Færsluflokkur: Löggæsla
24.2.2015 | 20:38
Hvort kynið er betri bílstjóri? Óvænt niðurstaða
Í dag eru leigðir bílar iðulega búnir tölvu sem geymir allar upplýsingar um aksturinn. Breska fyrirtækið In-car Cleverness skoðaði tölvubúnað tíu þúsund leigðra bíla; skrásett og flokkað yfir sex mánaða tímabil.
Í ljós kom að konur aka að meðaltali hraðar en karlar. Þær aka 17,5% hraðar en karlarnir. Það kemur á óvart. Í fljótu bragði ætla flestir að karlar séu glannarnir. Þeir stígi fastar á bensínpedalann.
Þar fyrir utan lenda karlar frekar í óhöppum - þrátt fyrir að aka hægar. Það eru fimm sinnum meiri líkur á að þeir valdi einhverskonar tjóni á bíl. Allt frá smádældum til stærri tjóna. Það er ekkert smá munur. Kannski eru karlar áhættusæknari? Eða meiri klaufar?
Löggæsla | Breytt 18.2.2016 kl. 17:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
21.2.2015 | 20:46
Jón Þorleifs og símahleranir
Einn góðan veðurdag fékk Jón Þorleifsson, verkamaður og rithöfundur, þá flugu í höfuðið að bandaríska leyniþjónustan, CIA, fylgdist með sér. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvenær honum datt þetta í hug. Mig grunar að það hafi verið í kjölfar þess að systir mín og hennar fjölskylda flutti til útlanda fyrir aldarfjórðungi eða svo. Fyrstu símtölin að utan voru úr lélegum símasjálfsölum. Á sama tíma varð Jón þess var að pakkar að utan voru greinilega opnaðir á Tollpóststofunni.
Grunur og vissa Jóns um þessar njósnir urðu þráhyggja. Hann velti sér upp úr þessu. Það var í aðra röndina eins og honum þætti upphefð af því að vera undir eftirliti CIA.
Sumir urðu til að fullyrða við Jón að þetta væri hugarburður hjá honum. "Hvers vegna ætti leyniþjónusta vestur í Ameríku svo mikið sem vita af íslenskum eftirlaunþega þó að hann gefi út fjölritaðar bækur í örfáum eintökum?" var spurt.
Jón svaraði: "Það er merkilegt að leyniþjónustan hafi svona miklar áhyggjur af bókunum mínum. Orð geta verið beittari en sverð."
Jón gerði sér nokkrar ferðir til Símans í Ármúla. Þar krafðist hann þess að Síminn hætti umsvifalaust að leyfa CIA að hlera síma sinn. Kunningi minn sem vann hjá Símanum sagði að heimsóknir Jóns vektu kátínu þar á bæ.
Jón taldi sig merkja af viðbrögðum starfsmanna Símans að þeir vissu upp á sig skömmina. Þeir urðu lúpulegir og missaga.
Svo fór að starfsmaður Símans heimsótti Jón. Sagðist vera að rannsaka þessar hleranir. Jón sagðist hafa verið fljótur að sjá í gegnum það leikrit. "Maðurinn var ósköp vinalegur. Hann ræddi við mig um flest annað en símhleranirnar. Vildi vita hvernig heilsa mín væri og hvaðan ég væri af landinu. Hann tók aðeins upp símtólið til að heyra sóninn. Hann hafði ekki einu sinni rænu á að þykjast leita að hlerunarbúnaði. Enda vissi hann jafn vel og ég að hlerunarbúnaðurinn er staðsettur í húsakynnum Símans eða Sendiráði Bandaríkjanna."
Fleiri sögur af Jóni: hér
Löggæsla | Breytt 22.2.2015 kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2015 | 21:29
Bráðskemmtilegar myndir úr umferðinni
Umferð í Japan getur verið afar ruglingsleg. Fyrir ókunnuga líkist hún helst flókinni gestaþraut. Fyrir ferðamenn er heppilegra að taka leigubíl en fara sjálfir undir stýri á leigðum bíl. Þessi mynd sýnir gatnamót. Allir bílarnir eru á góðri ferð.
Í Bandaríkjum Norður-Ameríku njóta vinsælda "aktu taktu" matsölustaðir sem kallast Drive-thru. Bein þýðing getur verið "ekið í gegn". Ótrúlega margir taka þetta bókstaflega og reyna að aka í gegnum matsölustaðinn.
Þessi mynd er úr bílastæðahúsi verslunarmiðstöðvar. Öll bílastæði voru upptekin. Einhvernvegin tókst ökumanni að leysa vandamálið með því að troða bíl sínum ofan á annan bíl.
Þetta er jafn undarlegt og þau ótal dæmi af ökumönnum sem tekst að leggja bíl sínum þversum í rými þar sem slíkt á ekki að vera mögulegt. Þau dæmi eiga það sameiginlegt að ökumaðurinn skilur allra manna síst hvernig þetta gerðist. Hann var að reyna að snúa bílnum þegar hann var allt í einu fastur. Komst hvorki aftur á bak né áfram.
Hvorki lögregla né ökumaður skilja upp né niður í því hvernig þessi bíll komst á bak við gulu steyptu staurana. Húdd bílsins dældaðist þegar ökumaðurinn reyndi að koma sér og bílnum úr þessari klemmu.
Eiginmaðurinn gaf konunni nýja eldavél í jólagjöf. Hann er dáldið gamaldags í hugsun. Telur stöðu konunnar vera á bak við eldavélina. Myndin sýnir viðbrögð konunnar.
Atburðarrásinni lauk ekki þarna heldur þurfti með mikilli lagni og fyrirhöfn að losa kallinn úr leiktæki í bakgarði heimilisins.
Sonur hjónanna fékk bíl í jólagjöf. Hann er ekki með bílpróf. En tók samt rúnt á bílnum. Svo varð bíllinn bensínlaus. Þá fauk í stráksa og hann henti bílnum í ruslið. Hann hélt að bensínlaus bíll væri ónýtur.
Löggæsla | Breytt 11.2.2016 kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.2.2015 | 20:25
Svikin matvæli og svikin fæðubótaefni
Í hillum íslenskra og útlendra verslana er gríðarlega mikið af fölsuðum vörum. Þær eru af öllu tagi. Nýlegar efnagreiningar á fæðubótaefnum í fjórum helstu verslunarkeðjum í New York í Bandaríkjum Norður-Ameríku leiddu í ljós að uppistaðan af vörunum er "feik". Þær innihalda lítið sem ekkert af virkum efnum sem vörurnar eru kenndar við.
Íslendingar þekkja svona dæmi af kjötbökum sem innihalda ekkert kjöt. Frægir eru nautakjötsréttir sem innihalda hrossakjöt en ekkert nautakjöt.
Margir pizzastaðir nota ostlíki á sínar pizzur. Jafnframt er kjöthakkið "aðeins" soyakjöt. Stundum reyndar blandað saman við hrossakjötshakk.
Fyrir mörgum árum voru allar ginsengsvörur í sænskum verslunum efnagreindar. Yfir 20 tegundir. Aðeins tvær stóðust skoðun. Flestar innihéldu ekkert ginseng.
Hérlendis þekkjum við "Rautt Kóreskt ginseng". Eftir fjölda kvartana frá neytendum létu Neytendasamtökin efnagreina "Rautt Kóreskt ginseng" á þýskri rannsóknarstofu. Niðurstaðan var ótvíræð til samræmis við grun neytenda: Það er ekkert rautt ginseng í vörunni.
Núna voru Interpol og Europol að gera skurk í að afhjúpa fölsuð matvæli í verslunum á Íslandi og víðar. Niðurstaðan var óhugnanleg. Markaðurinn er fullur af fölskum vörum. Meira að segja er allt morandi í fölsuðum hænueggjum. Í ljós kom að sum þeirra eru hanaegg og önnur páskaegg.
Fölsuð matvæli í tonnavís | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.2.2015 | 22:22
Óþolandi umburðarlyndi gagnvart ofbeldi
Það er einkennilegt hvað íslenskir dómsstólar eru léttúðugir gagnvart heimilisofbeldi. Ítrekað hafna þeir ósk barnaverndaryfirvalda og lögreglu um nálgunarbann. Það virðist þurfa að ganga mjög mikið á áður en dómstólar fallast á nálgunarbann. Lögreglan þarf að veifa framan í dómara hnausþykkum skýrslubunka sem sannar langvarandi ofbeldi til að fallist sé á það.
Barn á aldrei að upplifa það að vera áhorfandi að ofbeldi á heimilinu. Eitt atvik er of mikið. Manneskja sem beitir barn ofbeldi er illmenni.
Það er glæpur að beita barn ofbeldi. Óþverralegur glæpur. Hvort heldur sem er andlegu eða líkamlegu ofbeldi. Það á að taka á þeim glæp af fullri festu til samræmis við alvarleika hans.
Barn á að upplifa heimili sem hreiður og skjól. Líka fullorðið fólk. Heimilisofbeldi má ekki líða. Það á að taka snöfurlega á slíku og beita öllum mögulegum meðölum til að stöðva og fyrirbyggja framhald á því. Það þarf að skilgreina heimilisofbeldi sem grófan og MJÖG alvarlegan glæp.
Helst þyrfti að loka ofbeldismann umsvifalaust í 2ja vikna gæsluvarðhald við fyrsta brot. Jafnframt að beita hann háum fjársektum, skikka í samfélagsþjónustu og setja nálgunarbann. Aðeins þannig fær illmennið rétt skilaboð.
Umburðarlyndi dómsstóla gagnvart heimilaofbeldi er óþolandi.
Barði börn sín og hótaði þeim | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt 17.2.2015 kl. 13:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.2.2015 | 23:17
Sekir eru saklausir
Siggi var sauðdrukkinn úti í haga,
sullandi í rommi lengst austur í mó.
Valtur um holtin kaus hann að kjaga
kengfullur út um allt þversum hann spjó.
"Agg, gagg, gagg," sagði tófan a grjóti.
"Agg, gagg, gagg," sagði Siggi á móti.
Göróttum augunum trúi ég hann gjóti.
Greyið hann Siggi, hann þorir ekki heim.
Samkvæmt mínum heimildum er Al-Thani bróðir sinn.
Brotin þaulskipulögð og ófyrirleitin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt 13.2.2015 kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
7.2.2015 | 20:15
Besta líkamsræktin
Líkamsrækt og líkamsræktarstöðvar eru ein mesta geggjun síðustu ára. Í árþúsundi komst fólk vel af án þessara fyrirbæra. Það er allt kengruglað við þetta. Glöggt dæmi um það er að viðskiptavinir líkamsræktarstöðvanna troðast hver um annan þveran við að leggja jeppunum sínum sem allra næst inngangi stöðvanna. Þeir hika ekki við að leggja ólöglega til að komast hjá því að labba örfáa metra að líkamsræktarstöðinni.
Kaninn tekur þetta alla leið. Hann hefur rúllustiga frá bílastæði yfir að inngangi líkamsræktarstöðva. Litla Ameríka, Ísland, mun klárlega apa þetta - eins og annað - eftir. Eini munurinn er sá að eigendur íslenskra líkamsræktarstöðva fá athugasemdalaust að greiða sér svimandi há laun og háar arðgreiðslur út úr rekstrinum á milli þess sem þeir henda nokkrum kennitölum í gjaldþrot með tilheyrandi risa afskriftum. Í bland eru fjölmiðlar keyptir til þess eins að reka blaðamenn sem skrifa fréttir um þetta.
Hlaupum yfir góðan bisness á líkamsræktarstöðvum sem lýtur að sölu á sterum.
Líkamsrækt fyrri hluta dags hefur ekkert að segja. Hún virkar ekki. Besta líkamsræktin er ókeypis. Hún felst í því að vakta nágrennið að nóttu til. Standa innbrotsþjófa að verki og elta þá. Hlaupa á eftir þeim og koma þeim í hendur á lögreglunni. Það er holl skemmtun og þjóðhagslega hagkvæm.
Elti þjóf um miðborgina í nótt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt 8.2.2015 kl. 10:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.1.2015 | 23:18
Jón Þorleifs og símhleranir
Jón Þorleifsson, verkamaður og rithöfundur, var góðum gáfum gæddur. Hann var fjölfróður. Ótrúlega fjölfróður miðað við stutta skólagöngu og kunni ekkert erlent tungumál, sér til lestrar og fróleiks. Honum dugði að fylgjast vel með íslenskum dagblöðum og tímaritum.
Á gamals aldri gerðist Jón rithöfundur. Sendi frá sér tugi bóka af ýmsu tagi. Þetta voru ljóðabækur, sjálfsævisaga og hugleiðingar um heimsmál.
Jón var gagnrýninn á menn og málefni í þessum bókum. Bækurnar seldust ótrúlega vel miðað við að Jón seldi þær "maður á mann". Hann seldi 400 - 600 eintök af hverri bók.
Á þessum tíma, áttunda og níunda áratugnum, voru heimilissímar allsráðandi. Þar heyrðust stundum smellir og skruðningar. Einkum í eldri símtækjum. Jón brást ókvæða við slíkum óhljóðum. Hann hætti þegar í stað að beina orðum að viðmælanda. Þess í stað hellti hann sér yfir meinta njósnara og símhleranadólga bandarísku leyniþjónustunnar CIA. Las þeim pistilinn tæpitungulaust.
Örfáum vikum eftir að Jón féll frá voru stórfelldar símhleranir á Íslandi afhjúpaðar Fátt bendir til þess að Jón hafi verið hleraður. Ekkert bendir heldur til þess að hann hafi ekki verið hleraður. Næsta víst er að Jón hefði fagnað fréttunum af símhlerunum. Sigri hrósandi hefði hann sagt eitthvað á þessa leið: "Hvað sagði ég ekki? Svo var því haldið fram að ég væri ímyndunarveikur og geggjaður."
Fleiri sögur af Jóni: Hér
Löggæsla | Breytt 1.2.2015 kl. 17:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2015 | 19:34
Íslenska frekjan og oftrú á ökuhæfileika sína
Íslenskir ökumenn eru einstaklega frekir og sjálfhverfir. Einkum þeir sem aka um á Range Rover eða álíka jeppum. Þetta sýnir fjöldi ljósmynda af slíkum bílum sem lagt er í stæði frátekin fyrir fatlaða. Einnig myndir af sömu bílum lagt á ská í tvenn og alveg upp í fern bílastæði. Skýring frekjuhundanna er sú að þeir vilji ekki að fíni bíllin verði "hurðaður".
Frekjurnar láta ekkert stoppa sig. Þegar snó hleður niður og lokar flestum götum aka þær af stað fullar sjálfstraust. Og verða alltaf jafn undrandi þegar bíllinn situr fastur og spólar sig niður í næsta skafli.
Þegar heiðar verða ófærar er þeim lokað af lögreglunni. Frekjurnar taka ekkert mark á því. Þær taka krappa beygju framhjá lokunarskiltinu. Nokkru síðar er bíllinn pikkfastur í næsta snjóskafli. Þá er hringt í Björgunarsveitina og heimtað að hún reddi málunum. "Komið með heitt kakó handa mér í leiðinni og pizzu með pepperoni. Mér er hálf kalt. Ég er á lakkskóm og þunnum leðurjakka. Ég vil líka Andrés Önd blað til að skoða á leiðinni heim. Ha? Ég á víst rétt á þessu. Ég hef borgað skatta. Ha? Er Björgunarsveitin ekki rekin fyrir skatta? Það er ekki mitt vandamál."
Um hríð bjó ég í Ásgarði. Þá þurfti ég á hverjum morgni að aka inn á Bústaðaveg. Það tók sinn tíma. Frekjurnar á jeppunum gáfu engan sjéns. Það var ekki fyrr en kom að gömlum ryðguðum Skóda eða Lödu að líkur jukust verulega á því að mér væri hleypt inn í bílaröðina.
Fastur í lakkskóm og leðurjakka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.1.2015 | 19:51
Skaut besta vin sinn
Byssur drepa engan, að sögn margra. Ekki fremur en hnífar, sprengjur eða sinnepsgas. Engu að síður geta byssur verið varasöm leikföng. Það fengu tveir nánir vinir, Philip og Ian, að sannreyna á dögunum. Báðir höfðu þeir dálæti á byssum, hermennsku, stríði og þess háttar.
Philip kíkti inn í verslun í London sem höndlar með allskonar stríðsdót. Þar keypti hann meðal annars skothelt vesti. Hann varð þegar í stað gríðarlega montinn yfir vestinu. Hann státaði sig af því við hverja einustu manneskju sem hann hitti. Líka fólk sem hann þekkti ekkert en varð á vegi hans.
Suma bað hann um að skjóta sig. Enginn vildi það þann daginn. Samt fullyrti Philip að það yrði ekkert nema gaman. Algjörlega skaðlaus skemmtun. Vestið væri, jú, skothelt.
Dagur kom að kveldi. Philip gat varla beðið eftir því að fara á hverfispöbbinn til að flagga vestinu. Philip til mikilla vonbrigða uppveðraðist enginn á barnum yfir vestinu. Og enginn fékkst til að skjóta hann. Fyrr en besti og nánasti vinur hans, Ian, mætti. Sá var dolfallinn af hrifningu yfir vestinu. Það þurfti ekki að mana hann til að skjóta vin sinn. Hann henti hugmyndina umsvifalaust á lofti. Hann dró upp byssuna sína, þeir fóru út á tún og Ian skaut Philip. Hann lést úr innvortis meiðslum.
Ian hefur nú fengið sjö ára dóm fyrir sína þátttöku í leiknum. Þar af er helmingurinn óskilorðsbundinn. Dómarinn hafði samúð með Ian. Trúði því að hann væri niðurbrotinn eftir leikinn. Gráti stöðugt og fái hryllilegar martraðir á nóttunni. Hann hefði jafnframt þegar í stað ekið með Philip á Slysó. Hinsvegar hafi hann viljugur tekið þátt í heimskulegum og lífshættulegum glannaskap: Að skjóta vin sinn úr nokkurra feta fjarlægð. Menn eiga að skjóta óvini, samkvæmt skilgreiningu ríkisins, en ekki vini sína.
Dómarinn fyrirskipaði að byssa Ians verði gerð upptæk og eyðilögð. Hún sé greinilega hættulegt leikfang.
Við rannsókn málsins kom í ljós að skothelda vestið var ekki vandað alvöru skothelt vesti heldur eftirlíking.
Myndin að ofan er af Philip heitnum. Myndin hér er af banamanni hans og besta vini.
Löggæsla | Breytt 14.1.2016 kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)