Færsluflokkur: Spaugilegt
21.11.2019 | 00:01
Skammir
Ég var staddur í matvöruverslun. Þar var kona að skamma ungan dreng, á að giska fimm eða sex ára. Ég hlustaði ekki á skammirnar og veit ekki út á hvað þær gengu. Þó heyrði ég að konan lauk skömmunum með því að hreyta í drenginn: "Þú hlustar aldrei á mig!"
Hún gat ekki varist hlátri - fremur en viðstaddir - þegar strákurinn svaraði hátt, snjallt og reiðilega: "Stundum finnst mér nú eins og ég hlusti of mikið á þig!"
18.11.2019 | 00:01
Gangbraut, strætóskýli, kyrrstæðir bílar, sektir...
Margt er brogað hér í borg;
ég bévítans delana þekki.
Hagatorg er hringlaga torg
en hringtorg er það samt ekki!
Fyrir þá sem þekkja ekki til: Hagatorg er hringlaga torg fyrir framan Hótel Sögu. Bílar mega ekki stöðva þegar ekið er í kringum torgið. Sá sem stöðvar er umsvifalaust sektaður. Við torgið stendur veglegt strætóskýli. Vandamálið er að strætó má ekki stöðva við skýlið - að viðlagðri sekt. Sama á við um bíla sem þurfa að stöðva fyrir aftan ef strætó stoppar. Sjaldnast stoppar hann við skýlið. Þar híma viðskiptavinir bláir af kulda dögum saman og horfa upp á hvern strætóinn á fætur öðrum aka hjá án þess að stoppa.
Þvert yfir torgið liggur gangbraut. Bílstjórar mega ekki stöðva til að hleypa gangandi yfir. Stöðvun kostar fjársekt. Hinsvegar er refsilaust að keyra gangandi niður. Einhverjir embættismenn halda því þó fram að gangbrautin eigi réttinn. Hringtorgið sé nefnilega ekki hringtorg.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.10.2019 | 07:27
Bráðskemmtileg bók
Út var að koma bókin "Hann hefur engu gleymt... nema textunum!" Undirtitillinn er "Gamansögur úr íslenska tónlistarheiminum". Höfundur er Guðjón Ingi Eiríksson. Undirtitillinn lýsir bókinni. Gamansögunum fylgja áhugaverðir fróðleiksmolar um tónlistarmenn og heilmikil sagnfræði.
Sögurnar eru fjölbreyttar og skemmtilegar. Spanna marga áratugi og ná til margra músíkstíla. Örfá dæmi:
"Hljómsveitin Upplyfting á sér langa sögu og merka og hafa margir velt því fyrir sér hvernig best væri að þýða nafn hennar, ef hún ákvæði nú að herja á útlönd. Hinir sömu hafa væntanlega allir komist að sömu niðurstöðunni, nefnilega... Viagra!
Karlakórinn Fóstbræður fór í söngferð til Algeirsborgar í Alsír fyrir margt löngu síðan. Þegar kórinn kom aftur heim varð Bjarna Benediktssyni, þáverandi forsætisráðherra, að orði: "Þá er Tyrkjaránsins hefnt!"
Nokkrum árum eftir að Megas hafði búið á Siglufirði, eins og fyrr greinir, hélt hann tónleika þar. Opnunarorð hans voru: "Mér er sagt að ég hafi einhvern tímann búið hérna."
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.10.2019 | 05:42
Sökudólgurinn gripinn glóðvolgur
Í árdaga tölvunnar var sett upp tölvustofa í Háskóla Íslands. Tölvurnar voru frumstæðar og kostuðu skildinginn. Fljótlega kom upp sú staða að lyklaborðin biluðu. Þetta var eins og smitandi sýki. Takkar hættu að virka eða skiluðu annarri niðurstöðu en þeim var ætlað. Þetta var ekki eðlilegt. Grunur kviknaði um að skipulögð skemmdarverk væru unnin á tölvunum. Eftirlitsmyndavélum var komið fyrir í stofunni svo lítið bar á. Þær fundu sökudólginn. Hann reyndist vera ræstingakona; afskaplega samviskusöm og vandvirk með langan og farsælan feril.
Á hverju kvöldi skóladags þreif hún tölvustofuna hátt og lágt. Meðal annars úðaði hún yfir tölvurnar sótthreinsandi sápuúða sem hún þurrkaði jafnharðan af. Hún úðaði einnig vökvanum yfir lyklaborðin. Vandamálið er að enn í dag - nálægt 4 áratugum síðar - eru lyklaborð afskaplega viðkvæm fyrir vökva. Ég votta það.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 05:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.10.2019 | 00:03
Hótel Jórvík
Á tíunda áratug síðustu aldar átti ég erindi til Þórshafnar á Langanesi. Var með skrautskriftarnámskeið þar. Gisti á Hótel Jórvík. Hótelstýran var hölt öldruð kona. Hún var hálf heyrnarlaus. Lá því hátt rómur. Auk mín dvöldu á hótelinu flugmaður og dúettinn Súkkat.
Ég kom mér fyrir í hótelinu síðdegis á föstudegi; hafði herbergisdyrnar opnar. Ég heyrði að hótelsíminn hringdi. Kerla svaraði. Viðmælandinn var auðheyranlega að bjóðast til að hjálpa til. Hótelstýran hrópaði í tólið: "Ég slepp létt frá kvöldmatnum. Ég er bara með nýja kalla sem komu í dag. Hinir fóru í morgun. Ég get þess vegna hitað upp afganginn af karríkjötinu frá því á mánudaginn og nýju kallarnir fatta ekki neitt!"
Um kvöldið var karríkjötsréttur í matinn.
Hótelstýran lét okkur vita að hún hefði bjór og vín til sölu. Við gestirnir pöntuðum eitthvað af veigum. Enginn var barinn. Konan sótti drykkina inn í hliðarherbergi. Hún bar þá ekki fram í umbúðum heldur í vatnsglösum.
Nokkrum árum síðar var forsíðufrétt í DV um að við húsleit í Hótel Jórvík hefði fundist töluvert magn af heimabrugguðum bjór og víni ásamt bruggtólum. Hótelstýran sagðist ekki selja áfengi. Hún væri að geyma þetta fyrir sjómann sem hún vissi ekki hvað hét.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.8.2019 | 09:04
Smásaga um gamlan mann
Jói Jóns er 97 ára. Hann er ern og sjálfbjarga. Býr einn í hrörlegu einbýlishúsi. Það er gamalt og kallar á stöðugt viðhald. Jói er meðvitaður um það. Honum þykir skemmtilegt að dytta að því. Hann hefur hvort sem er ekki margt annað fyrir stafni.
Að því kom að Jói þurfti að tjarga þakið til að verja það betur gegn vætu. Er langt var liðið á verk missti hann fótanna á bröttu þakinu. Sveif á hausinn. Við aðrar aðstæður hefði hann rúllað fram af þakinu og kvatt þennan heim á stéttinni fyrir neðan. Í þessu tilfelli límdist hann við blauta tjöruna. Svo rækilega að hann gat sig hvergi hrært. Hékk bara límdur á þakinu. Það var frekar tilbreytingalaust. Hann kallaði á hjálp. Röddin var veik og barst ekki langt utan hússins.
Kallinn kvartaði ekki undan veðrinu. Það var honum hagstætt. Nokkrum klukkutímum síðar áttu barnungir strákar leið framhjá húsinu. Þeim þótti einkennilegt að sjá mann límdan við húsþak. Komnir heim til sín sögðu þeir frá þessu sérkennilega þakskrauti. Mamma eins þeirra hringdi í lögguna. Löggan er þaulvön að bjarga köttum ofan úr trjám. Henni þótti ekki meira mál að bjarga ellilífeyrisþega ofan af húsþaki.
Kominn niður af þakinu tók Jói staðfasta ákvörðun um að fara aldrei aftur upp á þak. Hvorki á sínu húsi né öðrum.
Spaugilegt | Breytt 30.8.2019 kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.8.2019 | 00:00
Einfaldur skilnaður - ekkert vesen
Hver kannast ekki við illvíga hjónaskilnaði? Svo illvíga að hjónin ráða sér lögfræðinga sem fara með málið til skiptastjóra. Matsmenn eru kallaðir til. Þeir telja teskeiðar, diska og glös. Tímakaupið er 30 þúsund kall. Heildarkostnaðurinn við skilnaðinn er svo hár að allar eigur eru seldar á brunaútsölu til að hægt sé að borga reikningana. Það sem eftir stendur er lítið eða ekkert handa hjónunum.
Miðaldra bóndi í Kambódíu valdi aðra leið er hjónabandið brast eftir tuttugu ár. Hann sagaði húsið í tvennt. Öðrum eigum skipti hann í fjóra hluta. Þau eiga nefnilega tvo syni. Þessu næst lét hann flytja sinn helming hússins heim til aldraðra foreldra sinna. Þar klambraði hann hálfhýsinu utan á hús þeirra.
Konan býr með sonunum í sínu hálfhýsi þar sem stóð.
Maðurinn átti frumkvæðið að skilnaðinum. Hann sakar konuna um að hugsa ekki nógu vel um sig. Hann hafi verið vanræktur eftir að hann fárveiktist andlega.
Spaugilegt | Breytt 28.8.2019 kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.6.2019 | 00:10
Górillur "pósa"
Flestir reyna að koma þokkalega fyrir þegar þeir verða þess varir að ljósmyndavél er beint að þeim. Ekki síst þegar teknar eru svokallaðar sjálfur. Þetta er greinilegt þegar kíkt er á sjálfurnar sem flæða yfir fésbókina.
Svona hegðun er ekki einskorðuð við mannfólkið. Þetta á líka við um górillurnar í þjóðgarðinum í Kongó. Þær hafa áttað sig á fyrirbærinu ljósmynd. Þær "pósa"; stilla sér upp bísperrtar og eins virðulegar og mannlegar og þeim er unnt.
Á meðfylgjandi mynd er önnur górillan eins og hún sé með hönd í vasa. Afar frábrugðið eðlilegri handstöðu apans. Hin hallar sér fram til að passa upp á að vera örugglega með á mynd. Undir öðrum kringumstæðum gengur gorillan á fjórum fótum.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.5.2019 | 23:28
Leyndarmálin afhjúpuð
Hver hefur ekki velt því fyrir sér hvernig sólin liti út ef hún væri blá? Eða hvernig útsýnið væri ef Júpíter væri jafn nálægt jörðinni og tunglið? Mér er ljúft og skylt að svipta hulunni af leyndarmálunum. Ekki aðeins með orðum heldur öllu heldur með ljósmyndum.
Sólin er á vinstri myndinni.
23.5.2019 | 00:17
Dularfull bilun
Ég ók í rólegheitum á mínum þrettán ára gamla bíl. Eðlilega er hann orðinn dálítið lúinn, blessaður. Ég kem að rauðu ljósi. Í útvarpinu - Rás 1 - hljómaði ljúfur og djassaður píanóleikur. Skyndilega er eins og bensíngjöfin sé stigin í botn. Það hvín í vélinni. Ég var ekki með fót á bensíngjöfinni. Ég leit á hana. Hún var uppi. Þetta hafði því ekkert með hana að gera.
Ég ákvað að bruna að verkstæði sem er þaulvant að gera við bílinn. Í sama mund breytist hljóðið. Þá átta ég mig á því að hljóðið kom úr útvarpinu. Kontrabassi hafði bæst við píanóleikinn. Hófst með langdregnum tóni sem hljómaði glettilega líkt vélarhljóði bílsins.
Þegar lagið var afkynnt kom í ljós að þarna var á ferð bassasnillingurinn, Íslands- og Færeyjavinurinn Niels-Henning heitinn Örsted Pedersen.
Ég finn ekki lagið á youtube. Sem gerir ekkert til. Det var en lördag aften er skemmtilegra.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)