Færsluflokkur: Ferðalög
30.1.2016 | 15:40
Færeyskt veitingahús á Íslandi
Eftir röskan mánuð, í mars, munu Færeyingar opna nýjan veitingastað hérlendis. Hann verður í fimm kílómetra fjarlægð frá miðbæ Reykjavíkur. Nánar tiltekið á Grensásvegi 10. Súper staðsetning.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Færeyingar koma nálægt matseld á Íslandi. Marentza Poulsen (systir Elisar Poulsen) hefur í áratugi fóðrað svanga Íslendinga. Frá því á síðustu öld hefur hún rekið af rausnarskap Flóruna, veitingastað í Grasagarðinum í Laugardal.
Á Laugavegi 170 er rekin færeyska Smurbrauðsstofa Sylvíu. Árlega er þar boðið upp á færeyska viku. Þá er á borðum bragðsterk og matarmikil færeysk ræstkjötsúpa ásamt brauði með ýmiskonar færeysku áleggi. Þar á meðal skerpukjötinu góða.
Af og til eru spennandi færeyskir dagar í Fjörukránni. Þá kokkar einn af heimsins bestu kokkum, Birgir Enni, færeyskar kræsingar af einskærri snilld. Birgir er föðurbróðir tónlistarmannanna vinsælu Brands Enni og Tróndar Enni.
Færeyingarnir sem blanda sér í veitingahúsaflóruna á Íslandi í mars opnuðu í fyrra veitingastaðinn Angus Steakhouse í Þórshöfn í Færeyjum. Frá fyrsta degi hefur verið troðið út úr dyrum. Þar á meðal hafa íslenskir túristar fjölmennt, tekið hraustlega til matar síns og komið dag eftir dag. Fá aldrei nóg af því góða.
Eðlilegt næsta skref til að koma til móts við íslenska aðdáendur er að opna útibú í Reykjavík.
Angus Steakhouse tilheyrir samnefndri enskri matsölukeðju. Enskir kokkar hafa almennt ekki hrifið Íslendinga. Öfugt við færeyska kokka. Í því liggur stóri munurinn. Færeyingar kunna þetta.
Ferðalög | Breytt 5.2.2016 kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.1.2016 | 10:26
Þorir þú að kaupa bíl af þessum manni?
Þannig er oft spurt þegar heiðarleiki og trúverðugheit einhvers eru til umræðu. Nú er spurt svona að gefnu tilefni. Fíat páfans er til sölu þessa dagana. Um er að ræða smábílinn Fiat 500L. Hann er skráður á götu 2015 og nánast ekkert keyrður; bara í rólegheita vikurúnt um New York, Fíladelfíu og Washington DC. Hvorki hefur verið reykspólað á bílnum né brunað á ofsaakstri yfir hraðahindranir.
Fullyrt er að páfi hafi gengið vel um bílinn. Hvorki reykt inni í honum né djammað að ráði.
Númerið er SCV 1.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 10:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.1.2016 | 22:22
Hvert skal halda 2016?
Breska dagblaðið Daily Mail hefur tekið saman lista yfir heitustu staðina til að heimsækja 2016. Heitustu í merkingunni girnilegustu, ætla ég. Listinn spannar tíu staði. Hver um sig er kynntur með fögrum orðum. Sannfærandi rök eru færð fyrir veru þeirra á listanum. Það er ekki gert upp á milli áfangastaða í uppröðun í sæti.
Að sjálfsögðu trónir Ísland á listanum. Fyrirsögnin er Iceland´s Warm Front (Íslands heita framhlið). Landinu er lýst sem afar framandi undri. Þar megi finna staði sem gefi þá upplifun að maður sé staddur á tunglinu. Höfuðborgin, Reykjavík, sé umkringd töfrandi fossum, jöklum, eldfjöllum og norðurljósum.
Mælt er með því að ferðamenn tjaldi úti í íslenskri náttúru. Þeir skuli þó einnig gefa sér góðan tíma til að ræða við innfædda. Viðhorf Íslendinga til lífsins og tilverunnar séu "ja, öðruvísi" (well, different).
Vísað er á tilboðsferð til Íslands með Easy Jet. Flug og vikudvöl á 3ja stjörnu Bed & Breakfast kosti rösklega 77 þúsund kall (412 pund). Það er assgoti girnilegur pakki. Geta Wow og Icelandair ekki boðið betur?
Daily Mail klikkar á að nefna goshverina, álfabyggðir og Bláa lónið. Alveg á sama hátt og í annars ágætu myndbandi, Inspired by Iceland, vantar sárlega álfa og norðurljós.
Hinir staðirnir sem Daily Mail mæla með eru: Noregur, Þýskaland, Bali, Sri Lanka, Ibiza, Perú, Verona, Mozambik og Bequia. Enginn jafn spennandi og Ísland.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.1.2016 | 21:59
Fólskuleg árás
Sólin skein samviskusamlega upp á hvern dag í Alicante. Það var hlýtt og notalegt. Það var ljúft að sitja úti á gangstétt með einn til tvo kalda á kantinum. Njóta sólarinnar og hugsa til Íslands. Sjá fyrir sér íslenska snjóskafla, hrímaðar bílrúður og frostbarða Íslendinga.
Ég sat aldrei á sjálfri gangstéttinni heldur á stól. Síðdegis þrengdust kostir. Verslunum og veitingastöðum var lokað hverjum á fætur öðrum í tvo til þrjá klukkutíma í senn. Sumum klukkan eitt. Öðrum klukkan tvö. Þá voru Spánverjar að taka sinn reglubundna síðdegislúr. Svokallaðan "síesta". Mér varð að orði:
Spánverjar spígspora um götur
og spjalla um allt það besta
sem á dagana hefur drifið
og dorma svo í síesta.
Rannsóknir hafa sýnt að síðdegislúrinn sé hollur. Í honum hleður líkaminn batteríin svo munar um minna. Þetta vissu íslenskir bændur fyrr á tíð.
Fyrstu nóttina í Alicante varð ég fyrir fólskulegri árás. Ég varð þó ekki var við neitt fyrr en að morgni. Þá sá ég að moskítóflugur höfðu bitið mig. Fyrst voru bitsárin varla sýnileg. En þeim fylgdi kláði. Á næstu dögum urðu þau sýnilegri: Dökknuðu, stækkuðu, urðu dökkrauð og upphleypt. Kláðinn jókst og bitsárum fjölgaði á hverri nóttu.
Moskítóflugan er lúmsk. Hún felur sig. Bíður eftir ljósaskiptum og því að fórnarlambið sofni. Þá fer hún á stjá. Í svefnrofanum má heyra lágvært suð frá henni á flugi. Hún notar deyfiefni til að fórnarlambið verði einskis vart er hún sýgur úr því blóð.
Til að alhæfa ekki í óhófi þá er rétt að taka fram að karlflugan áreitir enga. Einungis kvenflugan.
Á heimleið var ég alsettur bitförum. Húðin líktist yfirborði pizzu. Það neyðarlega er að ég rek litla heildsölu og sel apótekum öfluga bitvörn í nettu úðaspreyi, Aloe Up Insect Repellent. Ég hafði enga rænu á að grípa hana með mér til Spánar. Í apótekum í Alicante fann ég "roll on" sem átti að gera sama gagn. Það gerði ekkert gagn. Nema síður sé. Sólvarnarkrem í þarlendum apótekum eru sömuleiðis algjört drasl.
Ég ráðlegg væntanlegum Alicante-förum að grípa með sér frá Íslandi góðar sólarvörur og bitvörn. Ekkert endilega Aloe Up, Banana Boat eða Fruit of the Earth. Eða jú.
Ferðalög | Breytt 9.1.2016 kl. 09:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.1.2016 | 19:19
Ævintýri í Suðurhöfum
Fyrir jól var veðurspá kaldranaleg. Vetrarhörkur voru boðaðar; hörkufrost á fróni. Viðbrögð mín voru þau að flýja suður um höf. Veðurspá fyrir Alicante á Spáni var notaleg, 16-20°. Í þann mund er ég hélt upp á flugvöll ræddi ég við systir mína, búsetta á Spáni. Hún benti mér á að hitatalan segi aðeins hálfa sögu. Vegna loftraka sé kaldara en ætla megi. 16-20° hiti í Alicante bjóði ekki upp á stuttbuxur og hlýrabol.
Ég skellti þegar á mig hnausþykkri prjónahúfu, vafði trefli um háls, tróð mér í lopapeysu, föðurland og fóðraða leðurhanska. Kuldaúlpa með loðfóðraðri hettu tryggði að ekki myndi slá að mér.
Á flugvellinum í Alicante var ég best dúðaður af öllum. Enginn var léttklæddur. Enda gustur úti. Verra var að enginn talaði ensku. Hinsvegar hefur fólkið þarna náð tökum á spænsku. Sérlega var aðdáunarvert að heyra hvað ung börn tala góða og fumlausa spænsku. Það kom mér ekki að gagni. Ég kann ekki spænsku.
Vandræðalaust fann ég strætó sem samkvæmt korti átti leið að hlaðvarpa gistiheimilis míns. Þegar á reyndi stoppaði hann fjarri áfangastað. Allir farþegar yfirgáfu vagninn möglunarlaust. Nema ég. Bílstjórinn talaði ekki ensku fremur en aðrir. Hann brá sér í hlutverk ágæts látbragðsleikara þegar ég kvartaði undan því að vagninn væri ekki kominn á áfangastað. Um leið ýtti hann lauslega við mér til að koma mér út úr vagninum. Það gekk treglega framan af. Svo var eins og skepnan skildi. Ljóst var að vagninn færi ekki lengra. Kannski var þetta síðasti vagn leiðarinnar. Klukkan nálgaðist miðnætti.
Ég skimaði þegar í stað eftir stóru hóteli. Þar er yfirleitt hægt að finna leigubíl. Sem gekk eftir. Leigubíllinn kostaði 700 ísl. kr. Ég hefði alveg eins getað tekið leigubíl frá flugstöðinni. Strætóinn kostaði 540 ísl. kr.
Innritunarborð gistiheimilis míns lokar á miðnætti. Ég rétt slapp inn í tæka tíð. Fyrsta fólkið sem ég hitti á gistiheimilinu var ungt íslenskt par, Ásthildur og kólumbískur Íslendingur. Einu Íslendingarnir sem ég hitti á Alicante.
Meira á morgun.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.11.2015 | 10:19
Hvergi sér fyrir enda á flóttamannastraumnum
Ört vaxandi straumur flóttafólks flæðir yfir alla Evrópu. Jafnvel fleiri heimsálfur ef vel er að gáð. Þessi þróun hefur þegar skapað ótal vandamál af öllu tagi. Sífellt bætast fleiri vandamál í hópinn. Bara á þessu ári - á fyrstu níu mánuðum þess - hafa hátt á fjórða þúsund Íslendingar flutt til útlanda. Flúið skuldabagga, vaxtaokur, húsnæðisvandræði, spillingu, brostnar vonir og hringlandahátt. Meðal annars með reisupassa.
Uppistaðan af íslenska flóttamannastraumnum er ungt fólk. Kraftmikið, atorkusamt og vel menntað. Það er gríðarlegt tjón fyrir þjóðfélagið að missa flóttafólkið út úr íslenska atvinnumarkaðnum. Þetta hefur þegar skapað illvígan skort á iðnaðarmönnum. Þetta er vinnandi fólk sem á í heilbrigðu þjóðfélagsástandi að standa undir ellilífeyrisgreiðslum, rekstri hjúkrunarheimila og allskonar.
Eina ráðið til að stoppa upp í götin er að lokka með einhverjum ráðum til Íslands fólk frá öðrum löndum.
![]() |
Fjöldi Íslendinga flytur úr landi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.10.2015 | 23:14
Varúð! Ekki kaupa falsaða flugmiða!
Það er ósköp einfalt og auðvelt að kaupa á netinu flugmiða til útlanda með Wow eða Icelandair. Og líka til baka ef að sá gállinn er á manni. Hitt er verra: Þegar farið er út fyrir þægindarammann. Miði keyptur á netinu af útlendu flugfélagi. Ekki er alltaf allt sem sýnist. Í útlöndum felur vont fólk sig innanum gott fólk. Það beitir brögðum til að féfletta saklausa flugfarþega.
14 manna hópur Færeyinga lenti í svikahröppum. Hópurinn var á leið til Rúmeníu. Hafði keypt flugmiða á netinu. Fyrst var flogið frá Færeyjum til Kaupmannahafnar. Við innritun í tengiflug frá Kaupmannahöfn kom babb í bátinn. Bókað og þegar borgað flug til Rúmeníu kom ekki fram í tölvubúnaði á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn.
Færeyski hópurinn var með kvittanir fyrir kaupum á flugmiðunum. Þetta virtist allt vera samkvæmt bókinni. Nema að kaupin á flugmiðunum skiluðu sér ekki inn í innritunarkerfið á Kastrup.
Sérfræðingar á tölvusviði Kastrup voru kvaddur til. Í ljós kom að Færeyingarnir höfðu lent í klóm á glæpamönnum. Sennilega rúmenskum. Færeyingarnir höfðu keypt og borgað flugmiða frá netsíðu sem var horfin.
Verðið hjá platsíðunni var aðeins þriðjungur af verði alvöru ferðaskrifstofu, rösklega 35 þúsund kall á kjaft. Það eru góð kaup. En ekki farsæl þegar upp er staðið. Nú voru góð ráð dýr. Það var ekki um annað að ræða en kaupa nýjan miða á 120 þúsund kall.
Góðu fréttirnar eru að af þessu má læra: Ekki kaupa utanlandsferð af öðrum en vel þekktum flugfélögum og ferðaskrifstofum. Fólk er alltaf að læra. Það er leikur að læra.
Ferðalög | Breytt 23.9.2016 kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.9.2015 | 22:18
Veitingaumsögn
- Réttur: Hrefnusteik
- Veitingastaður: Bike Cave, Skerjafirði
- Verð: 2495,-
- Einkunn: *****
Þeir eru ekki margir veitingastaðirnir sem bjóða upp á hvalkjöt. Þeim mun meira fagnaðarefni er að boðið sé upp á hrefnukjöt í Bike Cave í Skerjafirði. Ennþá meira fagnaðarefni er hvað steikin og meðlæti eru mikið lostæti.
Kjötið er marinerað til margra daga. Það er síðan kryddað kryddblöndunni frábæru "Best á nautið" og snöggsteikt. Ytra lag dökknar og fær ljúfengt steikarbragð. Í miðju er kjötið fallega rautt án þess að vera blóðugt. Allt lungnamjúkt.
Meðlæti er ferskt salat, krossarar og bearnaise-sósa. Jarðaber gefa salatinu skarpt frískandi bragð. Krossarar eru náskildir frönskum kartöflum. Þetta eru skarpkryddaðar (ég greindi papriku, salt og pipar) djúpsteiktar kartöflur. Þær eru mun bragðbetri en hefðbundnar franskar. Stökkar (crispy) í gegn. Toppurinn yfir i-ið er bearnaise-sósan. Hún er ekki venjuleg. Þetta er verðlaunuð sósa, uppskrift Hjördísar Andrésdóttur verts og listakokks á Bike Cave. Besta bearnaise-sósa sem ég hef smakkað. Blessunarlega að mestu laus við smjörbragðið (sem háir iðulega bearnaise-sósum).
Ég mæli eindregið með hrefnusteikinni í Bike Cave í Skerjafirði. Hún er sælkeramáltíð.
--------------------------------------------------------
Fleiri veitingaumsagnir má finna með því að smella HÉR
Ferðalög | Breytt 16.9.2015 kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
29.8.2015 | 20:31
Snöfurleg redding í Skagafirði
Fjölskylda í Reykjavík átti leið til Akureyrar. Það var áð í Varmahlíð. Þar var snæddur ágætur heimilismatur. Þegar halda átti ferð áfram uppgötvaðist að í ógáti höfðu bíllyklar verið læstir inni í bílnum. Neyðarráð var að kalla út íbúa í Varmahlíð, Rúnar frá Sölvanesi. Hann er þekktur fyrir að geta opnað allar læsingar. Honum brást ekki bogalistin fremur en áður og síðar. Hægt og bítandi þvingaði hann dyrarúður niður og tróð vírsnöru að hurðalæsingatakka. Þar herti hann á snörunni og dró takkann upp. Þetta er snúnara en það hljómar þar sem takkar eru uppmjóir.
Ég fylgdist ekki náið með. Sá út undan mér að hann hljóp á milli hurða og kannaði hvar rúður voru eftirgefanlegastar. Ég spanderaði ís á fjölskylduna á meðan Rúnar kannaði möguleika. Þetta er þolinmæðisvinna. Skagfirðingar eru aldrei að flýta sér. Eftir drykklanga stund gekk ég út að bílnum. Rúnar hafði þá hamast töluvert á hurðunum farþegamegin. Nú var hann byrjaður að hamast á hurðunum bílstjóramegin.
Ég gekk að framhurð farþegamegin og tók fyrir rælni í hurðarhúninn. Dyrnar opnuðust þegar í stað. Ég kallaði á Rúnar: "Hey, dyrnar eru opnar!" Hann kallaði til baka þar sem hann baksaði við bílstjórahurðina: "Ég veit það. Ég er búinn að ná báðum hurðunum þarna megin opnum. Ég er alveg við það að ná hurðunum hérna megin líka opnum!"
Ferðalög | Breytt 30.8.2015 kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.8.2015 | 22:01
Svívirðileg framkoma
Hjálparsveitir, björgunarsveitir og eiginlega allar sveitir - líka lúðrasveitir - vinna gott starf hérlendis (og víðar). En ekki alltaf óaðfinnanlegt starf, þrátt fyrir eflaust góðan hug. Mörgum er illilega brugðið við fréttaflutning af frönskum ferðamanni sem björgunarsveitir Landsbjargar fundu á Hornströndum. Að honum var veist og tilraun gerð til að troða upp í hann ógeðstuggu af útlendu ullabjakki sem kallast Snickers.
Vitaskuld varðist nýfundni Frakkinn fimlega. Það hefði næstum því verið meiri mannsbragur af því að bjóðast til að æla upp í hann máltíðum síðustu tveggja daga.
Það er forkastanlegt að íslensk björgunarsveit þrammi um óbyggðir og ógni rammvilltum útlendum strandaglópum með útlendum viðbjóði. Hvað segir Guðni Ágústsson við þessu? Hvar er harðfiskurinn með rammíslensku smjöri (nýhækkað í verði um tæp 12%)? Hvar er metnaðurinn? Hvar er Nóa konfektið með fallegum myndum af íslenskri náttúru? Besta konfekt í heimi?
![]() |
Afþakkaði Snickers |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)