Færsluflokkur: Samgöngur

Furðulegt sumarfrí

furðumynd9

  Nú þegar Íslendingar streyma í sumarfrí og umferð ýmist þyngist til eða frá höfuðborgarsvæðinu rifjast upp bráðfyndin saga sem vinafólk mitt frá Víetnam sagði mér á dögunum.  Atburðurinn átti sér stað fyrir einhverjum áratugum þegar sumarfrí var sjaldgæfur lúxus í víetnamska þorpinu sem kunningjarnir eru frá.

  Gamall maður (á víetnamskan mælikvarða.  Um sextugt) tók sitt fyrsta alvöru sumarfrí.  2ja vikna frí.  Hann undirbjó fríið vel og vandlega mánuðum saman.  Þetta var stórmál.  Því fylgdi gífurlegur ævintýraljómi.  Þetta var fyrir daga tölvupósts,  faxtækja og almenns símasambands.  Samskipti við fólk utan þorpsins fóru fram í gegnum gamaldags hægfara bréfapósts (snail mail).  Eldra fólk var flest háð yngra fólki með að lesa fyrir sig bréf og skrifa.  Kallinn bókaði gistingu á hóteli í fjarlægju þorpi og dundaði sér dag eftir dag við að skipuleggja fríið þar með aðstoð yngra fólks sem kunni að lesa og skrifa.  Kallinn hafði komist yfir bækling eða rit um þorpið.  Það auðveldaði skipulagið.  Allir í þorpinu fylgdust spenntir með framvindunni við skipulag frísins.  Síðustu vikur fyrir fríið ræddu þorpsbúar varla um annað en frí kallsins.  Enda bar yfirleitt aldrei neitt til tíðinda í þorpinu.  En þetta var alvöru ævintýri.

  Þegar frí kallsins gekk í garð fylgdu ættingjar,  vinir og vinnufélagar honum á rútustöðina.  Það var svo mikill ævintýraljómi yfir fríinu að allir samglöddust kalli og vildu kveðja hann á rútuplaninu.  Í Víetnam skiptir aldur miklu máli.  Fólk nýtur vaxandi virðingar til samræmis við hækkandi aldur.  Með því að fylgja kallinum að rútunni vildu þorpsbúar sýna öldrun mannsins tilhlýðanlega virðingu. 

  Rútan kom reglulega viðp í þorpinu tvisvar í mánuði.  Hún var ætíð troðin af fólki frá öðrum þorpum en fátítt var að fólk úr þessu þorpi tæki sér far með henni.  Fylgdarfólk kallsins fyllti rútuplanið.  Ungur vinnufélagi kallsins naut þess heiðurs að fá að bera ferðatöskur hans.  Sá ungi átti í vandræðum með að troða ferðatöskunum aftast í rútuna.  Þetta var ekki rúta eins og við þekkjum þar sem töskurými er undir rútunni heldur höfðu farþegar pinkla sína - og jafnvel húsdýr - meðferðis inni í rútunni. Ungi vinnufélaginn tróðst með töskur kallsins innan um farangur ferðafélaga í stappfullri rútunni.  Þá ók rútan skyndilega af stað.  Með vinnufélagann innanborðs en kallinn úti á rútuplani umkringdan ættingjunum og öðrum þorpsbúum.  Hópurinn á rútuplaninu horfði á eftir rútunni bruna burt.

  Vinnufélaginn kom engum skilaboðum til bílstjórans.  Rútan var svo stöppuð af fólki og allir kallandi hver ofan í annan til að yfirgnæfa hávaðann frá rútunni sjálfri.  Vinnufélaginn endaði á þeim stað sem kallinn hafði bókað frí sitt.  Vinnufélaginn var með alla pappíra í lagi,  kvittun fyrir gistingu,  uppskrift að því hvernig fríinu yrði best varið og það allt.  Næsta rúta til baka fór ekki fyrr en eftir hálfan mánuð.  Vinnufélaginn gat í raun fátt gert í stöðunni annað en fara í fríið sem kallinn hafði ætlað í.  Hann var vel settur,  með nóg af hreinum fötum af kallinum,  peningana hans og svo framvegis.
  
  Kallinn og ungi vinnufélaginn voru þeir einu sem kunnu almennilega á rafstöðina er þeir unnu við.  Kallinn gat því ekki gert annað en mæta í vinnuna á hverjum degi á meðan vinnufélaginn hafði það gott í fríinu.  Eftir að ungi vinnufélaginn kom úr fríinu var stirt á milli þeirra.  Kallinn tók algjörlega fyrir að heyra ferðasögu þess unga og tók aldrei annað frí.

 


mbl.is Mikil umferð til Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á leið til Færeyja - í annarri tilraun

færeyjar--skerpukjöthöfn þórshafnar

  Nú geri ég aðra tilraun á einni viku til að komast til Þórshafnar í Fjáreyjum.  Fyrri tilraunin tókst ekki betur en svo að hún endaði í Þórshöfn á Langanesi.  Ég var að uppgötva að fleiri en ég mislásu á farseðilinn.  Ég fékk nefnilega útlendan gjaldeyri afgreiddan í bankanum út á farseðilinn til Þórshafnar á Langanesi.

  Í þetta sinn getur fátt farið úrskeiðis.  Allir hlutir hafa verið tvískoðaðir.  Skerpukjötið bíður. 

 


Misheppnuð ferð til Færeyja

þórshöfn í Færeyjum8Þórshöfn í FæreyjumÞórshöfn í Færeyjum6Þórshöfn í Færeyjum2Þórshöfn í Færeyjum3Þórshöfn í Færeyjum4þórshöfn í Færeyjum5

  Í kvöld ætlaði ég að vera í Þórshöfn í Færeyjum.  Þau áform klúðruðust rækilega þrátt fyrir einbeittan vilja um annað.  Undirbúningi var í fáu áfátt.  Flugmiði var keyptur fyrir mörgum dögum á netinu.  Eldsnemma í morgun, vel tímanlega,  var mætt út á flugvöll,  bókað sig inn og gengið um borð. 

  Fljótlega eftir að í loft var komið vaknaði grunur um að flugstjórinn væri eitthvað að tala um Akureyri.  Ég hnippti í ferðafélaga,  spurði hvers vegna flugstjórinn væri að röfla um Akureyri þegar við værum á leið til Þórshafnar.  Mér var bent á að það væri millilent á Akureyri.  Sem og var gert.  Þar yfirgáfu margir flugið en nokkrir nýir farþegar bættust við.

  Af því að ég vaknaði fyrir klukkan 6 í morgun dottaði ég í flugvélinni.  Ég rumskaði þegar flugvélin var að lenda í Þórshöfn.  Þórshöfn? Það er enginn flugvöllur í Þórshöfn.  Ójú,  Þórshöfn á Langanesi.  Þangað var ég kominn.

  Þegar betur var að gáð kom í ljós að bókað hafði verið flug til Þórshafnar á Langanesi.  Ég bókaði ekki sjálfur flugið en var með útprentun og hafði ekki tekið eftir neinu.  Hafði einfaldlega engan grun um að mögulegt væri að rugla saman Þórshöfn á Langanesi og Færeyjum.  Flugmiðinn kostaði álíka og til Færeyja,  32 þúsund kr. (báðar leiðir).  Þannig að það var ekkert grunsamlegt við þetta.

  Stórslysalaust tókst að koma sér í bæinn aftur.  Því miður var uppselt til Færeyja í dag.  En ég er búinn að bóka flug til Færeyja í næstu viku. 

  Hér fyrir neðan er mynd af Þórshöfn á Langanesi.  Myndirnar efst eru af Þórshöfn í Færeyjum.  Íbúar Þórshafnar í Færeyjum eru 20 þúsund.  Ég veit ekki hvað íbúar Þórshafnar á Langanesi eru margir.  Kannski 3 eða 4 hundruð.

Þórshöfn á Langanesi 


Furðulegur bíltúr

 leigubíllleigubílar

  Ég kom utan af landi með flugi.  Hlaðinn pinklum.  Fyrir utan flugstöðina fann ég leigubíl.  Mér fannst ég kannast við andlitið.  Gott ef hann var ekki til umfjöllunar í blöðum fyrir nokkrum árum ákærður og dæmdur fyrir að plata konur til að skrifa upp á víxla og skuldabréf sem hann lét síðan falla á þær.

  Jæja,  ég bið bílstjórann um að skutla mér á tiltekið gistiheimili.  Leiðin þangað frá flugvellinum er stutt og afskaplega einföld.  Ég var ekkert að fylgjast með akstrinum til að byrja með heldur hélt áfram að lesa músíkblað sem ég tók með mér í flugið.  Skyndilega tók ég eftir því að leigubíllinn var kominn langt af leið og þræddi einstefnuakstursgötur í miðbænum.  Ég kallaði til bílstjórans:

  - Hvað er í gangi?  Veistu ekki hvar gistiheimilið er?

  - Jú,  jú.  Ég er á leiðinni þangað,  svaraði bílstjórinn ofurhægt.

  - Ég pantaði ekki útsýnisferð um miðbæinn.  Ég borga ekki fyrir þennan aukakrók.

  - Nei, nei.  Ég slekk á mælinum.  Þú borgar ekkert meira en það sem stendur núna á mælinum,  útskýrði bílstjórinn skilningsríkur.  Hann hætti þegar að aka krókaleiðir og keyrði stystu leið að gistiheimilinu.  Um leið og ég yfirgaf leigubílinn sagði leigubílstjórinn:

  - Ég ætla að biðja þig um að hringja ekki á stöðina og segja frá þessum aukakrók.  Það kostar alltaf leiðindi og vesen.  Málið er að ég er með athyglisbrest.  Þess vegna bar mig örlítið af leið.


Umtalað myndband: Grunnskólakrakki veitist að rútubílstjóra

  Bloggheimur vestan hafs logar vegna þessa myndbands.  Á því sést grunnskólakrakki í Michigan í Bandaríkjunum ráðast á kvenbílstjóra skólarútunnar.  Aðdragandi árásarinnar heyrist og sést ekki nógu vel á myndbandinu.  Hann er sá að konan skipar dregnum að setjast.  Þegar hann hlýðir ekki ekur kerla út í kant og bremsar. 

  Strákurinn ber því við að konan hafi stofnað lífi hans í hættu með því að bremsa á meðan hann stóð.  Viðbrögð sín hafi verið þau sömu og annarra sem verða fyrir kaldrifjaðri morðtilraun:  Að snöggreiðast og berja frá sér. 

  Sumir hallast að því að strákurinn hafi gengið of langt í sínum ósjálfráðu varnaviðbrögðum.  Konan fingurbrotnaði og er blá og marin á höfði.  Auk þess var henni illa brugðið.  Hún hefur þekkt stráksa frá því hann var kornabarn.  Hann hefur aldrei áður ráðist á hana.  En er þekktur fyrir frekjulega framkomu og vera "wannabe gangsta" (langar að vera gangster).  Hann virðist þó hafa tapað allri ímynd sem harður nagli með því að ráðast á konuna.  Það er engin reisn yfir því.  Þvert á móti.  Uppátækið þykir sýna væskilslega og lágkúrulega framkomu. 

  Svo eru það sumir sem fullyrða að konan hafi ekki snögghemlað.  Alls ekki.  Hún hafi stöðvað bílinn á mýktinni.  Enn aðrir segja að það skipti engu máli.  Árás drengsins sé jafn óafsakanleg hvernig sem konan stöðvaði bílinn.

  Foreldrar drengsins hafa sagt í sjónvarpsviðtali að þeim þyki þetta leitt.  Þau óttast að litli strákurinn sinn fari í fangelsi ef konan heldur kæru til streitu.  Hann verður færður fyrir dómara 3. apríl.


Meira af Póllandsferðinni

chopin airport 1

  Það tekur um fjóra klukkutíma að fljúga frá Íslandi til Póllands.  Álíka langan tíma tekur að fljúga frá Póllandi til Íslands.  Í báðum tilfellum miðast við að færð sé þokkaleg,  flugstjórinn sé ekki að drolla neitt og fljúgi bara stystu leið.  Aðal flugvöllurinn í Varsjá heitir Chopin.  Áríðandi er að rugla honum ekki saman við tónskáldið og píanistann Chopin.  Samt er tenging þarna á milli.  Flugvöllurinn - eins og margt fleira í Varsjá - er nefndur í höfuðið á tónskáldinu.  Meira um það síðar.

  Chopin flugvöllurinn er staðsettur á svipuðum stað í Varsjá og Reykjavíkurflugvöllur í Reykjavík.  Það er margvísleg hagræðing fyrir almenning að hafa þessa flugvelli staðsetta þar sem þeir eru.  Til að mynda er auðvelt að ferðast fyrir lítinn pening í strætó til og frá þessum flugvöllum.  Það er lúxus að geta gengið út fyrir flugstöðina og þar að strætóbiðskýli í hlaðvarpanum;  sest upp í næsta strætó og verið kominn niður í miðbæ á örfáum mínútum.

  Fargjaldið kostar 94 kr.  (2,80 pólskar krónur).  Fargjald í pólskum strætisvögnum er mishátt eftir því hvað þjónustan er góð.  Þeim mun styttra sem er á milli ferða því lægra er verðið. 

  Íslenskir bankar selja ekki pólskan pening.  Ég tók með mér evrur og greiðslukort.  Pólskar verslanir,  hótel,  pöbbar eða önnur fyrirtæki taka ekki við annarri mynt en pólskri.  Sem betur fer uppgötvaði ég snemma að það er miklu dýrara að nota kort í Póllandi en brúka Johnny Cash (reiðufé).  Þegar greiðslukort er notað er upphæðin yfirfærð í dollara og síðan í íslenskar krónur.  Eitthvað misgengi gerir það að verkum að pólski peningurinn verður miklu dýrari en þegar skipt er úr evru.  Það munar töluverðu.  Gætið að því þegar þið farið til Póllands. 

  Það er margt fleira sameiginlegt með Varsjá og Reykjavík en vel staðsettir flugvellir.  Hvorutveggja eru þetta höfuðborgir.  Báðar ljótar.  Sem að hluta ræðst af því hvernig mörgum ólíkum byggingastílum er hrúgað saman þannig að byggingarnar draga hver aðra niður.

  Helstu kennimerki beggja borganna eru byggingar sem sjálfhverfir einræðissinnaðir stjórnmálamenn létu reisa sem minnisvarða um sjálfa sig.  Í Varsjá sést menningar- og vísindaturnsbygging hvaðan sem er í borginni.  Á turninum er stór klukka.  Úr eru þess vegna sjaldséð í Varsjá.  Menn gjóa bara auga í átt að turninum.  Hann er næstum kvartkílómetri á hæð (mig minnir um 240 metrar).  Hér sést efri hluti turnsins:

Warsaw3

  Stalín lét reisa þessa byggingu.  Perlan sem Davíð Oddsson lét byggja í Reykjavík er flottari.   Ráðhúsið sem hann lét reisa í andstöðu við Reykvíkinga er hinsvegar ljótari.  Þegar allt er vegið saman er jafntefli hjá Stalín og kallinum í Svörtuloftum á þessu sviði.  Hér sést meira af turnbyggingunni.  Í samanburði við bílana sést glöggt stærð hennar:

Warsaw-centrum

  Í nágrenni við turninn standa nokkrir skýjakljúfar í gjörólíkum byggingarstíl:

Warsaw

  Myndin efst er af bar á Chopin flugvelli.  Ég nennti ekki að skoða neitt annað í flugvallarbyggingunni.  Eða réttara sagt átti ekki erindi annað þar á bæ.


