Færsluflokkur: Ferðalög

Ekki fyrir lofthrædda

ekki fyrir lofthrædda A

Hæsta tívolítæki í heimi.  Þarna snýst fólk í 117 metra hæð.  Þetta er í Vín.  Einhverra hluta vegna er jafnan fámennt í tækinu.

ekki fyrir lofthrædda B

Það er gaman að horfa yfir Dubæ úr 828 metra háum turni.

ekki fyrir lofthrædda C

Litla hnátan liggur á glergólfi á 103. hæð í Chicago.

ekki fyrir lofthrædda D

Byggingin séð utan frá.  Í fljótu bragði virðist þetta vera lyfta.  Þegar betur er að gáð sést að þetta er lítill útsýnisgluggi.  Hann speglast í rúðum hússins þannig að svo virðist sem 6 manneskjur séu í honum.  Þær eru aðeins 3.

ekki fyrir lofthrædda E

Það þykir mikið sport að taka kollhnís á Tröllatungu í Noregi.

Pottþétt hálkuvörn

  Margir detta á hausinn þessa dagana.  Það er fljúgandi hált á blautu svellinu.  Það er vont að detta.  Ennþá verra er að beinbrotna.  Það þarf samt ekki að fara svo.  Það er í raun afskaplega einfalt að verjast falli á hálu svelli.  Besta aðferðin er að fara ekki úr húsi.  En sumir þurfa þess samt vegna vinnu eða skóla eða annars. 

  Þá er röðin komin að næst bestu aðferðinni.  Hún er sú að fara í hnausþykkustu sokkana sína utan yfir skóna.  Sokkarnir eru svo stamir að það er auðvelt að ganga á svellinu hnarreistur og öruggur á eðlilegum hraða.


mbl.is Allt að 11 stiga hiti um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskur matur í Finnlandi

skyr-ms

  Það er góð skemmtun að bregða sér til útlanda.  Eitt af því sem skemmtir ferðamanni í útlöndum er að kynnast matarmenningu innfæddra.  Skoða og smakka framandi rétti.  Eða bragða á kunnuglegum réttum sem samt eru matreiddir á einhvern hátt öðru vísi.  Á 2ja vikna dvöl í Finnlandi um jól og áramót uppgötvaði ég að Finnar borða á hverjum degi og að íslenskt skyr nýtur vinsælda þar.  MS skyrið trónir í efstu hillum í mjólkurkælum finnskra matvöruverslana.  Aðrar íslenskar vörur urðu ekki á vegi mínum ef frá eru taldar hljómplötur,  sjá:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1216258/

  Það kom mér á óvart að rekast á blóðmör í Finnlandi.  Finnsk blóðmör er ekki úr kindablóði og -mör heldur úr svínablóði og -mör.  Hún er borðuð soðin og eða steikt með sultu.  Í frystiborðum matvöruverslana er að finna frosið svínablóð. 

finnsk blóðmör með sultu

  Finnum þykir gott að hafa sultu með flestum mat.  Finnska kjötsúpan er nánast eins og sú íslenska.  Það eina sem er frábrugðið er að Finnar nota beinlaust kjöt af dauðu nauti í stað lambakjöts á beini.  Fyrir bragðið er finnska kjötsúpan ekkert feit.  Nautakjötið skera þeir í litla bita.  Finnar kalla kjötsúpuna sjómannapottrétt.  Ekki veit ég hvers vegna.  Það eru engir sjómenn í henni.

finnsk kjötsúpa

  Kjöt af nauti, svíni og hreindýri er áberandi í finnskum mat.  Finnar eru lítið fyrir lambakjöt.  Finnskar kjötbollur eru úr nauta- og svínakjöti,  brauðmylsnu,  eggi,  lauki,  rjóma,  salti og pipar.  Þær eru litlar.  Sem meðlæti er kartöflumús,  gúrkur og að sjálfsögðu sultu.  Þegar mikið liggur við setja Finnar hreindýrastroganoff einnig á diskinn.  En þeir snæða líka hreindýrastroganoff án þess að hafa kjötbollur með.

finnskar kjötbollur Afinnskt hreindýra stroganoff

  Lax og síld eru fyrirferðarmikil í finnskum mat.  Laxinn er grafinn eða reyktur eða soðinn.  Laxasúpa er vinsæl.  Hún er eiginlega alveg eins og kjötsúpan nema hvað laxabitar eru brúkaðir í stað nautakjöts og hlutfallslega minna er af grænmeti í pottinum.  Þess í stað er væn klípa af smjöri sett í pottinn.  Við hátíðleg tækifæri hafa Finnar verið staðnir að því að lauma rjóma líka í pottinn.

finnsk laxasúpa Afinnskur reyktur lax

  Oft eru lax og síld á sama diski.  Síldin er matreidd á marga vegu.  Hún er meðal annars pækluð eða steikt,  borðuð með soðnum kartöflum eða kartöflumús.

finnskur lax og síldfinnskur síldarréttur

  Finnskur matur er frekar bragðdaufur.  Hann er lítið kryddaður og sjaldnast með öðru en salti og pipar.  Margir halda því fram að hann sé sá ómerkilegasti í heimi ásamt enskum mat.  Berlusconi og Chirac Frakklandsforseti eru í hópi þeirra sem hafa haldið þessu fram opinberlega.  Finnum sárnar það.  Sjálfir segjast Finnar vera mestu kaffiþambarar heims.  Árlega neyta þeir yfir 10 kílóa af möluðu kaffi á mann.  Þeir myndu ekki drekka svona mikið kaffi ef maturinn væri lélegur.


Japani dýrkar Íslending

  Í gær skrifaði ég bloggfærslu um íslenskar plötur í finnskum plötuverslunum.  Þar kom margt forvitnilegt og óvænt fram.  Í framhaldi af því er gaman að segja frá sérkennilegu atviki.  Á sama gistihúsi og ég dvöldu eina nótt tveir hálf þrítugir drengir frá Japan.  Þeir spurðu mig hvaðan ég væri.  Ég upplýsti það undanbragðalaust.  Við svar mitt greip ofsakæti annan drenginn.  Hann stökk upp í loft og hoppaði um gólf hrópandi:  "Iceland?  Ólafur Arnalds!  Ólafur Arnalds!".   

  Að nokkrum tíma liðnum róaðist hann og lét að mestu af hoppi og skoppi.  Þá tjáði hann mér á frumstæðri ensku að Ólafur Arnalds væri uppáhalds tónlistarmaður sinn.  Og ekki bara það heldur dýrki hann og dái Ólaf.  Honum þótti merkilegt að hitta samlanda Ólafs og tók ljósmynd af sér og mér.  Jafnframt lýsti hann yfir löngun til Íslandsferðar og freista þess að líta Ólaf augum.  Eða að minnsta kosti sjá húsið hans,  götuna og umhverfið.  Hann bað um netfang mitt og óskaði eftir hjálp við að finna Ólaf þegar af Íslandsreisu yrði.  Ég sagðist ekki lofa neinu öðru en að sjálfsagt væri að benda honum á Mosfellsbæ,  heimaþorp Ólafs.  Sýna honum í hvaða átt Mosfellsbær er.  Við það hneigði sá japanski sig djúpt nokkrum sinnum á milli þess sem hann þakkaði mér skrækum rómi (vegna geðshræringar).  Síðan skrifaði hann netfang sitt á blað og sagði mér að láta Ólaf fá það ef ég rækist á hann.  Engin fyrirmæli fylgdu um hvað Ólafur eigi að gera við netfangið.     

  Ég spurði hvernig hann þekkti tónlist Ólafs.  Hann sagðist hafa verið að leita að myndböndum með Sigur Rós á þútúpunni.  Þá rakst hann á myndband með Ólafi.  Og varð bergnuminn með það sama.


Íslensk tónlist í Finnlandi

  Ég er svo afskaplega heppinn - eða óheppinn - að hafa engan áhuga á búðarrápi.  Hvorki hérlendis né erlendis.  Ég lít ekki svo mikið sem í búðarglugga.  Einu verslanir sem ég fer í á utanlandsferðum eru matvörubúðir (til að kaupa nauðsynjavörur).  Ef ég dett um bókabúð þá skima ég lauslega eftir músík- og myndlistabókum.  Eftir að internetið kom til sögunnar þykir mér hentugra að "tékka" á og kaupa bækur á þeim vettvangi.  Bækur eru óþægilega þungar að dröslast með á ferðalögum.

  Svo eru það plötubúðir.  Í útlöndum leita ég þær uppi.  Ég fer vandlega yfir allt úrvalið í plötubúðunum.  Að vísu skokka ég léttilega framhjá rekkum sem merktir eru "Disco" eða "R&B" eða "Eazy Listening" og eitthvað svoleiðis.  Þeim mun betur skoða ég rokkið,  djass,  blús,  reggí,  folk,  classic,  hip-hop og svo framvegis. 

  Almennt eru plötubúðir ekki eins spennandi í dag og áður.  Úrvalið er mun einsleitara.  Sjaldgæfar plötur,  plötur með lítt þekktum flytjendum og plötur úr jaðargeiranum eru á hraðri útleið úr plötubúðum.  Sala á þeim hefur færst yfir á internetið.  Eftir standa í búðunum plötur með Bítlunum,  Rolling Stones,  Dylan,  The Clash,  Abba,  Madonnu og Bruce Springsteen.  Og öðrum álíka þekktum.  Engu að síður bætast alltaf í utanlandsferðum 20 - 30 plötur í plötubunkann minn.  Plötur sem ég hef ekki fundið í íslenskum plötubúðum. 

  Eitt er alltaf jafn gaman:  Það er að sjá hvaða íslenskar plötur leynast í plöturekkunum.  Reyndar er það nokkuð fyrirsjáanlegt.  Hvarvetna er hægt að ganga að plötum Bjarkar,  Sigur Rósar,  Jónsa og Sykurmolanna.  En alltaf kemur eitthvað á óvart.  Núna um jólin uppgötvaði ég að geisladiskurinn með Svanfríði,  What´s Hidden There?,  er til sölu í finnskum plötubúðum.      

   Svanfríður var rokkuð hippahljómsveit Péturs heitins Kristjánssonar.  Hún sendi frá sér þessa einu plötu 1972.  Ég á ekki diskinn og veit ekki hver gaf hann út hérlendis.  Í finnskum plötubúðum er hann útgefinn af þýsku plötufyrirtæki. 

  Ekki alveg eins óvænt og að rekast á plötuna með Svanfríði í finnskum plötubúðum þá er þar einnig að finna plötur með Sólstöfum.  Sú yndislega hljómsveit er þokkalega vel kynnt í alþjóðlegu þungarokksdeildinni.  Hefur spilað á mörgum stórum rokkhátíðum víða um heim og túrað þvers og kruss um Evrópu.  Finnar eru töluvert í þungarokkinu.  Frægastar eru þær sem eru svo sem ekkert svo mjög þungar,  svo sem HIM (hafa náð gullplötusölu í Bandaríkjunum og víðar),  Lordi (sigraði í Júrivisjón) og Nightwish (selja yfir milljón eintök af stökum plötum).

  Til gamans má rifja upp þegar ég skrapp til Póllands 2009.  Þar komst ég að því að íslenska hljómsveitin frábæra I Adapt var í hávegum.  Plata með henni stillt upp áberandi í öllum plötubúðum og heilmikið skrifað um hana í þarlendum músíkblöðum.  Það var eins og I Adapt væri eitt heitasta nafnið í Póllandi. 

  Ég sá að útgefandinn var pólskt fyrirtæki.  Þar stóð hnífurinn í kúnni.  Þegar ég sagði strákunum í I Adapt frá þessum var þeim brugðið.  Þarna var um sjóræningjaútgáfu að ræða.  Síðast þegar ég vissi voru málaferli í gangi.  Það hvarflaði ekki að pólsku glæpamönnunum að fámennur hópur íslenskra ferðamanna í Póllandi tæki eftir því að þar væri verið að selja ólöglega útgáfu af plötu með I Adapt.  Og sú var næstum raunin.  Enginn annar hefur nefnt þetta við strákana í I Adapt.


Skroppið til Finnlands

suomenlinna-asuomenlinna Asuomenlinna Csuomenlinna E Viaporisuomenlinna Fsuomenlinna Gsuomenlinna Hsuomenlinna gistihússuomenlinna gistihúsið

  Ég brá mér til Finnlands.  Ákvað skyndilega að hjálpa Finnum að takast á við jólin og aðstoða þá við að komast yfir áramótin.  Það heppnaðist hið besta.  Finnar voru sáttir.  Það skiptir máli.  Ég hafði bækistöðvar á eyju sem tilheyrir eyjaklasanum Suomenlinna.  Hann gegnir einnig nafninu Viapori.  Svíar og Íslendingar kalla hann Sveaborg.

  Mér taldist til að eyjarnar væru 4.  Þær eru samt 6.  Ég veit ekki hvar þessar 2 eru sem mér yfirsást.  En fallegt er þarna.  Afskaplega.  Og allt í gömlum stíl:  Hús jafnt sem brýr,  virkisveggir,  fallbyssur og annað.  Það er góð skemmtun að rölta þarna um.

   Eyjarnar tilheyra Helsinki.  Ferja gengur á milli eyjanna og miðborgar Helsinki á klukkutíma fresti nema á milli klukkan 2 og 6 á morgnana.  Þá sefur áhöfnin.  Mér þykir það líklegt.  Siglingin tekur um korter.  Farið kostar 2 evrur (320 kall).  Hægt er að kaupa 7 daga kort.  Ég man ekki verðið en þá er hægt að flakka á milli í hverri ferð. 

  Fyrst þegar ég tók ferjuna vissi ég ekki að það þarf að kaupa farmiða í sjálfsala í skúr á hafnarbakkanum.  Ég fór miðalaus um borð.  Það var ekki gerð nein athugasemd við það.  Mér tókst ekki að venja mig af miðaleysinu.  Einhvers staðar rakst ég á auglýsingu sem innihélt hótun um sekt upp á 80 evrur (tæpan 13 þúsund kall) á hendur miðalausum.  Ekki veit ég hvernig sektin er innheimt hjá útlendingum sem þykjast vera án greiðslukorts og eiga aðeins 5 eða 10 evrur.

  Þetta var fyrsta heimsókn mín til Finnlands.  Byggingastíll og fleira í Helsinki er meira í a-evrópskum stíl en við eigum að venjast í borgum hinna norðurlandanna.  Sömuleiðis fer minna fyrir bandarískum skyndibitakeðjum í Helsinki.  Þó eru McDonalds,  Burger King og Subway þarna ef vel er leitað.  Á síðast nefnda staðnum kostar lítill bátur dagsins 620 kall (3,90 evrur).  Á Íslandi kostar hann 419 krónur.  Fyrir fall íslensku krónunnar og bankahrunið er næsta víst að báturinn hafi verið á svipuðu verði,  um 300 kall,  í báðum löndunum.  Að öðru leyti er matvælaverð nokkuð áþekkt í Reykjavík og Helsinki í dag.   

  Í Ósló eru um eða yfir 90% viðskiptavina McDonalds hörundsdökkir.  Í Helsinki er hlutfallið lægra.  Engu að síður er þá fáu hörundsökku í Helsinki helst að finna í McDonalds.  Hvers vegna sækja hörundsdökkir svona stíft í McDonalds fremur en til að mynda sjávarréttastaði og salatbari.  Hérlendis eru ekki nógu margir blökkumenn til að halda uppi McDonalds.     

  Hér fyrir neðan er myndband með finnsku "stuðmönnum",  Leningrad Cowboys.


Fésbókin virkar! Stolinn bíll fannst með hraði!

bíl stolið frá Agnari Má Magnússyni

  Í nótt fletti ég upp á Fésbókinni.  Mér lék forvitni á að vita hvað Fésbókarvinir væru að skrifa þar,  pósta inn myndböndum eða öðru.  Þar sá ég að Guðmundur Benediktsson,  hress og nýrekinn frá útvarpinu,  var að deila ljósmynd af stolnum bíl.  Í gærkvöldi hafði óprúttinn stolið bíl í eigu Agnars Más Magnússonar.

  Mér þótti sjálfsagt að leggja leitinni lið.  Ég stökk út á götu og skimaði eftir bílnum.  Hann var hvergi sjáanlegur.  Þá deildi ég upplýsingunum áfram inn á mína Fésbókarsíðu.  Nokkrum mínum síðar kíkti Ari Egilsson á síðuna.  Hann sá auglýsinguna og hóf þegar í stað að skima eftir bílnum.  Og kom auga á hann við Hallveigarstaði í Garðastræti.  Ari hringdi í Agnar Má (þó klukkan væri 2 í nótt).  Eftir smá stund var löggan mætt og skömmu síðar Agnar Már.  Urðu þar fagnaðarfundir.
.
  Það má draga lærdóm af þessu:  Fésbókin virkar.  Það eru kannski ekki margir sem lesa færslur hvers og eins.  En þegar fólk deilir upplýsingum þá verða margföldunaráhrif.  Á örfáum klukkutímum sjá þúsundir og aftur þúsundir upplýsingarnar.  Jafnvel 100 þúsund manns.  Eða 200 þúsund.  En ekki milljón.  Sem er allt í lagi.  Það er nóg að 100 - 200 þúsund leiti að stolnum bíl.
  Svo er bara gaman að þessi litla aðgerð,  að smella á takkann "Deila",  skuli hafa leitt til þess að stolinn bíll fannst með hraði.

Einkennileg uppákoma leigubílstjóra

leigubílar

  Ég fékk karöflu í skóinn í morgun.  Það lagðist frekar illa í mig.  Ég taldi mig hafa hagað mér vel.  En svo tók ég gleði mína á ný þegar ég fór að fá mér matarbita á Umferðarmiðstöðinni.  Í anddyrinu mættust tveir vel fullorðnir eldri leigubílstjórar í góðum holdum.  Annar sagði:  "Ég var að frétta af því að þú hafir setið undir gamalli konu í gær á tröppum í Hlíðunum."

  Hinn:  "Helvítið hann Guðmundur.  Ég sagði honum þetta í trúnaði.  Hann er búinn að kjafta þessu út um allt."

  Leigubílstjóri #1:  "Hvað var í gangi?"

  Hinn:  "Ég var að hjálpa fótafúinni gamalli og feitri kellingu út úr bílnum.   Svo datt ég aftur fyrir mig með hana í fanginu á tröppurnar.  Ég er sjálfur svo slæmur til fótanna að ég gat mig hvergi hreyft.  Gamla konan ekki heldur.  Ég sat þess vegna með hana í fanginu á tröppunum í töluverðan tíma þangað til að gangandi vegfarandi hjálpaði okkur á fætur.  Þetta var afskaplega vandræðalegt og ekkert til að gera grín að." 


Ævintýralegar glæsikerrur

torinoinntorinóinn Atórinóinn 2torinoinn C

  Sem unglingur var ég með netta bíladellu.  Ég átti Ford Torino GT Super Sport.  Hann var ´71 módel,  búinn ýmsu sem þá þótti nýstárlegt og framandi en varð síðar algengt í bílum.  Til að mynda rafdrifnar rúður,  stefnuljós sem blikkuðu þrjú í röð í þá átt sem beygja átti.  Framljós sáust ekki fyrr en kveikt var á þeim.  Þá opnaðist "grillið" eins og augnlok.  Á hliðum hans var sjálflýsandi rönd.  Það gerði bílinn dálítið flottan þegar skyggni var lélegt. 

  Á þriðju efstu myndinni hér fyrir ofan er ég lengst til vinstri.  Því næst Viðar Júlí Ingólfsson á Reyðarfirði,  trommari í Frostmarki og Jörlum.  Margir sjá sterkan svip með honum og Andra Frey á rás 2.  Þeir eru feðgar. Svo er það Stebbi bróðir,  trommari í Hljómsveit Svanhildar.  Lengst til hægri er Guðmundur Rúnar Ásmundsson (Bauni),  eigandi Benzins.  Benzinn endaði sína daga þegar Guðmundur ók honum ölvaður á góðri ferð fram af bryggja í Nauthólsvík.  Bíllinn sveif glæsilega fram af bryggjunni og mölbrotnaði á grjóti í fjörunni.  Guðmundur vatt sér út úr bílnum og kallaði til okkar sem horfðum á í forundran:  "Allir út að ýta!"  En bíllinn var í klessu og ekki hægt að ýta í neina átt.  Andlát þessa bíls kom í fréttum dagblaða. 

  Á fjórðu myndinni er Viðar lengst til vinstri.  Sigurður H. Einarsson þar fyrir framan.  Stebbi fyrir aftan.  Ég og Guðmundur lengst til hægri.

  Tórinóinn minn vakti mikla athygli og var af sumum (kannski aðallega mér) talinn flottasti bíll landsins á þeim tíma.  En það eru til fleiri flottir bílar:

bíll 1

  Þetta er ekki lengsti skráður fólksbíll.  En assgoti flottur:  Með skyggðum hliðarrúðum og hurðum sem opnast upp.

bíll 2

  Þessi er skráður í heimsmetabók Guinnes sem lengsti fólksbíllinn (vörubílar með tengivagna eru ekki taldir með).  Bílastæðismál eru honum erfið.  Sem og snarpari beygjur. 

bíll 3

  Þetta er einn bíll.  Rauði fólksbíllinn er ljósmynd límd á þann svarta.

bíll 4

  Hér er um að ræða tilþrifamikla túlkun á sjávarfangi og sjóstemmningu.

bíll 5

  Hér er ennþá lengra gengið í að því tengja sjávarstemmnginu við bílinn.

bíll 6

  Humarhúsið toppar. 


Einföld, fljótlöguð og frábær heilsusúpa

  Gúrkusúpa nýtur gríðarlega mikilla vinsælda í Kóreu.  Áður en hendi er veifað brestur af og til á algjört gúrkusúpuæði í Kóreu.  Einkum á heitum sumardögum.  Þá er löguð gúrkusúpa á öllum bæjum dögum saman án sérstaks tilefnis.  Svona hrinur kallast gúrkutíð.
  Vinsældir gúrkusúpunnar eru raktar til þess að hráefnið er mjög ódýrt,  matreiðslan afar einföld,  auðveld og fljótleg,  bragðið ljúffengt og hollusta í hverri skeið.  Þetta er heilsusúpa sem fólk fær aldrei nóg af. 
  Þannig er uppskriftin:
.
2 agúrkur
1 hvítlauksrif,  pressað í klessu
1 teskeið salt
1/2 teskeið chili pipar
1 og 1/2 teskeið sesam olía
2 teskeið edik
5 bollar vatn
.
  Agúrkurnar eru skornar í smátt.  Það er ágætt að skera þær niður í venjulegar sneiðar og saxa síðan með stuttu millibili þvert á sneiðarnar.  Galdurinn er að hver gúrkubiti sé lítill, eins og kartöflustrá eða svo.  
  Öllum þurrefnum er hellt í skál og hrært saman.  Yfir það er olíunni og edikinu hellt.  Þessu er leyft að marínera í 6 mínútur.  Því næst er þessu sturtað í pott,  vatninu hellt yfir og suðan látin koma upp.  
  Súpan er borðuð köld.  Hún er svalandi og hressandi.
.
  Þegar um veglegar veislur er að ræða,  eins og í brúðkaupum eða stórafmælum,  er gott að bæta við örfáum bitum af hundakjöti.  Það er soðið sér í smátt skornum bitum og síðan bætt útí.  Það er alveg nóg að hafa 150 grömm af hundakjötsbitum í súpunni.
.
  Í norður-kóresku útfærslunni er 1 agúrka notuð og vatnsmagnið tvöfaldað ásamt því sem handfylli af stuttklipptu grasi er bætt við.
gúrkusúpagúrkur

mbl.is Hugðist elda eiginmann sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband