Færsluflokkur: Spaugilegt

Hverjir selja ljótu húsin?

  Um allt land eru ljót hús.  Þau eru aldrei til sölu.  Nema parhús í Kópavogi.  Það var til sölu.  Eftir fréttaflutning af því var togast á um það.  Fyrstur kom.  Fyrstur fékk.  Í auglýsingum fasteignasala eru öll hús og allar íbúðir á söluskrá þeirra ýmist fallegar og rúmgóðar eða sérlega fallegar og glæsilegar.  Sumar eru bjartar og virkilega glæsilegar og snyrtilegar.  Allar eru vel staðsettar.  Jafnvel tekið fram að stutt sé í allar áttir.  Gott útsýni eða eða sérlega gott útsýni.  Þá eru þær vel skipulagðar eða bjóða upp á ýmsa möguleika. 

  Sumt í fasteignaauglýsingum kemur eins og þruma úr heiðskýru lofti.  Til að mynda þegar  tekið er fram að þvottaaðstaða sé í íbúðinni.  Kætast þá börnin smá yfir að þurfa ekki að fara með allan þvott í þvottahús langt út í bæ. 

  Einnig þegar tekið er fram að gólfefni fylgi með.  Hvernig er íbúð án gólfefnis?  Svo er það aðal sölutrikkið:  Mynddyrasími fylgir.  Húsið er til sölu á 120 milljónir en án mynddyrasíma.  Nei,  jú,  hann fylgir með.  Sala!    

hús        


Afi forvitinn

  Við vorum í jólaboði hjá nágrönnum og ættingjum.  Með í boðinu var sameiginlegur heimilisvinur,  ungur maður.  Afi kom öllum á óvart með tíðindi er hann spurði unga manninn:  "Er það rétt sem ég hef hlerað að þú sért tekinn upp á því að gera hosur þínar grænar fyrir Hönnu?"

  Unga manninum var brugðið.  Hann eldroðnaði og tautaði hikstandi og stamandi:  "Það er kannski eitthvað verið að slúðra um það."

  Þetta var greinilega viðkvæmt feimnismál.  Til að hressa hann við, sýna honum stuðning og hughreysta bætti afi við:  "Assgoti var það lipurt hjá Ella að hnoða í hana barn.  Þar með sannaði hann fyrir þér að hún er ekki óbyrja!

 


Gleyminn arkítekt

  2007 varð uppi fótur og fit á bæjarráðsfundi Hvergerðisbæjar.  Ástæðan var sú að bænum barst óvænt reikningur upp á 6 milljónir króna.  Reikninginn sendi arkitekt sem gengur undir nafninu Dr. Maggi.  Hann var að rukka fyrir hönnunarvinnu sem innt var af hendi 26 árum áður.   

  Við athugun á bókhaldi kom í ljós að Maggi hafði aldrei rukkað fyrir vinnuna og því aldrei fengið greitt fyrir hana.  Vandamálið var að krafan var fyrnd fyrir löngu síðan lögum samkvæmt.  Bænum var ekki heimilt að borga reikning sem fyrningarlög voru búin að ómerka.  

  Þegar þetta allt lá fyrir komst bæjarráð samt að þeirri niðurstöðu að um sanngirnismál væri að ræða.  Á einhvern hátt yrði að borga kallinum fyrir sína vinnu.  Með nánu samráði við Ölfusinga tókst að finna einhverja leikfléttu til komast framhjá fyrningarlögum.  

  En hvers vegna rukkaði Maggi ekki sínar 6 milljónir í 26 ár?  Við erum að tala um upphæð sem er að minnsta kosti tvöfalt hærri á núvirði. Skýring hans var: "Ég gleymdi því."   

         


Börn

 Börn geta verið fyndin.  Óvart.  Ég átti erindi í Krónuna.  Langaði í Malt.  Á einum gangi voru tveir ungir drengir.  Annar sennilega tveggja ára.  Hinn kannski sex eða sjö.  Sá yngri kallaði á hinn:  "Erum við ekki vinir?"  Hinn játti því.  Þá spurði sá stutti:  "Af hverju labbar þú þá svona langt á undan mér?"  Mér þótti þetta geggjað fyndið.


Smásaga um búð

  Það er rólegt í litlu hverfisbúðinni á horninu.  Aðeins einn viðskiptavinur er þar innandyra.  Það er öldruð kona.  Hún kaupir eldspýtustokk.  Hún stendur fyrir framan afgreiðsluborðið og telur peninga upp úr snjáðri peningabuddu.  Það gengur brösuglega.  Hún á erfitt með að greina á milli krónupenings,  fimmkalls og tíkalls.

  Afgreiðslumaðurinn leyfir henni að taka sér þann tíma sem þarf.  Ekkert liggur á.  Þau eru á svipuðum aldri og hafa átt í viðskiptum til áratuga.  

  Seint og síðarmeira tekst konunni að smala saman réttri upphæð.  Er hún gengur út um dyrnar mætir hún ókunnugum manni.  Hann er illa áttaður.  Það er eins og hann viti ekki hvort hann er að koma eða fara.  Hann gónir hikandi í allar áttir.  Konan slær hann af öllu afli í andlitið með töskunni sinni.  Svo heldur hún heim á leið.  Það er eins og brái af karlinum.  Hann þurfti á högginu að halda til að ná áttum.  Samt er hann hikandi er hann læðist inn í búðina.  Þar gengur hann ringlaður um og veit varla hvað hann er að gera.

  Afgreiðslumaðurinn þreifar eftir hornaboltakylfu undir afgreiðsluborðinu.  Hann gælir við þá hugmynd að lúberja komumann og ræna hann - ef svo vel vildi til að hann væri með verðmæti á sér.  Með herkjum nær hann að stoppa sig og bryddar þess í stað upp á samræðum.  

  - Góðan dag.  Get ég aðstoðað þig?

  - Nei,  ég veit það ekki.  

  - Hver veit það þá?  Jólasveinninn kannski?

  - Mér finnst eins og ég eigi ekki að vera hér.

  - Það finnst mér líka.  En af hverju ertu þá hérna?

  - Ég var á leið í aðra smásögu en þessa og villtist af leið.  Svo var ég allt í einu kominn í þessa sögu.

  - Ég get reddað þér út úr þessari sögu ef þú vilt.  Ég er höfundur hennar og ræð hvernig hún er.

  - Ég vil gjarnan komast út úr þessari sögu.  En hvernig kemst ég í réttu söguna?

  - Það er þitt vandamál en ekki mitt.  Hinsvegar skal ég gefa þér mandarínu í nesti.  Um leið óska ég þér gleðilegra jóla, gott og farsælt komandi ár, þökkum liðið, fjölskyldan í Litla-Koti.  Þar með ert þú úr sögunni.  

 

 

        


Lulla frænka í stimpingum

 Lulla föðursystir mín var ekki eins og fólk er flest.  Hennar andlega heilsa var ekki sem best.  Hún sagði og gerði margt óvenjulegt.  Oft var það eitthvað broslegt.  Hún var ljúfmenni og vildi öllum vel.  Okkur í fjölskyldunni þótti vænt um hana.  Það var ætíð gleðiefni að fá hana í heimsókn.

  Lulla ók allra sinna ferða;  hvort sem hún var með ökuskírteini í lagi eða ekki.  Það var allur háttur á.  Og aldrei borgaði hún sektir sem hlóðust upp í þykkum bunkum.  Hún fylgdi ekki alltaf umferðareglum.  Fyrir bragðið var bíll hennar jafnan dældaður á öllum hliðum.  Hún kippti sér ekkert upp við það.  Þess vegna vakti undrun þegar hún tók afar nærri sér að sjá dæld farþegamegin á bíl móður minnar.  Hún var alveg miður sín.  

  Svo bar við að þær mágkonur fóru til Dalvíkur á jarðarför.  Er þær nálguðust kirkjuna gaf Lulla mömmu ströng fyrirmæli um að leggja bílnum þannig að enginn sæi dældina.  Að útför lokinni óskaði kona nokkur eftir að fá far með þeim.  Lulla tók því illa.  Sagði að það væri lykkja á leið þeirra,  þær væru að flýta sér og þetta hentaði ekki.  Mamma hinsvegar tók vel í ósk konunnar og bauð hana velkomna í bílinn.  

  Er konan hugðist ganga að bílnum farþegamegin stökk Lulla í veg fyrir hana.  Var hún þó stirð til gangs.  Lulla tók á henni og hrinti í aftursætið bílstjóramegin.  Mömmu dauðbrá og reyndi að gera gott úr þessu með því að ræða eitthvað skemmtilegt við konuna.  Skutlið var innan Dalvíkur og tók stutta stund.  Er konan hafði yfirgefið bílinn spurði mamma Lullu:  "Hvers vegna í ósköpunum lentuð þið í stimpingum?"  Hún kveikti sér í sígarettu og svaraði síðan sallaróleg:  "Ég vildi akki að hún sæi dældina."    


Bíll Önnu frænku á Hesteyri

  Góður frændi okkar Önnu Mörtu heitinnar á Hesteyri í Mjóafirði gaf henni bílpróf og bíl.  Þetta var á níunda áratugnum og Anna á sextugsaldri.  Bílprófið yrði hún að taka í Reykjavík.  Á ýmsu gekk.  Í sjálfu bilprófinu festist hún inni í hringtorgi.  Prófdómarinn sagðist ekki geta hleypt henni út í umferð þegar tæki hana 7 hringi að komast út úr hringtorgi.

  Anna var snögg að semja við hann.  Á Austfjörðum sé ekkert hringtorg.  Hún muni skuldbinda sig til að aka aldrei út fyrir Austfirði.  Þar með verði hringtorg ekkert flækjustig.  Eftir langar samningaviðræður keypti prófdómarinn rök Önnu.  Hún stóð við sitt. 

  Er hún var komin með bílpróf hringdi hún í mömmu.  Mamma hvatti hana til að heimsækja sig á Akureyri.  Anna spurði:  "Er hringtorg á Akureyri?"  Þegar mamma játaði því upplýsti Anna um heiðursmannasamkomulagið.

  Anna ók bílnum eins og dráttarvél.  Hún hélt sig við fyrstu tvo gírana.  Ók óvarlega yfir stokka og steina.  Að því kom að bíllinn pikkfestist í á.  Hún sagði mömmu tíðindin;  að bíllinn væri búinn að vera.  Mamma spurði hvort hann væri ekki bara fastur ofan á steini og mögulegt væri að draga hann af steininum.  Anna hafnaði því.  Sagðist oft hafa ekið bílnum yfir miklu stærri grjót.  Þetta væri alvarlegra.  Bíllinn væri dauður.  "Bílar endast ekki í mörg ár," útskýrði hún skilningsrík. 

  Anna sagði Gauja frænda okkar frá dauða bílsins.  Hún sagði:  "Hann er svo fastur að ég prófaði meira að segja að setja hann í kraftgírinn.  Samt haggaðist hann ekki."  Gauji frændi hefur í hálfa öld unnið með vélar af öllu tagi og átt marga bíla.  Hann veit ekki ennþá hvað kraftgír er.  Því síður ég. 

 

 


Smásaga um stefnumót

  Ný vinnuvika er að hefjast.  Tvær vinkonur og vinnufélagar ræða um helstu tíðindi helgarinnar.

  - Ég fór á dásamlegt stefnumót í gær,  upplýsir önnur.

  - Nú?  Segðu frá,  svarar hin forvitin.

  - Ég fór inn á stefnumótasíðu á netinu.  Hitti þar myndarlegan mann.  Eftir heilmikið spjall bauð hann mér á stefnumót.

  - Hvernig gekk það fyrir sig?

  - Hann sótti mig á slaginu klukkan sex.  Það veit á gott þegar karlmaður er stundvís.  Ekki síst af því að ég beið eftir honum úti á gangstétt og frekar kalt. 

  - Bölvað ógeðið.  Ég veit allt um svona perra.  Þeir nota öll fantabrögð til að komast að heimilisfangi konunnar.  Tilgangurinn er að geta njósnað um hana.  Jafnvel brjótast inn til hennar þegar hún er ekki heima og planta allskonar njósnabúnaði.

  - Róleg.  Þetta var allt mjög rómantískt.  Um leið og hann renndi í hlað þá stökk hann út úr bílnum,  rétti mér eina rós með orðunum "viltu þiggja þessa rós?"

  - Þvílíkur nirfill!  Ein ómerkileg rós!  Maðurinn er algjör aurapúki.

  - Þetta var tilvísun í bachelor-sjónvarpsþættina.  Svo sætt og rómantískt.  Við fórum á glæsilegt steikhús.  Hann stakk upp á því að við færum hægt yfir sögu.  Myndum verja góðum tíma í forrétti, aðalrétti,  eftirrétti og spjall. 

  - Karlhelvítið.  Þetta er aðferðin sem þeir nota;  sitja yfir konunum klukkutímum saman og endurtaka frasa.  Þetta er heilaþvottur.

 - Þetta var mjög notaleg stund.  Maturinn var algjör veisla og hann valdi handa mér besta rauðvín sem ég hef bragðað.  Sjálfur drekkur hann ekki áfenga drykki.

 - Dæmigerður óþverri;  hellir dömuna ofurölvi til að gera hana meðfærilegri.  Klárlega laumaði hann að auki nauðgunarlyfi í drykkinn.

  - Nei,  það voru engin vandræði.  Þvert á móti.  Stefnumótið var ljúft í alla staði.  Í miðju kafi stökk hann að píanói á sviðinu og söng og spilaði nokkra ljúfa íslenska ástarsöngva.

  - Helvítis ruddi.  Skildi þig eina eftir úti í sal eins og ódýra vændiskonu.  Neyddi þig samtímis til að sitja undir sóðalegum klámvísum.  Maðurinn er snargeggjaður og hættulegur.  Þú verður að kæra kvikindið til að forða öðrum konum frá því að lenda í klónum á skepnunni.

  - Allt stefnumótið var ævintýri.  Að vísu kom upp ágreiningur þegar ég krafðist þess að borga helminginn af matarreikningnum.  Hann tók það ekki í mál. 

  - Karlrembudjöfull.  Niðurlægir þig með skilaboðum um að þú sért honum óæðri.  Hann sé merkilegri en þú.  Hann sé með hærri tekjur og þú ekki borgunarmanneskja til jafns við hann.  Ef þú hittir hann aftur verður þú að hafa með þér piparsprey.  Ef hann reynir eitthvað þá spreyjar þú piparnum í augun á honum.

 - Ég gerði það í gær.  Þegar við gengum að bílnum hans þá spreyjaði ég piparnum í augun á honum.  Hann missti jafnvægi og skall í jörðina.  Ég sparkaði af alefli í hausinn á honum.  Rotaði hann.  Svo stal ég veskinu hans og bílnum.  Ég sel bílinn á eftir í partasölu.  

  - En hann veit nafn þitt og heimilisfang.

  - Nei,  ég var með falskt nafn á stefnumótasíðunni.  Ég er búin að eyða prófíl mínum þar.  Ég gaf honum aldrei upp heimilisfang mitt heldur heimilisfang næsta húss við hliðina.   


Afi landsfrægur til áratuga

  Afi var heljarmenni;  nautsterkur og fylginn sér.  Skapið hljóp iðalega með hann í gönur. Hann var varla kominn á unglingsár þegar hann var farinn að slást við fullorðna menn.  Þeir lömdu hann.  Pabbi hans brá á það ráð að koma honum til náms í hnefaleikum.  Eftir að hafa sótt tvo tíma gekk kennarinn á fund föðurins;  tjáði honum að ekki væri hægt að kenna afa.  Hann kynni ekki að taka leiðsögn.  Þegar taka ætti létta æfingu þá missti afi ætið stjórn á skapi sínu og færi að slást eins og upp á líf og dauða. 

  Eljan í afa dugði vel til bústarfa.  Hann breytti stórgrýttum melum í grösug tún.  Hann greip ótal misstórra steina í fangið og henti þeim út fyrir túnstæðið.  Sumum svo stórum að undrun sætir að hægt hafi verið að bifa þeim.  Þetta þótti svo mikið afrek að Kristján 10. Danakonungur verðlaunaði afa fyrir ótrúlegar jarðumbætur.  Verðlaunin voru fjármunir sem hjálpuðu afa að reisa glæsilegt íbúðarhús með samfastri hlöðu, fjósi og haughúsi 1937.  Það var fyrsta steinhúsið í Hjaltadal. 

  Þremur áratugum síðar bankaði farandsölumaður á dyr.  Hann var að selja stóla.  Mamma keypti af honum skrifstofustól og bauð honum í kaffi.  Í eldhúsinu sat afi.  Þeir sölumaðurinn kynntu sig með nafni.  Við að heyra nafn afa sagði sölumaðurinn:  "Stefán Guðmundsson á Hrafnhóli.  Þetta hljómar kunnuglegt.  Ég hef heyrt þetta nafn áður."

  Afi svaraði:  "Það er nú líkast til.  Það var sagt frá því í útvarpinu er ég fékk peningaverðlaun frá Kristjáni 10. Danakonungi."

kristján 10.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kristján 10.

Hrafnhóll

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hrafnhóll


Misgóð plötuumslög

  Breskur netmiðill heitir Loudersound.com.  Hann gerir þungu rokki af ýmsu tagi góð skil.  Á dögunum birti hann samantekt á misvel heppnuðum plötuumslögum.  Greinin heitir "Crap 80s Metal Art is our new favourite thing".  Það má hafa gaman af þessu.  Þungarokkið var í krísu á 8unni (níunda áratugnum).  Nýbylgjan fór mikinn,  einkum nýrómantíkin (sítt að aftan).  Í Bandaríkjunum börðust Verndarsamtök foreldra af hörku gegn þungarokki - meeð töluverðum árangri. 

  Útvarpsstöðvar veigruðu sér við að spila þungarokk af ótta við Vrndarsamtökin. 

  Þungarokksplötuumslög voru mörg hver heimagerð.  Drátthagur vinur eða vandamaður var fenginn til að henda saman umslagi - án þess að hann hefði skilning á "semilógíu" (táknmáli myndefnis).  Engu skárri var þekking og skilningur á leturfræði.  Útkoman var tilræði við dómgreind plötukaupandans.  Það var talað niður til hans eins og krakkakjána. 

umslag a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er nafnið Sound vægast sagt illa og hallærislega handteiknað.  Að auki eru teiknuðu fígúrurnar litlu skárri.

albúm b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nafn flytjandans er illlæsilegt og óþungarokkslegt.  Mér sýnist það vera Zarpa.  Myndin á að vekja óhug og tákna að hér sé "brútal" þungarokk á ferð.  Til þess ar hún aftur á móti alltof of aulaleg.  

umslag c

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Önnur teikning sem á að vekja óhug og tákna grimmt þungarokk en er einungis barnalega kjánalegt.

umslag d

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Teikningin er þokkaleg en gerir illt verra fyrir þungarokk.  Hún á heima í teiknimyndablaði fyrir krakka. 

umslag e

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Teikningin er ekki vond.  Bara asnaleg.

umslag f

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Teikningin er svo hrópandi and-þungarokksleg að það er vandræðalegt. 

umslag g


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband