Færsluflokkur: Lífstíll

Sokkar sem gera þig að góðum dansara

  

   Vond frétt fyrir danskennara og dansskóla.  Góð frétt fyrir aðra.  Sérstaklega þá sem girnist að dansa en kann það ekki.  Svo ekki sé minnst á þá sem vita nokkurn veginn hver danssporin eiga að vera en á dansgólfinu fer allt úrskeiðis.  Fæturnir fara í allar áttir og aðallega í vitlausar áttir.  Snælduvitlausar áttir.

  Eftir tvo mánuði koma á markað sokkar sem stýra fótunum í réttu danssporin.  Sokkarnir líta út eins og venjulegir sokkar.  Það má þvo þá í þvottavél og allt.  

  Sokkarnir eru úr næmum trefjum.  Þær eiga samskipti við forrit í snjallsíma á meðan viðkomandi dansar.  

 


Pete Seeger

  Bandaríska söngvaskáldið Pete Seeger kvaddi í gær.  Hann var alveg við það að ná 95 ára aldri.  Hann hefur verið kallaður faðir bandarísku þjóðlagatónlistarinnar.  Það er ónákvæmt.  En nálægt því.  Woody Guthrie er nær lagi.  Woody var 7 árum eldri og fyrri til að stimpla sig inn á markaðinn og leggja línurnar.  Þar fyrir utan spilaði Woody á kassagítar og blés í munnhörpu á meðan Pete spilaði á banjó.  Kassagítar og munnharpa hafa alla tíð síðan verið einkennishljóðfæri bandarískrar þjóðlagatónlistar.  Fáir spila á banjó.    

  7 ára aldursmunur er mikill þegar menn eru ungir.  Pete og Woody spiluðu saman í hljómsveitinni The Almanac Singers um og upp úr 1940.  Woody var fyrirmynd og lærifaðir Petes,  eins og margra annarra.  Woody kunni þann galdur að semja auðlærða einfalda létta söngva sem allir gátu spilað og sungið með án þess að hafa heyrt lagið áður.  Söngvar Petes voru ljóðrænni og "dýpri".  Lærisveinn þeirra beggja,  Bob Dylan,  skilgreindi sig síðar sem Woody Guthrie djúk-box.  Engu að síður leituðu söngvar hans meira í sama stíl og söngvar Petes.

  The Almanac Singers breyttist í hljómsveitina The Weavers.  1950 sló sú hljómsveit rækilega í gegn með lagi Leadbellys,  Goodnight Irene.  

  Þetta lag sat í 1. sæti bandaríska vinsældalistans í 13 vikur,  seldist í 2 milljónum eintaka.  Það sölumet stóð árum saman.  The Weavers átti annað topplag,  Tzena, Tzena, Tzena.  

  Bakslag kom þegar leið á sjötta áratuginn.  Pete Seeger hafði undarlegar skoðanir sem töldust vera hættulegar.  Hann var friðarsinni,  studdi mannréttindabaráttu blökkumanna og verkafólks, var andvígur fátækt og umhverfisverndarsinni.  Hann var - ásamt Chaplin og fleirum - settur á svartan lista vænisjúka fasíska drykkjuboltans McCarthys.  Það þýddi að flestar dyr lokuðust á Pete.  Hann var útilokaður frá útvarpi,  sjónvarpi,  tónleikastöðum og svo framvegis.  Bannfærður.  Það var til margra ára skrúfað fyrir tjáningafrelsi,  skoðanafrelsi,  atvinnufrelsi... 

  Söngvar Petes Seegers voru það öflugir að þeir fundu sér farveg í flutningi annarra (sem voru ekki á svarta listanum).  1962 náði Kingston Tríó 1. sæti bandaríska vinsældalistans með lagi Petes Seegers,  Where Have All The Flowers Gone?

  

  Þetta er einn af þeim skaðlegu söngvum sem setja spurningarmerki við tilgangsleysi hernaðar - þegar upp er staðið.  Lagið naut vinsælda hérlendis með íslenskum textum í flutningi Ragnars Bjarnasonar,  Ellýjar Vilhjálms og Savanna Tríós.  Á íslensku heitir það ýmist  Hvert er farið blómið blátt?  eða  Veistu um blóm sem voru hér?  

  Marlene Dietrich söng sama lag inn á plötu sama ár.  Það varð vinsælt í hennar flutningi bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.  

  1962 negldi tríóið Peter, Paul & Mary sönglag Petes Seegers,  If I Had a Hammer,  í 1. sæti víða um heim.  

  Ári síðar endurtók Trini Lopez leikinn með sama lag:

  1965 sendi fyrsta bandaríska bítlahljómsveitin,  The Byrds,  frá sér smáskífulag eftir Pete Seeger,  Turn, Turn,  Turn. Það flaug í 1. sætið.  Og var fylgt eftir með öðru sönglagi eftir Pete Seeger,  The Bells of Rhymney.    

 

  Pete Seeger spilaði stóra rullu í mannréttindabaráttu Marteins Luther Kings og annarra blökkumanna á sjöunda áratugnum.  Sönglag hans (byggt á eldra sönglagi) varð baráttusöngur í mannréttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjanna,  We Shall Overcome.  

  Víkur þá sögu að systur Petes,  söngkonunni Peggy.  Hennar kall var skoskur söngvahöfundur,  Ewan McCall.  Um hana samdi Ewan sönglag sem Elvis Presley,  George Michael og fleiri hafa sungið inn á plötu.  Roberta Flack fór með það í 1. sæti vinsældalista víða um heim.

  Ewan McCall kynnti Bretum og Evrópu fyrir blús (sem náði hámarki með The Rolling Stones).  Það er önnur saga.  Hans frægasta lag er Dirty Old Town.  Það hefur komið út á íslenskum plötum með Pöpunum og PKK.

  Dóttir Ewans,  Kirsty McCall,  söng þekktasta lag The Pouges:  

  Svo sigldi blindfullur auðmaður á snekkju yfir Kirsty útifyrir Mexicó og drap hana.  Það var refsilaust.  Morðinginn var fínn kall með góð sambönd.  

  Kirsty kippti í kynið.  Var góður lagahöfundur.  Hennar frægasta lag var sungið af bresku leikkonunni Tracey Ullman.

  Kirsty sjálf náði hæstum hæðum á vinsældalistum með lagi eftir breska vísnapönkarann Billy Bragg,  A New England.  

  Billy Bragg tilheyrir yngstu kynslóð lærisveina Petes Seegers.  Billy náði 1. sæti breska vinsældalistans með lagi eftir Bítlana,  She´s Leaving Home.   

  Hér syngur Billy Bragg lag Seegers,  If I Had a Hammer.  Myndbandið er skreytt ljósmyndum af Pete.


Lulla frænka á jólunum

  Jól og áramót voru Lullu frænku oft erfið andlega.  Stundum fór hún svo langt niður á milli jóla og nýárs að hún var vistuð inni á Klepp eða geðdeild Borgarspítalans.  Læknar sögðu hana upplifa einsemd sterkar á þessum árstíma en oftast annars.  Jólin eru svo mikil barna- og fjölskylduhátíð.  Engu að síður voru ættingjar og vinir Lullu duglegir að senda henni jólakort, jólagjafir og hringja í hana.  Henni var líka boðið í jólakaffi og jólamat.  Hún fékk einnig heimsóknir.  

  Ég veit ekki hvort eða hvernig það spilaði saman við annað að Lulla var mjög óánægð með nánast allar jólagjafir sem henni bárust.  Það átti hún sameiginlegt með föður sínum,  afa mínum.  

  Þegar ég heimsótti hana um jól þá sýndi hún mér jólagjafirnar með útskýringum:

  "Foreldrar þínir gáfu mér þennan náttlampa.  Ég skil ekki hvernig þeim datt það í hug.  Ég er ekki með neitt náttborð.  Ég les aldrei uppi í rúmi.  Ég get hvergi haft lampann nema á eldhúsborðinu.  Þar er hægt að stinga honum í samband.  En það hefur enginn náttlampa á eldhúsborðinu.  Ég verð að athlægi.  Náttlampinn er bara til vandræða.  Ekkert nema vandræða."

  Og:  "Frænka þín gaf mér þessa bók.  Ég er ekki með neina bókahillu.  Ég hef enga aðstöðu fyrir bækur.  Alveg dæmalaust að einhverjum detti í hug að gefa mér bók."

  Ég:  "Það eru allir að tala um að þessi bók sé mjög skemmtileg."

  Lulla:  "Já,  það má hafa gaman af henni.  Ég hef gluggað í hana.  En ég er í algjörum vandræðum með að leggja hana frá mér.  Eini staðurinn sem ég get lagt hana frá mér er svefnherbergisgólfið.  Það geymir enginn bækur á gólfinu.  Bókin er alveg fyrir mér á gólfinu þegar ég skúra."

  Fljótlega eftir að ég flutti til Reykjavíkur reyndi ég að gleðja Lullu frænku með jólagjöfum.  Mér tekst ekki að rifja upp hvað varð fyrir valinu.  Aftur á móti man ég að Lulla setti út á valið.  Ég kippti mér ekkert upp við það.  Þekkti viðbrögðin,  bæði hjá henni og afa.  Þau áttu það jafnframt sameiginlegt að taka sumar gjafirnar síðar í sátt.  Og jafnvel verða ánægð með þær.  

  Í tilfelli afa voru upprunalegu óánægjuviðbrögð hans útskýrð af foreldrum mínum sem spennufall.  Hann hlakkaði alltaf svo rosalega mikið til jólanna að þegar hann pakksaddur eftir aðfangakvöldsveisluna fór að taka upp pakka þá réði taugakerfið ekki lengur við spennuna.  Hann hafði allt á hornum sér gegn öllum jólapökkum sem hann fékk.  Ég tel að foreldrar mínir hafi haft rétt fyrir sér með spennufallið.

  Ég veit ekki hvort að sama skýring nær yfir viðbrögð Lullu.  Ég varð ekki var við sama spenning hjá henni fyrir jólunum og hjá afa.  Kannski er það ekkert að marka.  Lulla var á allskonar lyfjum og synti áfram í rólegheitum í vímu þeirra meðala sem hún tók inn.  

  Þegar ég kvæntist áttaði konan sig fljótlega á því hvaða jólagjöf gæti glatt Lullu.  Konan vann í sjoppu.  Hún smalaði saman í stóran pakka þverskurð af sælgætinu í sjoppunni.  Þetta hitti í mark.  Lulla hringdi í mig á jóladag og lék við hvurn sinn fingur.  Hún skammtaði sér hóflegan skammt fyrir hvern dag.  Naut hvers bita og náði að láta nammið endast yfir marga daga.  

  Á annan í jólum hringdi Lulla aftur í mig.  Hún hafði fundið súkkulaðistykkjum á borð við Bounti og Snickers nýtt hlutverk.  Hún skáskar stykkin þannig að hver sneið leit út eins og tertusneið:  Þykk í annan endann og örþunn í hinn endann.  Lulla sagði:

  "Ég raða sneiðunum á lítinn disk.  Örfáum í einu.  Fjórum sneiðum eða fimm.  Svo geymi ég diskinn inni í ísskáp.  Í kaffitíma helli ég mér í kaffibolla og næ í diskinn.  Þá þykist ég vera með alvöru tertusneiðar.  Fæ mér bita af þeim með litlum gaffli.  Litla bita.  Þetta er svo gaman.  Sneiðarnar líta út alveg eins og alvöru tertusneiðar með kremi og öllu."  

------------------------------------

Meira af Lullu frænku:   http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1335376/


Rokkstjörnur sem vilja ekki orður og upphefðartitla

  Fyrir nokkrum mánuðum bloggaði ég um nokkrar rokkstjörnur sem hafnað hafa viðtöku á orðum,  upphefðartitlum og öðru slíku pjatti og prjáli.  Um það má lesa með því að smella á þennan hlekk:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1319151/

   Rokkstjörnur með þessa afstöðu eru ekki týpurnar sem gala um þetta á torgum.  Fyrir bragðið ratar það ekki í fréttir þegar rokkstjarna hafnar glingri heldur spyrst út hægt og bítandi.  Kannski aldrei í einhverjum tilfellum.

  Það er leki víðar en hjá Hönnu Birnu.  Nú hefur lekið út að bítlinum George Harrison stóð til boða árið 2000 að vera heiðraður með OBE orðunni úr hendi Bretadrottningar.  Harrison hafnaði móttöku á glingrinu. 

  Blaðamaðurinn Ray Connolly þekkti George Harrison vel alveg síðan á sjöunda áratugnum.  Uppljóstrunin kemur Ray ekki á óvart.  Það hefði ekki verið líkt Harrison,  þá 56 ára,  að veita orðu viðtöku.  Honum þótti allt svoleiðis vera ómerkilegt snobb. 

  1965 fengu George Harrison og Bítlarnir MBE orðu úr hendi Bretadrottningar.  Það vakti gríðarmikla athygli.  Á þeim tímapunkti voru hinir ungu Bítlar upp með sér af heiðrinum.  Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.  Bítillinn John Lennon skilaði sinni orðu með hávaða og látum 1970.  Það var í stíl við persónuleika Lennons.  Það var ekki í anda George að skila sinni MBE orðu.  En hann gerði ekkert með hana.  Það leikur grunur um að hann hafi einfaldlega hent orðunni í ruslið.  Að minnsta kosti urðu engir varir við hana.

  Ray bendir á að það hafi verið ósmekklegt að bjóða Harrison OBE þremur árum eftir að bítillinn Paul McCartney var aðlaður með Sir-titlinum.  Það er skilgreint meiri upphefð að fá Sir-titil en OBE orðu.  Engu að síður hefði það verið ólíkt Harrison að þiggja Sir-titil. 

  Einkasonur Harrisons,  Dhani tengdasonur Íslands,  og ekkja Harrisons,  Olivia,  neita að tjá sig um þetta mál.  Fyrst að George tjáði sig aldrei opinberlega um þetta sjá þau ekki ástæðu til að gera það heldur.

  Hér flytur Harrison lag sem fleiri en hann hafa síðar skráð sig höfund fyrir,  "Eyjan mín.  Eyjan mín fagra græna":


Gamanmál eru ekkert grín

thorramatur_1226353.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

  Gamanmál á kostnað annarra eru vandmeðfarin.  Margt af því sem fórnarlömb upplifa sem einelti er af hálfu gerenda bara létt grín.  Í versta tilfelli saklaus stríðni. Þetta á bæði við um einelti í skólum og á vinnustöðum.

  Það er misjafnt hvort eða hversu mikinn húmor einstaklingar hafa fyrir sjálfum sér.  Sumir kunna vel við að vera miðpunktur athygli,  hvort sem það er í formi gríns sem aðrir gera um þá eða þeir sjálfir.  Aðrir eru viðkvæmir fyrir athygli í formi gríns um þá.  Einkum ef þeir upplifa grínið rætið og níðingslegt í sinn garð.  

  Fólk sem allflestir standa í trú um að sé með harðan skráp getur verið viðkvæmt fyrir gríni um sig.  Kvótakóngurinn Halldór Ásgrímsson er dæmi um það.  Hann var formaður Framsóknarflokksins,  utanríkisráðherra og forsætisráðherra.  Almenningi þótti eðlilegt að störf manns í þeirri stöðu væru skoðuð í spaugilegu ljósi.  En ekki honum.  Hann upplifði grín Spaugstofunnar sem gróft einelti í sinn garð.  Honum var ekki skemmt.  Það situr ennþá í honum.  

  Það er ekki auðvelt að átta sig á því hver er með harðan skráp og hver er viðkvæm sál.  Kjaftforir,  yfirlýsingaglaðir og árásagjarnir einstaklingar eru í mörgum tilfellum afar viðkvæmir þegar deilt er á þá,  hvort sem er í gríni eða alvöru.  Dæmi eru um að þeir kvarti sáran undan ofsóknum og einelti í sinn garð í "kommentakerfum" netmiðla.  Á Fésbók gerist það oft að slíkir einstaklingar slíti vinskap við aðra sem svara þeim með þeirra eigin orðfæri.  

  Á Freyjudaginn gengur Þorri í garð með tilheyrandi þorrablótum og þorrablótsannálum.  Aðgát skal höfð í nærveru sálar.  Jafnvel oftar en einu sinni.  Gott grín á að vera þannig að allir hafi gaman af.   

loka_31_og_32_juli.jpg         


mbl.is Ósáttur við þorraannál og flytur úr bænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nafnið skiptir meira máli en þú heldur

  Þegar foreldrar velja barni sínu nafn er um stóra ákvörðun að ræða.  Flestir velja nafn út frá því hversu vel það hljómar.  Ekki síst hvernig það hljómar með eftirnafni (hvort sem um er að ræða ættarnafn eða barn kennt við föður eða móður).  Margir velja nafn til heiðurs nánum ættingja eða vini.  Enn aðrir velja nafn út frá merkingu nafnsins.  Í sumum tilfellum er þessu öllu blandað saman og barnið fær tvö nöfn. 

  Strax í grunnskóla kemur í ljós vægi nafnsins.  Sum nöfn bjóða upp á niðrandi uppnefni.  Önnur bjóða upp á upphefjandi gælunafn.

  Þegar einstaklingurinn eldist,  þekking hans og jafnaldra á sögunni eykst,  skiptir nafnið ennþá meira máli.  Merking nafnsins hefur mikið að segja.  Líka hvort að það sé samhljóða nafni afreksfólks.  Nafnið hefur áhrif á sjálfsímynd ekki síður en hvernig það hljómar í eyrum annarra við fyrstu kynni.  Það þarf sterk bein til að bera nafn á borð við Ljótur Karl, Selja Rán eða Lofthæna (engir heita þeim nöfnum í dag). Líka Hreinn Sveinn og Erlendur Sveinn Hermannsson (sonur óþekkts bresks eða bandarísks hermanns).  

  Nokkrar íslenskar konur heita Björk Guðmundsdóttir.  Nafnið hefur mjög öfluga viðskiptavild.  Ég held að engin heiti Vigdís Finnbogadóttir.  Líkast til vegna þess að nafnið Finnbogi er ekki algengt.

  Nöfnin Jón Sigurðsson,  Egill Skallagrímsson,  Ingólfur Arnarson og Grettir Ásmundarson eru gildishlaðin í sögulegu samhengi.

  Í breska háskólanum í Cambridge voru 223.000 nöfn skráð í gagnagrunn og raðað upp eftir stöðu viðkomandi í samfélaginu út frá starfi.  Niðurstaðan var afgerandi.  Þeir sem bera "voldug" nöfn á borð við King, Prince og Lord tróna ofarlega í samfélaginu.  Þeir sem bera nöfn eins og Farmer (bóndi),  baker (bakari) og Cook (kokkur) komast ekki langt.  

  Í meira en hálfa öld hefur skemmtiiðnaðurinn verið meðvitaður um hlutverk nafns.  Elton John hefði aldrei náð frama með sínu raunverulega nafni,  Reginald Kenneth Dwight. 

  David Bowie heitir því auðmelta nafni David Jones.  Svo illa vildi til að þegar hann var að hasla sér völl þá var breskur samlandi hans og alnafni að syngja með ómerkilegri bandarískri bítlahljómsveit,  The Monkees.  Bowie varð að greina sig frá kvikindinu.      

  George Michael hefði ekki átt mikla möguleika undir sínu rétta nafni,   Georgios Kyriacos Panayitou. 

    


Forsætisráðherra tekur upp merki fyrrverandi borgarstjóra

 Ólafur F. Magnússonsigmundur davíð gunnlaugsson

   Ég er fæddur og uppalinn í Skagafirði.  Þrátt fyrir búsetu í Reykjavík skilgreini ég mig alltaf sem Skagfirðing.  Sem slíkur fylgist ég grannt með öllu sem gerist í Skagafirðinum.  Þar eru æskuvinirnir,  ættargarðurinn að stórum hluta,  gömlu nágrannarnir,  gömlu skólasystkinin,  sundfélagarnir og sveitin mín.  Feykir er héraðsfréttablaðið mitt og á heimasíðunni www.skagafjordur.is fylgist ég með fundum,  fundargerðum og ýmsu öðru sem vindur fram í Skagafirði.

  Í fundargerð frá fundi Byggðarráðs Skagafjarðar í dag rakst ég á þessa skemmtilegu bókun:

"Endurgerð gamalla húsa á Sauðárkróki

Lagt fram til kynningar bréf frá forsætisráðuneytinu dagsett 27. desember 2013, þar sem tilkynnt er um að ákveðið hafi verið að veita styrk að upphæð 10 milljónir króna til viðgerðar á Góðtemplarahúsinu (Gúttó) á Sauðárkróki. Skal styrkurinn nýttur til að skipta um glugga og klæðningu að utanverðu.
Byggðarráð fagnar styrkveitingunni sem veitt er í endurbætur á þessu sögufræga húsi.

Sigurjón Þórðarson fulltrúi Frjálslyndra og óháðra leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er gleðilegt að sjá að forsætisráðherra hafi tekið upp merki fyrrverandi borgarstjóra Ólafs F. Magnússonar með því að standa vörð um og hvetja til endurbóta á gömlum húsum sem hafa menningarsögulegt gildi."
  Árlega er haldin glæsileg tónlistarhátíð á Sauðárkróki,  Gæran.  Þar koma fram allt frá stórstjörnum í Reykjavík og Færeyjum (Eivör) til heimamanna.  Þeirra á meðal Gísli Þór sem einnig kallar sig Gillon.
  Það er ekki bara gaman að fylgjast með því sem fram fer í Skagafirði.  Það er líka gaman að fylgjast með því sem gerist um land allt.  Á þeim extra fallega kaupstað Ísafirði er sjoppa sem heitir Hamraborg.  Þegar nammið er að klárast þar er sent sms til umboðsmanns Nóa Síríusar á Vestfjörðum.  Hann kemur þá að vörmu spori og fyllir á.  Í vikunni urðu þau mistök að sms-ið var sent á rangt númer.  Það uppgötvaðist þegar svar barst:
sms - hamraborg ísafirði

Þú prentar út mat í þrívídd - alvöru mat sem þú snæðir. Á markað á þessu ári!

hamburger-and-french-fries_1225884.jpg

  Hungrið sækir að.  Þú átt ekkert í ísskápnum.  Vonsku veður úti og þú nennir ekki í búð.  Þú sest við tölvuna og prentar í þrívídd út máltíð.  Það þarf aðeins að hita hana í örstutta stund í örbylgjuofni.  Þá er hún tilbúin og þú getur byrjað að snæða.

  Þetta er ekki fjarlægur framtíðardraumur.  Þessi prentari kemur á almennan markað núna í vor.  

  Þegar ég var í Barselona yfir jól og áramót var mikið um þetta rætt.  Það er spænskt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Barselona sem stendur fyrir þessari skemmtilegu nýjung (að ég held í samvinnu við tölvufyrirtæki í fleiri löndum).  Ég sá fréttir af þessu.  Að vísu kann ég ekki spænsku.  En ég sá myndir af ferlinu.  

  Við vitum að nú þegar eru fullkomlega nothæf skotvopn prentuð út í þrívídd.  Einnig varahlutir í bíla og fleiri tæki.    

 Síðasta byltingarkennda nýjung í eldhúsi er örbylgjuofn.  Hátt í þrír áratugir eru síðan hann kom á almennan markað.  Þrívíddarprentarinn er stærri bylting.  Það þarf ekki að draga fram allskonar potta og pönnur,  skera niður lauk,  hræra í sósum,  hveiti og allskonar út um allt.  Núna sest þú fyrir framan tölvuna og velur máltíð.  Smellir á myndina og þrívíddarprentarinn hefst handa.

  Þetta býður upp á fleiri möguleika.  Ef börn fúlsa við spínati eða öðru hollu grænmeti er minnsta mál í heimi að breyta lögun þess.  Láta það líta út eins og blóm eða flugvél eða annað spennandi.  

  Hvernig virkar þetta?  Prentarinn er á stærð við nettan örbylgjuofn.  Í stað blekhylkja í litaprentara eru tiltekin hráefni og krydd í hylkjum prentarans.  Prentarinn byrjar á því að prenta örþunna flögu.  Síðan hleður hann hverri örþunnu flögunni ofan á aðra til samræmis við myndina af matnum á skjánum.  

  Fyrsta kynslóð af prentaranum ræður ekki við hvaða mat sem er.  Hann getur prentað franskar kartöflur og kartöflumús en ekki venjulegar kartöflur.  Hann prentar hamborgara,  pizzur,  lasagna og eitthvað svoleiðis.  Hann prentar allskonar kökur.  Alveg frá súkkulaðibitakökum til ostatertna.   

  Matarprentarinn kostar um 150 þúsund ísl. kr.  Líklegast er að veitingastaðir prentaravæðist á undan heimilum.  Handan við hornið - strax í vor - eru veitingastaðir sem afgreiða einungis prentaðan mat.          


Flottur útvarpsþáttur

virkir_morgnar.jpg

   Virkir morgnar  á Rás 2 eru með allra skemmtilegustu þáttum í sögu útvarps á Íslandi.  Þau Andri Freyr Viðarsson og Gunna Dís Emilsdóttir fara á kostum. 

  Ég hef fylgst með Andra Frey í útvarpi alveg síðan hann byrjaði með rokkþáttinn  Karate  á X-inu fyrir mörgum árum.  Þessu næst fór hann á svakalegt flug í þættinum  Freysa  á sömu útvarpsstöð.   Sá þáttur var ein samfelld rosaleg flugeldasýning.  Engum var vægt og allt látið flakka.  Það kostaði sitt.  Lögfræðingar fengu hellings vinnu við að útbúa kærur á hendur Andra Frey og / eða hóta honum kærum.  Líka handrukkarar.  Grallaragangurinn á Andra Frey kostaði hann peninga.  Og jafnvel vini.  Á þessum tíma var hann gítarleikari í Botnleðju og lék aðra í bransanum grátt með "grófu" slúðri.

  Þegar hlustað var á þáttinn  Freysa  hvarflaði ekki að neinum að Andri Freyr væri framtíðarstjarna RÚV,  sjónvarps og Rásar 2.  En það var augljóst að maðurinn var stjarna:  Hugmyndaflugið óendanleg uppspretta spaugilegs gassagangs,  hnyttin tilsvör,  fyndið kæruleysi en jafnframt metnaður.  

  Stjórnendur og yfirmenn X-ins voru lengst af ótrúlega djarfir og umburðarlyndir gagnvart þættinum  Freysa.  Ég man ekki hvers vegna þátturinn var tekinn af dagskrá.  Hvort að kærumál og skaðabætur voru farnar að íþyngja. 

  Allt í einu var Andri Freyr - ásamt Dodda litla - kominn með snilldar föstudagsþátt á Rás 2,  Litlu hafmeyjuna.  Þá var Andri Freyr  plötusnúður í Danmörku.  Gott ef ekki á skemmtistað Dóru Takefúsa og víðar.  

  Staðsettur á Íslandi hélt Doddi litli utan um þáttinn.  Andri Freyr var meira með innslög og eitthvað svoleiðis.  Viðtöl við danskar poppstjörnur og þess háttar.  Það kom afskaplega vel út að Andri Freyr hefði einhvern við hlið sér sem veitti aðhald og héldi honum nær jörðinni.

  Gunna Dís,  sem er með Andra Frey í  Virkum morgnum,  er glæsileg í því hlutverki.  Móðir mín á níræðisaldri gætir þess vandlega að missa aldrei af  Virkum morgnum.  Henni þykir þau tvö rosalega skemmtileg.  Og skemmtilegast þykir henni þegar Gunna Dís veitir drengnum aðhald / tiltal.

  Þau eru frábær saman.  Ég er sammála mömmu með það.  Og reyndar fleira sem er þessu óviðkomandi.           

  Andri Freyr er sömuleiðis meiriháttar skemmtilegur sjónvarpsmaður.  Þættirnir um  Andra á flandri  eru afskaplega vel heppnaðir.  Þar vinnur hann að hluta með skrifaðan texta (sem hann skrifar sjálfur) og þættirnir eru unnir fram og til baka.  Í sumar verður Andri á flandri í Færeyjum.  Ég hlakka mikið til að sjá þá.   

  Hér er Andri Freyr með hljómsveitinni stórkostlegu Bisund:

  Og hér með Botnleðju - líka meiriháttar:


mbl.is „Af hverju skiptiru þá ekki um stöð?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tapas á Spáni og Íslandi

  Þetta er framhald á bloggfærslunni frá í gær. 

 barselonatapas.jpg

 

  Eitt af því sem gerir utanlandsferðir skemmtilegar er að kynnast framandi matarmenningu.  Að vísu er það ekki alveg jafn spennandi eftir að hérlendis spruttu upp kínverskir veitingastaðir,  tælenskir,  víetnamskir,  ítalskir,  tyrkneskir,  bandarískir...  Samt.  Í útlandi má alltaf finna eitthvað nýtt og framandi að narta í.

  Í Barselona er af nógu að taka í þeim efnum.  Þar á meðal eru það smáréttir sem kallast tapas.  Upphaflega var tapas brauðsneið eða parmaskinkusneið lögð ofan á vínglas á milli sopa.  Hlutverk tapas var að koma í veg fyrir að fluga kæmist í vínið.  Enginn vill eiga það á samviskunni að fluga verði ölvuð og rati ekki heim til sín.

  Þegar annað vínglas var pantað lét barþjónninn nýja skinkusneið eða brauðsneið fylgja því.  Eða þá að á barnum lá frammi brauð og skinka.  Gestir máttu fá sér eins og þeir vildu.  Bæði til að hylja vínglasið og einnig til að maula sem snarl.  Brauðið og skinkan eru sölt og skerpa á vínþorsta viðskiptavina.  Það varð góður bisness að halda snarlinu að gestum.  Þróunin varð sú að bæta söltu áleggi eða salati ofan á brauðbitana.  Það er enginn endir á nýjum útfærslum af tapas.  Í dag eru barir og krár á Spáni undirlagðar tapas.  Viðskiptavinurinn getur valið úr mörgum tugum smárétta.

  Nafnið tapas vísar til upprunans;  sem tappi eða lok.  Spænska orðið tapa þýðir hylja.  Mér skilst að víðast á Spáni sé tapas ókeypis snarl með víninu.  Í Barselona er hver smáréttur seldur á 200 - 300 ísl. kr.  Það er líka hægt að fá bitastæðari smárétti á hærra verði.  Spánverjar skilgreina tapas alfarið sem snarl á milli mála.  Þeir líta ekki á tapas sem máltíð.  Það geri ég hinsvegar.  Það er góð og fjölbreytt máltíð að fá sér 3 - 4 smárétti með bjórnum.  Á sumum börum er hægt að kaupa á tilboðsverði 6 - 7 valda smárétti saman á 1000 - 1200 ísl. kr.  Þá er blandað saman dýrum og ódýrum réttum.  Þetta er of stór skammtur fyrir máltíð.  En ágætur pakki fyrir þá sem sitja lengi að drykkju.  

barselona_tapas.jpg    Verðlag á veitingum á Spáni er nokkuð áþekkt verðlagi á Íslandi.  Ef íslensku bankaræningjarnir hefðu ekki slátrað íslensku krónunni 2008 værum við í dag að tala um verðlag á Spáni helmingi lægra en á Íslandi. 

barcelona_tapas-food.jpgbarcelona_tapas-place.jpg  Það er önnur saga.  Hérlendis eru veitingastaðir sem kenna sig við tapas.  Það skrítna er að þeir eru rándýrir.  Einn réttur kannski á 2000 - 3000 kall.  Nokkrir smáréttir saman á 7000 kall eða eitthvað.  

  Ég gagnrýni þetta ekki.  Þvert á móti dáist ég að þessum stöðum fyrir að komast upp með svona háa verðlagningu.  Þetta er bisness eins og margt annað.  Það er ekkert nema gaman að til sé hellingur af fólki sem hefur efni á að halda íslenskum tapas-stöðum á floti.  

 

  Meira á morgun. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband