Færsluflokkur: Samgöngur
25.10.2014 | 15:15
Nýr og stærri flugvöllur
Síðustu ár hefur borið töluvert á heitri umræðu um mögulegan brottflutning á Reykjavíkurflugvelli. Hvernig og hvert er jafnan óljóst. Líka kostnaður við flutning. Enginn veit heldur hvert sækja á fjárfúlgur þær sem flutningur mun kosta. Það er ekki endalaust hægt að hækka matarskattinn.
Þorri Reykvíkinga og nánast allir aðrir landsmenn eru hlynntir hinni heppilegu staðsetningu á flugvellinum í Vatnsmýri. Það eru eiginlega bara spaugararnir í borgarstjórn sem tala fyrir flutningi. Það er miklu ódýrara að flytja þá úr Reykjavík en flugvöllinn.
Í Færeyjum er aðeins einn flugvöllur. Það er vandamál. Oft þarf að aflýsa flugi til Færeyja vegna þoku. Jafnframt hafa við flugvöllinn orðið flugslys með dauðsföllum.
Færeyingar hafa varið háum upphæðum í leit að öðru flugstæði. Án árangurs. Nú hafa menn fundið lausn. Hún felst í því að fjölga eyjunum úr 18 í 19. Nýja eyjan yrði flugvöllur og höfn. Hún verður reist á milli Austureyjar og Straumeyjar, rétt fyrir utan höfuðborgina, Þórshöfn.
Neðansjávargöng verða lögð til og frá eyjunni.
Þetta mun styrkja samkeppnishæfi Færeyinga gríðarlega á mörgum sviðum. Til að mynda geta togarar þá landað fiski beint um borð í flugvélar. Fiskurinn er kominn spriklandi ferskur á fiskmarkaði um alla Evrópu 2 - 3 tímum eftir að hann er veiddur.
Eyjan hefur þegar fengið heitið Airport-19. Hún verður fljót að borga sig upp.
Færeyjar samkeppnishæfari utan EES | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.9.2014 | 21:26
Embættismenn skemmta sér
Margar reglur eru skrítnar, kjánalegar og til mikillar óþurftar. Opinberir embættismenn skemmta sér aldrei betur en þegar þeir fá tækifæri til að beita þessum reglum. Þá kumra þeir innan í sér. Sjálfsálit þeirra fer á flug þegar þeir fá að þreifa á valdi sínu.
Nýjasta dæmið er bann Samgöngustofu, staðfest af ráuneyti Hönnu Birnu og aðstoðarmanna hennar - annar í fríi (ríkisvæddur frjálshyggjudrengur með 900 þús kall í mánaðrlaun á ríkisjötunni), á innfluttum bíl frá Bretlandi. Stýrið er hægra megin. Margir slíkir bílar eru og hafa verið í umferð á Íslandi. Án þess að nokkur vandræði hafi hlotist af. Bílar með stýri hægra megin aka vandræðalaust um Evrópu þvers og kruss. Ég man ekki betur en að söngkonan Ragga Gísla hafi ekið með reisn á þannig bíl um götur Reykjavíkur. Ég hef ekið í breskri vinstri umferð á bíl með stýri vinstra megin. Ekkert mál.
Þetta hefur lítið sem ekkert með umferðaröryggi að gera (þó að því sé borið við). Þetta hefur aðallega með það að gera að farþegum sé hleypt út gangstéttarmegin í stað þess að æða út í umferðina.
Enda má flytja inn til landsins bíl með stýri hægra megin ef að hann er hluti af búslóð og eigandinn hafi átt hann í sex mánuði. Hvers vegna sex mánuði? Það er meira töff en fimm mánuðir. Búslóð þarf lágmark að samanstanda af stól og borði. Það auðveldar dæmið ef að pottur er með.
Hinn möguleikinn er að hafa verið skráður fyrir bílnum í 12 mánuði. Þá þarf enga búslóð með í pakkanum.
Sá sem hefur - án fyrirhyggju - gripið með sér frá Bretlandi bíl með stýri hægra megin hefur um tvennt að velja:
a) Flytja bílinn aftur út. Bíða í sex mánuði og flytja hann þá inn ásamt borði stól og potti.
b) Flytja bílinn aftur út. Bíða í 12 mánuði og flytja hann þá inn án borðs, stóls og potti.
Í öllum tilfellum er þetta sami bíllinn. Öryggi hans í umferðinni er það sama. Eini munurinn er sá að embættismenn fá að kumra. Það skiptir máli.
----------------------------------------
Á áttunda áratugnum skruppu þúsundir Íslendinga til Svíþjóðar að vinna í Volvo-verksmiðju og á fleiri stöðum. Á þeim tíma kostuðu raftæki í Svíþjóð aðeins hálfvirði eða minna í samanburði við raftæki á Íslandi. Þegar Íslendingarnar snéru heim var til siðs að kaupa gott sjónvarpstæki til að grípa með sér heim. Vandamálið var að þeir þurftu að hafa átt það í eitt ár úti í Svíþjóð. Sænskir sjónvarpssalar gáfu þeim kvittun með ársgamalli dagsetningu. Ekkert mál. Svíunum þótti þetta spaugilegt. Til að skerpa á trúverðugleikanum spreyjuðu Svíarnir úr úðabrúsa ryki yfir sjónvarpstækið sem annars virtist vera nýtt. Allir hlógu vel og lengi að þessu. Nema embættismennirnir sem alvörugefnir skoðuðu kvittanir og kíktu á rykfallin sjónvarpstækin.
Neitað um skráningu með hægra stýri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt 17.9.2014 kl. 00:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.7.2014 | 22:16
Til er betri og hagkvæmari lausn - ekki síst fyrir flugfarþega
Gríðarlega mikil stemmning hefur myndast fyrir því að komið verði á laggir hraðlest á suðvesturhorninu. Nánar tiltekið á milli BSÍ, Umferðarmiðstöðvarinnar við Hringbraut, og Flugstöðvar Leifs heitins Eiríkssonar í Sandgerði. Kostnaður hefur verið reiknaður út fram og til baka. Hann er ekki nema eitthvað smávegis á annað hundrað milljarðar rammíslenskra króna. Beisk reynsla segir okkur að sú upphæð sé líklegri að enda í á þriðja hundrað milljarða króna. Sem eru smáaurar í samanburði við gjaldþrot Björgúlfs.
Til er miklu ódýrari lausn. Ekki síst fyrir flugfarþega. Hún er sú að flytja Keflavíkurflugvöll til Reykjavíkur. Inn í þetta spilar að margir Keflvíkingar vilja losna við flugvöllinn. Hávaði frá flugvélum vekur keflavísks börn og fullorðna af værum blundi síðla nætur og heldur fyrir þeim vöku síðla kvölds. Gífurleg bílaumferð til og frá flugvellinum veldur mengun. Þess vegna hósta Keflvíkingar svona mikið og margir þjást af astma og ótímabærri streitu.
Með flutningi á Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur sparast risavaxnar upphæðir, bæði í íslenskum krónum og ekki síst í beinstífum gjaldeyri. Nánast allir flugfarþegar eiga leið til og frá Reykjavík. Við erum að tala um árlegan akstur fram og til baka með hátt á aðra milljón manns. Bensínið sem knýr áfram ökutækin með þennan hóp hendir gjaldeyrisforða okkar út um gluggann í bílförmum.
Fargjald með hraðlestinni er áætlað 800 til 3800 kall. Fargjaldið verður ALDREI 800 kall á þessari leið. ALDREI. Upphæðin verður nær því sem það er nú hjá Kynnisferðum, um 2000 kall (um 4000 kalla fyrir ferð fram og til baka). Það kemur sér vel fyrir fjöldann að spara þennan pening. Menn rölta bara í flugstöðina í Reykjavík. Það er hressandi.
Í dag þurfa flestir íslenskir flugfarþegar að geyma bílana sína í rándýrum stæðum við flugstöðina í Sandgerði. Er þeir snúa aftur heim frá útlöndum þurfa þeir að grafa upp úr seðlaveskinu sína síðustu 10 þúsund kallana til að ná bílnum út af stæðinu.
Verði Keflavíkurflugvöllur fluttur til Reykjavíkur þarf ekki lengur að halda keflavíkurveginum opnum með snjómokstri yfir vetrarmánuði. Það þarf ekki að halda veginum við. Samgöngur á milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins leggjast sjálfkrafa af. Það þarf ekki einu sinni að hafa kveikt á ljósastaurunum við Keflavíkurveginn.
Margt fleira get ég nefnt til að sýna fram á hagkvæmni af því að flytja Keflavíkurflugvöll til Reykjavíkur. Það sem ég hef talið upp er aðeins toppurinn á ísjakanum.
Stofnkostnaður hraðlestar 100 milljarðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt 8.7.2014 kl. 19:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.6.2014 | 00:40
Fara verður varlega að álfabyggðum
Ég treysti ekki Ragnhildi Jónsdóttur til að túlka rétt afstöðu álfa til vegastæðis nýs Álftanesvegar í Garðahrauni. Ég hef sannfrétt af álfum sem eru ekkert áfjáðir í að hopa vegna vegaframkvæmda. Þeir eru eins og álfar út úr hól(i) þegar kemur að svona stóru verkefni. Hvað með huldufólkið þarna? Hefur það ekkert að segja? Má vaða með skítugum skóm yfir það? Ég veit um einn huldumann sem á huldu-Land Rover bíl. Það kemur þessu máli ekkert við. En huldubíllinn er góður. Og sparneytnari en margur Land Rover. Það munar 17%.
Undanfarin 2 ár hefur verið unnið að byggingu Hofs (bænahúsi Ásatrúarmanna) í Efra-Ási í Hjaltadal í Skagafirði. Hofinu er ekki ætlað að höfða til ferðamanna. Það er fyrst og fremst til heimabrúks fyrir íbúa í Efri-Ási. Þeir sækja styrk til Óðins, Týs, Þórs og allra hinna aðal guðanna.
Svo skemmtilega vill til að ég er fæddur og uppalinn í Hjaltadal. Þekkti að góðu einu Sverri, föður bóndans í Efri-Ási. Eitt sinn sat Sverrir ásamt fleirum fyrir utan hús í Efri-Ási eftir hádegismat þegar í hlað renndi trúboði frá Fíladelfíu. Sá tilkynnti heimamönnum að hann væri að selja guðs orð. Sverrir spurði: "Selur þú það eftir vigt eða orðafjölda?" Trúboðinn snérist á hæli og brunaði burt án frekari orðaskipta.
Álfakirkjan verður færð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.4.2014 | 02:03
Páskar í Vesturheimi
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 02:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.4.2014 | 22:36
Tómt rugl í umferðarmerkingum
Auðskildar umferðamerkingar eru vandfundnar. Einkum er ruglið áberandi þegar menn frumsemja umferðarmerkingar. Fáir þurfa nauðsynlegar á skýrum lögum og reglum að halda en þeir sem sjá um umferðarmerkingum. Skýringin kann að vera sú að í þeim bransa eru menn iðulega fullir í vinnunni, dómgreindarlausir og éta hamborgara. Í verstu tilfellum fikta þeir við eiturlyf.
Í enskumælandi löndum eru nánast allir ólæsir sem vinna við vegamerkingar. Fyrir bragðið er ekki þverfótað fyrir rangri stafsetningu á orði eins og SCHOOL (skóli).
Svo ekki sé minnst á klúðrin með orðið STOP:
Þegar svo ólíklega vill til að orðið STOP sé rétt stafsett þá er næsta víst að BUS í BUS STOP sé vitlaust.
Það væri aðeins til að æra óstöðugan að hlaða hér inn ljósmyndum af vegamerkingum með orðinu CLEAR eða öðrum sem eru stafsett á allan ómögulegan máta.
Svo eru það hin skiltin. Hvernig á að skilja þetta. Önnur örin vísar til hægri. Í texta er áréttað að halda til hægri. Hin örin vísar til vinstri. Vegurinn virðist jafnframt sveigja til hægri.
Textann má skilja á tvo vegu: "Dragið úr hraða - Börn á ferð" eða "Hægfara börn". Sennilega er átt við fyrrnefndu túlkunina. Til að allrar sanngirni sé gætt þá hef ég séð svona skilti og get vottað að átt hefur verið við táknmyndina af barninu. Bakspiki hefur verið bætt við. Sennilega á sjálfu skiltinu (það er auðvelt ef maður á svart kontakt-plast) frekar en í fótósjoppi. Bakspikinu er þá ætlað að laða fram túlkun á að skiltið vari við hægfara börnum. Enda býður textinn upp á það.
.
Lögleysa í umferðarmerkingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.4.2014 | 22:57
Lulla frænka fann upp nýja aðferð
Síðustu árin bjó Lulla frænka á Skúlagötu. Hún var tíður gestur á heimili vinafólks á Leifsgötu. Það er ekki löng akstursleið þar á milli. Eitt sinn hringdi Lulla í mig. Hún var dálítið drjúg yfir því að vera búin að finna upp aðferð til að keyra þessa leið án þess að þurfa að stoppa á leiðinni: "Ég keyri bara mjög hægt alla leið," sagði hún. "Stoppa aldrei. Keyri á jöfnum hraða. Þannig kemst ég alla leið án þess að stoppa."
Ég spurði: "En þegar kemur að ljósunum á Hverfisgötu? Þú verður að stoppa þar ef að það er rautt ljós."
Lulla hélt nú ekki: "Nei, ég keyri löturhægt yfir á rauðu ljósi. Ef að bílar eru fyrir og stopp þá beygi ég framhjá þeim og held áfram. Bílarnir sem keyra upp og niður Hverfisgötuna stoppa þegar þeir sjá að ég held mínu striki yfir götuna. "
--------------------------------
Fleiri sögur af Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1369024/
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.3.2014 | 00:00
Lulla frænka og afi
Lulla frænka var með skemmtilegt jafnaðargeð. Hún kippti sér sjaldnast upp við hlutina. Það var eiginlega sama hvað bar til tíðinda. Hún sýndi yfirleitt engin skapbrigði. Var jafnan róleg til orðs og æðis. Hló sjaldan, brosti sjaldan og reiddist sjaldan. Samt kom það fyrir að henni mislíkaði eitthvað. Líka að hún skellti upp úr. En það var afar sjaldgæft. Heyrði til undantekninga og vakti þá undrun viðstaddra.
Faðir hennar, afi minn, féll frá 1976. Ég hringdi í Lullu og bar henni fréttina. Lulla sagði, róleg að vanda: "Æ, já. Það var svo sem komið að þessu." (Afi var á sjúkrahúsi í margar vikur áður en hann lést). Svo bætti Lulla við sallaróleg: "Mér þykir hálf leiðinlegt að það síðasta sem ég sagði við hann var: Haltu kjafti!"
Ég hrökk við undir þessari lýsingu. Lullu var tamar að vera orðvör en kjaftfor. Ég spurði hana hvers vegna hún hefði sagt afa að halda kjafti. Það var þannig að hún hafði sumarið áður verið í heimsókn á heimili mínu norður í Skagafirði. Daginn sem hún hélt suður brá hún sér í heimsókn á næsta bæ. Afi fór með. Að sögn Lullu deildi afi stöðugt á aksturslag dóttur sinnar. Honum þótti hún keyra óþægilega hægt á meðan hún keðjureykti og púaði þykkum reyk á framrúðuna. Ekið var eftir einbreiðum malarvegi og Lulla var ekkert að fylgja miðju vegarins af nákvæmni. Afi óttaðist að hún myndi keyra út af. Hann var með stöðugar aðfinnslur. Þau komust þó vandræðalaust á leiðarenda og aftur til baka. Komin aftur í Hrafnhól, æskuheimili mitt, kastaði Lulla kveðju á heimilisfólk og hélt suður til Reykjavíkur. Bærinn á Hrafnhóli stóð á háum hól. Hann var snarbrattur til tveggja hliða en hægt að aka heim á hlað frá þriðju hlið. Lullu gekk brösulega að snúa bíl sínum við á hlaðinu. Hún var með hausinn hálfan út um glugga til að sjá betur stöðuna. Afi kallaði til hennar að gæta sín á að missa bílinn ekki fram af hólnum. Þá var það sem Lulla kallaði til baka: "Haltu kjafti!" um leið og hún ók úr hlaði.
Fleiri sögur af Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1362238/
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.3.2014 | 21:30
Hlálegur misskilningur
Einu sinni sem oftar var ég með skrautskriftarnámskeið á Selfossi. Ferðin frá Reykjavík austur yfir Hellisheiði var óþægilega þung vegna hríðarbyls. Ég velti fyrir mér að fá mér hótelgistingu á Selfossi fremur en brjótast aftur til baka yfir heiðina um miðnætti. Ég deildi vangaveltunum með nemendunum. Af því spratt fjörleg umræða. Þar á meðal var sögð saga sem margir heimamenn könnuðust við. Höfðu heyrt (en kannski svokölluð flökkusaga). Hún var eitthvað á þessa leið:
Vegna þæfingsfærðar og ofankomu myndaðist umferðarhnútur á Hellisheiði. Sýslumaðurinn á Selfossi kom þar að. Hann var í gullbrydduðum herskrúða, með gullhnöppum og kaskeiti. Sem æðsti yfirmaður lögreglunnar í héraðinu tók hann umferðarstjórn þegar í stað í sínar hendur. Hann óð út á veg og hófst handa við að leysa umferðarhnútinn. Þá kom þar brunandi eldri ökumaður. Hann hringdi umsvifalaust í lögregluna og tilkynnti að maður í lúðrasveitabúningi væri að atast í umferðinni uppi á Hellisheiði. Allt væri komið í rugl og umferðarhnút.
Alltaf sama ruglið í löggunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt 10.3.2014 kl. 01:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
6.3.2014 | 22:01
Ökuníðingur á göngugötu
Það varð uppi fótur og fit þegar bláum fólksbíl var ekið glannalega eftir göngugötunni Strikinu í Kaupmannahöfn. Göngugatan er jafnan troðfull af gangandi vegfarendum kvölds og morgna og um miðjan dag. Það var kraftaverki næst að enginn lenti alvarlega fyrir bílnum. Bíllinn rakst þó utan í einhverja án eiginlegra slysa. Til bjargar varð að vegfarendur flúðu á harðaspretti æpandi í allar áttir og vöruðu þannig aðra vegfarendur við. Þeir forðuðu sér með því að skutla sér eins og til sunds úr vegi frá bílnum sem var á töluverðri ferð.
Einhverjir hringdu á lögregluna. Hún var fljót að finna ökuníðinginn. Bíllinn var nefnilega kyrfilega merktur skemmtistaðnum Skarv í Kaupmannahöfn. Sá skemmtistaður er einskonar færeyskt félagsheimili, rekið af Færeyingum, sótt af Færeyingum og býður iðulega upp á "lifandi" færeyska tónlist. Grænlendingar sækja einnig staðinn í nokkrum mæli. Lögreglan gómaði ökuníðinginn þegar hann var um það bil að renna í hlað við Skarv. Það fylgir sögunni að frá bílnum hafi tónlist U2 hljómað "á fullu blasti".
Samkvæmt Föroyjaportalinum undrast bílstjórinn lætin í dönsku lögreglunni út af þessu. Honum þykir "skide danskurinn" hafa farið offari án tilefnis. GPS staðsetningatæki bílsins vísaði honum inn á göngugötuna. Þaulvanur því að aka vandræðalaust eftir göngugötunni í Þórshöfn í Færeyjum til að komast í Café Natur þótti honum ekkert athugavert við að bruna eftir göngugötu í Kaupmannahöfn. "Ég get ekki gert að því hvaða leið GPS tækið valdi þegar ég keyrði eftir Strikinu til að komast í Skarv," segir ökumaðurinn.
Ljósmyndin er samsett.
-------------------------
Tvö færeysk lög krauma nú undir vinsældalista Rásar 2. Það eru Far Away með Eivöru og Freaks með Lailu av Reini. Flott lög og full ástæða til að styðja þau til frama á vinsældalista Rásar 2: http://www.ruv.is/topp30
l
Samgöngur | Breytt 7.3.2014 kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)