Færsluflokkur: Spaugilegt

Kvikmyndarumsögn

 

 

 - Titill:  Dumb and Dumber To

 - Leikstjórar:  Peter og Bobby Farrelly

 - Leikarar:  Jim Carrey og Jeff Daniels

 - Einkunn: **1/2 (af 5)

 Fyrir tuttugu árum kom á markað bandarísk gamanmynd,  Dumb and Dumber.  Hún var fersk og innihélt nokkrar eftiminnilegar fyndnar senur.  2003 leit dagsins ljós myndin Dumb and Dumberer.  Hún á að hafa gerst á undan Dumb and Dumber og sýna persónurnar yngri.  Með öðrum leikurum og öðrum leikstjóra.  Dumb and Dumberer var og er misheppnuð og ófyndin gamanmynd.

 Nú er komin á hvíta tjaldið myndin Dumb and Dumber To.  Hún skartar sömu aðalleikurum og Dumb and Dumber.  Jafnframt eru leikstjórar þeir sömu.

 Söguþráðurinn skiptir litlu máli.  Hann skapar engar væntingar um framvindu né spennu (en á samt að framkalla spennu).  Stöku brandarar, skondin tilsvör og leikur hins kanadíska Jims Carreys bera myndina uppi. Ofleikur Jims er skemmtilegur og allt að því "sannfærandi".  Ofleikur Jeffs Daniels er ósannfærandi en venst er líður á myndina.

 Fjöldi brandara er þokkalega fyndinn.  Enn fleiri eru nær því að vera broslegir.  Með slæðist bull, della og aulahúmor sem höfðar til barna en ekki fullorðinna.  Það sýndi sig af viðbrögðum áhorfenda í salnum. Börn og fullorðnir hlógu ekki undir sömu senum í myndinni.

  Handritshöfundar eru sex.  Áreiðanlega flestir í því hlutverki að semja brandara fremur en bæta þunnan söguþráð.  Myndin gengur, jú, út á brandarana.   

 Takturinn í myndinni er þægilega hraður og jafn út í gegn. Það er alltaf stutt í næstu spaugileg tilsvör og aðra brandara. Margar senur eru allt að því endurtekning á senum úr fyrstu myndinni. Einnig er nokkuð um leiftur (flash back) úr þeirri mynd.  Upphafslagið er hið sama,  Boom Shack-A-Lack með indverskættaða spaugfuglinum Apache Indian.  Flott ragga-muffin lag með blús-hljómagangi.

 

        


mbl.is Heimskur, heimskari á toppinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lennon og Marley eru pöddur

  Í Brasilíu er að finna allskonar skordýr.  Þar á meðal ýmsar skemmtilegar köngulær.  Ein tegundin heitir Bumba Lennoni.  Jú,  rétt.  Hún er nefnd í höfuðið á forsprakka bresku Bítlanna,  Jóni Lennon.

  

  Önnur köngulóartegund heitir Aptostichus Bonoi.  Hún gengur undir gælunafninu Joshua Tree Trapdoor köngulóin.  Heitið hefur eitthvað með írska söngvarann Bono (U2) að gera. 

  Enn ein köngulóartegundin heitir Loureedia Annulipes.  Hún er kennd við söngvaskáldið bandaríska Lou Reed.

  Það er líka til sjávarlúsartegund sem heitir Gnathia Marleyi.  Nafn hennar er sótt í höfuðið á jamaíska reggí-goðinu Bob Marley.

  Skelfiskstegund sem dó út fyrir 300 milljónum ára kallast Amaurotoma Zappa.  Bæði hún og fílapenslabakterían Vallaris Zappia eru nefnd eftir bandaríska háðfuglinum og tónlistarmanninum Frank Zappa.

  Egypskt vatnasvín þykir bera munnsvip líkan breska blúsrokksöngvaranum Mick Jagger.  Þess vegna heitir tegundin Jaggermeryx Naida.   

 


Ráð til að verjast ormum í sushi

  Á síðustu áratugum hafa Íslendingar frekar viljað vera án orma í skrokknum en ekki.  Á þessu hefur upp á síðkastið mátt greina breytingu.  Íslendingar eru farnir að úða í sig við öll tækifæri hráan fisk í bland við soðin og klesst hrísgrjón.  Þannig blanda gengur undir nafninu sushi,  en mætti kallast ormakonfekt.  Hrár fiskur er iðulega iðandi í ormum.  Það getur verið erfitt að koma auga á bölvaðan orminn.  Hann lætur sjaldan mikið fyrir sér fara.  Ennþá minna fer fyrir ormaeggjunum.  Þau eru örsmá og klekjast út í maganum á sushi-ætunni. 

  Út af fyrir sig er að mestu skaðlítið að vera með spriklandi orm í mallakútnum.  Hringormurinn er ólíklegur til að gera mikinn usla.  Bandormurinn er herskárri.  Hann getur dreift sér um líkamann.  Það veldur kláða og óþægilegum fiðringi.

  Sumar sushi-ætur hafa ekki hugmynd um að ormar leynist í fiski.   Ennþá síður grunar þær að lifandi ormar leynist í hráum fiski.  Til að forðast spriklandi orma í heimalöguðu sushi er ráð að djúpfrysta fiskinn.  Við það fær ormurinn lungnabólgu og deyr.  Eftir það er hann ekki upp á marga fiska.  

  Síðan er bara að muna eftir því að þíða fiskinn áður hann er notaður í sushi.     

ormur


Embættismenn skemmta sér

  Margar reglur eru skrítnar,  kjánalegar og til mikillar óþurftar.  Opinberir embættismenn skemmta sér aldrei betur en þegar þeir fá tækifæri til að beita þessum reglum.  Þá kumra þeir innan í sér.  Sjálfsálit þeirra fer á flug þegar þeir fá að þreifa á valdi sínu.

  Nýjasta dæmið er bann Samgöngustofu,  staðfest af ráuneyti Hönnu Birnu og aðstoðarmanna hennar - annar í fríi (ríkisvæddur frjálshyggjudrengur með 900 þús kall í mánaðrlaun á ríkisjötunni),  á innfluttum bíl frá Bretlandi.  Stýrið er hægra megin.  Margir slíkir bílar eru og hafa verið í umferð á Íslandi.  Án þess að nokkur vandræði hafi hlotist af.  Bílar með stýri hægra megin aka vandræðalaust um Evrópu þvers og kruss.  Ég man ekki betur en að söngkonan Ragga Gísla hafi ekið með reisn á þannig bíl um götur Reykjavíkur.  Ég hef ekið í breskri vinstri umferð á bíl með stýri vinstra megin.  Ekkert mál.  

  Þetta hefur lítið sem ekkert með umferðaröryggi að gera (þó að því sé borið við).  Þetta hefur aðallega með það að gera að farþegum sé hleypt út gangstéttarmegin í stað þess að æða út í umferðina.  

  Enda má flytja inn til landsins bíl með stýri hægra megin ef að hann er hluti af búslóð og eigandinn hafi átt hann í sex mánuði.  Hvers vegna sex mánuði?  Það er meira töff en fimm mánuðir.  Búslóð þarf lágmark að samanstanda af stól og borði.  Það auðveldar dæmið ef að pottur er með.     

  Hinn möguleikinn er að hafa verið skráður fyrir bílnum í 12 mánuði.  Þá þarf enga búslóð með í pakkanum.   

  Sá sem hefur - án fyrirhyggju -  gripið með sér frá Bretlandi bíl með stýri hægra megin hefur um tvennt að velja:  

  a)  Flytja bílinn aftur út.  Bíða í sex mánuði og flytja hann þá inn ásamt borði  stól og potti.

  b)  Flytja bílinn aftur út.  Bíða í 12 mánuði og flytja hann þá inn án borðs,  stóls og potti.

  Í öllum tilfellum er þetta sami bíllinn.  Öryggi hans í umferðinni er það sama.  Eini munurinn er sá að embættismenn fá að kumra.  Það skiptir máli.  

----------------------------------------

  Á áttunda áratugnum skruppu þúsundir Íslendinga til Svíþjóðar að vinna í Volvo-verksmiðju og á fleiri stöðum.  Á þeim tíma kostuðu raftæki í Svíþjóð aðeins hálfvirði eða minna í samanburði við raftæki á Íslandi.  Þegar Íslendingarnar snéru heim var til siðs að kaupa gott sjónvarpstæki til að grípa með sér heim.  Vandamálið var að þeir þurftu að hafa átt það í eitt ár úti í Svíþjóð.  Sænskir sjónvarpssalar gáfu þeim kvittun með ársgamalli dagsetningu.  Ekkert mál.  Svíunum þótti þetta spaugilegt.  Til að skerpa á trúverðugleikanum spreyjuðu Svíarnir úr úðabrúsa ryki yfir sjónvarpstækið sem annars virtist vera nýtt.  Allir hlógu vel og lengi að þessu.  Nema embættismennirnir sem alvörugefnir skoðuðu kvittanir og kíktu á rykfallin sjónvarpstækin.

  


mbl.is Neitað um skráningu með hægra stýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvikmyndarumsögn

 
 
   - Titill:  París norðursins 
  - Handrit:  Huldar Breiðfjörð 
  - Leikstjórn:  Hafsteinn Gunnar Sigurðsson
  - Leikarar:  Björn Thors,  Helgi Björnsson,  Sigurður Skúlason,  Nanna Kristín Magnúsdóttir
  - Einkunn: *** (af 5)
 
  Myndin segir frá fjórum alkahólistum,  körlum á Flateyri.  Þeir hittast reglulega á AA fundum.  Að auki tengjast þeir á ýmsan hátt.  Þrír eru kviðmágar,  einn er faðir konu kviðmáganna.  Tveir í hópnum eru feðgar.  Þannig mætti áfram telja.
 
  AA fundirnir eru formlegir,  kjánalegir og vandræðalegir.  Allir vita allt um hvern annan.  Faðir konunnar er leiðtoginn og sá ábyrgðarfulli.  Hann slær um sig með tilvitnunum í bækur og misgáfulegum eigin kenningum.   Þar falla mörg spaugileg gullkorn.  Dæmi um það er þegar feðgarnir eru ósamstíga.  Faðirinn,  Veigar,  hefur flutt inn á son sinn,  Hugin.  Leiðtoginn leggur hart að Hugin að láta af meðvirkni og gera uppreisn.  Þegar hann ætlar herða upp hugann og setja Veigari stólinn fyrir dyrnar kemur í ljós að hann á afmæli þann dag.  Huginn lætur þá kyrrt liggja.  Er hann skýrir leiðtoganum frá því þá sýnir hann því skilning með kenningunni:  "Það eru mannréttindi að fá að eiga afmæli."   
 
  Sigurður Skúlason er klæðskerasaumaður í hlutverk leiðtogans.  Það er líklegt að hlutverkið hafi verið skrifað með hann í huga.  Hann er utan kvikmyndarinnar rödd útvarpsstöðvarinnar sem kallast í daglegu tali "Alkastöðin".   
 
  Helgi Björns og Björn Thors fara á kostum sem feðgarnir.  Báðir mjög trúverðugir í sínum hlutverkum. 
 
  Galli kvikmyndarinnar er að fátt ber til tíðinda.  Það er enginn spennandi söguþráður.  Myndin gæti hætt hvar sem er án þess að skilja eftir spurningar.  
  Á móti vega mörg brosleg samtöl og smávægileg fyndin tilvik.  Svo sem eins og þegar Veigar fer á rölt með hjólreiðahjálm á höfði.  
 
  Stórbrotið landslag með tignarlegum fjöllum rammar myndina glæsilega inn. 
  Myndin er aldrei leiðinleg.  Hún er meira skemmtileg.  Tónlist Prins Póló er frábær.  Það má setja spurningamerki við að lagið flotta,  titillagið, sé tvíspilað með stuttu millibili í myndinni.  Það er samt nógu flott til að réttlæta uppátækið. 
  Þeir sem hafa gaman af táknmáli í kvikmyndum fá sitthvað fyrir sinn snúð.  Huginn hleypur 10 km á dag.  Það undirstrikar stöðugan flótta hans frá óþægilegum aðstæðum.  Hann stendur aldrei með sjálfum sér,  hvort heldur sem er í kvennamálum eða gagnvart frekum föður.  Nöfn feðgana,  Hugins og Veigars,  fela í sér skilaboð.   
 
  Það er alveg hægt að mæla með París norðursins sem notalegri kvöldskemmtun í kvikmyndahúsi.            
   

Veiddur fyrir framan nefið á Sea Shepherd-liðum

ss gónir út á haf 

 Eins og allir vita þá hefur hópur á vegum bandarísku hryðjuverkasamtakanna Sea Shepherd staðið vakt í Færeyjum í allt sumar.  Hópurinn kom í byrjun júní og ætlar að standa vaktina út september.  Fátt hefur borið til tíðinda annað en sitthvað sem hefur gert SS að aðhlátursefni í Færeyjum og víðar.

  Á dögunum sást til SS-liða aka í átt að fjörunni í Hvannasundi.  Skyndilega var bílnum bremsað harkalega.  Út stukku nokkrir vígalegir menn.  Þeir höfðu komið auga á fýlsunga sem kjagaði stutt frá veginum.  

  Hinir herskáu SS-liðar virtust ekki þekkja til fuglsins.  Þeir nálguðust hann ofurhægt og hikandi.  Fuglinn gaf lítið fyrir SS fremur en aðrir í Færeyjum.  Eftir langan tíma og vandræðagang tókst bjargvættunum að koma fuglinum á skrið niður í fjöru og út á sjó.  Um leið og fuglinn synti frá fjöruborðinu stukku SS-liðarnir fagnandi og hrópandi upp í loftið og gáfu hver öðrum "háa fimmu".  

  Í sömu andrá kom Hvannasundsmaður á mótorbát siglandi.  Hann stefndi að unganum og veiddi hann með vönum handtökum hið snarasta.  Svo veifaði veiðimaðurinn til SS-liðanna í þakklætisskyni fyrir að hafa komið fengnum út á sjó til sín.  

  Síðan seldi hann fuglakjötið á 70 krónur (1400 ísl. kr.) í Þórshöfn.  

-------------------------------------

Hér er fleiri brosleg dæmi um ruglið á SS: 

 http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1436008/

 http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1434794/

  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1420693/

------------------------------------

    

      


Hlálegur misskilningur og eintómt rugl með "selfie"

barn 

  Það var ekki auðhlaupið að því að koma atvinnuleysi niður í það lægsta sem þekkst hefur í Evrópu.  Síst af öllu þegar samtímis eru boðaðar mestu kjarabætur sem þekkst hafa í Evrópu.  Svo ekki sé talað um að í ofanílag bætist stórtækasta skuldaleiðrétting sem þekkst hefur í öllum heiminum.  Upp á 300 eða 400 milljarða.  Og það öll á kostnað útlendra hrægamma án þess að íslenskir skattgreiðendur þurfi að leggja fram krónu.  Allt beint í vasann.  Ekki króna úr sameiginlegum ríkissjóði landsmanna.

  Forsætisráðherrann hefur í fögnuði yfir framvindu mála opinberað af sér fyrstu "selfie" ljósmynd mannkynssögunnar - að meðtalinni Biblíunni,  mörg þúsund ára gömlum þjóðsögum gyðinga í Arabíu.  Þær eru að mestu án ljósmynda.  Engin "selfie".  Og án trúverðugra teiknimynda ef út í það er farið. 

  Þegar SDG var 4 eða 5 ára eignaðist hann myndavél.  4 eða 5 árum síðar tók hann af sér "selfie" mynd.  4 eða 5 árum eftir það leit hann yfir sköpunarverk sitt.  Það var harla gott.  Það var betra en þegar skapari himins og jarðar leit yfir sköpunarverk sitt eftir að hafa í kolsvartamyrkri skapað ljós.  Nokkru síðar greindi hann það frá myrkrinu.  Í millitíðinni var algjört rugl á ljósi og myrkri. 

  Fyrir 4 eða 5 árum síðan dustaði SDG rykið af "selfie" myndinni sinni. af sér.  Núna,  4 eða 5 árum síðar skynjaði hann þörf heimsbyggðarinnar fyrir myndinni.  4 eða 5 geta vistað þær í tölvu,  prentað þær í 4 eða 5 eintökum út á pappír í lit,  rammað þær inn og hengt upp á svefnherbergisvegg.  4 eða 5 hafa þegar gert það.  Allir með lögheimili á eyðijörð á norð-austurhluta landsins.     

  Þegar tímasetningar sem SDG nefnir og aldur ríma ekki við raunveruleikann er vert að hafa í huga að fyrir honum er einn dagur sem þúsund ár og fyrir honum eru þúsund ár sem einn dagur.   

sigmundur-david-gunnlaugsson

    

 


mbl.is Sigmundur birtir gamla „selfie“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sláandi ljósmyndir

  Góð ljósmynd segir meira en þúsund orð.  Meira en tveggja klukkutíma löng kvikmynd.  Ljósmyndin frystir augnablikið og vel heppnuð ljósmynd fangar áhorfandann. Neglir hann niður.  Á alla hans athygli ótruflaða frá hljóði eða hreyfingu á öðrum en viðfangsefninu.

  Hér eru nokkur dæmi:

áhrifaríkar ljósmyndir - munkar biðja fyrir betri heimi

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Munkar á bæn.   

áhrifaríkar ljósmyndir - stelpa reykir

 

 

 

 

 

 

 

 Frá þeim árum er reykingar þóttu töff og hættulausar.  Jafnvel hollar.  Stelpan er kannski 10 ára eða svo.   

áhrifaríkar ljósmyndir - 3ja vikna albínói kúrir hjá frænku sinni 

  3ja vikna albinói kúrir hjá frænku sinni.

áhrifaríkar ljósmyndir - kona í Eþíópíu skoðar tímarit

  Kona í Eþíópíu skoðar franskt tískutímarit.  Nauðsynlegt að fylgjast með tískunni.

áhrifaríkar ljósmyndir - barn í flóttamannabúðum í Kosovo handlangað til afa síns

  Barn í flóttamannabúð í Kosovo handlangað til afa síns.

áhrifaríkar ljósmyndir - barn skoðar jakka pönkara

  Barn skoðar gadda á jakka pönkara.

áhrifaríkar ljósmyndir - breskur drengur gengur yfir götu og dregur á eftir sér leikfangastrætó

  Breskur drengur gengur yfir gangbraut og stöðvar akstur 2ja hæða strætisvagns.  Strákurinn dregur á eftir sér leikfangastrætó af sömu gerð. 


Yfirburðir færeysku kartöflunnar niðurægja íslenskar kartöflur

  Færeyingar kalla kartöflur epli.  Um það hef ég áður skrifað.  Líka hversu snilldarlega Færeyingar rækta kartöflur.  Um það má lesa með því að smella á þennan hlekk:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1303680/

  Færeyskar kartöflur eru stærri og bragðbetri en þær íslensku.  Stærsta færeyska kartaflan í ár vegur 711 grömm.   Hún er 18 cm löng og 20 cm í þvermál.  Það er reisn yfir færeyskum kartöflum í samanburði viö lambaspörð íslensku kartöflunnar. 

færeysk kartafla


Sleep Shepherd í bráðri lífshættu undir ógnandi byssuhlaupi í Færeyjum

 

  Á laugardaginn,  um kvöldið,  kom marsvínavaða (grind) upp í fjöru í Sandi á Sandey.  Þá varð "grindboð",  útkall.  Mótorbátar umkringdu vöðuna og þjálfaðir hvalveiðimenn slátruðu 33 marsvínum (grind).  Án sársauka fyrir dýrin,  vel að merkja.  Þau deyja á sekúndubroti við stungu í mænu.

  14 SS-liðar reyndu að trufla veiðina og flæma dýrin út á haf.  Þeir voru umsvifalaust handteknir af lögreglunni og færðir í járnum til Þórshafnar.  Eftir það gekk allt sinn vanagang.

  Í yfirheyrslum hjá lögreglunni lýsa sakborningar atburðarrás á þann hátt að ljóst er að sumir eru veruleikafirrtir.  Til að mynda segist ein daman hafa verið í bráðri lífshættu.  Henni hafi verið hótað undir byssukjafti lífláti.  Enginn annar varð var við byssu á svæðinu.  Né heldur hróp með hótunum.

  Flestir af handteknu SS-liðum koma fyrir dómara 25. sept.  Hald var lagt á þrjá SS-spíttbáta.  Þar á meðal einn sem er gerður út af bandarískum sjónvarpsþátta- og kvikmyndaleikara,  Charlie Sheen.  Sá ku vera einna frægastur fyrir ofbeldi gegn konum,  konulemjari.  En andvígur hvalveiðum.  Færeyingar hafa bent á þetta sem eitt af ótal dæmum um tvöfalt siðgæði SS-liða.    

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.