Færsluflokkur: Löggæsla
26.4.2018 | 21:14
Hryðjuverkasamtök í herferð gegn rokkhljómsveit
Bandarísku hryðjuverkasamtökin Sea Shepherd eru Íslendingum að vondu kunn. Kvikindin sökktu tveimur íslenskum bátum á síðustu öld. Á undanförnum árum höfum við fylgst með klaufalegri baráttu þeirra gegn marsvínaveiðum Færeyinga 2015 og 2016. 500 SS-liðar stóðu sumarlangt sólarhringsvakt í færeyskum fjörðum.
Þegar Færeyingar ráku marsvínavöður upp í fjöru reyndu SS-liðar af spaugilegri vankunnáttu - og ranghugmyndum um hegðun hvala - að fæla vöðuna til baka. Það skipti reyndar litlu máli því að færeyska lögreglan kippti þeim jafnóðum úr umferð. Snéri þá niður, handjárnaði og flaug með þá á brott í þyrlu. Gerðu jafnframt báta þeirra og verkfæri upptæk; myndbandsupptökuvélar, tölvur, ljósmyndavélar o.þ.h. Sektuðu að auki einstaklingana um tugi þúsunda kr. svo undan sveið.
Brölt SS í Færeyjum misheppnaðist algjörlega. Varð þeim til háðungar, athlægis og að fjárhagslegu stórtjóni. Færeyingar uppskáru hinsvegar verulega góða landkynningu. Hún skilaði sér í túristasprengju sem færeysk ferðaþjónusta var ekki búin undir. Gistirými hafa ekki annað eftirspurn síðan.
Eftir hrakfarirnar hafa hnípnir SS-liðar setið á bak við stein, sleikt sárin og safnað kjarki til að leita hefnda. Stundin er runnin upp.
Forsagan er sú að fyrir nokkrum árum náði færeyska hljómsveitin Týr 1. sæti norður-ameríska CMJ vinsældalistans. Hann mælir plötuspilun í öllum útvarpsstöðvum framhaldsskóla í Bandaríkjunum og Kanada. Hérlendis er CMJ jafnan kallaður "bandaríski háskólaútvarpslistinn". Það vakti gríðarmikla athygli langt út fyrir útvarpsstöðvarnar að færeysk þungarokkshljómsveit væri sú mest spilaða í þeim.
Færeyska hljómsveitin nýtur enn vinsælda í Norður-Ameríku. Í maí heldur hún 22 hljómleika í Bandaríkjunum og Kanada. Allt frá New York til Toronto.
SS hafa hrint úr vör herferð í netheimum gegn hljómleikaferðinni. Forystusauðurinn, Paul Watson, skilgreinir hljómsveitina Tý sem hneisu í rokkdeildinni. Hún lofsyngi morð á hvölum. Forsprakkinn Heri Joensen, söngvari, gítarleikari og söngvahöfundur, hafi að auki sjálfur myrt yfir 100 hvali.
SS hafa virkjað öll sín bestu sambönd og samfélagsmiðla gegn hljómleikaferð Týs. "Stöðvum Tý! Stöðvum hvaladráp!" hrópar Paul Watson og krefst sniðgöngu. Forvitnilegt verður að fylgjast með framvindunni. Skipta hvalveiðar norður-ameríska þungarokksunnendur miklu máli? Kannski spurning um það hvað umræðan verður hávær og nær inn á stærstu fjölmiðla vestan hafs.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.4.2018 | 06:37
Færeyski fánadagurinn
Í dag er færeyski fánadagurinn, 25. apríl. Hann er haldinn hátíðlegur um allar Færeyjar. Eða reyndar "bara" 16 af 18 eyjunum sem eru í heilsárs byggð. Önnur eyðieyjan, Litla Dimon, er nánast bara sker. Hin, Koltur, er líka lítil en hýsti lengst af tvær fjölskyldur sem elduðu grátt silfur saman. Líf þeirra og orka snérist um að bregða fæti fyrir hvor aðra. Svo hlálega vildi til að enginn mundi né kunni skil á því hvað olli illindunum.
Þó að enginn sé skráður til heimilis á Kolti síðustu ár þá er einhver búskapur þar á sumrin.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 06:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.3.2018 | 05:30
Óhlýðinn Færeyingur
Færeyingar eru löghlýðnasta þjóð í heiminum. Engu að síður eru til undantekningar. Rétt eins og í öllu og allsstaðar. Svo bar til í síðustu viku að 22ja ára Færeyingur var handtekinn í Nuuk, höfuðborg Grænlands, og færður á lögreglustöðina. Hann er grunaður um íkveikju. Ekki gott. Lögreglan sagði honum að hann yrði í varðhaldi á meðan málið væri rannsakað. Þess vegna mætti hann ekki yfirgefa fangelsið. Nokkru síðar var kallað á hann í kaffi. Engin viðbrögð. Við athugun kom í ljós að hann hafði óhlýðnast fyrirmælum. Hafði yfirgefið lögreglustöðina.
