Færsluflokkur: Spaugilegt
19.12.2014 | 23:37
Krakkar redda sér
Þegar ég var í svokölluðum gaggó um 1970 í Steinstaðaskóla í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði þá þótti mér ekki ástæða til að taka námið hátíðlega. Þetta var einhvernvegin þannig að fyrst var maður í barnaskóla. Sennilega til 12 ára aldurs eða svo. Síðan tóku við 1. og 2. bekkur í gaggó. Þar á eftir 3. og 4. bekkur í gaggó. Þá færði ég mig yfir til Laugarvatns.
Í Steinsstaðaskóla var kenndur reikningur. Ég sá ekki ástæðu til að læra hann. Ég hafði ákveðið að verða myndlistamaður. Sem ég síðar varð. Stundaði nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Útskrifaðist þaðan sem grafískur hönnuður og vann við fagið til fjölda ára.
Nema hvað. Vegna þess að ég taldi tímasóun að læra reikning þá sleppti ég því. Fyrir bragðið féll ég í reikningi þegar útskrifa átti mig úr 2. bekk í gaggó. Það truflaði ekki mikið tilveruna. Ég fékk að taka reikningsprófið upp á nýtt. Þetta kallaðist samræmt próf. Allir sem féllu á reikningsprófi fengu nýtt próf. Það var sent frá Menntamálaráðuneytinu. Nóttina fyrir nýja prófið braust ég inn á skólastjóraskrifstofuna. Það var ekkert erfitt. Á þeim tíma þurfti aðeins hárspennu til að opna læsingar (þetta var að vísu aðeins flóknara. Það þurfti að fara um fleiri og erfiðari dyr. En ég geri hér ekki fleiri samseka). Ég fann prófið og tók ljósrit af því. Um nóttina fékk ég reikningsglöggan skólafélaga til að reikna út fyrir mig dæmin. Gætti þess að hafa útreikninga þannig að ég næði lágmarkseinkunn. Að mig minnir 5,5. Það gekk eftir. Ég náði útskrift. Það hefur aldrei háð mér að kunna ekki reikning umfram plús, mínus, margföldun og deilingu. Þar fyrir utan var það góð skemmtun að svindla á reikningsprófinu. Og reyndar á fleiri prófum síðan. En það er önnur saga.
Þetta er annað af þeim tveimur jólalögum sem skoruðu hæst í jólalagakeppni Rásar 2 í ár. Gleðisveitin Döðlurnar fer á kostum:
Komust yfir lykilorð og svindluðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 20.12.2014 kl. 00:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.12.2014 | 19:15
Kynlífsklúbburinn
Áskrifendur málgagns LÍÚ, Morgunblaðsins, eru sjálfkrafa skráðir í félagsskap, klúbb sem kallast Moggaklúbbur. Nafn klúbbsins hefur vakið gríðarlega mikla athygli Færeyinga. Sama hvort er Færeyinga staðsetta á Íslandi og fletta Mogganum hér eða Færeyinga sem fletta Mogganum í Norræna húsinu í Færeyjum eða í blaðsölunni í færeysku Kringlunni, SMS í Þórshöfn. Færeyingar hafa spurt mig að því hvort að Morgunblaðið reki "swing" klúbb meðal áskrifenda sinna. Eða út á hvað þessi klámklúbbur gangi eiginlega.
Færeyska orðið yfir kynlíf er mogga.
____________________________
Takið endilega þátt í vali á jólalagi ársins 2014. http://http://www.ruv.is//content/jolalagakeppni-rasar-2//content/jolalagakeppni-rasar-2 Jólalag Daðlanna er þvílíkt lang flottast:
Swingið án efa frétt ársins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.12.2014 | 21:13
Sjónvarpið og Jón Þorleifs
Jón Þorleifsson, verkamaður og rithöfundur, hafði margt gott til brunns að bera. Hann var góðum gáfum gæddur; hagyrtur, skrifaði góða íslensku (þrátt fyrir stutta skólagöngu), glöggur og fjölfróður. Oft sat hann heima hjá mér þegar spurningaþættir voru í sjónvarpinu, svo sem Útsvar og Gettu betur. Mig grunar að hann hafi í og með stílað upp á að sjá þessa þætti; vitandi að ég fylgdist með þeim.
Það var gaman að fylgjast með spurningaþáttunum með Jón sér við hlið. Hann gaf keppendum ekkert eftir við að svara spurningum rétt. Meira að segja spurningum um djass (sem Jón hafði óbeit á) og spurningum um rokkmúsík (sem Jón hlustaði ekki á). Hann kom mér ítrekað á óvart með þekkingu sinni.
Sjálfur var hann lengst af sjónvarpslaus. Meira en það. Hann marglýsti yfir andúð sinni á sjónvarpi. Það væri heimskandi, höfðaði til lægstu hvata mannsins, uppfullt af ofbeldi og ósiðum af ýmsu tagi. Dagskráin væri að mestu bandarískur áróður með það eina hlutverk að sljóvga og heimska almenning.
Líkast til hafði Jón lítil kynni af sjónvarpi áður en hann fór að venja komur inn á mitt heimili á seinni hluta áttunda áratugarins. Hann tók kvikmyndum að einhverju leyti sem raunveruleika. Einhverskonar heimildarþáttum fremur en leiknu efni.
Eitt sinn horfði ég á kvikmynd í sjónvarpinu er Jón bar að garði. Hann horfði á myndina með mér. Áður en á löngu leið hófst slagsmálasena í myndinni á milli tveggja manna. Annar fór halloka fyrir miklum hrotta. Jóni varð svo um að hann spratt á fætur. Hann titraði og skalf af geðshræringu og hrópaði: "Viðbjóðslegur fantur. Tökumaðurinn er samsekur að hjálpa ekki vesalings drengnum! Hann heldur bara áfram að mynda og gerir ekki neitt!"
Ég tók undir gagnrýni Jóns og hann var lengi að róast. Svo skrökvaði ég því að honum að eftir að myndin var tekin til sýningar í kvikmyndahúsum þá hafi bæði ofbeldismaðurinn og tökumaðurinn verið dæmdir í fangelsi. "Að sjálfsögðu," svaraði Jón og var létt.
Í annað skipti gerðist það að Jón var rétt nýkominn í hús þegar kynlífssenu brá fyrir í sjónvarpinu. Jón hrökk við og eins og snöggreiddist. "Hvur djöfullinn. Eru þeir að sýna klám í sjónvarpinu?" spurði hann hneykslaður.
Í stríðni skrökvaði ég: "Ég veit ekki hvaða rugl þetta er. Þetta er barnatíminn hjá henni Bryndísi Schram."
Við þessi tíðindi gat Jón ekki setið kyrr. Hann óð um stofuna og fordæmdi hörðum orðum Bryndísi og allt hennar fólk. Ekki síst tengdaföður hennar, Hannibal Valdemarsson. Sagðist alltaf hafa haft óbeit á honum. Í kjölfar fór hann á flug við að segja sögur af kauða. Þar á meðal sagði hann að sér væri nuddað um nasir að deilu sína á Hannibal mætti rekja til þess að Hannibal hafi sængað hjá stúlku sem Jón hafði augastað á. Jón sagðist ekki hafa neinar sannanir fyrir því að Hannibal hafi sængað hjá þessari dömu. En hafi hún sloppið við ágengni Hannibals þá væri hún undantekning á öllum Vestfjörðum.
Þess á milli hótaði hann því að kæra Bryndísi fyrir klám. Jafnframt taldi hann brýnt að koma henni út úr sjónvarpinu.
Án þess að ég viti það þá tel ég líklegt að Jón hafi hringt í yfirmenn sjónvarpsins og kvartað undan kláminu.
Fleiri sögur af Jóni Þorleifs: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1529603/
----------------------------------
Ein mest lesna fréttin í Færeyjum í gær og dag: http://www.in.fo/news-detail/news/foeroysk-aettarbond-ovast-a-islendska-tonatindinum/?sword_list[]=Bjartmar&no_cache=1
Spaugilegt | Breytt 14.12.2014 kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.12.2014 | 00:00
Skegg og jólasveinninn
Í kvöld hitti ég gamlan félaga. Það eru nokkuð mörg ár síðan við hittumst síðast. Kannski aldarfjórðungur eða svo. Svo vill til að í millitíðinni höfum við báðir leyft skeggi að vaxa að mestu óáreitt. Ég hef að vísu alltaf skorið skegg við yfirvör. Hann hinsvegar leyfir skegginu að vaxa yfir munn sér. Kallar það "að samkjafta".
Á dögunum gekk hann framhjá leikskóla í nágrenni sínu. Krakkar þar kölluðu til hans: "Hæ, manni!" Hann svaraði því engu. Það espaði krakkana upp. Þeim fjölgaði sem kölluðu til hans: "Hæ, manni!" Hann hélt sínu striki framhjá leikskólanum án þess að virða krakkana viðlits. Þá heyrir hann einn krakkann kalla yfir hópinn: "Kallinn getur ekki talað. Hann er með skegg í munninum!"
--------------------------
Ég kíkti inn á bókasafnið í Kringlunni í dag. Þar sem sat og las breska Q-músíkblaðið gekk fast upp að mér lítill drengur. Kannski 3ja eða 4ra ára. Hann horfði rannsakandi á mig. Ég sagði lágt: "Hó, hó, hó!". Stráksa lét sér hvergi bregða heldur horfði ennþá alvarlegri á mig. Alveg þétt upp við mig. Mamma hans kom og dró hann burt. Hann hélt þó áfram að stara á mig og þráaðist við að fylgja mömmunni. Já, ég er dálítið líkur jólasveininum með mitt síða hvíta skegg. Þetta er í annað skiptið sem svona gerist með nokkurra daga millibili.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 20:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.12.2014 | 19:38
Jón Þorleifsson og slagsmál
Jón Þorleifsson, verkamaður og rithöfundur, var mikil barnagæla. Sjálfur eignaðist hann engin börn. Hann var einhleypur alla ævi. Börn löðuðust að Jóni. Hann kom fram við þau eins og jafningja og gat endalaust leikið við þau. Þó að hann væri orðinn háaldraður þá lét hann sig ekki muna um að velta sér um gólf eða skríða á fjórum fótum þegar það hentaði leiknum. Synir mínir og systkinabörn mín elskuðu Jón. Það var ætíð fagnaðarfundur þegar Jón kíkti í heimsókn. Skipti þá engu máli þó að hann kæmi stundum dag eftir dag.
Einhverju sinni var leikurinn þannig að litlir plastkallar voru látnir slást. Hvort að þeir hétu Action Man, He-Man, Hulk eða eitthvað annað. Synir mínir stýrðu sitthvorum plastkallinum. Jón þeim þriðja. Hans kall var fyrst og fremst í því hlutverki að verja sig í stað þess að sækja fram. Sennilega var það þess vegna sem sonur minn spurði Jón: "Hefur þú aldrei verið í slagsmálum?"
Jón svaraði strangur á svip: "Nei, aldrei. Ég hef óbeit á öllu ofbeldi. Slagsmál eru andstyggð!"
Ég blandaði mér í umræðuna. Sagðist hafa heyrt af slagsmálum Jóns við nasista á Eyrarbakka eða þar um slóðir.
Jón spratt á fætur og andlitið ljómaði við upprifjunina. Hann lagði handarbakið á barkann á sér og sagði hróðugur: "Ég sló nasistann með spýtu af alefli á barkann. Hann steinlá og var ekki til frekari stórræða þann daginn!"
__________________________________________
Fleiri sögur af Jóni:
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1409699/
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.12.2014 | 18:56
Jólasveinar
Ég skrapp í Bykó í gær og smakkaði þar á glæsilegu jólahlaðborði. Það er tvöfalt girnilegra en jólahlaðborð Húsasmiðjunnar. Samt 190 kr. ódýrara. Þar sem ég sat í rólegheitum - snæddi hangikjöt og maulaði laufabrauð með - gekk ungt par framhjá ásamt lítilli stelpu. Sú var á að giska 2ja eða 3ja ára. Hún snarstoppaði við hliðina á mér, benti vísifingri á mig og kallaði hátt til mömmu sinnar: "Sjáðu!" Mamman fór að hlæja og dró stelpuna frá mér. Ég heyrði þær nefna jólasveininn.
Fólkið settist við borð skammt frá. Stelpan var sett í háan barnastól. Hún tók varla augun af "jólasveininum". Ég glotti til hennar. En hún starði alvörugefin og undrandi á mig. Eins og hún væri hissa á að sjá jólasveininn.
Þetta er hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem börn taka mér sem jólasveini eftir að skeggið á mér hvítnaði. Fyrir nokkrum árum gerði systir mín sér áramótaferð úr sveitinni til Reykjavíkur. Með í förum var um það bil 4ra ára sonur hennar. Sá hafði ekki áður séð mig. Ég kíkti til þeirra. Hafði ekki verið þar lengi þegar sími systur minnar hringdi. Strákurinn svaraði. Eldri bróðir hans var á línunni. Sá yngri hóf samtalið með því að segja: "Jólasveinninn þekkir mömmu. Hann er í heimsókn hjá okkur!"
----------------------------------------------------
Íslenska jólatréð tekur sig vel út í Þórshöfn í Færeyjum:
Föndurdagatal Hurðaskellis og Skjóðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
29.11.2014 | 00:32
Dóri DNA lýgur
Á Rás 2 er daglega boðið upp á gríninnskot frá grínistanum Dóra DNA. Steypuvélin kallast "sketsarnir". Þeir eru alveg ágætlega fyndnir. Það vantar ekki. Í nýlegu innskoti dregur Dóri DNA nafngreinda dagskrárgerðarmenn Rásar 2 sundur og saman í góðlátlegu háði. Ekkert að því. Í niðurlaginu segir: "Við ætlum að hlusta á fáránlega slappt færeyskt lag sem mun aldrei "meika" það. Okkur drullusokkunum á Rás 2 finnst það bara einum of krúttlegt."
Að þessu sögðu er "Ormurin langi" með færeysku hljómsveitinni Tý spilað. Það er haugalygi að þetta lag muni aldrei "meika" það. Hérlendis var þetta vinsælasta lagið 2002. Seldist í 4000 eintökum. Og er ennþá að seljast hér. Á sama tíma var það vinsælasta lagið í Færeyjum.
Hljómsveitin Týr er í dag stórt nafn á alþjóðamarkaði víkingametals. Hún kemur fram á stærstu þungarokkshátíðum heims. Hún fer einnig létt með að túra um heiminn sem aðalnúmer hvort sem er í Evrópu eða Ameríku. Fyrir nokkrum árum náði Týr 1. sæti ameríska CMJ vinsældalistans. Hann mælir spilun í öllum framhaldsskólaútvarpsstöðvum í Bandaríkjunum og Kanada. CMJ er iðulega hérlendis kallað "bandaríska háskólaútvarpið".
Það er sama hvort að kíkt er í plötubúðir í Þýskalandi, Finnlandi eða Hollandi. Plötur Týs er þar að finna í annars fátæklegu úrvali sem samanstendur einungis af allra vinsælustu plötum allra vinsælustu flytjanda.
Myndbönd með Tý njóta hylli. "Sinklars Visa" hefur verið spilað 2 milljón sinnum. "Hold The Heathen Hammer Hig" hefur verið spilað næstum 4 milljón sinnum. Þetta kallast að vera búinn að "meika" það.
Skamm, skamm, Dóri DNA; að gera lítið úr vinsældum, afrekum og sterkri stöðu Týs hérlendis og á heimsmarkaði.
Dóri DNA lætur Rás 2 heyra það | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.11.2014 | 22:46
Snobb og heimska
Ég átta mig ekki að öllu leyti á fólki sem borgar á aðra milljón króna fyrir úr. Né heldur á fólki sem borgar á sjöunda hundrað króna fyrir eftirlíkingu af Rolex-úri. Ég hef aldrei átt úr sem kostar meira en 10 þúsund kall. Ég veit að vísu ekki hvað úrið kostaði sem ég fékk í fermingargjöf fyrir 44 árum. Það var ekkert dýrt. Í dag á ég ekki úr. Bara farsíma sem kostaði 4000 kall.
Úr er bara lítið tæki sem sýnir manni hvað klukkan er. Útlit þess skiptir litlu máli. Ef hægt er að kaupa úr á 2000 kall og það dugir í 10 - 15 ár þá er það góður kostur. Það er bull að kaupa milljón króna úr sem endist ævilangt.
Fyrir nokkrum áratugum pantaði kunningi minn sér frá Tælandi ódýra eftirlíkingu af Rolax úri. Þegar hann hitti ókunnugt fólk var hann stöðugt að taka um úrið, líta á það og best fannst honum ef tíminn barst í tal. Þá sagði hann: "Rolaxinn segir að klukkan sé...". Ég varð aldrei var við að nokkur manneskja áttaði sig á því í hvað hann var að vísa. Að minnsta kosti nefndi enginn úrið við hann.
Fyrir aldarfjórðungi eða svo kom á markað bílasími. Hann var stór hlunkur með mörgum ljósum og var áberandi í innréttingu bílsins. "Rolex" vinurinn keypti þá ódýra eftirlíkingu. Ég giska á að miðað við verðlag í dag hafi hún kostað kannski 10.000 - 15.000 kall. Ljósin á eftirlíkingunni voru áberandi. En eftirlíkingin var ekki sími.
Það er kannski gróft að kalla svona snobb heimsku. Viðkomandi er ekki heimskur. En snobb er ekki gáfulegt. Og það er dýrt.
Sá strax að úrið var falsað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 27.11.2014 kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
25.11.2014 | 23:29
Ekki er allt sem sýnist
Bandarísk kona, nánar tiltekið í Kaliforníu, vann til margra ára sem bakari í bakaríi er sérhæfði sig í klámfengnum og erótískum kökum. Hún varð vör við að kúnnar sóttu í sætabrauð en vildu telja sjálfum sér í trú um að þeir væru meira fyrir heilsusamlegra fæði. Menn toguðust á um sætabrauð ef sykurskraut á því líktist gulrótasneiðum eða öðru grænmeti eða ávöxtum.
Kella fékk þá góða hugmynd: Að opna bakarí með sætabrauði sem lítur út eins og holl máltíð. Viti menn. Þetta sló í gegn svo um munaði. Allar ljósmyndir hér fyrir neðan sýna sætabrauð hennar sem virðist vera eitthvað annað og hollara. Þetta er allt saman sætabrauð.
Einn kúnni sem hefur borðað svona sætabrauð í öll mál í 5 ár heldur sér nokkurn veginn í þyngd. Hann hefur ekki bætt á sig nema 26 kg. Sem er ekki mikið hlutfallslega vegna þess að hann var 158 kg á meðan hann borðaði bara "venjulegan" mat. Hann er sprækur sem lækur. Fer allra sinna ferða lipurlega á rafmagnshjólastól.
Spaugilegt | Breytt 26.11.2014 kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.11.2014 | 01:28
Kækur lygara
Raðfréttir af embættismanni kristins safnaðar Fíladelfíu; raðlygara sem reynir eftir getu að venja sig af lygaáráttunni og kenna börnum sínum að ljúga ekki, rifja upp símtal sem ég átti við 6 ára systurson minn fyrir margt löngu.
Tekið skal fram að ég er fylgjandi því að bæði lygarar og sannsöglir kenni börnum sínum að ljúga lítið sem ekkert. Og aðallega lítið.
Ég hringdi í Svandísi systir mína á Akureyri. Systursonur okkar svaraði í símann. Hann sagðist vera í pössun hjá Svandísi ásamt bróður sínum. Ég spurði hvort að þeir bræður væru ekki stilltir og þægir í pössuninni. Stráksi svaraði að þeir væru það. Nema að Svandís væri ósátt við að þeir ættu það til að róla sér á hurðum hjá henni. Þá yrði hún alltaf reið. Ég sagði: "Þið verðið að hætta því." Sá 6 ára svaraði: "Já, ég er að reyna að venja mig af því!"
Bað Sigríði um upplýsingar um Omos | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)