Færsluflokkur: Spaugilegt

Aldraðir glæpamenn

  Ég átti erindi í bókasafn.  Þar sátu tveir aldraðir karlar og ein gömul kona.  Ég giska á að þau hafi verið um eða yfir áttrætt.  Spjall þeirra barst að forréttindum aldraðra.  Þau könnuðust við að komast upp með eitt og annað vegna þess að almenningur standi í þeirri trú að gamalt fólk sé heiðarlegt.  Þau flissuðu og karlarnir nefndu dæmi.

  Annar sagðist ekki lengur aka bíl.  Þess í stað taki hann strætó - án þess að borga.  Hann tekur upp símann,  leggur hann á lesarann en borgar ekki.  Bílstjórarnir fatta ekki neitt.

  Hinn hafði unnið hjá stóru fyrirtæki.  Starfsmenn fengu skírteini sem veitir afslátt á ýmsum vörum og þjónustu.  Skírteinið er löngu útrunnið.  Hann notar það samt stöðugt og enginn fattar.    

  Þeir komust upp með að hnupla smáhlutum í verslunum.  Öryggisverðir og afgreiðslufólk vaktar bara ungt fólk.  Þeir eiga líka til að fara á matsölustaði sem rukka eftir á.  Þeir stinga af þegar komið er að borgun.  Trixið er að fara út í rólegheitum.  Ef þeir eru nappaðir þá leika þeir sig ringlaða.  Þykjast ekki skilja upp né niður.  Allir sýna því skilning. 

  "Ég myndi alddrei þora neinu svona,"  sagði konan og staulaðist út.


Banki rassskelltur

  Um eða eftir miðjan níunda áratuginn var hraðbanki kynntur til sögunnar.  Sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi á,  eins og skáldið orðaði það.  Nýjungin var kynnt með öflugri auglýsingaherferð.  Sú kostaði skildinginn.   

  Maður nokkur átti bankanum grátt að gjalda.  Hann hafði skrifað upp á ábyrgð fyrir bankaláni ættingja.  Ábyrgðin var upp á 500 þúsund.  Lánið lenti í vanskilum.  Bankinn skuldsetti manninn.  Verra var að bankinn uppfærði upphæðina til samræmis við verðbólgu þess tíma.  Maðurinn var ósáttur og fór með málið fyrir dómstóla.  Þar tapaði hann málinu.

  Maðurinn stofnaði fyrirtækið Hraðbanki og festi sér nafnið í firmaskrá.  Því næst gekk hann á fund bankastjóra.  Gerði honum grein fyrir því hver ætti nafnið Hraðbanki.  Næsta skref væri að fá lögbann sett á auglýsingaherferðina.  Eða - það sem hann væri líka til viðræðu um - að bankinn keypti af sér nafnið.  Það væri falt fyrir 1200 þúsund krónur. 

  Maðurinn var ekki með frekju.  Þetta var sú upphæð sem hann hafði tapað í viðskiptunum við bankann.  Upphæðin var aðeins brotabrot af því sem auglýsingaherferð bankans kostaði.  Bankastjórn stökk með snatri á tilboðið. 

   


Klaufalegt mont

  Ég hef efasemdir um að fólk verði gáfaðra af hassreykingum.  Hvað þá að það verði miklu gáfaðra af þeim.  Kannski er það einstaklingsbundið.  Sumir hasshausar virðast ekki burðast með meiri gáfur en gerist og gengur. 

  Unglingspiltur í Bandaríkjunum tók upp á því að rækta kannabis.  Fljótlega varð hann stórtækur.  Árangurinn steig honum til höfuðs.  Hann kom sér upp netsíðu.  Þar hældi hann sér af velgengninni.  Var meðal annars duglegur við að sýna ljósmyndir af plöntunum.

  Lögreglan var ekki lengi að bruna heim til hans.  Hann var færður fyrir dómara.

  - Hvernig í ósköpunum datt þér í hug að auglýsa glæpinn á opinni netsíðu?  spurði dómarinn.

  - Ég hélt að löggan hefði annað og þarfara við tímann að gera en hanga á netinu,  svaraði kauði og uppskar 4ra ára fangelsisvist.

hass   


Ævintýraleg bílakaup

  1980 útskrifaðist ég úr MHÍ.  Þá lauk blankasta kafla ævi minnar.  Nokkru síðar fór ég að skima eftir ódýrum bíl.  Enda kominn með fjölskyldu.  Í gegnum smáauglýsingu í dagblaði bauðst mér að kaupa gamla Lödu.  Tvær systur áttu hann.  Sökum aldurs treystu þær sér ekki lengur út í umferðina.  Þær höfðu reyndar aldrei keyrt nema smávegis yfir hásumarið.  Bíllinn var ótrúlega lítið keyrður. 

  Ég skottaðist til systranna.  Þær bjuggu á efstu hæð í lyftulausri blokk.  Eftir spjall fylgdi önnur þeirra mér út að bíl.  Hún átti erfitt með gang.  Við vorum svo sem ekkert að flýta okkur.

  Bíllinn leit út eins og nýr.  - Hvað sagðir þú að hann væri gamall?  spurði ég.

  - Hann verður 12 ára núna 7. september,  svaraði hún án umhugsunar.

  Ég hrósaði lakkinu.  Hvergi ryð að sjá.  - Jú,  því miður,  andvarpaði konan.  Hún hafði fundið ryðblett.  Hún mundi ekki hvar hann var.  Hófst þá leit.  Ég leitaði líka.  -  Hann er neðarlega,  útskýrði hún.  Að nokkrum tíma liðnum fannst hann neðan við framhurð farþegamegin.  Þetta var smá bóla.  Varla stærri en einn mm í þvermál. 

  -  Ég var heppin að vera komin með ný gleraugu,  sagði hún.  - Ég sé svo miklu betur með þau.

   Ég spurði hvort bíllinn hafi sloppið við óhöpp.  Nei,  það kom dæld á frambretti.  Hún var löguð á verkstæði.  Sást ekki að utan en hún bauð mér að þreifa á brettinu að innanverðu.  Þar mátti finna örlitla ójöfnu.  Jafnframt sýndi hún mér smáa saumsprettu á fóðri fyrir ofan aftursæti.  Aldrei hafði neinn setið í aftursætinu.  Þetta væri framleiðslugalli.  Ég hefði ekki tekið eftir saumsprettunni sjálfur.

  Ég nefndi að gaman væri að setja bílinn í gang og sjá hvernig hann hagaði sér í umferðinni.  Sú gamla dró upp bíllykla.  Í stað þess að rétta mér lyklana þá settist hún undir stýri,  lokaði dyrum og startaði.  Ég bjóst að setjast inn farþegamegin en hún brunaði af stað.  Hún tók stóran sveig á bílaplaninu og ég horfði síðan á eftir henni hverfa fyrir horn blokkarinnar.  Að nokkrum mínútum liðnum kom hún brunandi aftur,  drap á bílnum, kom út skælbrosandi og sagði: -  Það held ég nú að hann mali fallega.  Hann er eins og hugur manns í umferðinni! 

  Ég keypti bílinn án þess að hafa sest inn í hann.  Konan tók af mér loforð um að fara vel með hann.  - Hann þekkir ekkert annað. 

  Hún fékk símanúmer mitt:  - Til að fylgjast með hvernig honum reiðir af.  

lada


Rangur misskilningur

  Til margra ára var sjoppulúgan á BSÍ umferðamiðstöðinni fastur áfangastaður á djamminu.  Þegar skemmtistöðum var lokað á nóttunni var notalegt að renna upp að lúgunni og fá sér kjamma með rófustöppu undir svefninn.   Á skemmtistöðunum neytti fólk ekki fastrar fæðu en þeim mun meira af fljótandi vökvum.  Oft áfengum. 

  Á daginn var veitingastaður inni í umferðamiðstöðinni.  Þar var boðið upp á gamaldags heimilismat á ágætu verði.  Líka hamborgara.

  Eitt sinn var ég staddur á veitingastaðnum.  Þangað inn kom par,  á að giska 17-18 ára.  Parið fór skoðunarferð um staðinn.  Svo spurði stelpan:  "Eigum við að fá okkur hamborgara?"  Strákurinn svaraði:  "Við skulum frekar fá okkur hamborgara í bílalúgunni." 

  "Viltu frekar borða út í bíl?" spurði hún undrandi.  

  "Borgararnir eru miklu betri í lúgunni," fullyrti kauði.  

  Stelpan bendi honum á að þetta væru sömu borgararnir.  Strákur þrætti.  Hélt því fram að lúgan væri á allt öðrum stað í húsinu.  Hann gekk út af staðnum en ekki stelpan.  Eftir nokkra stund kom hann aftur inn og spurði afgreiðslumanninn:  "Það eru ekki sömu hamborgarar seldir hér og í lúgunni,  er það?"

  Afgreiðslumaðurinn útskýrði:  "Þetta er sama eldhúsið og sömu hamborgarar."

  Pilturinn horfði undrandi og afsakandi á stelpuna og tautaði:  "Skrýtið.  Mér hefur alltaf þótt borgararnir í lúgunni miklu meira djúsí."

bsí


Tímafrekt að rekast á ölvaðan mann

  Það var föstudagskvöld.  Að venju ekkert að gera hjá lögregluþjónunum tveim í Klakksvík,  höfuðborg norðureyjanna í Færeyjum.  Einskonar Akureyri þeirra.  Um miðnætti var farið í eftirlitsferð um bæinn.  Þá rákust þeir á ungan mann vel við skál.  Hann var með nýtt smávægilega blóðrisa fleiður.  Enga skýringu kunni hann á tilurð þess.  Kom af fjöllum. 

  Lögum samkvæmt verður læknir að gefa út vottorð um að óhætt sé að láta mann með áverka í fangaklefa. Lög eru lög.  Lögreglan ráðfærði sig við neyðarlínuna.  Úr varð að ekið var með manninn í neyðarvakt sjúkrahússins í Klakksvík.  Vakthafandi læknir treysti sér ekki til að skrifa upp á vottorð á meðan engar upplýsingar væru um tilurð fleiðursins. 

  Lögreglan ók þá með manninn sem leið lá til Þórshafnar,  höfuðborgar Færeyja.  Vegna veðurs og slæms skyggnis tók ferðin fjóra tíma.  Maðurinn var skráður inn á bráðamóttöku borgarspítalans.  Vakthafandi læknir gaf þegar í stað út vottorð um að óhætt væri að hýsa manninn í fangaklefa.  Hann hvatti jafnframt til þess að maðurinn fengi að sofa úr sér vímuna í Þórshöfn. Gott væri að gefa honum kaffibolla.  Var hann því næst sendur með leigubíl frá borgarspítalanum með fyrirmæli um að leggja sig í fangaklefa hjá Þórshafnarlögreglunni.   

  Lögregluþjónarnir snéru aftur til Klakksvíkur.  Sælir eftir óvenju erilssama nótt.  Upp var runninn sólbjartur morgunn.  

      


Naflaskraut

  Við höfum heyrt út undan okkur að töluvert sé um að ungar konur fái sér naflaskraut.  Þetta er svo gott sem tískufyrirbæri.  Jafnan eru það nettir "eyrnalokkar" sem fá að prýða naflann.  Þeir passa samt ekki öllum.  Þá er þetta ráðið.

naflaskraut


Fólkið sem reddar sér

  Fjórar fjölskyldur í Essex á Englandi urðu heimilislausar eftir að íbúðir þeirra brunnu til kaldra kola.  Þetta atvikaðist þannig að húsbóndinn á einu heimilinu tók eftir því að útimálningin var farin að flagna af.  Honum hraus hugur við að þurfa að eyða sólríkum degi í að skafa málninguna af.  Til að spara sér puð brá hann á ráð:  Hann úðaði bensíni yfir húsið og kveikti í.  Málningin fuðraði upp eins og dögg fyrir sólu.  Líka húsið og nálæg hús.

  Orkuboltinum Christina Lamb í Cornwall á Englandi datt í hug að reisa verönd við hús sitt.  Hún hófst þegar handa við að grafa grunn.  Í ákafa tókst henni að höggva í sundur gasleiðslu bæjarins sem stóð eftir í ljósum loga.

  Mike Howel í Bristol á Englandi var ekkert að æsa sig yfir því að festa fingur í smíðabekk sínum.  Fingurinn var pikkfastur.  En hann var svo sem ekki að fara neitt.  Mike hafði fátt betra að gera þann daginnn en rölta með fingurinn og smíðabekkinn 3ja kílómetraleið á sjúkrahús.  Það tók aðeins 8 klukkutíma.  Hefði tekið styttri tíma ef vegfarendur hefðu ekki stöðugt verið að stoppa og spyrja út í dæmið.  

       


Smásaga um trekant sem endaði með ósköpum

  Jonni átti sér draum.  Hann var um trekant með tveimur konum.  Þegar hann fékk sér í glas impraði hann á draumnum við konu sína.  Hún tók því illa.

  Árin liðu.  Kunninginn færði þetta æ sjaldnar í tal.  Börnin uxu úr grasi og fluttu að heiman.  Hjónin minnkuðu við sig.  Keyptu snotra íbúð í tvíbýlishúsi.  Í hinni íbúðinni bjuggu hjón á svipuðum aldri.  Góður vinskapur tókst með þeim.  Samgangur varð mikill.  Hópurinn eldaði saman um helgar,  horfði saman á sjónvarp,  fór saman í leikhús, á dansleiki og til Tenerife.

  Einn daginn veiktist hinn maðurinn.  Hann lagðist inn á sjúkrahús.  Á laugardagskvöldi grillaði Jonni fyrir þau sem heima sátu.  Grillmatnum var skolað niður með rauðvíni.  Eftir matinn var skipt yfir í sterkara áfengi.  Er leið á kvöldið urðu tök á drykkjunni losaralegri.  Fólkið varð blindfullt. 

  Þegar svefndrungi færðist yfir bankaði gamli draumurinn upp hjá Jonna.  Leikar fóru þannig að draumurinn rættist loks.  Morguninn eftir vaknaði kappinn illa timbraður.  Konurnar var hvergi að sjá.  Sunnudagurinn leið án þess að málið skýrðist.  Á mánudeginum hringdi frúin loks í mann sinn.  Tjáði honum að þær vinkonurnar hefðu uppgötvað nýja hlið á sér.  Þær ætluðu að taka saman.  Sem þær gerðu.  Eftir situr aleinn og niðurbrotinn maður.  Hann bölvar því að draumurinn hafi ræst.

Threesome      


Smásaga um flugferð

  Haukur var háaldraður þegar hann flaug í fyrsta skipti með flugvél.  Tilhugsunin olli honum kvíða og áhyggjum.  Hann áttaði sig á að þetta var flughræðsla á háu stigi.  Til að slá á kvíðakastið leitaði hann sér upplýsinga um helstu ástæður fyrir flugslysum.  Það gerði illt verra.  Jók aðeins kvíðakastið.

  Áður en Haukur skjögraði um borð deyfði hann sig með koníaki sem hann þambaði af stút.  Það kom niður á veiklulegu göngulagi fúinna fóta.  Hann fékk aðstoð við að staulast upp landganginn.  Allt gekk vel.

  Nokkru eftir flugtak tók hann af sér öryggisbeltið og stóð upp.  Hann mjakaði sér hálfhrasandi að útihurð vélarinnar. Í sama mund og hann greip um handfangið stökk flugfreyja fram fyrir hann og kallaði höstuglega:  "Hvað heldurðu að þú sért að gera?"

  "Ég þarf að skreppa á klósett," útskýrði hann. 

  "Ef þú opnar dyrnar hrapar flugvélin og ferst!" gargaði flugfreyjan æstum rómi.

  Kalli var illa brugðið.  Hann snérist eldsnöggt á hæl og stikaði óvenju styrkum fótum inn eftir flugvélinni.  Um leið hrópaði hann upp yfir sig í geðshræringu:  "Hvur þremillinn!   Ég verð að skorða mig aftast í vélinni.  Þar er öruggast þegar vélin hrapar!"        

flugvél  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.