Færsluflokkur: Samgöngur
1.10.2024 | 10:07
Breytti bíl í mótorhjól
Franskur rafvirki lét langþráðan draum rætast er hann brunaði um Marokkóska eyðimörk. Fararskjótinn var Citroen 2CV, uppnefndur bragginn. Í eyðimörkinni eru engar umferðareglur. Kappinn naut frelsisins. Hann leyfði sér að stíga þungt á bensínpedalann. Þá gerðist óhappið. Bíllinn skall ofan á steinhellu. Undirvagninn mölbrotnaði ásamt mörgum öðrum hlutum bílsins..
Úr vöndu var að ráða. Ekkert símasamband. Engir aðrir bílar á ferð. Enginn vissi af manninum þarna. 32 kílómetrar til byggða. Til allrar lukku var hann með mat og drykk sem gátu dugað til tíu daga ef sparlega var farið með. Vonlaust var að rogast með næringuna í fanginu í brennheitri sólinni. Hún var alltof þung.
Frakkinn fékk hugmynd: Hugsanlega var mögulegt að tjasla saman einhverju heillegu úr bílnum. Hanna frumstætt mótorhjól. Verra var að nothæf verkfæri voru fá í bílnum. Hann hafði takmarkaða þekkingu á bílum og mótorhjólum.
Eftir engu var að bíða. Hann puðaði langan vinnudag við að átta sig á aðstæðum. Verkið tók tólf daga. Ekki mátti seinna vera. Er hann loks náði að koma mótorhjólinu í gang átti hann aðeins hálfan lítra af vatni eftir. Hjólið skilaði honum til byggða. Þar vakti það mikla athygli. Rafvirkinn hafði fundið upp ýmsar lausnir sem mótorhjólaframleiðendur tileinkuðu sér þegar í stað.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.7.2024 | 07:49
Þannig týnast bílar
Lögreglan hefur vottað að fólk eigi til að týna bílnum sínum. Margir kannast við það. Þar af er ekki alltaf verið að blanda lögreglunni í málið. Fyrst eru fleiri möguleikar kannaðir.
Eitt sinn - sem oftar - átti ég leið í Kringluna. Þetta var rétt fyrir lokun. Eftir að hafa útréttað fór ég út á bílastæði. Ég mundi ekki hvar ég hafði lagt bílnum. Það gerist iðulega. Sjaldan þarf ég að rölta langt áður en hann blasir við. Það tókst ekki í þessu tilfelli. Þó vissi ég fyrir víst að hann var á jarðhæð og ekki í hliðarsal.
Eftir dágóða stund hringdi ég í konuna og lýsti stöðunni. Ég átti að sækja hana úr vinnu. Hún ráðlagði mér að hinkra á meðan bílum fækkaði á stæðunum. Leið svo og beið. Bílum fækkaði fyrir framan mig. Að því kom að ég kannaðist við einn. Rann þá upp fyrir mér ljós: Ég mundi skyndilega eftir því að ég var á leigðum bíl. Minn var á verkstæði. Því hafði ég steingleymt!
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.1.2024 | 10:53
Vandræði við að rata
Ég átti leið í Costco. Flest þar er á svipuðu verði og í Bónus. Fólk getur þess vegna sparað sér 5000 króna félagsgjald í Costco. Þó má komast í ódýrara bensín og smakk á ýmsum matvælum.
Samferða mér inn í Costco var ungur maður og öldruð kona. Maðurinn gekk greitt. Konan dróst afturúr. Hún kallaði á eftir honum hvellri röddu: "Erum við núna í Keflavík?"
Maðurinn umlaði eitthvað sem ég náði ekki. Rifjaðist þá upp fyrir mér þegar mæðgur á Akureyri þurftu að bregða sér til Reykjavíkur. Þær rötuðu ekkert í höfuðborginni. Þetta var fyrir daga tölvunnar. Þær ákváðu að keyra vel inn í Reykjavík áður en spurt yrði til vegar. Allt gekk vel. Svo komu þær að sjoppu og spurðu afgreiðsludömuna: "Hvert er best að fara í átt að Krummahólum?"
Daman snéri sér að annarri afgreiðsludömu og spurði: "Eru Krummahólar ekki einhversstaðar í Reykjavík?"
Áður en hún náðu að svara spurðu mæðgurnar: "Erum við ekki í Reykjavík?"
- Nei, svaraði daman. Við erum í Hafnarfirði!
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.4.2023 | 13:14
Smásaga um flugferð
Haukur var háaldraður þegar hann flaug í fyrsta skipti með flugvél. Tilhugsunin olli honum kvíða og áhyggjum. Hann áttaði sig á að þetta var flughræðsla á háu stigi. Til að slá á kvíðakastið leitaði hann sér upplýsinga um helstu ástæður fyrir flugslysum. Það gerði illt verra. Jók aðeins kvíðakastið.
Áður en Haukur skjögraði um borð deyfði hann sig með koníaki sem hann þambaði af stút. Það kom niður á veiklulegu göngulagi fúinna fóta. Hann fékk aðstoð við að staulast upp landganginn. Allt gekk vel.
Nokkru eftir flugtak tók hann af sér öryggisbeltið og stóð upp. Hann mjakaði sér hálfhrasandi að útihurð vélarinnar. Í sama mund og hann greip um handfangið stökk flugfreyja fram fyrir hann og kallaði höstuglega: "Hvað heldurðu að þú sért að gera?"
"Ég þarf að skreppa á klósett," útskýrði hann.
"Ef þú opnar dyrnar hrapar flugvélin og ferst!" gargaði flugfreyjan æstum rómi.
Kalli var illa brugðið. Hann snérist eldsnöggt á hæl og stikaði óvenju styrkum fótum inn eftir flugvélinni. Um leið hrópaði hann upp yfir sig í geðshræringu: "Hvur þremillinn! Ég verð að skorða mig aftast í vélinni. Þar er öruggast þegar vélin hrapar!"
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.4.2022 | 03:30
Brosleg fjölbreyttni á flugvöllum
Mannfólkið er (næstum því) eins misjafnt og það er margt. Það sést oft á skemmtilegan hátt á flugvöllum. Þar birtist fjölbreytt mannlíf í öllum hornum. Ekki síst þegar kemur að því að hvílast vel og lengi fyrir langt flug; nýta tímann sem best. Þá kemur sér vel að hafa hengirúm í farangrinum.
Háaldraðir flugfarþegar gera sér ekki alltaf grein fyrir því hver staða þeirra er á rennibeltinu. Þeir taka sér plássið sem þarf og hafa ekki hugmynd um að þeir séu að stífla beltið. Palli er einn í heiminum.
Mörgum flugfarþegum reynist kúnst að hafa ung börn með í för. Börn sem eru á ókunnugum slóðum og langar til að fara út um allt.
Önnur börn leyfa sér að sofna á ferðatöskunni. Enn önnur dunda sér við að líma miða á sofandi pabba. Gott á hann. Það er óábyrgt að halda sér ekki vakandi þegar ferðast er með ung börn.
Út um glugga á flugstöðvum má stundum sjá vonda meðferð á flugvélum. Svona eins og þegar rennihurð slær flugvél niður.
Árlega kemst upp um flugfarþega sem tíma ekki að borga fargjald heldur lauma sér í tösku og borga yfirvigt fyrir miklu lægri upphæð.
Að venju eru myndirnar skýrari og skilmerkilegri ef smellt er á þær.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 06:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.3.2022 | 07:53
Hlálegur misskilningur
Miðaldra íslensk kona var búsett erlendis. Einn góðan veðurdag ákvað hún að fljúga til Íslands til að heimsækja vini og ættingja. Það hafði hún vanrækt í alltof langan tíma. Aldraður faðir hennar skutlaðist út á flugvöll til að sækja hana. Hún var varla fyrr komin í gegnum toll og heilsa honum er hún áttaði sig á klaufaskap.
"Bölvað vesen," kallaði hún upp yfir sig. "Ég gleymdi tollinum!"
"Hvað var það?" spurði pabbinn.
"Sígarettur og Jack Daniels," upplýsti hún.
"Ég næ í það," svaraði hann, snérist á hæl og stormaði valdmannslegur á móti straumi komufarþega og framhjá tollvörðum. Hann var áberandi, næstum tveir metrar á hæð, íklæddur stífpressuðum jakkafötum, með bindi og gyllta bindisnælu.
Nokkru síðar stikaði hann sömu leið til baka. Í annarri hendi hélt hann á sígarettukartoni. Í hinni bar hann Jack Daniels.
Er feðginin héldu af stað til Reykjavíkur sagði konan: "Ég skipti gjaldeyri á morgun og borga þér tollinn."
"Borga mér?" spurði öldungurinn alveg ringlaður.
Í ljós kom misskilningur. Hann hélt að dóttir sín hefði keypt tollvarninginn en gleymt að taka hann með sér. Gamli var svo viss um þetta að hann borgaði ekkert.
Samgöngur | Breytt 9.4.2022 kl. 08:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.12.2020 | 17:21
Stórbrotin hrollvekja
- Titill: MARTRÖÐ Í MYKINESI - íslenska flugslysið í Færeyjum 1970
- Höfundar: Magnús Þór Hafsteinsson og Grækaris Djurhuus Magnussen
- Útefandi: Ugla
- Einkunn: *****
Eins og kemur fram í titlinum þá segir bókin frá hræðilegu slysi er íslensk flugvél brotlenti í Færeyjum fyrir hálfri öld. Hún lenti á lítilli einangraðri og fámennri klettaeyju, Mykinesi. Um borð voru þrjátíu og fjórir. Átta létust. Margir slösuðust illa.
Aðstæður voru hrikalegar; blindaþoka, hávaðarok og grenjandi rigning. Flak vélarinnar fannst ekki fyrr en mörgum klukkutímum síðar. Aðstæður við björgunaraðgerðir voru hinar verstu í alla staði. Að auki höfðu fæstir björgunarmanna reynslu af björgunarstörfum. Þeir unnu þrekvirki. Því miður hafa Íslendingar aldrei þakkað þeim af neinum sóma.
Bókin er afskaplega vel unnin. Ráðist hefur verið í gríðarmikla heimildarvinnu. Lýst er tilurð flugfélagsins og öllum aðdraganda flugferðarinnar til Færeyja. Við fáum að kynnast mörgum sem komu við sögu. Þar á meðal eru ný viðtöl við suma þeirra. Fjöldi ljósmynda lífgar frásögnina.
Forsaga slyssins og eftirmálar gera það sjálft mun áhrifaríkara. Öllu sem máli skiptir er lýst í smáatriðum. Þetta er hrollvekja. Lesandinn er staddur í martröð. Hann kemst ekki framhjá því að þetta gerðist í raunveruleika.
Samgöngur | Breytt 25.12.2020 kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.12.2020 | 00:00
Hrikaleg bók
Haustið 1970 brotlenti íslensk flugvél í Færeyjum. Af 34 um borð létust átta. Aðstæður voru afar erfiðar. Nú er komin út stór og mikil bók um slysið. Hún heitir Martröð í Mykinesi. Undirtitill er Íslenska flugslysið í Færeyjum 1970. Höfundar eru Magnús Þór Hafsteinsson og Grækaris Djurhuus Magnussen.
Ég er nýkominn með bókina í hendur. Á eftir að lesa hana. En er byrjaður að glugga í hana. Hún er svakaleg. Ég geri betur grein fyrir henni þegar ég hef lesið hana. Það verður ekki gert á einum degi. Letur er frekar smátt og textinn spannar yfir á fimmta hundrað blaðsíðna.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.10.2020 | 00:00
Skelfileg upplifun í bíl
Bíllinn minn er 14 ára. Reyndar eiginlega 13 ára. Hann á 14 ára afmæli eftir nokkra daga. Hann ber aldurinn frekar illa. Hann hefur áráttu til að bila. Það er eins og þráhyggja hjá honum að komast sem oftast á verkstæði. Iðulega ljómar mælaborðið eins og jólasería. Ljósin eru rauð og gul og appelsínugul. Aðallega rauð. Það er flott yfir jól og áramót.
Í dag átti ég erindi í bílinn. Um leið og ég startaði honum hentist hann til og frá. Ég sannfærðist þegar í stað um að nú væri sá gamli að gefa upp öndina. Mér var mjög brugðið. Maður sem hefur atvinnu af því að selja sólkrem er ekki vel staðsettur í Covid-19 launamálum.
Mér fannst hamagangurinn standa yfir í hálfa mínútu. Kannski varði hann skemur. Síðar kom í ljós að um jarðskjálfta var að ræða. Þá tókum við bíllinn gleði á ný.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
8.7.2020 | 22:28
Keypti í ógáti 28 bíla
Eldri Þjóðverji hugðist uppfæra heimilisbílinn; skipta gamla bensínsvolgraranum út fyrir lipran rafmagnsbíl. Hann hélt sig innanhúss vegna Covid-19. Nógur tími var aflögu til að kynna sér hver væru heppilegustu kaup. Þegar hann var kominn með niðurstöðu vatt hann sér í að panta bílinn á netinu.
Tölvukunnátta er ekki sterkasta hlið karlsins. Allt gekk þó vel til að byrja með. En þegar kom að því að smella á "kaupa" gerðist ekkert. Í taugaveiklun margsmellti hann. Að lokum tókst þetta. Eiginlega of vel. Hann fékk staðfestingu á að hann væri búinn að kaupa bíl. Ekki aðeins einn bíl heldur 28. 1,4 milljónir evra (220 milljónir ísl. kr.) voru straujaðar af kortinu hans.
Eðlilega hafði kauði ekkert að gera við 28 bíla. Bílaumboðið sýndi því skilning og féllst á að endurgreiða honum verð 27 bíla. Tók hann þá gleði sína á ný og staðan á korti hans hrökk í betra hrof.
Samgöngur | Breytt 12.7.2020 kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)