Hvað hefur orðið um alla flugfarþegana?

frihofn1 

  Þriðjudaginn 10.  febrúar síðastliðinn lagði ég land undir fót.  Hélt til Póllands.  Það var mín fyrsta utanlandsferð eftir frjálshyggjuhrunið.  Undanfarin ár hef ég reglulega átt erindi til útlanda um það bil þrisvar á ári.  Venjan var sú að langar biðraðir voru við innritun í flugstöðinni í Sandgerði.  Allt gekk hægt fyrir sig og í Fríhöfninni var ætíð krökkt af viðskiptavinum.  Innritunarborðum fjölgaði jafnt og þétt.  Verslunarsvæðíð stækkaði jafnframt dag frá degi.

  Nú brá hinsvegar svo við að flugstöðin var eins og draugabæli.  Engin röð var við þau tvö innritunarborð sem voru opin.  Um rúmgott verslunarsvæðið væfluðust innan við 100 manns.  Engan heitan mat var að fá nema súpu.  Verslanir voru rétt svo hálfopnar.  Rimlahurðir þeirra voru niðri að hálfu.  Viðskiptavinir urðu að beygja sig til að komast inn fyrir.  Sumar rimlahurðir voru meira að segja svo lítið opnar að það þurfti að skríða undir þær.

  Hvað hefur orðið um alla flugfarþegana (spurt undir laglínunni  Where Have all the Flowers Gone)?  Aðspurð upplýsti afgreiðsludama að eftir bankahrunið væri algengt að svona væru rólegheitin.  Einkum þó um helgar.  Sérstaklega á laugardögum.

  Þegar ég snéri heim aftur að morgni miðvikudags í vikunni var álíka fámennt á svæðinu.

frihofn2frihofn

frihofn3

  • 1.    Green Tea Honey Drops
  • 2.    Proderm Sun Protection SPF 12
  • 3.    Lancome Bogage Deodorant Roll-on
  • 4.    Banana Boat After Sun
  • 5.    Kanebo Mascara 38°c Black
  • 6.    Lancome Hypnose Black 
  • 7.    Naomi Campbell Edt Spray
  • 8.    Hr Spectacular Mascara 
  • 9.    Dior Diorshow
  • 10.  Proderm Sun Protection SPF 20

 


Skemmtilega skrítið

stafavilla í stöðvunarmerkingu

  Það er eitthvað skrítið á þessum myndum.  Eitthvað sem passar ekki.  Ég átta mig bara ekki á hvað það er.

a-frábær-mynd-8

Bannað að ljósmynda

klósettaðstaða fyrir fatlaða

traust efnahagsstjórn Geirs

 


Óvænt uppgötvun. Ekki er allt sem sýnist!

  Ég átti erindi upp í Breiðholt í kvöld.  Þegar ég rölti þar á milli húsa heyrði ég kallað eða stunið:  "Óh! Óh! Óh!"  Ég velti því ekki frekar fyrir mér.  Gekk út frá því sem vísu að þarna væri fátækt fólk á krepputímum að búa sér til ódýra skemmtun.  Það var ekki fyrr en ég heyrði í fréttum að nú væri þrettándinn sem ég kveikti á perunni:  Ég hafði heyrt í jólasveini fara afturábak heim til sín.      

Geir Ólafs hellir sér yfir mig

  jólamaðurin

  Í Fréttablaðinu í dag segir söngvarinn síkáti,  Geir Ólafs,  að ég sé þunglyndur bloggari í Breiðholti.  Jafnframt sakar hann mig um að þjást af öfundsýki í sinn garð.  Ástæðan fyrir þessum ruddalegu fullyrðingum er ósköp lítilfjörleg og saklaus.  Mér varð það á að benda á í nýlegri bloggfærslu einkennilegan hlut.  Þannig er að í dagblöðum,  sjónvarpi og útvarpi hefur ítrekað verið slegið upp sem stórfrétt að vinsælasta lagið í Færeyjum um þessar mundir sé sungið af Geir Ólafs.  Svo sérkennilega vill hinsvegar til að lag Geirs um Jólamanninn er ekki að finna á lista yfir 15 vinsælustu lögin í Færeyjum.  Sjá http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/746545

  Á þeim sama lista sjást einnig þau næstu 5 lög sem krauma undir Topp 15.  Lag Geirs er ekki heldur þar.  Hvernig stendur á því að meint vinsælasta lagið í Færeyjum um þessar mundir er hvergi að finna á lista yfir vinsælustu lögin í Færeyjum?

  Jú,  Geir kann skýringu á því.  Hún er sú að hann bakkaði bíl sínum á minn bíl fyrir nokkru.  Þetta er nokkuð langsótt skýring.  Og þó.  Ég var á leið út á völl til að ná flugi til Færeyja þegar umferðaróhappið varð.  Flugvélin var farin að bíða eftir mér.  Allt gekk þó lipurlega og snurðulaust fyrir sig.  Bæði ákeyrslan og það sem á eftir fylgdi.

  Burt séð frá ástæðunni þá er það svakalegur áfellisdómur yfir færeyska vinsældalistanum ef hann mælir ekki vinsældir vinsælasta lagsins.  Jafnvel þó listinn myndi einungis klikka á að mæla vinsælasta lagið í 1.  sæti og hafa það í 2. sæti í staðinn væri hann handónýtur og marklaus.  En ef hann mælir ekki vinsælasta lagið í neitt af 15 efstu sætunum og ekki í hóp þeirra 5 laga sem krauma undir þá er vinsældalistinn þvílíkt hneyksli að það gerir færeyska ríkisútvarpið og www.planet.fo - sem birta listann - að aumum og ómarktækum fjölmiðlum.  Fjölmiðlum sem halda kolröngum upplýsingum að almenningi og brjóta gróflega siðareglur blaðamanna. 

  Sé það tilfellið getur enginn heiðvirður maður unnið hjá þessum fjölmiðlum.  Samviska þeirra myndi ekki leyfa.

  Flest sem snýr að samskiptum Íslendinga og Færeyinga fær mikla umfjöllun í færeyskum fjölmiðlum.  Gulli Briem,  trommari Mezzoforte og GCD,  skrapp til Færeyja á dögunum.  Það var forsíðufrétt í eyjablöðunum.  Bara svo dæmi sé nefnt.

  Einhverra hluta vegna fer lítið fyrir umfjöllun í færeyskum fjölmiðlum um meint vinsælasta lagið í Færeyjum.  Netmiðillinn www.planet.fo greinir samviskusamviskulega frá öllu því helsta sem lýtur að músík á eyjunum og víðar.  Nema frá meintu vinsælasta lagi.  Það er hægt að slá nafni Geirs eða lags hans inn í leitarvél síðunnar.  Niðurstaðan er 0 = ekkert finnst.

  Sama er hægt að gera á leitarvélum færeyska útvarpsins,  www.uf.fo,  og dagblaðsins Dimmalætting,  www.dimma.fo.  Leitarvélarnar finna ekkert um meint vinsælasta lagið í Færeyjum.

  Ég les reglulega nokkrar aðrar færeyskar fréttasíður sem ekki eru með leitarvélar,  svo sem www.portal.fo og www.sosialurin.fo.  Ég hef aldrei séð stafkrók um Geir í þessum miðlum - þrátt fyrir að hann sé að sögn ofurvinsæll hjá eyjalýð.

  Til að öllu sé til haga haldið þá er jólalag Geirs spilað á hverjum virkum degi í morgunþætti færeyska útvarpsins.  Svo skemmtilega vill til að þáttastjórnandinn er textahöfundur lagsins.  Hann "prógrammerar" einnig næturspilun útvarpsins.  Svo skemmtilega vill til að lagið er líka spilað í næturútvarpinu.  Það er gott að einhver fær stefgjöld.

  Vissulega væri gaman að sjá lag sungið af Íslendingi í toppsæti færeyska vinsældalistans.  Einnig þætti mér gaman að vera þunglyndur Breiðhyltingur.  Mér veitir ekki af dálitlu þunglyndi til að slá á óþrjótandi léttlyndi og ofurkæruleysi.  Ég held líka að það sé gaman að búa í Breiðholti með útsýni yfir bæinn.  En ég bý nú bara í Vesturbænum.  Óeðlilega hress og kátur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband