Færsluflokkur: Lífstíll

Ódýrt flug til Kína

 

  Það er margt um að vera í Kína þessa dagana.  Nú er lag að skella sér þangað - áður en landið verður of vestrænt.  Reyndar er gott fyrir íbúa landsins að það verði vestrænt.  Hinsvegar er ekkert gaman fyrir vestræna ferðamenn í Kína að rölta á milli McDonalds og Burger King.  Það geta þeir gert heima hjá sér.  Nema á Íslandi.  Íslendingar taka þorramat framyfir.

  Seint á síðustu öld hélt breska hljómsveitin Wham! hljómleika í Kína.  Skömmu síðar fylgdu Stuðmenn í kjölfarið - undir dulnefninu Strax.  Þetta voru fyrstu kynni Kínverja af vestrænni poppmúsík.  

  Til gamans má geta að nokkru áður komst kínverskur barnakór yfir lag eftir Gísla Helgason.  Barnakórinn fór með lagið inn á Topp 10 kínverska vinsældalistann.  Svo illa vildi til að á þeim tímapunkti höfðu Kínverjar ekki gengið til liðs við alþjóðleg höfundarréttarsamtök.  Annars væri Gísli auðmaður.  Aðeins munaði örfáum árum.

  Í dag tröllríður vestræn dægurmúsík Kína.  Rapp, teknó, píkupopp,  alt-rokk og bara nefndu það. 

  Svo skemmtilega vill til að um þessar mundir er verð á flugi til og frá Kína í lágmarki.  Hægt er að skjótast þangað í menningarreisu fyrir aðeins 88 þúsund kall (flug fram og til baka) og gæða sér á djúpsteiktum rottum. 


Breskar sígarettur

  Í nýlegri dvöl minni í Skotlandi vakti athygli að allt þarlent reykingafólk virtist reykja sömu sígarettutegund.  Og það tegund sem ég kannaðist ekki við.  Eðlislæg forvitni var vakin.  Ég gerðist svo djarfur að spyrja reykingamann út í málið.  Þá var ég upplýstur um að í Bretlandi séu allir sígarettupakkar alveg eins.  Það eru lög.  Furðulög.  Rökin eru þau að ef að fólk veit ekki hvort að það er að reykja Camel eða Salem þá hættir það að reykja og maular gulrætur í staðinn. 

sígarettur


Frásögn bresks blaðs af íslenskum jólum

  Hátíð ljóss og friðar,  jólunum,  varði ég í Skotlandi.  Í góðu yfirlæti.  Í Bretlandseyjum er gefið út götublað að nafni Daily Mirror.  Það er frekar lélegt blað.  En prentað á ágætan pappír.  Þannig lagað.

  Á aðfangadegi birti það grein undir fyrirsögninni "Jólasveinasnakk"  (Santa´s snack).  Þar segir: 

  "Jólin á Íslandi spanna 26 daga.  Þar af telja 13 jólasveinar, svo og tröll sem ofan koma úr fjöllunum og gefa gjafir.  Í þakklætisskini færa börnin þeim laufabrauð.  Það smakkast eins og stökkar vöfflur."


Ósvífin börn gerðu hróp að gömlum manni

  Ég fagnaði jólunum í Edinborg í Skotlandi.  Tók hvorki með mér tölvu né síma.  Var bara í algjörri hvíld.  Þannig hleður maður batteríin.  Verra var að illa uppalin börn gerðu hróp að mér með uppnefnum.  Og það í tvígang.  Í bæði skiptin var um að ræða á að giska fimm ára stelpur.  Í fyrra tilfellinu var ég á gangi í tívolí-garði.  Skimaði þar eftir indverskum mat.  Þá vatt sér að mér frekjuleg stelpa sem togaði í ermina á mér og sagði á ensku:

  "Jólasveinn,  komdu í heimsókn til okkar!"

  Það lá við að ég gæfi barninu "fuck you" merki.  En stillti mig.  Veifaði bara í staðinn.

  Næst var ég staddur á matsölustað.  Fékk mér djúpsteiktan þorsk.  Á næsta borði sat karl ásamt börnum.  Hann var með bendingar á eitt barnið og hló dátt.  Ég vissi ekki hvað það átti að þýða.  Svo yfirgaf hópurinn staðinn.  Þá snéri sér að mér stelpa sem hrópaði upp í opið geð á mér hátt og snjallt á ensku:  "Hóhóhó!  Gleðileg jól,  jólasveinn!"

 


Elífðarunglingar

rolling stones

 

  Flestir fagna því að eldast;  að vaxa upp úr galgopalegu útliti ungrar manneskju.  Öðlast þess í stað útlit virðulegs eldri borgara. 

  Gríðarlega gaman er að fylgjast með jafnöldrum eldast og þroskast.  Fyrir mig - fæddan um miðjan sjötta áratuginn -  hefur verið góð skemmtun að fylgjast með guttunum í The Rolling Stones komast til manns.  Þeir voru vart af unglingsaldri er þeir fylgdu í fótspor Bítlanna við að leggja undir sig heiminn. Ég var 8 ára eða svo.

  Rollingarnir þóttu ljótir,  klæmnir og ruddalegir.  Bítlarnir voru krútt.  Paul þeirra sætastur.  George heillandi dulrænn. Ringo fyndið ofurkrútt.  Lennon bráðgáfaður og leiftrandi fyndinn. 

  Núna,  55 árum eftir að Bítlarnir og The Rolling Stones rúlluðu upp vinsældalistum heims, er forvitnilegt að skoða hvernig strákarnir hafa elst. 

  The Rolling Stones og Bítlarnir fylgdust að í gríðarlega mikilli eiturlyfjaneyslu og áfengisdrykkju.  Liðsmenn The Rolling Stones náðu ásjónu virðulegra eldri manna á undan Bítlunum.  Samt eru þeir yngri en Bítlarnir.  Þar af er Ronnie Wood (sjá mynd efst til vinstri) 5 árum yngri en elstu Bítlar og 7 árum yngri en Harrison.   

  Myndin hér fyrir neðan af Harrison er gölluð.  Hún er 18 ára gömul (hann dó 2001). 

  Ringo og Paul er ótrúlega unglegir. Myndin af Lennon er keyrð í gegnum forrit sem uppfærir hana til samræmis við aldur (hann var myrtur 1980). 

Paul MccartneyringoLennonharrison

     


Skammir

  Ég var staddur í matvöruverslun.  Þar var kona að skamma ungan dreng,  á að giska fimm eða sex ára.  Ég hlustaði ekki á skammirnar og veit ekki út á hvað þær gengu.  Þó heyrði ég að konan lauk skömmunum með því að hreyta í drenginn:  "Þú hlustar aldrei á mig!"

  Hún gat ekki varist hlátri - fremur en viðstaddir - þegar strákurinn svaraði hátt, snjallt og reiðilega:  "Stundum finnst mér nú eins og ég hlusti of mikið á þig!"

barn

 


Dularfullt í Ikea

  Ég átti erindi í Ikea.  Eða réttara sagt gerði ég mér upp erindi þangað.  Ég átti leið um Hafnarfjörð og fékk þá snilldar hugmynd í kollinn að koma við í Ikea og kíkja á veitingastaðinn á annarri hæð.  Ég tek fram og undirstrika að ég hef engin tengsl við Ikea.  Kann hinsvegar vel við verð og vöruúrval fyrirtækisins.

  Eftir að hafa keypt veitingar settist ég sæll og glaður niður við borð.  Á næsta borði var diskur með ósnertum hangiskanka,  meðlæti og óopnaðri Sprite-flösku.  Enginn sat við borðið.  

  Fyrst datt mér í hug að eigandi máltíðarinnar væri að sækja sér bréfaþurrku eða eitthvað annað.  En ekkert bólaði á honum.  Ekki þær 20 mínútur sem ég dvaldi á staðnum.  Þetta er skrýtið.  Ég velti fyrir mér möguleikum:  Hvort að viðkomandi hafi verið geimvera sem var geisluð upp áður en máltíðin var snædd.  Eða hvort að minnisglöp (Alzheimer) hafi komið við sögu.  Þriðji möguleikinn er að útlendur ferðamaður hafi keypt matinn.  Tilgangurinn hafi ekki verið að borða hann heldur taka ljósmynd af honum til að pósta á Fésbók;  sýna vinum og vandamönnum hvernig séríslensk máltíð lítur út.  Hlutverk gosdrykksins hafi þá verið það eitt að sýna stærðarhlutföll. Eða hvað?

skanki    


Smásaga um gamlan mann

  Jói Jóns er 97 ára.  Hann er ern og sjálfbjarga.  Býr einn í hrörlegu einbýlishúsi.  Það er gamalt og kallar á stöðugt viðhald.  Jói er meðvitaður um það.  Honum þykir skemmtilegt að dytta að því.  Hann hefur hvort sem er ekki margt annað fyrir stafni.

  Að því kom að Jói þurfti að tjarga þakið til að verja það betur gegn vætu.  Er langt var liðið á verk missti hann fótanna á bröttu þakinu.  Sveif á hausinn.  Við aðrar aðstæður hefði hann rúllað fram af þakinu og kvatt þennan heim á stéttinni fyrir neðan.  Í þessu tilfelli límdist hann við blauta tjöruna.  Svo rækilega að hann gat sig hvergi hrært.  Hékk bara límdur á þakinu.  Það var frekar tilbreytingalaust.   Hann kallaði á hjálp.  Röddin var veik og barst ekki langt utan hússins.

  Kallinn kvartaði ekki undan veðrinu.  Það var honum hagstætt.  Nokkrum klukkutímum síðar áttu barnungir strákar leið framhjá húsinu.  Þeim þótti einkennilegt að sjá mann límdan við húsþak.  Komnir heim til sín sögðu þeir frá þessu sérkennilega þakskrauti.  Mamma eins þeirra hringdi í lögguna.  Löggan er þaulvön að bjarga köttum ofan úr trjám.  Henni þótti ekki meira mál að bjarga ellilífeyrisþega ofan af húsþaki. 

  Kominn niður af þakinu tók Jói staðfasta ákvörðun um að fara aldrei aftur upp á þak.  Hvorki á sínu húsi né öðrum. 

gamall maður


Einfaldur skilnaður - ekkert vesen

  Hver kannast ekki við illvíga hjónaskilnaði?  Svo illvíga að hjónin ráða sér lögfræðinga sem fara með málið til skiptastjóra.  Matsmenn eru kallaðir til.  Þeir telja teskeiðar, diska og glös.  Tímakaupið er 30 þúsund kall.  Heildarkostnaðurinn við skilnaðinn er svo hár að allar eigur eru seldar á brunaútsölu til að hægt sé að borga reikningana.  Það sem eftir stendur er lítið eða ekkert handa hjónunum.   

  Miðaldra bóndi í Kambódíu valdi aðra leið er hjónabandið brast eftir tuttugu ár.  Hann sagaði húsið í tvennt.  Öðrum eigum skipti hann í fjóra hluta.  Þau eiga nefnilega tvo syni.  Þessu næst lét hann flytja sinn helming hússins heim til aldraðra foreldra sinna.  Þar klambraði hann hálfhýsinu utan á hús þeirra. 

  Konan býr með sonunum í sínu hálfhýsi þar sem stóð.

  Maðurinn átti frumkvæðið að skilnaðinum.  Hann sakar konuna um að hugsa ekki nógu vel um sig.  Hann hafi verið vanræktur eftir að hann fárveiktist andlega.  

halft_hus 

 


Spornað gegn matarsóun

  Matarsóun er gríðarmikil á Íslandi - eins og víða um heim allan.  Algengt er að fólk kaupi of mikið matarkyns fyrir heimilið.  Maturinn rennur út á tíma og skemmist.  Sama vandamál hrjáir matvöruverslanir.  Svo eru það veitingastaðirnir.  Einkum þeir sem bjóða upp á hlaðborð.  Margir hrúga óhóflega á diskinn sinn og leifa helmingnum.

  Í Hong Kong er veitingastaður sem býður upp á hlaðborð.  Gestir eru hvattir til að taka lítið á diskinn sinn;  fara þess í stað fleiri ferðir að hlaðborðinu.  1000 kr. aukagjald er sett á reikning þeirra sem klára ekki af disknum sínum.  Þetta mættu íslensk veitingahús taka upp. 

hlaðborð


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.