Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Auðvelt töfrabragð til að finna út aldur fólks og skóstærð

  Fólk er alltaf að pukrast með aldur sinn og skóstærð.  Ég veit ekki ástæðuna.  Margir skrökva til um þessa hluti.  Segjast vera yngri en þeir eru og segjast nota minni skó en raunin er.  Þetta er furðulegt og ekki einskorðað við Íslendinga.  Þetta þekkist í nágrannalöndum okkar.  Sumir ljúga svo oft til um þetta og svo sannfærandi að þeim hættir til að trúa sjálfum sér.  Í öðrum tilfellum rugla menn sjálfa svo rækilega vegna þessara lyga að þeir muna ekki frá degi til dags hvað þeir eru gamlir og hver skóstærð þeirra er.  Það getur verið hvimleitt. 
  Svo skemmtilega vill til að með einfaldri reikningsaðferð er hægt að ganga úr skugga um réttan aldur og skóstærð.  Það er hægt að beita þessari aðferð gagnvart sjálfum sér og einnig gagnvart öðrum.  Jafnvel hverjum sem er.  Það eina sem þarf til er vasareiknir.  Prófaðu og sannreyndu þetta:
1.  Sláðu inn skóstærð þína
2.  Margfaldaðu með 5
3.  Bættu 50 við
4.  Margfaldaðu með 20
5.  Bættu 1013 við
6.  Dragðu frá fæðingarár þitt
  Niðurstaðan sýnir fjóra tölustafi.  Tveir þeir fremri sýna skóstærð þína.  Hinir tveir sýna aldur þinn.  Bingó!
 
of litlir skór

Byltingarkennd aðferð við kartöflurækt

 

  Um þessar mundir eru margir Íslendingar að setja niður kartöflur;  gróðursetja þær í von um væna uppskeru síðsumars.  Gallinn er sá að vinnubrögð eru ekki eins og best er á kosið.  Það er einkennilegt að ekki hafi borist til Íslands almennileg vinnubrögð við kartöflurækt.  Þó þarf ekki að sækja þá þekkingu lengra en til Færeyja.  Þar fær maður bestu kartöflur í heimi.

  Í Færeyjum er jarðvegur afskaplega grunnur.  Þar er varla svigrúm til að grafa þokkalega holu sem kartöflunni er troðið niður í.  Þess í stað er móðurkartöflum raðað ofan á jörðina með stuttu millibili.  Síðan eru þunnar torfþökur lagðar ofan á.  Grasið snýr niður.  Moldarhliðin snýr upp.  

  Snilldin við þetta er að nýju kartöflurnar spretta upp úr torfþökunum.   Það þarf ekkert að grafa þær upp.  Auðveldast er að raka þeim bara saman og setja í poka.  Það þarf ekki einu sinni að þvo af þeim mold eða neitt.  Þær eru tilbúnar beint í pottinn.

  Til gamans má geta að í Færeyjum heita kartöflur epli.  Á veitingastað í Þórshöfn var um tíma boðið upp á rétt sem var bökuð kartafla og túnfiskssalat.  Hann hét á matseðlinum "Epli í túni".  Mér varð það á að upplýsa starfsfólk um það hvernig nafn réttarins hljómaði í íslensk eyru.  Mönnum var brugðið og rétturinn tekinn af matseðlinum.  Færeyingar vilja ekki að matseðlar virki broslegir þegar Íslendingar renna í gegnum þá.  Það er metnaður í gangi.

  Kartöflurækt heitir á færeysku að "velta epli".  Fyrstu kynni Íslendinga af eplum voru með þeim hætti að hingað komu kartöflur frá Færeyjum.  Íslendingar héldu að þær væru epli og snæddu kartöflurnar hráar.  Það þótti heilmikið sport þó að engum þættu "eplin" bragðgóð.  Síðar bárust til Íslands alvöru epli.  Þau voru auglýst sem "epli er bragðast eins og perur."  Þau epli þóttu bragðbetri. 

kartöflur í færeyjum

  Fróðleiksmoli:  Höfundur sönglagsins um kartöflugarðana heima,  Leadbelly,  hafði þann vonda kæk að drepa menn.  Hann lenti í fangelsi eins og fleiri sem hafa sungið þetta lag.


Fólk er fíklar

  Fólk elskar að ögra sér.  Fólk elskar að taka áhættu.  Fólk er fíkið í "adrenalínkikk".  Þetta er algengast hjá stálpuðum krökkum og seinþroska unglingum.  Þeir eru stöðugt að láta reyna á það hvað þeir þora að stökkva fram af háum byggingum,  hvað þeir þora að glannast mikið á hjólabrettum eða reiðhjólum.  Það eru stöðugar tilraunir í gangi.  Þessi ungmenni reikna síður með því að slasast og dauðsfall er ekki til í þeirra hugsun.

  Þegar unglingar ná fullum þroska hægir um.  Flestir eignast börn og verða ábyrgir uppalendur án glæfralegs glannaskapar.  Svo fljúga ungarnir úr hreiðrinu og hversdagurinn verður grár.  Þá blossar upp löngun í gamla adrenalínskammtinn.  Fólk fer að ögra sér með því að klífa fjöll,  fara í teygjustökk,  fallhlífastökk, kjósa Framsóknarflokkinn og allskonar.  Bölvaður glannaskapur alltaf hreint.

Ekk fyrir lofthrædda á Indlandi

  Íbúar þessa turns á Indlandi láta lofthræðsluna kitla sig.  Aðrir þurfa stærri adrenalíngusu.  Þeir ganga á línu. 

ekki fyrir lofthrædda - gengið á vír   

  Mig grunar að þessi skemmtilegi fjallatroðningur sé í Asíu.  Útsýnið er fagurt en vegfarandur eru uppteknari af því að detta ekki. 

ekki fyrir lofthrædda - gengið í skólann

  Myndin fyrir neðan er af íslenskum fjallavegi.  Sumir kjósa fremur að ganga hann en aka.

ekki_fyrir_lofthraedda_-_islenskur_fjallavegur.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Adrenalínfíknir Spánverjar byggja bratt.

ekki_fyrir_lofthraedda_a_spani.jpg


mbl.is Háskaleg ljósmyndataka ferðamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þekkir þú skepnuna?

  Fólk ofmetur iðulega þekkingu sína á dýrum.  Fólk heldur að það þekki dýr sem það umgengst oft.  Jafnvel daglega.  Það heldur líka að það þekki dýr sem ber sjaldnar fyrir augu.  Látum reyna á þekkinguna.  Hér eru myndir af nokkrum dýrum.  Langt þar fyrir neðan eru nöfnin á þeim.

skepnur - augabrúnamaur

Mynd A

skepnur - höfuðlús

Mynd B

skepna - húsflugulirfa

Mynd C

skepnur - vespa

Mynd D

skepna - fiðrildalirfa

Mynd E

skepna - uppþemd skógarmítla

Mynd F

skepnur - sæormur

Mynd G

skepnur - vatnabjörn

Mynd H

britneyspears1.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mynd I 

-

-

-

-

-

-

-

-

-

Mynd A:  Þetta er augabrúnamaur.  Hann lifir í augabrúnum á okkur og víðar á skrokknum.  En aðallega í augabrúnum.  Þar grefur hann sig niður að hluta og skemmtir sér vel.  Sú er ástæðan fyrir því að okkur klæjar stundum örlítið í augabrún.  Þá er maurinn að krafsa.  Af sömu ástæðu fáum við stundum eins og örlitla flösu í augabrúnir.  Við varla sjáum hana reyndar.  Við sjáum ekki maurinn eiginlega heldur.  Nema vera með öflugt stækkunargler fyrir framan spegil.  Góðu fréttirnar eru að maurinn styrkir ofnæmiskerfi líkamans.  Hann heldur því sívakandi. 

Mynd B:  Höfuðlús.  Þarna er hún að fikra sig áfram á mannshári,  kvikindið atarna.  Lengi vel þótti mikil prýði af höfuðlúsinni.  Þeir lúsugustu voru eftirsóttir.  Hvort heldur sem var til vinnu eða undaneldis.  

Mynd C:  Húsaflugulirfa. 

Mynd D:  Vespa

Mynd E:  Fiðrildalirfa.  Hún er krútt.

Mynd F:  Skógarmítill.  Hann er alveg að springa.  Hann er svo uppbelgdur af blóði.  Þetta er stórhættuleg skepna.  Leitið upplýsinga um skógarmítil.  Gúglið kvikindið. 

Mynd G:  Sæormur.  Hann er örsmár.

Mynd H:  Vatnabjörn.  Hann er líka örsmár.  Þú verður ekkert var við hann þó að drekkir hann.

Mynd I:  Britney Spears


Ruglið um elstu karla

   Á dögunum var því haldið fram í Morgunblaðrinu að elsti karl hafi náð 116 ára aldri.  Ég skil ekkert í mínum kæru vinum,  Doddssyni og Guðna Einars, að hafa ekki rekið þessa fullyrðingu öfuga ofan í blaðamanninn.  Það þarf ekki að leita lengra aftur en í Gamla testamentið til að komast að annarri niðurstöðu: 
Adam var 930 ára.  Þá dó hann.
Set var 912 ára.  Þá dó hann.
Enos var 905 ára.  Þá dó hann.
Kenon var 912 ára. Þá dó hann.
Mahalelel var 895 ára. Þá dó hann.
Jared var 962ja ára.  Þá dó hann. 
Enok var 365 ára.  Þá dó hann.
Metúsala var 969 ára.  Þá dó hann.
Lamek var 777 ára.  Þá dó hann.
Nói var 950 ára.  Þá dó hann.
  Sumir halda því fram að Jesús lifi ennþá.  Það kæmi ekki öllum í opna skjöldu aö rétt sé.  Þá er hann orðinn vel á 3ja þúsund ára gamall.  Hann er þar með sigurvegarinn:  Elsti karl sögunnar.   Minna er vitað og skrásett um elstu konur og elstu börn.
.

Einfaldasta og hraðvirkasta aðferð við að skræla kartöflur

kartaflaAkartaflaC 

  Íslendingar borða kartöflur á hverjum degi.  Hverjum einasta degi.  Ekki einu sinni heldur að minnsta kosti tvisvar á hverjum degi.  Jafnvel oftar þegar best lætur.  Samt er það svo einkennilegt að fæstir kunna einföldustu og hraðvirkustu aðferðina við að skræla kartöflurnar.  Fólk hangir í þeirri seinlegu og klaufalegu aðferð að dunda sér við að skræla heitar kartöflurnar með hníf.  Mörg handtök fara í að skræla hverja kartöflu með þeirri aðferð. 

  Aðrir setja kartöflurnar hráar í skrælivél.  Þar þeytast kartöflurnar um í langan tíma undir ægilegum hávaða frá vélinni.  Að því loknu eru kartöflurnar soðnar án hýðis.  Þær verða vatnskenndar, bragðlausar og næringarlausar.  Verra er að langur tími fer í að þrífa skrælivélina eftir hverja notkun. I raun fer meiri tími í þrifin heldur en að skræla soðnar kartöflur með gamla tímafreka laginu. 

  Einfalda og hraðvirka aðferðin er þessi:  Nýsoðin kartafla er sett í ískalt vatn og höfð þar í 5 sek.  Við það losnar skrælið.  Það þarf aðeins að kippa því laflausu af með einu handtaki.  Auðveldast er að vinda það af kartöflunni.

kartaflaD


Hvað segir rithöndin um Sigmund Davíð?

  Í dag hafði blaðamaður á visir.is samband við mig.  Erindið var að hann langaði til að vita hvað rithönd væntanlegs forsætisráðherra Íslands,  Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar,  segði um hann.  Eins og við mátti búast tók ég erindinu vel og greindi eiginhandaráritun Sigmundar Davíðs í snatri.  Niðurstöðuna má sjá með því að smella á þennan hlekk: 

http://www.visir.is/undirskrift-sigmundar-bendir-til-bjartsyni,-hagsyni-og-stjornsemi/article/2013130529722


mbl.is Lögreglan stöðvaði Sigmund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráð gegn handskjálfta

  Flestir kannast við það að stríða við skjálfandi hendur af og til.  Þetta getur hent til að mynda eftir langvarandi fyllerí.  Eða þegar parkinson lætur á sér kræla.  Eða eitthvað svoleiðis.  Vandamálið er að þá er erfitt að hella kaffi í bolla.  Kaffið vill sullast út fyrir bollann og út um allt.  Þetta er vandræðalegt þegar gesti ber að garði.

  Það er til einföld aðferð sem kemur í veg fyrir vandamálið.  Hún er sú að grípa um kaffikönnuna með tám hægri fótar,  teygja hann upp fyrir höfuð og hella lipurlega úr könnunni styrkum fæti í kaffibollana.  Ekki dropi fer til spillis út fyrir bollana ef stutt er þéttingsfast með báðum höndum við hægri fótinn.

kaffihelling.jpg


Barlómur í Bretum

  Á dögunum skrapp ég til Englands.  Ég fann fyrir sterkri þörf til að kanna heilsufar Breta.  Ásamt því að taka púlsinn á bresku þjóðlífi.  Ekki nennti ég samt að setja mig inn í pólitíkina þar.  Nógu erfitt er að henda reiður á öllum þeim 15 framboðum sem við Íslendingar þurfum að velja á milli á laugardaginn. 

  Í stuttu máli þá snarbrá mér við að hlera barlóminn í Bretum.  Það er eins og allt sé að fara fjandans til hjá þeim.  Fátæklingum og útigangsmönnum fjölgar sem aldrei fyrr.  70 þúsund störf hafa horfið eins og dögg fyrir sólu frá síðustu mælingu.  Ég veit reyndar ekkert hvenær hún var gerð.  Atvinnuleysi er um 8%.  Heilbrigðiskerfið er í klessu.  Innan þess hefur störfum fækkað um 5 þúsund.  Ég veit ekki á hvað löngu tímabili.  Neyðarlínur eru í ólestri og 13 dauðsföll eru rakin til slælegra viðbragða sjúkrabíla við útkalli.  Í einhverju tilfelli var bið eftir sjúkrabíl 8 klukkutímar.

  Einhverjir kvörtuðu undan því að þurfa að lifa af 30 - eða hvort það var 40 - þúsund krónum á mánuði.  Ráðherra (eða kannski var það bara óbreyttur þingmaður) sagðist ekki sjá neina ástæðu til að vorkenna svoleiðis fólki.  Það væri leikur einn að lifa á 30 - 40 þúsund kalli á mánuði.  Sjálfur myndi hann léttilega treysta sér til þess.  Þessi yfirlýsing lagðist illa í marga.  

  Allskonar sjúkdómar herja á Breta.  Þeir stríða til að mynda við mislingafaraldur.  800 tilfelli á síðasta hálfa ári.  þar af eitt dauðsfall.  Um er kennt skorti á fyrirbyggjandi mislingasprautum.  Að mér skilst í og með vegna áróðurs gegn slíku.  Draugasögur eru á kreiki um að bólusetningar valdi einhverfu og drómasýki.  Bretar eru svo trúgjarnir. 

  Allskonar skattar eru að hellast yfir breskar fjölskyldur.  Eða hvort að þar er um að ræða niðurskurð á skattafrádrætti eða einhverju slíku.  Ég setti mig ekki inn í það.  Eitt fyrirbærið kallast grænn skattur (green tax).  Honum er ætlað að draga úr eldneytisbruðli.  Annað fyrirbæri kallast svefnherbergisskattur (bed tax).  Hann snýr að fjölskyldum með auka svefnherbergi (eða eitthvað álíka).  Það er grátið sárt undan honum.  Hann er um 120 þúsund kall á ári.  Margir telja sig muna um þá upphæð.  Svo mikið að þeir ráði ekki við hann og fjármál heimilisins séu í uppnámi. Eitthvað var um fjölmennar mótmælagöngur gegn svefnherbergisskattinum. 

  Hagvöxtur í ár er núll-komma-eitthvað.  

  Kennarar boða verkfall.  Líka starfsmenn Póstsins.  

  Mikill samdráttur er í hinni rótgrónu pöbbamenningu Breta.  Pöbbum fækkar að meðaltali um 18 á viku.   

  Ég er áreiðanlega að gleyma helmingnum af því sem Bretar væla sem mest undan um þessar mundir.  

  Góðu fréttirnar eru þær að breska konungsfjölskyldan hefur það gott.  Ég kann ekki skil á því fólki.  Gott ef einhver "meintur" sonur Kalla prins er ekki kominn með konu og börn. Fátt gleður Breta meira.

 


mbl.is Fátækum fjölgar í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þannig á að koma sér í form fyrir sumarverkin

  Nú styttist í öll skemmtilegu sumarverkin og dútlið í garðinum.  Hvað er skemmtilegra en anda að sér nýsleginni töðu á sólríkum sumardegi,  raka hana saman,  reita arfa,  kveikja á grillinu,  sötra ískaldan bjór,  grilla nokkrar lambasneiðar og baka kartöflur?  Sumardagurinn fyrsti (einnig kallaður fyrsti dagur Hörpu) er núna á Þórsdaginn,  25. apríl.  Í Færeyjum heitir sá dagur fánadagurinn.  Þá draga Færeyingar færeyska fánann að húni.  Íslendingar draga íslenska fánann að húni.  Þannig fögnum við sumarkomunni.

  Stóra vandamálið við sumarverkin er að fólk veit aldrei hvernig það á að hefja verk.  Koma sér af stað og koma sér í rétta gírinn.  Hér er auðskilið kennslumyndband sem sýnir á skilmerkilegan hátt hvernig best er að standa að því:

 

  Í þessari örstuttu, eldsnöggu og léttu leikfimiæfingu fara fram snarpar teygjuæfingar.  Um leið fær líkaminn gott adrenalínkikk.  Í nokkrum kröftugum andköfum eru lungun fyllt af súrefni sem berst til heilans og skerpir á hugsun dagsins.  Að auki hellist yfir löngun til að tína upp rusl af gangstétt,  götu og garði nágrannans og koma ruslinu aftur ofan í ruslatunnur hans.  Það er afgreitt með hraði því löngunin til að hefja sem allra fyrst sumarverk í eigin garði er miklu sterkari.     


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband