Færsluflokkur: Vísindi og fræði
10.6.2015 | 00:02
Bensíntittur rændi völdum
Ég átti erindi norður í land. Áður en brunað var aftur til borgar óttans tók ég krók á minni leið og lagði bíl upp við bensíndælu. Þar leist mér vel á dælu merkta "Power". Kom upp í huga mér lag Johns Lennons "Power to the People". Ljómandi gott lag.
Ég greip bensíndæluna föstum tökum og beindi stút ofan í bensíntank bílsins. Í sömu andrá sveif að eldri maður, merktur bensínstöðinni. Hann var nánast láréttur í loftinu er hann skutlaði sér eins og til sunds á milli mín og bíls. Reif dæluna úr bensíntanknum og hrópaði: "Nei, ekki Power!".
Svo leit hann æstur, óðamála, áhyggjufullur og rannsakandi á mig og spurði: "Varstu byrjaður að dæla?"
Nei, ég kannaðist ekki við það. Róaðist maðurinn mjög mikið við þau tíðindi. Honum var létt. Hann náði andlegu jafnvægi og byrjaði að dæla "venjulegu" bensíni á bílinn. Um leið upplýsti hann mig: "Power bensínið er 50 kr. dýrara en venjulega bensínið. Það er að vísu aðeins kraftmeira. En ekki 50 króna virði. Það er bara bull."
Ég hef ekkert vit á bensíni. Látum fagmenn um þetta. Ætli sé einhver sala í "Power"? Varla á þessari bensínstöð.
Vísindi og fræði | Breytt 18.6.2016 kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.5.2015 | 13:18
Snýst þetta allt um fégræðgi?
Í umræðunni um kjaraviðræður, verkföll, launakröfur, skattabreytingar, styttingu vinnuvikunnar, hækkað matarverð, magabólgur og djöflatertur hafa lægstu laun borið á góma. Sumum hefur orðið tíðrætt um að ástæða sé til að hækka lægstu laun. Jafnvel um einhverja þúsundkalla á næstu þremur árum.
Aðrir hafa brugðist hinir verstu við. Þeirra viðhorf er það að hærri laun greidd ómenntuðum skófluskríl muni gera útaf við menntun í landinu. Þá verði keppikefli allra að tilheyra hópi ómenntaða skrílsins. Það verði eftirsóknarverðasta takmark lífsins.
Kannski er kenningin rétt. Kannski sýnir enginn námi áhuga nema til þess að fá hærra kaup en ómenntaði skríllinn.
Þetta þarf að rannsaka. Einkum vegna þess að margir eru svo vitlausir að þeir rjúka í annað nám en það sem skilar þeim síðar meir hæstu tekjum. Einhverjir eru meira að segja svo vitlausir að þeir leggja á sig nám sem nýtist þeim lítið sem ekkert á vinnumarkaði. Hvað þá að það skili þeim feitum launatékka.
Getur verið að Kári Stefánsson hafi hangið í skólum áratugum saman einungis vegna þeirrar vissu að á endanum myndi hann fá góð laun? Kannski hafði hann aldrei áhuga á taugalífræði og erfðarannsóknum. Hvað veit ég.
Þegar ég ungur settist á skólabekk í Myndlista- og handíðaskóla Íslands þá hafði ég ekki hugmynd um að vera rekinn áfram af löngun í hærri laun en þau sem ég fékk ómenntaður í Álverinu í Straumsvík. Svo gekk það ekki einu sinni eftir. Í heimsku minni hélt ég að skólagangan í MHÍ réðist af löngun til að læra skrautskrift, olíumálun, vatnslitun, ljósmyndun, myndskreytingu, auglýsingateikningu og eitthvað svoleiðis bull. Nú veit ég betur.
Fólki er ekki sjálfrátt. Að minnsta kosti sumu fólki. Það veit ekki af hverju það stundar nám í einhverju. Það heldur að námið snúist um að fræðast um eitthvað sem viðkomandi hefur gríðarlegan huga á. En svo í raun snýst þetta um fégræðgi: Að komast á annan launataxta en ómenntaði skríllinn.
![]() |
Háskólahugtakið útþynnt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.5.2015 | 12:12
Svona er PIN-númerum stolið og hve auðvelt er að verjast því. Ekki gefa vonda kallinum peningana þína!
Mikill áróður er rekinn fyrir því að fólk leggi PIN-ið á minnið. Allflestir nota greiðslukort í stað reiðufés. Það er til að hagnaður bankanna sé viðunandi. Þeir fá prósentur af hverri kortafærslu.
Gallinn við kortin og PIN-ið er hversu auðvelt er að stela númerinu og misnota. Vondi kallinn gerir það. Hann kaupir sér hitamyndavél í næstu Apple-búð; festir hana á bakhlið iPhones síns. Svo tekur hann mynd af takkaborði PIN-tækisins án þess að nokkur taki eftir. Hitamyndavélin sýnir á hvaða tölustafi var ýtt af næsta kúnna á undan og í hvaða röð.
Með sömu aðferð er hægt að komast yfir leyninúmer við inngöngudyr, öryggishólfa og allskonar.
Góðu fréttirnar eru að auðvelt er að verjast þessu. Það er gert með því að villa um fyrir vonda kallinum. Til að mynda með því að styðja á fleiri takka en þá sem hýsa leyninúmerið. Hamast á þeim hverjum á fætur öðrum. Þá fær hitamyndavélin rangar upplýsingar.
Vísindi og fræði | Breytt 7.6.2016 kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
16.5.2015 | 20:29
Mataræði fátækra tekið föstum tökum
Bandaríki Norður-Ameríku eru allt að því heimsálfa út af fyrir sig. Þau eru sambandsríki 50 skemmtilega ólíkra ríkja. Sum líkjast V-Evrópu um margt. Einkum Norðurríkin og vesturströndin. Önnur eru okkur verulega framandi. Einkum það sem kallast biblíubeltið og djúp-suðrið.
Wisconsin er mið-vestur Norðurríki. Þar fá fátækir vesalingar matarmiða upp á 16 þúsund kall á mánuði. Vandamálið er það að betur stæðir skattborgarar horfa upp fátæklinga kaupa og snæða mat sem er forboðinn í Biblíunni.
Nú er vilji til að taka það föstum tökum. Banna á vesalingunum að kaupa fyrir matarmiða skelfisk, svínakjöt, túnfisk, hnetur og allskonar. Listinn telur um tvo tugi ókristilegra hráefna.
Það er ekkert nema gott um það að segja að skattborgarar passi upp á að vesalingar fari ekki til helvítis.
![]() |
Kjöt gæti lækkað mikið í verði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 17.5.2015 kl. 06:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2015 | 21:59
Einföld aðferð til að verjast árásum bjarna
Fólki gengur illa að læra hversu auðvelt er að verjast árásum bangsa. Bangsar eru naut að afli. Það er vonlaust að slást við þá. Bangsar eru sömuleiðis mörgum sinnum spretthraðari en manneskja. Það er vonlaust að forða sér á hlaupum frá bangsa.
Aðferðin til að verjast árás bangsa er að lyfta höndum eins hátt upp fyrir höfuð og hægt er. Bangsi þekkir af sínum átökum við aðra bangsa að stærð ræður því hver er sterkari. Hitt ráðið er að syngja hátt og snjallt rólega slagara. Til að mynda "Undir bláhimni" og "Skín við sólu Skagafjörður".
Bangsi ruglar sönglinu saman við grát bjarndýrshúna. Það hvarflar ekki að honum að vera með leiðindi við húna. Þvert á móti. Hann vill allt fyrir húna gera.
Þetta þekkja menn og kunna í Húnavatnssýslu. Þess vegna heitir hún Húnavatnssýsla og félagsheimilið Húnaver. Þar voru löngum haldnar vinsælar Húnavökur.
Annað ráð til að sleppa við árásir bjarna er að vera á öðrum stað en þeir.
![]() |
Björn gróf konu lifandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 15.5.2015 kl. 09:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
13.5.2015 | 22:49
Fárveikur sólbrúnkufíkill
Hin næstum þrítuga Tawny Willoughby er geggjuð. Hún er fædd og uppalin í sólríku ríki, Alabama í Bandaríkjum Norður-Ameríku, við hlið Florida. Samt sem áður varði hún unglingsárum og fram á þrítugsaldur í ljósabekk. Ekki á sólbaðsstofu heldur í foreldrahúsum. Flesta daga vikunnar steikti hún sig heilu og hálfu tímana í ljósabekknum ár eftir ár eftir ár. Hún var fársjúkur fíkill með tanorexíu.
Rónar koma óorði á áfengi. Tawny kemur óorði á sólböð.
Sólböð eru holl. Mjög holl. Ljósageislarnir framkalla D-vítamín á húðinni. Það er lykill að upptöku á kalki. Sólböð styrkja bein, tennur, húð og hár. Vinna gegn beinþynningu. Sólböð hafa öflugan lækningamátt varðandi húðvandamál á borð við exem, sporiasis og unglingabólur. Sólböð sporna gegn allskonar krabbameinum (nema sortu). Þau vinna gegn þunglyndi og depurð. Þannig mætti áfram telja.
Án sólarljóss væri lítið líf á jörðinni. Þetta sést vel þegar sól hækkar á lofti á íslensku vori. Ljósið kveikir líf. Allt lifnar við. Tré laufgast, blóm springa út, skordýr vakna úr dvala, fuglar syngja og hefja hreiðurgerð, kýrnar leika við hvurn sinn fingur og glaðværð færist yfir mannlífið. Ljósið gleður. Dægurlög léttast og kætast.
Í dýraríkinu hafa D-vítamínrík dýr mest aðdráttarafl. Í mannheimum hafa sólbrúnir einstaklingar aðdráttarafl langt umfram föla og grámyglulega. Náttúran leitar í heilsuhrausta sem sólin hefur kysst.
![]() |
Svona lítur meðferð við húðkrabbameini út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 14.5.2015 kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.5.2015 | 20:08
Þefaði uppi heimsmet
Færni fólks á lyklaborð hefur aukist jafnt og þétt með tilkomu tölvu og internets. Flestir eru orðnir leiknir og hraðhentir með það. Flestir nota fingurna til að hamra á lyklaborðið. Hálfþrítugum Indverja að nafni Mohammed Khursheed Hussain þykir það ekki vera nógu mikla áskorun. Hann vélritar með nefinu á sér. Það tekur hann 47.44 sek að slá inn 103 orð. Það er heimsmet. Gott þefskin piltsins hjálpar. Hann þefar uppi stafina.
Vísindi og fræði | Breytt 20.5.2016 kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.5.2015 | 23:25
Hárþvottur upp úr kúahlandi
Í aldir hafa vel hærðar konur þvegið hár sitt upp úr kúahlandi. Kúahlandið er í raun jurtasjampó. Beljan lifir alfarið á grasi. Hún er sólgin í gras. Grasið inniheldur ýmis góð næringarefni. Meðal annars fyrir hárið.
Ókosturinn við að þvo hárið upp úr kúahlandið er að beljan pissar ekki eftir klukkunni. Fagurhærðar konur þurfa þess vegna að sitja tímum saman úti í fjósi og bíða eftir því að belju verði mál. Þegar að því kemur er nauðsynlegt að hafa snör handtök og setja höfuðið undir bununa. Til að hámarks árangur náist þarf kúahlandið góða stund til að koma sér fyrir í hársverðinum og næra hann. Kannski hálftíma eða svo.
Kostur við að næra hárið með kúahlandi er að það skilur eftir sig þægilega fjósalykt.
Önnur hárnærandi aðferð til að þrífa hárið er að þvo það upp úr hreinu Aloe Vera geli. Það hefur hreinsandi eiginleika og nærir hársvörðinn af 75 vítamínum og steinefnum. Ókosturinn er að þá vantar fjósalyktina.
![]() |
Má bjóða þér hland í hárið? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.5.2015 | 22:21
Tónlistarsmekkur staðnar við 33ja ára aldur
Fyrir nokkru heimsótti ég í fyrsta skipti eftir hálfrar aldar hlé æskuvin. Við erum að detta inn á sjötugs aldur. Hann á gott plötusafn. Allar plötur Led Zeppelin, Deep Purple, Jimi Hendrix, The Doors, Janis Joplin og svo framvegis. Eftir að hafa flett í gegnum hans stóra plötusafn (sem þekur stóran vegg) uppgötvaði ég að hann á enga plötu með neinum tónlistamanni sem hefur komið fram á sjónarsvið eftir miðjan áttunda áratug.
Þá varð mér hugsað til fleiri jafnaldra okkar. Staðan er lík. Jú, einhverjir Bítlageggjarar hafa meðtekið Oasia. Stónsarar hafa bætt Primal Scream í púkkið. Kinksarar hafa tekið Blur opnu örmum. Í öllum þeim tilfellum er um að ræða smekk fyrir sömu músík þó að flytjendur séu aðrir.
Rannsókn byggð á spilun tónlistar á spotify.com hefur leitt í ljós að tónlistarsmekkur almennt staðnar við 33ja ára aldur. Þetta er hærri aldur en áður hefur verið talið. Hingað til hefur verið útbreidd skoðun að tónlistarsmekkur mótist á unglingsárum og staðni um það leyti sem framhaldsskólanámi lýkur. Það er að segja á þeim árum sem nýstofnað fjölskyldulíf tekur við af skólagöngu. Nú hefur þeirri kenningu verið hnekkt.
Vísindi og fræði | Breytt 2.5.2015 kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
30.4.2015 | 22:17
Ekki borða pizzu beint úr pizzukassanum!
Ítalskt fátækrafæði, svokölluð pizza eða flatbaka, nýtur rosalega mikilla vinsælda á Íslandi. Þetta er stór hringlaga ofnbökuð hveitiflatbaka, bökuð með margvíslegum matarafgöngum úr ísskápnum sem álegg. Hún er vinsæl í heimsendingu. Einnig til að grípa með heim (take away).
Hún er afgreidd í flötum pappakassa, skorin í misstórar sneiðar (líkt og rjómaterta). Fólk gúffar græðgislega í sig sneið og sneið. Á meðan malla óétnu sneiðarnar eftir í pizzakassanum þangað til röðin kemur að þeim.
Í pappanum eru skaðleg flúorefni sem berast auðveldlega í pizzuna. Komin inn í líkama neytandans safnast þau þar fyrir. Sem dæmi um skaðsemi þeirra má nefna að tíðni fósturláta sextánfaldast. Barátta gegn þessu er mikilvægari en barátta gegn hefðbundnum fóstureyðingum.
Til að sporna gegn skaðsemi pizzu í pappakassa er ráð að færa hana eldsnöggt á stóran disk um leið og heim er komið.
Ef að pizzakassinn er merktur svansmerki er öllu óhætt.
Vísindi og fræði | Breytt 1.5.2015 kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)