Færsluflokkur: Spaugilegt
12.6.2020 | 23:32
Dæmalausir fordómar
Ég veit ekki hvort ég fari rétt með orð Andreu Jónsdóttur; hún sagði eitthvað á þá leið að fordómar væru í lagi en ekki miklir fordómar. Allir hafa fordóma. Ég hef fordóma gegn skallapoppi, harmónikkumúsík, kórsöng og ýmsu öðru músíktengdu. Ég hugsa til þess með hryllingi að fara á elliheimili eftir 3 ár og sitja þar undir sömu músík og vistmenn þess í dag. Ekkert Slayer. Ekkert Dead Kennedys. Ekkert Pantera. Ekki einu sinni Skálmöld né Sólstafir.
Á elliheimilinu get ég væntanlega flúið inn á mitt herbergi og blastað í heyrnartólum Sepultura, Mínusi og I Adapt. Málið er að hæg líkamsstarfsemi aldraðra harmónerar ekki við hart og hratt rokk.
Verri eru fordómar gegn hörundslit, menningarmun, hárlit og appelsínugulum sjálfbrúnkulit.
Alltaf er gott að við sljóir hvítir eldri karlar fái olnbogaörskot og séu vaktir upp af værukærum svefni. Ritskoðun á rasisma er hið besta mál. Sérstaklega þegar hún beinist gegn styttum. Þær eru út í hött. Kannski. Nú hefur gríni Fawlty Towers verið úthýst af netveitum ásamst Gone with the Wind (Á hvervandi hveli).
Spaugilegt | Breytt 13.6.2020 kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.5.2020 | 05:55
Smásaga um mann
Hann er kallaður Graði brúnn. Það er kaldhæðni. Hann hefur aldrei verið við kvenmann kenndur. Því síður karlmann. Ástæðan umfram annað er rosaleg feimni. Ef kona ávarpar hann þá fer hann í baklás. Hikstar, stamar og eldroðnar. Hann forðar sér á hlaupum úr þannig aðstæðum. Gárungar segja hann eiga sigurmöguleika í 100 metra spretthlaupi. Svo hratt hleypur hann.
Nýverið varð breyting á. Kallinn keypti sér tölvu. Þó að hann kunni lítið í ensku gat hann skráð sig á útlendar stefnumótasíður. Með aðstoð translate.google gat hann ávarpað útlenskar konur. Feimnin þvælist ekki fyrir honum fyrir framan tölvuskjá. Að vísu setur hann upp kolsvört sólgleraugu til að finna öryggi.
Svo skemmtilega vildi til að finnsk kona sýndi honum óvæntan áhug. Hún var sérlega spennt fyrir því að Graði brúnn safnar servíettum, merktum pennum og tannstönglum notuðum af frægum Íslendingum.
Finnska fraukan lýsti fljótlega yfir löngun til að heimsækja okkar mann. Framan af varðist hann fimlega. Bar fyrir sig dauðsfalli móður. Þvínæst dauðsfalli föður. Svo annara helstu ættingja. Vörnin brast þegar hann var farinn að telja upp dauðsfall fjarskyldra ættingja og vini þeirra. Dauðsföllin slöguðu upp í fórnarlömb Víetnam-stríðsins.
Einn daginn tilkynnti sú finnska að hún væri á leið til Íslands. Búin að kaupa flugmiða og hann ætti að sækja hana upp á flugstöð. Hann fékk áfall. Fyrst leið yfir hann. Svo fékk hann kvíðakast. Því næst át hann kornflex-pakka í taugaveiklunarkasti. Sporðrenndi ekki aðeins kornflexinu heldur einnig sjálfum pappakassanum. Honum datt í hug að skrökva því að hann væri dáinn. Hefði verið myrtur af ofbeldismanni. Aðrir eru ekki að drepa fólk.
Að lokum komst Graði brúnn að þeirri niðurstöðu að nú væri að duga eða drepast. Helst að duga. Hann keyrði á réttum tíma til flugstöðvarinnar. Hann þekkti finnsku dömuna þegar í stað. Enda eina konan á svæðinu búin að raka af sér allt hárið nema fjólubláa fléttu fyrir ofan annað eyrað.
Strax við fyrstu kynni í raunheimum blossaði feimnin upp. Komin út í bíl sýndi hann dömunni með leikrænum tilþrifum að hann væri að hlusta á útvarpið. Hann stillti það hátt. Þulurinn á Rás 2 malaði: "Klukkan er 5 mínútur gengin í sex. Nóg framundan til klukkan sex. Metsölubókahöfundur er að koma sér fyrir hérna. Um hálf sex leytið mætir vinsælasta hljómsveit landsins og frumflytur nýtt lag... Klukkan sex taka fréttir við..."
Þegar hér var komið sögu sló sú finnska hann af alefli í andlitið. Hann varð hissa og spurði: "Ertu að lemja mig í andlitið?" Blóðnasirnar svöruðu spurningunni.
Kella hafði ekki sagt sitt síðasta orð. Hún gargaði á kauða: "Hvernig vogar þú þér að spila fyrir framan mig klámútvarp? Sex, sex, sex í annarri hverri setningu. Heldur að ég fatti ekki neitt, klámhundur!"
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.5.2020 | 01:00
Kallinn sem reddar
Er eitthvað bilað? Þarf að breyta einhverju? Þarf að bæta eitthvað? Þarf að laga eitthvað? Þá getur komið sér vel að vita af kallinum sem reddar ÖLLU. Sjón er sögu ríkari:
16.3.2020 | 00:04
Kvikmyndarumsögn
- Titill: Klovn the Final
- Höfundar og helstu leikarar: Frank Hwam og Casper Cristensen
- Einkunn: ***1/2
Dönsku sjónvarpsþættirnir Klovn eru snilld. Húmorinn er grófur, ferskur, ófyrirséður og bráðfyndinn. 2010 kom á markað kvikmyndin Klown. Hún var sprengja. Í henni var gengið lengra í groddadagangi og húmorinn tekinn fram á ystu nöf. Vinsældum hennar var fylgt eftir með myndinni Klown Forever 2015. Henni háði að væntingar áhorfandans voru miklar. Jafnframt var hann orðinn brynjaður fyrir senum sem annars hefðu gengið fram af honum. Engu að síður slagaði hún upp í fyrri myndina á öllum sviðum.
Nú er verið að sýna þriðju myndina, Klovn the Final. Hún er sögð vera lokamyndin í þríleiknum. Það er skynsamleg niðurstaða. Hún stendur fyrri myndunum örlítið að baki. Samt er hún bráðskemmtileg. Salurinn hló oft og mikið. Líka ég. Hún hefur sérstakt gildi fyrir Íslendinga. Söguþráðurinn snýst um ferðlag kumpánanna til Íslands. Ef ekki væri vegna kórona-vírusins væri myndin góð auglýsing fyrir Íslands. Það getur svo sem skilað sér síðar.
Einhverra hluta vegna hefur myndin verið illa auglýst hérlendis. Kannski gerir það ekki til vegna samkomubannsins. Þá er bara að ná henni í sjónvarpi eða einhverjum netveitum.
Vegna meðfylgjandi sýnishorna skal tekið fram að í íslenskum kvikmyndahúsum er myndin textuð á íslensku.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.2.2020 | 06:14
Þegar Harrison hrekkti Phil Collins
Ýmsir tónlistarmenn líta á Phil Collins sem fígúru. Eða hafa að öðru leyti lítið álit á persónunni. Til að mynda Liam Callagher. Bítlarnir Paul McCartney, Ringo Starr og George Harrison líka.
1970 fékk sá síðastnefndi Phil til að spila á bongótrommur í laginu "Art of dying" fyrir plötuna flottu "All things must pass". Hann var þá í hljómsveitinni Flaming Youth. Þetta var nokkru fyrir daga Brand X og Genesis.
Þegar platan kom út var bongótrommuleikur Phils fjarri góðu gamni. Það var áfall fyrir unga manninn sem dýrkaði Bítlana og hafði stúderað trommuleik Ringos út í hörgul. Hann kunni ekki við að leita skýringar fyrr en mörgum árum síðar. Þá var hann orðinn frægur og kominn með sjálfstraust til þess.
George brá á leik. Hann var alltaf stríðinn og hrekkjóttur. Hann fékk Ray Cooder til að koma í hljóðver og spila afar illa og klaufalega á bongótrommur undir lagið. Svo skemmtilega vildi til að í lok upphaflegu hljóðritunarinnar á laginu heyrist George kalla: "Phil, við hljóðritum þetta aftur og nú án bongótrommuleiks."
Þessa upptöku með lélega bongóleiknum spilaði George fyrir Phil. Honum var verulega brugðið; miður sín yfir því hvað bongótrommuleikur "hans" var ömurlegur. Einnig við að heyra George í raun reka hann.
Phil sá sem George ávarpaði í upptökunni var ekki Collins heldur upptökustjórinn, Phil Spector. Mörgum árum síðar sagði George kauða frá hrekknum. Þungu fargi var af honum létt.
Spaugilegt | Breytt 23.2.2020 kl. 11:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.2.2020 | 23:23
Illa farið með góðan dreng
Ég rekst stundum á mann. Við erum málkunnugir. Köllum hann Palla. Hann býr í lítill blokk. Í sama stigagangi býr vinur hans. Köllum hann Kalla. Þeir eru hálfsjötugir einstæðingar. Fyrir bragðið sækja þeir í félagsskap hvors annars. Fá sér stundum bjór saman; tefla, skreppa í bingó og svo framvegis.
Í hvert sinn sem ég rekst á Palla hefst samtalið á þessum orðum: "Ég er alveg að gefast upp á Kalla." Í kjölfar kemur skýring á því. Í gær var hún svona:
"Hann bauð mér út að borða. Þegar við héldum af stað bað hann mig um að aka að Bæjarins bestu. Það var allt í lagi. Mér þykir pylsur góðar. Hann pantaði tvær pylsur með öllu og gos. Ég hélt að önnur væri handa mér og hann myndi spyrja hvernig gos ég vildi. En, nei, pylsurnar voru handa honum. Ég pantaði pylsu og gos. Þegar kom að því að borga sqagði hann: "Heyrðu, ég gleymdi að taka veskið með mér. Þú græjar þetta." Ekki í fyrsta skipti sem hann leikur þennan leik. Þegar við vorum búnir með pylsurnar sagðist hann verða að fá eitthvað sætt á eftir. Við keyrðum að konditorí-bakaríi. Ég keypti handa okkur tertusneiðar og heitt súkkulaði. Hann kvartaði undan tertunni. Skóf utan af henni allt besta gumsið og borðaði það. Skildi sjálfa tertukökuna eftir. Lét mig síðan kaupa aðra og öðruvísi tertusneið."
Fyrir mánuði rakst ég á Palla. Þá sagði hann:
"Ég er alveg að gefast upp á Kalla. Um daginn stakk hann upp á því að við myndum halda upp á jólin með stæl. Gefa hvor öðrum lúxus-jólagjafir. Samt eitthvað gagnlegt sem við myndum hvort sem er kaupa sjálfir fyrr eða síðar. Ég var tregur til. Enda auralítill. Honum tókst að tala mig til með þeim rökum að hann væri búinn að kaupa góða jólagjöf handa mér sem ég ætti eftir að nota oft. Er ég samþykkti þetta sagðist hann vera búinn að velja sér jólagjöf frá mér. Það væri tiltekinn snjallsími. Mér þótti heldur mikið í lagt. Um leið fékk ég þá flugu í hausinn að hann væri búinn að kaupa samskonar síma handa mér. Ég hafði stundum talað um að fá mér snjallsíma. Flestir eru með svoleiðis í dag. Á aðfangadag tók ég upp pakkann frá honum. Í honum voru tíu þvottapokar úr Rúmfatalagernum sem kosta 99 kr. stykkið"
Spaugilegt | Breytt 9.2.2020 kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.1.2020 | 22:50
EazyJet um Ísland og Íslendinga
Á dögunum fór ég á flandur með ensku flugfélagi, EazyJet. Skrapp til Edinborgar í Skotlandi. Skömmu síðar aftur til Íslands.
Í sætisvasa fyrir framan mig í flugvélinni fann ég bækling prentaðan í lit á pappír. Yfirskrift hans er EazyJet Traveller. Þar má finna fróðleik um þjónustu flugfélagsins. Líka auglýsingu um gott verð á skóm í tiltekinni verslun.
Skemmtilegasta lesefnið er tveggja blaðsíðna viðtal við íslenskan uppistandara. Ara Eldjárn. Af framsetningu þess má ráða að Ari sé vinsæll og virtur uppistandari í Bretlandi. Reyndar veit ég að svo er.
Í viðtalinu dregur hann upp spaugilega - en góðlátlega - mynd af Íslendingum. Hárfín og bráðfyndin kímnigáfan hittir glæsilega í mark. Stöngin inn með látum!
Gaman var að sjá hundruð flugfarþega frá öllum heimshornum lesa um Ara - og vita að mörgum sinnum fleiri eigi eftir að gera það.
Í sama bæklingi er grein sem ber (á ensku) yfirskriftina "3 topp húðflúrstofur í Reykjavík". Þar eru taldar upp nokkrar stofur og lýsing á þeim. Þessar stofur eru:
1. Black kross
2. Apollo ink
3. Reykjavik ink
Blaðamaður EasyJet hlýtur að hafa reynslu af þessum stofum. Einnig fleiri reykvískum stofum fyrst að hann getur raðað upp í toppsæti.
Íslenskir húðflúrarar eru þeir bestu í heimi. Ég skrifa af reynslu til margra ára. Minn frábæri húðflúrari er Svanur Guðrúnarson í Lifandi List tattoo studio. Hann er ekki á listanum yfir bestu reykvísku stofur vegna þess að stofan hans er í Hafnarfirði.
Spaugilegt | Breytt 19.1.2020 kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.1.2020 | 00:46
Frásögn bresks blaðs af íslenskum jólum
Hátíð ljóss og friðar, jólunum, varði ég í Skotlandi. Í góðu yfirlæti. Í Bretlandseyjum er gefið út götublað að nafni Daily Mirror. Það er frekar lélegt blað. En prentað á ágætan pappír. Þannig lagað.
Á aðfangadegi birti það grein undir fyrirsögninni "Jólasveinasnakk" (Santa´s snack). Þar segir:
"Jólin á Íslandi spanna 26 daga. Þar af telja 13 jólasveinar, svo og tröll sem ofan koma úr fjöllunum og gefa gjafir. Í þakklætisskini færa börnin þeim laufabrauð. Það smakkast eins og stökkar vöfflur."
Spaugilegt | Breytt 18.1.2020 kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.1.2020 | 00:39
Ósvífin börn gerðu hróp að gömlum manni
Ég fagnaði jólunum í Edinborg í Skotlandi. Tók hvorki með mér tölvu né síma. Var bara í algjörri hvíld. Þannig hleður maður batteríin. Verra var að illa uppalin börn gerðu hróp að mér með uppnefnum. Og það í tvígang. Í bæði skiptin var um að ræða á að giska fimm ára stelpur. Í fyrra tilfellinu var ég á gangi í tívolí-garði. Skimaði þar eftir indverskum mat. Þá vatt sér að mér frekjuleg stelpa sem togaði í ermina á mér og sagði á ensku:
"Jólasveinn, komdu í heimsókn til okkar!"
Það lá við að ég gæfi barninu "fuck you" merki. En stillti mig. Veifaði bara í staðinn.
Næst var ég staddur á matsölustað. Fékk mér djúpsteiktan þorsk. Á næsta borði sat karl ásamt börnum. Hann var með bendingar á eitt barnið og hló dátt. Ég vissi ekki hvað það átti að þýða. Svo yfirgaf hópurinn staðinn. Þá snéri sér að mér stelpa sem hrópaði upp í opið geð á mér hátt og snjallt á ensku: "Hóhóhó! Gleðileg jól, jólasveinn!"
Spaugilegt | Breytt 4.1.2020 kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
15.12.2019 | 23:07
Sýnishorn úr bráðfyndinni bók
Bókin heitir "Hann hefur engu gleymt ... nema textunum!" Gamansögur úr íslenska tónlistarheiminum. Guðjón Ingi Eiríksson safnaði sögunum saman úr ýmsum áttum og skráði. Þær eru eins fjölbreyttar og þær eru margar. Í formála segir meðal annars: "Farið er yfir holt og hæðir og beygjur teknar - sumar ansi krappar - með óteljandi hliðarsporum yfir drullupytti og aðrar vegleysur."
Hér eru dæmi:
Eftir að hljómsveitin Upplyfting hafði verið að spila á dansleik í Miðgarði fór Kristján Björn Snorrason, harmóníkuleikari hennar, út baka til og sá þar ungan sveitapilt, sem greinilega hafði skemmt sér fullvel þá um nóttina, liggja á grúfu úti undir vegg.
"Hvern andskotann ertu að gera þarna?" spurði Kristján Björn.
Eitthvað lífsmark var greinilega með pilti sem svaraði þvoglumæltur:
"Ég er að rannsaka íslenskan jarðveg."
*
Skúli Ágústsson, bóndi í Auðholti og Birtingaholti, en lengst af verslunarstjóri hjá Sláturfélagi Suðurlands í Reykjavík, var góður bassi og söng lengi með Karlakór Reykjavíkur.
Á efri árum Skúla fékk hann eitt sinn boð á árshátíð kórsins. Hann var þá hættur í kórnum og svaraði boðinu með eftirfarandi vísu:
Ég held ég láti hófið bíða,
mér hentar ekki þvílíkt rall.
Hættur að drekka, dansa og ríða.
Hvern djöfulinn á ég að gera á ball?
*
Magnús Þór Sigmundsson söng:
"Eru álfar kannski menn?"
Eitthvað var um að þetta tæki breytingum og yrði:
"Eru álfar danskir menn?"
*
Óskar Pétursson var gestur á hljómleikum Þuríðar Sigurðardóttur og fór að vanda á kostum. Þau spjölluðu og grínuðust heilmikið á milli laga og meðal annars kom Jesú Kristur til tals. Þá sagði Óskar:
"Ég skil ekkert í mönnum að kalla það kraftaverk þegar hann breytti vatni í vín, hérna á sínum tíma. Heima í Skagafirði kallast þetta nú bara að brugga landa!"
Spaugilegt | Breytt 16.12.2019 kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)