Færsluflokkur: Spaugilegt
18.2.2013 | 00:40
Þannig verða ský til
Margir halda að ský hafi alltaf verið til. Samt eru engar ljósmyndir til frá því í gamla daga af skýjum. Það eru ekki til neinar gamlar heimildir um ský. Þau eru nefnilega seinni tíma fyrirbæri. Þau urðu ekki til fyrr en vindmyllur voru smíðaðar og teknar í notkun. Það eru vindmyllur sem búa til ský. Þær þjappa saman raka í loftinu. Útkoman er ský. Reyndar geta svokallaðar þrýstiloftsflugvélar einnig búið til ský.
Hægt er að búa til skemmtilega skýhnoðra með því að setja vindmillu í gang og slökkva á henni eftir hálfa mínútu. Það er hægt að leika sér endalaust með svoleiðis.
![]() |
Blæs duglega á vindmyllurnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
12.2.2013 | 11:49
Meira af Önnu frænku á Hesteyri
Anna frænka á Hesteyri var mikill dýravinur. Að miklu leyti snérist hennar tilvera um dýr. Hún var dugleg við að skrifa ættingjum bréf og hringja í okkur. Iðulega snérust frásagnir hennar um það sem á daga hafði drifið kinda hennar eða annarra dýra. Hænur, kríur og mýs gengu sjálfala innan húss hjá henni. Svo fékk hún sér tvær gæsir. Hún áttaði sig ekki á því að það þarf að klippa af þeim flugfjaðrirnar. Anna horfði þess vegna á eftir þeim fljúga á haf út.
Anna var í öngum sínum. Hún hringdi í Sigfús Vilhjálmsson (Hjálmarssonar, fyrrverandi menntamálaráðherra) á Brekku, næsta bæ við Hesteyri. Hann var og er hreppsstjóri í Mjóafirði. Anna bað hann um að fara út á sjó og sækja gæsirnar.
Svo illa stóð á að Sigfús var fastur í öðru verkefni. Í galsa vísaði hann Önnu á að hringja í Landhelgisgæsluna og láta varðskip sækja gæsirnar. Anna lét ekki segja sér það tvisvar. Hinsvegar var erindinu illa tekið af þeim sem fyrstir urðu fyrir svörum hjá Landhelgisgæslunni. En Anna vísaði til þess að það væru fyrirmæli frá sjálfum hreppstjóranum að Landhelgisgæslan ætti að sækja gæsirnar. Eftir að símsamband hafði verið gefið út og suður innan Landhelgisgæslunnar urðu málalyktir þær að varðskip elti gæsirnar uppi, náði þeim og boðaði Önnu niður í fjöru. Þrátt fyrir að vera mikil um sig þá varð Anna sporlétt er hún rölti niður í fjöru og sótti gæsirnar sínar tvær.
Síðar sögðu skipsverjar á varðskipinu frá því að það hefði verið fyrirhafnarinnar virði að horfa á eftir Önnu kjaga upp túnið með gæs undir sitthvorri hendi.
Önnur saga af Önnu frænku: http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1281120/
Spaugilegt | Breytt 13.2.2013 kl. 18:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.2.2013 | 20:38
Anna á Hesteyri
Þegar ég byrjaði að blogga fyrir nokkrum árum var það fyrst og fremst til að eiga orðastað við ættingja og vini. Liður í því spjalli var að rifja upp sögur af Önnu frænku á Hesteyri. Hún og móðir mín voru bræðradætur. Svo skemmtilega vildi til að fleiri en ættingjarnir höfðu gaman af sögunum. Þær urðu kveikja að bók um Önnu sem varðveitir sögurnar betur. Og var ekki seinna vænna. Anna lést nokkrum mánuðum eftir útkomu bókarinnar.
Ég gerði hlé á upprifjun á sögum af Önnu þegar bókin kom út. Ég vildi ekki trufla sölu á henni. Þegar Anna féll frá var ég ekki í stuði til að skrá fleiri sögur fyrst á eftir. Nú er hlé á enda. Á næstunni birti ég hér fleiri sögur af Önnu.
Anna var afskaplega greiðvikin. Hún vildi öllum vel. Hún var stöðugt að hugsa um það hvernig hún gæti glatt aðra. Hún var dugleg að skrifa ættingjum og vinum bréf. Sömuleiðis notaði hún símann óspart. Símreikningar hennar voru töluvert hærri en á öðrum heimilum.
Í desemberbyrjun eitt árið hringdi Anna í frænku okkar í Reykjavík. Sú var með slæma flensupest. Það olli Önnu áhyggjum. Hvernig fer þá með jólahreingerninguna? Hvað með jólainnkaupin, jólaskreytingar og jólabakstur? Frænkan í Reykjavík viðurkenndi að þetta væri óheppilegur árstími fyrir flensu. Hinsvegar væri maður hennar og unglingssynir við góða heilsu og gætu sinnt því brýnasta. "Þeir kunna ekki að baka," fullyrti Anna áhyggjufull. Frænkan í Reykjavík taldi góðar líkur vera á að flensan yrði að baki fyrir jól.
Nokkrum dögum síðar fékk frænkan í Reykjavík stóran kassa frá Önnu. Í honum voru tertur með glassúr, jólakaka og fleira bakkelsi. Þó að Anna væri lítið fyrir bakstur þá hafði hún undið sér í að bjarga jólabakstrinum fyrir frænkuna í Reykjavík. Verra var að bakkelsið hafði orðið fyrir töluverðu hnjaski í póstflutningum frá Hesteyri í Mjóafirði til Reykjavíkur. Það var ekki eins lystugt á að líta og þegar Anna tók það úr ofninum á Hesteyri. Ennþá verra var að ofan á tertunum skoppuðu bæði efri tanngómur og neðri.
Frænkan í Reykjavík hringdi þegar í stað í Önnu. Þakkaði vel fyrir bakkelsið og spurði hvort að rétt væri tilgetið að Anna saknaði fölsku tannanna sinna. "Hvernig getur þú vitað það?" spurði Anna gapandi hissa. Frænkan í Reykjavík sagðist hafa fundið þær í kassanum. Anna varð heldur betur glöð við þessi tíðindi. Hún var búin að gera allsherjar leit að tönnunum dögum saman. Svo vel vildi til að hún vissi af manni í Reykjavík sem ætlaði að vera í Mjóafirði yfir jólin. Ef hratt væri brugðist við mætti koma tönnunum á hann. "Það kæmi sér vel fyrir mig að vera með tennurnar um jólin," útskýrði Anna. Það tókst.
.
Spaugilegt | Breytt 5.2.2013 kl. 02:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.2.2013 | 23:39
Jólahlaðborðsævintýri - sönn saga
Spaugilegt | Breytt 3.2.2013 kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
31.1.2013 | 20:29
Grínverksmiðja ríkisins rassskellt - einu sinni enn!
Mannanafnanefnd ríkisins hefur til fjölda ára (næstum 15) barist með kjafti og klóm fyrir því að stúlku nokkurri sé gert að heita Stúlka. Ástæðan er sú að stúlkan vill heita Blær. Foreldrar hennar vilja sömuleiðis að hún heiti Blær. Aðrir ættingjar, vinir og kunningjar stúlkunnar vilja líka að hún heiti Blær. Enda er nafnið Blær afskaplega fallegt nafn, hvort heldur sem konur eða karlar bera það. Nú hafa dómstólar bæst í hóp þeirra sem telja það til sjálfsagðra mannréttinda að stúlkan þurfi ekki að gegna nafninu Stúlka heldur fái að heita því nafninu sem hana langar til, Blær.
Grínverksmiðja ríkisins hefur þar með verið rassskellt eina ferðina enn. Brandarar hennar eru fúlir og engum til gleði. Hún er og hefur alltaf verið til óþurftar. Það hlýtur að renna upp sá dagur að einhver stjórnmálamaður taki upp á því að forða landsmönnum undan forsjá Grínverksmiðju ríkisins.
Nú taka væntanlega við há útgjöld og tímafrek vinna hjá Blæ og foreldrum hennar við að afla nýs vegabréfs og annarra pappíra með nafni Blævar í stað nafnsins Stúlku. Kostnaður ríkissjóðs, sameiginlegs sjóðs Blævar, foreldra hennar og annarra Íslendinga, vegna þessa eina staka brandara Grínverksmiðju ríkisins er sennilega á aðra milljón króna. Engum þótti brandarinn góður. Nema útlendingum. Þeim þykir reyndar tilvist Grínverksmiðju ríkisins vera ennþá betri brandari.
Þessi brandari er bestur: http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1278566/
Blær, til hamingju með að þú megir nú bera lögformlega þitt fagra nafn, Blær. Eitt blæbrigðafegursta nafn í nafnaskrá Hagstofu Íslands.
![]() |
Fær að heita Blær |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 2.2.2013 kl. 03:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
30.1.2013 | 02:06
Bráðnauðsynlegt að vita um snjó og bíl
Í snjó og frosti er áríðandi að gæta sín á nokkrum hlutum ef ekki á illa að fara. Einkum ef að kusur eru úti við. Þá leiðist þeim alveg rosalega. Þær finna ekkert gras til að bíta í. Þær eru nautheimskar og átta sig engan veginn á því að hægt sé að finna gras undir snjónum. Öfugt við til að mynda hestinn. Hann er klár. Hann krafsar í snjóinn, ryður honum snyrtilega frá þangað til gras blasir við.
Þegar gras er hulið snjó veit kusan ekki sitt rjúkandi ráð. Henni er kalt. Hvað er þá til ráða? Kusan er í hópi allra forvitnustu dýra, að manninum frátöldum. Eðlislæg forvitni kusu reynist henni oftar vel heldur en illa. Ef hún kemur auga á að bíll nálgist og sé lagt ekki allt of fjarri henni þá líður ekki á löngu uns hún fer að bílnum og forvitnast. Hún þefar af honum, skoðar hann hátt og lágt og sleikir hann aðeins til að kanna bragðið.
Í snjó og kulda er afar óheppilegt að kusa átti sig á því að húdd bílsins sé heitt eða volgt. Þá bröltir hún nefnilega upp á húddið og kemur sér makindalega fyrir í notalegri hlýjunni. Vandamálið er að vegna þyngdar kusu þá dældast húddlokið. Bröltið á klaufdýrinu fer líka illa með lakkið á bílnum.
Þetta vita fáir. Kýr eru svo sjaldan úti í snjó og kulda. En það kemur fyrir. Þá er nauðsynlegt að vita af þessu.
![]() |
Seyðfirðingar innlyksa í þrjá daga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.1.2013 | 15:06
Hverjir eru hinir?
Í Fréttablaðinu segir frá nýtilkomnu risavandamáli sem herjar á íbúa Danmerkur um þessar mundir; vasaþjófnaði. Tilkynningum um vasaþjófnað hefur fjölgað um 40 frásent á síðustu 6 árum. Flestum í Kaupmannahöfn. Eftir Arne Wissing hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn er haft að í langflestum tilfellum þegar rænt er úr vösum sé um vasaþjófa að ræða.
Hverjir ætli hinir séu; þessir sem ræna úr vösum án þess að vera vasaþjófar?
23.1.2013 | 13:40
Grínverksmiðja ríkisins rassskellt
.
Í lok sjöunda áratugarins flutti heimsfrægur píanóleikari, Vladimir Ashkenazy, frá Rússlandi til Íslands. Eiginkona hans var og er íslensk..
Spaugilegt | Breytt 24.1.2013 kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
22.1.2013 | 00:05
Grínverksmiðja ríkisins
![]() |
Þarf að muna að ég heiti Stúlka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 18:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
20.1.2013 | 21:14
Þegar hljómsveitir voru töff í útliti - skemmtilegar myndir
Í gamla daga voru liðsmenn hljómsveita kallaðir hljómsveitatöffarar og poppstjörnur. Þeir voru svo svalir og töff. Kynþokkinn geislaði af þeim. Af hverju er þetta ekki lengur svona? Hvað gerðist? Núna eru liðsmenn hljómsveita bara venjulegt og hversdagslegt fólk. Skera sig ekkert frá skrílnum að neinu leyti. Það er ekkert gaman. Þess í stað er gaman að ylja sér við að rifja upp þá gömlu góðu daga þegar töffararnir réðu ríkjum.
Þarna var blandað saman samræmdum hljómsveitarbúningi og síðu hippahári áttunda áratugarins. Hárið er vel greitt og snyrt. Allir með snyrtan topp en hárið fær að vaxa villt yfir eyrun. Snyrtimennska og "wild" í bland. Þannig var það þegar mamman fékk að vera stílisti hljómsveitarinnar.
Hér er það níundi áratugurinn. Hárið er litað, blásið og látið halda sér snyrtilega úfið með lakkúða. Það sést ekki vel en í þessari línu fylgdi að augnlínur voru skerptar með lit og augnskuggum. Í herðar á jökkum og frökkum var troðið stórum púðum. Það þótti svalast að bretta aðeins upp á frakkaermar. Hvítt belti og hvítir skór voru töff. Söngvarinn fékk iðulega að skera sig úr með því að vera í skærlitum plastgalla. Svona hljómsveitir spiluðu tölvupopp og hafa verið kenndar við hárstílinn sítt-að-aftan (mullet).
Sumar danshljómsveitir níunda áratugnum buðu upp á blandaðan stíl: Einn töffarinn var með sítt-að-aftan, annar með afró-hár, þriðji í Village People múnderingu, fjórði með hipp-hopp húfu og sólgleraugu og svo framvegis.
Á áttunda áratugnum varð til fyrirbæri innan þungarokksins sem kallaðist glysrokk. Hluti af glysrokkinu var hármetall (hair metal). Hugsanleg ástæða fyrir nafngiftinni getur verið sú að hárið var verulega sítt. Liðsmenn hármetalsveita mála sig ennþá meira en sítt-að-aftan töffararnir og mála sig heldur ekki eins fagmannlega. Hármetalsveitirnar spruttu aftur upp í Bandaríkjunum í lok níunda áratugarins. Í það skiptið voru hljómsveitirnar léttklæddar. Enda oft hlýtt í Bandaríkjunum.
Svo eru það þungarokkshljómsveitir sem hafa sótt í víkingastemmningu. Þar er oft nekt og uppháum þröngum stígvélum blandað saman, ásamt hálsfestum, armböndum og allskonar glingri, gömlum vopnum og reiðilegum grimmum svip.
Fönkhljómsveitir hafa oft verið rífandi svalar. Þar hefur guli liturinn iðulega fengið að njóta sín.
Fjöldi tónlistarmanna hefur stytt sér leið að töffaraímyndinni með því að herma eftir þeim svölustu. Ttibute-bandið The Blue Beatles fór létt með það. Þrátt fyrir að vera að nálgast eða komnir á fimmtugs aldur létu þeir sig ekki muna um að herma eftir útliti Bítlanna frá þeim tíma sem Bítlarnir voru ennþá á unglingsárum. Kragalausu jakkafötin og hárlubbi niður eftir enni og út yfir eyru klæða miðaldra kallana alveg jafn vel og unglingsdrengina í Liverpool.
En hvað er til ráða fyrir lúða sem lítur út eins og Phil Collins? Hann skellir sér í Elvis-galla og verður umsvifalaust svalasti töffari allra.
Spaugilegt | Breytt 23.1.2013 kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)