Færsluflokkur: Menning og listir

Varasamt að lesa fyrir háttinn

  Fátt gleður meira en góð bók.  Margur bókaormurinn laumast til að taka bók með sér inn í svefnherbergi á kvöldin.  Þar skríður hann undir sæng og les sér sitthvað til gamans og til gagns.  Þetta hefur löngum verið aðferð til að vinda ofan af erli dagsins í lok dags.  Svífa síðan á bleiku skýi inn í draumaheim. 

  Þetta getur verið varasamt á tækniöld.  Bækur eru óðum að færast af pappír yfir í rafrænt form.  Vandamálið er að á skjánum glampar blátt ljós svo lítið ber á.  Það ruglar líkamsklukkuna.  Þetta hefur verið rannsakað.  Sá sem les af skjá er lengur að falla í svefn en þeir sem lesa á pappír.  Svefn þeirra er grynnri og að morgni vakna þeir síður úthvíldir.

Tómas Tómasson

 

.

 

 

 

 


Með 19 skordýrategundir í hári og hársverði

  Um nokkurt skeið hefur tíðindum af líki reggí-konungsins,  Bobs Marleys, verið póstað fram og til baka á samfélagsmiðlum.  Þar er fullyrt að við líkskoðun hafi fundist í hári hans og hársverði 19 tegundir af skordýrum.  Aðallega lús en einnig köngulóm og fleira.  Samtals töldust dýrin vera 70. 

  Litlu skiptir þó að vísað sé til þess að um falsfrétt sé að ræða.  Ekkert lát er á dreifingu fréttarinnar.  Þannig er það almennt með falsfréttir.  Miklu meiri áhugi er á þeim en leiðréttingum.

  Bob Marley dó 1981 eftir erfiða baráttu við krabbamein í heila,  lungum og lifur.  Í krabbameinsmeðferðinni missti hann hárið,  sína fögru og löngu "dredlokka".  Hann lést með beran skalla.  Þess vegna voru engin skordýr á honum.  Síst af öllu lús.  Þar fyrir utan hafði hann árum saman þvegið hár og hársvörð reglulega upp úr olíu.  Bæði til að mýkja "dreddana" og til að verjast lús.  Hún lifir ekki í olíubornu hári.

  Til gamans má geta að Bob Marley var ekki aðeins frábær tónlistarmaður.  Hann var líka góðmenni.  Þegar hann samdi lagið "No Woman, No Cry" þá vissi hann að það myndi slá í gegn og lifa sígrænt til frambúðar.  Hann skráði fótalausan jamaískan kryppling,  Vincent Ford,  fyrir laginu.  Sá hafði hvergi komið að gerð þess.  Uppátækið var einungis til þess að krypplingurinn fengi árlega ríflegar höfundargreiðslur.  Bob skráði einnig konu sína,  Ritu Marley,  fyrir nokkrum lögum af sömu ástæðu.  

      

 


Poppstjörnur á góðum aldri

 

  18. febrúar komst japanska myndlista- og tónlistarkonan Yoko Ono á tíræðisaldur.  Þá var kveikt á friðarsúlunni í Viðey til að samfagna með henni.  43 ár eru síðan hún varð ekkja Johns Lennons er hann var myrtur úti á götu í New York. Svona er lífið.

  Árlega höfum við ástæðu til að fagna hverju ári sem gæfan færir okkur.  Um leið gleðst ég yfir yfir hækkandi aldri poppstjarna barns- og unglingsára minna.  

  Kántrý-útlaginn Willie Nelson kemst á tírðisaldur í apríl.  Þessi eiga líka afmæli í ár (aldurinn innan sviga): 

  Tína Turner, Grace Slick (Jefferson Airplane) og Ian Hunter (Mott the Hoople) (84)

  Ringo Starr og Smokey Robinson (83)  

  Bob Dylan, Joan Baez, Eric Burdon (Animals), Paul Simon og Neil Diamond (82) 

  Paul McCartney,  Roger McGuinn (Byrds) og Brian Wilson (Beach Boys) (81)

  Mick Jagger,  Keith Richards, Roger Waters (Pink Floyd) og Steve Miller (80) 

  Rod Stewart,  Ray Davies (Kinks), Roger Daltrey (Who) og Carly Simoon (79)

  John Fogerty (Creedence Clearwater Revival),  Debbie Harry (Blondie),  Robert Wyatt,  Neil Young,  Pete Townshend (Who) og Eric Clapton (78)

  Patti Smith,  Linda Ronstadt, Donovan og Dolly Parton (77)

  Arlo Guthrie,  Elton John,  Carlos Santana,  Emmylou Harris,  Joe Walsh og Iggy Pop (76)

  Rober Plant  (Led Zeppelin),  Stevie Nicks (Fleedwood Mac) og Alice Cooper (75)

  Bruce Springsteen og Hugh Cornwell (Stranglers) (74)

  Peter Gabriel,  Stevie Wonder og Billy Joel (73)

 


Hvernig litu rokkstjörnurnar út í dag?

  Í hvaða átt hefði tónlist Jimi Hendrix þróast ef hann væri á lífi í dag?  En Janis Joplin?  Eða Kurt Cobain?  Þessum spurningum hefur áhugafólk um tónlist spurt sig í áraraðir.  Það hefur borið hugmyndir sínar saman við hugmyndir annarra.  Þetta er vinsælt umræðuefni á spjallsíðum netsins.

  Önnur áhugaverð spurning:  Hvernig liti þetta fólk út ef það væri sprelllifandi í dag?  Tyrkneskur listamaður telur sig geta svarað því.  Til þess notar hann gervigreind.  Útkoman er eftirfarandi.  Þarna má þekkja John Lennon,  Janis Joplin,  Jimi Hendrixkurt,  Kurt Cobain,  Tupac,  Freddie Mercury og Elvis Presley.

Johnjanisjimi

                                                                                           

I-havefreddieelvis


Hefur eignast lög sín eftir hálfrar aldar illindi og málaferli

  Forsagan er þessi:  Á sjöunda áratugnum haslaði bandarískur drengur,  Tom Fogerty,  sér völl sem söngvari.  Til undirleiks fékk hann "instrúmental" tríó yngri bróður síns,  Johns.  Samstarfið gekk svo vel að Tom og tríóið sameinuðust í nýrri hljómsveit sem hlaut nafnið Creedence Clearwater Revival. 

  Framan af spilaði hún gamla blússlagara í bland við frumsamin lög bræðranna.  Í ljós kom að John var betri lagahöfundur en stóri bróðir, betri söngvari og gítarleikari.  Að auki var hann með sterkar skoðanir á útsetningum og stjórnsamur.  Frábær söngvari og gítarleikari.  Frábær lagahöfundur.  Spilaði líka á hljómborð og saxafón.  

  Tom hrökklaðist úr því að vera aðalkall í að vera "aðeins" rythma gítarleikari á kantinum.  Ekki leið á löngu uns hann hætti í hljómsveitinni og hóf lítilfjörlegan sólóferil.  Á meðan dældi CCR út ofursmellum.  Að því kom að hryn-par (bassi, trommur) hennar bar sig aumlega undan ofurríki Johns og var með ólund.

  Hann bauð hryn-parinu að afgreiða sín eigin lög á næstu plötu CCR,  "Mardi Grass".  Það varð þeim til háðungar.  

  Í framhaldinu vildi John hefja sólóferil.  En hann var samningsbundinn plötufyrirtæki sem liðsmaður CCR.  Hann reyndi allra leiða til að rifta samningnum.  Án árangurs.  Hryn-parið og Tom stóðu þétt við bak plötufyrirtækisins.  Seint og síðar meir tókst John að öðlast frelsi með því að framselja til plötufyrirtækisins höfundarrétt vegna CCR katalógsins.  Þar með átti hann ekki lengur sín vinsælustu lög.  Allar götur síðan hefur hann barist fyrir því að eignast lögin sín.  Á dögunum upplýsti hann að loksins væri hann orðinn eigandi allra sinna laga eftir langar og strangar lagaflækjur.     

          


Drottning sveitasöngvanna hellir sér í rokkið

  Dolly Parton er stærsta nafn kántrý-kvenna.  Hún hefur sungið og samið fjölda sívinsælla laga.  Nægir að nefna "Jolene",  "9 to 5" og "I will always love you".  Síðast nefnda lagið er þekktara í flutningi Whitney Houston.  Fyrir bragðið vita ekki allir að höfundurinn er Dolly.

  Á dögunum fagnaði hún 77 ára fæðingardegi.  Að því tilefni datt henni í hug að söðla óvænt um og hella sér í rokkið.  Ekki seinna vænna.  Hún ætlar að vanda sig við umskiptin.  Gæta þess að verða ekki að athlægi eins og Pat Boone.  Sá sætabrauðskall reyndi um árið að endurheimta fyrri vinsældir með því að skella sér í þungarokk.  Útkoman varð hamfarapopp.

  Rokkplata Dollyar verður ekkert þungarokk.  Hún verður léttara rokk í bland við kraftballöður.  Þetta verða lög á borð við "Satisfaction" (Rolling Stones),  "Purple Rain" (Prince),  "Stairway to heaven" (Led Zeppelin) og "Free Bird" (Lynyrd Skynyrd). 

  Dolly dreifir ábyrgð yfir á gestasöngvara.  Þeir eru:  Paul McCartney, John Fogerty (Creedence Clearwater Revival),  Steven Tyler (Aerosmith),  Pink,  Steve Perry (Journey),  Stevie Nicks (Fleetwood Mac), Cher og Brandi Carlili. 

  Vinnuheiti plötunnar er "Rock star". 

 


Hvað ef?

  Oft er fullyrt að Bítlarnir hafi verið réttir menn á réttum stað á réttum tíma.  Það skýri ofurvinsældir þeirra.  Velgengni sem á sér ekki hliðstæðu í tónlistarsögunni.  Enn í dag eru þeir ráðandi stórveldi og fyrirmynd 60 árum eftir að þeir slógu í gegn og 52 árum eftir að hljómsveitin snéri upp tánum. 

  Bítlarnir voru EKKI á réttum stað þegar þeir hösluðu sér völl.  Þeir voru staðsettir í Liverpool sem á þeim tíma þótti hallærislegasta krummaskuð.  Þetta var hafnar- og iðnaðarborg;  karlar sóttu pöbbinn á kvöldin, rifust, slógust og konur voru lamdar heimafyrir.  Enskuframburður þeirra var hlægilegur.  Það voru ekki forsendur fyrir því að Liverpool guttar ættu möguleika á frægð og frama.  John Lennon sagði að það hafi verið risapólitík þegar Bítlarnir ákváðu í árdaga að halda Liverpool-framburðinum. 

  Spurning um tímasetninguna.  Hún var Bítlunum í hag.  Það var ládeyða í rokkinu 1963.  Hinsvegar hefðu Bítlarnir sómt sér vel á hátindi rokksins 1955-1958,  innan um Presley, Chuck Berry,  Little Richard,  Jerry Lee Lewis,  Fats Domino og Buddy Holly.  

  Bítlarnir hefðu líka spjarað sig vel 1965 eða síðar með Beach Boys og The Byrds.  

  Það sem skipti ÖLLU máli var að Bítlarnir voru réttir menn.  Og rúmlega það.  Þeir hefðu komið, séð og sigrað hvar og hvenær sem er.


Skemmtisögur

 

  Út er komin sjötta bókin í flokknum Skagfirskar skemmtisögur.  Hún er kyrfilega merkt tölunni 6.  Undirtitill er Fjörið heldur áfram.

  Eins og fyrri bækurnar er það blaðamaðurinn Björn Jóhann Björnsson sem skráir sögurnar.  Þær eru á þriðja hundrað.  Þær er ljómandi fjölbreyttar.  Sumar með lokahnykk (pönslæn).  Aðrar eru meira lýsing á spaugilegri stemmningu.  Svo eru það stökurnar,  limrurnar og lengri vísur.   

  Þrátt fyrir að sögurnar séu um nafngreinda Skagfirðinga þá er ekki þörf á að vera Skagfirðingur til að skemmta sér vel við lesturinn.  Ég er Skagfirðingur og kannast við flesta í bókinni.  Þó ekki alla.  Ég skemmti mér alveg jafn vel við lestur um þá ókunnugu. 

  Hér eru nokkur sýnishorn:

  Að loknu stúdentsprófi í MA fór Baldur í guðfræði í Háskóla Íslands og lauk þaðan cand. theol. prófi árið 1956.  Á háskólaárunum bjó hann á Nýja stúdentagarðinum.  Þar var aðeins einn sími til afnota fyrir stúdenta, og þótti ekki vinsælt ef menn héldu honum mjög lengi,  einkum á annatíma.

  Eitt sinn hafði síminn verið upptekinn dágóða stund og voru margir farnir að bíða og huga að því hver væri að tala.  Reyndist það vera Baldur,  en hann bandaði mönnum frá sér og kvaðst vera að tala í landsímann.  Vissu menn þá að hann var að tala við föður sinn,  Vilhelm símstöðvarstjóra.  Þurfti Baldur því ekki að hafa miklar áhyggjur af kostnaði við lengd símtalsins.

  Öðru hverju opnuðu samnemendur Baldurs dyrnar á símklefanum,  en heyrðu aðeins mas um einskis verða hluti og þar kom að einhver spurði Baldur hvort hann væri ekki að verða búinn.

  "," svaraði Baldur,  "ég er að koma mér að efninu."  Og í því að dyrnar á klefanum lokuðust heyrðist Hofsósingurinn segja:

  "En án gamans, er amma dauð?"

  Jón Kristjánsson, fv. ráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins,  er alinn upp í Óslandshlíðinni.  Ungur að árum,  líklega 16 ára,  var hann að koma af balli á félagsheimili þeirra sveitunga,  Hlíðarhúsinu.  Fékk hann far út á Krók með Gísla í Þúfum og Árna Rögnvalds.  Var létt yfir mannskapnum og gekk flaska á milli.  Árni var undir stýri og heyrði Jón þá margar sögurnar fjúka milli hans og Gísla.

  Ein sagan hjá Árna var af ónefndum blaðamanni sem kom á elliheimili til að taka viðtal við 100 ára konu.  Var hún m.a. spurð hvað hún hefði verið gömul er hún hætti að hafa löngun til karlmanns.  Þá mun sú gamla hafa svarað: 

  "Þú verður að spyrja einhverja eldri en mig!"

  Guddi var alltaf eldsnöggur til svars og þurfti aldrei að hugsa sig um.  Um miðjan áttunda áratuginn kom hann sem oftar í heimsókn í Hrafnhól í Hjaltadal.  Þetta var að vori til.  Guðmundur bóndi var að stinga út úr fjárhúsunum.  Guddi greip gaffal og bar hnausana út.  Hann keðjureykti en lét það ekki trufla sig við vinnuna,  sígaretturnar löfðu í tannlausum gómnum.  Ungur drengur varð vitni að hamaganginum og spurði: 

  "Hvers vegna reykir þú svona mikið,  Guddi?"

  Hann svaraði um hæl:

  "Þeir sem vinna mikið þurfa að reykja mikið!"

  Eitt sinn bar gest að garði á Silfrastöðum,  sem spurði Steingrím frétta á bæjarhlaðinu.  Hann var þá með eitthvað af vinnufólki,  enda hafa Silfrastaðir jafnan verið stórbýli. 

  "Ja,  það drapst hér kerling í nótt,"  svaraði Steingrímur við gestinn,  og bætti við:  "Og önnur fer bráðum."

  Margir áttu leið í Búnaðarbankann til Ragnars Pálssonar útibússtjóra,  þeirra á meðal Helgi Dagur Gunnarsson.  Eitt sinn hafði hann verið í gleðskap og þokkalega vel klæddur mætti hann í bankann og bað Ragnar um lán.  Ragnar sagðist ekki sjá ástæðu til að lána mönnum,  sem klæddust jakkafötum á vinnudegi!  Helgi sagði ástæðu fyrir því.

  "Sko," sagði hann,  "ég er svo blankur að ég á ekki fyrir gallabuxum og þetta er það eina sem ég á eftir."

  Ragnar tók þessa skýringu góða og gilda.  Helgi fékk lánið og daginn eftir mætti hann til Ragnars í gallabuxum sem hann hafði keypt sér!"

  Maður einn á Króknum fór í verslunina Gránu í hverri viku og keypti yfirleitt það sama í hvert skipti af helstu nauðsynjum.  Í Gránu voru vörurnar keyptar "yfir borðið" og fólk lagði inn lista eða sagði afgreiðslufólkinu hvað það vanhagaði um.  Sagan segir að hér hafi Jón Björnsson verið á ferð,  kallaður Jón kippur,  en það hefur ekki fengist staðfest.  Einn daginn tók afgreiðslukona hjá Kaupfélaginu eftir því að maðurinn bað um tvær klósettrúllur,  en yfirleitt hafði hann bara beðið um eina.  "Stendur eitthvað til?"  spurði konan og maðurinn svaraði: 

  "Ég ákvað að gera vel við mig í þetta skiptið!" 

 

Skagfirskar-6


Gullgrafarar

 

  Fólk sem á rosalega marga peninga á við vandamál að etja.  Fátækt fólk er laust við það vandamál.  Þetta snýst um hvort makinn sé ástfanginn af viðkomandi eða peningahrúgunni.  Líkurnar á að síðarnefnda dæmið eigi við eykst með hverju árinu sem munar á aldri parsins.

  Þegar bítillinn Paul McCartney tók saman við Heather Mills var hann 26 árum eldri.  Hún var á aldur við börn hans.  Þau mótmæltu.  Töldu hana vera gullgrafara.  Hún myndi láta hann barna sig og skilja við hann.  Þar með væri hún komin með áskrift að ríflegu meðlagi og vænni sneið af fjármunum hans.  Þetta gekk eftir.  Hún fékk 50 milljón dollara í vasann (x 144 kr.). 

  John Lennon og Yoko Ono er flóknara dæmi.  Hún var ekki á eftir peningum er hún tók upp á því að sitja um hann.  Hún var allt að því eltihrellir (stalker).  Hún kemur út auðmannafjölskyldu.  Hún var og er framúrstefnu myndlistamaður.  Góð í því.  En var ekki fræg utan þess fámenna hóps sem aðhylltist avant-garde.  John Lennon var farseðill hennar til heimsfrægðar. 

  Yoko er ekki öll þar sem hún er séð.  Þegar henni tókst að ná John frá þáverandi eiginkonu hans og barnsmóður hélt hún því fram að hún þekkti lítið sem ekkert til Bítlanna.  Hún væri bara í klassískri músík.  Eina manneskjan í New York sem vissi ekkert um Bítlana.  Hún var ekki fyrr tekin saman við John en hún fór að dæla frá sér þokkalegum popplögum. 

  Dæmi um undirferli Yokoar:  Hálfblindur John keyrði út í móa.  Yoko slasaðist.  Hún var rúmföst og gat sig lítið hreyft.  Bítlarnir voru að hljóðrita Abbey Road plötuna.  John plantaði rúmi handa Yoko í hljóðverið.  Þannig gat hann annast hana.  Svo gerðist það að John, Paul og Ringo brugðu sér frá.  George Harrison var að dunda á annarri hæð hljóðversins.  Þar voru skjáir sem sýndu úr öryggismyndavélum í byggingunni.  Yoko fattaði það ekki.  George sá hana tipla léttfætta þvert yfir hljóðversgólfið og stela frá honum súkkulaðikexi. 

  Anna Nicoli Smith var bandarísk nektarfyrirsæta.  Mjög fögur.  26 ára giftist hún 89 ára gömlum auðmanni.  Hann dó.  Hún fór í mál við son hans.  Krafðist helming arfs.  Þá dó hún.  Einnig sonur hennar sem var eiturlyfjafíkill.                

  Rachel Hunt var 21 árs sýningardama er hún giftist hálf fimmtugum breskum söngvara,  Rod Stewart.  Hann hélt að hann hefði tryggt sig gegn gullgrafara.  Það reyndist ekki virka.  Rachel náði af honum 35 milljónum dollara. 

  Svo getur alveg verið að venjulegt blásnautt fólk verði í alvöru ástfangið af vellauðugri manneskju.  Peningar skipti þar engu máli.   

 

anna-nicole-smith-and-husband-j-howard-marshallRod Stewart   


Ný ljóðabók og hljómplata

 Það hefur verið afskaplega ánægjulegt að fylgjast með Ólafi F. Magnússyni eftir að hann settist í helgan stein.  Reyndar líka áður.  Hann var besti borgarstjóri Reykjavíkur.  Eftir það tímabil tók við nýr - og kannski óvæntur - ferill. Frjó og farsæl sköpunargleði fór á flug.  Hann yrkir kjarnyrt kvæði á færibandi,  semur viðkunnanleg söngræn lög og vex stöðugt sem ágætur söngvari.

  Nú er komin út hans þriðja ljóðabók,  Ég vil bæta mitt land.  Eins og í fyrri bókum eru þetta ættjarðarljóð,  heilræðisvísur og allskonar.  Meðal annars um margt nafngreint fólk.  Eitt kvæðið heitir Eivör Pálsdóttir:

Holdtekju listar með hárið síða,

hátónagæði með fegurð prýða.

Sönglóan okkar færeyska fríða,

flögrar um eins og sumarblíða.

  Bókinni fylgir 13 laga hljómdiskur.  Þar af eru 9 áður óútgefin lög.  Hin eru sýnishorn af fyrri þremur diskum Ólafs.  

  Söngurinn er afgreiddur af Ólafi og Páli Rósinkrans,  svo og óperusöngvurunum Elmari Gilbertssyni,  Guðlaugu Dröfn Ólafsdóttur og Ingibjörgu Aldísi Ólafsdóttur.  Útsetningar og hljóðfæraleikur eru að mestu í höndum galdrakarlsins Vilhjálms Guðjónssonar.  Gunnar Þórðarson kemur líka við sögu. 

      

ÓFM


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband