Færsluflokkur: Lífstíll

Útvarp Saga er þjóðarútvarp

   Ég kann vel að meta Útvarp Sögu.  Útvarp Saga er þjóðarútvarp.  Þjóðin talar og þjóðin hlustar.  Frá klukkan 09 að morgni til hádegis fær almenningur að hringja inn og tjá sig í beinni útsendingu.  Ranglega fullyrða sumir að örfáir innhringendur séu ráðandi í þessum símatímum.  Athugun hefur hrakið það.  Jú, jú, inn á milli ná einhverjir inn sem áður hafa látið í sér heyra.  Er eitthvað að því?  Umræðuefnið er af ýmsu tagi.  Þeir sem ná inn og eru alveg jafn góður þverskurður af íslenskum almenningi og þeir sem daglega taka þátt í "lofi og lasti" á Bylgjunni. 

  Símatímar Útvarps Sögu spegla umræðuna á Íslandi dag hvern.  Þar fyrir utan er margt annað áhugavert dagskrá Útvarps Sögu utan þessara 3ja klukkutíma símatíma.  Til að mynda skemmtilegur og fjölbreyttur morgunþáttur Markúsar Þórhallssonar og Jóhanns Kristjánssonar.  Núna er Jóhann að auki með bókmenntaþátt.  Rúnar Þór er með forvitnilega og fróðlega viðtalsþætti.  Þar rekur hann garnir úr þekktum tónlistarmönnum.  Torfi Geirmundsson og Guðný í Heilsubúðinni eru með þátt um hár og heilsu.  Annar heilsuþáttur heitir Heilsan heim.  Magnús Magnússon spilar gamlar dægurlagaperlum,  talar við tónlistarmenn og gefur hlustendum tertur,  bílabón og fleira.  Arnþrúður er með þátt um mat og matreiðslu.  Pétur Gunnlaugsson og Erlingur Már eru með síðdegisþátt.  Þangað fá þeir iðulega góða gesti í spjall.  Margt fleira áhugavert er á dagskrá Útvarps Sögu.

  Nýlega var hleypt af stokkum nýrri útvarpsstöð,  Jóla-Sögu:  89 á fm.  Nafnið segir sína sögu. 

 


Það þarf stöðugt að hafa vit fyrir heimska fólkinu

  Morgunblaðrið verður ekki oft á vegi mínum.  Hugsanlega er það vegna þess að ég er ekki áskrifandi.  En þegar ég rekst á blaðið þá les ég það mér til gagns og gaman.  Í dag fór ég á matsölustað.  Þar rakst ég á rifrildi úr tölublaði frá síðustu viku.  Örfáar blaðsíður.  Og las þær í bak og fyrir.  Á einni síðu voru tvær aðsendar greinar.  Önnur var frá tveimur konum.  Önnur er prófessor og hin næringarfræðingur.  Þær færðu í löngu máli rök fyrir því að gosdrykki og aðra svaladrykki eigi umsvifalaust að fjarlægja úr almennum matvöruverslunum og sjoppum  Þessir drykkir eru óhollir.  Svo sannarlega.  Bölvaður óþverri.  Litað sykurvatn með bragðefnum.  Það er mesta furða að fólk kaupi og drekki þennan viðbjóð.

  Konurnar eru með lausn á vandamálinu.  Hún er sú að bannað verði að selja sykraða drykki annars staðar en í ríkisreknum vínbúðum.  Þar með verði sala á sykruðum drykkjum til yngri en 20 ára stranglega bönnuð að viðlögðum háum fjársektum og vist í skammarkrók.  Þeir einir sem náð hafa 20 ára aldri og geti sannað það með framvisun vegabréfs fái að kaupa þessa óhollu drykki.

 Fólk er fífl.  Þess vegna þarf að passa það og vakta og skammta ofan í það óhollustu.  Annars endar þetta með óhófi.  Það þarf að festa í lög og fylgja þeim rækilega eftir að fólk gæti hófs í þambi á sykruðum drykkjum.  Eitt kókglas á sunnudögum með mat er hámarkið.  Hálft aukaglas á hátíðisdögum á borð við jól og sumardaginn fyrsta.

  Ríkislögreglustjóri og hans embætti verður að halda utan um að lögum og reglum um þetta sé fylgt í hvívetna.  Kæruleysi leiðir til upplausnar.

  Á sömu blaðsíðu og prófessorinn og næringarfræðingurinn settu fram sína kröfu var grein eftir kaupmann í Reykjavík.  Hann vill flugvöll burt úr Vatnsmýri.  Hann vill ná umræðunni niður á jörðina í stað þess að gapa upp í loft á eftir flugvélum.  Til að ná umræðunni niður á jörðina skipti hann flugvellinum út fyrir fjós í Vatnsmýri.  Stillti upp dæmi um lítið sveitakot með fjósi.  Hver vill ríghalda í og varðveita fjós á svæði þar sem annars er hægt að byggja þétta byggð blokkaríbúða?  Ég náði ekki að lesa alla rökfærsluna til enda.  Mig sundlaði eftir að hafa lesið innganginn.  Grínarar hringstigans eru víðar en þeir gera sér grein fyrir.      


Vandræðalegt

  Öllum getur orðið á.  Meira en það.  Öllum verður á.  Sumum oft.  Það er misskilningur út um allt.  Bæði réttur og rangur.  Það átta sig ekki allir á því hvernig best er að nota regnhlíf.

me_regnhlif_1222408.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

   Það er heldur ekki öllum gefið að vita um mögulegt notagildi skyggnis á húfu.  

19-19-19skrytin_mynd_1222406.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

   Ef vel er að gáð sést að konan heldur spjaldtölvunni sinni upp að eyranu eins og símtóli (eða litlum farsíma)

stupid.jpg

me_tosku.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Sumum ferðatöskum fylgir enginn leiðbeiningabæklingur.  Fyrir bragðið dregur sumt fólk níðþunga tösku á eftir sér alla ævi.  Það veit ekki að taskan er á hjólum.  Til að þau komi að gagni þarf taskan að snúa rétt.  Þau koma ekki að gagni ef taskan snýr vitlaust.  

 

 

 

 

 

 

 

  Þessi tók mynd af lyftunni til að sýna vinum sínum.  Honum þykir svo heimskulegt að í lyftunni sé takki fyrir hæðina sem hann er á.  

lyfta.jpg


mbl.is Handrukkarar bönkuðu hjá lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska þakkagjörðarhátíðin

lambakjot.gif

 

 

 

 

 

 

 

 

 

   Elsta heimild um íslensku þakkargjörðarhátíðina,  slægju,  er í sögu af Ólafi Noregskonungi digra (hann var assgoti búttaður og þrútinn).  Ólafur (konungur 1015 - 1028) spurði Íslending hvort að satt sé að bændur gefi húskörlum sínum hrút til slátrunar á haustin.  Íslendingurinn kannaðist við það.  Þannig var heyskaparlokum fagnað og fé komið af fjalli.  Noregskonungur mælti þegar í stað fyrir um að Íslendingar í hans liði skuli fá hrút til slátrunar.  Reyndist þar vera um óvin Ólafs digra að ræða,  Hrút að nafni.  Íslendingarnir létu ekki segja sér það tvisvar.  Þeir slátruðu Hrúti þegar í stað og öllum hans mönnum.      

 


Lulla frænka og lögreglan

  Lulla frænka var það sem kallast "góðkunningi lögreglunnar".  Ekki vegna þess að hún væri í neinum afbrotum.  Það var hún ekki.  Alls ekki.  Ekki þannig lagað.  Lulla frænka var strangheiðarleg.  Hitt er annað mál að hún hafði annan skilning á umferðarlögum en flestir.  Hún tók lítið mark á umferðarljósum,  umferðarskiltum og öðru slíku.  Hún var svipt ökuréttindum.  Það breytti engu.  Hún ók eftir sem áður.  Svo fékk hún ökuskírteinið aftur.  Á sjöunda og áttunda áratugnum var mun meira umburðarlyndi gagnvart því að ökumenn túlkuðu umferðarlög frjálslega en er í dag. 

  Á þessum árum voru gangandi lögregluþjónar áberandi á gatnamótum.  Einkum í miðbænum.  Þegar Lulla ók yfir á rauðu ljósi eða virti ekki stöðvunarskyldu hlupu lögregluþjónarnir á eftir bíl Lullu og veifuðu ákaft.  Lulla veifaði á móti og flautaði til að endurgjalda þessa vinalegu kveðju frá þeim.  Hún var upp með sér af því:  "Ég er í miklu uppáhaldi hjá lögreglunni.  Hvert sem ég keyri þá veifa og veifa lögregluþjónarnir mér eins og ég sé gömul skólasystir þeirra eða eitthvað."   

  Þegar ég var í heimavistarskóla á Laugarvatni fékk ég einstaka sinnum bæjarleyfi.  Þá heimsótti ég alltaf Lullu frænku.  Það var svo gaman.  Í einu bæjarleyfi fékk ég Lullu til að skutla mér og Viðari Ingólfs frá Reyðarfirði,  skólabróður mínum,  á hljómleika í félagsmiðstöðinni Tónabæ.  

  Á leiðinni ókum við frammá mann sem gekk yfir merkta gangbraut.  Lulla sló hvergi af né beygði framhjá manninum.  Hún ók harkalega utan í hann.  Hann flaug í götuna.  Mér var brugðið og hrópaði í undrun og taugaveiklun á Lullu:  "Þú keyrðir manninn niður!"  

  Ég ætlaðist til að Lulla stöðvaði bílinn svo við gætum hugað að slösuðum manninum.  Lulla ók áfram og svaraði sallaróleg eins og ekkert væri eðlilegra:  "Hann á náttúrulega ekkert með það að vaða svona í veg fyrir umferðina."  

----------------------------

Fleiri sögur af Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1328591/


mbl.is „Hef ekkert á móti lögreglunni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fegurstu fossar í heimi

  Netsíðan mobilelikez.com hefur tekið saman og birt myndir og lista yfir fegurstu fossa heims.  Það er gaman að sjá myndir af þessum fallegu fossum.  Listinn er jafnframt áhugaverður.  Ekki síst fyrir okkur sem búum á þessu landi tilkomumikilla fossa, elds og ísa.  Fegursti foss heims að mati mobilelikez.com er Suðurlandsfoss á Nýja-Sjálandi.  

new-zealand-sutherland-1_1222320.jpg

  Hann virðist ekki vera neitt merkilegur þessi Suðurlandsfoss.  Það vantar nefnilega eitthvað á myndina sem sýnir stærð fossins.  Hann er næstum hálfur kílómetri að lengd og fellur í þrennu lagi.  Efsti hlutinn er 229 m,  miðbunan er 248 m og neðsta gusan er 103 m.  

  Fossinn er sagður fegurstur séður úr lofti.  Einkum séður úr þyrlu í frosti.

  Næst fegursti fossinn er Dettifoss í Jökulsárgljúfri á Íslandi.  Til samanburðar við þann ný-sjálenska er Dettifoss ekki nema 45 m hár (innan við 1/10).  

 dettifoss-2.jpg

  Á móti vegur að Dettifoss er 100 m breiður og straumharður. 

  Ljósmyndin sem mobilelikez.com birtir og ég endurbirti hér er ekki af Dettifossi heldur Goðafossi.

  Númer 3 er Gullfoss í Haukadal á Íslandi.  

gullfoss-iceland.jpg

 Fegurð Gullfoss er sögð liggja í því hvernig vatnið ferðast niður fossinn í þremur þrepum.

  Númer 4 er foss sem kallast Kaieteur og er í Guyana.  

 guana.jpg

  Hæð hans er 229 m.

  Númer 5 er Yosemite í Kaliforníu.  Könunum hefur ekki tekist að finna út hæð hans í metrum talið.  Þeir átta sig ekki á því hvernig metrakerfið virkar.  Þess í stað hafa þeir mælt hæðina í fetum.  Hún er 2425 fet.   Þau geta samsvarað 739 m. 

n-amerika.jpg


Búðarhnupl úr sögunni

  Í Asíu,  til að mynda í Suður-Kóreu og Japan,  er búðarhnupl óþekkt í stórmörkuðum.  Vörurýrnun er engin,  0%.  Hvernig stendur á því?  Það er heilmikil vörurýrnun í íslenskum verslunum.  Ekki síst stórmörkuðum.  Ástæðan fyrir þessum mun hefur ekki aðeins að gera með mismunandi siðferði viðskiptavina á Íslandi og í Asíu að gera.  Ástæðan er líka sú að verslanirnar eru ólíkar.

  Í Seúl í Suður-Kóreu sér viðskiptavinurinn vörurnar sem hann girnist.  En hann getur ekki tekið þær úr hillunum.  Þess í stað ýtir hann á mynd af vörunum.  Myndirnar eru snertiskjár.  Um leið og viðskiptavinurinn ýtir á myndirnar færast viðkomandi vörur af lager verslunarinnar og fara í innkaupapoka.  Þegar viðskiptavinurinn kemur að búðarkassanum bíða hans þar vörurnar í innkaupapokum ásamt upplýsingum um verðmæti þeirra.  Viðskiptavinurinn borgar glaður í bragði og fær innkaupapokana afhenta.

  Í fljótu bragði líta hillur stórmarkaðarins út alveg eins og hillurnar í Hagkaup,  Nóatúni,  Nettó og Fjarðarkaupum.  

matvoruverslun_i_seol.jpgstormarka_ur_i_seol-a.jpg  Það er líka hægt að gera innkaupin með snjallsíma.  Ég veit hinsvegar ekkert hvað snjallsími er og veit þess vegna ekki hvernig það gengur fyrir sig.   

 

 

  Þangað til þessi tækni berst seint og síðar meir út fyrir Asíu þurfa verslanir að styðjast við eftirlitsmyndavélar og ljónharða afgreiðslumenn sem slá þjófa umsvifalaust í gólfið.


Breyttar áherslur

  Fyrir mörgum árum ók ég í rólegheitum niður Njálsgötu í átt að Snorrabraut. Skyndilega bakkaði út úr stæði rétt fyrir framan mig bíll.  Þetta var svo óvænt að litlu munaði að árekstur yrði.  Ég flautaði til að gera vart við mig og afstýra að bíllinn bakkaði á minn bíl.  Ég hafði varla látið af flautinu fyrr en bílstjóri hins bílsins stökk út úr bílnum sínum.  Hann rauk að mínum bíl,  reif sig úr skyrtubol (mig minnir að hann hafi hent bolnum á götuna.  Kannski henti hann honum á húddið á sínum bíl?),  reif upp bílhurðina hjá mér og öskraði:  "Hvað er í gangi?  Hvert er vandamálið?"  Hann titraði og skalf og var kófsveittur. 

  Ég bjó mig ósjálfrátt undir áflog,  velti snöggt fyrir mér hvernig best væri að standa að þeim en svaraði rólega:  "Ég óttaðist að þú værir við það að bakka á bílinn minn.  Flautið var til að afstýra því."

  Náunginn andaði ótt og títt eins og hann væri að koma úr líkamsrækt.  Róleg rödd mín hafði sefandi áhrif á manninn.  Hann slakaði á og virtist róast.  Hann tók nokkur skref aftur á bak,  benti á mig og sagði:  "Ekki ögra mér,  félagi."

  Samskiptin urðu ekki meiri.  Gaurinn tók upp skyrtubolinn og settist upp í sinn bíl.  Ók á brott og ég líka.

  Glæpum á Íslandi fækkar ár frá ári.  Einungis er aukning í kærum á kynferðisglæpum.  Ekki vegna fjölgunar kynferðisglæpamanna heldur vegna þess að fórnarlömb kynferðisglæpa leita réttar síns í meira mæli en áður.  

  Þjóðfélag í kreppu,  hnípin þjóð í vanda,  hefur ekki efni á fyrirhuguðu nýju lúxusfangelsi á Hólmsheiði.  Hver fangaklefi þar er lúxsusíbúð með einkabaðherbergi,  nuddpotti og öllum stöðlum 5 stjörnu hótels.  Þetta er rugl.  Þegar er dekstrið við fanga um of.  Þeir eru mataðir á Stöð 2,  Skjá 1 og veislumat í hvert mál.  Bara svo fátt eitt sé upp talið. 

  Í nágrannalöndum, eins og í Svíþjóð, er vandræðastaða komin upp vegna fækkandi glæpa.  Þar er verið að loka fjórum fangelsum vegna skorts á glæpamönnum.  Til viðbótar er búið að loka þar gæsluvarðhaldsfangelsi.  Skortur á föngum er til vandræða.  Er ekki lag að semja við Svía um að fangelsa glæpamenn dæmda á Íslandi?  Vistun fanga á Íslandi kostar 100 þúsund kall sólarhringurinn eða eitthvað álíka.  Hættum við þetta lúxusfangelsi á Hólmsheiði og virkjum norræna samvinnu. 

  


mbl.is Reiddist mjög þegar „svínað“ var á hann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira af vafasömum tálbeitum

  Í síðustu bloggfærslu setti ég spurningamerki við notkun tálbeitu.  Þar í tilfelli eftirlits með sjoppum sem selja börnum sígarettur.  Ég set líka spurningamerki við notkun tálbeitu í eftirliti með kampavínsstöðum.  Vandamálið með tálbeitu er það að hún getur búið til glæp sem annars yrði kannski aldrei framinn.

  Tökum dæmi:  Peningaveski er viljandi skilið eftir í aftasta sæti í strætisvagni.  Farþegi sem rekst á veskið er í fjárkröggum.  Íbúðin hans verður boðin upp eftir nokkra daga ef ekki tekst að bjarga afborgun.  Veskið blasir við eins og óvæntur bjargvættur.  Farþeginn uppgötvar að í veskinu er upphæð sem getur bjargað fjölskyldunni frá því að vera borin út.  

  Farþeginn myndi aldrei stela veski undir öðrum kringumstæðum.  En þarna væri hann gripinn glóðvolgur af tálbeitu og settur í járn.

  Ég hef oft hugsað um þetta.  Á staurblönkum námsárum mínum fann ég seðlaveski í strætó.  Ég var svo blankur að við hjónin lifðum á hrísgrjónagraut og makkarónugraut til skiptis í öll mál.  Heimsóknir til ættingja var eina tilbreyting á matseðlinum.    

  Með veskið í höndunum barðist ég við freistinguna.  Ef það væri peningur í veskinu (sem var líklegast) þá kæmu þeir mér vel.  Svo varð mér hugsað til þess að rík manneskja væri ekki að ferðast með strætó.  Ég stóðst freistinguna.  En þorði samt ekki að kíkja í veskið.  Ég vissi ekki hvernig viðbrögð mín yrðu ef há upphæð væri í veskinu.  

  Eftir nokkuð harða innri baráttu fór ég til vagnstjórans.  Til að hann myndi ekki falla í freistni bað ég hann um að kalla upp í stjórnstöð að veski hefði fundist á þessari strætóleið.  Sem hann og gerði.  

   Áður hafði ég oft stolið úr búðum.  Aðallega hljómplötum.  Líka fatnaði og sælgæti.  Á þessum tímapunkti varð ég stoltur af sjálfum mér fyrir rétta ákvörðun.  Ég upplifði þetta atvik eins og staðfestingu á því að galgopaháttur og siðblinda unglingsáranna væri að baki.  Þarna var kominn til sögunnar tvítugur maður með siðferðisþröskuld.    

  Eina tilfellið sem ég er afdráttarlaus samþykkur notkun tálbeitu snýr að barnaníðingum.  Þeir hafa öll spjót úti í leit að fórnarlambi.  Þess vegna er tálbeita ekki beinlínis að draga þá inn í stöðu sem þeir myndu annars aldrei fara í.  Þvert á móti er tálbeitan aðeins að henda á lofti eitt af þeim spjótum sem þeir hafa úti.    


mbl.is Segir lögreglu hafa boðið kókaín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tálbeitur á vafasömu svæði

  Árlega er hringt í alla sjoppueigendur í Hafnarfirði.  Erindið er að upplýsa þá um að næstu daga muni tálbeitur kanna hvort að börn geti keypt sígarettur í sjoppunni.  Það er víst bannað.  Ég veit ekki hvers vegna.  Langi börn og unglinga að reykja sígarettur er það ekkert mál.  Allir sem vilja geta reddað sér sígarettum.  Jafn auðveldlega og að redda sér landa og hassi.

  Þrátt fyrir að sjoppueigendur séu upplýstir um væntanlega heimsókn tálbeitu þá eru alltaf einhverjir sem ganga í gildruna.  Láta standa sig að verki við að selja börnum sígarettur.  Fólk þarf ekki að vera gáfað til að reka sjoppu í Hafnarfirði.  En það hjálpar að vera ekki vitleysingur.  

  Tálbeiturnar eru á gráu svæði.  Þetta eru börn sem brjóta lög um leið og þau góma sjoppueigendur í gildru.  Börnin eru ekki sakhæf vegna ungs aldurs.  En þau komast að því hvar þau geta auðveldlega keypt sígarettur.  Barn sem hefur einu sinni brotið lög er komið yfir stóra þröskuldinn.  Það upplifir spennuna við að brjóta lög.  Það sækir í að endurupplifa adrenalín-"kikkið".  Þarna er verið að framleiða glæpamenn framtíðarinnar.

born_reykja.jpg

  

  

   

 

 

 

 

 

 

  Annað:  Fyrir þremur áratugum var ég á gangi ásamt 4ra ára syni mínum.  Á gangstéttinni mættum við gömlum manni sem kastaði frá sér logandi sígarettustubbi.  Strákurinn tók stubbinn upp,  skoðaði hann og setti hann í galsa á milli fingra sér eins og reykingamaður og hélt á honum fyrir framan munninn á sér.  Þóttist reykja.  Í þann mund kom einkennisklæddur strætóbílstjóri gangandi út úr húsi og mætti okkur.

  Ég segi þá hátt og skýrt:  "Davíð minn,  þú ættir að reyna að minnka við þig reykingarnar.  Ég var að lesa um að reykingar væru óhollar."

  Við þessi orð mín tók strætóbílstjórinn snöggt viðbragð.  Hann snérist á hæl og starði reiðilegur á svip á eftir okkur feðgum.  Við röltum áfram.  Út undan mér sá ég að strætóbílstjórinn starði hreyfingarlaus á eftir okkur á meðan við vorum í augsýn.  

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband