Færsluflokkur: Spaugilegt
19.2.2023 | 12:03
Kossaráð
Kærustupör lenda iðulega í hremmingum þegar kossaárátta blossar upp hjá þeim. Vandamálið er nefið. Það er illa staðsett á miðju andlitinu. Þar skagar það út í loftið eins og Snæfellsnes. Við kossaflangsið rekast nefin venjulega harkalega saman. Oft svo illa að á eftir liggur parið afvelta á bakinu með fossandi blóðnasir. Við það hverfur öll rómantík eins og dögg fyrir sólu.
Þetta þarf ekki að vera svona. Til er pottþétt kossaaðferð sem setur nefin ekki í neina hættu. Hún er svona (smella á mynd til að stækka):
14.1.2023 | 13:10
Ást í háloftunum
Ég brá mér á pöbb. Þar var ung kona. Við erum málkunnug. Við tókum spjall saman. Hún var í flugnámi og ætlaði að taka próf daginn eftir. Hún var með bullandi prófskrekk. Sú var ástæðan fyrir pöbbarölti hennar. Hún var að slá á skrekkinn.
Við höfðum ekki spjallað lengi er ungur maður settist við borðið hjá okkur. Hann þekkti okkur ekki en var hress og kátur. Hann sagðist vera nýskilinn að Vestan og það væri eitthvað eirðaleysi eða einmannleiki í sér. Tal beindist fljótlega að prófskrekknum. Maðurinn sagði að prófið væri ekkert mál. Hann væri flugmaður og gæti leiðbeint konunni daginn eftir. Tók hún þá gleði sína og skrekkurinn fjaraði út. Vel fór á með þeim og að lokum leiddust þau út í leigubíl.
Nokkru síðar sagði bardaman mér að snurða hafi hlaupið á hjá skötuhjúunum. Konan hafði komið grátandi á barinn og sagt farir sínar ekki sléttar. Þau höfðu að vísu átt góða nótt. En að lokinni heimaleikfimi um morguninn flýtti maðurinn að klæða sig. Hann sagðist vera of seinn út á flugvöll. Hann þyrfti að sækja konuna sína þangað.
Bólvinkonan benti honum á að hann hefði sagst vera fráskilinn að Vestan. "Ég var bara að vitna í dægurlag með Önnu Vilhjálms," svaraði hann hlæjandi. "En hvað með flugprófið?" spurði hún. "Það var spaug," svaraði hann. "Ég veit ekkert um flugvélar. Ég er strætóbílstjóri!"
Spaugilegt | Breytt 15.1.2023 kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.1.2023 | 11:33
Sjaldan launar kálfur ofeldi.
Ég þekki konu eina. Við erum málkunnug. Þegar ég rekst á hana tökum við spjall saman. Hún er fátæk einstæð móðir 23ja ára manns. Þrátt fyrir aldurinn býr hann enn heima hjá henni. Hann er dekurbarn. Konan er í vandræðum með að ná endum saman um hver mánaðarmót. Eini lúxus hennar er að reka gamla bíldruslu. Það er eiginlega í neyð. Hún á erfitt með gang vegna astma og fótfúa. Hún kemst ekki í búð án bílsins.
Núna um helgina varð hún á vegi mínum. Hún sagði farir sínar ekki sléttar. Kvöldið áður bað sonurinn um að fá bílinn lánaðan. Honum var boðið í partý. Konan tók vel í það. Sjálf þurfti hún að fara einhverra erinda út í bæ. Það passaði að sonurinn skutlaði henni þangað í leiðinni.
Er hún var komin á leiðarenda tilkynnti hún syninum að hann þyrfti að sækja sig um klukkan 11.
- Ekki séns, svaraði kauði.
- Hvað átt þú við? Ég þarf að komast heim, útskýrði konan.
- Ég er að fara í partý. Það verður nóg að drekka. En það verður enginn ölvunarakstur.
- Ég er að lána þér bílinn minn. Þú skalt gjöra svo vel og sjá mér fyrir fari heim.
- Þú verður að redda þér sjálf.
- Hvernig á ég að redda mér fari? Ég get hvorki tekið strætó né gengið heim.
- Hefur þú aldrei heyrt talað um taxa? hrópaði sonurinn um leið og hann reykspólaði burt.
Spaugilegt | Breytt 14.1.2023 kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
24.12.2022 | 12:44
Rökföst
Í gær ræddi ég við unga stúlku um jólin.
- Hvað verður í matinn hjá ykkur á aðfangadag? spurði ég.
- Það er alltaf tvíréttað; lamb og svín, svaraði hún.
- En á jóladag?
- Ég veit það ekki. Enda er það ekkert merkilegur dagur!
- Jú, jóladagurinn er eiginlega skilgreindur sem aðal jóladagurinn.
- Í útlöndum, já. Á Íslandi er aðfangadagur aðal jóladagurinn. Þá bjóðum við hvert öðru gleðileg jól; þá er mesta veislan og við opnum jólapakkana, lesum á jólakort og leikum okkur.
- Það er rétt hjá þér að þetta er misvísandi. En orðið aðfangadagur þýðir að þetta sé dagurinn fyrir jóladag; aðdragandi jóla.
- Hvers vegna heldur þú að í súkkulaðijóladagatalinu sé síðasti dagurinn 24. des? 25. des er ekki einu sinni í dagatalinu.
Ég var mát!
Jólunum er aflýst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 29.12.2022 kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.12.2022 | 23:58
Óvinafagnaður
Ég var gestkomandi úti í bæ. Þar hittust einnig tvær háaldraðar systur. Þær höfðu ekki hist í langan tíma. Það urðu því fagnaðarfundir. Þær höfðu frá mörgu að segja. Þar á meðal barst tal að frænku þeirra á svipuðum aldri. Þær báru henni illa söguna. Fundu henni allt til foráttu. Sögðu hana vera mestu frekju í heimi, samansaumaðan nirfil, lúmska, snobbaða, sjálfselska, ósmekklega, ófríða, vinalausa, drepleiðinlega kjaftatík...
Systurnar fóru nánast í keppni um að rifja upp og segja af henni krassandi sögur. Í æðibunuganginum hrökk upp úr annarri: "Það er nokkuð langt síðan ég hef heyrt frá henni."
Hin tók undir það og bætti við: "Eigum við ekki að kíkja snöggvast til hennar?"
Það gerðu þær.
Spaugilegt | Breytt 19.12.2022 kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
3.12.2022 | 23:11
Skemmtisögur
Út er komin sjötta bókin í flokknum Skagfirskar skemmtisögur. Hún er kyrfilega merkt tölunni 6. Undirtitill er Fjörið heldur áfram.
Eins og fyrri bækurnar er það blaðamaðurinn Björn Jóhann Björnsson sem skráir sögurnar. Þær eru á þriðja hundrað. Þær er ljómandi fjölbreyttar. Sumar með lokahnykk (pönslæn). Aðrar eru meira lýsing á spaugilegri stemmningu. Svo eru það stökurnar, limrurnar og lengri vísur.
Þrátt fyrir að sögurnar séu um nafngreinda Skagfirðinga þá er ekki þörf á að vera Skagfirðingur til að skemmta sér vel við lesturinn. Ég er Skagfirðingur og kannast við flesta í bókinni. Þó ekki alla. Ég skemmti mér alveg jafn vel við lestur um þá ókunnugu.
Hér eru nokkur sýnishorn:
Að loknu stúdentsprófi í MA fór Baldur í guðfræði í Háskóla Íslands og lauk þaðan cand. theol. prófi árið 1956. Á háskólaárunum bjó hann á Nýja stúdentagarðinum. Þar var aðeins einn sími til afnota fyrir stúdenta, og þótti ekki vinsælt ef menn héldu honum mjög lengi, einkum á annatíma.
Eitt sinn hafði síminn verið upptekinn dágóða stund og voru margir farnir að bíða og huga að því hver væri að tala. Reyndist það vera Baldur, en hann bandaði mönnum frá sér og kvaðst vera að tala í landsímann. Vissu menn þá að hann var að tala við föður sinn, Vilhelm símstöðvarstjóra. Þurfti Baldur því ekki að hafa miklar áhyggjur af kostnaði við lengd símtalsins.
Öðru hverju opnuðu samnemendur Baldurs dyrnar á símklefanum, en heyrðu aðeins mas um einskis verða hluti og þar kom að einhver spurði Baldur hvort hann væri ekki að verða búinn.
"Jú," svaraði Baldur, "ég er að koma mér að efninu." Og í því að dyrnar á klefanum lokuðust heyrðist Hofsósingurinn segja:
"En án gamans, er amma dauð?"
Jón Kristjánsson, fv. ráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, er alinn upp í Óslandshlíðinni. Ungur að árum, líklega 16 ára, var hann að koma af balli á félagsheimili þeirra sveitunga, Hlíðarhúsinu. Fékk hann far út á Krók með Gísla í Þúfum og Árna Rögnvalds. Var létt yfir mannskapnum og gekk flaska á milli. Árni var undir stýri og heyrði Jón þá margar sögurnar fjúka milli hans og Gísla.
Ein sagan hjá Árna var af ónefndum blaðamanni sem kom á elliheimili til að taka viðtal við 100 ára konu. Var hún m.a. spurð hvað hún hefði verið gömul er hún hætti að hafa löngun til karlmanns. Þá mun sú gamla hafa svarað:
"Þú verður að spyrja einhverja eldri en mig!"
Guddi var alltaf eldsnöggur til svars og þurfti aldrei að hugsa sig um. Um miðjan áttunda áratuginn kom hann sem oftar í heimsókn í Hrafnhól í Hjaltadal. Þetta var að vori til. Guðmundur bóndi var að stinga út úr fjárhúsunum. Guddi greip gaffal og bar hnausana út. Hann keðjureykti en lét það ekki trufla sig við vinnuna, sígaretturnar löfðu í tannlausum gómnum. Ungur drengur varð vitni að hamaganginum og spurði:
"Hvers vegna reykir þú svona mikið, Guddi?"
Hann svaraði um hæl:
"Þeir sem vinna mikið þurfa að reykja mikið!"
Eitt sinn bar gest að garði á Silfrastöðum, sem spurði Steingrím frétta á bæjarhlaðinu. Hann var þá með eitthvað af vinnufólki, enda hafa Silfrastaðir jafnan verið stórbýli.
"Ja, það drapst hér kerling í nótt," svaraði Steingrímur við gestinn, og bætti við: "Og önnur fer bráðum."
Margir áttu leið í Búnaðarbankann til Ragnars Pálssonar útibússtjóra, þeirra á meðal Helgi Dagur Gunnarsson. Eitt sinn hafði hann verið í gleðskap og þokkalega vel klæddur mætti hann í bankann og bað Ragnar um lán. Ragnar sagðist ekki sjá ástæðu til að lána mönnum, sem klæddust jakkafötum á vinnudegi! Helgi sagði ástæðu fyrir því.
"Sko," sagði hann, "ég er svo blankur að ég á ekki fyrir gallabuxum og þetta er það eina sem ég á eftir."
Ragnar tók þessa skýringu góða og gilda. Helgi fékk lánið og daginn eftir mætti hann til Ragnars í gallabuxum sem hann hafði keypt sér!"
Maður einn á Króknum fór í verslunina Gránu í hverri viku og keypti yfirleitt það sama í hvert skipti af helstu nauðsynjum. Í Gránu voru vörurnar keyptar "yfir borðið" og fólk lagði inn lista eða sagði afgreiðslufólkinu hvað það vanhagaði um. Sagan segir að hér hafi Jón Björnsson verið á ferð, kallaður Jón kippur, en það hefur ekki fengist staðfest. Einn daginn tók afgreiðslukona hjá Kaupfélaginu eftir því að maðurinn bað um tvær klósettrúllur, en yfirleitt hafði hann bara beðið um eina. "Stendur eitthvað til?" spurði konan og maðurinn svaraði:
"Ég ákvað að gera vel við mig í þetta skiptið!"
5.11.2022 | 20:51
Snúður og kjulli
Börn, unglingar og fullorðnir hafa verulega ólík viðhorf til veislumatar. Þegar ég fermdist - nálægt miðri síðustu öld - bauð mamma mér að velja hvaða veislubrauð yrði á boðstólum í fermingarveislunni. Ég nefndi snúða með súkkulaðiglassúr. Mamma mótmælti. Eða svona. Það var kurr í henni. Hún sagði snúða ekki vera veislubrauð. Svo taldi hún upp einhverja aðra kosti; tertur af ýmsu tagi og einhverjar kökur. Ég bakkaði ekki. Sagði að snúður væri mitt uppáhald. Mig langaði ekki í neitt annað.
Leikar fóru þannig að mamma bakaði eitthvað að eigin vali. Fyrir framan mig lagði hún hrúgu af snúðum úr bakaríi. Ég gerði þeim góð skil og var alsæll. Í dag þykir mér snúðar ómerkilegir og ólystugir. Ég hef ekki bragðað þá í áratugi.
Þetta rifjaðist upp þegar ég spjallaði í dag í síma við unglingsstelpu. Hún á afmæli. Hún sagði mér frá afmælisgjöfum og hvernig dagskrá væri á afmælisdeginum. Nefndi að um kvöldið yrði farið út að borða veislumat. "Hvar?" spurði ég, Svarið: "KFC".
Spaugilegt | Breytt 6.11.2022 kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.9.2022 | 01:43
Hvenær hlæja hundar?
Hundar hafa brenglað tímaskyn. Þeir kunna ekki á klukku. Þeir eiga ekki einu sinni klukku. Þegar hundur er skilinn eftir einn heima þá gerir hann sér ekki grein fyrir því hvað tímanum líður. Hann áttar sig ekkert á því hvort heimilisfólkið er fjarverandi í fimm mínútur eða fimm klukkutíma. Oft dottar hann þegar hann er einn.
Hundar hafa kímnigáfu. Þegar þeim þykir eitthvað verulega fyndið þá anda þeir eldsnöggt frá sér. Það hljómar eins og þeir séu að snýta sér. Húmor hunda er ekki upp á marga fiska. Hundur hlær að ýmsu sem er ekki sérlega fyndið. Sömuleiðis er hægt að segja hundi bráðfyndinn brandara án þess að hann sýni viðbrögð. Setur bara upp hundshaus og horfir sljór á mann. "Pönslínan" fer fyrir ofan garð og neðan. Engu að síður er góð skemmtun að vita þetta og kannast við þegar hundur hlær. Eitt sinn missteig ég mig heima fyrir framan símborð og féll við. Þá hló heimilishundurinn tvisvar.
Þegar hundur horfir neikvæður á mann þá leitar skott hans til vinstri. Þegar hann er jákvæður leitar það til hægri.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.8.2022 | 01:35
Aðeins í Japan
Í Japan er margt öðruvísi en við eigum að venjast. Til að mynda hvetja þarlend yfirvöld ungt fólk til að neyta meira áfengis. Það er til að örva hagkerfið. Fá meiri veltuhraða. Ástæðan fyrir því að vöruflokkurinn áfengi er notaður í þetta er sú að ölvaðir unglingar eyða meiri peningum í skemmtanir, leigubíla, snyrtivörur, fín föt og allskonar óþarfa. Líka á þetta að hækka fæðingartíðni.
Í Japan fæst áfengi í allskonar umbúðum. Þar á meðal litlum fernum sem líta út eins og ávaxtasafafernur með sogröri og allt.
Japanir eru einnig í hollustu. Eða þannig. Kóladrykkir eru ekki hollir út af fyrir sig. En ef þeir innihalda hvítlauk og eru með hvítlauksbragði?
Annað dæmi um hollustu í Japan eru rafmagnsprjónar. Matprjónar. Þeir gefa frá sér vægt rafstuð af og til. Það er sársaukalaust en framkallar salt bragð af matnum. Salt er óhollt.
Mörg japönsk hótel, mótel og gistiheimili bjóða upp á ódýra svefnaðstöðu. Ekki er um eiginlegt herbergi að ræða. Þetta er meira eins og þröngur skápur sem skriðið er inn í án þess að geta staðið upp.
Japanir elska karaókí. Það er eiginlega þjóðarsport. Vinnufélagar fara iðulega á skemmtistaði til að syngja í karaókí. Þá er reglan að hver og einn taki lag óháð sönghæfileikum. Mörgum þykir líka gaman að syngja heima eða út af fyrir sig á vinnustað. Til að það trufli engan brúka söngfuglarnir hljóðhelda hljóðnema. Með heyrnartæki í eyra heyra þeir þó í sjálfum sér.
Eitt af því sem víðast þykir lýti en í Japan þykir flott eru skakkar tennur. Sérstaklega ef um er að ræða tvöfaldar tennur. Þar sem ein tönn stendur fyrir framan aðra. Þetta þykir svo flott að efnað fólk fær sér aukatennur hjá tannlæknum.
Spaugilegt | Breytt 29.8.2022 kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
21.8.2022 | 00:01
Furðufluga
Ég var að stússa í borðtölvunni minni. Skyndilega flaug pínulítil fluga á milli mín og skjásins. Ég hélt að hún færi strax. Það gerðist ekki. Hún flögraði fyrir framan mig í augnhæð. Það var eins og hún væri að kanna hvort hún hefði séð mig áður. Þetta truflaði mig. Ég sló hana utanundir. Hún hentist eitthvað í burtu.
Nokkrum sekúndum síðar var hún aftur komin á milli mín og skjásins. Ég endurtók leikinn með sama árangri. Hún lét sér ekki segjast. Í þriðja skipti var hún komin fyrir framan mig. Ég gómaði hana með því að smella saman lófum og henti henni vankaðri út á stétt.
Háttalag hennar veldur mér umhugsun. Helst grunar mig að henni hafi þótt þetta skemmtilegt. Í hennar huga hafi við, ég og hún, verið að leika okkur.