Í fyrradag var hann handtekinn á ný og færður aftur í varðhald. Til að fyrirbyggja að tungumálaörðugleikar eða óskýr fyrirmæli spili inn í var hann núna spurður að því hvort að honum sé ljóst að hann megi ekki yfirgefa stöðina. Hann játaði því og er þarna enn í dag.
Löggæsla | Breytt 29.3.2018 kl. 13:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.3.2018 | 02:31
Einkennilegt mál skekur Færeyjar
Glæpir eru fátíðir í Færeyjum. Helst að Íslendingar og aðrir útlendingar séu til vandræða þar. Sömuleiðis eru Færeyingar óspilltasta þjóð Evrópu. Að auki fer lítið fyrir eiturlyfjaneyslu. Í einhverjum tilfellum laumast ungir Færeyingar til að heimsækja Kristjaníu í Kaupmannahafnarferð og fikta við kannabis. Einstaka maður.
Í ljósi þessa er stórundarlegt mál komið upp í Færeyjum. Það snýr að virtum þingmanni, sveitarstjórnarmanni í Tvöreyri og lögregluþjóni. Sá heitir Bjarni Hammer. Hann hefur nú sagt af sér embættum. Ástæðan er sú að hann reyndi að selja ungum stúlkum hass.
Bjarni var lögþingsmaður Jafnaðarmannaflokksins. Önnur stúlkan er formaður ungliðahreyfingar Þjóðveldisflokksins. Hin i Framsóknarflokknum. Þær geymdu upptöku af samskiptunum.
Í Færeyjum er gefið út eitt dagblað. Það heitir Sósialurin. Ritstjóri er hin ofurfagra Barbara Hólm. Hún er gift forsprakka pönksveitarinnar 200, sem á fjölmarga aðdáendur á Íslandi og hefur margoft spilað hér. Barbara er fyrrverandi formaður ungliðahreyfingar Þjóðveldisflokksins. Hún frétti af málinu frá fyrstu hendi. Stormaði umsvifalaust með upptökuna til lögreglunnar og upplýsti málið í Sósíalnum.
Almenningur fékk áfall. Viðbrögð flokkssystkina Bjarna eru þau að fullyrða að málið sé pólitískt. Ósvífnir pólitískir andstæðingar Jafnaðarmanna hafi með slóttugheitum gómað hrekklaust góðmenni í gildru. Misnotað rómaðan velvilja manns sem leggur sig fram um að hjálpa og greiða götu allra.
Vinur Bjarna hefur stigið fram og lýst því yfir að hann hafi komið í heimsókn til sín 2014. Þar var fleira fólk. Vinurinn kallar á konu sína til vitnis um að í það skiptið hafi Bjarni hvorki gefið né selt vímuefni.
Annað þessu skylt; um væntanlega útgáfu ríkisins á vest-norrænni söngbók. Smella HÉR
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
29.1.2018 | 00:15
Ósvífinn þjófnaður H&M
Færeyskir fatahönnuðir eru bestir í heimi. Enda togast frægar fyrirsætur, fegurðardrottningar, tónlistarfólk og fleiri á um færeyska fatahönnun.
Fyrir tveimur árum kynnti færeyski fatahönnuðurinn Sonja Davidsen til sögunnar glæsilegan og smart kvennærfatnað. Hún kynnir hann undir merkinu OW Intimates. Heimsfræg módel hafa sést spranga um í honum. Þ.á.m. Kylie Jenner.
Nú hefur fatakeðjan H&M stolið hönnuninni með húð og hári. Sonju er eðlilega illa brugðið. Þetta er svo ósvífið. Hún veit ekki hvernig best er að snúa sér í málinu. Fatahönnun er ekki varin í lögum um höfundarrétt. Eitthvað hlýtur samt að vera hægt að gera þegar stuldurinn er svona algjör. Þetta er spurning um höfundarheiður og peninga.
Á skjáskotinu hér fyrir neðan má sjá til vinstri auglýsingu frá Sonju og til hægri auglýsingu frá H&M. Steluþjófahyski.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 00:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.12.2017 | 08:34
Nýræð í 14 mánaða fengelsi
Í Þýskalandi er bannað að afneita helför gyðinga á fyrri hluta síðustu aldar. Því er haldið fram að sex milljónir gyðinga hafi verið myrtir af nasistum. Sumir telja töluna vera ónákvæma. Hvað sem til er í því þá liggur í Þýskalandi allt að fimm ára fangelsisrefsing við því að þvertaka fyrir morðin. Slíkt er skilgreint sem hvatning til kynþáttahaturs.
Öldruð þýsk nasistafrú, Ursula Haverbeck, lætur það ekki á sig fá. Í fyrra var hún dæmd til 8 mánaða fangelsunar er hún reyndi að sannfæra borgarstjórann í Detmold um að það væri haugalygi að í Auschawitz hafi verið starfrækt útrýmingarstöð. Sú gamla forhertist. Hún reyndi að sannfæra dómara, saksóknara og alla sem heyra vildu að allt tal um útrýmingarbúðir væri viðurstyggileg lygi og áróður. Var henni þá gerð aukarefsing. Nú er hún 89 ára á leið á bak við lás og slá í 14 mánuði. Hún lýkur afplánun 2019 og heldur þá upp á 91 árs afmælið.
Löggæsla | Breytt 2.12.2017 kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
20.11.2017 | 07:59
Illmenni
Varasamt er að lesa spádóma út úr dægurlagatextum. Einkum og sér í lagi spádóma um framtíðina. Bandaríski fjöldamorðinginn Charles Manson féll í þessa gryfju. Hann las skilaboð út úr textum Bítlanna. Reyndar er pínulítið ónákvæmt að kalla Manson fjöldamorðingja. Hann drap enga. Hinsvegar hvatti hann áhangendur sína til að myrða tiltekna einstaklinga.
Út úr Bítlalögunum "Blackbird" og "Helter Skelter" las kallinn spádóm um að blökkumenn væru að taka yfir í Bandaríkjunum. Ofsahræðsla greip hann. Viðbrögðin urðu þau að grípa til forvarna. Hrinda af stað uppreisn gegn blökkumönnum. Til þess þyrfti að drepa hvítt fólk og varpa sökinni á blökkumenn.
Áhangendur Mansons meðtóku boðskap hans gagnrýnislaust. Þeir hófust þegar handa. Drápu fólk og skrifuðu - með blóði fórnarlambanna - rasísk skilaboð á veggi. Skilaboð sem hljómuðu eins og skrifuð af blökkumönnum. Áður en yfir lauk lágu 9 manns í valnum.
Samhliða þessu tók Manson-klíkan að safna vopnum og fela út í eyðimörk. Stríðið var að skella á.
Spádómarnir sem Manson fór eftir rættust ekki. Það eina sem gerðist var að klíkunni var stungið í fangelsi.
Hið rétta er að Paul var með meiningar í "Blackbird"; hvatningarorð til bandarísku mannréttindahreyfingarinnar sem stóið sem hæst þarna á sjöunda áratugnum.
Charles Manson var tónlistarmaður. Ekkert merkilegur. Þó voru the Beach Boys búnir að taka upp á sína arma lag eftir hann og gefa út á plötu - áður en upp um illan hug hans komst.
Charles Manson er látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
18.10.2017 | 04:12
Samfélagsmiðlarnir loga til góðs
Samfélagsmiðlarnir virka í baráttu gegn kynferðisofbeldi. Hvort heldur sem er Fésbók, Twitter, blogg eða annað. Undir millumerkinu #höfumhátt hefur hulu verið svipt af alræmdum barnaníðingum og klappstýrum þeirra. Þöggunartilburðir hafa verið brotnir á bak aftur. Skömminni verið skilað til glæpamannanna. Lögum um uppreist æru verður breytt.
Herferð undir millumerkinu #metoo / #églíka hefur farið eins og eldur í sinu út um allan heim. Kveikjan að henni hófst með ásökum á hendur Harvey Winstein, þekkts kvikmyndaframleiðanda. Hann var sakaður um kynferðisofbeldi, meðal annars nauðganir. Á örfáum vikum hafa yfir 40 konur stigið fram og sagt frá áreitni hans. Feril hans er lokið. Hann er útskúfaður sem það ógeð sem hann er.
Í kjölfar hafa þúsundir kvenna - þekktra sem óþekktra - vitnað um áreitni sem þær hafa orðið fyrir. Þær burðast ekki lengur einar með "leyndarmálið". Það á að segja frá. Skömmin er ofbeldismannsins.
Verstu innlegg í umræðuna er þegar karlar segja: "Menn eru hættir að þora að daðra við kvenfólk af ótta við að vera sakaðir um áreitni." Menn þurfa að vera virkilega heimskir og illa áttaðir til að skynja ekki mun á daðri og kynferðislegri áreitni.
Annað innlegg í umræðuna er skrýtið. Það er að ýmsir karlar finna hvöt hjá sér til að tilkynna að þeir hafi aldrei orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Það liggur í loftinu að þá langi til að skrifa það á ennið á sér.
Weinstein varð brjálaður við höfnunina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.10.2017 | 17:11
Lögreglumál
Íslenska þjófylkingin býður ekki fram í alþingiskosningunum síðar í mánuðinum. Ástæðan er óskemmtileg: Galli blasti við á meðmælendalistum er yfirkjörstjórn í Reykjavík leit sem snöggvast á. Einhverjar undirskriftir voru skrifaðar með sömu rithönd. Og það ljótri, frumstæðri og klúðurslegri rithönd, hvíslaði að mér lítill fugl. Með ritvillum til bragðbætis. Til að mynda eitt s í Jónson. Kannski svo sem alveg nóg undir öðrum kringumstæðum.
Þetta er hið versta mál. Það hefði verið gaman að mæla styrk ÍÞ í kjörklefum; hvaða hljómgrunn stefnumál hennar eiga meðal þjóðarinnar. Ennfremur hvaða kjörþokka frambjóðendur hennar hafa. Hann gæti verið meiri en margur heldur. Eða minni.
Verra er með undirskriftirnar. Þar er um saknæmt athæfi að ræða. Skjalafals. Að því er virðist gróft. Yfirkjörstjórn hafði samband við fólk á meðmælalistunum. Meirihluti þeirra fjallagarpa kom af fjöllum. Kannaðist ekki við að hafa ljáið nafn sitt á listana.
Mig grunar helsta keppinaut ÍÞ, Flokk fólksins, um græsku. Þeir hafi sent flugumann inn í herbúðir ÍÞ til að ógilda meðmælalistana. Annað eins hefur gerst í pólitík. Jafnvel rúmlega það. Hæpið er - en ekki útilokað - að einhver sé svo heimskur að halda að hægt sé að komast upp með að falsa meðmælendalista á þennan hátt.
Einn möguleikinn er að einhverjir meðmælendur ÍÞ kunni ekki sjálfir að skrifa nafna sitt. Það er ekki útilokað. Hver sem skýringin er þá hlýtur skjalafalsið að verða kært, rannsakað og glæpamaðurinn afhjúpaður. Að því loknu dæmdur til fangelsisvistar á Kvíabryggju innan um bankaræningja.
Íslenska þjóðfylkingin býður ekki fram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
5.10.2017 | 06:52
Úps! Bíræfinn þjófnaður!
Vörumerki (lógó) þarf að vera einfalt. Afar einfalt. Því einfaldara þeim mun betra. Vegna þess að merkið er tákn. Myndskreyting er annað. Þessu tvennu rugla margir saman. Þumalputtareglan er sú að hver sem er geti teiknað merkið án fyrirhafnar og þjálfunar.
Best þekktu vörumerki heims hafa þennan eiginleika. Það er ekki tilviljun. Aðrir eiginleikar hjálpa. Svo sem að merkið sé fallegt og táknrænt. Haldi fullri reisn í svart-hvítu. Afskræmist ekki í vondri prentun og lélegri upplausn. Hér fyrir ofan eru dæmi um góð merki.
Merki stjórnmálaflokka eru eðlilega misgóð. Sum eru rissuð upp af leikmanni. Þau bera það með sér. Eru ljót og klaufalega hönnuð. Önnur hafa upphaflega verið rissuð upp af leikmanni en verið útfærð til betri vegar af grafískum hönnuði. Útkoman fer eftir því hvað leikmaðurinn leyfir þeim síðarnefnda að leika lausum hala. Að öllu jöfnu eru bestu merki hönnuð frá grunni af fagfólki.
Merki Miðflokksins er ætlað að segja mikla sögu. Það hefur lítið sem ekkert vægi fyrir gæði merkis að útskýra þurfi í löngu og flóknu máli fyrir áhorfandann hvað merkið tákni. Ef hann sér það ekki sjálfur án hjálpar þá geigar merkið sem tákn. Engu að síður getur merkið verið brúklegt án þess.
Merki Miðflokksins lítur ágætlega út. Það er reisn yfir prjónandi hesti. Merkið er ágætt sem myndskreyting. En of flókið sem lógó. Að auki er það stolið. Þetta er merki Porsche. Ekki aðeins er hugmyndin stolin. Merkið er einfaldlega "copy/paste".
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)