Færsluflokkur: Fjölmiðlar
24.2.2011 | 21:29
Bestu plötur tíunda áratugarins
Fjölmiðlar | Breytt 26.2.2011 kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.2.2011 | 01:27
Jónsi á lista hjá Spin
Það er alltaf eitthvað rosalega gaman við að sjá íslenska tónlistarmenn skora mark í útlöndum. Rétt eins og það er gaman að sjá íslenskar plötur í útlendum plötubúðum. Jafnvel þó það sé að verða hversdagsleg sjón að sjá plötur Bjarkar, Sigur Rósar, Emilíönu Torríni og Jónsa í útlendu plötubúðunum. Extra gaman var að sjá plötu unglingsstelpnanna Pascal Pinon í stærstu plötubúð New York í síðasta mánuði og lesa lofsamlegan dóm um þá plötu í bandaríska rokkblaðinu Under the Radar. Svo ekki sé minnst á plötur I Adapt í þýskum og pólskum plötubúðum.
Næst söluhæsta poppblað Bandaríkjanna (á eftir Rolling Stone) er Spin. Í nýjasta heftinu upplýsa 25 poppstjörnur hverjar eru þeirra uppáhaldsplötur og uppáhaldslög frá síðasta ári. Tilnefningar þeirra eru rökstuddar. Þar á meðal tilnefnir Haylay Williams í Paramore lagið Month of May með Arcade Fire; Ezra Koenig að uppáhaldsalagið sé Zebra með Beach House; Wayne Cone í Flaming Lips að uppáhalds lag sitt sé Born Free með M.I.A.
Randy Randall í No Age tilnefnir plötuna Le Noise með Neil Young.
Og Michael Angelakos í Passion Pit tilnefnir plötuna Go með Jónsa. Rökin eru þau að hann hafði lesið um að platan ætti að vera órafmögnuð. Hún hafi hinsvegar þróast í að verða hamingjulega himnesk. Plötur Sigur Rósar séu myrkar og þunglyndislegar en auðheyrt sé að Jónsi hafi skemmt sér við að gera Go.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 13:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.2.2011 | 22:09
Olli skelfingu
Færeyingar fylgdust spenntir með sjónvarpsútsendingu á forkeppninni hérlendis í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í gærkvöldi. Enda hinn vinsæli færeyski söngvari og söngvahöfundur, Jógvan Hansen, í fremstu víglínu. Gallinn var sá að það hafði alveg gleymst að vara Færeyinga við laginu Eldgosi. Á fésbókar- og bloggsíðum hefur í dag mátt sjá fjölda einhæfra ljósmynda af viðbrögðum skelfingu lostinna færeyskra sjónvarpsáhorfenda þegar flutningurinn á Eldgosi hófst:
Sumir leituðu skjóls undir bók eða á bakvið húsgögn.
Verst fór þetta með blessuð börnin. Það fórst fyrir að setja aldurstakmörk á sýninguna. Börnin urðu miður sín og áttu erfitt með svefn í nótt. Voru tryllt af myrkfælni. Þegar þeim loks kom dúr á auga undir morgun tóku martraðir við.
Í dag þjást margir af slæmum eyrnaverk, sem hefur varað alveg frá fyrstu tónum lagsins. Þeir hafa ekki tekið hendur frá eyrum síðan.
Á elliheimilum hefur verið reynt á slá á viðvarandi hræðslu með kvíðastillandi lyfjum. Án árangurs.
Einn hefur vakið athygli og aðdáun fyrir að láta sér hvergi bregða. Það er Hansi heyrnalausi. Sumir rekja stillingu hans til rauðvínskúta sem hann gerði góð skil fyrir og eftir útsendingu Söngvakeppninnar.
Um viðbrögð við sigurlaginu fara færri sögum. Það er eins og athygli á því hafi farið framhjá fólki. Sjálfur held ég að ég hafi ekki ennþá heyrt það. En næsta víst er að það er hið vænsta lag.
![]() |
Aftur heim sigraði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt 14.2.2011 kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
31.1.2011 | 13:24
Merkustu fyrirbæri rokksögunnar
Á fimmtugs afmæli rokks og róls, 2004, leitaði bandaríska poppmúsíkblaðið Rolling Stone til fjölmenns hóps starfandi poppstjarna heims. Erindið var tilraun Rolling Stone til að finna út hvaða hljómsveitir, sólósöngvarar og sólósöngkonur hafi haft mest áhrif á helstu poppstjörnur 21. aldarinnar. Niðurstaðan er sá listi sem hér er fyrir neðan. Það verður ekki annað sagt en að útkoman sé sannfærandi. Að vísu með þeim fyrirvara að þarna er um bandarískt blað að ræða og meirihluti þátttakenda er bandarískur.
Fjölmiðlar | Breytt 1.2.2011 kl. 00:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
28.1.2011 | 00:53
Óvænt uppgötvun: Lítið þekkt íslensk hljómsveit í bandarískri plötubúð
Það er alltaf gaman og dálítið skrýtið að sjá íslenskar plötur í útlendum plötubúðum. Ekki síst í dag eftir að plötubúðir heimsins eru orðnar fátæklegri af "sjaldgæfari" plötum og gera meira út á það sem hæst ber á vinsældalistum. Það er hægt að ganga að plötum Bjarkar, Sykurmolanna, Sigur Rósar og Jónsa sem vísum í útlendum plötubúðum. Svo rekst maður á eina og eina íslenska plötu sem vekur undrun.
Fyrir áratug keypti ég plötuna "Saga rokksins" með Ham í plötubúð í Prag í Tékklandi. Það var óvænt og gaman. Í Berlín í Þýskalandi keypti ég plötu með I Adapt fyrir nokkrum árum. Þar var meira að segja verið að spila hana í hátölurum búðarinnar er ég gekk þar inn. Afgreiðslumennirnir sýndu mér að auki jákvæðan plötudóm um plötuna í þýsku blaði. Blaðið suðaði ég út úr þeim til að sýna strákunum í I Adapt.
Fyrir tveimur árum rakst ég á sömu plötu í plötubúðum í Póllandi. Það var einnig fjallað um hana í þarlendum rokkblöðum. Í ljós kom að um sjóræningjaútgáfu var að ræða. Síðast þegar ég frétti voru liðsmenn I Adapt komnir með lögfræðing í málið.
Á dögunum í New York fann ég í plötubúð plötu með íslensku hljómsveitinni Pascal Pinon, samnefnda hljómsveitinni. Í bandaríska rokkblaðinu Under the Radar er umfjöllun um þessa plötu. Hún fær þar einkunnina 6 (af 10).
Ég veit fátt um þessa hljómsveit. Nema þekki lagið ljúfa sem hér fylgir með. Hef heyrt Bubba spila það í "Færibandinu" á rás 2. Virkilega krúttlegt lag.
Í umsögn um plötuna í Under the Radar segir að hljómsveitin Pascal Pinon sé nefnd í höfuðin á tvíhöfða sirkus-fríki. Þar segir líka að tónlist hljómsveitarinnar sé samin af 14 ára tvíburasystrum. Um sé að ræða aðlaðandi lo-fi (lágstemmd naumhyggja) tónlist spilaða á kassagítar, flautu og klukknahljóm (mér heyrist sem þarna laumist líka lágvært hljómborð með. Mitt innskot). Það megi skilgreina þetta sem krúttlegt en sé um leið hrífandi og mildur hljóðheimur sem lofi bjartri framtíð.
Under the Radar fæst ekki hérlendis. Ef einhver hér þekkir til stelpnanna í Pascal Pinon skal ég senda þeim eintak af blaðinu með plötudómnum.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
25.1.2011 | 01:29
Flott sjónvarpsstöð
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 02:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.1.2011 | 16:07
Gátan leyst!
Gríðarmiklar vangaveltur og bollaleggingar hafa verið í gangi alveg frá því að bandarísk leikkona, Halle Berry, varð ólétt um árið. Fólk hefur spáð og spekúlerað og reynt að átta sig á því hvernig í ósköpunum þessi frænka rokkarans Chucks Berrys hafi farið að því að verða ólétt. Var þetta glasafrjóvgun? Var þetta kraftaverk? Var göldrum beitt? Hvað gerðist?
Nú hefur hulunni verið svipt af leyndardómnum og er slegið upp með stríðsfyrirsagnarletri í Fréttablaðinu og á visir.is.:
Fjölmiðlar | Breytt 25.1.2011 kl. 01:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.1.2011 | 14:51
Útlent stórblað hvetur til Íslandsferða
Í sunnudagsblaði The New York Times er að finna fjögurra blaðsíðna grein sem ber yfirskriftina "41 staður til að heimsækja árið 2011". Staðirnir 41 eru taldir upp í númeraðri röð eftir því hvað þeir þykja spennandi að sækja heim. Ítarleg greinargerð fylgir upptalningunni á hverjum stað fyrir sig (hér er textinn mikið styttur).
Í fyrsta sæti er Santiago. Þessi höfuðborg Chile er sögð vera í mikilli uppbyggingu og uppsveiflu eftir 2 jarðskjálfta á innan við ári. Annar upp á 8,8 á Richter. Veitingastaðir, söfn, hótel og annað slíkt hafa verið nútímavædd. Þarna hefur verið tekin í notkun 200.000 fermetra tónlistarhöll. Helsta árlega rokkhátíðin í Bandaríkjunum síðustu tvo áratugi, Lollapalooza, verður í fyrsta skipti haldin utanlands. Einmitt í Santiago. Ýmislegt fleira er upp talið Santiago til ágætis sem fyrsta vali á utanlandsferð í ár.
Í öðru sæti eru San Juan eyjar í Washington ríki í Bandaríkjunum. Það eru veitingastaðir, ósnortin náttúra og fleira sem gerir eyjarnar áhugaverðar.
Í 3ja sæti er Koh Samui á Tælandi. Aðdráttarafl þessarar eyju samanstendur af hvítri strönd, kóralrifum, pálmatrjám, spennandi veitingastöðum og detox-heilsusetri.
Í 4ða sæti er Ísland. Hrun íslensku krónunnar 2008 hefur gert þessa ótrúlega fallegu eyju mun ákjósanlegri áfangastað en áður. Þjónusta sem áður kostaði 200 dollara á Íslandi kostar aðeins 130 dollara í dag. Um leið og náttúruunnendur ferðast til Íslands vegna heitu vatnslindanna. jökla, eldfjallalandslags og Norðurljósanna þá hafa Íslendingar stigið stórt menningarskref með byggingu tónlistar- og ráðstefnuhallarinnar Hörpu, sinfóníu- og óperuhús. Opnunardagskrá Hörpu í maí hefst á hljómleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og íslenskra rokkhljómsveita. Í mars verður 3ja íslenska tískufestivalið haldið, DesignMarch. Í október ár hvert er hin svala Iceland Airwaves popphátíð haldin.
Það er ástæðulaust að þylja hér upp staðina í næstu 37 sætum sem The New York Times mælir með að verði heimsóttir í ár. Fæstir ná að ferðast til fleiri en þessara fjögurra staða í ár. En ef það gengur rúmlega upp á er Mílan á Ítalíu í fimmta sæti.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2011 | 00:53
Misnotkun á Neyðarlínunni - brosleg og neyðarleg dæmi
Neyðarlínan á Íslandi er 112. Er það ekki annars? Í vikunni var broslegt að lesa um - eða kannski öllu heldur neyðarlegt - hverjir nota Neyðarlínuna 911 í New York. Þar á meðal var neyðarkall frá örvæntingafullum foreldrum í Brooklyn sem áttu í erfiðleikum með að fá son sinn til að læra helgarverkefni fyrir skólann á mánudegi. Foreldrarnir kröfðust þess af starfsmönnum Neyðarlínunnar að sitja yfir heimaverkefni ódæla stráksins. Það fylgdi ekki sögunni hver voru viðbrögð starfsmanna Neyöarlínunnar við þessu útkalli.
Annar hringdi í Neyðarlína frá Bronx. Honum var illt í maganum. 20 mínútum áður snæddi hann 16" pizzu með "öllu" og var bumbult. Hann vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Var bara illt í maganum. Starfsmenn Neyðarlínunnar biðu hjá honum þangað til hann þurfti að fara á klósettið og leið betur á eftir.
Útkall kom frá Brooklyn. Það blæddi úr tanngómi á 2ja ára stelpu þegar hún tannburstaði sig. Við athugun kom í ljós að hún var með sprungna vör.
Það kom útkall frá Staten Island. Viðkomandi hafði beðið - á vitlausum stað - eftir strætisvagni í 2 tima. Honum var kalt. Það amaði ekkert að drengnum. Hann vildi aðeins fá að sitja inni í hlýjum Neyðarbíl í smástund þangað til strætó kæmi. Starfsmenn Neyðarlínunnar buðust til að skutla honum á sjúkrahús. En, nei, honum var bara kalt og vildi bíða áfram eftir strætó. Svo kom strætóinn og málið var leyst.
Enn annar hringdi af því að hann hafði rekið tá í og var illt í tánni. "Mér er búið að vera illt í tánni í heilan klukkutíma," sagði hann en sársaukinn fjaraði út á meðan hann ræddi við starfsmenn Neyðarlínunnar.
Náungi í Brooklyn hringdi vegna þess að hann átti erfitt með andardrátt. Í ljós kom að hann var kvefaður og önnur nösin stífluð. Hann þurfti aðeins að snýta sér hraustlega og vandamálið var úr sögunni.
Þetta eru aðeins örfá dæmi af 1300 útköllum 911 um síðustu helgi í New York. Þess á milli voru að sjálfsögðu morð, morðtilræði og fleira svona "alvöru". Þar á meðal eitt skrýtið dæmi: Óeinkennisklæddur lögreglumaður á frívakt var stunginn í bakið á bílastæði fyrir utan stripp-stað. Sá sór og sárt við lagði í yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa aldrei stigið fæti inn á stripp-stað. Hann hafi bara verið staddur fyrir tilvilkjun á bílaplaninu og ekki haft hugmynd um að þar í nágrenni væri stripp-staður.
Innanhússmyndavélar á stripp-staðnum sýndu hinsvegar að lögreglumaðurinn var þar greinilega heimavanur. Hann sást lenda í deilum við annan mann. Deilurnar leiddu til slagsmála. Við nánari rannsókn var upplýst að lögreglumaðurinn hljóp út til að sækja byssu - sem hann var með í bílnum úti á plani - til að skjóta hinn náungann. Sá elti hann út, náði honum við bílinn og stakk í bakið með hnífi. Það sem verra var fyrir lögreglumanninn stungna var að hann var undir eftirliti, grunaður um að gera út ólöglega leigubíla.
Ég er ekki alveg klár á því hvort ég er að rugla saman tveimur aðskildum málum eða hvort sá sem stakk lögreglumanninn með hnífi er grunaður um að hafa einnig verið óeinkennisklæddur lögreglumaður. Eða hvort það var annað mál á öðrum stað. Hvort heldur sem var sagði lögteglustjórinn að stungni lögreglumaðurinn myndi fá stranga áminningu fyrir að hafa verið á stripp-stað. Ekkert má.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.1.2011 | 22:08
Vörusvik
Fyrir nokkrum árum var farið að bjóða hérlendis upp á eitthvað sem virtist vera rautt ginseng. Fyrir á markaðnum var Rautt Eðal Ginseng frá Kóreu. Nýja "rauða ginsengið" var í nánast eins pakkningum og Rautt Eðal Ginseng og með samskonar lýsingu á eiginleikum ginsengsins. Neytendur rugluðust eðlilega á þessum vörum. En voru fljótir að átta sig að ekki var allt með felldu.
Neytendasamtökunum bárust fljótt kvartanir því vanir ginseng-neytendur töldu sig vera með svikna vöru í höndunum. NS brugðust skjótt við og hófu rannsókn á málinu. Niðurstaðan var ótvíræð: Þarna var um svikna vöru að ræða: Hvítt ginseng unnið úr rótarendum, ódýrustu afurð ginsengjurtarinnar. Í Kóreu er það gefið fátæklingum.
Svikna varan er ennþá seld hérlendis. Söluaðilinn, Eggert Kristjánsson hf. (Fæði fyrir alla), hefur að vísu orðið að breyta umbúðum í kjölfar málaferla. Um þetta allt má lesa á: http://www.heilsuhringurinn.is/index.php?option=com_content&view=article&id=619:ginseng-hvernig-a-ad-greina-hismid-fra-kjarnanum-&catid=1:greinar-og-vietoel&Itemid=26
Þessi mynd sýnir ósvikið Rautt Eðal Ginseng.