Færsluflokkur: Samgöngur
22.12.2009 | 22:05
Bestu bílar ársins 2010
59 blaðamenn á bílatímaritum í 23 löndum tóku þátt í vali á "Bíl ársins 2010". Ég veit lítið um bíla og bílamarkaðinn og ég fatta ekki hvernig menn geta úrskurðað hvaða bílar verða þeir bestu á næsta ári. Fjölmiðlar leita ætíð álits míns á bestu plötum ársins sem er að líða eða fyrri ára. En aldrei á bestu plötum komandi árs. En þetta urðu úrslitin í vali bíladellumanna á bestu bílum ársins 2010: Opel Astra lenti í 3ja sæti með 221 stig. Toyota IQ í 2. sæti með 337 stig. Vinningshafinn reyndist vera VW Polo með 347 stig.
. Pólóinn er þá sennilega betri en VW Caddy-inn minn. Annarri eins druslu hef ég ekki kynnst. Alltaf að bila. Og ef hann bilar ekki þá dældast hann við minnsta núning utan í aðra bíla eða ljósastaura.
. Ja, það segir sig reyndar sjálft að VW hlýtur að vera betri en VW Caddy. Annars hefðu báðir bílarnir hafnað í 1. sæti með jafn mörg stig.
. 23 danskir blaðamenn á þarlendum bílatímaritum stóðu einnig fyrir vali á "Bíl ársins 2010". Sigurvegarinn þar var sá sami. Opel Astra lenti í 2. sæti og Citroen Picasso nr. 3. Ekki veit ég hvað danskir blaðamenn hafa út á Toyota IQ að setja. Kannski hefur það eitthvað að gera með viðhorf til Þyrlu-Manga frá Vestmannaeyjum?
Schumacher gerir samning við Mercedes | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
25.11.2009 | 23:43
Jón Ísleifsson - snillingur úr Árneshreppi
Fyrir nokkrum árum fékk ég far frá Vestfjörðum með presti sem heitir Jón Ísleifsson og var með prestkall í Árneshreppi. Til eru margar skemmtilegar sögur af Jóni. Það var virkilega gaman að fá far með honum til Reykjavíkur. Það var snemma morguns sem við lögðum af stað. Á miðri leið bað ég Jón um að stoppa því ég þurfti að pissa.
Ég var ekki fyrr kominn út úr bílnum en Jón spíttaði með kraftmiklu spóli í burtu á bílnum en lagði honum eftir um það bil kílómeters akstur. Ég pissaði og skokkaði síðan að bíl Jóns. Lafmóður og óvanur skokki spurði ég ósáttur: "Hvað er í gangi? Þú lætur mig hlaupa heilan kílómeter."
Jón svaraði ofurrólega: "Ég vildi ekki að þú pissaðir utan í bílinn minn."
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.11.2009 | 20:46
Dularfull bilun
Einn kunningi minn ók á stórum og þunglamalegum sendibíl. Bíllinn var gamall og þreytulegur. Það ískraði í honum og marraði þegar ekið var yfir ójöfnur eða tekin mjög kröpp beygja. Svo brá við einn daginn að lágvært en taktfast bank heyrðist þegar bíllinn var á ferð. Kunningi minn kippti sér ekki upp við það. Hann var vanur hinum fjölbreyttustu hljóðum frá bílnum.
Daginn eftir ágerðist bankið. Varð háværra og hvellara. Kunninginn fór að hafa áhyggjur af þessu. Um kvöldið kom í heimsókn til hans maður sem er vanur bílaviðgerðum. Þegar honum var sagt frá vandamálinu vildi hann ólmur fá að kíkja á bílinn og finna út hvað væri að.
Félagarnir gengu út og að bílnum. Gesturinn þurfti ekki að setjast inn í bílinn né setja hann í gang til að átta sig á biluninni. Honum nægði að koma auga á sprungið afturdekk. Eða réttara sagt það sem eftir var af dekkinu. Það voru bara nokkrar gúmmítæjur og felgan farin að láta verulega á sjá eftir að hafa bankað malbikið í tvo daga þvers og kruss um höfuðborgarsvæðið.
Samgöngur | Breytt 26.11.2009 kl. 01:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
31.10.2009 | 18:22
Ókeypis! Ókeypis! Sunnudagur til sælu
Fólk er alltaf tilbúið að fara þangað sem því býðst eitthvað ókeypis. Þetta benti sjálfur Davíð Oddsson á þegar fréttir bárust af aukinni ásókn fátækra í matarstyrk hjá Fjölskylduhjálp Íslands og Mæðrastyrksnefnd og súpueldhús Samhjálpar. Sjálfur lætur Davíð sig ekki vanta þegar honum býðst eitthvað ókeypis. Þannig lagði hann á sig ferð úr Skerjafirði austur til Suðurlandsbrautar er honum bauðst ókeypis hamborgari í McDonalds.
Næsta víst er að á morgun verði aftur lagt upp í ferðalag úr Skerjafirði. Fólk sem heitir Davíð og getur sannað það með skilríkjum fær ókeypis Metró-hamborgara á morgun. Ef Davíð leggur snemma af stað getur hann náð þremur sveittum: Einum á Suðurlandsbraut, öðrum í Kringlunni og þeim þriðja við Smáratorg.
Hér fyrir ofan getur að líta smáborgara. Fyrir neðan er kennslumyndband af því hvernig bera á sig að við að snæða hamborgara. Þeir sem aldrei hafa reynt geta ekki gert sér í hugarlund hversu erfitt er að slafra í sig einum sveittum. Algjörlega bannað er að nota hnífapör. Enda var hamborgari upphaflega aðferð iðnaðarmanna í Hamborg í Þýskalandi til að nærast á kjötbollu án þess að taka sér hlé frá vinnu.
Það er sjálfur Davíð sem fer með aðalhlutverk í kennslumyndbandinu. Hann er þýskur og gegnir eftirnafninu Hasselhoff (með sterkri áherslu á HOFF í framburði. Heppilegast er að tuldra Hassel svo lágt að varla heyrist og hrópa síðan HOFF!). Þessi gutti er þekktur fyrir hlutverk í sápuóperunni Sundvörðum með Pa-mellu Andersen.
Davíð fær ókeypis borgara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
9.10.2009 | 19:40
Færeyingar mega brúka píkur frá og með þarnæsta sunnudegi
Margir Færeyingar eru spenntir og fullir tilhlökkunar. Færeysk yfirvöld hafa sent frá sér tilkynningu þess efnis að daginn eftir að lögmaður Færeyja snýr heim úr Íslandsreisu megi Færeyingar brúka píkur. Þannig hljómar tilkynningin: "Frá sunnudegnum 15. oktober er aftur loyvt at brúka píkur.
Tað kann hugsast, at sumir verða freistaðir at seta píkurnar upp undir komandi vikuskiftið, en ikki ráðiligt at seta píkurnar undir til dømis fríggjadagin ella leygardagin, bara frá sunnudegnum."
Lögmaður Færeyja í heimsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (50)
3.10.2009 | 20:13
Stórfurðulegur göngumáti
Þessi vesalingur ólst upp á óróleika jarðskjálftasvæði. Fyrir bragðið lærði hann ekki að ganga eins og annað fólk. Þess í stað færir hann sig um set með þeim furðulega hætti sem sjá má í meðfylgjandi myndbandi. Þetta vekur kátínu hjá þeim sem á vegi hans verða. Það er að segja öðrum en þeim sem hann bókstaflega hittir fyrir. Þeir árekstrar geta orðið blóðugir og ljótir. Af tillitssemi við börn og viðkvæma hafa þannig senur verið klipptar úr myndbandinu. Maðurinn er stórhættulegur umhverfi sínu og ástæða til að vara fólk við að reyna að leika háttsemi hans eftir.
Samgöngur | Breytt 4.10.2009 kl. 00:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
1.10.2009 | 20:22
Broslegar merkingar
Þessi bráðfyndnu merki eru af raunverulegum merkingum og eru - að því er ætla má - sett upp af alvörugefnu fólki sem fattar ekki hvað þetta kemur spaugilega út. Það er brandarinn út af fyrir sig. Ég er ekki klár á því hver eru skilaboðin á merkinu hér fyrir ofan. Mér dettur helst í hug að verið sé að vara fólk í hjólastól við að fara hratt niður brekku framundan. Annars geti þeir lent í krókódílskjafti.
Varúð! Spennið brjóstahaldara og takið út úr ykkur gervitannagóma; mjög holóttur vegur.
Notalegt tjaldstæði á strandrunnasvæði.
Varúð vegna lágflugs!
Bavíanar
(er myndin af apa?)
Haldið ykkur lengst til vinstri
Hérna gerðist ekkert 1897
Hugsanlega tákna þessar merkingar að vegurinn sé lokaður. Það er að segja til hægri, vinstri og beint áfram. Merkinu sem bannar að ekið sé til baka hlýtur eiginlega að vera ofaukið.
Samgöngur | Breytt 2.10.2009 kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.9.2009 | 20:45
Sprenghlægilegar merkingar
Manneskjan sem vinnur í þessari matvörubúð virðist ekki vita hvað viðkomandi ávöxtur heitir. Eða hvort manneskjan reiknar með að viðskiptavinirnir viti ekki hvað banani er. Að minnsta kosti er sérkennilegt að merkja bananana sem "Bogna gula ávöxtinn á 40 cent".
Af lögun þessa umferðarmerkis er næsta víst að um stöðvunarskyldu er að ræða. Gárungi hefur brugðið á leik vegna snjólagsins sem hylur merkið og skrifað "Halda áfram".
Það er ekki að undra að seljandi þessara sítróna veki athygli á að þær henti fullkomlega í að búa til appelsínusafa. Hann veit sem er að flestir halda að appelsínur séu heppilegri þegar verið er að búa til appelsínusafa.
Bílnúmer með blöndu af bókstöfum og tölustöfum geta oft myndað skemmtilega útgáfu. Hér mynda bókstafirnir nafnið Guð og tölustafirnir 666. Samkvæmt kenningum þeirra sem trúa á guð er 666 tákn djöfulsins.
Verðmiðinn hefur lent ofan á fremsta staf á nafni framleiðandans á þessum kattamat. Vegna þess virðist varan heita "Endaþarms draumórar".
Sorgmæddur rúmenskur aðdáandi Michaels Jackssonar hefur brugðið á það ráð að deila harmi sínum með viðskiptavinum. Til að heiðra minningu Michaels Jacksonar hefur aðdáandinn slegið upp sérstöku tilboði á mið-austurlenskum kjötrétti: Ef keyptir eru 3 skammtar fylgir sá 4ði með sem kaupauki til minningar um Michael Jackson.
Á spjaldinu stendur "Ósýnilegt límband". Vissulega er ekkert límband að sjá. Ummerki benda þó til að einhver hafi hnuplað límbandinu af spjaldinu.
Ein þekktasta plata rokksögunnar er "Wish You Were Here" (Ég vildi óska að þú værir hér) með Pink Floyd. Á skyrtubolnum hefur orðinu "bjór" verið skipt inn í staðinn fyrir "hér".
Nafn bókarinnar er "Lækningamáttur krabbameins". Höfundurinn er kona sem útlistar í heilli sjálfshjálparbók hvernig krabbameinssjúklingar geta notað meintan lækningamátt krabbameinsins. Það voru raddir í höfði konunnar sem laumuðu þessum fróðleik að henni. Hún heldur því fram að sérstök ástæða liggi að baki því að fá krabbamein og því fylgi blessun. Bókin fæst í búðum sem selja nýaldarvörur.
Reyndar er ég ekki viss um að myndin sýni umrædda bók. Undirtitillinn þarna er "Músík til slökunar fyrir líkama og sál" og stærðin á pakkningunni passar við geisladisksumbúðir. Kannski er kerlingin að fylgja bókinni eftir með geisladisk?
Samgöngur | Breytt 9.9.2009 kl. 05:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.7.2009 | 22:19
Mikilvægt að leiðrétta
Dr. Gunni er bráðskemmtilegur penni, flottur tónlistarmaður og vel vakandi öflugur neytendafrömuður. En enginn er alltaf fullkominn. Bakþankar Fréttablaðsins í dag eru skrifaðir af Dr. Gunna. Þar veltir hann ýmsu fyrir sér og spyr margs. Þar á meðal hvers vegna engin fiskbúð sé á Akureyri.
Þetta er villandi spurning. Á Akureyri er að finna eina bestu fiskbúð landsins. Hún heitir Heimur hafsins og er staðsett á Tryggvagötu 22, við hliðina á Axels bakaríi. Síminn er 578 6400. Orðstír Heims hafsins nær langt út fyrir Eyjafjörð. Matgæðingar úr Skagafirði og Þingeyjasýslu sækja stíft í þessa frábæru fiskbúð.
Nú standa sumarfrí og hringferðir Íslendinga sem hæst. Það er hið versta mál ef ferðamenn úr öðrum landshlutum keyra í gegnum Akureyri standandi í þeirri trú að þar sé engin fiskbúð.
Heimur hafsins er í eigu Hallgríms Guðmundssonar, fyrrum aðstoðarmanns Sigurjóns Þórðarsonar fyrrverandi alþingismanns, og Huldar S. Ringsted snyrtifræðings. Þau heiðurshjón eru bæði harðlínu andstæðingar kvótakerfisins.
30.6.2009 | 01:48
Ég festist í lyftu
Í gær rétt slapp ég við að festast í lyftu. Ég var ekki jafn heppinn kvöldið áður. En í gær tókst ungri systurdóttur minni með snarræði að forða mér frá því að lenda í sömu vandræðum. Hún fylgdi mér snöfurlega niður á jarðhæð í lyftunni og passaði af samviskusemi upp á að allt gengi fyrir sig á besta veg. Forsagan er sú að kvöldið áður heimsótti ég systir mína og hennar fjölskyldu í orlofsíbúð bænda í fjölbýlishúsi í Reykjavík. Þau eru utan af landi. Þegar ég yfirgaf partýið hjá þeim í fyrrakvöld festist ég í lyftunni. Ég fór í lyftuna og beið eftir að lyftan skilaði mér á jarðhæð. Ég beið og beið í lyftunni. Stóð þar aleinn og lyftan skilaði mér ekki á jarðhæð. Ég tók upp á því að raula íslensk dægurlög til að stytta mér stundir. Þegar mínútur liðu og ekkert gerðist fór ég að ókyrrast. Eftir 10 mínútur lokaður inni í lyftunni sljákkaði í söng mínum og ég fór að velta fyrir mér vandamálinu. Enda kominn með leið á íslensku dægurlögunum sem ég raulaði. Þá áttaði ég mig loks á að ég hafði aldrei ýtt á hnappinn í lyftunni sem átti að bera mig niður á jarðhæð. Ég brá við skjótt og ýtti á þann hnapp. Það var eins og við manninn mælt: Ég var á augabragði kominn á jarðhæðina.
Daginn eftir tók systurdóttir mín að sér að halda utan um dæmið. Hún fylgdi mér í lyftuna, ýtti á hnappinn fyrir jarðhæð og fylgdi mér alveg út að útidyrum blokkarinnar. Þetta gekk hratt og vel fyrir sig. Ég festist ekki í lyftunni.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)