konur láta sig minna máli skipta útlit karla. Það eru aðrir eiginleikar sem skiptu meira máli. Til að mynda hæfileikinn til að vernda fjölskylduna, sjá henni fyrir húsaskjóli og næringu.
Nú hefur snurða hlaupið á snærið. Annarsvegar eru það lýtalækningar. Nef, haka, varir, kinnar, augabrúnir og annað í andliti er endurhannað á lýtalæknastofum. Gallinn er sá að afkvæmin erfa ekki útlit móðurinnar eftir að hún hefur verið gerð upp af lýtalækni. Afkvæmin erfa "útlitsgallana".
Hinsvegar hafa förðunarfræðingar náð þvílíkri leikni í förðun að á örfáum mínútum breyta þeir "venjulegri" konu í fallegasta súpermódel. Ljótar konur þurfa í dag ekki annað en kíkja inn á snyrtistofu og þær geta pikkað á löpp hvaða kall sem er.
Þetta er staðreynd. Þetta er líka fordómafull og heimskuleg bloggfærsla með ofmat á útlit. Hún ýtir undir kjánalega útlitsdýrkun. Samt. Svona er leikurinn í dag. Konurnar eru alveg huggulegar ófarðaðar á myndunum til vinstri. En dáldið ýktar eftir förðun á myndunum til hægri.
Vísindi og fræði | Breytt 20.3.2016 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
18.3.2015 | 08:06
Ósvífinn áróður
Frá unglingsárum hef ég heyrt því haldið fram að ýsan sé hrææta. Fyrir bragðið fúlsa margir við henni. Það fer hrollur um fólk við að heyra orðið hrææta. Samt eru nánast allir Íslendingar hræætur. Við lifum á hræjum. Kjöt og fiskur sem við borðum er af dýrum sem fyrir löngu síðan voru drepin og eru hræ.
Ýsan er ekki hrææta.
Misskilningurinn liggur í því að ýsan étur sand til að hreinsa meltingarveginn. Í innyflum hennar er þess vegna svört leðja. En hún étur ekki hræ. Hún lifir á sprelllifandi botndýrum (rækjum, krabba, slöngustjörnum, skrápdýrum...). Það munar öllu. Þess vegna er hold ýsunnar skjannahvítt, þétt og bragðmikið hér á Norðurhöfum. Einhver besti matur sem til er. Ýsa var það heillin.
Vísindi og fræði | Breytt 18.3.2016 kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
14.3.2015 | 17:59
Ekki sjóða fisk í vatni
Í gamla daga var á allflestum íslenskum heimilum vinsæll hversdagsréttur sem kallaðist soðning. Um var að ræða þverskorna ýsu eða þorsk með roði og beinum. Með þessu voru snæddar soðnar kartöflur. Til hátíðisbrigða var brætt smjör út á. Krakkar fengu að auki tómatsósuslettu.
Bitarnir voru soðnir í vatni vel og lengi. Í það minnsta tuttugu mínútur. Á yfirborði vatnsins myndaðist hvít froða. Á þessum árum vissi fólk ekki að í froðunni voru næringarefnin úr fiskinum. Þau voru soðin úr honum. Mörg bráðholl prótein, vítamín og önnur næringarefni eru í fiski.
Engu að síður var og er soðningin góður matur sem aldrei er hægt að fá leiða á.
Síðar lærði fólk að heppilegra er að snöggsjóða fisk. Til að mynda með því að taka pottinn af eldavélahellunni í um leið og vatnið nær suðu.
Besta aðferðin er að hita fisk í ólívuolíu. Ekki aðeins til að næringarefnin haldist í fiskflakinu heldur skilar þetta bragðbesta og þéttasta holdinu.
Fyrst skal salta roðlaus og beinlaus fiskiflökin þokkalega. Leyfa þeim síðan að hvíla í algjörum friði í 5 mínútur og 12 sek.
Á meðan er um það bil 3 dl af besta fáanlega hvítvíni hitaðir í potti (undir loki til að lágmarka uppgufun). Um leið og beðið er eftir að hvítvínið í pottinum nálgist suðu skulu 5 dl af köldu og fersku hvítvíni sötraðir af áfergju.
Væntanlega gerist það um svipað leyti að fiskiflökin hafa hvílt í nægilegan tíma og næstum því er farið að sjóða á hvítvíninu. 3 dl af ólívuolíu er hellt út í og fiskflökin lögð ofan í blönduna. Þar fá þau að svamla í 6 mínútur og 52 sek. Að þeim tíma liðnum er flökunum pakkað inn í álpappír til að olían og vínið fái að vinna í friði í 5 mínútur. Eftir það bragðast fiskurinn betur en nokkurntíma áður.
Upplagt er - ef einhver nennir - að laga sósujafning úr hvítvíns- og olíublöndunni. Einnig má skvetta kæruleysislega smá af blöndunni yfir fisk og meðlæti eftir að það er komið á disk.
Soðnar kartöflur henta vel sem meðlæti, ásamt smjörsteiktum lauk, rúgbrauði og smjöri. Mestu munar um að hafa nóg af kældu hvítvíni með til að skola kræsingunum niður. Og ekki síður að hafa nóg af kældu hvítvíni það sem eftir lifir dags til að halda rækilega upp á góða veislumáltíð.
Vísindi og fræði | Breytt 15.3.2016 kl. 19:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
10.3.2015 | 09:47
Kolbrenglaður og villandi fréttaflutningur
Hversu marktækur væri vinsældalisti sem byggði á útgáfu laga af plötum frá aðeins þremur handvöldum útgáfufyrirtækjum? Hversu áreiðanlegur væri metsölulisti bóka ef hann mældi einungis sölu frá þremur handvöldum bókaútgefendum? Ólíklegt er að nokkur alvöru fjölmiðill myndi taka þannig lista hátíðlega. Hvað þá að leggja út af þeim í fréttaflutningi.
Þannig er því samt varið varðandi útvarpshlustun. Capacent mælir hlustun á útvarpsstöðvar þriggja fyrirtækja. Þau eru Ríkisútvarpið, 365 og Síminn. Fyrir helgi birtist í Morgunblaðrinu stór og ítarleg frétt eða fréttaskýring um útvarpshlustun. Hún byggði alfarið á þessari meingölluðu mælingu Capacent - gagnrýnislaust. Af textanum mátti ráða að íslenski útvarpsmarkaðurinn spanni einungis stöðvar fyrirtækjanna þriggja.
Inn í mælingu Capacent vantar á annan tug útvarpsstöðva. Þar á meðal útvarpsstöð sem í marktækri könnun MMR mælist ein þriggja vinsælustu útvarpsstöðva landsins. Hér á ég vitaskuld við Útvarp Sögu. Hlustun á Útvarp Sögu, Bylgjuna og Rás 2 er langt yfir árangur annarra útvarpsstöðva. Þess vegna er ósvífin fölsun að undanskilja Útvarp Sögu í umfjöllun um útvarpshlustun. Og í raun gróf lygi að bera á borð að Rás 1 sé þriðja vinsælasta útvarpsstöðin. Þó að margt sé þar ágætt á dagskrá þá eiga dagblöð ekki að ljúga. Það er ljótt.
![]() |
Ekki tengdur og aðsóknin hrundi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2015 | 11:49
Gríðarlegt úrval af töfralausnum
Það hefur aldrei skort framboð af töfralausnum við öllum kvillum. Það eru góðu fréttirnar. Sumar lausnir eru meira að segja nánast ókeypis. Í lok síðustu aldar læknaði svokallaður Kákasussveppur nánast öll mein. Fólk gaf hvert öðru afleggjara af sveppnum. Hann framleiddi drykk með þessum töfraeiginleikum. Þegar best lét var sveppurinn ræktaður á öðru hverju heimili á landinu.
Svo, eins og hendi væri veifað, hvarf sveppurinn úr öllum hýbýlum. Þess í stað fékk fólk sér töfraarmband. Það læknaði flesta kvilla. Armbandið hafði það fram yfir sveppinn að vera fallegt. Það var skart um leið og það kvað niður hausverk, mígreni, vöðvagigt og hvað sem fólki datt í hug.
Slípaðir steinar fylla fólk orku. Þess vegna eru þeir kallaðir orkusteinar. Steinarnir eru geymdir í buxnavasanum. Þeir hafa það umfram armbandið að vernda fólk að auki gegn illum öflum. Jafnvel gluggapósti. Upplagt er að hafa lukkustein í fleiri vösum. Það fimmfaldar líkur á að vinna í bingói.
Löngum gafst vel að verjast kvefi með því að fara í ískalt bað að morgni. Eftir bað var líkaminn þurrkaður vel og rækilega með tyrknesku handklæði. Vitað er um eitt dæmi þess að einstaklingur kvefaðist þrátt fyrir þetta. Síðar kom í ljós að hann hafði fyrir misskilning þurrkað sér með handklæði frá þeim hluta Kýpur sem heyrir ekki undir Tyrkland.
Um hríð fór Sálarrannsóknarfélagið með hundruð veikra Íslendinga til Filippseyja. Þar skáru töfralæknar þá upp með berum höndum og fjarlægðu krabbamein, veik líffæri og allskonar. Draslið sem fjarlægt var reyndist við nánari skoðun eiga uppruna í svínum og kálfum. Það er varasamt að vera með líffæri úr þessum skepnum.
Ekki má gleyma pendúlum og andaglasi við sjúkdómsgreiningu.
Hér má sjá árangursríka lausn við höfuðverk:
![]() |
Kastljós þvældi veiku fólki um bæinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 22.2.2016 kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
1.3.2015 | 21:24
Viðhald festist við gifta konu
Í sveitinni í Hjaltadal fóru tíkur stundum á flakk á milli bæja. Þá voru þær á lóðaríi. þegar hundar sinntu þeim festi tíkin þá í dágóða stund. Þetta getur hent í samskiptum fólks líka. Til að mynda í S-Afríku. Þar kom harðgift hálf fertug kona sér upp viðhaldi, tvítugum dreng. Eiginmanninn á fimmtugsaldri grunaði þetta. Til að komast að hinu sanna þá leitaði hann til töfralæknis. Sá framkvæmdi þegar í stað svartagaldur og lagði á konuna. Það var eins og við manninn mælt. Viðhaldið festist við hana í ástarleik.
Þegar konan og friðillinn uppgötvuðu vandamálið hrópuðu þau á hjálp. Sem betur fer voru allar dyr í húsinu ólæstar. Verra var að fólkið sem kom fyrst að gat enga hjálp veitt. Þess í stað hringdi það í vini og kunningja í nágrenninu og sagði tíðinda. Á örskammri stundu var 2000 manna hópur mættur á svæðið til að fylgjast með vandræðum elskendanna.
Fólk flissaði, tók bakföll og ljósmyndir. Þetta þótti góður farsi. Lögreglu bar að. Fólkið vildi halda áfram að fylgjast með. Lögreglunni tókst seint og síðar meir með hjálp piparúða að fæla fólkið á brott. Að lokum voru turtildúfurnar fluttar á sjúkrahús. Þar var konunni gefið vöðvaslakandi lyf til að losa um vöðvakrampann.
Myndin sýnir mannfjöldann streyma að áður en lögreglan skarst í leikinn.
Vísindi og fræði | Breytt 21.2.2016 kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.2.2015 | 23:05
Snati kann og veit
Venjulegur hundur með þokkalega rænu skilur um 70 orð. Sumir fleiri orð og aðrir færri. Eitt sinn átti ég hund sem var meinilla við að vera settur í bað. Ef heimilisfólkið nefndi orðið bað hvarf hundurinn með það sama. Faldi sig með hraði undir eða á bakvið húsgögn. Það kostaði mikið at að ná honum. Hann varðist eins og ljón - samt án þess að bíta.
Eitt sinn var brugðið á það ráð að stafa orðið bað. Hvutti hvarf á sama augnabliki. Við prófuðum oftar að stafa orðið til að sannreyna skilning hundsins. Alltaf með sömu útgáfu.
Ég er fæddur og uppalinn í sveit; í útjaðri Hóla í Hjaltadal. Ætíð þegar minnst var á heimaslátrun þá þaut heimilishundurinn eins og píla til fjalla og sást ekki í tvo daga. Það var fastur liður.
Í N-Karólínu Í Bandaríkjum Norður-Ameríku er hundur sem skilur á annað þúsund orð. Sumt fólk þar um slóðir kann ekki einu sinni svo mörg orð.
Til að sannreyna skilning Snata í N-Karólínu hefur hann verið látinn sækja 900 leikföng. Nafn leikfangsins er nefnt og hann sækir það án vandkvæða.
![]() |
Kári vill komast í strætó |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 28.2.2015 kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)