Færsluflokkur: Ferðalög

Barlómur í Bretum

  Á dögunum skrapp ég til Englands.  Ég fann fyrir sterkri þörf til að kanna heilsufar Breta.  Ásamt því að taka púlsinn á bresku þjóðlífi.  Ekki nennti ég samt að setja mig inn í pólitíkina þar.  Nógu erfitt er að henda reiður á öllum þeim 15 framboðum sem við Íslendingar þurfum að velja á milli á laugardaginn. 

  Í stuttu máli þá snarbrá mér við að hlera barlóminn í Bretum.  Það er eins og allt sé að fara fjandans til hjá þeim.  Fátæklingum og útigangsmönnum fjölgar sem aldrei fyrr.  70 þúsund störf hafa horfið eins og dögg fyrir sólu frá síðustu mælingu.  Ég veit reyndar ekkert hvenær hún var gerð.  Atvinnuleysi er um 8%.  Heilbrigðiskerfið er í klessu.  Innan þess hefur störfum fækkað um 5 þúsund.  Ég veit ekki á hvað löngu tímabili.  Neyðarlínur eru í ólestri og 13 dauðsföll eru rakin til slælegra viðbragða sjúkrabíla við útkalli.  Í einhverju tilfelli var bið eftir sjúkrabíl 8 klukkutímar.

  Einhverjir kvörtuðu undan því að þurfa að lifa af 30 - eða hvort það var 40 - þúsund krónum á mánuði.  Ráðherra (eða kannski var það bara óbreyttur þingmaður) sagðist ekki sjá neina ástæðu til að vorkenna svoleiðis fólki.  Það væri leikur einn að lifa á 30 - 40 þúsund kalli á mánuði.  Sjálfur myndi hann léttilega treysta sér til þess.  Þessi yfirlýsing lagðist illa í marga.  

  Allskonar sjúkdómar herja á Breta.  Þeir stríða til að mynda við mislingafaraldur.  800 tilfelli á síðasta hálfa ári.  þar af eitt dauðsfall.  Um er kennt skorti á fyrirbyggjandi mislingasprautum.  Að mér skilst í og með vegna áróðurs gegn slíku.  Draugasögur eru á kreiki um að bólusetningar valdi einhverfu og drómasýki.  Bretar eru svo trúgjarnir. 

  Allskonar skattar eru að hellast yfir breskar fjölskyldur.  Eða hvort að þar er um að ræða niðurskurð á skattafrádrætti eða einhverju slíku.  Ég setti mig ekki inn í það.  Eitt fyrirbærið kallast grænn skattur (green tax).  Honum er ætlað að draga úr eldneytisbruðli.  Annað fyrirbæri kallast svefnherbergisskattur (bed tax).  Hann snýr að fjölskyldum með auka svefnherbergi (eða eitthvað álíka).  Það er grátið sárt undan honum.  Hann er um 120 þúsund kall á ári.  Margir telja sig muna um þá upphæð.  Svo mikið að þeir ráði ekki við hann og fjármál heimilisins séu í uppnámi. Eitthvað var um fjölmennar mótmælagöngur gegn svefnherbergisskattinum. 

  Hagvöxtur í ár er núll-komma-eitthvað.  

  Kennarar boða verkfall.  Líka starfsmenn Póstsins.  

  Mikill samdráttur er í hinni rótgrónu pöbbamenningu Breta.  Pöbbum fækkar að meðaltali um 18 á viku.   

  Ég er áreiðanlega að gleyma helmingnum af því sem Bretar væla sem mest undan um þessar mundir.  

  Góðu fréttirnar eru þær að breska konungsfjölskyldan hefur það gott.  Ég kann ekki skil á því fólki.  Gott ef einhver "meintur" sonur Kalla prins er ekki kominn með konu og börn. Fátt gleður Breta meira.

 


mbl.is Fátækum fjölgar í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland í 1. sæti yfir þau lönd sem best er að sækja heim

bestu lönd að sækja heim

  Í sunnudagshefti breska dagblaðsins Daily Mail er að finna áhugaverðan lista yfir þau lönd heims sem best er að sækja heim.  Listinn er einkar áhugaverður fyrir okkur Íslendinga.  Við elskum að ferðast.  Svona listi hjálpar okkur að velja næsta áfangastað.  Ennþá áhugaverðara fyrir okkur er að Ísland trónir í 1. sæti á listanum. 

  Fyrirsögn greinarinnar er:  "Vinalegustu lönd heims?  Nýtt heimskort leiðir í ljós að Ísland er svalasti staðurinn til að heimsækja í fríi (en reynið forðast Bólivíu)" 

  Í meginmálstextanum eru Íslendingar sagðir vera vingjarnlegasta fólk heims,  samkvæmt WEF (The World Economy Forum).  Verstu lönd að heimsækja eru:

140. sæti:  Bólivía

139.  Venesúela

138.  Rússland

137.  Kúveit

136.  Lettland

135.  Íran

134.  Pakistan

133.  Slóvakía

132.  Búlgaría

131.  Mongólía


Íslensk tónlist í London

  Á Oxford stræti í London er stærsta plötubúð í heimi.  Það þarf ekki að koma á óvart að hún sé jafnframt stærsta plötubúð HMV plötubúðakeðjunnar (sem telur á þriðja hundruð plötubúðir víða um heim).  Eins og aðrar plötubúðir hefur þessi við Oxford stræti látið verulega á sjá síðustu ár.  Jaðarmúsík er að mestu horfin úr hillum.  Heilu plöturekkarnir standa galtómir.  Eftir eru fyrst og fremst plötur sem ná hátt á vinsældalista og plötur flytjenda sem teljast í hóp þeirra stærstu og best þekktu. 

  Á árum áður tók marga klukkutíma að fletta í gegnum plötuúrvalið þarna.  Sú þolinmæðisvinna skilaði sér jafnan í kaupum á 50 - 60 plötum.  Í dag tekur rétt um klukkutíma að fletta í gegn.  Afraksturinn um páskana voru kaup á 11 plötum. 

  Eitt af því skemmtilega við að fletta í gegnum plötuúrval í útlendum plötubúðum er að rekast þar á plötur íslenskra flytjenda.  Í öllum slíkum búðum eru plötur Bjarkar, Sykurmolanna,  Sigur Rósar og Jónsa.  Svo og íslensk-ensku hljómsveitarinnar The Vaccins og íslenska nýbúans Johns Grants.  Þessi tvö nöfn,  The Vaccins og John Grant,  eru mjög stór á markaðnum og plötum þeirra stillt upp á áberandi stöðum í verslunum.

  Til viðbótar þessum nöfnum eru seldar í HMV við Oxford stræti plötur Ólafs Arnalds hljómsveitarinnar FM Belfast,  Röggu Gröndal,  Emilíönu Torrini og Ólöfu Arnalds.  Tvær plötur eru til sölu með Ólöfu.  Ég keypti aðra þeirra,  Ólöf Sings.  Hún kostaði 8 pund (x 188 = 1504 kr.).  Á limmiða á plötuumbúðum stendur:  "Ólöf Arnalds lends her distinctive voice to classics by Caetano Veloso,  Bruce Springsteen,  Arthur Russell & others.  Includes download coupon for four additional trancs and "Surrender" video directed by Árni & Kinski."

  Á þennan límmiða vantar upplýsingar um að á plötunni eru einnig lög eftir Bob Dylan,  Neil Diamond og Gene Clarke (úr The Byrds). 

  Í plöturekka var spjald merkt Röggu Gröndal.  Þar var hinsvegar enga plötu með Röggu að finna.  Annað hvort hefur plata með henni farið á flakk (verið sett á rangan stað) eða verið uppseld.  Flakkið er líklegra.  Venja er að fjarlægja merkt spjald þegar plata selst upp.  Nema von sé á henni fljótlega aftur. 

  Ég sá ekki plötu með Of Monsters And Men.  Kannski er sú hljómsveit ekki búin að ná inn á enska markaðinn.  Það er skrítið miðað við vænar vinsældir í Ameríku og á meginlandi Evrópu. 

  FM Belfast virðist vera með fast land undir fótum.  Þegar ég skrapp til Svíþjóðar um jólin sá ég að plata með þeim var til sölu í sænskum plötubúðum. 

  Í fyrra skrapp ég til Berlínar.  Þar var gott úrval af íslenskum plötum til sölu.  Þar á meðal með Ólafi Arnalds (5),  Benna Hemm Hemm (2),  Helga Rafn Jónssyni (3),  Gus Gus (3),  Seaber (2) og sitthvor platan með Sóleyju og Of Monsters And Men.  Og auðvitað hellingur með Björk,  Sykurmolunum,  Sigur Rós,  Jónsa og Emilíönu Torríni.

  Nokkrum dögum áður skrapp ég til Skotlands.  Þar var platan Ólöf Sings til sölu. 


Rottu- eða hundakjöt?

hundur 

  Ég dvaldi í góðu yfirlæti í London yfir páskana.  Það er gaman að rölta um Oxford stræti og nágrenni,  setjast inn í framandi veitingahús og smakka mat sem ekki er daglega á borðum í íslenskum veitingahúsum.  Smakka eitthvað annað en sviðakjamma,  hrútspunga og kjötfarsbollur.  Skemmtilegast er að finna í útlöndum kóresk,  grísk,  tyrknesk og kambódísk hlaðborð.  Eða bara einhver hlaðborð með torkennilegum mat. 

  Það er jafnan þétt setið í veitingastöðum í London.  Nema núna.  Indversk veitingahús voru eins og dauðs manns gröf.  Það sást varla hræða þar innan dyra.  Ástæðan er sú að rétt fyrir páska voru tekin sýni úr indverskum veitingastað.  Réttur sem var seldur undir heitinu Lambakjöt í karrý reyndist innihalda annað en lambakjöt.  Síðast þegar ég vissi var ekki komin niðurstaða í það af hvaða dýri kjötið er.  Þegar lá þó fyrir að það var hvorki af svíni, grasbít né fugli.  Helst þykir koma til greina að um sé að ræða kjöt af hundi, rottu eða ketti.   

  Lundúnabúum varð svo hvert við tíðindin að löngun þeirra í indverskan mat hvarf eins og dögg fyrir sólu.  Ég hreifst með múgnum og sniðgekk indverska veitingastaði að þessu sinni.  Bretar dustuðu rykið af flökkusögum um að rottur,  kettir og hundar á lausagöngu sjáist aldrei í nágrenni indversks veitingahúss.  Það sé eins og þau dýr hverfi fyrir galdra sakir um leið og indverskur veitingastaður opnar. 

rotta úr holræsicurry-served1    


mbl.is IKEA innkallar lasagna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Wow sló í gegn enn einu sinni!

 

 wow flugfreyjur

  Ég brá mér til Lundúnaborgar yfir páskana,  frjósemishátíð til heiðurs frjósemisgyðjunni Oester (Easter).  Það var ægilegur barlómur í Bretum.  Meira um það síðar.  Allt annað hljóð og jákvæðara var í flugáhöfn Wow.  Hún lék við hvern sinn fingur og reitti af sér vel heppnaða brandara.  Farþegar veltust um úr hlátri.  Þetta var í annað sinn sem ég ferðast með Wow til útlanda og aftur til baka.  Ég gerði skilmerkilega grein fyrir fyrri ferðinni.  Sjá:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1255933/ 

  Eins og þar kemur fram þá endurtóku flugfreyjur ekki sömu brandara á leið út og á heimleið.  Né heldur endurtóku þær sömu brandara í ávarpi á íslensku og ávarpi á ensku. 
  Engu að síður ætla ég að flugfreyjurnar nýti bestu brandarana oftar en einu sinni.  Það gera bestu uppistandarar.  Þeir nýta vel heppnaða brandara eins og og markaðurinn leyfir.  Það er einungis jákvætt.  Um að gera að leyfa sem flestum að njóta góðra brandara.
   Þegar ég innritaði mig á Flugstöðinni í Keflavík átti ég orðastað við miðaldra hjón,  mér ókunnug.  Þau höfðu einu sinni áður ferðast með Wow.  Þau voru ekki alveg jafn ánægð með brandara flugfreyjanna og ég.  Nefndu sem dæmi að flugfreyja hefði kynnt útgönguleiðir út frá þeim forsendum að ef farþegar væru óánægðir með þjónustuna um borð þá væru 8 útgönguleiðir.  Svo tiltók hún hvar þær voru.  
  "Það er ekki við hæfi að grínast með neyðardyr ef flugvél nauðlendir eða hrapar," sagði maðurinn alvörugefinn.  Mér þótti þetta hinsvegar mjög fyndinn brandari.  
  Í þessari annarri utanlandsferð minni með Wow reiknaði ég með að heyra "brot af því besta" frá ávarpi flugfreyja í fyrri ferðinni.  En, nei.  Það voru einungis nýjir brandarar og engu síðri.   
  Ég ætla ekki að endursegja þá.  Fyndni þeirra ræðst af stemmningu augnabliksins;  hvernig þeir eru sagðir við réttar aðstæður.  Meirihluti farþega var útlendingar.  Þeir urðu hissa á bröndurunum til að byrja með en skemmtu sér þeim mun betur þegar á leið. 
  Ein flugfreyjan fékk farþega til að fagna með áköfu lófataki 25 ára hjúskaparafmæli annarrar flugfreyju.  Þeirri stemmningu var fylgt eftir með tilkynningu um að Wow væri hraðfleygasta flugfélag í Evrópu.  Farþegar voru beðnir um að samfagna og sýna samstöðu með því að setja hendur á loft.  Og síðan með því að veifa höndum frá vinstri til hægri.  Því næst með því að ýta fast á sæti fyrir framan til að herða enn frekar á hraða flugvélarinnar og setja nýtt hraðamet.
  Farþegar létu sitt ekki eftir liggja.  Þeir lögðust fast á sætin fyrir framan sig eftir að hafa veifað höndum. 
  Flugfreyjan þakkaði fyrir góða þátttöku en upplýsti að flugvélin hafi ekki náð meiri hraða við þetta heldur hafi verið um 1. apríl hrekk að ræða.
  Ég efast um að þessi brandari skili sér á prenti.  En um borð hitti hann algjörlega í mark.  Hláturgusur gengu yfir farþegarýmið um leið og menn skömmuðust sín pínulítið fyrir að hafa "hlaupið" 1. apríl.  Til að enginn væri ósáttur vegna hrekksins var öllum farþegum gefið páskaegg.  Enginn var ósáttur.  Allir voru meira en sáttir og skemmtu sér vel. 
  Ég bar undir eina flugfreyjuna hvernig þetta væri með brandarana.  Hún svaraði:  "Við spilum það bara eftir hendinni.  Það er svo gaman þegar það er gaman.  Útlendir farþegar eru alltaf dálítið hissa til að byrja með.  Það er líka gaman."
  Ég er strax farinn að hlakka til næstu utanlandsferðar með Wow. 
    
 

Auðvelt að verjast bílaflakki

  Algengt er að bílar fari á flakk.  Þeir renna burt.  Þeir fjúka burt.  Þeir fljúga burt.  Þeim er stolið.  Það er til einföld aðferð sem kemur í veg fyrir öll slík óhöpp.  Aðferðin felst í því að leggja við ljósastaur eða aðra jarðfasta hluti og tjóðra bílinn rækilega við þá.  Til að mynda með því að kaupa ódýran reiðhjólalás.  Einhverjum kann að finnast það vera haldlítil vörn gegn bílaþjófum.  Auðvelt er að klippa reiðhjólalás í sundur.  Málið er að bílaþjófar eru heimskir.  Þeir fatta þetta ekki og sniðganga tjóðraða bíla.

  Það er líka hægt að bora með steinbor í malbikið og festa bílinn með böndum.

bill_festur_ni_ur.gif

bill_tjo_ra_ur.jpglitill_bill_me_storum_las.jpg


mbl.is Bíll flaug á hús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Anna Marta og fjölskyldugrafreiturinn á Hesteyri

AnnaMarta

  Anna Marta á Hesteyri var ekki aðeins náttúrubarn.  Mikið náttúrubarn.  Hún var einnig barn að sumu öðru leyti.  Ekki samt nævisti.  Alls ekki.  Móðir hennar var sérlunduð og eiginlega ekki alveg heil heilsu.  Hún talaði iðulega barnamál við Önnu fram eftir öllu.  Það leiddi til þess að Anna var með einkennilegan framburð.  Til að mynda sagði hún r þar sem á að vera ð í orðum.  Fyrir bragðið var hún af sumum þekkt undir nafninu Anna "góri minn". 

  Þó að Anna yrði dálítið stór og mikil um sig er hún fullorðnaðist hélt móðir hennar þeim sið að láta hana setjast á hné sér og greiddi henni eins og lítilli stelpu.  Hár Önnu var krullað og úfið og þolinmæðisverk að greiða það.

  Anna var jafnan jákvæð og ljúf.  Hún átti það samt til að snöggreiðast af litlu tilefni eins og óþekkt barn.  Þá hækkaði hún róm og varð verulega æst.  Eitt sinn er hún var í heimsókn hjá mér barst tal einhverra hluta vegna að Gvendi Jaka.  Ég lét einhver neikvæð orð um hann falla.  Það fauk svo í Önnu að hún spratt á fætur og hrópaði eða eiginlega hvæsti á mig að Guðmundur Jaki væri góður maður.  Í önnur skipti átti hún það til að æsa sig í símtölum vegna - svo dæmi sé tekið - þess að einhver hafði gagnrýnt Vigdísi fyrrverandi forseta. 

  Á Hesteyri er fjölskyldugrafreitur.  Þar hvíla meðal annars afi minn og amma.  Afi minn og faðir Önnu voru bræður.

  Eitt sinn áttu frændi minn og kona hans leið um Austfirði.  Þau ákváðu að heilsa upp á Önnu dagspart og skoða leiði afa okkar og ömmu.  Leiði þeirra reyndist vera í niðurníðslu,  eins og frændi minn reyndar vissi af áður.  Þess vegna mætti hann á Hesteyri með blóm til að gróðursetja á leiðin.  Jafnframt sló hann gras á leiðunum,  snyrti þau,  rétti af legsteina,  pússaði þá, snurfusaði og gerði leiðin afskaplega fín. 

  Þetta varð margra klukkutíma vinna.  Að henni lokinni kvöddu frændi og konan hans Önnu og hugðust halda áfram för.  En þá snöggfauk í Önnu.  Henni þótti það vera ósvífni af versta tagi að snyrta tvö leiði og skilja önnur útundan í niðurníðslu.  Anna var svo reið og sár og æst að frændi og kona hans neyddust til að breyta ferðaáætlun með tilheyrandi óþægindum og framlengja dvöl á Hesteyri um annan dag til að snyrta og snurfusa allan fjölskyldugrafreitinn þangað til Anna varð sátt.       

  Fleiri sögur af Önnu á Hesteyri:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1283923/


Óhefðbundið

  Sumir ökumenn fara í hvívetna eftir umferðarlögum.  Þeir leggja til að mynda bílnum einungis í lögleg bílastæði.  Það er hefðbundin hegðun.  Aðrir reyna þetta en tekst ekki alltaf sem best upp.  Enn aðrir fara óhefðbundnar leiðir.  Þeir búa til sínar eigin reglur eftir hentugleika.  Það eru þeir sem eiga dýrustu fjölskyldubílana.  Frumleiki þeirra vekur hvarvetna undrun og hrifningu.

bíl illa lagt Ö

  Þessi notar alltaf spil á vörubíl til að leggja fjölskyldubílnum snyrtilega í holur sem hann hefur áður grafið.

illa lagt í stæði G

  Fjölskyldumenn sem ólust upp með heimilisdýrum umgangast bíla sína eins og lifandi verur.  Eftir langa ökuferð leggja þeir bílinn á hliðina.  Það er til að leyfa honum að hvílast.  Jafnframt brynna þeir honum um leið.

illa lagt bíl - ofan á tré

  Örfáir ökumenn kunna þá list að leggja ofan á trjám.  Það er svo að bílinn renni ekki úr stæðinu.  

bíl illa lagt Æ

  Fleiri reyna að leggja á ljósastaur.  Það tekst sjaldnast vel.   Vænlegra er að leggja á vegrið.      

illa lagt bíl-mynd 1


mbl.is 30 milljarðar á ári í umferðarslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki fyrir lofthrædda!

  Flestir eru lofthræddir.  Það er nauðsynlegur hluti af varnarviðbrögðum manneskjunnar.  Í genum okkar er mörg þúsund ára reynslubanki með upplýsingum um að vont sé að falla úr mikilli hæð.  Sumir nýta sér lofthræðslu til að láta líkamann framleiða adrenalín.  Það er einskonar dóp sem gefur fólki adrenalínkikk.  Þessi mynd er frá Reyðrók í Færeyjum:

ekki fyrir lofthrædda-1-Reyðarók í Færeyjum

  Þarna lætur fólk sig síga niður í rúm sem það sefur í.  Þannig upplifir það sterkt að vera úti í náttúrunni:

ekki fyrir lofthrædda129

  Hér glanna menn á snjóhengju í Frakklandi:

ekki fyrir lofthrædda - Frakkland

  Þessi vegur er í Dýrafirði.  Sumir kjósa fremur að labba þessa leið heldur en sitja í bíl:

ekki fyrir lofthrædda-í Dýrafirði

  Hér er ró og hér er friður.  Hér er gott að tjalda og hvíla sig.

ekki fyrir lofthrædda - áningastaður


Einfalt og ódýrt að laga gallað malbik

  Vegagerðin og allskonar lið er í rosalegum vandræðum með ýmsa dularfulla hluti sem hrjá stundum vegi víða um land.  Það veit enginn hvernig þetta gerist.  Ennþá síður vita menn hvað skal til ráða.  Þetta er mjög vandræðalegt ástand.  Það lýsir sér þannig að það er eins og vegunum blæði eða þeir gráti.  Eitthvað losnar af vegunum og eltir bíla langar leiðir.  Jafnvel þó aðeins sé skroppið stutta leið.  Í verstu tilfellum er eins og smáar og snyrtilegar rifur myndist í malbikinu. 

  Það er til ráð.  Þökk sé íslenska flugdólgnum að ráðið fannst.  Vegagerðir erlendis eru þegar farnar að nota grípa til þess með góðum árangri.  Það eina sem þarf að gera er að líma veginn saman með pökkunarlímbandi.

limt_malbik.jpg  


mbl.is Dularfullar blæðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.