Færsluflokkur: Ferðalög

Anna á Hesteyri og bíllinn hennar

  Anna frænka á Hesteyri var orðin nokkuð fullorðin þegar hún tók bílpróf og áskotnaðist Skoda bifreið.  Mig minnir að frændi okkar,  útgerðarmaður,  hafi gefið Önnu bílinn og bílprófið.  Eða alla vega verið henni innanhandar með hvorutveggja.  Bíllinn reyndist Önnu mikið ævintýri.  Hún skrifaði mömmu bréf og lýsti bílnum eins og um undur væri að ræða sem fáir hefðu séð með eigin augum.

  Bílinn skoðaði Anna í bak og fyrir.  Meðal annars vegna þess að hún þurfti að vita hvar einhver takki var í bílnum.  Ég man ekki hvort að það var takki til að opna bensínlok,  húdd eða skottlok.  Anna og vinnukarl hennar skiptu liði og leituðu skipulega að takkanum.  Karlinn leitaði inni í bílnum.  Anna leitaði utan á bílnum.  Þar á meðal skreið Anna undir bílinn.  Það var afrek út af fyrir sig.  Anna var það mikil um sig.  Hún sagði þannig frá:  "Það var aldeilis heppni að ég skyldi leita undir bílnum.  Þar fann ég nefnilega varadekk.  Ef ég hefði ekki leitað undir bílnum hefði mér aldrei dottið í hug að þar væri varadekk."

  Bíllinn entist Önnu í mörg ár.  Þó þjösnaðist hún á honum eins og um sterkbyggða dráttarvél væri að ræða.  Á móti kom að bíllinn var aldrei mikið ekinn í kílómetrum talið.  Að því kom að bíllinn gafst upp.  Þá var Anna að keyra á honum yfir á með stórgrýttum botni.  Anna hringdi miður sín í mömmu mína og sagði ótíðindin.  Mamma spurði hvort bíllinn hafi lent á stórum steini sem hefði skemmt eitthvað undir bílnum.  Anna andvarpaði, dæsti og svaraði döpur:  "Nei,  það er afar ólíklegt.  Ég hef oft keyrt yfir stærri steina sem hafa bankað miklu fastar undir bílinn án þess að hann hafi drepið á sér.  Það er einhver önnur ástæða fyrir því að bíllinn stoppaði." 

Anna Marta

Fleiri frásagnir af Önnu frænku:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1290123/


Sparnaðarráð

  Á síðustu árum hefur íslenskur landbúnaður dregist saman.  Búum hefur fækkað og fólk flutt á mölina til að rýna í hagtölur í stað þess að framleiða hráefni til matseldar.  Þvers og kruss um landið standa aðgerðarlausar dráttarvélar.  Engum til gagns.  En mörgum til leiðinda.  Á sama tíma eykst stöðugt spurn eftir léttum og liprum mótorhjólum til að snattast um bæinn með niðurstöður úr hagfræðiútreikningum.  Á tímabili önnuðu kínversk mótorhjól að nokkrum hluta eftirspurninni.  Þegar á reyndi kom í ljós að þau voru úr plasti og duttu í sundur við að fara yfir hraðahindrun.  Margir fengu vinnu við að tína upp plastdót úr kínversku hjólunum.  Það sló tímabundið á atvinnuleysi.  Aðeins tímabundið.  Það kaupir enginn viti borin manneskja kínverskt mótorhjól í dag.  Óvitibornar manneskjur eru svo fáar að þær mælast varla í hagtölum mánaðarins.

  Lausnin á vandamáli dagsins er handan við hornið.  Hún felst í því að hvaða laghent stúlka sem er getur án fyrirhafnar breytt dráttarvél í lipurt snatthjól.  Það eina sem þarf til er svissneskur hnífur.  Allt annað er til staðar:  Stýri, sæti, mótor, framljós, afturljós, dekk og svo framvegis.  Það allra besta er að þegar dráttarvél er breytt í snatthjól þá eru til afgangs tvö varadekk.  Þessi lausn er svo ókeypis og auðveld að hún er sparnaðarráð. 

motorhjol_ur_drattarvel.jpg

    


Litríkir og flottir bæir og þorp

siglóAsiglóFsiglóEsiglóCsiglóBBB

  Íslensk þorp,  íslenskir kaupstaðir,  íslenskir sveitabæir og bara flest hús á Íslandi eru litlaus og ljót.  Hvít, grá eða máluð öðrum dauflegum litum.  Siglufjörður er undantekning.  Myndirnar hér fyrir ofan eru þaðan.  Gott ef það var ekki myndlista- og kvikmyndagerðarmaðurinn Jón Steinar Ragnarsson sem málaði bæinn rauðan og gulan og bláan...

  Grænlendingar kunna vel að meta skæra liti,  hvort sem er á fatnaði eða húsum.  Fyrir bragðið eru grænlensk þorp litrík og flott.  Hér eru nokkrar myndir:

litrík-greenland townlitrík-kangamiut--greenland

  Í sumum löndum aðeins lengra í burtu má rekast á skærlitaða bæjarhluta.  Til að mynda í Gamla Stan í Stokkhólmi í Svíþjóð:

litrík-Gamla-Stan, svíþjóð

  Einnig í Wroclaw í Póllandi:

litrík-Wroclaw, Póllandi

  Í Cinque á Ítalíu lífgar litagleðin upp á annars frekar ljótar byggingar:

litrík-Cinque-Terre Ítalíu

  Margir Íslendingar hafa heillast af ýmsu á Pattaya í Tælandi. 

litrík-Pattaya, Thælandi

  Til samanburðar höfum við grámyglulega Reykjavík (og næstum hvaða bæ eða þorp á Íslandi):

reykjavik 


Flugvöllinn í Vatnsmýri! Skemmtilegir flugvellir

  Það er lúxus að hafa flugvöll í Vatnsmýri.  Staðsetningin er farþegum til mikilla þæginda.  Þjóðfélagið hagnast á henni í samanburði við aðra valkosti (svo sem að færa flugið til Sandgerðis).  Það liggur gríðarmikill sparnaður í eldsneyti,  sliti á bílum,  vegaframkvæmdum og mannslífum. 

  Víða um heim er að finna skemmtilega staðsetta flugvelli. 

flugvöllurGibraltar-Airport

   Flugvöllurinn í Gíbraltar er inni í miðri borginni.  Hann er staðsettur þvert á aðal umferðagötu borgarinnar.  Þegar flugvél lendir eða tekur á loft hinkrar fólkið í bílunum sínum rétt á meðan.  Þetta fyrirkomulag hefur aldrei verið til verulegra vandræða.  Þvert á móti þá þykir þetta kósý.

flugvöllurMadeira-Airport

  Flugvöllurinn í Madeira stendur á súlum ofan í fjörunni.  Lengst af var hann of stuttur.  Það kom fyrir að ekki tókst að stöðva flugvél í tæka tíð og hún endaði ofan í fjöru.  Því fylgdi vesen.  Þess vegna var flugvöllurinn lengdur fyrir 13 árum.  Engu að síður er víst kúnst að lenda á honum. 

flugvöllurTenzing-Hillary-Airport

  Það er verra með flugvöllinn Lukla í Nepal.  Ef ekki tekst að stöðva flugvél á brautarenda þá tekur við 2000 feta fall.  Flugvöllurinn er erfiður hvað margt annað varðar.  Sterkar vindkviður og hnausþykk þoka setja oft strik í reikninginn.  Um þennan flugvöll fara allir sem flandra upp Mount Everest. 

flugvöllurBarra-International-Airport

  Alþjóðaflugvöllurinn í Barra þjónar hlutverki baðstrandar þegar flugvél er hvorki að lenda eða taka á loft.  Baðstrandargestir eru stöðugt hvattir til að fylgjast með flugáætlun til að lenda ekki í vegi fyrir flugvélum. 

flugvöllurCourchevel-Airport

  Flugvöllurinn í Courchevel þykir sérlega glannalegur.  Hann liggur í bröttum hólum og yfirborðið.  Orðið flughált er komið úr lýsingu á þessum flugvelli.  Hann er iðulega þakinn íshellu sem flugvélarnar dansa á.  Alvarleg hætta á að illa fari er ekki meiri en svo að flugbrautin er umkringd háum og þéttum snjó sem virkar eins og stuðpúði þegar flugvélar nuddast utan í hann.

  Flugvöllurinn þykir það glannalegur að hann var notaður til að hræða bíógesti í James Bond myndinni Tomorrow Never Dies.  Bond er sýndur lenda flugvél þarna. 

flugvöllur-Juancho-E.-Yrausquin-Airport

  Juanco E. Yrausquin flugvöllurinn á Saba í Karabíska hafinu er einn sá erfiðasti í heimi.  Flugbrautin er aðeins 1300 fet að lengd og flestar flugvélar þurfa að fullnýta lengdina bæði við lendingu og flugtak.  Þessi hættulegi flugvöllur er talin vera ástæðan fyrir því að ekki hefur tekist að byggja upp ferðamannatraffík til eyjarinnar. 


Ekki gera ekki neitt

  Nú er ekki rétti tíminn til að híma inni í myrkum kompum.  Það er komið að því að rífa sig upp úr sleninu,  spretta á fætur og fara út úr húsi.  Muna bara eftir því að klæða sig til samræmis við veðrið.  Það er ekkert sem heitir vont veður heldur aðeins að vera ekki rétt klæddur.  Það er ekki nóg að fara einungis út úr húsi.  Málið er að komast út í náttúruna.  Njóta hennar í botn og leika við dýrin sem á vegi verða.

utivist1.jpgutivist2.jpgutivist3.jpgutivist4.jpgutivist8.jpgutivist7.jpg


mbl.is Gæsirnar flúnar vegna kulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barlómur í Bretum

  Á dögunum skrapp ég til Englands.  Ég fann fyrir sterkri þörf til að kanna heilsufar Breta.  Ásamt því að taka púlsinn á bresku þjóðlífi.  Ekki nennti ég samt að setja mig inn í pólitíkina þar.  Nógu erfitt er að henda reiður á öllum þeim 15 framboðum sem við Íslendingar þurfum að velja á milli á laugardaginn. 

  Í stuttu máli þá snarbrá mér við að hlera barlóminn í Bretum.  Það er eins og allt sé að fara fjandans til hjá þeim.  Fátæklingum og útigangsmönnum fjölgar sem aldrei fyrr.  70 þúsund störf hafa horfið eins og dögg fyrir sólu frá síðustu mælingu.  Ég veit reyndar ekkert hvenær hún var gerð.  Atvinnuleysi er um 8%.  Heilbrigðiskerfið er í klessu.  Innan þess hefur störfum fækkað um 5 þúsund.  Ég veit ekki á hvað löngu tímabili.  Neyðarlínur eru í ólestri og 13 dauðsföll eru rakin til slælegra viðbragða sjúkrabíla við útkalli.  Í einhverju tilfelli var bið eftir sjúkrabíl 8 klukkutímar.

  Einhverjir kvörtuðu undan því að þurfa að lifa af 30 - eða hvort það var 40 - þúsund krónum á mánuði.  Ráðherra (eða kannski var það bara óbreyttur þingmaður) sagðist ekki sjá neina ástæðu til að vorkenna svoleiðis fólki.  Það væri leikur einn að lifa á 30 - 40 þúsund kalli á mánuði.  Sjálfur myndi hann léttilega treysta sér til þess.  Þessi yfirlýsing lagðist illa í marga.  

  Allskonar sjúkdómar herja á Breta.  Þeir stríða til að mynda við mislingafaraldur.  800 tilfelli á síðasta hálfa ári.  þar af eitt dauðsfall.  Um er kennt skorti á fyrirbyggjandi mislingasprautum.  Að mér skilst í og með vegna áróðurs gegn slíku.  Draugasögur eru á kreiki um að bólusetningar valdi einhverfu og drómasýki.  Bretar eru svo trúgjarnir. 

  Allskonar skattar eru að hellast yfir breskar fjölskyldur.  Eða hvort að þar er um að ræða niðurskurð á skattafrádrætti eða einhverju slíku.  Ég setti mig ekki inn í það.  Eitt fyrirbærið kallast grænn skattur (green tax).  Honum er ætlað að draga úr eldneytisbruðli.  Annað fyrirbæri kallast svefnherbergisskattur (bed tax).  Hann snýr að fjölskyldum með auka svefnherbergi (eða eitthvað álíka).  Það er grátið sárt undan honum.  Hann er um 120 þúsund kall á ári.  Margir telja sig muna um þá upphæð.  Svo mikið að þeir ráði ekki við hann og fjármál heimilisins séu í uppnámi. Eitthvað var um fjölmennar mótmælagöngur gegn svefnherbergisskattinum. 

  Hagvöxtur í ár er núll-komma-eitthvað.  

  Kennarar boða verkfall.  Líka starfsmenn Póstsins.  

  Mikill samdráttur er í hinni rótgrónu pöbbamenningu Breta.  Pöbbum fækkar að meðaltali um 18 á viku.   

  Ég er áreiðanlega að gleyma helmingnum af því sem Bretar væla sem mest undan um þessar mundir.  

  Góðu fréttirnar eru þær að breska konungsfjölskyldan hefur það gott.  Ég kann ekki skil á því fólki.  Gott ef einhver "meintur" sonur Kalla prins er ekki kominn með konu og börn. Fátt gleður Breta meira.

 


mbl.is Fátækum fjölgar í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland í 1. sæti yfir þau lönd sem best er að sækja heim

bestu lönd að sækja heim

  Í sunnudagshefti breska dagblaðsins Daily Mail er að finna áhugaverðan lista yfir þau lönd heims sem best er að sækja heim.  Listinn er einkar áhugaverður fyrir okkur Íslendinga.  Við elskum að ferðast.  Svona listi hjálpar okkur að velja næsta áfangastað.  Ennþá áhugaverðara fyrir okkur er að Ísland trónir í 1. sæti á listanum. 

  Fyrirsögn greinarinnar er:  "Vinalegustu lönd heims?  Nýtt heimskort leiðir í ljós að Ísland er svalasti staðurinn til að heimsækja í fríi (en reynið forðast Bólivíu)" 

  Í meginmálstextanum eru Íslendingar sagðir vera vingjarnlegasta fólk heims,  samkvæmt WEF (The World Economy Forum).  Verstu lönd að heimsækja eru:

140. sæti:  Bólivía

139.  Venesúela

138.  Rússland

137.  Kúveit

136.  Lettland

135.  Íran

134.  Pakistan

133.  Slóvakía

132.  Búlgaría

131.  Mongólía


Íslensk tónlist í London

  Á Oxford stræti í London er stærsta plötubúð í heimi.  Það þarf ekki að koma á óvart að hún sé jafnframt stærsta plötubúð HMV plötubúðakeðjunnar (sem telur á þriðja hundruð plötubúðir víða um heim).  Eins og aðrar plötubúðir hefur þessi við Oxford stræti látið verulega á sjá síðustu ár.  Jaðarmúsík er að mestu horfin úr hillum.  Heilu plöturekkarnir standa galtómir.  Eftir eru fyrst og fremst plötur sem ná hátt á vinsældalista og plötur flytjenda sem teljast í hóp þeirra stærstu og best þekktu. 

  Á árum áður tók marga klukkutíma að fletta í gegnum plötuúrvalið þarna.  Sú þolinmæðisvinna skilaði sér jafnan í kaupum á 50 - 60 plötum.  Í dag tekur rétt um klukkutíma að fletta í gegn.  Afraksturinn um páskana voru kaup á 11 plötum. 

  Eitt af því skemmtilega við að fletta í gegnum plötuúrval í útlendum plötubúðum er að rekast þar á plötur íslenskra flytjenda.  Í öllum slíkum búðum eru plötur Bjarkar, Sykurmolanna,  Sigur Rósar og Jónsa.  Svo og íslensk-ensku hljómsveitarinnar The Vaccins og íslenska nýbúans Johns Grants.  Þessi tvö nöfn,  The Vaccins og John Grant,  eru mjög stór á markaðnum og plötum þeirra stillt upp á áberandi stöðum í verslunum.

  Til viðbótar þessum nöfnum eru seldar í HMV við Oxford stræti plötur Ólafs Arnalds hljómsveitarinnar FM Belfast,  Röggu Gröndal,  Emilíönu Torrini og Ólöfu Arnalds.  Tvær plötur eru til sölu með Ólöfu.  Ég keypti aðra þeirra,  Ólöf Sings.  Hún kostaði 8 pund (x 188 = 1504 kr.).  Á limmiða á plötuumbúðum stendur:  "Ólöf Arnalds lends her distinctive voice to classics by Caetano Veloso,  Bruce Springsteen,  Arthur Russell & others.  Includes download coupon for four additional trancs and "Surrender" video directed by Árni & Kinski."

  Á þennan límmiða vantar upplýsingar um að á plötunni eru einnig lög eftir Bob Dylan,  Neil Diamond og Gene Clarke (úr The Byrds). 

  Í plöturekka var spjald merkt Röggu Gröndal.  Þar var hinsvegar enga plötu með Röggu að finna.  Annað hvort hefur plata með henni farið á flakk (verið sett á rangan stað) eða verið uppseld.  Flakkið er líklegra.  Venja er að fjarlægja merkt spjald þegar plata selst upp.  Nema von sé á henni fljótlega aftur. 

  Ég sá ekki plötu með Of Monsters And Men.  Kannski er sú hljómsveit ekki búin að ná inn á enska markaðinn.  Það er skrítið miðað við vænar vinsældir í Ameríku og á meginlandi Evrópu. 

  FM Belfast virðist vera með fast land undir fótum.  Þegar ég skrapp til Svíþjóðar um jólin sá ég að plata með þeim var til sölu í sænskum plötubúðum. 

  Í fyrra skrapp ég til Berlínar.  Þar var gott úrval af íslenskum plötum til sölu.  Þar á meðal með Ólafi Arnalds (5),  Benna Hemm Hemm (2),  Helga Rafn Jónssyni (3),  Gus Gus (3),  Seaber (2) og sitthvor platan með Sóleyju og Of Monsters And Men.  Og auðvitað hellingur með Björk,  Sykurmolunum,  Sigur Rós,  Jónsa og Emilíönu Torríni.

  Nokkrum dögum áður skrapp ég til Skotlands.  Þar var platan Ólöf Sings til sölu. 


Rottu- eða hundakjöt?

hundur 

  Ég dvaldi í góðu yfirlæti í London yfir páskana.  Það er gaman að rölta um Oxford stræti og nágrenni,  setjast inn í framandi veitingahús og smakka mat sem ekki er daglega á borðum í íslenskum veitingahúsum.  Smakka eitthvað annað en sviðakjamma,  hrútspunga og kjötfarsbollur.  Skemmtilegast er að finna í útlöndum kóresk,  grísk,  tyrknesk og kambódísk hlaðborð.  Eða bara einhver hlaðborð með torkennilegum mat. 

  Það er jafnan þétt setið í veitingastöðum í London.  Nema núna.  Indversk veitingahús voru eins og dauðs manns gröf.  Það sást varla hræða þar innan dyra.  Ástæðan er sú að rétt fyrir páska voru tekin sýni úr indverskum veitingastað.  Réttur sem var seldur undir heitinu Lambakjöt í karrý reyndist innihalda annað en lambakjöt.  Síðast þegar ég vissi var ekki komin niðurstaða í það af hvaða dýri kjötið er.  Þegar lá þó fyrir að það var hvorki af svíni, grasbít né fugli.  Helst þykir koma til greina að um sé að ræða kjöt af hundi, rottu eða ketti.   

  Lundúnabúum varð svo hvert við tíðindin að löngun þeirra í indverskan mat hvarf eins og dögg fyrir sólu.  Ég hreifst með múgnum og sniðgekk indverska veitingastaði að þessu sinni.  Bretar dustuðu rykið af flökkusögum um að rottur,  kettir og hundar á lausagöngu sjáist aldrei í nágrenni indversks veitingahúss.  Það sé eins og þau dýr hverfi fyrir galdra sakir um leið og indverskur veitingastaður opnar. 

rotta úr holræsicurry-served1    


mbl.is IKEA innkallar lasagna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Wow sló í gegn enn einu sinni!

 

 wow flugfreyjur

  Ég brá mér til Lundúnaborgar yfir páskana,  frjósemishátíð til heiðurs frjósemisgyðjunni Oester (Easter).  Það var ægilegur barlómur í Bretum.  Meira um það síðar.  Allt annað hljóð og jákvæðara var í flugáhöfn Wow.  Hún lék við hvern sinn fingur og reitti af sér vel heppnaða brandara.  Farþegar veltust um úr hlátri.  Þetta var í annað sinn sem ég ferðast með Wow til útlanda og aftur til baka.  Ég gerði skilmerkilega grein fyrir fyrri ferðinni.  Sjá:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1255933/ 

  Eins og þar kemur fram þá endurtóku flugfreyjur ekki sömu brandara á leið út og á heimleið.  Né heldur endurtóku þær sömu brandara í ávarpi á íslensku og ávarpi á ensku. 
  Engu að síður ætla ég að flugfreyjurnar nýti bestu brandarana oftar en einu sinni.  Það gera bestu uppistandarar.  Þeir nýta vel heppnaða brandara eins og og markaðurinn leyfir.  Það er einungis jákvætt.  Um að gera að leyfa sem flestum að njóta góðra brandara.
   Þegar ég innritaði mig á Flugstöðinni í Keflavík átti ég orðastað við miðaldra hjón,  mér ókunnug.  Þau höfðu einu sinni áður ferðast með Wow.  Þau voru ekki alveg jafn ánægð með brandara flugfreyjanna og ég.  Nefndu sem dæmi að flugfreyja hefði kynnt útgönguleiðir út frá þeim forsendum að ef farþegar væru óánægðir með þjónustuna um borð þá væru 8 útgönguleiðir.  Svo tiltók hún hvar þær voru.  
  "Það er ekki við hæfi að grínast með neyðardyr ef flugvél nauðlendir eða hrapar," sagði maðurinn alvörugefinn.  Mér þótti þetta hinsvegar mjög fyndinn brandari.  
  Í þessari annarri utanlandsferð minni með Wow reiknaði ég með að heyra "brot af því besta" frá ávarpi flugfreyja í fyrri ferðinni.  En, nei.  Það voru einungis nýjir brandarar og engu síðri.   
  Ég ætla ekki að endursegja þá.  Fyndni þeirra ræðst af stemmningu augnabliksins;  hvernig þeir eru sagðir við réttar aðstæður.  Meirihluti farþega var útlendingar.  Þeir urðu hissa á bröndurunum til að byrja með en skemmtu sér þeim mun betur þegar á leið. 
  Ein flugfreyjan fékk farþega til að fagna með áköfu lófataki 25 ára hjúskaparafmæli annarrar flugfreyju.  Þeirri stemmningu var fylgt eftir með tilkynningu um að Wow væri hraðfleygasta flugfélag í Evrópu.  Farþegar voru beðnir um að samfagna og sýna samstöðu með því að setja hendur á loft.  Og síðan með því að veifa höndum frá vinstri til hægri.  Því næst með því að ýta fast á sæti fyrir framan til að herða enn frekar á hraða flugvélarinnar og setja nýtt hraðamet.
  Farþegar létu sitt ekki eftir liggja.  Þeir lögðust fast á sætin fyrir framan sig eftir að hafa veifað höndum. 
  Flugfreyjan þakkaði fyrir góða þátttöku en upplýsti að flugvélin hafi ekki náð meiri hraða við þetta heldur hafi verið um 1. apríl hrekk að ræða.
  Ég efast um að þessi brandari skili sér á prenti.  En um borð hitti hann algjörlega í mark.  Hláturgusur gengu yfir farþegarýmið um leið og menn skömmuðust sín pínulítið fyrir að hafa "hlaupið" 1. apríl.  Til að enginn væri ósáttur vegna hrekksins var öllum farþegum gefið páskaegg.  Enginn var ósáttur.  Allir voru meira en sáttir og skemmtu sér vel. 
  Ég bar undir eina flugfreyjuna hvernig þetta væri með brandarana.  Hún svaraði:  "Við spilum það bara eftir hendinni.  Það er svo gaman þegar það er gaman.  Útlendir farþegar eru alltaf dálítið hissa til að byrja með.  Það er líka gaman."
  Ég er strax farinn að hlakka til næstu utanlandsferðar með Wow. 
    
 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband