Færsluflokkur: Ferðalög

Hvergi sér fyrir enda á flóttamannastraumnum

flóttafólk

 

 

 

 

 

 

 

 

  Ört vaxandi straumur flóttafólks flæðir yfir alla Evrópu.  Jafnvel fleiri heimsálfur ef vel er að gáð.  Þessi þróun hefur þegar skapað ótal vandamál af öllu tagi.  Sífellt bætast fleiri vandamál í hópinn.  Bara á þessu ári - á fyrstu níu mánuðum þess - hafa hátt á fjórða þúsund Íslendingar flutt til útlanda.  Flúið skuldabagga,  vaxtaokur,  húsnæðisvandræði,  spillingu,  brostnar vonir og hringlandahátt.  Meðal annars með reisupassa.

  Uppistaðan af íslenska flóttamannastraumnum er ungt fólk.  Kraftmikið, atorkusamt og vel menntað.  Það er gríðarlegt tjón fyrir þjóðfélagið að missa flóttafólkið út úr íslenska atvinnumarkaðnum.  Þetta hefur þegar skapað illvígan skort á iðnaðarmönnum.  Þetta er vinnandi fólk sem á í heilbrigðu þjóðfélagsástandi að standa undir ellilífeyrisgreiðslum, rekstri hjúkrunarheimila og allskonar.

  Eina ráðið til að stoppa upp í götin er að lokka með einhverjum ráðum til Íslands fólk frá öðrum löndum.  

 


mbl.is Fjöldi Íslendinga flytur úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varúð! Ekki kaupa falsaða flugmiða!

  Það er ósköp einfalt og auðvelt að kaupa á netinu flugmiða til útlanda með Wow eða Icelandair.  Og líka til baka ef að sá gállinn er á manni.  Hitt er verra: Þegar farið er út fyrir þægindarammann.  Miði keyptur á netinu af útlendu flugfélagi.  Ekki er alltaf allt sem sýnist.  Í útlöndum felur vont fólk sig innanum gott fólk.  Það beitir brögðum til að féfletta saklausa flugfarþega.  

 14 manna hópur Færeyinga lenti í svikahröppum.  Hópurinn var á leið til Rúmeníu.  Hafði keypt flugmiða á netinu.  Fyrst var flogið frá Færeyjum til Kaupmannahafnar.  Við innritun í tengiflug frá Kaupmannahöfn kom babb í bátinn.  Bókað og þegar borgað flug til Rúmeníu kom ekki fram í tölvubúnaði á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn.  

  Færeyski hópurinn var með kvittanir fyrir kaupum á flugmiðunum.  Þetta virtist allt vera samkvæmt bókinni.  Nema að kaupin á flugmiðunum skiluðu sér ekki inn í innritunarkerfið á Kastrup.  

  Sérfræðingar á tölvusviði Kastrup voru kvaddur til.  Í ljós kom að Færeyingarnir höfðu lent í klóm á glæpamönnum.  Sennilega rúmenskum.  Færeyingarnir höfðu keypt og borgað flugmiða frá netsíðu sem var horfin.  

  Verðið hjá platsíðunni var aðeins þriðjungur af verði alvöru ferðaskrifstofu,  rösklega 35 þúsund kall á kjaft.  Það eru góð kaup.  En ekki farsæl þegar upp er staðið.  Nú voru góð ráð dýr.  Það var ekki um annað að ræða en kaupa nýjan miða á 120 þúsund kall. 

  Góðu fréttirnar eru að af þessu má læra:  Ekki kaupa utanlandsferð af öðrum en vel þekktum flugfélögum og ferðaskrifstofum. Fólk er alltaf að læra.  Það er leikur að læra.

 


Veitingaumsögn

hrefnusteikin í Bike Cavekrossarar 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  - Réttur:  Hrefnusteik

  - Veitingastaður:  Bike Cave,  Skerjafirði

  - Verð:  2495,-

  - Einkunn: *****

  Þeir eru ekki margir veitingastaðirnir sem bjóða upp á hvalkjöt.  Þeim mun meira fagnaðarefni er að boðið sé upp á hrefnukjöt í Bike Cave í Skerjafirði.  Ennþá meira fagnaðarefni er hvað steikin og meðlæti eru mikið lostæti.

  Kjötið er marinerað til margra daga.  Það er síðan kryddað kryddblöndunni frábæru "Best á nautið" og snöggsteikt. Ytra lag dökknar og fær ljúfengt steikarbragð.  Í miðju er kjötið fallega rautt án þess að vera blóðugt.  Allt lungnamjúkt.

  Meðlæti er ferskt salat, krossarar og bearnaise-sósa.  Jarðaber gefa salatinu skarpt frískandi bragð.  Krossarar eru náskildir frönskum kartöflum.  Þetta eru skarpkryddaðar (ég greindi papriku, salt og pipar) djúpsteiktar kartöflur.  Þær eru mun bragðbetri en hefðbundnar franskar.  Stökkar (crispy) í gegn. Toppurinn yfir i-ið er bearnaise-sósan.  Hún er ekki venjuleg.  Þetta er verðlaunuð sósa,  uppskrift Hjördísar Andrésdóttur verts og listakokks á Bike Cave.  Besta bearnaise-sósa sem ég hef smakkað. Blessunarlega að mestu laus við smjörbragðið (sem háir iðulega bearnaise-sósum).       

  Ég mæli eindregið með hrefnusteikinni í Bike Cave í Skerjafirði. Hún er sælkeramáltíð.

--------------------------------------------------------

  Fleiri veitingaumsagnir má finna með því að smella HÉR

 


Snöfurleg redding í Skagafirði

  Fjölskylda í Reykjavík átti leið til Akureyrar.   Það var áð í Varmahlíð.  Þar var snæddur ágætur heimilismatur.  Þegar halda átti ferð áfram uppgötvaðist að í ógáti höfðu bíllyklar verið læstir inni í bílnum.  Neyðarráð var að kalla út íbúa í Varmahlíð,  Rúnar frá Sölvanesi.  Hann er þekktur fyrir að geta opnað allar læsingar.  Honum brást ekki bogalistin fremur en áður og síðar.  Hægt og bítandi þvingaði hann dyrarúður niður og tróð vírsnöru að hurðalæsingatakka. Þar herti hann á snörunni og dró takkann upp.  Þetta er snúnara en það hljómar þar sem takkar eru uppmjóir.    

  Ég fylgdist ekki náið með.  Sá út undan mér að hann hljóp á milli hurða og kannaði hvar rúður voru eftirgefanlegastar.  Ég spanderaði ís á fjölskylduna á meðan Rúnar kannaði möguleika.  Þetta er þolinmæðisvinna.  Skagfirðingar eru aldrei að flýta sér.  Eftir drykklanga stund gekk ég út að bílnum.  Rúnar hafði þá hamast töluvert á hurðunum farþegamegin.  Nú var hann byrjaður að hamast á hurðunum bílstjóramegin.

  Ég gekk að framhurð farþegamegin og tók fyrir rælni í hurðarhúninn.  Dyrnar opnuðust þegar í stað.  Ég kallaði á Rúnar:  "Hey,  dyrnar eru opnar!"  Hann kallaði til baka þar sem hann baksaði við bílstjórahurðina:  "Ég veit það.  Ég er búinn að ná báðum hurðunum þarna megin opnum.  Ég er alveg við það að ná hurðunum hérna megin líka opnum!


Svívirðileg framkoma

  Hjálparsveitir,  björgunarsveitir og eiginlega allar sveitir - líka lúðrasveitir - vinna gott starf hérlendis (og víðar).  En ekki alltaf óaðfinnanlegt starf,  þrátt fyrir eflaust góðan hug.  Mörgum er illilega brugðið við fréttaflutning af frönskum ferðamanni sem björgunarsveitir Landsbjargar fundu á Hornströndum.  Að honum var veist og tilraun gerð til að troða upp í hann ógeðstuggu af útlendu ullabjakki sem kallast Snickers.

  Vitaskuld varðist nýfundni Frakkinn fimlega.  Það hefði næstum því verið meiri mannsbragur af því að bjóðast til að æla upp í hann máltíðum síðustu tveggja daga.  

  Það er forkastanlegt að íslensk björgunarsveit þrammi um óbyggðir og ógni  rammvilltum útlendum strandaglópum með útlendum viðbjóði.  Hvað segir Guðni Ágústsson við þessu?  Hvar er harðfiskurinn með rammíslensku smjöri (nýhækkað í verði um tæp 12%)?  Hvar er metnaðurinn?  Hvar er Nóa konfektið með fallegum myndum af íslenskri náttúru?  Besta konfekt í heimi?      

nóa konfekt 

 

 

 

 

viking pizza


mbl.is Afþakkaði Snickers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarlegur happdrættisvinningur

 Á sjöunda áratugnum - og eflaust fyrr og síðar - urðu flokksbundnir í Sjálfstæðisflokknum sjálfkrafa áskrifendur að árlegum happdrættismiða flokksins.  Þar á meðal foreldrar mínir.  Svo bar til að einn miðaeigandi,  Grétar á Goðdölum í Skagafirði, fékk langlínusímtal frá Reykjavík.  Erindið var að tilkynna honum að hann hefði unnið glæsibifreið í happdrættinu.

 Á þessum tíma,  á fyrri hluta sjöunda áratugarins,  var heilmikið mál að ferðast landshluta á milli. Helsta ráð var að leita uppi vörubíl á leið suður.  Björninn var ekki unninn þegar komið var til höfuðborgarinnar.  Þá var eftir að finna hótel og gistingu næstu daga.  Það skaust enginn eina dagstund suður og til baka samdægurs. Í bestu færð við góð skilyrði fór dagurinn í ferð aðra leið.

  Farið til Reykjavíkur fékk Grétar á föstudegi.  Sanngjarnt þótti að hann tæki þátt í bensínkostnaði við ferðina.  Þar við bættist að það sprakk á tveimur dekkjum á leiðinni með tilheyrandi kostnaði.  Þetta var í tíð gúmmíslöngunnar og dekk voru fljót að étast upp á grófum malarvegum.  Farþeginn deildi kostnaði af hrakförunum með vörubílstjóranum.  Útgjöldin voru ekki óvænt.  Svona var þetta fyrir hálfri öld.

  Kominn til Reykjavíkur naut Grétar aðstoðar leigubílstjóra við að finna rándýra gistingu næstu örfáa daga. Hann gisti á Hótel Sögu.  Það var gaman.  Um helgina voru dansleikir á hótelinu.  Matartímar á Grillinu á Hótel Sögu voru glæsilegar veislur en dýrar.  

  Á mánudeginum mætti Grétar glaður og hamingjusamur á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins til að veita glæsibifreið móttöku.  Þá kom babb í bátinn.  Happdrættismiðinn sem hann framvísaði passaði ekki við vinningsnúmerið.  Þar skeikaði síðasta tölustaf. Við nánari athugun kom í ljós að bróðir Grétars,  Borgar,  átti vinningsmiðann.  Borgar bjó einnig í Goðdölum.

  Aldrei var fyllilega upplýst hvað fór úrskeiðis.  Kannski víxluðustu happdrættismiðar bræðranna þegar þeir voru póstlagðir.  Líklegra þótti þó að lélegt og frumstætt símasamband ætti sök að máli.  Hringja þurfti frá einni símstöð til annarrar til að koma á símtali.  Ein símadama þurfti að biðja aðra um að ná sambandi við þann sem kallaður var til.  Nafnið Borgar á Goðdölum varð við þessi skilyrði Grétar á Goðdölum.  Hugsanlega spilaði inn í að Grétar fékk oft langlínusímtöl en ekki Borgar.  

  Spenningurinn og tilhlökkun Grétars við að eignast nýjan bíl breyttist í spennufall.  Bílar voru ekki á öllum heimilum,  eins og í dag.  Hlutfallslega voru bílar miklu dýrari og meiri lúxus.  Grétar var gráti nær.  Að auki var hann að eyða mörgum dögum í ferðalagið,  mikilli fyrirhöfn og heilmiklum útgjöldum í platferð suður.

  Næsta skref var að á skrifstofu flokksins var hringt í Borgar.  Hann var upplýstur um stöðu mála.  Hann þurfti ekki að framvísa happdrættismiðanum.  Númer miðans var skráð á hann.  Er leið á símtalið var Grétari rétt tólið.  Hann sagði síðar þannig frá:  "Það var eins og nudda salti í sárið þegar Borgar bað mig um að grípa bílinn með norður fyrst að ég væri á norðurleið hvort sem er."

  Næstu ár bjó Grétar við það að horfa upp á glæsikerru Borgars í heimreiðinni á Goðdölum.  Á þeim tíma voru aðeins gamlir jeppar á öðrum sveitabæjum.  Ef þar var bíll á annað borð.

chervolett

    


mbl.is Framhaldsskólakennari vann Mercedes-Benz
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bíll og sími eiga ekki samleið

 

bíll og sími a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Það er bannað að tala í "ófrjálsan" síma og stjórna bíl á sama tíma.  Við brot á lögum þar um liggur sekt.  Sennilega fimm eða tíu þúsund kall.  Samt fer næstum því enginn eftir þessu.  Enda hafa rannsóknir í útlöndum leitt í ljós að það er enginn munur á einbeitingu ökumanns hvort heldur sem hann talar í handfrjálsan síma eða heldur á honum við eyrað.  

  Þar fyrir utan er refsilaust að tala í talstöð og stjórna bíl á sama tíma.  Næsta víst er að það truflar einbeitingu ökumanns jafn mikið og þegar blaðrað er tóma vitleysu í síma.

  Sömuleiðis er refsilaust að senda sms eða djöflast í snjallsíma og aka bíl á sama tíma.  Engu að síður má ætla að það trufli einbeitingu við akstur miklu meira en kjaftæði í síma. Ef ekki verður tekið snöfurlega á þessu og fólk láti þegar í stað af glannaskapnum verður þess ekki langt að bíða að óhapp verði í umferðinni.

bíll og sími bbíll og sími cbíll og sími dbíll og sími hbíll og sími ibíll og sími g   


mbl.is „Sé bíl koma fljúgandi á móti mér“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævintýri í Skerjafirði

bike cave innréttingar

 

 

 

 

 

 

 

 

  Þegar ekið er eftir Suðurgötu í átt að Reykjavíkurflugvelli er ástæða til að beygja ekki inn Þorragötu heldur halda áfram sem leið liggur að Einarsnesi.  Sama skal gera þegar ekið er eftir Njarðargötu.  Nema í því tilfelli er best að beygja til hægri við Þorragötu og til vinstri þegar komið er að Suðurgötu.

  Við Einarsnes stendur ævintýralegasta veitingahús landsins,  Bike Cave.  Nafnið eitt og sér (hjólahellir) staðfestir að þetta er ekki hefðbundið veitingahús.  Samt er það afskaplega "kósý" og heimilislegt í aðra röndina.  En líka "töff" og "öðruvísi" í hina röndina.

bike cave vespurbike cave fyrir utan 

 

 

 

 

 

 

 

  Þegar komið er að húsinu vekur athygli að fyrir utan er fjöldi mótorhjóla.  Aðallega svokallaðar vespur.  Þegar inn er komið blasa við allskonar hlutir sem tengjast viðgerðum á hjólum.  Á gafli hússins er stór rennihurð.  Stærstu mótorhjól komast lipurlega inn í hús.

  Veitingahúsið Bike Cave er nefnilega einnig hjólaverkstæði.  Verkstæði þar sem hjólatöffarinn gerir sjálfur við hjólið sitt með bestu græjum (lyfta,  hjólastandur, dekkjavél,  jafnvægistillingarvél,  stærsta og fullkomnasta verkfærakista...) og varahlutum og getur notið aðstoðar fagmanns á staðnum.  Reynslan hefur kennt að gestum þykir sömuleiðis gaman að hlaupa undir bagga.  Í Bike Cave eru allir ein stór fjölskylda.  

bike cave mótorhjól  

 

 

 

 

 

 

 

  Ástæðan fyrir vespunum fyrir utan Bike Cave er sú að veitingahúsið er líka reiðhjóla- og vespuleiga.  Staðurinn er í göngufæri frá Reykjavíkurflugvelli.  Það er bráðsniðugt fyrir ferðamenn utan af landi - eða útlendinga - að hefja Reykjavíkurdvöl á því að fá vespu hjá Bike Cave.  Þaðan í frá er leigubílakostnaður úr sögunni en auðvelt að skottast út um allt á litlu vespunni.  

   Margt fleira er í boði í Bike Cave.  Til að fátt eitt sé nefnt má tiltaka að þar er þvottavél og þurrkari. Svokallað "laundromat".  Viðskiptavinurinn hendir í þvottavél,  sest síðan niður með kaffibolla og gluggar í dagblöð og hjólatímarit sem liggja frammi.  Eða fer í internet í tölvu staðarins.

  Risastór flatskjár er á vegg.  Hann nýtur vinsælda meðal gesta þegar íþróttaviðburðir eru í beinni útsendingu.

bike cave píanó

 

 

 

 

 

 

 

 

  Í einu horni staðarins er "svið" (ekki upphækkað),  "diskókúla" og hljóðkerfi með hljóðnema - og píanó í grennd.  Þarna troða upp trúbadorar og hver sem er.  Upplagt fyrir nýliða (leikmenn) til að spreyta sig fyrir framan áheyrendur;  vini og kunningja.   

bike cave kjötsúpa

 

 

 

 

 

 

 

 

  Þar fyrir utan:  Þetta er veitingahús.  Eitt ódýrasta og besta veitingahús landsins.  Dæmi:  Ljúffeng kjötsúpa kostar 995 kr.  Til samanburðar kostar kjötsúpudiskurinn 1200 kr. í kaffiteríu Perlunnar, 1490 kr. í Café Adesso,  1590 kr. í Kænunni og 1790 kr. í Matstofunni Höfðabakka.

 Matseðil Bike Cave má sjá með því að smella HÉR  bike cave sukkulaðikaka

 


Aldrei flugvöllur í Hvassahrauni

  Á árum áður kvörtuðu ferðamenn hástöfum undan gríðarlegu og stöðugu hvassviðri í hrauninu á milli Voga á Vatnsleysuströnd og Hafnarfjarðar. Alla tíð síðan hefur hraunið gengið undir nafninu Hvassahraun. Það er í dag formlegt heiti hraunsins.  

 Nú ber svo til að rokrassgatið í hrauninu hefur ratað í fréttir dagsins.  Svokallaður stýrihópur,  einnig kallaður Rögnunefnd,  ber ábyrgð á því.  Í stýrihópnum er enginn flugmaður.  Enginn flugkennari.  Enginn læknir af bráðamóttöku.  Enginn fulltrúi landsbyggðarinnar.  Enginn notandi innanlandsflugs.  Enginn rokkari.  

   Hópurinn telur nokkra ágæta andstæðinga Reykjavíkurflugvallar.  Ljúfa embættismenn sem aldrei eiga erindi með flugvél út fyrir 101 Reykjavík.  En troðast fremstir í flokki þegar utanlandsferðir eru í boði.  Þeim fylgja feitir dagpeningar í útlöndum.

  Rögnunefnd amatöranna hefur boðað að vænlegasti kostur sé að flytja Reykjavíkurflugvöll til Hvassahrauns.  Rökin eru rýr,  illa útfærð og eiginlega út í hött.  

  Inn í dæmið vantar að Reykvíkingar hafa ekkert með Hvassahraun að gera.  Það er bratt að ráðstafa Reykjavíkurflugvelli til niðursetningar í önnur sveitarfélög að þeim forspurðum.  Íbúar og ráðamenn í Vogum á Vatnsleysuströnd eru ekkert á þeim buxum að leggja hraunið undir flugvöll fyrir Reykvíkinga.  Þeir vilja frekar fá álver.  Það hefur ólyginn Vogabúi sagt mér.

  Þar fyrir utan:  Allur kostnaður við flutning Reykjavíkurflugvallar til Hvassahrauns er vanreifaður.  Flutningurinn myndi kosta gríðarleg útgjöld við gatnamál til og frá Reykjavík.  Innanlandsflug myndi að mestu leggjast af.  Það færi allt í klessu. Reynsla er af beinu flugi á milli Keflavíkur og Akureyrar.  Þegar sú staða er uppi kjósa flestir fremur að keyra á milli.  Með tilheyrandi sliti og álagi á þjóðvegi.  Allt eftir því.  Sem skiptir svo sem engu máli.  Það verður aldrei lagður flugvöllur í Hvassahrauni.  Hvað kostaði Röggunefndin?  Af hverju er himinninn blár?  


Hér færð þú nýsteikta kótelettu og meðlæti

kótelettur

  Um helgina fór fram á Selfossi hátíðin Kótelettan 2015. Þriggja daga hátíð helguð kótelettunni.  Hugmyndin er góð.  Framkvæmdin var líka hin besta í alla staði.  Skilst mér.  Kótelettuunnendur lögðu land undir fót frá öllum landshornum.  Sumir færðu til sumarfrí sitt og utanlandsferðir til að komast í kótelettubita.  Einn kunningi minn brosir allan hringinn eftir helgina.  Hann náði ókeypis munnbita af gómsætu lambakjöti og náði að auki að kaupa heila nýsteikta kótelettu á aðeins 500 kr.  Akstur hans til og frá Keflavík var þess virði.  "Veðrið var líka frábært," sagði hann.

  Fæstir vita að á góðum degi er mögulegt að komast í kótelettu á nokkrum veitingastöðum á höfuðborgarsvæðinu.  Þar á meðal á þessum stöðum:

Kænan,  Hafnarfirði.  Verð 175cotelette0 kr.

Matstofan Höfðabakka.  Verð 1790 kr.

Pítan,  Skipholti.  Verð 2195 kr.

Múlakaffi  2250 kr.

Fljótt og gott á BSÍ  2890 kr.  

  Á öllum veitingastöðunum nema Pítunni eru kóteletturnar með raspi.  Ég held að það sé séríslensk útgáfa.  Að minnsta kosti hef ég ekki séð kótelettu í raspi í útlöndum.  kótelettur með raspi

  Á Pítunni eru kóteletturnar bornar fram með bakaðri kartöflu og fersku salati. Á hinum stöðunum fylgir þeim salatbar, soðnar kartöflur, súpa, brauð og kaffi.  Mjög lystugir fá ábót.

  Á Pítunni og Fljótt og gott eru kótelettur í boði alla daga.  Á hinum stöðunum er það tilfallandi.  Hægt er að fylgjast með því á heimsíðum þeirra og Fésbókarsíðum.

  Á BSÍ eru kaldar kótelettur afgreiddar í bílalúgu allan sólarhringinn.  Verðið er 2250 kr.

 

  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband