Færsluflokkur: Löggæsla
25.9.2017 | 18:24
Gróf níðskrif um Íslendinga í erlendum fjölmiðli
Síðustu daga hafa erlendir fjölmiðlar fjallað á neikvæðan hátt um Íslendinga. Þeir fara frjálslega með túlkun á falli ríkisstjórnarinnar. Gera sér mat úr því að barnaníðingar urðu henni til falls. IceHot1, Panamaskjölum og allskonar er blandað í fréttaflutninginn. Smári McCarthy er sakaður um að hafa kjaftað frá - auk þess að líkja yfirhylmingu breska Íhaldsflokksins yfir barnaníðingnum Sovile, innvígðum og innmúruðum; líkja henni við yfirhylmingu Sjálfstæðisflokksins yfir sínum innvígðu og innmúruðu barnaníðingum.
Víkur þá sögu að bandaríska netmiðlinum the Daily Stormer. Hann er málgagn þess anga bandarískra hægrisinna sem kalla sig "Hitt hægrið" (alt-right). Málgagnið er kannski best þekkt fyrir einarðan stuðning við ljúflinginn Dóna Trump.
Á föstudaginn birti málgagnið fyrirferðamikla grein um Íslendinga. Fyrirsögnin er: "Íslenskar konur eru saurugar hórur. Fimm hraðsoðnar staðreyndir sem þú þarft að vita."
Greinarhöfundur segist vera fastagestur á Íslandi. Hann vitnar af reynslu. Verra er að hans túlkun á lífsstíl Íslendinga er útlistuð á ruddalegan hátt af bjána - í bland við rangtúlkanir.
Greinin er svo sóðaleg að ég vil ekki þýða hana frekar. Hana má lesa HÉR
Hlálegt en satt: Netsíða Daily Stormer er hýst á Íslandi - að mig minnir í Garðabæ (frekar en Hafnarfirði) - til að komast framhjá bandarískum fjölmiðlalögum, meiðyrðalöggjöf og þess háttar.
Löggæsla | Breytt 29.9.2017 kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.9.2017 | 04:43
Úrval annarra manna
Lengst af hafa minningargreinar í Morgunblaðinu verið helsti vettvangur fyrir hrós. Fólkið sem þar er til umfjöllunar er besta, gestrisnasta, greiðviknasta og skemmtilegasta fólk sem bréfritari hefur kynnst. Nú bregður svo við að meðmælabréf valinkunnra manna til handa dæmdum kynferðisglæpamönnum ganga lengra í hólinu.
Um alræmdasta barnanauðgara landsins segir (leturbreyting mín): "Sem manneskja er hann einstaklega ljúflyndur, þægilegur og umgengnigóður í hvívetna. Hann hefur líka jákvætt hugarfar og að sama skapi glaðværð sem smitar út frá sér og skapar gott og hlýlegt andrúmsloft."
Og: "Öll hans framganga er til fyrirmyndar."
Hrotta sem misþyrmdi, pyntaði og nauðgaði þroskaheftri konu er lýst þannig: "Einstaklega opinn og hjartahlýr maður... traustur, heiðarlegur og góður vinur með einstaklega sterka réttlætiskennd."
Körfuboltakall sem nauðgaði 17 ára stúlku er sagður vera "til fyrirmyndar bæði innan sem utan vallar."
Meðmælin veitt vegna starfsumsóknar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
15.9.2017 | 07:34
Hvað nú? Kosningar?
Það er saga til næsta bæjar að barnaníðingar og stuðningsmenn þeirra felli ríkisstjórn. Eðlilega gekk framvinda mála fram af Bjartri framtíð. Eins og flestum öðrum en Sjálfstæðisflokknum. Reyndar hefur margoft gerst í útlöndum að komist hefur upp að æðstu stjórnmálamenn og þeirra nánustu slái skjaldborg um barnaníðinga.
Líklegt er að þetta kalli á nýjar kosningar. Hvað þá? Næsta víst er að Flokkur fólksins fljúgi inn á þing. Jafnvel við þriðja mann. Spurning hvort að nýir flokkar bætist í hópinn. Einn heitir Frelsisflokkurinn eða eitthvað svoleiðis. Dettur Viðreisn út af þingi? Mun Framfarafylking Sigmundar Davíðs bjóða fram? Segir Bjarni Ben af sér formennsku í Sjálfstæðisflokknum?
Ekki lengra gengið að sinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt 16.9.2017 kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
9.9.2017 | 11:45
Heilinn þroskast hægar en áður var talið
Margt ungmennið telur sig vita allt betur en aðrir. Eða þá að það telur sig vera kjána. Bjána sem aldrei rætist neitt úr. Vonlaust eintak. Tilfellið er að ungt fólk er óþroskað. Óttalega óþroskað. Þess vegna fær það ekki að taka bílpróf fyrr en 17 ára í stað 13 - 14 ára (um leið og það nær niður á kúplingu og bremsu). Af sömu ástæðu fær það ekki að ganga í hjónaband og kjósa til Alþingis fyrr en 18 ára (auðveldara að keyra bíl en vera í hjónabandi og kjósa).
Lengi var kenningin sú að heilinn væri ekki fullþroskaður fyrr en á 18 ára. Nýgiftu fólki með kosningarétt er þó ekki treyst til þess að kaupa áfengi fyrr en tveimur árum síðar.
Nú þarf að endurskoða þetta allt saman. Með nýjustu tækni til að skoða virkni heilans hefur komið í ljós að heilinn er ekki fullþroskaður fyrr en á fertugs aldri. Um eða upp úr þrítugs afmælinu.
Þetta birtist á ýmsan hátt. Til að mynda snarfellur glæpahneigð upp úr 25 ára aldri. Það vekur upp spurnar um hvort ástæða sé til að hafa það til hliðsjónar í sakamálum. Nú þegar eru börn ósakhæf að mestu.
Annað sem breytist á þessum aldri er að athyglisgáfa eflist sem og rökhugsun og skammtímaminni. Jafnframt dregur úr kæruleysi, áhættusækni og hvatvísi. Fólk hættir að taka hluti eins oft og mikið inn á sig og komast í uppnám.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
24.8.2017 | 10:39
Áríðandi upplýsingar fyrir sólarlandafara!
Margur sólarlandafarinn er varla fyrr mættur á svæðið en magakveisa herjar á hann. Ástæðan er matareitrun. Löngum hefur ferðalöngum verið kennt að forðast hrátt salat, grænmeti og annað æti sem er skolað upp úr kranavatni. Vatnið er löðrandi í bakteríum sem íslenska magaflóran ræður ekki við.
Ástæða er til að hefja dvölina á því að slafra í sig jógúrt. Hún inniheldur varnir gegn vondum bakteríum.
Nú hefur spænska blaðið El Pais bætt inn í umræðuna fróðleik. Það greinir frá rannsókn á mat og drykk hjá svokölluðum götusölum. Bæði á götum úti og á strönd er krökkt af söluborðum og söluvögnum. Í Barcelóna eru 7000 veitingagötusalar. Rannsóknin leiðir í ljós að þarna er pottur mélbrotinn. Sóðaskapurinn er yfirgengilegur. Matur og drykkur fljóta í E-coli bakteríum. Magnið er svo svakalegt að það er bein ávísun á matareitrun. Meira að segja frambornir áfengir kokteilar eru 7200% yfir skaðlausum mörkum.
Götusalarnir starfa á svörtum markaði. Þeir lúta ekki heilbrigðiseftirliti né öðrum kröfum sem gerðar eru til fastra veitingastaða innanhúss. Þeir halda ekki bókhald og borga lítil sem engin gjöld. Það er önnur saga. Hitt skiptir öllu: Til að lágmarka hættu á matareitrun á ströndinni og göngugötunni: Ekki kaupa neitt matarkyns af götusölunum.
Löggæsla | Breytt 25.8.2017 kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.8.2017 | 02:17
Lögreglan ringluð
Í Færeyjum læsa fæstir húsum sínum. Skiptir ekki máli hvort að íbúar eru heima eða að heiman. Jafnvel ekki þó að þeir séu langdvölum erlendis. Til dæmis í sumarfríi á Spáni eða í Portúgal.
Engar dyrabjöllur eða hurðabankara er að finna við útidyr í Færeyjum. Gestir ganga óhikað inn í hús án þess að banka. Þeir leita uppi heimafólk. Ef enginn er heima þykir sjálfsagt að gestur kominn langt að kíki í ísskápinn og fái sér hressingu. Það á ekki við um næstu nágranna.
Fyrst þegar við Íslendingar látum reyna á þetta í Færeyjum þá finnst okkur það óþægilega ruddalegt. Svo venst það ljómandi fljótt og vel.
Eitt sinn hitti ég úti í Færeyjum íslenskan myndlistamann. Þetta var hans fyrsta ferð til eyjanna. Ég vildi sýna honum flotta færeyska myndlistasýningu. Þetta var um helgi og utan opnunartíma sýningarinnar. Ekkert mál. Ég fór með kauða heim til mannsins sem rak galleríið. Gekk að venju inn án þess að banka. Landa mínum var brugðið og neitaði að vaða óboðinn inn í hús. Ég fann húsráðanda uppi á efri hæð. Sagði honum frá gestinum sem stóð úti fyrir. Hann spurði: "Og hvað? Á ég að rölta niður og leiða hann hingað upp?"
Hann hló góðlátlega, hristi hausinn og bætti við: "Þessir Íslendingar og þeirra siðir. Þeir kunna að gera einföldustu hluti flókna!" Svo rölti hann eftir gestinum og þóttist verða lafmóður eftir röltið.
Víkur þá sögunni til færeysku lögreglunnar í gær. Venjulega hefur löggan ekkert að gera. Að þessu sinni var hún kölluð út að morgni. Allt var í rugli í heimahúsi. Húsráðendur voru að heiman. Um nóttina mætti hópur fólks heim til þeirra. Það var vinafólk sem kippti sér ekkert upp við fjarveru húsráðenda. Fékk sér bara bjór og beið eftir að þeir skiluðu sér heim.
Undir morgun mætti annar hópur fólks. Þá var farið að ganga á bjórinn. Hópunum varð sundurorða. Nágrannar hringdu á lögregluna og tilkynnti að fólk væri farið að hækka róminn í íbúðinni. Lögreglan mætti á svæðið. Var svo sem ekkert að flýta sér. Hávær orðræða að morgni kallar ekki á bráðaviðbrögð.
Er löggan mætti á svæðið var síðar komni hópurinn horfinn á braut. Lögreglan rannsakar málið. Enn sem komið er hefur hún ekki komist að því um hvað það snýst. Engin lög hafa verið brotin. Enginn hefur kært neinn. Enginn kann skýringu á því hvers vegna hópunum varð sundurorða. Síst af öllu gestirnir sjálfir. Eins og staðan er þá er lögreglan að reyna að átta sig á því hvað var í gangi svo hægt verði að ljúka þessu dularfulla máli. Helst dettur henni í hug að ágreiningur hafi risið um bjór eða pening.
Löggæsla | Breytt 17.8.2017 kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.8.2017 | 16:18
Sea Shepherd-liðar gripnir í Færeyjum
Færeyska lögreglan brá við skjótt er á vegi hennar urðu Sea Shepherd-liðar. Það gerðist þannig að aftan á stórum jeppabíl sást í límmiða með merki bandarísku hryðjuverkasamtakanna. Lögreglan skellti blikkljósum og sírenu á bílinn og bjóst til að handtaka liðið. Í bílnum reyndust vera öldruð hjón. Reyndar var ekki sannreynt að þau væru hjón. Enda aukaatriði. Þeim var nokkuð brugðið.
Lögreglan upplýsti gamla fólkið um nýleg og ströng færeysk lög. Þau voru sett til að þrengja að möguleikum hryðjuverkasamtakanna á að hafa sig í frammi í Færeyjum. Þar á meðal er ákvæði um að til að vera með einhverja starfsemi í Færeyjum þurfi að framvísa færeysku atvinnuleyfi. Þetta nær yfir mótmælastöður, blaðamannafundi, afskipti af hvalveiðum og allskonar.
Jafnframt hefur lögreglan heimild til að neita um heimsókn til Færeyja öllum sem hafa brotið af sér í Færeyjum. Hvergi í heiminum hafa hryðjuverkasamtökin verið tækluð jafn röggsamlega og í Færeyjum.
Gamla fólkið svaraði því til að það væri algjörlega óvirkir félagar í SS. Það kæmi ekki til greina af þess hálfu að skipta sér af neinu í Færeyjum. Ferðinni væri heitið til Íslands. Það væri einungis í smá útsýnisrúnti um Færeyjarnar á meðan beðið væri eftir því að Norræna héldi til Íslands.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
21.7.2017 | 17:27
Ábúðafullir embættismenn skemmta sér
Það er ekkert gaman að vera embættismaður án þess að fá að þreifa á valdi sínu. Helst sem oftast og rækilegast. Undir þessari færslu er hlekkur yfir á frétt af enskum lögreglumönnum sem sektuðu 5 ára telpu fyrir að selja á götu úti límonaðidrykk sem hún lagaði. Af hennar hálfu átti þetta að vera skemmtilegt innlegg í Lovebox-hátíðina í London. Sektin var 20 þúsund kall.
Seint á síðustu öld fór Gerður í Flónni mikinn í að lífga upp á miðbæ Reykjavíkur. Henni dettur margt í hug og framkvæmir það. Það var hugsjón að lífga upp á bæinn.
Eitt af uppátækjunum var að bjóða upp á nýbakaðar pönnukökur úti á Hljómalindarreitnum. Deigið hrærði hún á efri hæð Hljómalindarhússins. Ekki leið á löngu uns ábúðarfullir starfsmenn Heilbrigðiseftirlitsins mættu á svæðið. Þeir drógu upp tommustokk og mældu lofthæðina á efri hæðinni. Þá hleyptu þeir í brýnnar. Stöðvuðu umsvifalaust starfsemina að viðlögðum þungum sektum. Það vantaði 6 cm upp á að lofthæðin væri næg til að löglegt teldist að hræra pönnukökudeig þarna.
Fyrr á þessari öld voru konur á Egilsstöðum í fjáröflun fyrir góðgerðarfélag. Þær seldu heimabakaðar kleinur og randalínu. Eins og þær höfðu gert í áratugi. Í þetta sinn mætti heilbrigðisfulltrúi í fylgd lögregluþjóna og stöðvaði fjáröflunina. Konunum var tilkynnt að til að mega selja heimasteiktar kleinur verði - lögum samkvæmt - að hafa fyrst samband við embættið. Það þurfi að mæla hvort að lofthæð eldhússins sé lögleg.
5 ára sektuð fyrir límonaðisölu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt 22.7.2017 kl. 09:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.7.2017 | 08:13
Nýr flötur á okri í ferðaþjónustu
Íslensk ferðaþjónusta er á miklu flugi um þessar mundir. Enda háannatími ársins. Hver sem betur getur reynir að toppa sig í okri á öllum sviðum. Einn ómerkilegur Lipton tepoki er seldur á 400 kall á hóteli á Egilsstöðum. Bara pokinn einn og sér. Ekki með vatni eða í bolla. Samskonar poki kostar um 20 kall út úr búð.
Á Húsavík er rúnstykki með skinku og osti selt á 1200 kall. Erlendir ferðamenn eru í öngum sínum yfir íslenska okrinu. Viðbrögðin eru fálmkennd. Þeir reyna að sniðganga veitingahús sem frekast er unnt. Kaupa þess í stað brauð og álegg í matvöruverslunum. Út um holt og hæðir má sjá erlenda ferðamenn smyrja sér samlokur á milli þess sem þeir ganga örna sinna úti í grænni náttúrunni. Það er gott fyrir gróðurinn.
Sjálfsbjargarviðleitnin fór á nýtt stig í gær þegar níu bandarískir ferðamenn eltu uppi lamb, stálu því og skáru á háls. Brotaviljinn var einbeittur, eins og sést á því að þeir voru vopnaðir stórum hnífi, sveðju, til verksins. Næsta víst er þetta hafi ekki verið fyrsta né síðasta lambið sem þeir stálu. Mánaðargamalt lamb er ekki kjötbiti sem mettar níu Bandaríkjamenn. Frekar að það æsi upp í þeim sultinn.
Refsing var ótrúlega mild. Þeir voru látnir borga markaðsverð fyrir lambið og væga sekt fyrir eignarspjöll og þjófnað. Þeir voru ekki kærðir fyrir dýraníð. Né heldur fyrir að brjóta gróflega lög um sláturleyfi, þar sem gerðar eru strangar kröfur um eitt og annað. Til að mynda hvernig lóga skuli dýrum og standa að hreinlæti. Þess í stað voru þeir kvaddir með óskum um góða ferð. Ekki fylgir sögunni hvort að þeir fengu að halda drápstólinu.
Þessi viðbrögð verður að endurskoða í snatri áður en allt fer úr böndum. Ferðamennirnir eru áreiðanlega búnir að hlæja sig máttlausa á samfélagsmiðlum yfir aulagangi íslensku lögreglunnar. Jafnframt því sem þeir gæta sín á því að ræna lömbum úr augsýn annarra. Þeir hafa verið orðnir kærulausir vegna þess hve auðvelt var að stela sér í matinn.
Hugsanlega ætti að senda erlenda sauðaþjófa rakleiðis úr landi og gera ökutæki þeirra upptæk. Að minnsta kosti sekta þá svo rækilega að þeir láti sér það að kenningu verða og skammist sín.
Á að vera refsað fyrir dýraníð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
8.6.2017 | 07:14
Hjálpast að
Ég var á Akureyri um helgina. Þar er gott að vera. Á leið minni suður ók ég framhjá lögreglubíl. Hann var staðsettur í útskoti. Mig grunaði að þar væri verið að fylgjast með aksturshraða - fremur en að lögreglumennirnir væru aðeins að hvíla sig í amstri dagsins. Á móti mér kom bílastrolla á - að mér virtist - vafasömum hraða. Ég fann til ábyrgðar. Taldi mér skylt að vara bílalestina við. Það gerði ég með því að blikka ljósum ótt og títt.
Skyndilega uppgötvaði ég að bíllinn sem fór fremstur var lögreglubíll. Hafi ökumaður hans stefnt á hraðakstur er næsta víst að ljósablikk mitt kom að góðum notum.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)