Færsluflokkur: Lífstíll
21.11.2019 | 00:01
Skammir
Ég var staddur í matvöruverslun. Þar var kona að skamma ungan dreng, á að giska fimm eða sex ára. Ég hlustaði ekki á skammirnar og veit ekki út á hvað þær gengu. Þó heyrði ég að konan lauk skömmunum með því að hreyta í drenginn: "Þú hlustar aldrei á mig!"
Hún gat ekki varist hlátri - fremur en viðstaddir - þegar strákurinn svaraði hátt, snjallt og reiðilega: "Stundum finnst mér nú eins og ég hlusti of mikið á þig!"
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.10.2019 | 07:32
Dularfullt í Ikea
Ég átti erindi í Ikea. Eða réttara sagt gerði ég mér upp erindi þangað. Ég átti leið um Hafnarfjörð og fékk þá snilldar hugmynd í kollinn að koma við í Ikea og kíkja á veitingastaðinn á annarri hæð. Ég tek fram og undirstrika að ég hef engin tengsl við Ikea. Kann hinsvegar vel við verð og vöruúrval fyrirtækisins.
Eftir að hafa keypt veitingar settist ég sæll og glaður niður við borð. Á næsta borði var diskur með ósnertum hangiskanka, meðlæti og óopnaðri Sprite-flösku. Enginn sat við borðið.
Fyrst datt mér í hug að eigandi máltíðarinnar væri að sækja sér bréfaþurrku eða eitthvað annað. En ekkert bólaði á honum. Ekki þær 20 mínútur sem ég dvaldi á staðnum. Þetta er skrýtið. Ég velti fyrir mér möguleikum: Hvort að viðkomandi hafi verið geimvera sem var geisluð upp áður en máltíðin var snædd. Eða hvort að minnisglöp (Alzheimer) hafi komið við sögu. Þriðji möguleikinn er að útlendur ferðamaður hafi keypt matinn. Tilgangurinn hafi ekki verið að borða hann heldur taka ljósmynd af honum til að pósta á Fésbók; sýna vinum og vandamönnum hvernig séríslensk máltíð lítur út. Hlutverk gosdrykksins hafi þá verið það eitt að sýna stærðarhlutföll. Eða hvað?
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
28.8.2019 | 09:04
Smásaga um gamlan mann
Jói Jóns er 97 ára. Hann er ern og sjálfbjarga. Býr einn í hrörlegu einbýlishúsi. Það er gamalt og kallar á stöðugt viðhald. Jói er meðvitaður um það. Honum þykir skemmtilegt að dytta að því. Hann hefur hvort sem er ekki margt annað fyrir stafni.
Að því kom að Jói þurfti að tjarga þakið til að verja það betur gegn vætu. Er langt var liðið á verk missti hann fótanna á bröttu þakinu. Sveif á hausinn. Við aðrar aðstæður hefði hann rúllað fram af þakinu og kvatt þennan heim á stéttinni fyrir neðan. Í þessu tilfelli límdist hann við blauta tjöruna. Svo rækilega að hann gat sig hvergi hrært. Hékk bara límdur á þakinu. Það var frekar tilbreytingalaust. Hann kallaði á hjálp. Röddin var veik og barst ekki langt utan hússins.
Kallinn kvartaði ekki undan veðrinu. Það var honum hagstætt. Nokkrum klukkutímum síðar áttu barnungir strákar leið framhjá húsinu. Þeim þótti einkennilegt að sjá mann límdan við húsþak. Komnir heim til sín sögðu þeir frá þessu sérkennilega þakskrauti. Mamma eins þeirra hringdi í lögguna. Löggan er þaulvön að bjarga köttum ofan úr trjám. Henni þótti ekki meira mál að bjarga ellilífeyrisþega ofan af húsþaki.
Kominn niður af þakinu tók Jói staðfasta ákvörðun um að fara aldrei aftur upp á þak. Hvorki á sínu húsi né öðrum.
Lífstíll | Breytt 30.8.2019 kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.8.2019 | 00:00
Einfaldur skilnaður - ekkert vesen
Hver kannast ekki við illvíga hjónaskilnaði? Svo illvíga að hjónin ráða sér lögfræðinga sem fara með málið til skiptastjóra. Matsmenn eru kallaðir til. Þeir telja teskeiðar, diska og glös. Tímakaupið er 30 þúsund kall. Heildarkostnaðurinn við skilnaðinn er svo hár að allar eigur eru seldar á brunaútsölu til að hægt sé að borga reikningana. Það sem eftir stendur er lítið eða ekkert handa hjónunum.
Miðaldra bóndi í Kambódíu valdi aðra leið er hjónabandið brast eftir tuttugu ár. Hann sagaði húsið í tvennt. Öðrum eigum skipti hann í fjóra hluta. Þau eiga nefnilega tvo syni. Þessu næst lét hann flytja sinn helming hússins heim til aldraðra foreldra sinna. Þar klambraði hann hálfhýsinu utan á hús þeirra.
Konan býr með sonunum í sínu hálfhýsi þar sem stóð.
Maðurinn átti frumkvæðið að skilnaðinum. Hann sakar konuna um að hugsa ekki nógu vel um sig. Hann hafi verið vanræktur eftir að hann fárveiktist andlega.
Lífstíll | Breytt 28.8.2019 kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.8.2019 | 05:52
Spornað gegn matarsóun
Matarsóun er gríðarmikil á Íslandi - eins og víða um heim allan. Algengt er að fólk kaupi of mikið matarkyns fyrir heimilið. Maturinn rennur út á tíma og skemmist. Sama vandamál hrjáir matvöruverslanir. Svo eru það veitingastaðirnir. Einkum þeir sem bjóða upp á hlaðborð. Margir hrúga óhóflega á diskinn sinn og leifa helmingnum.
Í Hong Kong er veitingastaður sem býður upp á hlaðborð. Gestir eru hvattir til að taka lítið á diskinn sinn; fara þess í stað fleiri ferðir að hlaðborðinu. 1000 kr. aukagjald er sett á reikning þeirra sem klára ekki af disknum sínum. Þetta mættu íslensk veitingahús taka upp.
18.8.2019 | 05:22
Hvað ef John og Paul hefðu aldrei kynnst?
1956 var litla enska hafnarborgin Liverpool "slömm". Margir Englendingar neituðu að viðurkenna Liverpool sem hluta af Englandi. Þetta ár bankaði 14 ára gutti, Paul McCartney, hjá 16 ára bæjarvillingnum John Lennon. Bauð sig fram sem gítarleikara, söngvara og lagahöfund í hljómsveit Johns, The Querrymen. Þarna varð til öflugasta tvíeyki sögunnar. Frábært söngvapar, hugmyndaríkir flytjendur og djarfir tilraunakenndir útsetjarar sem toguðu og teygðu tónlist lengra og víðar en áður þekktist.
The Querrymen breyttust í The Beatles. Á íslensku alltaf kallaðir Bítlarnir. Bítlarnir frá Liverpool rúlluðu heimsbyggðinni upp eins og strimlagardínu. Allt í einu urðu Liverpool og England ráðandi forysta í dægurlagamarkaði heimsins.
Pabbi Johns, Freddie Lennon, var söngvari, söngvaskáld og banjoleikari. Mamma Johns var líka banjoleikari og píanóleikari. John ólst ekki upp hjá þeim en erfði frá þeim tónlistarhæfileika. Þegar plötufyrirtækið EMI gerði útgáfusamnning við Bítlana var það munnhörpuleikur Johns sem heillaði upptökustjórann, George Martin, umfram annað.
Pabbi Pauls lagði hart að honum að fara í markvisst tónlistarnám. Rökin voru: "Annars endar þú eins og ég; að spila sem láglaunamaður á pöbbum." En Paul valdi að læra sjálfur að spila á gítar og píanó.
Foreldrar George Harrison eru sagðir hafa verið góðir söngvarar. Mamma hans er skráð meðhöfundur "Piggies" á Hvíta albúminu.
Ringó Starr ólst upp á tónlistarheimili. Þar var allt fullt af hljóðfærum af öllu tagi. Hann hélt sig við trommur en getur gutlað á píanó og gítar.
Synir allra Bítlanna hafa haslað sér völl sem tónlistarmenn. Zak Starkey, sonur trommuleikarans Ringos, hefur vegnað vel sem trommuleikari The Who og Oasis. Eldri sonur Johns, Julian, kom bratt inn á markað 1984 með laufléttu alltof ofunnu reggí-lagi um pabba sinn, "Too Late for goodbyes". Þetta var á skjön við vinnubrögð Johns sem gengu út á hráleika. Síðan hefur hvorki gengið né rekið hjá Julian - fremur en hjá öðrum sonum Bítlanna að Zak undanskildum. Vegna frægðar Bítlanna hafa synir þeirra forskot á aðra í tónlistarheimi. Þrátt fyrir að þeir séu alveg frambærilegir tónlistarmenn þá vantar upp á að tónlist þeirra að heilli nógu marga til að skila lögum þeirra og plötum inn á vinsældalista.
Niðurstaðan er sú að ef John og Paul hefðu ekki kynnst þá hefðu þeir ekki náð árangri út fyrir Liverpool-slömmið. Lykillinn að yfirburðum þeirra á tónlistarsviðinu lá í samstarfi þeirra. Hvernig þeir mögnuðu upp hæfileika hvors annars.
John var spurður út í samanburð á Bítlunum og The Rolling Stones. Hann svarði eitthvað á þá leið að Rollingarnir væru betri tæknilega. Þeir væru skólaðir. Bítlarnir væru amatörar. Sjálflærðir leikmenn. En spjöruðu sig. Svo bætti hann við: Þegar heildarútgáfa á flutningi á Bítlalögum er borin saman við flutning annarra þá hallar ekki á Bítlana.
Lífstíll | Breytt 2.10.2019 kl. 19:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2019 | 00:08
Áhrifamáttur nafnsins
Flestum þykir vænt um nafn sitt. Það er stór hluti af persónuleikanum. Sérstaklega ef það hefur tilvísun í Biblíuna, norræna goðafræði, Íslendingasögurnar eða nána ættingja. Ég varð rígmontinn þegar afastrákur minn fékk nafnið Ýmir Jens.
Þekkt sölutrix er að nefna nafn viðskiptavinarins. Sölumaðurinn öðlast aukna viðskiptavild í hvert sinn er hann nefnir nafn viðskiptavinarins.
Góður vinur minn endursegir ætíð samtöl sín við hina og þessa. Hann bætir alltaf nafni sínu við frásögnina. Lætur eins og allir viðmælendur hans ávarpi hann með orðunum " Óttar minn, ..." (ekki rétt nafn). Sem engir gera.
Annar vinur minn talar alltaf um sig í 3ju persónu. Hann er góður sögumaður. Þegar hann segir frá samtölum við aðra þá nafngreinir hann sig. Segir: "Þá sagði Alfreð..." (rangt nafn).
Ég þekki opinberan embættismann. Sá talar aldrei um sig öðruvísi en með því að vísa í titil sinn: "Forstöðumaðurinn mælti með..." (rangur titill).
Þetta hefur eitthvað að gera við minnimáttarkennd; þörf til að upphefja sig.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.8.2019 | 00:01
Lúxusvandamál Færeyinga
Skemmtilegt er að fylgjast með uppganginum í Færeyjum síðustu árin. Íbúum fjölgar árlega um 3%. Nú eru þeir að nálgast 52000. Sífellt fækkar þeim sem flytja frá eyjunum. Að sama skapi fjölgar þeim sem flytja aftur heim eftir búsetu erlendis.
Til viðbótar eru Færeyingar frjósamasta þjóð í Evrópu. Að meðaltali eignast færeyskar konur 2,5 börn. Íslenskar konur eignast aðeins 1,7 börn. Það dugir ekki til að viðhalda stofninum. Tíðni hjónaskilnaða í Færeyjum er sú lægsta í Evrópu.
Ferðamönnum hefur fjölgað mjög að undanförnu. Ríkissjóður fitnar sem aldrei fyrr. Tekjur hans uxu um rúm 20% í fyrra. Útsvarstekjur sveitarfélaga jukust um rúm 15%. Fyrir bragðið geta bæði ríki og sveitarfélög kastað sér í allskonar framkvæmdir. Fjöldi gangna eru í smíðum og enn fleiri fyrirhuguð. Göng til Suðureyjar verða lengstu neðansávargöng í heimi. Ekki er frágengið hvaðan þau liggja. Kannski verða þau 26 kílómetrar. Kannski styttri. En samt þau lengstu.
Sífellt fjölgar fögum og námsbrautum á háskólastigi. Æ færri þurfa að sækja framhaldsnám til útlanda.
Útlánsvextir eru 1,7%.
Uppsveiflan í Færeyjum veldur ýmsum lúxusvandamálum. Til að mynda skorti á heimilislæknum, leikskólaplássum og húsnæði. Hvort heldur sem er íbúðum til kaups eða leigu, svo og hótelherbergjum. Sem dæmi um skortinn þá er í byggingu blokk í Klakksvík. Í henni eru 30 íbúðir. 350 sóttu um að fá að kaupa. Skorturinn hefur þrýst upp húsnæðisverði og leigu.
Allt stendur þetta til bóta. Hús af öllu tagi eru á byggingarstigi: Skólahús, hótel, íbúðahús, iðnaðarhúsnæði, landspítala, leikskóla og svo framvegis. Þetta hefur leitt til skorts á vinnuafli í byggingaiðnaði. Það er sótt til Austurevrópu. Í fyrra var 525 Rúmenum veitt atvinnuleyfi í Færeyjum.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
24.7.2019 | 23:44
Smásaga um kærustupar
Unga kærustuparið gat ekki verið ástfangnara og hamingjusamara. Það var nýflutt inn í litla leiguíbúð. Sambúðin var ævintýri upp á hvern dag. Í innkaupaferð í matvöruverslun rákust þau á gamla skólasystur konunnar. Þær þekktust samt aldrei mikið. Skólasystirin fagnaði þó samfundinum eins og þær hafi alla tíð verið æskuvinkonur. Knúsaði konuna í bak og fyrir. Spurði frétta og sagði frá sjálfri sér. Hún flutti til Frakklands en var þarna stödd á Íslandi í örfáa daga. Vandamálið var að hún hafði ekki áttað sig á hvað gistimarkaðurinn á Íslandi er verðbólginn. Kostnaðurinn var að slátra fjárhag hennar.
"Er smuga að ég fái að gista hjá ykkur í örfáa daga?" spurði hún. "Þess vegna í svefnpoka á eldhúsgólfinu eða eitthvað? Það myndi gjörsamlega bjarga fjárhagnum."
Unga parið var tvístígandi. Konan spurði kærastann hvort hann myndi sætta sig við að hún gisti í stofusófanum í nokkra daga. Hann sagði að það muni ekki "bögga" sig. Eflaust yrði gaman fyrir þær dömurnar að rifja upp gamla skóladaga.
Nokkrum dögum síðar fékk kærastan slæmt kvef. Hún hóstaði heilu og hálfu næturnar. Kallinn missti svefn og varð eins og uppvakningur í vinnunni. Á þriðja degi sagði hann við kærustuna: "Ég get ekki verið svefnlaus í marga daga til viðbótar. Ég neyðist til að biðja þig um að sofa í stofunni þangað til kvefið er gengið yfir."
Hún hafði fullan skilning á því. Vandamálið var hinsvegar að stofusófinn var eiginlega of lítill fyrir skólasysturnar að deila honum. Um morguninn tilkynnir skólasystirin að hóstinn hafi haldið fyrir henni vöku. "Ég verð að fá að sofa í svefnherberginu," sagði hún. "Hjónarúmið er alveg nógu breitt til að deila því með kærastanum þínum án vandræða."
Þetta var samþykkt. Hóstinn varð þrálátur. Um síðir hjaðnaði hann. Kærastan vildi eðlilega endurheimta sitt pláss í hjónarúminu. Skólasystirin hafnaði því. Sagðist vera ólétt. Barnið væri getið í þessu rúmi. Foreldrarnir væru sammála um að ala það upp í sameiningu sem par.
Kærustunni var brugðið við að vera óvænt x-kærasta (fyrrverandi). Hún lét þó ekki á neinu bera. Sagði: "Ég styð það."
Skólasystirin varð hægt og bítandi stjórnsöm. Hún fór að gefa x-inu fyrirmæli: Það þurfi að strjúka af gólfunum; nú þurfi að þurrka af. X-ið sá um eldamennsku eins og áður. Um helgar fékk hún fyrirmæli um bakstur: Pönnukökur, vöfflur, ástarpunga og svo framvegis.
Ef gest bar að garði fékk hún fyrirmæli: "Skottastu út í búð eftir gosi og kökum."
Þegar barnið fæddist fékk hún nóg að gera: Bleyjuskipti, böðun, út að ganga með barnavagninn. Allan tímann vann hún sem kassadama í matvöruverslun. Fjármál heimilisins voru sameiginleg. Heimilisfaðirinn var með ágætar tekjur sem starfsmaður í álverinu í Straumsvik. Skólasystirin vann aldrei úti. Eiginlega ekki inni heldur ef frá er talið að hún var dugleg við að vakta sjónvarpið. Hún fékk einn daginn hugmynd um að heimilið vantaði meiri innkomu. Þá skráði hún x-ið í útburð á dagblöðum á morgnana. Benti á að það væri holl og góð hreyfing sem bónus ofan á launin. Sem er alveg rétt.
Lífstíll | Breytt 25.7.2019 kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
16.7.2019 | 23:20
Blessun
Ég er alltaf kallaður Jens Guð. Þess vegna er ég í símaskránni skráður Jens Guð - að frumkvæði símaskráarinnar. Eða hvort að þetta heitir 1819 eða 1919 í dag? Í morgun hringdi í mig barnung stúlka. Kannski 5, 6 ára. Hún sagðist heita Emilía og eiga heima í Keflavík. Hún spurði hvort ég væri Jens Guð. Ég játaði því. Hún spurði hvort ég væri til í að blessa hana. Ég svaraði: "Alveg sjálfsagt. Strax eftir þetta símtal skal ég blessa þig." Hún þakkaði fyrir og þar með lauk símtalinu. Ég stóð við minn hluta samkomulagsins. Sendi henni að auki í huganum sálm með þýsku pönkdrottningunni Nínu Hagen. Hún er mér töluvert uppteknari af trúmálum.
Lífstíll | Breytt 18.7.2019 kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)