Færsluflokkur: Löggæsla

Ósvífinn þjófnaður H&M

  Færeyskir fatahönnuðir eru bestir í heimi.  Enda togast frægar fyrirsætur, fegurðardrottningar, tónlistarfólk og fleiri á um færeyska fatahönnun. 

  Fyrir tveimur árum kynnti færeyski fatahönnuðurinn Sonja Davidsen til sögunnar glæsilegan og smart kvennærfatnað.  Hún kynnir hann undir merkinu OW Intimates.  Heimsfræg módel hafa sést spranga um í honum.  Þ.á.m. Kylie Jenner. 

  Nú hefur fatakeðjan H&M stolið hönnuninni með húð og hári.  Sonju er eðlilega illa brugðið.  Þetta er svo ósvífið.  Hún veit ekki hvernig best er að snúa sér í málinu.  Fatahönnun er ekki varin í lögum um höfundarrétt.  Eitthvað hlýtur samt að vera hægt að gera þegar stuldurinn er svona algjör.   Þetta er spurning um höfundarheiður og peninga.

  Á skjáskotinu hér fyrir neðan má sjá til vinstri auglýsingu frá Sonju og til hægri auglýsingu frá H&M.  Steluþjófahyski. 

 

faereysk_naerfot.jpg

 


Nýræð í 14 mánaða fengelsi

  Í Þýskalandi er bannað að afneita helför gyðinga á fyrri hluta síðustu aldar.  Því er haldið fram að sex milljónir gyðinga hafi verið myrtir af nasistum.  Sumir telja töluna vera ónákvæma.  Hvað sem til er í því þá liggur í Þýskalandi allt að fimm ára fangelsisrefsing við því að þvertaka fyrir morðin.  Slíkt er skilgreint sem hvatning til kynþáttahaturs. 

  Öldruð þýsk nasistafrú,  Ursula Haverbeck,  lætur það ekki á sig fá.  Í fyrra var hún dæmd til 8 mánaða fangelsunar er hún reyndi að sannfæra borgarstjórann í Detmold um að það væri haugalygi að í Auschawitz hafi verið starfrækt útrýmingarstöð.  Sú gamla forhertist.  Hún reyndi að sannfæra dómara, saksóknara og alla sem heyra vildu að allt tal um útrýmingarbúðir væri viðurstyggileg lygi og áróður.  Var henni þá gerð aukarefsing.  Nú er hún 89 ára á leið á bak við lás og slá í 14 mánuði.  Hún lýkur afplánun 2019 og heldur þá upp á 91 árs afmælið.

thysk_nasistakona.jpg 

 


Illmenni

  Varasamt er að lesa spádóma út úr dægurlagatextum.  Einkum og sér í lagi spádóma um framtíðina.  Bandaríski fjöldamorðinginn Charles Manson féll í þessa gryfju.  Hann las skilaboð út úr textum Bítlanna.  Reyndar er pínulítið ónákvæmt að kalla Manson fjöldamorðingja.  Hann drap enga.  Hinsvegar hvatti hann áhangendur sína til að myrða tiltekna einstaklinga.

  Út úr Bítlalögunum "Blackbird" og "Helter Skelter" las kallinn spádóm um að blökkumenn væru að taka yfir í Bandaríkjunum.  Ofsahræðsla greip hann.  Viðbrögðin urðu þau að grípa til forvarna.  Hrinda af stað uppreisn gegn blökkumönnum.  Til þess þyrfti að drepa hvítt fólk og varpa sökinni á blökkumenn. 

  Áhangendur Mansons meðtóku boðskap hans gagnrýnislaust.  Þeir hófust þegar handa.  Drápu fólk og skrifuðu - með blóði fórnarlambanna - rasísk skilaboð á veggi.  Skilaboð sem hljómuðu eins og skrifuð af blökkumönnum.  Áður en yfir lauk lágu 9 manns í valnum. 

  Samhliða þessu tók Manson-klíkan að safna vopnum og fela út í eyðimörk.  Stríðið var að skella á.

  Spádómarnir sem Manson fór eftir rættust ekki.  Það eina sem gerðist var að klíkunni var stungið í fangelsi.

  Hið rétta er að Paul var með meiningar í "Blackbird";  hvatningarorð til bandarísku mannréttindahreyfingarinnar sem stóið sem hæst þarna á sjöunda áratugnum.

  Charles Manson var tónlistarmaður.  Ekkert merkilegur.  Þó voru the Beach Boys búnir að taka upp á sína arma lag eftir hann og gefa út á plötu - áður en upp um illan hug hans komst. 

 


mbl.is Charles Manson er látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfélagsmiðlarnir loga til góðs

  Samfélagsmiðlarnir virka í baráttu gegn kynferðisofbeldi.  Hvort heldur sem er Fésbók, Twitter, blogg eða annað.  Undir millumerkinu #höfumhátt hefur hulu verið svipt af alræmdum barnaníðingum og klappstýrum þeirra.  Þöggunartilburðir hafa verið brotnir á bak aftur.  Skömminni verið skilað til glæpamannanna.  Lögum um uppreist æru verður breytt.

  Herferð undir millumerkinu #metoo / #églíka hefur farið eins og eldur í sinu út um allan heim.  Kveikjan að henni hófst með ásökum á hendur Harvey Winstein,  þekkts kvikmyndaframleiðanda.  Hann var sakaður um kynferðisofbeldi,  meðal annars nauðganir.  Á örfáum vikum hafa yfir 40 konur stigið fram og sagt frá áreitni hans.  Feril hans er lokið.  Hann er útskúfaður sem það ógeð sem hann er.

  Í kjölfar hafa þúsundir kvenna - þekktra sem óþekktra - vitnað um áreitni sem þær hafa orðið fyrir.  Þær burðast ekki lengur einar með "leyndarmálið".  Það á að segja frá.  Skömmin er ofbeldismannsins.

  Verstu innlegg í umræðuna er þegar karlar segja:  "Menn eru hættir að þora að daðra við kvenfólk af ótta við að vera sakaðir um áreitni."   Menn þurfa að vera virkilega heimskir og illa áttaðir til að skynja ekki mun á daðri og kynferðislegri áreitni.

  Annað innlegg í umræðuna er skrýtið.  Það er að ýmsir karlar finna hvöt hjá sér til að tilkynna að þeir hafi aldrei orðið fyrir kynferðislegri áreitni.  Það liggur í loftinu að þá langi til að skrifa það á ennið á sér.  


mbl.is Weinstein varð brjálaður við höfnunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögreglumál

  Íslenska þjófylkingin býður ekki fram í alþingiskosningunum síðar í mánuðinum.  Ástæðan er óskemmtileg:  Galli blasti við á meðmælendalistum er yfirkjörstjórn í Reykjavík leit sem snöggvast á.  Einhverjar undirskriftir voru skrifaðar með sömu rithönd.  Og það ljótri, frumstæðri og klúðurslegri rithönd,  hvíslaði að mér lítill fugl.  Með ritvillum til bragðbætis.  Til að mynda eitt s í Jónson.  Kannski svo sem alveg nóg undir öðrum kringumstæðum.   

  Þetta er hið versta mál.  Það hefði verið gaman að mæla styrk ÍÞ í kjörklefum;  hvaða hljómgrunn stefnumál hennar eiga meðal þjóðarinnar.  Ennfremur hvaða kjörþokka frambjóðendur hennar hafa.  Hann gæti verið meiri en margur heldur.  Eða minni.

  Verra er með undirskriftirnar.  Þar er um saknæmt athæfi að ræða.  Skjalafals.  Að því er virðist gróft.  Yfirkjörstjórn hafði samband við fólk á meðmælalistunum.  Meirihluti þeirra fjallagarpa kom af fjöllum.  Kannaðist ekki við að hafa ljáið nafn sitt á listana.

  Mig grunar helsta keppinaut ÍÞ,  Flokk fólksins,  um græsku.  Þeir hafi sent flugumann inn í herbúðir ÍÞ til að ógilda meðmælalistana.  Annað eins hefur gerst í pólitík.  Jafnvel rúmlega það.  Hæpið er - en ekki útilokað - að einhver sé svo heimskur að halda að hægt sé að komast upp með að falsa meðmælendalista á þennan hátt.

  Einn möguleikinn er að einhverjir meðmælendur ÍÞ kunni ekki sjálfir að skrifa nafna sitt.  Það er ekki útilokað.  Hver sem skýringin er þá hlýtur skjalafalsið að verða kært, rannsakað og glæpamaðurinn afhjúpaður.  Að því loknu dæmdur til fangelsisvistar á Kvíabryggju innan um bankaræningja.       

   


mbl.is Íslenska þjóðfylkingin býður ekki fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úps! Bíræfinn þjófnaður!

logo Mercedes-Benzlogo Nikelogo applelogo mcdonaldslogo hakakrossinnlogo Peace

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Vörumerki (lógó) þarf að vera einfalt.  Afar einfalt.  Því einfaldara þeim mun betra.  Vegna þess að merkið er tákn.  Myndskreyting er annað.  Þessu tvennu rugla margir saman.  Þumalputtareglan er sú að hver sem er geti teiknað merkið án fyrirhafnar og þjálfunar.  

  Best þekktu vörumerki heims hafa þennan eiginleika.  Það er ekki tilviljun.  Aðrir eiginleikar hjálpa.  Svo sem að merkið sé fallegt og táknrænt.  Haldi fullri reisn í svart-hvítu.  Afskræmist ekki í vondri prentun og lélegri upplausn.  Hér fyrir ofan eru dæmi um góð merki.  

  Merki stjórnmálaflokka eru eðlilega misgóð.  Sum eru rissuð upp af leikmanni.  Þau bera það með sér.  Eru ljót og klaufalega hönnuð.  Önnur hafa upphaflega verið rissuð upp af leikmanni en verið útfærð til betri vegar af grafískum hönnuði.  Útkoman fer eftir því hvað leikmaðurinn leyfir þeim síðarnefnda að leika lausum hala.  Að öllu jöfnu eru bestu merki hönnuð frá grunni af fagfólki.

  Merki Miðflokksins er ætlað að segja mikla sögu.  Það hefur lítið sem ekkert vægi fyrir gæði merkis að útskýra þurfi í löngu og flóknu máli fyrir áhorfandann hvað merkið tákni.  Ef hann sér það ekki sjálfur án hjálpar þá geigar merkið sem tákn.  Engu að síður getur merkið verið brúklegt án þess.

  Merki Miðflokksins lítur ágætlega út.  Það er reisn yfir prjónandi hesti.  Merkið er ágætt sem myndskreyting.  En of flókið sem lógó.  Að auki er það stolið.  Þetta er merki Porsche.  Ekki aðeins er hugmyndin stolin.  Merkið er einfaldlega "copy/paste".   

MiðflokkurinnPorsche 

   


Gróf níðskrif um Íslendinga í erlendum fjölmiðli

  Síðustu daga hafa erlendir fjölmiðlar fjallað á neikvæðan hátt um Íslendinga.  Þeir fara frjálslega með túlkun á falli ríkisstjórnarinnar.  Gera sér mat úr því að barnaníðingar urðu henni til falls.  IceHot1,  Panamaskjölum og allskonar er blandað í fréttaflutninginn.  Smári McCarthy er sakaður um að hafa kjaftað frá - auk þess að líkja yfirhylmingu breska Íhaldsflokksins yfir barnaníðingnum Sovile,  innvígðum og innmúruðum;  líkja henni við yfirhylmingu Sjálfstæðisflokksins yfir sínum innvígðu og innmúruðu barnaníðingum.

  Víkur þá sögu að bandaríska netmiðlinum the Daily Stormer.  Hann er málgagn þess anga bandarískra hægrisinna sem kalla sig "Hitt hægrið" (alt-right).  Málgagnið er kannski best þekkt fyrir einarðan stuðning við ljúflinginn Dóna Trump.  

  Á föstudaginn birti málgagnið fyrirferðamikla grein um Íslendinga.  Fyrirsögnin er:  "Íslenskar konur eru saurugar hórur.  Fimm hraðsoðnar staðreyndir sem þú þarft að vita."

  Greinarhöfundur segist vera fastagestur á Íslandi.  Hann vitnar af reynslu.  Verra er að hans túlkun á lífsstíl Íslendinga er útlistuð á ruddalegan hátt af bjána - í bland við rangtúlkanir.  

  Greinin er svo sóðaleg að ég vil ekki þýða hana frekar.  Hana má lesa HÉR 

  Hlálegt en satt:  Netsíða Daily Stormer er hýst á Íslandi - að mig minnir í Garðabæ (frekar en Hafnarfirði) - til að komast framhjá bandarískum fjölmiðlalögum,  meiðyrðalöggjöf og þess háttar.  

   


Úrval annarra manna

  Lengst af hafa minningargreinar í Morgunblaðinu verið helsti vettvangur fyrir hrós.  Fólkið sem þar er til umfjöllunar er besta, gestrisnasta, greiðviknasta og skemmtilegasta fólk sem bréfritari hefur kynnst.  Nú bregður svo við að meðmælabréf valinkunnra manna til handa dæmdum kynferðisglæpamönnum ganga lengra í hólinu.

  Um alræmdasta barnanauðgara landsins segir (leturbreyting mín):  "Sem manneskja er hann einstaklega ljúflyndur,  þægilegur og umgengnigóður í hvívetna.  Hann hefur líka jákvætt hugarfar og að sama skapi glaðværð sem smitar út frá sér og skapar gott og hlýlegt andrúmsloft.

  Og:  "Öll hans framganga er til fyrirmyndar."

  Hrotta sem misþyrmdi, pyntaði og nauðgaði þroskaheftri konu er lýst þannig:  "Einstaklega opinn og hjartahlýr maður... traustur, heiðarlegur og góður vinur með einstaklega sterka réttlætiskennd." 

  Körfuboltakall sem nauðgaði 17 ára stúlku er sagður vera "til fyrirmyndar bæði innan sem utan vallar."

barnaníðingar


mbl.is Meðmælin veitt vegna starfsumsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað nú? Kosningar?

  Það er saga til næsta bæjar að barnaníðingar og stuðningsmenn þeirra felli ríkisstjórn.  Eðlilega gekk framvinda mála fram af Bjartri framtíð.  Eins og flestum öðrum en Sjálfstæðisflokknum.  Reyndar hefur margoft gerst í útlöndum að komist hefur upp að æðstu stjórnmálamenn og þeirra nánustu slái skjaldborg um barnaníðinga.

  Líklegt er að þetta kalli á nýjar kosningar.  Hvað þá?  Næsta víst er að Flokkur fólksins fljúgi inn á þing.  Jafnvel við þriðja mann.  Spurning hvort að nýir flokkar bætist í hópinn.  Einn heitir Frelsisflokkurinn eða eitthvað svoleiðis.  Dettur Viðreisn út af þingi?  Mun Framfarafylking Sigmundar Davíðs bjóða fram?  Segir Bjarni Ben af sér formennsku í Sjálfstæðisflokknum?    

hjalti og félagar


mbl.is „Ekki lengra gengið að sinni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilinn þroskast hægar en áður var talið

  Margt ungmennið telur sig vita allt betur en aðrir.  Eða þá að það telur sig vera kjána.  Bjána sem aldrei rætist neitt úr.  Vonlaust eintak.  Tilfellið er að ungt fólk er óþroskað.  Óttalega óþroskað.  Þess vegna fær það ekki að taka bílpróf fyrr en 17 ára í stað 13 - 14 ára (um leið og það nær niður á kúplingu og bremsu).  Af sömu ástæðu fær það ekki að ganga í hjónaband og kjósa til Alþingis fyrr en 18 ára (auðveldara að keyra bíl en vera í hjónabandi og kjósa).    

  Lengi var kenningin sú að heilinn væri ekki fullþroskaður fyrr en á 18 ára.  Nýgiftu fólki með kosningarétt er þó ekki treyst til þess að kaupa áfengi fyrr en tveimur árum síðar.  

  Nú þarf að endurskoða þetta allt saman.  Með nýjustu tækni til að skoða virkni heilans hefur komið í ljós að heilinn er ekki fullþroskaður fyrr en á fertugs aldri.  Um eða upp úr þrítugs afmælinu.  

  Þetta birtist á ýmsan hátt.  Til að mynda snarfellur glæpahneigð upp úr 25 ára aldri.  Það vekur upp spurnar um hvort ástæða sé til að hafa það til hliðsjónar í sakamálum.  Nú þegar eru börn ósakhæf að mestu.  

  Annað sem breytist á þessum aldri er að athyglisgáfa eflist sem og rökhugsun og skammtímaminni.  Jafnframt dregur úr kæruleysi, áhættusækni og hvatvísi.  Fólk hættir að taka hluti eins oft og mikið inn á sig og komast í uppnám.   

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband