Færsluflokkur: Trúmál
26.2.2016 | 19:12
Náðargáfa að tala tungum
Í kristni er vel þekkt sú náðargáfa að tala tungum. Heittrúaðir og sannkristnir í góðu og nánu sambandi við almættið tala þá ósjálfrátt, viðstöðulaust og án vandkvæða tungumál sem þeir kunna ekki. Um þetta eru áhugaverðar frásagnir í Biblíunni.
Víkur þá sögu að Svavari Sigurðssyni. Hann hefur í áratugi barist gegn fíkniefnadjöflinum. Á síðustu öld var hann viðmælandi Eiríks Jónssonar á Stöð 2 og talaði tungum. Það var áhrifaríkt - þó að hvorki hann né sjónvarpsáhorfendur skildu hvað hann sagði.
Lögreglan í Reykjavík hefur sagt frá kynnum af karlmanni sem talaði tungum við ljósastaur í Grafarvogi. Næsta víst er að þar var um mikilvægan boðskap að ræða. Vegna tungumálavanþekkingar lögreglunnar fáum við aldrei að vita hver hann var.
Talaði tungum í Grafarvogi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Breytt 30.12.2016 kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.1.2016 | 18:11
Fólk trúir
Fólk er trúgjarnt. Það er eðlislægt. Alveg frá því að börn fæðast þá verða þau að trúa foreldrum sínum og öðrum uppalendum. Þannig læra þau. Ungur nemur, gamall temur. Í gegnum alla skólagöngu verða börn að trúa kennurum sínum. Það hjálpar þeim þegar kemur að prófum.
Trú fólks er ólík eftir því hvar það er statt á jörðinni. Það fer eftir uppeldi og umhverfi. Meirihluti Íslendinga trúir á tilvist álfa og huldufólks. Líka á framhaldslíf og miðla.
Á Indlandi, næst fjölmennasta ríki heims (á eftir Kína), trúa íbúar því að beljur séu heilagar. Því ekki það? Er eitthvað sem bendir til annars?
Yfir 80% Indverja eru hindúar. Þeir trúa á endurholdgun þvers og kruss um dýraflóruna. Í næsta lífi getur maður endurfæðst sem ánamaðkur. Er eitthvað sem mælir gegn því?
Víða í Afríku og karabíska hafinu trúir fólk á galdra. Svokallaða vúdú-töfra. Vúdú-læknar þykja bera af öðrum læknum. Þeir fara með töfraþulur, slátra hænum og eitthvað svoleiðis til að lækna allskonar kvilla. Með því að útbúa litla brúðu og stinga í hana með nálum má hrekkja óvini. Jafnvel drepa hann ef vel tekst til. Kannski ekki samdægurs en ekki seinna en eftir 10 - 20 ár.
Guðir og staðgenglar þeirra sem fólk trúir á eru á bilinu 5000 til 7000. Fer dálítið eftir því hver telur og hvernig. Veðurguðirnir standa okkur Íslendingum einna næst. Þeir eru svo uppátækjasamir.
Í áranna rás hefur fjöldi fólks trúað því að jörðin sé flöt eins og flatlús. Enda ekki fráleitt og margt er líkt með skyldum. Í Bretlandi má finna formleg samtök flatjarðunga. Þau láta ekki mikið fyrir sér fara. Félagar þeirra eru feimnir.
Á allra síðustu misserum er farið að bera á því í Bandaríkjum Norður-Ameríku að nýstirni opinberi trú sína á flatri jörð. Rökin eru alveg góð - eins og fyrir svo margri annarri trú.
Segir milljónum að jörðin sé flöt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Breytt 14.11.2016 kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
24.1.2015 | 18:16
Vandræðalegt bílnúmer
Fyrir vestan haf standa yfir málaferli. Og það fleiri en ein og fleiri en tvenn. Ein málaferli snúast um bílnúmer. Kona nokkur keypti sér nýjan bíl. Hún keypti einkanúmer á hann með orðinu 8THEIST (þýðir TRÚLAUS). Þegar konan fékk bílinn í hendur blasti við á honum bílnúmerið BAPTIST (stendur fyrir þann sem hefur tekið niðurdýfingarskírn).
Konan brást hin versta við. Vandamálið er hinsvegar það að samkvæmt lögum má ekki skipta um bílnúmer. Nýr bíll er skráður á tiltekið bílnúmer og skal bera það óbreytt uns honum er fargað (eða seldur til annars ríkis).
Á skráningarstofunni er konan sökuð um að hafa handskrifað einkanúmerið illa. Það hafi valdið mislestri.
Bókstafstrúarmenn stálu styttu af keltneskum guði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Breytt 25.1.2015 kl. 16:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.9.2014 | 22:06
Hvaða þjóðir eru duglegastar að reykja kannabis?
Sameinuðu þjóðirnar hafa rannsakað og tekið saman lista yfir þær þjóðir heims sem eru lang duglegastar við að reykja marijúana. Þjóðr heims eru eitthvað á þriðja hundrað svo að það er töff að vera þar ofarlega á lista.
Í fljótu bragði mætti ætla að sigurvegarinn sé íbúar Jamaíka. Ímynd Jamaíka er samofin við hassreykjandi reggí-tónlistarmenn sem aðhyllast trúfélag sem kallast rastafarian. Rastarnir reykja hass (kaya) allan sólarhringinn af trúarástæðum. Þeir vitna til Biblíunnar um það. Þegar guð birtist Móse á fjallinu (til að ræða um boðorðin 10 eða 20) leið þykkt reykský út um vit hans. Það var hassreykur.
Rastarnir þurfa ekki frekari vitna við. Þeir reykja hassið (kaya), fara á flug (feel high) og ná góðu og nánu sambandi við himnafeðgana.
Skekkjan í dæminu er að reggí-rastarnir á Jamaíka eru aðeins um 20 þúsund. Jamaíska þjóðin telur um 2 milljónir. En reggí rastanna er stór þáttur í heimstónlistinni. Bob Marley heitinn er eina ofurstjarna 3ja heimsins. Fjöldi annarra jamaískra reggí-rasta eru sömuleiðis stór nöfn á alþjóðamarkaði: Peter Tosh, Bunny Wailer, I-Roy, U-Roy, Sly & Dunbar, Rita Marley, Ziggy Marley, Burning Spears...
Hassreykingar eru bannaðar á Jamaíka. Tæp 10% þjóðarinnar reykja hass. Jamaíkanar eru í 10. sæti yfir mestu hassreykingaþjóðir heims.
Í 9. sæti eru Ástralir. Rösklega 10% þeirra svæla hass þrátt fyrir að það sé stranglega bannað.
Spánverjar eru í 8. sæti. 10,6% þeirra er í hassinu. Þar er refsilaust að reykja en ólöglegt að rækta kannabis, selja eða nota á almannafæri.
Kanada er í 7. sæti. Rúmlega 12% Kanadabúa eru hassneytendur. Þeir virðast vera dálítið heilsulitlir vegna þess að einungis má reykja í lækningaskini.
Í Nígeríu reykir 14,3% þjóðarinnar hass - þrátt fyrir að það sé kolólöglegt.
Ný-Sjálendingar eru í 5. sæti. 14,6% eru skökk - þvert á lög.
Ítalir eru í 4. sæti. Engu að síður er sama hlutfall þeirra reykjandi, 14,6%. Sennilega er eitthvað minna prósentubrot sem greinir Ný-Sjálendinga og Ítala að. Á Ítaliu er bannað að rækta og selja hass en refsilaust að brúka það.
Bandaríkjamenn eru í 3. sæti. 14,8% Kana eru dáldið í hassinu. Það er löglegt í 2 ríkjum. Í 22 öðrum ríkjum er það löglegt í lækningaskini.
Zambía er í 2. sæti. Þar er þetta stranglega bannað. Samt sem áður reykja 17,7% íbúa hassið.
Vinningshafinn er: Ísland! Í 1. sæti á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum.
18,3% Íslendinga reykir hass. 1 í hverjum 5 manna hópi. Og dregur hvergi af sér. Lætur sem ekkert sé. Jú, þetta er bannað samkvæmt íslenskum lögum. En hver tekur mark á íslenskum lögum?
Ræktun á kannabis er hvergi meiri en á Íslandi ef frá eru talin lönd þar sem jurtin vex villt. Ræktun á Íslandi er svo stórtæk að hún er langt umfram innlenda eftirspurn. Stór hluti framleiðslunnar er útflutningur til nágrannalanda og út yfir alla Evrópu. Allt til Eystrasaltslanda. Þannig verður til gjaldeyri til að borga fyrir harðari eiturlyf sem eru flutt til Íslands.
Til að forðast misskilning þá hef ég 0% löngun í hass. Ég hef þrívegis fengið mér smók. Víman er kjánaleg og ekki fyrir minn smekk. Föroya Bjór Gull er málið!
En ég sé enga þörf á því að glæpavæða hassreykingar. Nema síður sé.
Trúmál | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
11.7.2014 | 01:04
Hver sigraði? Hver tapaði?
Í dag var í Héraðsdómi Reykjavíkur kveðinn upp dómur í einskonar prófmáli. Gunnar Þorsteinsson, löngum kenndur við Krossinn (síðan var hann rekinn úr Krossinum. Það er önnur saga), stefndi fyrir dóm tveimur talskonum fjölda kvenna sem saka Gunnar um kynferðisbrot. Einnig ritstjóra Pressunar fyrir að hafa eftir þeim ummæli. Gunnar krafðist 15 milljóna íslenskra króna í reiðufé fyrir ærumeiðingar. Jafnframt kærði hann 21 ummæli sem að sögn voru ærumeiðandi. Vissulega voru þau ærumeiðandi, hvort heldur sönn eða ósönn.
Þetta er vel þekkt aðferð kynferðisbrotamanna; að kæra stuðningsfólk þolenda. Bæði til að valda ótta og ekki síður til að valda fjárhagsskaða.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að 16 af ummælum standi óhögguð og í fullu gildi. 15 milljón króna skaðabótakröfunni var hafnað sem tilhæfulausri með öllu. Sem þýðir að ásakanir voru ekki hraktar og þar með ekki skaðabótaskyldar.
Gunnar hrósar sigri. Sigurinn felst í því að talskonur kvennanna sem saka Gunnar um kynferðislegt áreiti sitja uppi með lögfræðikostnað upp á 1,8 milljónir króna. Málskostnaður ríkisins var felldur niður. Gunnar situr sjálfur uppi með sinn lögfræðikostnað. Sem getur ekki talist vera sigur.
Hver sú manneskja sem upplifir að vera áreitt kynferðislega á að koma þeim skilaboðum til geranda að hann hafi brotið á sér. Það er sigur fyrir hana að opinbera sök og koma skömminni alfarið yfir á geranda. Bara það eitt að rísa upp, upplýsa og mótmæla - á hvað hátt sem það er gert - er sigur. Það er að standa með sjálfri sér - og ekki síður stuðningur við aðra í sömu aðstæðum.
Skilaboðin skipta öllu máli.
Burt séð frá því þá kristallast í niðurstöðu dómsins þessi orð: "Þá verður að telja heldur langsóttar þær skýringar af hálfu stefnanda að framburður þeirra allra stafi af skipulegri rógsherferð gegn honum vegna safnaðarpólitíkur eða vegna skilnaðar eða vegna núverandi eiginkonu hans."
Lögfræðikostnaður þeirra sem Gunnar reyndi - án árangurs - að ná 15 milljónum frá í sinn vasa er 1,8 milljónir. Stofnaður hefur verið söfnunarreikningur til að mæta þeim kostnaði.
Kennitala: 111183 - 2959
Banki: 0114
Höfuðbók: 05
Reikningsnúmer: 061840
Á morgun legg ég 10.000 kall inn á þennan reikning og hvet aðrar til að leggja í púkkið. Upphæðin skiptir minna máli en víðtæk þátttaka. 1000 kall, 1500 kall, 5000 kall. Allt telur. Líka sem móralskur stuðningur. Vinsamlegast deilið á Fésbók og víðar bankaupplýsingunum.
Dóminn i heild má lesa hér: http://home.tb.ask.com/index.jhtml?p2=^HJ^xdm310^YYA^is&n=780c1eaf&ptb=A3DBB36E-2129-4A8B-A42D-07C19CF5B8D4&si=pconvCh&qs=fn
www.stigamot.is
www.aflidak.is
www.solstafir.is
www.blattafram.is
Hefði ekki viljað breyta neinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Breytt 12.7.2014 kl. 12:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
23.2.2014 | 22:13
Fersk skýring á orsökum íslenska bankahrunsins
Friðrik Schram heitir maður. Hann er prestur hjá Íslensku Kristskirkjunni. Í gær var hann staddur í Færeyjum og ávarpaði landsþing færeyska Miðflokksins. Í ávarpinu upplýsti Friðrik Færeyinga um orsök bankahrunsins á Íslandi 2008 og setti það í samhengi við blómstrandi velmegun í Færeyjum.
Stóri munurinn liggur í því að Færeyingar eru kristnasta þjóðin í Evrópu á sama tíma og Íslendingar hafa ekki varðveitt trúna. "Þúsundir Íslendinga töpuðu öllu," sagði Friðrik. "Bæði eignum, vinnu, peningum og trú á framtíðina." Allt vegna þverrandi guðsótta og þverrandi virðingar gagnvart náunganum. "Þetta eru afleiðingar þess að Ísland hefur afkristnast. Af græðgi og ábyrðarleysi misnotuðu einstaklingar aðstöðu sína til að safna auði."
Friðrik gleymdi ekki að rifja upp að Færeyingar urðu fyrstir þjóða til að lána Íslendingum gjaldeyri. Og það af stórhug. "Íslendingar eru ennþá að tala um það," sagði hann.
Friðrik fullyrti að eina leið Íslendinga út úr kreppunni sé að fara þá kristnu leið sem byggir á boðorðunum 10.
Sérstaklega þetta með að girnast ekki þræl náunga síns. Ja, hann tók það reyndar ekki fram. En það lá í loftinu. Held ég.
Færeyingum þótti mikið til ræðu Friðriks koma. Enda var hún flott. Það eina sem vantaði í hana var útskýring á því hvers vegna Færeyingar lentu í bankahruni og kreppu á tíunda áratugnum. Það var mun harðari skellur en íslenska bankahrunið. En Færeyingar voru fljótir að hrista hann af sér. Meðal annars með því að henda kvótakerfinu. Síðan hefur þeim gengið allt í hag.
Hlýðum hér á færeysku hljómsveitina Hamferð, sigurvegara færeysku Músíktilrauna 2011, flytja sálminn "Herra Guð þitt dýra nafn og æra". Frábær hljómsveit sem spilaði á Eistnaflugi á Neskaupstaði 2012.
Trúmál | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
30.1.2014 | 22:16
Bannfært kjöt
Öldum saman var Íslendingum bannað að borða hrossakjöt. Það var ekki að ástæðulausu. Í ævafornum þjóðsögum gyðinga í Mið-Austurlöndum eru skýr fyrirmæli frá drottni himintunglanna um að harðbannað sé að borða kjöt af öðrum dýrum en þeim sem bæði hafa klaufir og jórtra af ákefð hvenær sem því er við komið. Hesturinn hefur aldrei komist upp á lag með að jórtra. Að auki hefur hann hófa en ekki klaufir.
Við kristnitöku á Íslandi var eðlilega rík áhersla lögð á að hér norður í ballarhafi væri farið í hvívetna eftir boðum og bönnum þjóðsaganna frá Arabíu. Þorgeir Ljósvetningagoði náði með lagni að semja um undanþágu fyrir ásatrúarmenn (sem allflestir Íslendingar voru og eru). Ásatrúarmönnum var heimilt að blóta á laun. Þar á meðal að laumast í hrossakjöt svo lítið bar á. Og það gerðu þeir með góðri lyst. Enda hrossakjöt flestu öðru kjöti hollara og bragðbetra.
Bann kirkjunnar við hrossakjötsáti var málað dökkum litum. Hrossakjötsát var skilgreint sem jafn mikill glæpur og að myrða nýfædd börn með útburði. Í aldanna rás magnaðist upp viðbjóður á hrossakjöti. Bara það að fara höndum um hrossakjöt framkallaði hroll. Verstu martraðir sem guðhræddan prest dreymdi var að hann snerti í ógáti á hrossakjöti. Þá vaknaði hann upp með andfælum, sleginn köldum svita og náðu ekki svefni á ný fyrr en eftir að hafa farið með faðirvorið og maríubæn.
Á 18. öld léku harðindi Íslendinga grátt. Til að seðja sárasta hungur átu Íslendingar bækur, skó og, já, þeir allra kærulausustu björguðu lífi sínu og barna sinna með því að laumast í hrossakjöt. Um og upp úr 1800 neyddist kirkjan til að koma til móts við sársvangan almenning. Yfirmenn kirkjunnar í Danmörku léttu hörðum refsingum af Íslendingum sem nörtuðu í hrossakjöt - ef forsendan var sár neyð.
Sýslumaður í Dalasýslu gaf út yfirlýsingu um að refsilaust væri í hans umdæmi að nota hrossafitu sem ljósmeti (í kertagerð eða í lampa). Það þótti kúvending, róttæk og byltingarkennd afstaða til hins forboðna hrossakjöts.
Á 19. öld léku harðindi Íslendinga enn grátt. Dómsstjóri í Reykjavík heimilaði að fóðra mætti aumingja á hrossakjöti. Nánar tiltekið tukthúslimi og sveitaómaga. Allt varð brjálað. Almenningur hneykslaðist. Margir náðu sér aldrei eftir það. Urðu vitleysingar. Dómsstjórinn varð að athlægi um land allt. Hvar sem tveir menn eða fleiri komu saman sögðu þeir af honum frumsamda "Hafnarfjarðarbrandara".
Fram eftir síðustu öld slaknaði hægt og bítandi á andúð á hrossakjöti. Þó var lífseig sú skoðun að vond hrossataðslykt loddi dögum og vikum saman við þann sem lagði sér hrossakjöt til munns. Alveg fram á þessa öld var hrossakjöt ódýrt. Eftirspurn var lítil og hrossakjötið var aðallega notað til að drýgja - undir borði - nautakjöt og kjöthakk. Það er ekki fyrr en á síðustu 2 - 3 árum sem kílóverð á hrossakjöti hefur nálgast verð á nauta- og lambakjöti.
Í dag er hrossakjöt hluti af þorramat. Það er við hæfi. Þorri er kenndur við vetrarvætt ásatrúarmanna. Kirkjan bannaði á sínum tíma þorrablót. Núna leika þorrablót stórt hlutverk í árlegu skemmtanahaldi Íslendinga. Ekki aðeins okkar í Ásatrúarfélaginu heldur alls almennings. Það er gaman. Verra er að þrátt fyrir ört vaxandi framboð á hrossakjöti þá hefur kílóverðið einnig rokið upp.
Í Lögregluskólanum er nemendum kennt að styðja snyrtilega og virðulega - svo lítið beri á - við húfuna til að hún fjúki ekki.
Hrossakjötsframleiðsla rýkur upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
24.10.2013 | 21:51
Það er draumur að vera með réttar tölur
Fyrir hálfum fjórða áratug sat kona í kyrrstæðum bíl á Austurstræti. Út um opinn glugga seldi hún happdrættismiða fyrir Hjartavernd. Bíllinn var vinningurinn. Meirihluti þeirra sem keyptu miða hafði dreymt fyrir vinningi. Aðra hafði dreymt tiltekna tölu eða númer. Þá þurfti að fletta í gegnum óselda miða til að finna miða með draumanúmerinu. Ég veit ekki hver varð heppni vinningshafinn. En töluverðar líkur eru á að með vinningnum hafi draumur ræst. Berdreyminn vinningshafi.
Fyrir nokkrum vikum langaði mig í Malt. Ég vatt mér inn í sjoppu. Þar var á undan mér kona sem keypti Lottó-miða fyrir meira en 30 þúsund kall. Fyrir minn smekk voru þetta stórtæk innkaup. Mér varð á að nefna það við konuna. Hún svaraði því til að hana hafi um nóttina dreymt Lottó-vinning. Ég benti henni á að ef hún væri berdreymin þá ætti 1 Lottó-röð að gilda jafn vel og margar raðir. Svar hennar var: "Ég ætla ekki að sitja uppi með það að hafa ekki gert allt sem ég gat til að láta drauminn rætast!"
Stóri vinningurinn gekk ekki út vikuna sem konan fjárfesti í vinningsmiða. Kannski var draumurinn ekki nógu skýr. Kannski átti hún að kaupa miða í öðru happdrætti.
Hvað er annars berdreymi? Hver stýrir draumum fólks og hunda? Eru það guðirnir? Eða sprelligosar að gera grín? Hvað á að taka drauma hátíðlega?
Dreymdi fyrir vinningsröð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Breytt 25.10.2013 kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.6.2013 | 01:06
Ruglið um elstu karla
Trúmál | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.2.2013 | 02:05
Sharia lög og þorraþræll
Dagurinn í dag (laugardag) heitir þorraþræll. Hann er kenndur við Þorra Snæsson, ágætan norrænan konung sem hafði blót á hverjum vetri. Þau voru kölluð Þorrablót. Þess vegna er það haugalygi þegar því er haldið fram að þorrablót séu ný af nálinni. Fundin upp af presti sem rak veitingastaðinn Naust fyrir örfáum áratugum.
Í mörg þúsund ára gömlu þjóðsagnasafni gyðinga í Mið-Austurlöndum er að finna fjölda fyrirmæla um þorraþræl. Gaman er að rifja örfá þeirra upp. Ekki aðeins í tilefni dagsins heldur ennþá frekar vegna þess að vaxandi áhugi er fyrir því að á Íslandi verði tekin upp lög sem byggja á þessum fyrirmælum. Svokölluð sharia lög.
Hér eru örfá sharia lög sem nauðsyn er að taka mið af við lagasetningar:
Þegar maður selur dóttur sína að ambátt, skal hún ekki burt fara á sama hátt sem þrælar. Geðjist hún eigi húsbónda sínum, sem ætlað hefir hana sjálfum sér, þá skal hann leyfa að hún sé leyst. Ekki skal hann hafa vald til að selja hana útlendum lýð, með því að hann hefir brugðið heiti við hana. En ef hann ætlar hana syni sínum, þá skal hann gjöra við hana sem dóttur sína. Taki hann sér aðra konu, skal hann ekki minnka af við hana í kosti eða klæðnaði eða sambúð. Veiti hann henni ekki þetta þrennt, þá fari hún burt ókeypis, án endurgjalds.
(Exodus 21:7-11)
Viljir þú fá þér þorraþræla og ambáttir, þá skuluð þér kaupa þorraþræla og ambáttir af þjóðunum, sem umhverfis yður búa. Svo og af börnum hjábýlinga, er hjá yður dvelja, af þeim skuluð þér kaupa og af ættliði þeirra, sem hjá yður er og þeir hafa getið í landi yðar, og þau skulu verða eign yðar. Og þér skuluð láta þá ganga í arf til barna yðar eftir yður, svo að þau verði eign þeirra. Þér skuluð hafa þau að ævinlegum þorraþrælum. (Leviticus 25:44-46)'
Kristin gildi ráði við lagasetningu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Breytt 4.6.2013 kl. 03:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)