Færsluflokkur: Spaugilegt
26.11.2014 | 22:46
Snobb og heimska
Ég átta mig ekki að öllu leyti á fólki sem borgar á aðra milljón króna fyrir úr. Né heldur á fólki sem borgar á sjöunda hundrað króna fyrir eftirlíkingu af Rolex-úri. Ég hef aldrei átt úr sem kostar meira en 10 þúsund kall. Ég veit að vísu ekki hvað úrið kostaði sem ég fékk í fermingargjöf fyrir 44 árum. Það var ekkert dýrt. Í dag á ég ekki úr. Bara farsíma sem kostaði 4000 kall.
Úr er bara lítið tæki sem sýnir manni hvað klukkan er. Útlit þess skiptir litlu máli. Ef hægt er að kaupa úr á 2000 kall og það dugir í 10 - 15 ár þá er það góður kostur. Það er bull að kaupa milljón króna úr sem endist ævilangt.
Fyrir nokkrum áratugum pantaði kunningi minn sér frá Tælandi ódýra eftirlíkingu af Rolax úri. Þegar hann hitti ókunnugt fólk var hann stöðugt að taka um úrið, líta á það og best fannst honum ef tíminn barst í tal. Þá sagði hann: "Rolaxinn segir að klukkan sé...". Ég varð aldrei var við að nokkur manneskja áttaði sig á því í hvað hann var að vísa. Að minnsta kosti nefndi enginn úrið við hann.
Fyrir aldarfjórðungi eða svo kom á markað bílasími. Hann var stór hlunkur með mörgum ljósum og var áberandi í innréttingu bílsins. "Rolex" vinurinn keypti þá ódýra eftirlíkingu. Ég giska á að miðað við verðlag í dag hafi hún kostað kannski 10.000 - 15.000 kall. Ljósin á eftirlíkingunni voru áberandi. En eftirlíkingin var ekki sími.
Það er kannski gróft að kalla svona snobb heimsku. Viðkomandi er ekki heimskur. En snobb er ekki gáfulegt. Og það er dýrt.
![]() |
Sá strax að úrið var falsað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 27.11.2014 kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
25.11.2014 | 23:29
Ekki er allt sem sýnist
Bandarísk kona, nánar tiltekið í Kaliforníu, vann til margra ára sem bakari í bakaríi er sérhæfði sig í klámfengnum og erótískum kökum. Hún varð vör við að kúnnar sóttu í sætabrauð en vildu telja sjálfum sér í trú um að þeir væru meira fyrir heilsusamlegra fæði. Menn toguðust á um sætabrauð ef sykurskraut á því líktist gulrótasneiðum eða öðru grænmeti eða ávöxtum.
Kella fékk þá góða hugmynd: Að opna bakarí með sætabrauði sem lítur út eins og holl máltíð. Viti menn. Þetta sló í gegn svo um munaði. Allar ljósmyndir hér fyrir neðan sýna sætabrauð hennar sem virðist vera eitthvað annað og hollara. Þetta er allt saman sætabrauð.
Einn kúnni sem hefur borðað svona sætabrauð í öll mál í 5 ár heldur sér nokkurn veginn í þyngd. Hann hefur ekki bætt á sig nema 26 kg. Sem er ekki mikið hlutfallslega vegna þess að hann var 158 kg á meðan hann borðaði bara "venjulegan" mat. Hann er sprækur sem lækur. Fer allra sinna ferða lipurlega á rafmagnshjólastól.
Spaugilegt | Breytt 26.11.2014 kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.11.2014 | 01:28
Kækur lygara
Raðfréttir af embættismanni kristins safnaðar Fíladelfíu; raðlygara sem reynir eftir getu að venja sig af lygaáráttunni og kenna börnum sínum að ljúga ekki, rifja upp símtal sem ég átti við 6 ára systurson minn fyrir margt löngu.
Tekið skal fram að ég er fylgjandi því að bæði lygarar og sannsöglir kenni börnum sínum að ljúga lítið sem ekkert. Og aðallega lítið.
Ég hringdi í Svandísi systir mína á Akureyri. Systursonur okkar svaraði í símann. Hann sagðist vera í pössun hjá Svandísi ásamt bróður sínum. Ég spurði hvort að þeir bræður væru ekki stilltir og þægir í pössuninni. Stráksi svaraði að þeir væru það. Nema að Svandís væri ósátt við að þeir ættu það til að róla sér á hurðum hjá henni. Þá yrði hún alltaf reið. Ég sagði: "Þið verðið að hætta því." Sá 6 ára svaraði: "Já, ég er að reyna að venja mig af því!"
![]() |
Bað Sigríði um upplýsingar um Omos |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.11.2014 | 21:10
Kvikmyndarumsögn
- Titill: Dumb and Dumber To
- Leikstjórar: Peter og Bobby Farrelly
- Leikarar: Jim Carrey og Jeff Daniels
- Einkunn: **1/2 (af 5)
Fyrir tuttugu árum kom á markað bandarísk gamanmynd, Dumb and Dumber. Hún var fersk og innihélt nokkrar eftiminnilegar fyndnar senur. 2003 leit dagsins ljós myndin Dumb and Dumberer. Hún á að hafa gerst á undan Dumb and Dumber og sýna persónurnar yngri. Með öðrum leikurum og öðrum leikstjóra. Dumb and Dumberer var og er misheppnuð og ófyndin gamanmynd.
Nú er komin á hvíta tjaldið myndin Dumb and Dumber To. Hún skartar sömu aðalleikurum og Dumb and Dumber. Jafnframt eru leikstjórar þeir sömu.
Söguþráðurinn skiptir litlu máli. Hann skapar engar væntingar um framvindu né spennu (en á samt að framkalla spennu). Stöku brandarar, skondin tilsvör og leikur hins kanadíska Jims Carreys bera myndina uppi. Ofleikur Jims er skemmtilegur og allt að því "sannfærandi". Ofleikur Jeffs Daniels er ósannfærandi en venst er líður á myndina.
Fjöldi brandara er þokkalega fyndinn. Enn fleiri eru nær því að vera broslegir. Með slæðist bull, della og aulahúmor sem höfðar til barna en ekki fullorðinna. Það sýndi sig af viðbrögðum áhorfenda í salnum. Börn og fullorðnir hlógu ekki undir sömu senum í myndinni.
Handritshöfundar eru sex. Áreiðanlega flestir í því hlutverki að semja brandara fremur en bæta þunnan söguþráð. Myndin gengur, jú, út á brandarana.
Takturinn í myndinni er þægilega hraður og jafn út í gegn. Það er alltaf stutt í næstu spaugileg tilsvör og aðra brandara. Margar senur eru allt að því endurtekning á senum úr fyrstu myndinni. Einnig er nokkuð um leiftur (flash back) úr þeirri mynd. Upphafslagið er hið sama, Boom Shack-A-Lack með indverskættaða spaugfuglinum Apache Indian. Flott ragga-muffin lag með blús-hljómagangi.
![]() |
Heimskur, heimskari á toppinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 17.11.2014 kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.10.2014 | 14:43
Lennon og Marley eru pöddur
Í Brasilíu er að finna allskonar skordýr. Þar á meðal ýmsar skemmtilegar köngulær. Ein tegundin heitir Bumba Lennoni. Jú, rétt. Hún er nefnd í höfuðið á forsprakka bresku Bítlanna, Jóni Lennon.
Önnur köngulóartegund heitir Aptostichus Bonoi. Hún gengur undir gælunafninu Joshua Tree Trapdoor köngulóin. Heitið hefur eitthvað með írska söngvarann Bono (U2) að gera.
Enn ein köngulóartegundin heitir Loureedia Annulipes. Hún er kennd við söngvaskáldið bandaríska Lou Reed.
Það er líka til sjávarlúsartegund sem heitir Gnathia Marleyi. Nafn hennar er sótt í höfuðið á jamaíska reggí-goðinu Bob Marley.
Skelfiskstegund sem dó út fyrir 300 milljónum ára kallast Amaurotoma Zappa. Bæði hún og fílapenslabakterían Vallaris Zappia eru nefnd eftir bandaríska háðfuglinum og tónlistarmanninum Frank Zappa.
Egypskt vatnasvín þykir bera munnsvip líkan breska blúsrokksöngvaranum Mick Jagger. Þess vegna heitir tegundin Jaggermeryx Naida.
Spaugilegt | Breytt 11.12.2015 kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.9.2014 | 17:35
Ráð til að verjast ormum í sushi
Á síðustu áratugum hafa Íslendingar frekar viljað vera án orma í skrokknum en ekki. Á þessu hefur upp á síðkastið mátt greina breytingu. Íslendingar eru farnir að úða í sig við öll tækifæri hráan fisk í bland við soðin og klesst hrísgrjón. Þannig blanda gengur undir nafninu sushi, en mætti kallast ormakonfekt. Hrár fiskur er iðulega iðandi í ormum. Það getur verið erfitt að koma auga á bölvaðan orminn. Hann lætur sjaldan mikið fyrir sér fara. Ennþá minna fer fyrir ormaeggjunum. Þau eru örsmá og klekjast út í maganum á sushi-ætunni.
Út af fyrir sig er að mestu skaðlítið að vera með spriklandi orm í mallakútnum. Hringormurinn er ólíklegur til að gera mikinn usla. Bandormurinn er herskárri. Hann getur dreift sér um líkamann. Það veldur kláða og óþægilegum fiðringi.
Sumar sushi-ætur hafa ekki hugmynd um að ormar leynist í fiski. Ennþá síður grunar þær að lifandi ormar leynist í hráum fiski. Til að forðast spriklandi orma í heimalöguðu sushi er ráð að djúpfrysta fiskinn. Við það fær ormurinn lungnabólgu og deyr. Eftir það er hann ekki upp á marga fiska.
Síðan er bara að muna eftir því að þíða fiskinn áður hann er notaður í sushi.
Spaugilegt | Breytt 2.12.2015 kl. 09:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.9.2014 | 21:26
Embættismenn skemmta sér
Margar reglur eru skrítnar, kjánalegar og til mikillar óþurftar. Opinberir embættismenn skemmta sér aldrei betur en þegar þeir fá tækifæri til að beita þessum reglum. Þá kumra þeir innan í sér. Sjálfsálit þeirra fer á flug þegar þeir fá að þreifa á valdi sínu.
Nýjasta dæmið er bann Samgöngustofu, staðfest af ráuneyti Hönnu Birnu og aðstoðarmanna hennar - annar í fríi (ríkisvæddur frjálshyggjudrengur með 900 þús kall í mánaðrlaun á ríkisjötunni), á innfluttum bíl frá Bretlandi. Stýrið er hægra megin. Margir slíkir bílar eru og hafa verið í umferð á Íslandi. Án þess að nokkur vandræði hafi hlotist af. Bílar með stýri hægra megin aka vandræðalaust um Evrópu þvers og kruss. Ég man ekki betur en að söngkonan Ragga Gísla hafi ekið með reisn á þannig bíl um götur Reykjavíkur. Ég hef ekið í breskri vinstri umferð á bíl með stýri vinstra megin. Ekkert mál.
Þetta hefur lítið sem ekkert með umferðaröryggi að gera (þó að því sé borið við). Þetta hefur aðallega með það að gera að farþegum sé hleypt út gangstéttarmegin í stað þess að æða út í umferðina.
Enda má flytja inn til landsins bíl með stýri hægra megin ef að hann er hluti af búslóð og eigandinn hafi átt hann í sex mánuði. Hvers vegna sex mánuði? Það er meira töff en fimm mánuðir. Búslóð þarf lágmark að samanstanda af stól og borði. Það auðveldar dæmið ef að pottur er með.
Hinn möguleikinn er að hafa verið skráður fyrir bílnum í 12 mánuði. Þá þarf enga búslóð með í pakkanum.
Sá sem hefur - án fyrirhyggju - gripið með sér frá Bretlandi bíl með stýri hægra megin hefur um tvennt að velja:
a) Flytja bílinn aftur út. Bíða í sex mánuði og flytja hann þá inn ásamt borði stól og potti.
b) Flytja bílinn aftur út. Bíða í 12 mánuði og flytja hann þá inn án borðs, stóls og potti.
Í öllum tilfellum er þetta sami bíllinn. Öryggi hans í umferðinni er það sama. Eini munurinn er sá að embættismenn fá að kumra. Það skiptir máli.
----------------------------------------
Á áttunda áratugnum skruppu þúsundir Íslendinga til Svíþjóðar að vinna í Volvo-verksmiðju og á fleiri stöðum. Á þeim tíma kostuðu raftæki í Svíþjóð aðeins hálfvirði eða minna í samanburði við raftæki á Íslandi. Þegar Íslendingarnar snéru heim var til siðs að kaupa gott sjónvarpstæki til að grípa með sér heim. Vandamálið var að þeir þurftu að hafa átt það í eitt ár úti í Svíþjóð. Sænskir sjónvarpssalar gáfu þeim kvittun með ársgamalli dagsetningu. Ekkert mál. Svíunum þótti þetta spaugilegt. Til að skerpa á trúverðugleikanum spreyjuðu Svíarnir úr úðabrúsa ryki yfir sjónvarpstækið sem annars virtist vera nýtt. Allir hlógu vel og lengi að þessu. Nema embættismennirnir sem alvörugefnir skoðuðu kvittanir og kíktu á rykfallin sjónvarpstækin.
![]() |
Neitað um skráningu með hægra stýri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 17.9.2014 kl. 00:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.9.2014 | 00:34
Kvikmyndarumsögn
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2014 | 21:12
Veiddur fyrir framan nefið á Sea Shepherd-liðum
Eins og allir vita þá hefur hópur á vegum bandarísku hryðjuverkasamtakanna Sea Shepherd staðið vakt í Færeyjum í allt sumar. Hópurinn kom í byrjun júní og ætlar að standa vaktina út september. Fátt hefur borið til tíðinda annað en sitthvað sem hefur gert SS að aðhlátursefni í Færeyjum og víðar.
Á dögunum sást til SS-liða aka í átt að fjörunni í Hvannasundi. Skyndilega var bílnum bremsað harkalega. Út stukku nokkrir vígalegir menn. Þeir höfðu komið auga á fýlsunga sem kjagaði stutt frá veginum.
Hinir herskáu SS-liðar virtust ekki þekkja til fuglsins. Þeir nálguðust hann ofurhægt og hikandi. Fuglinn gaf lítið fyrir SS fremur en aðrir í Færeyjum. Eftir langan tíma og vandræðagang tókst bjargvættunum að koma fuglinum á skrið niður í fjöru og út á sjó. Um leið og fuglinn synti frá fjöruborðinu stukku SS-liðarnir fagnandi og hrópandi upp í loftið og gáfu hver öðrum "háa fimmu".
Í sömu andrá kom Hvannasundsmaður á mótorbát siglandi. Hann stefndi að unganum og veiddi hann með vönum handtökum hið snarasta. Svo veifaði veiðimaðurinn til SS-liðanna í þakklætisskyni fyrir að hafa komið fengnum út á sjó til sín.
Síðan seldi hann fuglakjötið á 70 krónur (1400 ísl. kr.) í Þórshöfn.
-------------------------------------
Hér er fleiri brosleg dæmi um ruglið á SS:
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1436008/
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1434794/
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1420693/
------------------------------------
Spaugilegt | Breytt 11.9.2014 kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.9.2014 | 23:54
Hlálegur misskilningur og eintómt rugl með "selfie"
Það var ekki auðhlaupið að því að koma atvinnuleysi niður í það lægsta sem þekkst hefur í Evrópu. Síst af öllu þegar samtímis eru boðaðar mestu kjarabætur sem þekkst hafa í Evrópu. Svo ekki sé talað um að í ofanílag bætist stórtækasta skuldaleiðrétting sem þekkst hefur í öllum heiminum. Upp á 300 eða 400 milljarða. Og það öll á kostnað útlendra hrægamma án þess að íslenskir skattgreiðendur þurfi að leggja fram krónu. Allt beint í vasann. Ekki króna úr sameiginlegum ríkissjóði landsmanna.
Forsætisráðherrann hefur í fögnuði yfir framvindu mála opinberað af sér fyrstu "selfie" ljósmynd mannkynssögunnar - að meðtalinni Biblíunni, mörg þúsund ára gömlum þjóðsögum gyðinga í Arabíu. Þær eru að mestu án ljósmynda. Engin "selfie". Og án trúverðugra teiknimynda ef út í það er farið.
Þegar SDG var 4 eða 5 ára eignaðist hann myndavél. 4 eða 5 árum síðar tók hann af sér "selfie" mynd. 4 eða 5 árum eftir það leit hann yfir sköpunarverk sitt. Það var harla gott. Það var betra en þegar skapari himins og jarðar leit yfir sköpunarverk sitt eftir að hafa í kolsvartamyrkri skapað ljós. Nokkru síðar greindi hann það frá myrkrinu. Í millitíðinni var algjört rugl á ljósi og myrkri.
Fyrir 4 eða 5 árum síðan dustaði SDG rykið af "selfie" myndinni sinni. af sér. Núna, 4 eða 5 árum síðar skynjaði hann þörf heimsbyggðarinnar fyrir myndinni. 4 eða 5 geta vistað þær í tölvu, prentað þær í 4 eða 5 eintökum út á pappír í lit, rammað þær inn og hengt upp á svefnherbergisvegg. 4 eða 5 hafa þegar gert það. Allir með lögheimili á eyðijörð á norð-austurhluta landsins.
Þegar tímasetningar sem SDG nefnir og aldur ríma ekki við raunveruleikann er vert að hafa í huga að fyrir honum er einn dagur sem þúsund ár og fyrir honum eru þúsund ár sem einn dagur.
![]() |
Sigmundur birtir gamla selfie |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 9.9.2014 kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)