Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
9.4.2016 | 20:03
Og þá voru eftir níu
Stöðugt bætist við í hóp forsetaframbjóðenda. Líka í hóp þeirra sem kallað er eftir að fari í framboð. Um þessar mundir stefnir í að frambjóðendur verði um eða yfir tuttugu. Eru þá frátaldir tveir sem hafa hætt við framboð. Fyrst var það riddari drottins, Árni Björn. Síðan riddari heilbrigðs lífstíls, Þorgrímur Þráinsson, baráttumanns gegn sígarettum og að mæður horfi ekki í augu nýfæddra barna við brjóstagjöf.
Fleiri eiga eftir að heltast úr lestinni. Ástæðan er þríþætt: Í fyrsta lagi vegna skorts á úthaldi. Það kostar mikla elju og mikinn tíma að standa í framboði af fullri alvöru.
Í öðru lagi fellir peningaskortur frambjóðendur. Það þarf lágmark 10 - 15 milljónir króna til að eiga möguleika á árangri. Tvöfalt hærri upphæð ef frambjóðandinn er ekki þegar landsfrægur. Þegar nær kjördegi líður mun þessi staðreynd blasa við frambjóðendum.
Í þriðja lagi eru það meðmælendur. Hver frambjóðandi þarf lágmark 1500 meðmælendur. Reynslan hefur sýnt að nauðsynlegt er að skila inn nöfnum 3000 meðmælenda. Á síðustu fjórum áratugum hafa að minnsta kosti tvö framboð verið felld úr leik vegna ófullnægjandi meðmælalistam - þrátt fyrir að hafa skilað inn 3000 undirskriftum.
Það sem platar marga er að einungis fólk með kosningarétt má mæla með framboði. Undirskrift yngra fólks er ógild.
Annað vandamál er að á flestum meðmælendalistum slæðast með undirskriftir grínara. Af raunverulegum dæmum um slíkt má nefna undirskrift "Karlsins í tunglinu" og "Andrésar Andar". Einnig ósamræmi í kennitölum og lögheimili. Svo og að einungis má mæla með einum frambjóðanda. Það verður stóra vandamálið í ár.
Framboð tuttugu sem skila inn undirskrift 3000 meðmælenda hver þýðir að við erum að tala um undirskrift 60 þúsund manna. Það gengur ekki upp. Þeir sem verða seinir til að fá meðmælendur lenda í vandræðum. Þegar til kastanna kemur verður fjöldi frambjóðenda nær einum tug en tveimur. Í dag hefur aðeins Sturla Jónsson náð 3000 meðmælendum. En það er ekki öll nótt úti fyrir aðra áhugaverða frambjóðendur. Slagurinn er rétt að byrja.
![]() |
Þorgrímur hættur við framboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 10.4.2016 kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.4.2016 | 19:36
Misskildasti maður heims
Áðan var hringt í mig frá Bandaríkjum Norður-Ameríku. Í símanum var maður sem ég hef aldrei áður rætt við í síma. Hafði aðeins keypt af honum vörur í fyrrasumar. Samskiptin þá fóru fram í gegnum ópersónulegan tölvupóst.
Erindið í dag var að viðkomandi sagðist vera eitt spurningamerki og verulega forvitinn vegna frétta í bandarískum fjölmiðlum um að allt væri "crazy" á Íslandi. Hann spurði hvernig íslenska heilbrigðiskerfið taki á persónulegum vandamálum hátt settra. Ég skildi ekki spurninguna og gat engu svarað. Stamaði þó út úr mér að það væri áreiðanlega gott að taka sopa af lýsi á morgnana.
Í dag hringdi einnig í mig Íslendingur búsettur í Noregi. Hann sagði að Íslendingar væru aðhlátursefni í Noregi.
Það þarf ekki að fara stóran rúnt um netsíður helstu fjölmiðla heimspressunnar til að sjá að Ísland og Íslendingar séu uppspretta ótal brandara í dag. Íslenskum ráðamönnum er líkt við klaufana í dönsku sjónvarpsþáttunum Klovn og dauða páfagaukinn hjá bresku Monty Python: "Hann er bara að hvíla sig."
Það má líka líkja ástandinu við vaktaseríurnar og kvikmyndina Bjarnfreðarson. Þetta er allt misskilningur.
Forsætisráðherrann, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þrætti við sænskan sjónvarpsmann um að tengjast skattaskjóli í útlöndum. Að vísu játaði hann hugsanleg tengsl við verkalýðsfélög sem ættu snertiflöt við peninga í útlöndum. En hann þrætti kokhraustur fyrir það sem í dag liggur fyrir: Að hann og eiginkona hans hafa til fjölda ára geymt hundruð milljóna króna í útlöndum í skjóli frá íslenskum gjaldeyrislögum.
Hann þrætti hraustlega fyrir að hafa selt eiginkonunni hlut sinn í peningasjóði þeirra. Reykjavík Medía hefur undir höndum afrit af undirskrift hans á þeirri leikfléttu. Svo sat hann beggja vegna borðs í samningum við hrægamma föllnu bankanna. Segist þar hafa gengið harkalega fram gegn heimilistekjum sínum. En enginn vissi eða átti að vita það. Kröfuhafar eru þó nokkuð sáttir með allt að 97% afslátt.
Þegar 10 þúsund manns boðuðu mótmælastöðu á Austurvelli fullyrti SDG með hæðnistóni að þetta fólk myndi ekki mæta. 22.427 mættu. Munurinn bendir til þess að SDG sé úr tengslum við þjóðina.
Ítrekað aðspurður um afsögn vísaði SDG því út í hafsauga. Allt tal um það væri misskilningur. Ekkert slíkt kæmi til greina. Í sömu andrá sagði hann af sér.
Í gærmorgun skrifaði SDG Fésbókarfærslu. Þar tilkynnti hann að næsta skref væri að rjúfa þing (og hefna sín þannig á Sjálfstæðisflokknum sem treysti sér ekki til að lýsa yfir stuðningi við SDG). Forsetanum var misboðið. Hann hafnaði því að embættið yrði dregið inn í reiptog á milli formanna stjórnarflokkanna. Þetta útskýrði forsetinn á blaðamannafundi. SDG brást við blaðamannafundinum með því að saka forsetann um lygar. SDG segist hafa upplifað eitthvað allt annað á fundinum með forsetanum. Gott ef ekki að þeir hefðu bara horft á kúrekamynd saman og maulað poppkorn.
Sigurður Ingi Jóhannsson dýralæknir kvaddi sér hljóðs og tilkynnti að hann væri orðinn forsætisráðherra. SDG væri búinn að segja af sér.
Blaðafulltrúi SDG sendi í kjölfarið út fréttatilkynningu til allra helstu fjölmiðla heims um að SDG væri hvergi búinn að segja af sér. Hann væri aðeins að stíga til hliðar. Heimspressan hendir gaman að þessu um leið og hún játar vandræði við að skilja dæmið. Hún spyr: Hver er munurinn á því að segja af sér eða stíga til hliðar? Þetta er gott grín. Það er hið besta mál að Íslendingar kæti heimsbyggðina. Líka að framsóknarmenn allra sveita landsins syngi: "Should I Stay or Should I go?"
Brýn ástæða er til að taka fram og undirsstrika að hvorki SDG né eiginkona hans eru á leið út í geim í geimskutlu. Það er alveg eins hægt að fara "Eight Miles High" á eyðibýli norður í landi.
![]() |
Sigmundur: Anna vildi ekki út í geim |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 7.4.2016 kl. 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
5.4.2016 | 16:49
Vilji þjóðarinnar
Frá því löngu fyrir síðustu alþingiskosningar hafa háværar raddir hrópað eftir því að Sigurður Ingi Jóhannsson verði leiðtogi þjóðarinnar. Á þessar raddir var lengi vel aldrei hlustað af þeim sem fóru með æðstu völd. Röddunum fjölgaði og létu hærra í sér heyra. Að lokum söfnuðust 22.427 manns saman niður á Austurvelli í gær og hrópuðu í kór eftir leiðtoga lífs síns: "Við viljum Sigurð Inga Jóhannsson dýralækni! Við viljum Sigurð Inga Jóhannsson dýralækni!" Nú hefur þeim orðið að ósk sinni. Ráðandi öfl létu undan þrýstingnum. Sigurður Ingi er orðinn kóngur.
Samkvæmt skoðanakönnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins nýtur hann trausts alveg 3% þjóðarinnar (og Fiskistofu). Það skiptir máli.
![]() |
Sigurður Ingi taki við af Sigmundi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 6.4.2016 kl. 06:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
4.4.2016 | 05:26
Heimsfrægur í útlöndum
Þetta er allt einn stór misskilningur. Samfélagsmiðlarnir loga. Í fljótu bragði virðist þetta vera flest á einn veg: Menn túlka atburði gærdagsins sem svo að forsætisráðherra þjóðarinnar, hinn rammíslenski og þjóðholli Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafi lagt land undir fót og flúið með skottið á milli lappanna undan meinleysislegum spurningum forvitinna drengja. Einungis vegna þess að hann var kominn í einhverskonar ógöngur; rak í vörðurnar með taugarnar þandar og þurfti ferskt útiloft til að ná jafnvægi á ný.
Samkvæmt mínum heimildum er ástæðan önnur. Sveitastrákinn af eyðibýli á Norðurlandi langaði skyndilega í súkkulaðitertu. Þegar mallakúturinn kallar á djöflatertu þá þolir það enga bið. Þetta vita allir sem hafa ástríðu fyrir súkkulaðitertu. Við erum að tala um bráðatilfelli.
Bestu fréttirnar eru þær að núna er súkkulaðistrákurinn orðinn frægasti Íslendingurinn í útlöndum. Það er meira fjallað um hann í heimspressunni í dag en Björk. Miklu meiri. Hann er á forsíðu stórblaðanna í sex heimsálfum. Öllum nema Suðurskautslandinu.
http://panamapapers.sueddeutsche.de/articles/56fec0cda1bb8d3c3495adfc/
http://www.svtplay.se/video/7373606/agenda/agenda-3-apr-21-15
![]() |
Lögregla kölluð að heimili Sigmundar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
13.3.2016 | 14:16
Eineltið færist í aukana
Hálfskoski-kvartþýski New York athafnamaðurinn Dónald Jón Trump hefur sætt stanslausu einelti síðustu mánuðina. Ekki síst af hálfu íslensks almennings og íslenskra fjölmiðla. Hann er hæddur og spottaður. Að því er virðist fyrir það eitt að taka þátt í forvali repúblikana fyrir forsetakosningar í Bandaríkjum Norður-Ameríku.
Eineltistilburðir Íslendinga hafa eitrað út frá sér. Bandarískir tónlistarmenn hafa snúist gegn Dónaldi Jóni. Menn sem hann áleit vera sína bestu og nánustu vini. Fleiri skemmtikraftar hafa fylgt í kjölfarið og sagt ljót orð um manninn.
Nú eru kjósendur reppanna hver á fætur öðrum farnir að taka þátt í eineltinu. Þeir eru margir hverjir hættir að kjósa hann. Núna síðast í Wyoming og Washington DC. Um og yfir 9 af hverjum 10 kusu ekki Trump.
Góðu fréttirnar eru að hann nýtur einarðs og einlægs stuðnings nasistahópa á borð við Ku Klux Klan.
Dónald Jón er breyskur eins og allt annað fólk. Einn af hans göllum er að treysta ekki fagmönnum. Hann stólar á eigin getu. Það kemur ekki alltaf vel út. Til að mynda ber hann sjálfur á sig sjálfbrúnkukrem. Yfirleitt er það misheppnað. Of mikið, of appelsínugult, flekkótt og ójafnt. Þetta þarf að laga. Svona gera menn ekki. Það má ekki bera sjálfbrúnkukrem alveg að augum og hársverði. Fagmenn kunna að afgreiða það með einfaldri tækni. Hún er kennd í förðunarskólum. Greinilega og hrópandi kann Dónald Jón það ekki. Auk þess virðist hann ekki vita af því að til eru sjálfbrúnkukrem sem framkalla eðlilegan sólbrúnkutón án appelsínugula litsins. Ég er miður mín yfir því hvernig hann klúðrar þessu. Niðurstaðan gæti orðið sú að hann verði fyrsti appelsínuguli forseti Bandaríkjanna eða þó öllu heldur ekki.
![]() |
Trump gersigraður í tveimur ríkjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 15.3.2016 kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
10.3.2016 | 21:33
Ölgerð á dauðalista sýndi Færeyingum fádæma hroka
Það fer ekki öllum vel að fara með völd. Eitt ljótasta dæmi þess var framkoma forstjóra Ölgerðarinnar, Andra Þórs Guðmundssonar, í garð bestu og traustustu vina Íslendinga, Færeyinga. Fyrir nokkrum árum sendi hann færeyskum bjórframleiðanda, Föroya Bjór, fádæma hrokafullt bréf. Krafðist þess með ruddalegum hótunum að Föroya Bjór hætti að merkja gullbjór sinn sem gullbjór. Þetta ósvífna erindi var svo yfirgengilegt að það þjónaði engum tilgangi öðrum en kitla stórmennskubrjálæði/minnimáttarkennd forstjóra fyrirtækis á dauðalista. Hann fann þörf til að sparka í minnimáttar og réðst á garðinn þar sem hann var lægstur.
Viðbrögð Íslendinga við ógeðslegri og yfirgengilegri framkomu Ölgerðarinnar við færeyska vini voru til fyrirmyndar. Þeir skiptu snarlega innkaupum frá Gull-gutli Ölgerðarinnar yfir til bragðgóða Föroya Bjór Gullsins. Svo rækilega að síðarnefndi bjórinn flaug upp sölulista vínbúðanna. Áður fékkst hann aðeins í örfáum vínbúðum. Salan jókst um 1200%. Nú er hann í öllum vínbúðum. Eða svo gott sem. Enda mun betri en Ölgerðarsullið. Margir hættir að kaupa allar aðrar vörur Ölgerðarinnar.
Það fráleita í hrokafullu frekjukasti forstjóra Ölgerðarinnar var að Föroya Gull hefur verið miklu lengur á markaði en Ölgerðar-gutlið. Þar fyrir utan er Gull alþjóðleg lýsing á tilteknum bjórflokki. Alveg eins og pilsner eða stout bjór. Já, eða "diet" á öðrum vörum. Það var engin innistæða fyrir heimskulegri yfirgangskröfu Ölgerðarinnar. Hún gerði ekki annað en opinbera illt innræti og hroka forstjórans.
Höfum þetta í huga við helgarinnkaup á bjór og öðrum drykkjum. Ekki kaupa neitt frá Ölgerðinni. Kaupið þess í stað hágæða Föroya Gull.
Ég tek fram að ég tengist ekki Föroya bjór á neinn hátt. Hinsvegar er brýnt að halda þessu til haga þegar Ölgerðin fer á markað. Hugsanlegir væntanlegir kaupendur þurfa að vita þetta. Fyrirtækið er í vondri stöðu með forstjóra sem kann ekki mannasiði.
![]() |
Vissu af dauðalistanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 11.3.2016 kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.3.2016 | 09:33
Útlendir ferðamenn á Íslandi éta ekki hvað sem er
Í ár koma hátt í tvær milljónir erlendra ferðamanna til Íslands. Þeir eru ekki í leit að alþjóðlegum skyndibitastöðum á borð við McDonalds, Burger King, Subway, KFC, Dominos eða Taco Bell. Þessa staði finna þeir heima hjá sér. Ör fjölgun túrista á Íslandi skilar sér ekki í kaupum á ruslfæði samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Þvert á móti. Það þrengir að þessum stöðum. Gott dæmi um það er að Subway á Ísafirði gaf upp öndina á dögunum. Einmitt í kjölfar túristasprengju á Vestfjörðum.
Útlendir ferðamenn á Íslandi vilja smakka eitthvað nýtt og öðruvísi. Þeir prófa kæstan hákarl, hangikjöt, svið, lifrarpylsu og ýmsa spennandi sjávarrétti. Nú er lag fyrir veitingastaði að bjóða upp á íslenskan heimilismat: Kjötsúpu, plokkfisk og sveitabjúgu. Svo að ekki sé minnst á grillað lambakjöt, kótelettur (án rasps!) og lambalæri með brúnni sósu, Ora grænum og rauðkáli. Íslenska lambakjötið er best í heimi (á eftir færeyska skerpikjötinu). Við eigum að fóðra túrista á því. Svo vel og rækilega að þeir verði háðir því. Það styrkir útflutning á kjötinu.
Á spjalli mínu við erlenda ferðamenn hef ég uppgötvað undrun þeirra yfir því að Íslendingar borði heita sósu með flestum mat. Þeir eiga öðru að venjast.
![]() |
Ferðafólki boðið lambakjöt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 10.1.2017 kl. 18:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
7.3.2016 | 22:44
Auðleyst vandamál
Ég var vestur á fjörðum. Sem oft áður. Í gamla daga var hálf einmanalegt utan vinnutíma í vinnuferðum úti á landi. Ég var oftast eini gestur á gistiheimilum og hótelum. Það var næstum því óþægilegt. Starfsmenn kannski þrír eða fjórir. Gistikostnaður minn stóð ekki undir launakostnaði þeirra. Á móti kom að um sumarið mættu ferðamenn til leiks og bættu upp taprekstur vetrarins.
Nú er öldin önnur er Sveinbjörn stökk á stöng. Nú er ekki þverfótað fyrir útlendum ferðamönnum á öllum tímum árs. Jafnframt hefur framboð á gistirýmum vaxið ævintýralega. Það er skemmtileg tilbreyting frá því sem áður var að lenda í þvögu af ferðamönnum frá öllum heimsálfum. Líka vitandi að þeir skilja eftir sig hérlendis í ár 500 þúsund milljónir króna í gjaldeyri. Þeir togast á um alla mögulega leigða bíla, fjölmenna á matsölustaði, kaupa lopapeysur og aðra minjagripi. Og það sem telur einna mest: Taka ljósmyndir og myndbönd af norðurljósunum, skíðabrekkum og allskonar. Þetta póstar liðið á Fésbók og Twitter út um allan heim. Við það ærast vinir og vandamenn. Verða friðlausir í löngun til að koma líka til Íslands. Margfeldisáhrifin eru skjótvirk og öflug.
Hitt er annað mál að ástæða er til að taka snöfurlega á glannaskap túrista. Þeir átta sig ekki á að hættur leynast í íslensku landslagi. Bæði við fossa og í fjöru. Túristarnir taka ekkert mark á vel merktum lokunum á gönguleiðum eða vegum. Það þarf að glenna framan í þá merkingum um að brot á banni á þessum svæðum varði háum fjársektum. Þá finna þeir til í buddunni. Það virkar.
Viðskipti og fjármál | Breytt 9.1.2017 kl. 17:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.2.2016 | 19:04
Rottukjöt í matinn
Þrátt fyrir allskonar niðurgreiðslur, styrki, ívilnanir, fyrirgreiðslur, klíkuskap og annað kunnuglegt freistast margir matvælaframleiðendur til þess að svindla á viðskiptavinum. Líklegt er að þú eða einhver sem þú þekkir hafi borðað rottukjöt án þess að vita það. Talið sig vera að japla á kjúklingakjöti.
Þetta hendir þegar snætt er í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Það staðfestir matvælaeftirlitið vestra. Milljónir kílóa af rottukjöti er selt sem beinlaust kjúklingakjöt, hvort heldur sem er á veitingastöðum eða í matvöruverslunum.
Að sögn kunnugra er rottukjöt lakara en kjúklingakjöt. Með réttum kryddum má fela muninn. Að minnsta kosti upp að því marki að villa um fyrir grunlausum.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.2.2016 | 18:54
Allt í rugli hjá Kanye West
Það er margt einkennilegt við bandarískan rappara, Kanye West frá Chicago. Hann er einnig fatahönnuður og plötuútgefandi. Lög hans og plötur seljast eins og heitar lummur. Samt er hann alltaf blankur. Alltaf vælandi yfir peningaleysi. Samt er hann giftur vellauðugri konu, Kim Kardashian West. Hún er módel og sjónvarpsstjarna. Hún vill að hann standi á eigin fótum fjárhagslega. Þess vegna hleypir hún honum ekki í budduna sína. Hún er þó alveg til í að fóðra.
Kanya er nánast eina óvænta frægðarmennið sem styður Donald Trump í baráttu hans við að verða frambjóðandi republikana til embættis forseta Bandaríkja Norður-Ameríku. Aðspurður segist Trump vera þakklátur stuðningnum. Einhverra hluta vegna gerir hann ekkert með stuðninginn. Slær honum ekki upp í auglýsingum né á kosningasíðu sinni.
Stuðningurinn er einungis munnlegur. Ekki fjárhagslegur. Þvert á móti segja illar tungur að stuðningurinn sé lymskubragð til að plata Trump til að fjárfesta í fyrirtækjum Wests (les = gauka peningum að síblönkum Kanye).
Sjálfur ætlar Kanye að verða forseti BNA 2021.
Við fráfall ensku poppstjörnunnar Davids Bowies hótaði Kanye að gera plötu honum til heiðurs (tribute). Kráka öll hans vinsælustu lög. Aðdéendur Bowies brugðust hinir verstu við. Mótmæltu út og suður, þvers og kruss. Sökuðu Kanye um allt það versta varðandi plötuna. Vísuðu þeir m.a. í það hvernig honum hefur tekist upp við að kráka Freddy Mercury í heiðursskini.
Hörðustu aðdáendur Freddys lýsa flutningi Kanyes sem misþyrmingu á Queen-slagara og grófa vanvirðingu við góðan söngvara. Ekki skipti ég mér af því. Hvað sem segja má um Queen þá var Freddy nokkuð góður söngvari. Hlustið og dæmið sjálf.
![]() |
Kanye þrábiður Zuckerberg um peninga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)