Færsluflokkur: Spaugilegt

Afi hótar bónda - framhald

  Hvort bróðir minn braut rúðuna i skólanum er óvíst.  Aldrei hefur fengist úr því skorið.  Hann hélt fram sakleysi sínu.  Og gerir enn.  Þó er eins og hann verði pínulítið skömmustulegur á svipinn þegar þetta ber á góma.  Bróðir húsbóndans hélt því fram að hann hafi séð bróðir minn brjóta rúðuna. 

  Afi trúði engu upp á sonarson sinn.  Hann sór þess eið að ná fram hefndum.  Tækifærið kom næst er hann fékk far með mjólkurbílnum að skólanum. Ekki var von á skólabílnum á allra næstu mínútum.  Bóndinn bauð afa í kaffi.  Á borð voru bornar kökur og tertur af ýmsu tagi.  Segja má að afa hafi verið haldin veisla.  

  Afi sat gegnt bóndanum við eldhúsborðið.  Þeir spjölluðu um heima og geima.  Virtist fara vel á með þeim;  uns bóndinn spurði:  "Hvað er Mundi með margar ær í hverri kró í vetur?"

  Afi brá við skjótt.  Eldsnöggt teygði hann sig yfir borðið.  Lætin voru svo mikil að gusaðist úr kaffibollanum hans.  Hann lagði krepptan hnefa að kinn bóndans.  Hann kýldi ekki.  Lagði bara hnefann að kinn,  skók hann og hrópaði reiðilega:  "Sonur minn heitir Guðmundur.  Ekki Mundi!"

  Bóndanum dauðbrá.  Hann hikstaði og stamaði:  "Já,  ég hérna...já, meina Guðmundur."

  Afi róaðist þegar í stað og fékk sér síðasta kaffisopann um leið og hann svaraði sallarólegur:  "Það eru ýmist 20 eða 21."

  Næstu daga hældi afi sér aftur og aftur fyrir að hafa hrellt bóndann svo rækilega að hann myndi dreyma martraðir næstu nætur.

  


Afi hótar bónda

  Afi var mikill flakkari.  Alveg til dauðadags. Hann lét gönguerfiðleika ekki aftra sér.  Vegna brjóskeyðingar í mjöðmum var hann skakkur og skældur;  gat ekki rétt úr sér og staulaðist áfram með tvo stafi.  Hann var seigur að snapa far,  hvort heldur sem var til og frá Sauðárkróki,  Svarfaðardal,  Reykjavík eða eitthvert annað.   

  Þegar ég var 7 eða 8 ára var ég í fámennum barnaskóla í Hjaltadal.  Skólastofan var rúmgóð stofa á bóndabæ.  Það hentaði afa.  Hann fékk far með mjólkurbílnum frá Sauðárkróki til skólans.  Þaðan fékk hann far með skólabílnum heim í Hrafnhól.  Þar bjuggum við.

  Eitt sinn í lok skóladags stóðum við krakkarnir og afi úti á hlaði og biðum eftir bílnum. Skyndilega birtist bóndinn á bænum,  gekk að eldri bróður mínum og sakaði hann um að hafa brotið rúðu.  Strákur neitaði sök.  Bóndinn greip um hálsmál hans,  felldi hann á bakið,  settist yfir honum með hnefa á lofti.  Hótaði að berja úr honum játningu.  Afi brá við skjótt;  hóf annan staf sinn á loft og hrópaði:  "Slepptu drengnum eða ég læt stafinn vaða af fullu afli í hausinn á þér!"

  Bóndanum brá.  Hann þaut eins og eldibrandur inn í hús.  Lengi á eftir hældi afi sér af því við hvern sem heyra vildi hvað bóndinn varð hræddur við hann.  Bætti svo við:  "Verst hvað kvikindið var snöggt að flýja.  Ég hefði vilja dúndra í hausinn á honum!

 


Hártískan

  Í dægurlagaheimi er algengt að poppstjörnur veki athygli á sér með sérstakri hárgreiðslu.  Í sumum tilfellum smitast þetta út til almennings og verður almenn tíska.  Stærsta dæmið er þegar Bítlarnir tóku upp á því að greiða hárið niður á enni.  Einnig síðar þegar þeir leyfðu hárinu að vaxa niður á herðar og skiptu í miðju.  Svo voru það pönkararnir sem skörtuðu móhíkanakambi.  Ekki má gleyma "sítt að aftan" á 8-unni. 

  Í upphafi 20. aldar voru tískustraumar í hárgreiðslu.  Að minnsta kosti í Bandaríkjunum.  Sérlega virðist hafa verið vinsælt að koma sér upp töluverðri hárhrúgu hægra megin á kollinum. Eða til beggja hliða. Hér eru sýnishorn:

hár bhár chár dhár ehár fhár ghár hhár i 


Ferðagjafarvandræði

  Ég vaknaði upp með andfælum þegar í útvarpinu glumdi auglýsing um ferðagjöfina.  Þar var upplýst að hún væri alveg við það að renna út.  Ég hafði ekki leist mína út.  Nú voru góð ráð dýr.  Ég var ekki á leið í ferðalag eitt né neitt.  Ég var bara á leið í Kringluna.  Ég brá mér í Hamborgarafabrekkuna sem þar er staðsett.

  Ég tilkynnti afgreiðsludömu að ég hefði hug á að virkja ferðagjöfina.  Ég dró upp takkasímann minn.  Hann hefur þjónað mér dyggilega frá síðustu öld.  Hún spurði hvort ég væri ekki með snjallsíma.  Nei,  bara þennan.  Ég veit ekki einu sinni hvað snjallsími er.  Daman fórnaði höndum og skipaði mér að hinkra.  Ég hlýddi möglunarlaust.  Hún brá sér frá og sótti aðra afgreiðsludömu.  Sú reyndi að virkja gjöfina.  Án árangurs.  Ég bað hana að reyna aftur.  Hún fórnaði höndum og sagði að þetta virkaði ekki.  

  Næst átti ég erindi í Hamraborg í Kópavogi.  Þar er Subway.  Ég þangað.  Afgreiðslumanneskjan komst ekki lengra en sú í Kringlunni.  Hún reyndi samt aftur og aftur.  Ungur karlmaður blandaði sér í málið.  Hann var allur af vilja gerður að hjálpa.  Eftir nokkrar atrennur áttaði hann sig á því hvernig hlutirnir virkuðu.  Hann er greinilega tölvusnjall.  Hann var allt í einu kominn með strikamerki í símann sinn.  Hann gaf dömunni fyrirmæli um að taka mynd af því og þá væri dæmið í höfn.  Það gekk eftir.

  Til að klára inneignina gerði ég mér ferð í Pítuna í Skipholti.  Afgreiðsludaman sagðist þurfa að gúggla hvernig hún gæti afgreitt dæmið.  Eftir smástund sagði hún:  "Þetta virkar ekki í tölvunni.  En ég get græjað þetta í snjallsímanum mínum."  Það gekk eins og í sögu.

   Á meðan ég beið eftir matnum varð ég vitni að eftirfarandi:  Ung kona fékk máltíð sína.  Skömmu síðar stormaði hún með diskinn sinn að afgreiðsluborðinu.  Spurði hvort að hún hefði pantað þennan rétt.  Afgreiðsludaman játti því og benti á að það stæði á kvittun hennar.  Konan sagði:  "Ég ætlaði ekki að panta þetta.  Ég ætlaði að panta..."  Ég náði ekki hvað hún nefndi.  

  Afgreiðsludaman tók erindinu vel.  Sagði eitthvað á þessa leið:  Ekkert mál.  Ég afskrifa pöntun þína og læt þig fá máltíðina sem þú ætlaðir að panta.

  Þetta er þjónustulund til fyrirmyndar.       

 

kótilettur 


Smásaga um glaðvakandi mann

  Jónsi er í kvöldheimsókn hjá Binna vini sínum.  Þeir hafa ekki hist síðan þeir voru saman í skóla.  Það eru meira en tvær vikur síðan.  Þeir hafa því frá mörgu að segja og draga hvergi undan.  Mikið er hlegið og tíminn er fljótur að líða.  Fyrr en varir slær stofuklukkan tíu.  

  Ella,  kona Binna,  rekur nefið inn um stofugættina.  Hún segir honum að drífa sig í háttinn.  

  "Róleg, kona,"  svarar hann.  "Þú sérð að ég er með gest."

  Það snöggfýkur í Ellu.  Hún hleypur að Binna og sparkar í fótinn á honum.  Hann rekur upp sársaukavein.  Ella forðar sér úr stofunni.

  Skömmu síðar er barið harkalega á dyr.  Ella opnar dyrnar.  Fyrir utan standa tveir lögregluþjónar gráir fyrir járnum.  Annar er tröllvaxinn rumur.  Hinn er nett dama.  Hún spyr valdmannslega:  "Hvar er pésinn sem vill ekki fara að sofa?"

  Ella bendir á Binna.  Löggurnar ganga að honum.  Þær skella honum með látum í gólfið.  Hann berst um á hæl og hnakka.  En er ofurliði borinn.  Löggurnar tæta utan af honum fötin.  Svo mikill er atgangurinn að tölurnar slitna af skyrtunni hans og spýtast í allar áttir.  Jónsi notar tækifærið og læðist óséður úr húsi.  

  Binni róast þegar hann er aðeins á nærbuxunum.  Löggudaman kallar til Ellu:  "Á hann náttföt?"  Hún kannast ekki við það.  En segist geta lánað honum náttkjól.  Löggurnar troða honum í kjólinn.  Troða í bókstaflegri merkingu.  Hann er nefnilega of lítill.  Í honum svipar Binna til lundabagga. 

  Binna er dröslað inn í rúm.  Ella er komin undir sæng.  Rumurinn spyr:  "Eigum við ekki að sekta kvikindið?"  Daman svarar:  "Nei,  ég veiti honum bara skriflega áminningu.

  Hún dregur upp áminningablokk og fyllir út formið.  Rumurinn spyr:  "En má ég ekki rásskella hann?"  Hún samþykkir það en tekur fram:  "Aðeins eitt högg."

  Hann lætur ekki segja sér það tvisvar.  Hann hendir Binna á magann og slær hann kröftuglega á bossann svo smellur hátt í.  Því næst snýr hann honum á bakið og skorðar þétt við Ellu.  Hann breiðir sængina yfir þau.  Alveg upp að höku.  Hann hvíslar:  "Góða nótt" og kyssir hjúin á ennið.  Svo hverfur hann út í náttmyrkrið ásamt dömunni.     


Smásaga um fót

  Bænastund er að hefjast.  Bænahringurinn raðar sér í kringum stóra bænaborðið.  Óvænt haltrar ókunnugur gestur inn á gólf.  "Ég er með mislanga fætur," segir hann.  "Getið þið beðið fyrir kraftaverki um að þeir verði jafn langir?"

  "Ekki málið," svarar forstöðumaðurinn. "Leggstu á bakið hér ofan á borðið.  Við græjum þetta."

Sá halti hlýðir.  Forstöðumaðurinn leiðir bæn. Svo sprettur hann á fætur og grípur um fót gestsins,  hristir hann kröftuglega og hrópar:  "Í Jesú-nafni skipa ég þér fótur að lengjast!"

  Þetta endurtekur hann nokkrum sinnum.  Að lokum hrópar hann sigri hrósandi:  "Ég fann fótinn lengjast!  Þú ert heill, félagi."

  Hann hjálpar gestinum að renna sér niður af borðinu.  Þar fellur hann í gólfið en bröltir á fætur og fellur jafnharðan aftur í gólfið.  Það fýkur í hann.  Hann hrópar:  "Helvítis fúskarar!  Þið lengduð vitlausan fót!"

  Forstöðumaðurinn reiðist líka.  Hann hvæsir:  "Það má ekki á milli sjá hvor fóturinn er vitlausari.  Báðir snarvitlausir!"

  Hann grípur um axlir gestsins og dregur hann að útidyrunum.  Gesturinn er á fjórum fótum og spyrnir við.  Hann minnir á kind í réttum sem þráast við að vera dregin í dilk. 

  Forstöðumaðurinn nær að henda honum út á hlað.  Þar sparkar hann kröftulega í rassinn og hrópar:  "Þakkirnar fyrir hjálp okkar eru ekkert nema vanþakklæti.  Nú er munurinn á fótunum sá sami og þykkt gangstéttarhellu.  Þú getur ólað hana á þig og gengið óhaltur."

  Gesturinn fylgir ráðinu.  Það reynist heillaráð. 

 


Skammaður í búð

  Ég átti erindi í verslun.  Keypti fyrir 2000 kall.  Borgaði með hundraðköllum.  Pirraður afgreiðslumaður:  "Af hverju ferðu ekki í banka og færð seðla?"  Ég:   "Bankarnir eru lokaðir út af Covid-19"  Hann:  "Þá bíður þú með klinkið þangað til þeir opna."  Ég:  "Hvað er málið?"  Hann:  "Bara djöfulsins ruddaskapur að henda í mann hrúgu af 100 köllum."

 


Furðuhlutir

  Fólk er alltaf að fá hugmyndir.  Sérstaklega fá margir hugmyndir um allskonar hluti og matvæli.  Stundum mætti uppfinningarfólkið hafa taumhald á sér í stað þess að hefja framleiðslu á uppfinningunni.  Til að mynda er stundum ástæða til að ráðast í markaðskönnun.  Hún gæti bjargað mörgum frá því að missa aleiguna í stóru gjaldþroti.  Hér má sjá nokkur dæmi sem markaðurinn hafnaði.

  Blátt sýróp var ekki að gera gott mót.  Né heldur augnhár fyrir bíla.  Hvað með gosdrykki með bragði á borð við beikon, hnetusmjör og buffaló-vængi?  Svo var það snilldin að sameina buxur og strigaskó.  Hárgreiða með tönnum og lautarferðarbuxur?  Hvað var þessi að pæla sem ætlaði að slá í gegn með barnapúða sem veldur martröð?  Eða sykurfrauð með pizza-bragði?

blátt syrópaugnhár á aðalljósumgosdrykkir með skrýtnu bragðisameinaðar buxur og skóhárgreiður með tennurbuxur fyrir lautarferðmartraðafígúra fyrir börncandy-flos með pizza-bragði  


Reglur eru reglur

  Stundum á ég erindi í pósthús.  Oftast vegna þess að ég er að senda eitthvað áhugavert út á land.  Landsbyggðin þarf á mörgu að halda.  Ég styð þjónustu við hana.  Enda er ég dreifbýlistútta úr Skagafirði.  Margt þykir mér skrýtið,  svo skilningssljór sem ég er.  Ekki síst þegar eitthvað hefur með tölvur að gera. 

  Þegar pakki er sendur út á land þarf að fylla út í tölvu fylgibréf.  Þar þarf í tvígang að skrá inn póstnúmer sendanda og póstnúmer viðtakanda.  Þegar allt hefur verið skráð samviskusamlega þarf að prenta það út á pappír,  klippa hann niður og líma yfir með þykku límbandi.  Ódýrara og handhægara væri að prenta það út á límmiða.  

  Á dögunum var ég að senda vörur til verslunarkeðju út á landi.  Ég kann kennitölu þess utanbókar.  En í þetta sinn komu elliglöp í veg fyrir að ég myndi kennitöluna.  Ég bað afgreiðslumann um að fletta kennitölunni upp fyrir mig.  Hann neitaði.  Sagði sér vera óheimilt að gefa upp kennitölur.  Það væri brot á persónuvernd. 

  Við hlið hans var tölva sem ég hafði aðgang að til að fylla út fylgibréf.  Sem ég og gerði.  Þetta var spurning um hálfa mínútu eða svo.  Ég spurði hver væri munurinn á því að ég fletti upp fyrir framan hann kennitölu eða hann gerði það.  Svarið var:  Þú ert í rétti til þess en ekki ég. 

  Já,  reglur eru reglur. 


Undarlegt samtal í banka

  Ég var að bruðla með peninga í bankaútibúi.  Það var tuttugu mínútna bið.  Allt í góðu með það.  Enginn var að flýta sér.  Öldruð kona gekk hægum skrefum að gjaldkera.  Hún tilkynnti gjaldkeranum undanbragðalaust hvert erindið var.  "Ég ætla að kaupa peysu hjá þér,"  sagði hún.  Gjaldkerinn svaraði:  "Við seljum ekki peysur.  Þetta er banki."  Konan mælti áður en hún snérist á hæl og gekk burt:  "Já,  ég veit það.  Ég hélt samt að þið selduð peysur." 

peysa


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband