Færsluflokkur: Spaugilegt

Ráð til að fá börn til að borða pizzu

  Pizza er þekkt flatbaka og vinsæl meðal fátæklinga á Ítalíu.  Svo vinsæl að hún einskonar vörumerki fyrir Ítalíu.  Reyndar á hún ættir að rekja aftur til Forngrikka en barst eftir krókaleiðum til Ítalíu fyrir þremur öldum eða svo.  Ástæðan fyrir gríðarlegum vinsældum pizzunnar meðal ítalskra fátæklinga er fyrst og fremst sú að hráefniskostnaður er lægri en við flestan annan mat.  Einungis þarf hveiti,  vatn,  ger og matarolíu.  Kannski örlítið salt.  Þessum hráefnum er hnoðað saman og rúllað út í þunnan brauðbotn.  Ofan á hann er dreift matarafgöngum úr ísskápnum sem annars væri hent í ruslið.  Galdurinn er að saxa alla bita í smátt.  Ef harður ostbiti finnst í ísskápnum er ágætt að raspa hann niður og strá yfir.  Flatbakan er síðan bökuð í ofni.  Eftir bankahrunið er pizza heppilegur kostur á fátækum heimilum.

  Vandamálið er að börn fúlsa jafnan við þessum fátækramat.  Þau vilja frekar siginn fisk og grænmetisbuff.  Það eru til ráð við því vandamáli.  Eitt ráðið felst í svokallaðri kolkrabbapizzu.  Hún er útfærð á þennan hátt og börnunum talin trú um að þetta sé ekki pizza heldur kolkrabbi:

kolkrabbapizza

  Sama hátt má hafa á með kisupizzu.  Börnum þykir spennandi að halda að þau séu að borða kisu.

pizza-köttur

  Í desember og janúar er upplagt að bjóða upp á jólasveinspizzu.  Börn elska að halda að þau séu að borða jólasvein.

pizza-jólasveinn

  Þegar börn læra á klukku er upplagt að segja því að vekjaraklukkan hafi bilað.  Þess vegna sé best að snæða hana. 

pizza-klukka

  Þegar barn á afmæli er kannski hægt að spandera hamborgurum,  kjúklinganöggum og frönskum á pizzuna. 

pizza-hamborgari+franskar+kjúklingabitar


Anna Marta og fjölskyldugrafreiturinn á Hesteyri

AnnaMarta

  Anna Marta á Hesteyri var ekki aðeins náttúrubarn.  Mikið náttúrubarn.  Hún var einnig barn að sumu öðru leyti.  Ekki samt nævisti.  Alls ekki.  Móðir hennar var sérlunduð og eiginlega ekki alveg heil heilsu.  Hún talaði iðulega barnamál við Önnu fram eftir öllu.  Það leiddi til þess að Anna var með einkennilegan framburð.  Til að mynda sagði hún r þar sem á að vera ð í orðum.  Fyrir bragðið var hún af sumum þekkt undir nafninu Anna "góri minn". 

  Þó að Anna yrði dálítið stór og mikil um sig er hún fullorðnaðist hélt móðir hennar þeim sið að láta hana setjast á hné sér og greiddi henni eins og lítilli stelpu.  Hár Önnu var krullað og úfið og þolinmæðisverk að greiða það.

  Anna var jafnan jákvæð og ljúf.  Hún átti það samt til að snöggreiðast af litlu tilefni eins og óþekkt barn.  Þá hækkaði hún róm og varð verulega æst.  Eitt sinn er hún var í heimsókn hjá mér barst tal einhverra hluta vegna að Gvendi Jaka.  Ég lét einhver neikvæð orð um hann falla.  Það fauk svo í Önnu að hún spratt á fætur og hrópaði eða eiginlega hvæsti á mig að Guðmundur Jaki væri góður maður.  Í önnur skipti átti hún það til að æsa sig í símtölum vegna - svo dæmi sé tekið - þess að einhver hafði gagnrýnt Vigdísi fyrrverandi forseta. 

  Á Hesteyri er fjölskyldugrafreitur.  Þar hvíla meðal annars afi minn og amma.  Afi minn og faðir Önnu voru bræður.

  Eitt sinn áttu frændi minn og kona hans leið um Austfirði.  Þau ákváðu að heilsa upp á Önnu dagspart og skoða leiði afa okkar og ömmu.  Leiði þeirra reyndist vera í niðurníðslu,  eins og frændi minn reyndar vissi af áður.  Þess vegna mætti hann á Hesteyri með blóm til að gróðursetja á leiðin.  Jafnframt sló hann gras á leiðunum,  snyrti þau,  rétti af legsteina,  pússaði þá, snurfusaði og gerði leiðin afskaplega fín. 

  Þetta varð margra klukkutíma vinna.  Að henni lokinni kvöddu frændi og konan hans Önnu og hugðust halda áfram för.  En þá snöggfauk í Önnu.  Henni þótti það vera ósvífni af versta tagi að snyrta tvö leiði og skilja önnur útundan í niðurníðslu.  Anna var svo reið og sár og æst að frændi og kona hans neyddust til að breyta ferðaáætlun með tilheyrandi óþægindum og framlengja dvöl á Hesteyri um annan dag til að snyrta og snurfusa allan fjölskyldugrafreitinn þangað til Anna varð sátt.       

  Fleiri sögur af Önnu á Hesteyri:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1283923/


Frábær mynd

  Dýr eru merkilegar skepnur og áhugaverðar um margt.  Mörg dýr gera glöggan greinarmun á fullorðinni manneskju annarsvegar og ungu barni hinsvegar.  Til að mynda sýna kettir ungum börnum ótrúlegt umburðarlyndi.  Barnið bögglast klaufalega með köttinn,  togar í skottið á honum eða gerir annað sem klárlega veldur kettinum sársauka eða veruleg óþægindi.  Kötturinn lætur sig hafa þetta.  Hann bregst ekki til varnar.  Reynir,  jú,  varlega að koma sér úr aðstæðunum án þess að valda barninu ama.  Kötturinn hefur fullan skilning á að þarna sé óviti að verki.

  Þess er líka fjöldi dæmi um að kettir vakti barnavagn þegar kornabarn sefur úti.   

  Algengt er að hestar hagi sér allt öðru vísi með ungt barn á baki en fullorðna manneskju.  Með ungt barn á baki getur ólmasti hestur orðið ljúfur sem lamb.  Hann gerir allt sem hann getur til að varna því að barnið detti af baki.  Hann gengur til hliðar ef barnið hallar á aðra hlið.  Gengur undir því, eins og það er kallað.  Það er hrífandi að fylgjast með því hvernig verstu tryppi skipta um gír með ungt barn á baki.  Umhyggja fyrir ungviðinu gengur fyrir öllu.  

  Hundar finna iðulega til sterkrar ábyrgðartilfinningar þegar ungt barn er á heimilinu.  Ef hvutta finnst barnið fara glannalega í námunda við vatn grípur hann þegar í stað til varúðarráðstafana.

hundur_passar_dreng.jpg  


mbl.is Rottur stærri en kettir í Tehran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bráðnauðsynlegt að vita

  Líftími örbylgjuofna er yfirleitt stuttur - til samanburðar við ísskápa og önnur heimilistæki.  Síðasti örbylgjuofninn minn entist aðeins í rúm tvö ár (eða réttara sagt næst síðasti því að ég var að kaupa nýjan).  Örbylgjuofnar eru hrekkjóttir og illgjarnir.  Þeir bila þegar verst stendur á.  Til að mynda þegar fólk vaknar skelþunnt og hugsar með eftirvæntingu til pizzasneiðar frá deginum áður í ísskápnum.  Sneiðinni er skellt með hraði í örbylgjuofninn og ýtt á start.  En ekkert gerist.  Örbylgjuofninn er bilaður.

  Þá er til ráð sem leysir örbylgjuofninn snöfurlega af hólmi:  Ráðið felst í því að skorða straujárn þannig að slétta hliðin snúi upp.  Straujárnið er hitað og pizzasneiðin lögð ofan á.  Til að hita efri hluta pizzunnar er heitu lofti frá hárblásara beint að henni.  Á skammri stundu verður pizzasneiðin eins og ný og ilmandi matarlykt kitlar nefið.

  Þetta ráð má einnig nota á ferðum um landið og erlendis.  Fólk hímir svo oft svangt á hótelherbergi og langar í rjúkandi heita pizzasneið,  hamborgara,  beikon, spælegg eða annað.  Þá er minnsta mál í heimi að skjótast út í búð og bera björg heim á hótel.  Svo er bara að draga fram straujárnið og hárblásarann.

bilaður örbylgjuofn 


Ég berst á fáki fráum...

hrossalasagna

  Það er svo sem alveg hægt að hanga hér eins og asni í stað þess að hanga í frystikistum stórmarkaða í lasagnaréttum. 

asni hangir

  Víða um heim er orðinn tilfinnanlegur skortur á hestum.  Vegna þess hafa knapar orðið að grípa til ýmissa ráða þar sem kappreiðar njóta vinsælda.

kappreiðar á kúmkappreiðará fuglsbakiköttur á hundsbaki


Ekki fyrir lofthrædda!

  Flestir eru lofthræddir.  Það er nauðsynlegur hluti af varnarviðbrögðum manneskjunnar.  Í genum okkar er mörg þúsund ára reynslubanki með upplýsingum um að vont sé að falla úr mikilli hæð.  Sumir nýta sér lofthræðslu til að láta líkamann framleiða adrenalín.  Það er einskonar dóp sem gefur fólki adrenalínkikk.  Þessi mynd er frá Reyðrók í Færeyjum:

ekki fyrir lofthrædda-1-Reyðarók í Færeyjum

  Þarna lætur fólk sig síga niður í rúm sem það sefur í.  Þannig upplifir það sterkt að vera úti í náttúrunni:

ekki fyrir lofthrædda129

  Hér glanna menn á snjóhengju í Frakklandi:

ekki fyrir lofthrædda - Frakkland

  Þessi vegur er í Dýrafirði.  Sumir kjósa fremur að labba þessa leið heldur en sitja í bíl:

ekki fyrir lofthrædda-í Dýrafirði

  Hér er ró og hér er friður.  Hér er gott að tjalda og hvíla sig.

ekki fyrir lofthrædda - áningastaður


Það er svo geggjað...

  Findus hefur í langan tíma verið framarlega í framleiðslu og sölu á tilbúnum klárum frystum nautakjötsréttum.  Réttirnir hafa þótt vera á hóflegu verði í almennt hryssingslegu verði stórmarkaða.  Nú hafa Findus-menn hleypt á skeið og eru farnir að bjóða upp á ferskvöru, frísandi ferskt nautakjöt.

findus ferskvara


Heilsudrykkir, bætiefna- og meðalahirsla í eldhúsinu

  Heilsudrykki,  bætiefni og meðöl er heppilegast að neyta með máltíðum.  Þess vegna er hagkvæmt að koma sér upp í eldhúsinu snyrtilegri og fyrirferðarlítilli hirslu undir þær vörur.  Til að sem minnst fari fyrir því er best að nýta eldhúsgólfið.

meðalaskápurA

  Grafa örlítið niður og koma hringstiga þar fyrir ásamt hillum sem raðast snyrtilega umhverfis stigann.

meðalaskápurB

  Þetta gengur yfirleitt best þegar eldhús er á jarðhæð.  En er einnig upplagt í kjallaraíbúð.  Á efri hæð í sambýlishúsi þarf að ná samkomulagi við íbúa á neðri hæð.  Flestir fallast á að góð heilsa skipti meira máli en margt annað.  Flestir vilja sömuleiðis leggja sig fram um að hafa góða stemmningu í sambýlinu.

MeðalaskápurCMeðalaskápurD

Vandamál
Meðal
Daglegur skammtur
Unglingabólur
Médoc, Cabernet Franc
1 glas
Blóðleysi
Barbera, Dolcetto
2 glös
Ofnæmi
Pinot Noir
1 glas
Lungnabólga
Brunello, Cabernet Sauvignon
2 glös
Hægðatregða
Chardonnay
2-4 glös
Kólesteról
Dry Champagne
2-4 glös
Sykursýki
Beaujolais Nouveau
1-2 glös
Niðurgangur
Champagne sec
1 flaska
Sýruútfall
Burgundy , Santenay Rouge
1-3 glös
Þvagsýrugigt
Sancerre , Pouilly Fume
2 glös
Hár blóðþrýstingur
Alsace , Sancerre
4 glös
Breytingarskeið (tíðahvörf)
Grenache, Syrah
4 glös
Þunglyndi
Médoc, Tempranillo
1-3 glös
Þvagrásarvandamál
Sangiovese
1-3 glös
Offita
Syrah
1 flaska
Gigt
Malbec eða Merlot
1-2 glös
Svefnleysi
Port
1 glas
Minnisleysi
Hvert sem er af ofantöldum
Frjálst eftir hendinni


mbl.is Súperhollur súkkulaðimorgunmatur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Anna á Hesteyri og Glettingur

annamartaguðmundsdóttir

  Fyrir tuttugu árum eða eitthvað álíka barst mér í pósti eintak af tímariti sem heitir Glettingur.  Þetta er vandað tímarit með litmyndum prentað á góðan pappír.  Blaðið er gefið út á Austurlandi.  Í því er fjallað um málefni tengd Austurlandi.  Þetta er ekki eiginlegt héraðsfréttablað heldur er umfjöllunarefnið tímalausar greinar um menningu,  listir,  náttúruna,  minjar,  söguna,  þjóðtrú og eitthvað þannig.  Einnig eru í blaðinu ljóð,  smælki og viðtöl. 

  Á þessum tíma var ég á kafi í auglýsingabransanum.  Allir helstu fjölmiðlar landsins voru í góðu sambandi í von um að auglýsingum væri vísað til þeirra.  Algengast var að dagblöð og tímarit væru send á auglýsingastofuna.  Í einhverjum tilfellum voru blöð og erindi send heim til mín.  Þar fyrir utan voru bæði dagblöð og tímarit stundum send á heimili í einhvern tíma í kynningarskini.  Þá var vonast til að viðkomandi heimili gerðist áskrifandi í kjölfarið.

  Eintak af tímaritinu Glettingi kom þess vegna ekki eins og þruma úr heiðskýru lofti.  Ég velti því ekkert fyrir mér.  Það var alveg gaman að lesa blaðið - þó að ég þekki lítið til Austurlands. 

  Nokkru síðar fékk ég fleiri tölublöð af Glettingi.  Mig minnir að þau hafi verið þrjú áður en mér barst gíróseðill.  Þar var ég rukkaður um áskriftargjald fyrir Gletting.  Ég hringdi í áskriftadeild Glettings og spurði hvað væri í gangi.  Einhvernvegin var fundið út að Anna Marta á Hesteyri hefði gert mig að áskrifanda. 

  Ég hringdi þegar í stað í Önnu.  Sagði henni frá því að verið væri að rukka mig um áskrift að Glettingi.  Hún spurði ósköp blíð og áhugasöm:  "Já,  finnst þér þetta ekki vera skemmtilegt blað?"  Jú,  ég gat ekki þrætt fyrir það.  Anna varð glöð í bragði og hrópaði sigri hrósandi:  "Alveg vissi ég að þetta væri eitthvað fyrir þig!"

  Svo sagði hún mér frá því að oftar en einu sinni hefði hún verið að lesa eitthvað skemmtilegt í Glettingi og hugsað með sér:  "Þetta þætti Jens frænda gaman að lesa."  Hún var ekkert að tvínóna við hlutina:  Hringdi í blaðið og gerði mig að áskrifanda.  En sá enga ástæðu til að flækja hlutina með því að bera það undir mig.   

  Fleiri sögur af Önnu frænku:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1282508/   


Sönn gamansaga af vindmyllum

  Bloggfærslan frá í gær - um vindmyllur - vakti mikla athygli.  Enda fáir sem höfðu gert sér grein fyrir því hvernig skýin verða til.  Ónefndur tónlistarmaður sendi mér skemmtilegan póst um vindmyllur.  Sagan er sönn og of góð til að ég einn sitji að henni. 

  Á síðustu öld fór vinsæl íslensk hljómsveit til Hollands.  Söngvarinn var á þeim tíma mikil stjarna en oft dálítið ringlaður vegna vímuefnaneyslu (í dag er hann þekktastur sem grúppía bankaræningja).  Hljómsveitarrútan átti leið framhjá túni með fjölda vindmylla.  Söngvarinn horfði hálf dáleiddur á spaða myllnanna sem snérust allir á jöfnum og góðum hraða.  Það var fögur sjón.  Að dálitlum tíma liðnum spurði söngvarinn sljór og opinmynntur:  "Ætli þær gangi fyrir rafmagni?" 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband