Færsluflokkur: Menning og listir

Ofbeldi upphafið

  Ég horfi stundum á sjónvarp.  Í Sjónvarpi Símans hafa árum saman verið endursýndir bandarískir grínþættir sem kallast The king of Queens.  Sömu þættirnir sýndir aftur og aftur.  Það er í góðu lagi.  Ein aðalstjarnan í þáttunum er virkilega vel heppnuð og fyndin. Þar er um að ræða geðillan og kjaftforan náunga sem kallast Arthur.  Leikarinn heitir Jerry Stiller.  Hann ku vera faðir íslandsvinarins Bens Stillers.  

  Arthur býr heima hjá dóttur sinni og tengdasyni.  Eins og algengt er í svona gamanþáttum þá er konan fögur, grönn og gáfuð.  Kall hennar er feitur, undirförull og heimskur. Allt er þetta með ágætum ef frá er talið að ofbeldi er fegrað sem brandarar.  Hjónin eiga til að hrinda hvort öðru;  konan snýr upp á geirvörtur kauða og kýlir hann með hnefa í bringuna.  Þetta er ekki til eftirbreytni og ber að fordæma.     


Smásaga um mann sem týndi sjálfum sér

  - Af hverju kemur þú svona seint heim? spurði konan ásakandi um leið og Raggi gekk inn um útidyrnar.

  - Ég týndi mér, svaraði hann skömmustulega.

  - Hvað meinar þú?

  - Ég var að ganga niður Bankastræti þegar ég tók eftir því að ég var kominn fram úr mér.  Ég reyndi að halda í við mig en það voru alltof margir ferðamenn sem flæktust fyrir.  Að lokum missti ég sjónir af mér.  

  - Hvaða kjaftæði er þetta?

  - Ég sver.  Ég varð að ganga hús úr húsi í Austurstræti í leit að mér.  Þetta var rosalega seinlegt.  Sum húsin eru á meira en einni hæð.  Ég var sannfærður um að ég væri þarna einhversstaðar.  Ég var kominn alveg að Ingólfstorgi þegar ég fann mig á austurlenskum veitingastað.  Ég lét mig heyra það óþvegið og dreif mig heim.

  -  Veistu,  ég trúi þér.  Mamma kom áðan í heimsókn og spurði hvar þú værir.  Ég sagði henni að þú hefðir áreiðanlega týnt þér í miðbænum. 

  - Hvernig datt þér það í hug?

  - Það var ekkert erfitt að giska á þetta.  Þetta hefur endurtekið sig á hverju kvöldi í tólf ár.

felur sig


Brýnt að halda til haga um Guðna Má Henningsson

  Ég heyrði fyrst af Guðna Má er ég kíkti í Plötubúðina á Laugavegi 20.  Þar réði Halldór Ingi heitinn Andrésson ríkjum.  Hann sagði mér frá þessum náunga sem hlustaði á músík allan daginn alla daga.  Hlustaði og stúderaði flytjendur allan sinn vökutíma.

  Halldóri Inga þótti áríðandi að stútfullur fróðleiksbrunnur Guðna Más yrði virkjaður í útvarpi.  Mig minnir að hann hafi fyrst komið honum í útvarpsstöðina Sólina.  Þar blómstraði hann með öðruvísi lagaval en aðrir dagskrárgerðarmenn.  Heillandi lagaval.

  Síðar hreppti Rás 2 Guðna Má.  Það var happafengur.   

  2002 tók Guðni Már upp á því að spila á Rás 2 færeyskt lag,  "Ormurin langi" með víkingametalsveitinni Tý. Þá hafði færeysk tónlist ekki áður verið spiluð á Rás 2. Vinnufélagarnir stukku ekki á vagninn til að byrja með.  Hann þurfti að hafa fyrir því að koma "Ormurin langi" í fasta spilun á Rás 2.  Með harðfylgni tókst honum að landa því.

  "Ormurin langi" varð mest spilaða lag á Íslandi 2002.  Platan seldist í 4000 eintökum.  Kiddi kanína var snöggur til að venju.  Hann bókaði Tý í hljómleikaferð um Ísland.  Í leiðinni bjó hann til færeyska tónlistarveislu,  Fairwaves.  Þar kynnti hann til sögunnar fjölda færeyskra tónlistarmanna,  svo sem Eivöru,  Högna Lisberg,  hljómsveitina Clickhaze,  pönksveitina 200,  djasssveitina Yggdrasil með Kristian Blak í fararbroddi,  Lenu Anderssen,  Hanus G. og Guðrið Hansdóttir, svo aðeins örfá nöfn séu nefnd.  

  Án Guðna Más hefðu Íslendingar aldrei kynnst frábærri tónlist þessa fólks. 

  Til gamans vitna ég í frásögn Guðna Más í bók minni Gata, Austurey,  Færeyjar,  Eivör og færeysk tónlist:  "Eivör spilaði í beinni útsendingu hjá mér í Útvarpshúsinu í Þórshöfn.  Hún var mögnuð stelpan þar.  Á milli laga spjallaði ég við hana og eitt sinn þegar ég reyndi að vera mjög gáfulegur og klár þá kleip hún mig í rassinn - í beinni útsendingu!"

guðni már

        


Af hverju eru Debbie Harry og Blondie pönk?

  Vegna Íslandsheimsóknar bandarísku söngkonunnar Debbie Harry hefur margur fróðleiksfús spurt sig,  ættingja og nágranna:  Af hverju var Blondie pönk?  Hljómsveitin hljómaði ekki eins og pönk.  Hún var meira eins og létt popp í bland við reggí.  

  Málið er að í Bandaríkjunum var pönk ekki einhver tiltekinn músíkstíll.  Það var samheiti yfir viðhorf tónlistarfólks til tónlistarbransans.  1974-1975 þótti prog (framsækið rokk) flottast.  En átti ekki upp á pallborð hjá vinahópi sem spilaði í New York skemmtistaðnum CBGB.  Hann spilaði einfalda músík sem var ekkert flækt með flóknum sólóum og taktskiptum.  Málið var að kýla á hlutina óháð færni á hljóðfæri.  Allir fengu að vera með:  Blondie,  Patti Smith, Televison,  Ramones...  Þetta var "gerðu það sjálf/ur" (Do It Yourself) viðhorf.

  Þetta tónlistarfólk var kallað pönk með tilvísun í fanga sem níðst er á í bandarískum fangelsum.  Aumast allra aumra.  

  Víkur þá sögu til Bretlands.  1976 myndaðist þar bylgja hljómsveita sem spilaði svipaða rokktónlist (blöndu af glam rokki og pöbbarokki).  Þetta voru Sex Pistols,  Clash,  Damned, Buzzcocks og fleiri.  Í ágúst 1976 skrifaði blaðakona NME vikublaðsins um þessa bylgju.  Hún sá sterka samlíkingu við bandarísku pönkarana.  Hún fékk samþykki bylgjunnar til að kalla hana pönk.  

 


Bestu lagahöfundarnir

  Bandaríska söngvaskáldið Paul Simon er í hópi bestu lagahöfunda síðustu aldar.  Af þekktum lögum hans má nefna Bridge over trouble water,  The sound of silence,  Mrs Robinson,  Mother and child reunion.  Lengi mætti áfram telja.  Þegar þáverandi forseti Bandaríkjanna,  Richard M. Nixon,  heimsótti Mao formann í Kína þá færði hann honum plötuna Bridge over trouble water með Paul Simon og Garfunkel,  sem hápunktinn í bandarískri tónlist.  

  Paul Simon hefur sterkar skoðanir á lagasmíðum.  Þessa telur hann vera bestu lagahöfundar liðinnar aldar:  Gershwin,  Berlin og Hank Williams.  Hann telur að Paul McCartney megi hugsanlega vera í hópnum.  Richard Rodgers og Lorenz Hart geta þá verið með líka.

  Í annað sæti setur hann John Lennon,  Bob Dylan,  Bob Marley og Stephen Soundheim.  Hann telur ekki fráleitt að sjálfur megi hann vera með í öðru sætinu. 

 

 


Líkamsóvirðing

  Sjónvarp Símans er skemmtilegt.  Þar eru endursýndir þættir árum saman þangað til öruggt er að áhorfandinn kunni þá utanað.  Þannig er haldið þétt utan um hlutina. 

  Ein áhugaverðasta þáttaserían heitir Love island.  Hún sýnir mannlegt eðli ungs fólks.  Þættirnir ganga út á það að breskum ungmennum er holað niður í afskekkt hótel á Spáni.  Þar býr það í vellystingum.  Eina kvöðin er að para sig.  Sem er létt verk og löðurmannlegt. 

  Ýmsu er bryddað upp á til að freista.  Við það skapast drama, ótryggð, afbrýðisemi og allskonar breskleiki.  Til að skerpa á hefur þátttakandi möguleika á að eignast 20 milljón kall eða álíka. 

  Strákarnir í hópnum eru hugguleg húðflúruð líkamsræktartröll.  Þeir tala um stelpur á máli boltaleikja.  Þeir tala um að skora.  Koss er fyrsta höfn,  kynlíf önnur höfn og eitthvað svoleiðis.  Öllum þreifingum er fagnað sem sigri.

  Strákarnir eru íklæddir boxer sundskýlum.  Stelpurnar eru íklæddar efnislitlu bikini.  Þær farða sig svo ríflega að þær eru nánast óþekkjanlegar hver frá annarri.  Sítt slétt hár niður á bak er litað ljóst.  Allar eru með gerviaugnhár.  Allt í góðu með það.  Nema að þær eru með þrútnar botox-varir.  Það er ekki flott.  Ég fordæmi það sem vonda fyrirmynd ungra kvenna.  Mér að meinalausu mega konur á elliheimilum þrykkja í ýktar botox-varir.  Það er svo sem ekki margt annað um að vera á elliheimilum.  Ef frá er talin harmónikkumúsík.    

varir avarir b       

          


Dónalega fólkið

  Örlög beggja voru ráðin þegar prúði unglingurinn í Liverpool á Englandi,  Paul McCartney, kynnti sig fyrir bæjarvillingnum,  John Lennon.  Eftir það heimsóttu þeir hvorn annan á hverjum degi.  Ýmist til að syngja og spila saman uppáhaldslög eða semja sína eigin söngva eða hlusta á nýjar rokkplötur. 

  Þegar John gekk til og frá heimili Pauls fór hann framhjá hópi fólks sem stóð úti í garði.  Í hvert einasta skipti í öllum veðrum.  Hann kastaði ætíð á það kveðju.  Fólkið var svo dónalegt að endurgjalda hana aldrei.

  John sagði Paul frá þessu dónalega fólki.  Hann varð forvitinn.  Stormaði með John að fólkinu.  Kom þá í ljós að þetta var garðskreyting sem sýndi fæðingu Jesúbarnsins.  Fólkið var Jósef smiður,  María mey og vitfirringarnir þrír frá Austurlöndum. 

  Misskilningurinn lá í því að John var afar sjóndapur.  Mun sjóndaprari en hann gerði sér sjálfur grein fyrir.  Hann var í afneitun.  Hélt að allir aðrir hefðu samskonar sjón. Hann sá allt í þoku en hafði engan áhuga á gleraugum.  Ekki fyrr en mörgum árum síðar. 

 


Illa farið með börn

  Sumt fólk kemur illa fram við börn.  Stundum svo undrum sætir.  Það fengu sjö tólf ára stelpur að sannreyna er þær brugðu sér af bæ og hugðust horfa saman á kvikmynd,  Hungurgeimana, í þar til gerðum bíósal. 

  Stelpurnar voru ekki búnar að sitja lengi undir myndinni er hávært sírenuvæl frá nokkrum lögreglubílum truflaði skemmtunina.  Þetta var í Austur-Sussex í Englandi.  Laganna verðir stormuðu inn gráir fyrir járnum.  Þeir smöluðu stelpunum út á hlað og sökuðu þær um að brjóta höfundarrétt.  Þær væru að taka myndina upp á síma og iPoda.  Skoðun á tækjum stelpnanna sannaði sakleysi þeirra.  Þar var ekkert höfundarvarið efni að finna.  Þrjár stelpnanna voru ekki einu sinni með síma eða aðrar græjur til að taka neitt upp.

  Fyrir utan hímdu stelpurnar í grenjandi rigningu og skulfu úr kulda baðaðar í bláum blikkljósum.  Fjórar þeirra fengu taugaáfall hágrátandi og þurftu að kalla á foreldra til að ferja sig heim.  Lögreglan meinaði stelpunum að halda hópinn.  Þeim var haldið aðgreindum.  Ein stúlkan sagði móður sinni síðar að hún hafi verið svo hrædd að henni hafi verið ómögulegt að gráta.  Hún var bara í losti.  Þær höfðu enga reynslu af samskiptum við lögregluna. 

  Eigendur kvikmyndahússins hafna sök.  Vísa alfarið á lögregluna.  Segja að í kjölfar símtals við hana hafi hún borið alla ábyrgð á framvindunni. Endurgreiðslu á miðum er hafnað.  Nýjum miðum er hafnað.  Stelpurnar eyddu um 20 þúsund kalli í kaup á miðum,  poppkorni, gosdrykkjum og fleiru.  En þær hafa ekki ennþá séð myndina.  Hvorki í kvikmyndahúsi né á netinu.  Lögreglan hefur beðist afsökunar.

  Góðu fréttirnar eru að svona gerist ekki á Íslandi. 

 

      


Hver er uppáhalds Bítlaplatan?

  Hér til vinstri á bloggsíðunni hef ég stillt upp nýrri skoðanakönnun.  Hún mun standa þangað til 1000 atkvæði hafa skilað sér í hús.  Reynslan hefur þó kennt að línur skýrast strax með fyrstu 100 - 200 atkvæðum.  Samt.  1000 atkvæði eru trúverðugri.

  Varast ber að taka svona skoðanakönnun of hátíðlega.  Þetta er fyrst og fremst skemmtilegur samkvæmisleikur.  Úrslitin  mæla ekki smekk þverskurðar af þjóðfélaginu.  Þau túlka einungis smekk lesenda bloggsíðunnar.  Þeir eru að uppistöðu til karlmenn komnir af léttasta skeiði og nokkrar konur á sama aldri.  

  Takið endilega þátt í könnuninni.  Spurt er um uppáhalds Bítlaplötu.  Ekki bestu Bítlaplötu.  Á þessu er munur.  Pavarotti er betri söngvari en Megas.  Megas er skemmtilegri.   

 

 

 


Hvað ef...?

  Ef John, Paul,  George og Ringo hefðu aldrei hist væri margt öðruvísi en það er í dag.  Ekki aðeins tónlistin.  Fjórmenningarnir frá Liverpool breyttu mörgu öðru.  Allt frá hártísku til almennra viðhorfa til margs.  Sprengikrafturinn lá í liðsheild kvartettsins.  Hvað hefði orðið um einstaklingana ef þeir hefðu aldrei hist?

  Fyrsta ályktum um John Lennon gæti verið að hann hefði orðið myndlistamaður.  Hann var í myndlistaskóla.  Fyrri eiginkona hans og barnsmóðir,  Cynthia,  var skólasystir hans.  John var efnilegur myndlistamaður.  Hinsvegar lauk hann aldrei námi í skólanum.  Hann var rekinn úr honum fyrir ítrekuð agabrot og árekstra við kennara og samnemendur.  Það einkenndi einnig grunnskólagöngu hans.  Hann átti erfitt með að fylgja reglum,  hafði ekki reiðistjórn og var ofbeldismaður.  Það þurfti sérstakar manngerðir til að umbera skapofsaköst hans og ofbeldishneigð.

  Líklegra er að John hefði orðið rithöfundur.  Hann skrifaði frábærlega fyndnar og frumlegar smásögur sem voru gefnar út í bókarformi.  Þorsteinn Eggertsson þýddi sumar þeirra og birti í dagblaðinu Tímanum.  Gaman væri ef hann þýddi þær allar og gæfi út á íslensku í heilu lagi.  

  Sem tónlistarmaður hefði John ekki náð langt án Pauls,  Georges og Ringos.  Hann stofnaði hljómsveitina The Quarrymen sem varð undanfari Bítlanna.  Þó að þetta væri hans hljómsveit,  sem söngvara og allsráðandi,  þá tókst ekki betur til en svo að hann spilaði banjóhljóma á gítarinn.   Báðir foreldrar hans voru banjóleikarar og spiluðu að auki á ukoleli.  Mamma hans var einnig píanóleikari.  Pabbi hans var söngvari og lagahöfundur.  John var með tónlistargen í blóðinu.  Án Pauls hefðu þau gen aðeins gert John að glamrara og gutlara í hljóðfæraleik.  Eins og foreldrana.  

  Hljómsveitin The Quarrymen er starfandi enn í dag.  En er ekki að skora hátt.  Fjarri því góð hljómsveit.  Næstum 70 árum síðar stenst hún ekki samanburð við frumútgáfu af Bítlunum með John,  Paul og George.  Það er hrópandi munur á "karakterunum" í músíkinni.

.  Vegna skapofsa Johns og ofbeldishneigðar er lílegt að hann hefði skrifað sínar sögur í fangelsi. 

   Þegar Paul kynntist John var hann á leið í háskólanám í læknisfræði og ensku.  John stillti honum upp við vegg:  Annað hvort velur þú skólann eða The Quarrymen.  Það er ekkert bæði.  Bara annað hvort.  Paul valdi rétt.  Ef hann hefði valið annað hefði hann orðið gutlari á pöbbum eins og pabbi sinn.  

  George var byrjaður að spila með Bítlunum þegar hann skráði sig í nám sem ratvirki.  George drepleiddist námið.  Kolféll á fyrsta prófi. Erfitt er að reikna út hvað hann hefði tekið sér fyrir hendur án Bítlanna.  Sjálfur giskaði hann á garðyrkju eða grænmetisveitingastað.           

    John Lennon sagði eitt sinn að Ringo væri eini Bítillinn sem hefði "meikað það" án Bítlanna.  Hann hefði gert það gott sem trommari og ennfremur orðið góður kvikmyndaleikari.  Hann var í góðum málum sem trommari í vinsælli hljómsveit í Liverpool,  áður en hann gekk til liðs við Bítlana.  Hann tók niður fyrir sig með því.  En honum þótti Bítlarnir svo brjálæðislega skemmtilegir að hann lét slag standa.  Sá aldrei eftir því.  Hann var eini Bítillinn sem John lamdi aldrei.  Eru þá fyrsti bassalerikari Bítlanna,  Stu,  og trommuleikari The Quarrymen meðtaldir,  svo og Cynthia. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband