Færsluflokkur: Lífstíll

Lulla frænka var skyggn

  Lulla föðursystir mín sá eitt og annað sem aðrir sáu ekki.  Í afmælisveislu heima hjá frænku minni í móðurætt,  sátu gestir og heimilisfólk í góðu yfirlæti í rúmgóðri stofu.  Skyndilega fékk Lulla hláturskast.  Hún hló og hló og kom ekki upp orði vegna hláturs.  Hún sleppti ekki augum af einum kvengestinum.  Allir horfðu í forundran á Lullu. 
  Þegar Lulla mátti loks mæla seint og síðar meir stundi hún upp:  "Sáuð þið ekki Spánverjann?"
  - Nei,  hvaða Spánverja?  
  - Spánverjann sem sat á öxlinni á Hrönn.
  - Ha?  Sat Spánverji á öxlinni á Hrönn.
  - Já,  pínulítill og sprenghlægilegur Spánverji.  Ekki nema 20 cm á hæð. 
  - Af hverju Spánverji?
  - Ég þekki alltaf Spánverja þegar ég sé þá.
 
  Í annað skipti var Lulla að keyra frá Laugarvatni.  Á þeim tíma var malarvegurinn einbreiður.  Þegar bílar mættust þurftu báðir að hægja á ferð og beygja varlega eins langt út í kant og mögulegt var.  Þegar hleypa þurfti frammúr var einnig ekið varlega út í kant og jafnvel staðnæmst til að auðvelda frammúraksturinn.
  Við þessar aðstæður ók Lulla í rólegheitum.  Hún ók reyndar alltaf mjög hægt.  Það var nótt og fáir bílar á ferli.  Rútubíll ók Lullu uppi.  Bílstjóranum virtist liggja á.  Hann blikkaði stöðugt framljósum og lagðist á flautuna.  "Lét eins og fáviti,"  sagði Lulla.  Hún lét sér hvergi bregða.  Hún ók á óbreyttum hraða á miðjum vegi.  
  Eftir langan spotta tókst rútubílstjóranum á gatnamótum að troðast fram fyrir Lullu.  Þar stöðvaði hann rútuna,  hljóp út á veg,  reif upp hurðina hjá Lullu og gargaði hamslaus af frekju:  "Hvur djöfullinn gengur að þér?  Hvað á það að þýða að blokkera veginn og hleypa mér ekki frammúr?"
  Lulla svaraði:  "Það kemur ekki til greina að ég glanni út í kant með fullan bíl af gömlu fólki."
  Þegar Lulla sagði frá þessu fylgdi með að það hefði verið eins og rútubílstjóranum væri gefið á kjaftinn.  Hann steinþagnaði og starði manndrápsaugum á Lullu í dálitla stund.  "Ég hélt að hann ætlaði að ráðast á mig.  Hann var sturlaður og hættulegur," sagði Lulla.  Síðan hljóp hann til baka upp í rútuna sína og ók á ólöglegum hraða í burtu.
  Lulla taldi upp gamla fólkið sem var í bílnum hjá henni.  Það hafði allt fallið frá áratugum áður.  Lulla sagði við mig:  "Kristján afi þinn sat fyrir miðju í aftursætinu og spilaði á takkaharmónikku.  Þetta var svo gaman.  Ég söng með og söng alveg eins og ítölsk óperusöngkona."    
 
-----------------------
   
  Fleiri sögur af Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1353811/
 


mbl.is Aldrei sátt við að vera skyggn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarlegar rangfærslur

  Í fjölmiðlum í dag mátti heyra ýmsa góða manneskjuna kenna Dag elskenda,  Valentínusardaginn,  við Bandaríki Norður-Ameríku.  Sumir fussuðu yfir því að Íslendingar séu að apa eftir bandarískum ósiðum.  Aðrir létu þess getið að Dagur elskenda sé eldri en Bandaríkin.  Dagurinn eigi sögu aftur til 14 aldar í Evrópu.  

  Þar er sennilega vísað til Wikipedíu sem í þessu tilfelli segir aðeins hálfa sögu.

  Hið rétta er að þetta var heiðinn hátíðisdagur til forna.  Hann var kenndur við ástarguðinn Lupercus.  Kirkjan hafði horn í síðu hans.  Þegar fullreynt þótti að þessum heiðna hátíðisdegi yrði ekki útrýmt tókst kirkjunni að finna píslarvott,  Valentinus,  sem átti fæðingardag nánast á Degi elskenda.  Það munaði aðeins einum degi.  Málið var leyst með því að kirkjan uppnefndi heiðna hátíðisdaginn Valentínusardag.  Heiðingjar tóku því fagnandi.  Það var ekkert nema hið besta mál að þessi hátíðisdagur væri tekinn í sátt af kirkjunni.   

  Heimildir eru til um heiðna hátíðisdaginn frá því 4 öldum fyrir okkar tímatal.  

  Þetta er einfalda sagan af Degi elskenda.  Það er til flóknari útgáfa.  


Hýrnar yfir Hafnarfirði

  Það er allt að snúast á sveif með Hafnarfirði þessa dagana.  Margt telur og hjálpast að.  Kærleikur, friður og tónlist eru að taka við af andstæðu sinni.  Mestu munar um að stofnað hefur verið Menningar- og listafélag Hafnarfjarðar (MLH).  Þar fara fremst í flokki einstaklingar sem eru þekktir af því að láta verkin tala og hugsa stórt.  Til að mynda sjálfur Kiddi kanína,  einnig kenndur við Hljómalind;  Óli Palli Rokklandskóngur,  Erla söngkona Dúkkulísa og ég er ekki alveg nógu vel að mér um aðra í stjórn félagsins.  Enda er ég ekki Hafnfirðingur.

  Næsta sunnudag stendur MLH fyrir hljómleikum í Bæjarbíói í Hafnarfirði.  Það er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur.  Öðru nær.  Það er sjálf færeyska álfadísin,  Eivör,  sem heldur tvenna hljómleika ásamt hljómsveit sinni.  Fyrri hljómleikarnir eru klukkan 16.00.  Þeir seinni klukkan 20.00.  Hafnfirska hljómsveitin Ylfa hitar upp.

  Eins ágætar og plötur Eivarar eru þá eru hljómleikar hennar margfalt sterkari upplifun.  Hún hefur rosalega sterkan sviðsþokka.  Margir hafa lýst því þannig að það sé eins og hún dáleiði salinn og leiði hann inn í töfraheima.  Fegurð tónlistarinnar umvefur dolfallinn áheyrandann sem situr í sæluvímu.  

  Miðasala er á www.mlh.is  

gata_austurey_eivor_1228395.jpg


mbl.is Vítisenglar yfirgefa Hafnarfjörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skapofsabullur

gu_jonthor_ar.jpgthjalfarig.jpgthjalfarif.jpgthjalfarie.jpg

  Skapofsaköst einkenna boltabullur allra landa.  Þar virðist - stundum - oft - fara saman heimska og yfirgengilegur ákafi um boltaleik.  Eins og boltaleikir eru lítilfjörlegt gaman.  Ég fylgist svo sem ekkert með því sprikli.  Enda boltaleikir í raun fyrst og fremst ungs barns gaman.  Held ég.  Og ekki góðs vitni að einhverjir taki þetta sprikl galgopa hátíðlegt eins og eitthvað sem skiptir einhvern máli.  Myndir af þjálfurum boltaliða eiga það sameiginlegt að þeir eru reiðir á svip og öskrandi.  Það er vont fyrir blóðþrýstinginn.

thjalfarid.jpggu_jonthor_aro1.jpgthjalfaria.jpg   

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

---------------------------------------------------

  Fyrir nokkrum dögum birti ég myndir sem gestir í Soltsjí hafa verið að birta á netinu.  Flestar myndirnir voru af salernisaðstöðu.  Þarna er klósettum raðað hlið við hlið í opnu rými án skilrúma.  Þetta má sjá með því að smella á þennan hlekk: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1353491/'

  Rússarnir brugðust snöfurlega við gagnrýninni og hafa sett skilrúm úr pappa á milli flestra klósetta.

Sotsjí - Rússarnir byrjaðir að stúka klósettin af 


mbl.is „Hef aldrei séð hann svona reiðan“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástæðan fyrir því að fólk verslar eins og fífl

  Allir þekkja einhverja sem hafa fengið svokallað kaupæði.  Rólegheitamanneskja kíkir á útsölu,  ætlar ekki að kaupa neitt,  er bara að forvitnast,  en kemur heim hlaðin vörum sem hún hefur ekkert með að gera og kann enga skýringu á því hvað kom yfir hana.  Af hverju hún missti stjórn á sér.  Af hverju hún keypti hluti sem hana vantaði ekki.  Af hverju hún keypti hluti á hærra verði en hún er sátt við.

  Þetta hefur verið rannsakað á vísindalegan hátt í Háskólanum í Bangor í Wales.  Við tilteknar aðstæður,  til að mynda þegar útsala hefst,  þá myndast æsileg stemmning.  Það hleypur æði á viðskiptavini.  Stemmningin rafmagnast og magnast upp.  Eftir 23 mínútur í þessu spennuþrungna andrúmslofti æsings og hamagangs slekkur heilinn á þeim hluta sem stjórnar rökhugsun.  Við það breytist manneskjan í uppvakning.  Hún verður fáviti sem hefur enga stjórn á sér.  Án allrar skynsemi fer hún á sjálfstýringu sem gengur út á að kaupa og hamstra.  Verðskyn hverfur eins og dögg fyrir sólu sem og allt annað sem hefur með skynsemi að gera.  Manneskjan er dómgreindarlaus og stjórnlaus.

  Hið sama er uppi á teningnum þegar um uppboð er að ræða.  Fyrir aldarfjórðungi tók ég þátt í skammtíma sölumarkaði í Húsgagnahöllinni uppi á Höfða.  Til að lífga upp á stemmninguna var boðið upp á dagskrá með tónlistaratriðum og fleiru.  Þar á meðal uppboði með vörum úr sölubásunum.  Þá brá svo við að geggjun rann á gesti og þeir buðu í og keyptu vörur á þrefalt og fjórfalt hærra verði en þær kostuðu í sölubásunum.  Eftir tvö eða þrjú uppboð gekk þetta svo fram af okkur að frekari uppboð voru blásin af.  Þetta sem átti að vera léttur og skemmtilegur leikur reyndist kappsömum kaupfíklum ofraun.

  Næst þegar þú ferð á útsölu taktu þá með einhvern sem tekur tímann.  Að 23 mín. liðnum þarf hann að stoppa þig af með góðu (miklu fremur en illu).  Á því augnabliki ert þú að missa vitið.  Sættu þig við það og láttu gott heita.         

---------------------------------------

Tvífarar:

tvifarar_1228246.jpg 


mbl.is Borgað fyrir að fá að borga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningar leysa vandamál og skapa önnur

          Allir hafa velt fyrir sér þeim möguleika að vinna álitlega upphæð í lottói eða öðru happdrætti.  Þess vegna kaupa flestir af og til lottómiða eða aðra happdrættismiða.  Upphæðir sem Íslendingar vinna á þennan hátt eru innan skynsamlegra marka.  14 - 20 milljónir kr.  Í mesta lagi 70 - 80 milljónir.  Þetta eru ekki upphæðir sem rugla neinn í ríminu.  En notaleg búbót sem kallar á að vinningshafinn geri sér dagamun. 

  Fyrir nokkrum árum las ég samantekt í bresku dagblaði yfir þá sem höfðu unnið hæstu upphæðir í þarlendu lottói.  Milljarða.  Það var dapurleg lesning um hjónaskilnaði,  málaferli,  fjölskylduerjur,  eiturlyfjaneyslu,  klessukeyrða sportbíla og önnur leiðindi. 

   Fyrir nokkrum dögum rakst ég á nýtt viðtal við einn af þessum "óheppnu" vinningshöfum.  Hann heitir Mark og vann 2,2 milljarða ísl. kr.  fyrir tveimur áratugum.  Hann segir vinninginn hafa laðað fram það versta í fari fólks;  gremju, öfund, græðgi, illgirni.  Ef hann fer á barinn er ætlast til þess að hann splæsi á alla.  Þegar hann gerir það er hann sakaður um að hreykja sér.  Ef hann gerir það ekki er hann kallaður nirfill.  

  Mark segir að vissulega geti peningar leyst tiltekin vandamál.  En þeim fylgi ótal önnur vandamál sem hann sá ekki fyrir.  Í dag umgengst hann nánast enga af þeim sem hann var í bestu sambandi við fyrir lottóvinninginn.  Þar á meðal hefur samband hans við dætur,  stjúpmóður og aðra ættingja rofnað vegna illinda.  Hann er fjórgiftur og kennir barnsmæðrum sínum um að hafa snúið dætrum hans gegn honum.

  Tilætlunarsemi og frekja var slík fyrst eftir vinninginn að ólíklegasta fólk bað hann um að kaupa handa sér bíla og hús.  Eða kaupa af þeim hús á uppsprengdu verði.  Hann gerði það í fjórum tilfellum og hlaut engar þakkir fyrir.  Þess í stað var hann sakaður um flottræfilshátt.  Fólkið sem hann taldi sig vera að gera greiða talar ekki við hann í dag.   

  Mark hefur staðið í svo mörgum málaferlum að hann grínast með að þægilegast yrði að fá fasta aðstöðu í einkaherbergi merktu sér í dómshúsinu.  Hann er kominn á sextugsaldur,  er ennþá vel settur fjárhagslega,  en þjáist af þunglyndi og sækir tíma hjá sálfræðingi til að komast í gegnum daginn.  

  Í greininni er sagt frá öðrum vinningshöfum,  tvennum hjónum sem bæði skildu í kjölfar vinningsins eftir langt og farsælt hjónaband.  Hér er Mark með fyrstu konu sinni á meðan allt lék í lyndi.                 

lottovinningshafi_1227932.jpg


mbl.is Klinkið varð að 14 milljónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Músíksmekkur

  Smekkur á músík ræðst af mörgum þáttum.  Einn af þeim er andlegur þroski einstaklingsins.  Annar er hormónaframleiðsla líkamans.  Kornabörnum þykir fátt skemmtilegra en klingjandi spiladósir sem endurtaka í sífellu sama stutta stefið.  Á þetta geta blessuð börnin hlustað á sér til ómældarar skemmtunar mánuðum saman.  Það er vanþróaður tónlistarsmekkur.

  Stálpaðri börn sækja í ofurlétt popplög með grípandi laglínu.  Þegar strákar nálgast kynþroskaaldur fara þeir sumir hverjir að hlusta á poppað þungarokk samfléttað teiknimyndafígúrum.  Hljómsveitin Kiss verður oft fyrir valinu.  Flestir strákar með eðlilegan þroska vaxa upp úr Kiss um fermingaraldur.  Testóstera-framleiðsla líkamans er á flugi um og upp úr fermingaraldrinum og strákar sækja í harðari og árásagjarnari rokkmúsík.  Eða kjaftfora rappmúsík.  

  Stelpur aftur á móti sitja uppi með flæðandi framleiðslu á östrógen-hormóni.  Þess vegna sækja þær í mjúka og tilfinningaríka (verndandi og móðurlega) músík og píkupopp.  Ekkert að því.  

  Þegar dregur úr framleiðslu testóstera hjá körlum með aldrinum mýkist músíksmekkur þeirra.  All svakalega svo um munar.  Sú er ástæðan fyrir því að elliheimilin munu aldrei einkennast af Pantera og Slayer á fullu blasti.  Svo hart og hávært rokk passar einfaldlega ekki við líkamsstarfsemi gamals fólks.

  Undantekningar sanna regluna.  Á sjöunda áratugnum fóru bresku Bítlarnir mikinn.  Lögðu undir sig heimsmarkaðinn í dægurlagamúsík.  Oft háværir og rokkaðir.  Svo leystist hljómsveitin upp í lok sjöundar áratugarins.  Þá héldu liðsmenn Bítlanna út í sólóferil.  Eins og venja er mýktist músík þeirra með tímanum og poppaðist óþægilega hratt.    

  Bassaleikari Bítlanna og söngvari,  Paul McCartney,  er kominn á áttræðisaldur.  Hann er ekki alveg samstíga jafnöldrum sínum.  Hann er af og til að leika sér með framsækna Killing Joke-liðanum Youth í dúettinum The Fireman.  Þeir hafa sent frá sér þrjár spennandi plötur.  Þar á meðal fór Paul á mikið blúsflug á síðustu plötunni:  

  Þetta hljómar ekki eins og maður á áttræðisaldri.  Né heldur þegar Paul er að blúsa með Nirvana.  Kallinn heldur röddinni.  Hann gefur ekki tommu eftir.  Hann blúsar eins og ofvirkur unglingur.   

  Þessi maður er sá sami og samdi og flutti með hljómsveit sinni,  Bítlunum,  blúsinn Helter Skelter fyrir næstum hálfri öld (1968).  Það var nýlunda á þeim tíma að lag hætti tvívegis.  Það var reyndar margt fleira sem Bítlarnir gerðu á skjön við hefð þess tíma.  Mjög margt.  Einnig þessi ákafi öskursöngstíll Pauls.

   


Stórkostlegar ljósmyndir af Íslandi

  Bandaríska lífstíls- og menningarnetsíðan Airows spannar allt frá listum og bílum til ferðalaga og margt þar á milli.  Í nýlegri færslu er ljósmyndasyrpa sem ber yfirskriftina "20 ótrúlegar ljósmyndir sem vekja þér löngun til að sækja Ísland heim".  Þó að ég sé búsettur á Íslandi þá blossaði upp í mér löngun til að sækja Ísland heim er ég leit þessar myndir augum.  Algjört dúndur. 

isl_11.pngisl_12.pngísl 13ísl 14ísl 15ísl 16ísl 17ísl 18ísl 19ísl 20  ísl 4ísl 3ísl 2ísl 6ísl 7ísl 8ísl 9ísl 10ísl 5ísl 1


Lulla frænka og jólin - 2. hluti

hangikjöt og uppstúf 

  Lulla frænka var góður kokkur.  Það var gaman þegar hún bauð í mat.  Þá var alvöru veisla.  Ein jólin bauð hún mér og minni frú,  svo og systir minni og hennar manni, í hangikjöt á annan í jólum.  Á miðju stofugólfi stóð reisulegt jólatré,  glæsilega skreytt í bak og fyrir.  Lulla hóf þegar að leggja á borð í stofunni.  Systir mín settist í stakan stól með háu baki.  Skömmu síðar steyptist hún út í kláða á bakinu og kvartaði undan því.  Lulla útskýrði það eins og ekkert væri sjálfsagðra:  

  "Það er út af englahárinu.  Ég slétti það út á stólbakinu áður en ég setti það á jólatréð.  Það er svo voðalega mikið af glerflísum í englahárinu.  Þess vegna glitrar það svona fallega á jólatrénu."

  Vissulega var rétt hjá Lullu að englahár var samsett úr bómull og glerflísum.  Þess vegna gætti fólk þess að láta englahárið ekki snerta neitt nema jólatré.  Ég held að englahár sé ekki lengur selt.  En kláðinn hélt áfram að angra systir mína þó að hún skipti þegar í stað um sæti.  Kláðinn eyðilagði dálítið fyrir henni kvöldi. 

  Lulla frænka var ekki nísk þegar hún bauð í mat.  Alls ekki.  En hún var barnslega opin og hreinskilin.  Þegar hún bar á borð fat með nýsoðnu hangikjöti kallaði hún til okkar:

  "Sjáið þessa örfáu hangikjötsbita.  Hvað haldið þið að þeir hafi kostað?  Ég veit að þið getið ekki giskað á það.  Þeir eru miklu dýrari en þið haldið.  Mér alveg krossbrá þegar ég sá verðið.  Það lá við að ég hætti við að kaupa þá.  Ég hefði hætt við það ef ég hefði ekki verið búin að bjóða ykkur í hangikjöt."

  Lulla frænka upplýsti okkur um verðið á hangikjötsbitunum.  Það var hátt.  Þetta var 1977.  Ég man ekki upphæðina.  Við gestirnir fengum nett samviskubit yfir að að setjast við veisluborðið upplýst um þessi útgjöld fátæks öryrkja.  Það var ekki ætlun Lullu.  Hún var ætíð höfðingi heim að sækja og í engu til sparað.  Fimm manna veisluborðið hefði mettað fjölmennari hóp og samt verið nóg eftir.

  Í annað sinn bauð Lulla frænka sama hópi í glæsilega kjötbolluveislu.  Kjötbollurnar hennar voru hnossgæti.  Þegar allir höfðu borðað sig pakksadda og lagt frá sér hnífapör hvatti Lulla til frekara áts:

  "Fáið ykkur endilega meira.  Nóg er til.  Þetta eru góðar kjötbollur,  þó að ég segi sjálf frá."

  Mágur minn,  stór og mikill,  ýtti frá sér disknum og sagði:  "Þetta eru bestu kjötbollur sem ég hef smakkað.  Ég er áreiðanlega búinn að torga 10 eða 12 og er gjörsamlega sprunginn."

  Lulla leiðrétti hann:  "Nei,  þú ert búinn að borða sjö."   

----------------------------

  Fyrri hluti af jólum Lullu frænku: 

---------------------------
Hjarðhegðun:
hjar_heg_un.jpg

 

   

  


Bannfært kjöt

  Öldum saman var Íslendingum bannað að borða hrossakjöt.  Það var ekki að ástæðulausu.  Í ævafornum þjóðsögum gyðinga í Mið-Austurlöndum eru skýr fyrirmæli frá drottni himintunglanna um að harðbannað sé að borða kjöt af öðrum dýrum en þeim sem bæði hafa klaufir og jórtra af ákefð hvenær sem því er við komið.  Hesturinn hefur aldrei komist upp á lag með að jórtra.  Að auki hefur hann hófa en ekki klaufir.

  Við kristnitöku á Íslandi var eðlilega rík áhersla lögð á að hér norður í ballarhafi væri farið í hvívetna eftir boðum og bönnum þjóðsaganna frá Arabíu.  Þorgeir Ljósvetningagoði náði með lagni að semja um undanþágu fyrir ásatrúarmenn (sem allflestir Íslendingar voru og eru).  Ásatrúarmönnum var heimilt að blóta á laun.  Þar á meðal að laumast í hrossakjöt svo lítið bar á.  Og það gerðu þeir með góðri lyst.  Enda hrossakjöt flestu öðru kjöti hollara og bragðbetra.  

  Bann kirkjunnar við hrossakjötsáti var málað dökkum litum.  Hrossakjötsát var skilgreint sem jafn mikill glæpur og að myrða nýfædd börn með útburði.  Í aldanna rás magnaðist upp viðbjóður á hrossakjöti.  Bara það að fara höndum um hrossakjöt framkallaði hroll.  Verstu martraðir sem guðhræddan prest dreymdi var að hann snerti í ógáti á hrossakjöti.  Þá vaknaði hann upp með andfælum,  sleginn köldum svita og náðu ekki svefni á ný fyrr en eftir að hafa farið með faðirvorið og maríubæn.

  Á 18. öld léku harðindi Íslendinga grátt.  Til að seðja sárasta hungur átu Íslendingar bækur,  skó og,  já,  þeir allra kærulausustu björguðu lífi sínu og barna sinna með því að laumast í hrossakjöt.  Um og upp úr 1800 neyddist kirkjan til að koma til móts við sársvangan almenning.  Yfirmenn kirkjunnar í Danmörku léttu hörðum refsingum af Íslendingum sem nörtuðu í hrossakjöt - ef forsendan var sár neyð.  

  Sýslumaður í Dalasýslu gaf út yfirlýsingu um að refsilaust væri í hans umdæmi að nota hrossafitu sem ljósmeti (í kertagerð eða í lampa).  Það þótti kúvending,  róttæk og byltingarkennd afstaða til hins forboðna hrossakjöts.

  Á 19. öld léku harðindi Íslendinga enn grátt.  Dómsstjóri í Reykjavík heimilaði að fóðra mætti aumingja á hrossakjöti.  Nánar tiltekið tukthúslimi og sveitaómaga.  Allt varð brjálað.  Almenningur hneykslaðist.  Margir náðu sér aldrei eftir það.  Urðu vitleysingar.  Dómsstjórinn varð að athlægi um land allt.  Hvar sem tveir menn eða fleiri komu saman sögðu þeir af honum frumsamda "Hafnarfjarðarbrandara".   

  Fram eftir síðustu öld slaknaði hægt og bítandi á andúð á hrossakjöti.  Þó var lífseig sú skoðun að vond hrossataðslykt loddi dögum og vikum saman við þann sem lagði sér hrossakjöt til munns.  Alveg fram á þessa öld var hrossakjöt ódýrt.  Eftirspurn var lítil og hrossakjötið var aðallega notað til að drýgja - undir borði - nautakjöt og kjöthakk.  Það er ekki fyrr en á síðustu 2 - 3 árum sem kílóverð á hrossakjöti hefur nálgast verð á nauta- og lambakjöti.  

  Í dag er hrossakjöt hluti af þorramat.  Það er við hæfi.  Þorri er kenndur við vetrarvætt ásatrúarmanna.  Kirkjan bannaði á sínum tíma þorrablót.  Núna leika þorrablót stórt hlutverk í árlegu skemmtanahaldi Íslendinga.  Ekki aðeins okkar í Ásatrúarfélaginu heldur alls almennings.  Það er gaman.  Verra er að þrátt fyrir ört vaxandi framboð á hrossakjöti þá hefur kílóverðið einnig rokið upp.           

    

Í Lögregluskólanum er nemendum kennt að styðja snyrtilega og virðulega - svo lítið beri á - við húfuna til að hún fjúki ekki.

logreglumenn_sty_ja_vi_hufur.jpg


mbl.is Hrossakjötsframleiðsla rýkur upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband