Færsluflokkur: Löggæsla
5.5.2016 | 15:24
Forsetaframbjóðandi viðurkennir heimilisofbeldi
Líkamlegar refsingar á börnum eru ofbeldi. Þegar barn er beitt slíku ofbeldi af uppalendum sínum þá er það heimilisofbeldi. Það er bannað með lögum á Íslandi - eins og í öðrum siðuðum þjóðfélögum þar sem ofbeldi er ekki liðið. Barnaverndarnefnd skerst í málið ef að grunur vaknar eða vitneskja um að barn sæti harðræði af þessu tagi.
Það er einkennilegt að á kosningafundi í Indiana í Bandaríkjum Norður-Ameríku þá hreykti frambjóðandinn Ted Cruz sér af því að á sínu heimili væru börn beitt ofbeldi. Fyrir að grípa frammí væru þau rassskellt.
Fyrir utan það að ofbeldi gegn börnum er glæpur þá hafa rannsóknir leitt í ljós vondar, skaðlegar og langvarandi afleiðingar þess. Rassskellt börn verða árásargjarnari en önnur, andfélagsleg og eru í mikilli hættu með að þróa með sér þunglyndi og kvíða fram eftir öllum aldri. Fólk sem beitir börn ofbeldi er vont fólk.
Olnbogaði konuna í andlitið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.3.2016 | 10:09
Skelfilega ljót veggjakrot
Um daginn birti ég á þessum vettvangi ljósmyndir af nokkrum skemmtilegum dæmum um sláandi falleg götulistaverk. Það má sannreyna með því að smella HÉR. Því miður eiga ekki allir veggjakrotarar því láni að fagna að hafa hæfileika til að skapa falleg listaverk. Færeyingar fengu það staðfest í vikubyrjun. Þá vöknuðu Þórshafnarbúar upp við vondan draum. Umhverfissóði hafði um nóttina krotað á veggi, glugga og bíla nöfn og slagorð. Allt mjög illa gert.
Grunur leikur á að um útlending sé að ræða. Hugsanlega frá Bronx í New York. Ljósi punkturinn er að sóðinn virðist hafa horn í síðu SS-hryðjuverkamannsins Páls Watsons. Hér eru sýnishorn af krotinu.
Einn ljóður af mörgum við svona veggjakrot er að það hefur áráttu til að espa bjána upp í að herma eftir. Það henti í Færeyjum strax um morguninn.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.2.2016 | 05:24
Hneyksli!
Það er gott að hneykslast. Ennþá betra er að hneykslast á þeim sem hneykslast. Langbest er að hneykslast á þeim sem hneykslast á þeim sem hneykslast. Ekki síst þegar um flutning á dægurlagi er að ræða. Hneyksli hafa fylgt dægurlaginu frá því að elstu menn muna. Vandamálið er að hneykslin fjara út í áranna rás, hverfa og gleymast. Eftir stendur dægurlagið bísperrt og sívinsælt, líkt og aldrei hafi fallið á það blettur.
Þegar Elvis Presley kom fram á sjónarsviðið um miðjan sjötta áratug síðustu aldar ætlaði allt um koll að keyra. Hann þótti vera grófasta klám og negrasleikja, eins og það var kallað af hneyksluðum lýðnum sem mátti ekki vamm sitt vita.
Hérlendis hneykslaði Skapti Ólafsson virðulegt fólk með meintum svæsnum klámsöng, Allt á floti. Til að friða hneykslaðan skrílinn var lagið bannað. Það mátti ekki spila það í útvarpinu. Aðeins þannig var hægt að forða börnum frá skaða á sál til lífstíðar og forða fjölskyldum og samfélaginu frá upplausn.
Um svipað leyti brutust nánast út óeirðir vegna lagsins Vagg og velta með Sauðkrækingnum Erlu Þorsteins. Textinn þótti svívirðilegur. Hneykslaður mörlandinn las út úr textanum stórhættulega lágkúru. Talað var um að senda börn á útvarpslaus sveitaheimili til að þau lentu ekki á glapstigum við að heyra ósköpin. Sátt náðist og ró komst á þegar Útvarpsráð bannaði ófögnuðinn.
Oftar hefur þurft að banna glæfraleg háskadægurlög. Allt til að vernda börn og standa vörð um fjölskylduvænt Ísland. Í fljótu bragði er í dag ekki alltaf augljóst hvað hneykslaði hneykslunarglaða í þátíð. Góðu fréttirnar eru að margir fengu útrás í hneykslunarfárinu. Urðu eins og betri og siðvandaðri menn um stund.
Gísli Marteinn í báðum liðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (42)
18.2.2016 | 19:44
Einkennilegt háttalag strætóbílstjóra í myrkri, þoku og snjó
Sumt fólk á ekki að umgangast börn. Það skilur ekki börn. Þau fara í taugarnar á þeim. Það þekkir ekki eitt barn frá öðru. Í þeirra augum er þetta allt sami skríllinn. Alveg eins og hjá rasistum sem setja alla blökkumenn undir sama hatt; sjá engan mun á þeim.
Mér var illa brugðið við fréttir af 14 ára stjúpdóttur Guðmundar Brynjólfssonar, djákna og vinar míns á Eyrarbakka. Krakkinn tók í gærkvöldi strætó til Selfoss. Á leiðinni skipti stelpan um sæti. Við það missti bílstjórinn stjórn á sér. Það rann á hann æði. Hann sturlaðist, froðufelldi og spangólaði. Henti stelpunni umsvifalaust út á guð og gaddinn. Skipti engu þó að úti væri niðamyrkur, svartaþoka, snjór og hálka.
Hann hafði ekki hugmynd um það hvort að barnið væri með farsíma, myrkfælið eða þokkalega búið til útiveru.
Sem betur fer tókst stelpunni að ná símasambandi við foreldrana. Guðmundur ók í humátt að Selfossi. Hún hafði þá í fimm mínútur brölt í átt að Eyrarbakka í flughálku og myrkri. Köld, hrakin og niðurlægð.
Bílstjórinn réttlætir ójafnvægi sitt og uppákomu með því að kvöldið áður hafi stelpa fært sig á milli sæta. Hann taldi hugsanlegt að um sömu stelpu væri að ræða. Sem var þó ekki. Þá viti hann dæmi þess að krakki hafi sett fót upp á sæti. Að auki hafi krakki eitt sinn sýnt honum putta. Þarna var mælirinn fullur. Til viðbótar hafi Litla-Hraun verið í nágrenni. Hún hefði getað leitað þar skjóls síðar um kvöldið. Miðaði hann þá við gömul ytri landamæri Litla-Hrauns.
Nú er málið "í ferli" hjá Strætó.
14 ára hent út úr strætó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt 19.2.2016 kl. 03:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
17.2.2016 | 11:01
Hvað er þetta með Fellaskóla?
Þegar talað er um einelti í skólum berst umræðan ætíð fljótlega að Fellaskóla. Þannig hefur það verið til einhverra ára. Sögurnar þaðan eru margar og ljótar. Svör stjórnenda skólans eru eitthvað á þá leið að málin séu í ferli. Það virðist þýða að öllu sé stungið undir stól og ekkert gert.
Vegna skólaskyldu ber skólastjórnendum að tryggja velferð nemenda. Skólinn á að vera börnum öruggt skjól. Staður sem þeim líður vel á. Í góðum skóla hlakka krakkar til hvers skóladags. Geta varla beðið eftir því á morgnana að komast í skólann.
Þessu er öfugt farið með mörg börn í Fellaskóla.
Hvar er barnaverndarnefnd? Ofbeldi er glæpur. Ekki síður þegar fórnarlamb er barn heldur en fullorðið.
Tólf ára ýtt út á Hverfisgötu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
14.2.2016 | 11:50
Tölvan segir nei
Samfélagið okkar er að mjakast í mannlegri átt. Hægt og hljótt. Mannúð og samkennd sækja á. Lög og reglur eru leiðbeinandi. Þau eru mannanna verk. Þau eru ekki sett til að níðast á börnum. Af og til koma hinsvegar upp þær aðstæður að lög og reglur stangast á við þarfir barna. Þá reynir á mannlega þáttinn. Þá vegur neyðarréttur þyngra.
Það er aum framkoma gagnvart börnum í vanda að yppa öxlum og skýla sér á bak við reglur. "Tölvan segir nei," er vinsæl klisja í sjónvarpsþáttunum Litla Bretland. Það er gott grín og lýsandi fyrir starfsfólk Wow á dönskum flugvelli sem skildi þrjú börn eftir í reiðuleysi. Líka fyrir starfsfólk Fellaskóla sem neitaði stelpu um að snæða pizza-sneið með skólasystkinum sínum.
Barnaheimlin í Breiðavík og Kumbaravogi tilheyra fortíðinni. Blessunarlega. Látum hin dæmin einnig tilheyra fortíðinni. Verum í nútímanum 2016.
Þrjú börn urðu eftir á Kastrup | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt 7.12.2016 kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.2.2016 | 10:36
Í fangelsi fyrir að spila rokk
Löggæsla | Breytt 6.12.2016 kl. 17:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.2.2016 | 09:06
Í fangelsi fyrir að spila kántrý-músík
"Allt nema kántrý og þungarokk." Þetta er algengt svar við spurningunni: "Á hvernig tónlist hlustar þú?" Þegar harðar er gengið á viðmælandann kemur jafnan í ljós að hann hlustar ekki heldur á djass, indverska raga-músík né óperur.
Þeir eru til sem hlusta á kántrý. Reyndar hlusta flestir á einhver kántrý-afbrigði. Það er frekar þannig að sumir hafa óþol gagnvart sykursætasta Nashville kántrý-poppi. Annars er allur háttur á.
Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að hlusta á kántrý. Kántrý-unnandi í Skotandi var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi. Sökin var ekki meiri en sú að hann olli nágrönnum langvarandi ónæði með því að blasta kántrýi á hæsta styrk í tíma og ótíma. Einkum fengu diskar með Dolly Parton að rúlla undir geisla. Það fyllti mælinn.
Kántrý-boltanum til refsiþyngingar var metið að hann barðist um á hæl og hnakka gegn handtöku. Í atinu veittist hann með ofbeldi að einum lögreglumanni.
Dómari féllst ekki á að meta honum til refsilækkunar skerta heyrn. Þegar þannig stendur á brúka menn heyrnartól. Kántrý-gaurinn gerði það ekki. Hann taldi brýnna að breiða út kántrý-fagnaðarerindið.
Löggæsla | Breytt 4.12.2016 kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.2.2016 | 12:17
Spaugileg réttarhöld
Í réttarsal eru samtöl dómara og lögmanna við sakborning og vitni samviskusamlega skráð og færð til bókar. Eðlilega eru allir misjafnlega upplagðir. Þar getur verið dagamunur á. Að auki er fólk mis rökfast að upplagi og mis klárt í að skilja og skilgreina spurningar og svör viðmælenda.
Eftirfarandi samtöl eru öll tekin upp úr dómsskjölum í Bandaríkjum Norður-Ameríku:
-----------------
Lögmaður: Hvað er sonur þinn gamall, sá sem býr heima hjá þér?
Vitni: 38 eða 35. Ég man ekki hvort.
Lögmaður: Hvað hefur hann búið lengi hjá þér?
Vitni: Í 45 ár.
-----------------
Lögmaður: Hver er fæðingardagur þinn?
Vitni: 18. júlí.
Lögmaður: Hvaða ár?
Vitni: Á hverju ári.
-----------------
Lögmaður: Hvað var það fyrsta sem eiginmaður þinn sagði við þig þennan morgun?
Vitni: Hann sagði: Hvar er ég, Kata?
Lögmaður: Hvers vegna kom það þér í uppnám?
Vitni: Ég heiti Súsanna.
-----------------
Lögmaður: Hefur þessi sjúkdómur nokkuð haft áhrif á minni þitt?
Vitni: Jú.
Lögmaður: Á hvern hátt?
Vitni: Ég gleymi.
Lögmaður: Gleymir? Getur þú nefnt mér eitthvað sem þú hefur gleymt?
-----------------
Lögmaður: Ertu kynferðislega virk?
Vitni: Nei, ég ligg bara þarna.
-----------------
.
Lögmenn með 185 þúsund á tímann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.2.2016 | 07:23
Hættulegustu borgir heims
Þegar land er lagt undir fót er ástæða til að huga að öryggi. Í sumum útlendum borgum er mannslíf til fárra fiska metið. Aðrir grófir ofbeldisglæpir og glæpir af öllu tagi eru fylgifiskar. Margir eru svo fátækir að þeir hafa engu að tapa.
Hér er listi yfir varasömustu borgir heims. Hann spannar einungis borgir sem hafa að lágmarki íbúafjölda Íslands, 300.000.
1 Caracas, Venezuela
2 San Pedro Sula, Hondúras
3 San Salvador, El Salvador
4 Acapulco, Mexíkó
5 Maturin, Venezuela
6 Distrito Central, Hondúras
7 Valencia, Venezuela
8 Palmira, Colombíu
9 Höfðaborg, Suður-Afríku
10 Cali, Colombíu
11 Ciudad Guayana, Venezuela
12 Fortaleza, Brazilíu
13 Natal, Brazilíu
14 Salvador, Brazilíu
15 St. Louis, Bandaríkjum Norður-Ameríku
16 Joao Pessoa, Brazilíu
17 Culiacan, ekki í Skeifunni heldur Mexíkó
18 Maceio, Brazilíu
19 Baltimore, Bandaríkjum Norður-Ameríku (beint flug frá Íslandi)
20 Barquisimeto, Venezuela
21 Sao Luis, Brazilíu
22 Cuiaba, Brazilíu
23 Manaus, Brazilíu
24 Cumana, Venezuela
25 Guatemala, Guatemala
26 Belem, Brazilíu
27 Feira de Santana, Brazilíu
28 Detroit, Bandaríkjum Norður-Ameríku
29 Colania y Aparecida de Colania, Brazilíu
30 Teresina, Brazilíu
31 Vitoria, Brazilíu
32 New Orleans, Bandaríkjum Norður-Ameríku
33 Kingston, Jamaíka
34 Gran Barcelona, Venezuela
35 Tijuna, Mexíkó
Fjöldamorð í 15 ára afmæli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt 20.11.2016 kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)