Færsluflokkur: Spaugilegt

Auglýsingar

auglýsing1

  Það er ekki gott að átta sig á því hvort um meðvitaða gamansemi er að ræða í þessum auglýsingum eða hvort auglýsendurnir eru furðufuglar.  Það er nóg til af þeim.  Hvorutveggja kemur til greina.  Og hvort sem er þá dregur það ekki úr skemmtanagildi auglýsinganna. 

  Í auglýsingunni hér fyrir ofan segir:  "Óska eftir einhverjum til að ferðast aftur í tímann með mér.  Þetta er ekki grín.  Þú færð greitt fyrir þegar við erum komnir til baka.  Þú verður að koma með þín eigin vopn.  Öryggi er ekki gulltryggt.  Ég hef aðeins framkvæmt þetta einu sinni áður."

a-frábær-mynd-15 

  "Við leitum að tölvufræðingi sem getur leyst erfið vandamál.  Hringdu strax í þetta símanúmer:"

 

   "Ég á viagra en vantar konu.  Hvaða konu sem er á aldrinum 18 - 80."auglýsing2

a-frábær-mynd-16

  Hér eru leiðbeiningar um hvernig þvo á flíkina í þvottavél og strauja.  Lýsingunni líkur á þessum orðum: 

  "Eða láttu konuna þína um þetta.  Þetta er hvort sem er hennar hlutverk."


Brosleg hlið á bisness

 

mistök14

 

  Fyrir nokkrum árum flutti hingað til lands frá nágrannalandi miðaldra kona.  Indæls kona.  Hún hafði lent í gjaldþroti í heimalandinu og vildi byrja upp á nýtt hérlendis.  Ég vissi aldrei hvað olli gjaldþrotinu.  Aðspurð var eina svarið að hún væri bisnesskona.  Það svar var henni tamt við fleiri spurningum.
.
  Hér fékk hún vinnu. Hún var bisnesskona.  Þess vegna stússaði hún í ýmsu meðfram sinni föstu vinnu.
  Fljótlega eftir komuna til Íslands keypti hún tvö ný reiðhjól og auglýsti reiðhjólaleigu í smáauglýsingum dagblaða.  Var nokkuð drjúg yfir uppátækinu og upplýsti hróðug hvað reiðhjólin yrðu fljót að borga sig upp.  Hún náði magnafslætti á kaupverðinu út á að kaupa tvenn hjól á einu bretti.  Þau voru ekkert dýr.  Kannski 60 -70 þúsund kall til samans.  Frásögn hennar á dæminu endaði alltaf á setningunni:  "Ég er bisnesskona!"  Um leið rétti hún upp þumal til áherslu orða sinnar.
.
  Enginn leigði af henni reiðhjól.  Henni tókst þó að lána vinapari reiðhjólin dagstund án þess að rukka um leigu.  Uppskriftin var sú að vinaparið myndi láta berast út að þetta væru góð hjól og ákjósanleg til leigu.  Hún var ánægð með þetta "sölutrix" og frásögnin endaði á yfirlýsingu um að hún væri bisnesskona.  Þar með lauk sögu reiðhjólaleigunnar.  Ég veit ekki hvað varð um ónotuð reiðhjólin.
.
  Næst tók hún á leigu 3 herbergi á gistiheimili.  Þar voru herbergi leigð út í langtímaleigu án þjónustu.  Mánaðarleiga fyrir herbergið var 25 þúsund kall.  Hún auglýsti herbergi til leigu á 3000 kall nóttina með morgunverði.   Veglegum morgunverði sem hún lagaði.  Henni tókst að leigja tveimur Rússum sitthvort herbergið í viku.  Þá var hún heldur betur sæl og lýsti því daglega yfir að hún væri bisnesskona.  Fleiri viðskiptavini fékk hún ekki en var með herbergin á leigu í 3 eða 4 mánuði.
.
  Því næst hóf konan að mála myndir.  Hún kunni ekki anatómíu (módelteikningu).  Líkamshlutföll voru á skjön við raunveruleikann.  Hún kunni heldur ekki perspektíf (fjarvídd).  Landslagsmyndir voru því nokkuð flatar og myndir af húsum dálítið skakkar. 
  Ég reyndi að kenna henni smá í anatómíu og perspektífi.  Hún tók ekki tilsögn.  Þrætti fyrir þær athugasemdir sem ég gerði við galla í málverkum hennar.  Bar fyrir sig að hún væri náttúrutalent og bisnesskona.
  Hún setti auglýsingar í dagblöð um að hún tæki að sér að mála andlitsmyndir og landslagasmyndir eftir ljósmyndum.  Skráði sig hjá Viðskiptanetinu fyrir 25.000 kall og birgði sig upp af málningastriga,  málningu og hugði á mikil viðskipti.
  Einn viðskiptavinur stakk upp kolli.  Hann vildi fá tvö málverk eftir ljósmyndum.  Konan setti upp 35 þúsund kall fyrir eitt málverk.  Viðskiptavinurinn prúttaði.  Vildi fá magnafslátt.  2 málverk á einu bretti fyrir 60 þúsund.  Konan sagði stolt frá því að hún hafi hafnað prúttinu.  Það væri enginn afsláttur á uppsettum taxta:  35 þúsund kall fyrir málverkið.  Tvö á 70 þúsund.  Frásögn hennar á viðræðunum við viðskiptavininn endaði á setningunni:  "Ég er bisnesskona!"   Hún veifaði þumalputta til að undirstrika hvað hún væri hörð í horn að taka í bisness.  Léti engan komast upp með að prútta við sig.
  Það heyrðist aldrei meira frá þessum eina viðskiptavini.  Ekkert málverk var selt.  Af og til tilkynnti konan um væntanlega málverkasýningu hér og þar í Reykjavík.  Þær tilkynningar enduðu alltaf á setningunni:  "Ég er bisnesskona!" 
  Einhverra hluta vegna varð aldrei nein málverkasýning eftir að sýningarhaldarar höfðu skoðað málverk hennar.
.
  Konan kom á skrautskriftarnámskeið hjá mér.  Hún tók illa kennslu.  Vildi frekar frumsemja eigin skrautskrift.  Meingallaða.  Sagðist vera náttúrutalent og bisnesskona.  Hún auglýsti að hún tæki að sér skrautskriftarverkefni.  Einhverjir kíktu á sýnishorn hjá henni.  En leituðu annað eftir að hafa skoðað sýnishorn.
.
  Þetta eru bara örfá dæmi af mörgum sem konan tók sér fyrir hendur.  Loks flutti hún frá Íslandi tímabundið.  Reyndi þá fyrir sér í öðru landi með sama árangri og hérlendis.  Kom svo aftur til Íslands nokkru síðar til að selja búslóð sína:  Sjónvarp,  hljómflutningstæki,  hillusamstæður,  rúm,  bíl,  örbylgjuofn,  frystikistu,  ísskáp,  ryksugu,  brauðrist,  kaffivél og annað slíkt.  Auglýsti búslóðina til sölu.  Allt seldist upp á einu kvöldi.
  Gallinn var sá að bisnesskonan ruglaði saman danskri krónu og íslenskri.  Seldi allt á einu núlli minna en eðlilegt var.  Ég kom að þegar hún seldi síðasta pakkann:  Vegleg hljómflutningstæki.  Þá bað hún mig um að þýða fyrir sig samtal við ungt par sem sýndi hljómflutningsgræjunum áhuga.  Parið skildi ekki íslenskuna hennar.  Þó hún væri búin að hæla sér af og til fyrir að vera búin að ná fullkomnu valdi á íslensku.  Það var engin ástæða til að gagnrýna þá fullyrðingu þó raunveruleikinn væri annar.
  Hljómflutningstækin samanstóðu af vinylplötuspilara,  kassettutæki, útvarpi, magnara og stórum hátölurum.  Með í pakkanum var afruglari frá Stöð 2.  Konan hélt því fram að afruglarinn væri geislaspilari.  En átti í erfiðleikum með að finna út hvernig geisladiskur væri settur í hann.  Sagðist samt hafa notað geislaspilarann mikið.og skildi hvorki upp né niður í að afruglarinn væri ekki geislaspilari.  Það læddist að henni grunur um að hafa fyrr um kvöldið kannski selt geislaspilarann sem vídeótæki.  En ekki vissi hún hvað hafði orðið um vídeótækið.  Sem hún hafði þó notað mikið.  Ég stakk upp á að hún hafi ef til vill selt vídeótækið sem örbylgjuofn.  Nei,  hún sagðist muna eftir að hafa selt örbylgjuofninn sem örbygljuofn.
 
  Unga parið var næstum því orðið afhuga kaupum á hljómflutningsgræjunum þegar það spurði um ásett verð.  "2500 kall," svaraði bisnesskonan.  Parið hváði og konan endurtók "2500 kall".  Parið skellti sér á hljómflutningsgræjurnar og staðgreiddi.
  Þegar parið gekk út með stór og mikil,  já,  og góð hljómflutningstækin veifaði konan framan í mig afrakstri búslóðasölu dagsins.  Þetta var kannski 15 eða 20 þúsund kall.  "Ég er bisnesskona!" sagði hún hreykin og rétti upp þumalputta.  Síðan flutti hún úr landi.  Síðast þegar ég frétti af henni hafði hún ráðið sig sem enskukennara í Afríku.  Mér varð hugsað til þess að hún þyrfti frekar en flestir aðrir að læra ensku.
 Tungumál eru ekki hennar sterka hlið.
mbl.is Hlutafé FL var fært niður og nafni breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvífarar dagsins - bráðfyndið dæmi

tvífarar

  Þetta fékk ég sent og sprakk úr hlátri.  Mér er ljúft að deila þessu með ykkur.  Þau eru glettilega lík þessi tvö þegar vel er að gáð:  Sama hár,  sömu augabrýr,  sama haka,  sömu kinnar,  líkt nef og svo framvegis.  Fyrir þau ykkar sem vita ekki hver hún er,  konan á myndinni til hægri,  þá varð hún heimsfræg á dögunum er hún keppti í breskum sjónvarpsþætti.  Ég er ekki klár á hvaða þáttur þetta var eða hvort keppt var í söng eða almennum hæfileikum.

  Konan þótti svo ljót að áhorfendur og dómarar hlógu er hún birtist á sviði.  Jafnframt sagðist konan vera jómfrú og hafa aldrei verið svo mikið sem kysst af karlmanni.  Síðan söng hún og heillaði dómara og áhorfendur.  Ég hef ekki heyrt söng hennar en hef heyrt tvennar sögur af honum. 


Partý aldarinnar

áð í fjallgöngu

 

  Fyrir nokkrum árum ákvað kunningi minn að halda upp á þrítugsafmæli sitt með stæl.  Hann var nýskilinn við kellu sína.  En blankur.  Hann sló bankalán fyrir því sem kallað var "partý aldarinnar".  Enda var hann í leiðinni að halda upp á skilnaðinn.  Þar fyrir utan var þetta einnig innflutningspartý vegna íbúðar sem hann hafði tekið á leigu.

  Ekkert var til sparað þó ekki væri gengið jafn langt og hjá íslenskum auðmönnum sem buðu upp á Elton John eða Duran Duran.  Blessunarlega ekki. 

  Kunninginn keypti bílhlass af bjór og kampavíni.  Hann skreytti íbúðina ótal uppblásnum blöðrum,  utan sem innan,  og allskonar partýglingri.  Keypti helling af furðulegum pappírshöttum,  ýlum og dóti sem er áberandi á gamlárskvöldi.

  Hann fékk vin sinn til að spila á hljómborð (skemmtara) inn á geisladisk undirleik við helstu rútubílasöngva. Hann lét fjölrita texta þessara sömu slagara:  Fatlafól,  Stál og hnífur,  Undir bláhimni og svo framvegis.  Það átti að syngja vinsælustu slagarana fram undir morgun.

  Allur eftirmiðdagur fór í að smyrja snittur og smábrauð.  Jafnframt voru skálar fylltar kartöfluflögum og raðað innan um ídýfur af ýmsu tagi.

  Um klukkan 23:00 kíkti ég við.  Enginn var mættur í partý aldarinnar.  Ég stoppaði stutt við og hélt síðan á hverfispöbbinn.  Kunninginn gaf mér fyrirmæli:  "Ekki vera of lengi.  Partý aldarinnar hefst upp úr miðnætti.  Þú mátt ekki missa af fjörinu."

  Ég ílengdist á pöbbnum.  Skilaði mér í partý aldarinnar um klukkan 2.  Þá var allt með sama sniði og klukkan 23:00.  Enginn hafði mætt.  Ekki ein einasta manneskja.  Ef undan er skilin ein fullorðin útlend kona sem kunninginn hafði rekist á í stigaganginum.  Hann náði að hella í hana einu bjórglasi.  En þau gátu ekki spjallað saman.  Konan talar hvorki ensku né íslensku.  Bara pólsku. 

 

 


Frábær furðuhljómsveit á leið til landsins

  Hljómsveitin Orka hljómar eins og hljómsveit með hefðbundin hljóðfæri.  Eins og sést hér á myndbandinu nota liðsmenn Orku samt ekki venjuleg hljóðfæri.  Þess í stað blása þeir ofan í glerflöskur,  plokka strekktan snærisspotta,  banka á trésög og ýmsa brúsa,  tunnur og fleira. 

  Orka er færeysk hljómsveit,  hugarfóstur Jens L. Thompsen bassaleikara Clickhaze,  gömlu trip-hopp hljómsveitar Eivarar.  Það er frábærlega gaman á hljómleikum Orku.  Það er til dæmis gaman að loka augum um stund og hlusta á þessa rammfæreysku músík eins og hún sé spiluð á hefðbundin hljóðfæri.  Glenna svo skyndilega upp augun og sjá hvernig þessir galdramenn fara að því að framkalla tónlistina með því að spila á heimilistæki,  verkfæri og allt annað en venjuleg hljóðfæri.

  Orka býður upp á hljómleika í tilefni færeyska fánadagsins,  30.  apríl (miðvikudag) klukkan 21:00 í Norræna húsinu.  Álfadrottningin Eivör kemur einnig fram.  Ég lofa frábærri upplifun.

  Plata Orku fæst í verslunum Pier í glerturninum við Smáratorg og Korputorg.


Smásaga um hund

 

  a-frábær-mynd-2

  Einu sinni var fjárhundur á sveitabæ.  Hann hét Geir Finnur Þór.  Enginn vissi af því.  Þess vegna var hann kallaður Snati.  Einn góðan veðurdag síðsumars fékk hann að fara í göngur með húsbónda sínum.  Húsbóndinn reið með björgunum fram og Snati elti.  Snata þótti ósanngjarnt að þurfa að hlaupa alla þessa leið á meðan húsbóndinn sat óþreyttur á hestbaki.  Snati sagði ekki neitt.  En hugsaði þeim mun meira.  Eftir að hafa velt málinu fyrir sér á hlaupum inn dalinn komst Snati að þeirri niðurstöðu að húsbóndinn væri ójafnaðarmaður.

  Innst í dalnum hafði safnast saman hópur fólks á hestum og hundar.  Snati kom þar auga á fallegustu tík sem hann hafði augum litið.  Snati vonaðist til að þau yrðu samferða í fjársmöluninni.  Honum varð ekki að ósk sinni.  En þau hittust aftur þegar komið var með féð í réttirnar.  Snati vissi ekki hvernig hann átti að stofna til samskipta við tíkina.  Í ráðaleysi sínu réðist hann á hana með kjafti og klóm.  Hún varði sig af hörku.  Þá kom eigandi hennar og sparkaði fantalega í Snata og lamdi hann með píski.  Snata þótti það svínslegt.  Leikurinn var orðinn ójafn.  Tvö á móti einum.  Snati rölti ýlfrandi heim á leið.  Það var hundur í honum.

  Næsta dag sendi Snati tíkinni bréf.  Þar stóð:
.
  Voff,  voff.
.
  Voff,  voff,  voff, voff.  Voff,  voff,  voff.  Voff,  voff,  voff, voff.  Voff,  voff,  voff.  Voff,  voff,  voff, voff. 
  Voff,  voff,  voff.  Voff,  voff,  voff, voff.  Voff,  voff,  voff.  Voff,  voff,  voff, voff.  Voff,  voff,  voff.  Voff,  voff,  voff, voff.  Voff,  voff,  voff.  Voff,  voff,  voff, voff.  Voff,  voff,  voff.
.
  Undir þetta skrifaði hann:
.
  Voff, voff,  voff.
.
  Voff,  voff.
.
  Snati hefur ekki fengið neitt svar í 8 ár.  Fyrstu 5 árin var hann ekkert að stressa sig á því.  Honum þótti eðlilegt að tíkin tæki sér tilfinngalegt svigrúm áður en hún svaraði.  En nú hefur læðst að honum grunur um að hann hafi orðað hlutina klaufalega í bréfinu.  Tíkinni hafi þótt hann full ákafur og tekið erindinu illa.  Hún ætli ekki að svara. 
  Þegar Snati komst að þessari niðurstöðu rölti hann í rólegheitum vestur fyrir hús og gróf upp gamalt bein sem hann hafði áður falið þar.  Það var orðið meyrt undir tönn.  Snati var alsæll.  Þetta var ljúfmeti.  Næst langar Snata í bjúgu. 
----------
.
 
 
  

Fyndnar og snjallar hannanir

uppfinning 3

  Sem áhugamaður um hönnun og framþróun á því sviði hef ég leitað uppi snilldar hannanir sem auðvelda heimilisfólki jafnt sem starfsfólki veitingastaða að afgreiða mat og drykk á einfaldari og fljótlegri hátt en áður.  Hér fyrir ofan sést hvernig tvöfalda má afköst þess sem hellir svalandi drykk í glös fyrir marga.

uppfinning 6

  Hér eru teketill og brauðrist sameinuð í eitt.  Upplagt fyrir plásslítið og nett eldhús.  Annar kostur er sá að um leið og brauðið ristast þá skerpist hitinn á vatninu.   

uppfinning 13

  Sumir þjónar eru alltaf að missa bakkann í gólfið fullan af góðgæti.  Einkum vill þetta gerast þegar þeir eru með smjörlíki á puttunum.  Með þennan bakka á hönd eru litlar líkur á að missa góðgætið í gólfið.  Þó getur það gerst þegar þjónar stíga á smjörlíki á gólfinu og missa fótanna.

uppfinning 15

  Þegar gest ber að garði er mikið hagræði af því að leggja fyrir hann svona kaffibolla.  Það sparar uppvask á stórum smákökudisk á miðju borði og litlum kökudisk við hlið bollans.  Til viðbótar skammtar þessi bolli gestinum aðeins 3 smákökur.  Það er sparnaður ef gesturinn er gráðugur og kann sig ekki.  Hver kannast ekki við gest sem hakkar í sig heilan kexpakka ef honum er gefinn laus taumur?

uppfinning 4

  Fátt er sárara en vera með glas fullt af ísköldum bjór eða ísköldu brennivíni og horfa á eftir glasinu renna úr greipum sér vegna rakans sem myndast utan á glasinu.  Þá kemur svona glas að góðum notum.  Maður kemur hendinni vandlega fyrir í mótið og rígheldur síðan af öllum kröftum utan um glasið.  Sama hvað gengur á. 

 uppfynning

  Á öllum veitingastöðum þekkist óhagræðið af því þegar starfsmenn eru með nefrennsli.  Þeir eru síhlaupandi inn á klósett til að snýta sér.  Með því að spenna klósettrúllustatíf á höfuð er hægt að halda starfsmanninum við eldavélina alla vaktina.  Sumir kokkar - sem ekki hafa yfir svona klósettrúllustatífi að ráða - taka ekki í mál að leyfa starfsfólki sínu að bregða sér frá til að hreinsa nefið.  Kokkarnir standa yfir þeim með svipuna og leyfa þeim ekki að hreyfa sig frá eldavélinni.  Eldhússtrákurinn hér fyrir neðan lenti í þannig aðstæðum.  Hann varð að hræra í sósunni sama hvað það kostaði.  Annars hefði sósan hlaupið í kekki.  Stráksi var einnig með kuldahroll og vettlinga á höndum og ullarsokk á fótum.  Að vísu götótta.  Sem kom þó ekki að sök.  Annað gatið var fyrir ofan hæl.  Það klóraði hann sjálfur á sokkinn í taugaóstyrk er hann tók strætó og þekkti engan í vagninum.  Hitt gatið var undir miðri il.  Það kom til þegar hann festist í lausum nagla á þröskuldi í herbergisdyrum sínum.  Þá komst styggð að honum.  Í hamagangnum kom gat á sokkinn.  Góðu fréttirnar eru þær að naglinn er óskemmdur.  Pabbi stráksa geymir naglann í brjóstvasanum til minningar um atburðinn.  Kallinn sýnir stundum nákomnum ættingjum naglann í fermingarveislum og öðrum mannfagnaði þegar atburðinn ber á góma.  Það veldur kátínu og léttir stemmningu.

maður með hor í nefi 


Gullkorn Hannesar Hólmsteins

  Við þessi gullkorn er engu að bæta.  Þau standa fyrir sínu.  Það verður trauðlað sagt að málflutningur sé tekinn úr samhengi.  Allir vita hvað fjrálshyggjutrúboð Hannesar gengur út á.  Hallelúja!  Þetta er einfaldlega gott innlegg í umræðuna og má ekki liggja ónýtt hjá garði.  Sjálfur hefur ríkisstarfsmaðurinn Hannes hælt sér í erlendum fjölmiðlum af því að hafa hannað módelið er leiddi til fjrálshyggjuhrunsins sem við nú öll súpum seyði af.  

  Hér er óklippt trúboðsræða:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/855499/


Meira grín!

  Þessa brandara fékk ég senda.  Mér þykir sjálfsagt að deila þeim með ykkur. 

  Ljóskan var á bekkjarmóti með skólafélögunum.  Ein fyrrverandi bekkjarvinkonan snýr sér að henni og spyr frétta.
  "Hvað áttu svo mörg börn?" spyr hún ljóskuna.
  "Ég á átta syni," svarar ljóskan.
  "Vá!" segir vinkonan.  "Það er aldeilis.  Það hlýtur að vera nóg að gera hjá þér.  Hvað heita svo drengirnir?"
  "Þeir heita Guðmundur," svarar ljóskan.
  "Ha? Guðmundur? Varla hefur þú skýrt þá alla Guðmund?"
  "Jú, jú," svarar ljóskan. "Það er svo þægilegt að þeir heiti allir sama nafni því þá er ekkert mál að kalla á þá í matinn til dæmis.  Ég kalla bara Guðmundur og þá koma þeir allir hlaupandi."
  "Ó," segir vinkonan hugsandi.  "En hvað ef þú þarft að ná í einhvern einn af þeim?"
  "Ekkert mál," segir ljóskan.  "Þá kalla ég bara með föðurnafni."
 
 
Pabbi gamli ákvað að flytja á elliheimilið.
Sonurinn var í heimsókn til athuga hvernig honum liði.

"Þetta er hreinn unaður," sagði sá gamli. "Maturinn fyrsta flokks og umönnunin ekki síðri."

"Hvernig sefurðu?" spurði sonurinn.

"Eins og steinn," svaraði pabbi. "Klukkan tíu er komið með heitt kakó handa mér og síðan fæ ég eina víagratöflu."

"Víagra?! Pabbi minn, ég trúi alveg að þú fáir kakó fyrir svefninn en mér finnst ótrúlegt að 85 ára karl fái víagra fyrir svefninn."

"Þetta er alveg rétt hjá honum," sagði hjúkrunarfræðingur sem heyrði tal þeirra feðga. "Við gefum kakóbolla til að hann sofi betur og víagratöflu til að hann velti síður fram úr rúminu."
 
 
  Ég horfði gagnrýnum augum á konuna, sem ég hef verið giftur í 30 ár og sagði:
  "Heyrðu elskan – fyrir 30 árum áttum við ódýra íbúð, ódýran bíl, við sváfum á sófanum í stofunni, horfðum á 10 tommu svart/hvítt sjónvarp og á hverju kvöldi iðkaði ég bólfarir með viljugri 25 ára stelpu.

Núna á ég 80 milljóna hús, 15 milljóna bíl, rúm á stærð við skeiðvöll og
50 tommu flatskjá – en þarf að sætta mig við það á hverju kvöldi, að fara í bólið með þreyttri 55 ára konu. Ég fæ ekki séð að þú hafir haldið í við þróunina hér!"

  Ég verð að játa að ég á skynsama konu.  Hún leit snöggvast á mig og sagði um leið:
  "Ekki vandamálið. Drífðu þig bara út og finndu þér 25 ára viljuga stelpu! Ég sé um að þú fáir hitt aftur: Ódýra íbúð, bíldruslu og ódýrt svart/hvítt sjónvarp!
  Eftir þessi 30 ár veistu að ég meina það sem ég segi."

  Er konan mín ekki frábær? Grái fiðringurinn hvarf á einu andartaki!
 
 

Undarleg uppákoma á matsölustað

kjúklingur

  Ég átti erindi á matsölustað.  Ekki til að fá mér að borða heldur í öðrum erindagjörðum.  Þegar ég vatt mér þangað inn sátu fjórir miðaldra menn saman að snæðingi við eitt borðið.  Ég þekkti engan þeirra.  Ég staðnæmdist við afgreiðsluborð með smurbrauði,  samlokum og öðru slíku.  Einhverra hluta geng ég aldrei framhjá slíku borði án þess að skoða hvað er í boði.  Þó ég sé ekki svangur.

  Skyndilega var einn mannanna komin upp að hlið mér.  Hann segir í hálfum hljóðum - sennilega til að afgreiðsludaman heyri ekki:

  - Djöfulsins okurbúlla sem þetta er.  Þetta er viðbjóður.

  Hann benti á svokallaðar samlokuhyrnur sem voru verðmerktar á 450 kall og sagði:

  - Sjáðu þetta.  500 kall fyrir eina helvítis samloku.  Maður fær samloku á næstu bensínstöð fyrir 300 kall.  Það kostar ekki meira en 100 kall að smyrja svona samloku heima hjá sér.  Bara kaupa dollu af rækjusalati eða túnfiskssalati á 200 kall og skella á milli tveggja brauðsneiða.  Maður nær alveg 3 - 4 samlokum út úr því.

  Ég nennti ekki að benda manninum á að samlokuhyrnur kosta 520 kall á bensínstöðvum.  Þar fyrir utan hefði ég ekki komist að.  Maðurinn var óðamála og ákafur.  Næst benti hann á diska með matarmiklu smurbrauði.  Heldur stærri skammt en venja er.  Það var ýmist verðmerkt á 890 eða 950 krónur.

  -  Sjáðu hérna,  maður.  Ein andskotans örþunn brauðsneið með gumsi er seld á 1000 kall.  Pældu í því.  1000 kall fyrir auma brauðsneið.  Maður fær sjóðheita 16" pizzu beint úr ofninum fyrir 4ra manna fjölskyldu á sama verði hjá Dominós.  Gott ef 2ja lítra kók og brauðstangir fylgja ekki með í því dæmi.  Þetta er viðbjóður.

  Svo nafngreindi hann mann sem er líkast til kokkurinn á staðnum eða eigandi.  Ég nota hér tilbúið nafn:

  -  Jón Jónsson er þvílíkur óþverra svíðingur.  Hann er að eyðileggja allt.  Hugsaðu þér aumingja bændurna sem koma glorhungraðir langt utan af landi og lenda í höndunum á svona óþokka.  Þeir fá áfall; halda að Reykjavík sé ein allsherjar okurbúlla.  Það ætti að læsa manninn inní fangelsi ásamt útrásarvíkingunum og henda lyklinum.

  Þegar hér var komið sögu bjóst ég til farar.  Maðurinn gekk aftur til sætis hjá félögum sínum.  Um leið og ég gekk út í nóttina sá ég út undan mér hvar hann gekk með súpudiskinn sinn til afgreiðsludömunnar og sagði smeðjulega:

  - Get ég fengið smá ábót,  elskan mín.  Hún er einstaklega góð hjá ykkur súpan í dag.      


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.