Færsluflokkur: Ferðalög

Það þarf að laga loka sekúndurnar í myndbandinu

  Myndband sem kynnir og dregur upp ágæta mynd af þessum venjulegu sídansandi Íslendingum er í íslenskum fjölmiðlum jafnan kallað átakið (án frekari skýringa).  Ég veit ekki hvað það er kallað í útlöndum.  Hitt veit ég að myndbandið er um margt vel heppnað.  Það á eftir að skerpa á vinsældum Emilíönu Torríni og hennar fjörlega  Jungle Drum  lagi.  Það er hið besta mál.  Verra er að allt annað lag er undir myndbandinu á þútúpunni (sjá hér fyrir neðan).

  Ef vel er að gáð má sjá í lok myndbandsins að unglingsstelpa neglir hnénu á sér í kviðinn á hundi.  Þetta hefði mátt vinna betur.  Til að mynda með því að hin stelpan sparkaði í hausinn á kvikindinu eða lemdi kröftuglega með skóflu.  Þá kæmi 100 ára gamall bóndi á dráttarvél og keyrði yfir skepnuna.  Því næst tækju stelpurnar og bóndinn nokkur nett dansspor áður en bóndinn færi örfáa kollhnísa í loftinu,  færi síðan í splitt og hlypi út í buskann á annarri hendi. 

  Það væri reisn yfir því.


mbl.is Átakið hefur slegið í gegn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt að leiðrétta

 

  Í helgarblaði Fréttablaðsins er hið ágætasta viðtal við færeysku álfadísina, tónlistarkonuna Eivöru.  Fyrirsögnin er "Eldgos hægir á Eivöru Pálsdóttur".  Þar kemur fram að Eivör var föst á Kastrup flugvelli í Danmörku vegna öskunnar úr Eyjafjallajökli.  Annars er tilefni viðtalsins hljómleikar sem Eivör býður upp á 28. maí í Íslensku óperunni. 

  Það hefst á innganginum:  "Eivör Pálsdóttir heldur útgáfutónleika í Íslensku óperunni í lok maí. Eivör hefur ekkert heyrt í ævisöguritara sínum og er orðin pínulítið stressuð."

  Niðurlagið er:  "Komið hefur fram í fjölmiðlum að tónlistarbloggarinn Jens Guð sé að skrifa ævisögu Eivarar. Hún kannast við málið en hefur ekkert heyrt í Jens vegna bókarinnar.

„Eins lengi og maður má lesa þetta áður og vera með í þessu þá er þetta fínt. Ég er kannski pínulítið stressuð ef það kemur eitthvað út sem ég er ekki sátt við," segir hún. „Hann er búinn að tala við fólk sem þekkir mig en er ekki búinn að tala við mig."

  Þetta hljómar dálítið eins og bókin sé skrifuð að Eivöru forspurðri og að hún hafi aðeins frétt af vinnslu bókarinnar úti í bæ.  Þannig er það ekki.  Það kæmi aldrei til greina af minni hálfu að skrifa bók um Eivöru í óþökk hennar.  Vinna við bókina hófst ekki fyrr en ég var kominn með grænt ljós á það frá Eivöru.  Hinsvegar fjallar bókin UM  Eivöru en byggist ekki á einu löngu viðtali við hana.  Þess vegna hef ég tekið viðtöl - meðal annars - við ættingja og æskuvini Eivarar.  En ekkert viðtal við hana.   Það er því út af fyrir sig rétt eftir Eivöru haft;  að ég sé búinn að tala við fólk sem þekkir hana en ekki búinn að tala við hana sjálfa.  Engu að síður hefur Eivör alveg verið upplýst um gang mála.  Og þegar texti bókarinnar hefur smollið saman mun Eivör lesa hann yfir,  fylla upp í eyður,  bæta við og ganga úr skugga um að allt sé eins og best verður á kosið.  Það verður ekkert í bókinni annað en það sem Eivör er 100% sátt við.  Höfum það á hreinu.

  Annað - en þó þessu skylt:  Evöru þykir bók um sig vera algjörlega ótímabær.  Í Færeyjum eru ekki skrifaðar bækur um fólk á meðan það er á lifi.  Eivöru þykir þess vegna skrýtið að verið sé að skrifa bók um hana,  rétt 26 ára og rétt að hefja sinn tónlistarferil fyrir alvöru.  Á móti kemur að ég er að nálgast sextugs aldur og nýbúinn að ná þeim andlega þroska að geta skrifað bók um Eivöru.  Það er að segja bók sem verður Eivöru til sóma.

  Viðtalið í Fréttablaðinu má sjá á:  http://www.visir.is/article/2010444573694


mbl.is Flugvellir að opnast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gífurlegur ávinningur af eldgosinu

  Einhverra hluta vegna hefur verið ólund í mörgum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.  Svokallaðir farþegar á flugvöllum hérlendis,  erlendis og víðar hafa vælt eins og bandarískir hnefaleikarar undan eldgosinu.

  Stjórnmálamenn og hagsmunafólk í túrhestaiðnaði hafa vælt undan því að forseti Íslands svari spurningum erlendra fréttamanna um eldgos á Íslandi án þess að ljúga einhverju sniðugu í anda 2007.  Annað eftir því. 

  Það sem gleymst hefur í umræðunni um eldgosið er góða hliðin á málinu.  Út frá umhverfisverndarsjónarmiði er eldgosið happdrættisvinningur.  Flugvélar eru einhver mesti skaðvaldur gagnvart ósonlaginu rétt fyrir neðan himininn og gróðurhúsaáhrifin eru flugvélum að kenna.  Þær menga svo svakalega.  Að auki eru þær frekar á takmarkaðar bensínbirgðir heimsins.

  Eldgosið í Eyjafjallajökli hefur kyrrsett flugvélarnar þvers og kruss um heim dögum og vikum saman.  Þannig hefur eldgosið dregið stórlega úr mengun,  bensínbruðli og allskonar.  Betra gerist það ekki.

eldgos-22

.


mbl.is Sami gangur í gosinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gos í Færeyjum

  Mikið hefur verið rætt um gos á Íslandi í dag og undanfarna daga.  Sem kannski er skiljanlegt ef betur er að gáð.  Minna hefur farið fyrir umræðu um gosið í Færeyjum.  Það er eins og Íslendingar viti ekki neitt um gosið í Færeyjum.  Hér er ný ljósmynd af gosinu í Færeyjum.  Þetta er aðeins örlítið brot af því gosi sem er framleitt í Færeyjum.   

  Myndina tók Ingólfur Júlíusson.  Sá hinn sami og á eina flottustu gosmyndina á www.boston.com og vann bókina frábæru  Ekki lita út fyrir  með Evu "norn".  

færeyjar - gos


mbl.is Engin merki um goslok
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áríðandi upplýsingar um svefn bænda

  Hér fyrir neðan er póstur sem mér barst í gestabókina á blogginu mínu fyrr í dag.  Í stað þess að bregðast við bóninni með því að endurskrifa athugasemdina tel ég heppilegast að birta póstinn í heilu lagi hér.  Þannig kemst erindið best til skila.  Ljósmyndinni hnupplaði ég af bloggsíðu Ómars Inga.  Hún er þar sögð vera tekin af Ólafi Thorissyni. 

Svefn bændanna !!

Jens vegna þess hve lipur penni þú ert vil ég biðja þig að blogga um pistil einn sem birtist í fréttablaðinu í dag 19.4 er á bls 24 eftir Söru Mcmahon. Þar stendur meðal annars. Ég vona að flóðið í Markafljóti hætti fljótt svo að bændurnir þar í kring fái svefnfrið.!!!! Ekki er skilningurinn mikill á því að það eru bændur yndir Eyjafjöllum Þorvaldseyri og nágrenni sem standa verst vegna ofnakomu ösku sem engu eyrir hvorki skepnunum eða gróðri,eyðileggur jarðirnar ræktað land og bithagann. Eins þarf að kenna blaðamönnum að nota vitræn orð sem gilda til sveita um fénað búsmala gripi úthaga og margt fleira. Mér er hreinlega misboðið að lesa pistil sem þennan. Kveðja margrét.

Margrét Sig (Óskráður, IP-tala skráð), mán. 19. apr. 2010

sprengigos


mbl.is „Verstu morgnar sem ég hef lifað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað á maðurinn við?

steik með frönskum 

  Einn allra skemmtilegasti þáttur í íslensku útvarpi heitir  Harmageddon.  Hann er á dagskrá X-ins (fm 97,7) klukkan 15.00 til 17.30 alla virka daga.  Í þættinum fara Frosti Logason og Máni Pétursson á kostum.  Meðal viðmælanda í þættinum í gær var talsmaður steikhúss að nafni Austur.  Það er að segja nafn veitingastaðarins er Austur.  Ég náði ekki nafni talsmannsins.  Austur ku vera nýr veitingastaður.  Nafnið vísar til þess að hann er í Austurstræti.  Það er lán.  Ef staðurinn væri á Túngötu héti hann sennilega Tún.  Það er ekki flott nafn á veitingastað.

  Sitthvað áhugavert er á matseðli Austurs.  Þar á meðal kolagrilluð kengúra,  kolklikkuð sebrahestasteik,  krókódílasteik,  hægeldaðir þorskahnakkar og margt fleira.  Talsmaðurinn hefur kynnt sér önnur íslensk steikhús og fullyrðir að Austur njóti sérstöðu.  Bæði hvað varðar verð og matreiðslu.  Hann sagðist jafnframt hafa kíkt inn á mörg steikhús erlendis og víðar.  

   


Ég er kominn heim í heiðardalinn

  Ég er búinn að stunda á fullu Götu í Færeyjum undanfarna daga.  Hef farið þangað á hverjum degi og heilsað upp á Færeyinga.  Svo skemmtilega vildi til að ég átti brýnt erindi við þetta fólk.  Með í för var ljósmyndarinn knái Ingólfur Júlíusson,  gítarleikari Q4U.  Í dag er Ingólfur þekktastur fyrir ljósmyndir í nýútkominni bók Evu "nornar" Hauksdóttur,  Ekki lita út fyrir - sjálfshjálparbók handa sjálfri mér og öðrum ýlandi dræsum.  Dúndur bók.  Ég mæli með henni fyrir aðra en teprur. 

  Færeyingarnir sem ég heimsótti í Götu eru allir gamlir kunningjar og vinir mínir.  Þess vegna var gaman að eiga erindi við þá vegna bókar sem ég hef verið ráðinn til að skrifa.  Meira um bókina síðar.  Hún er skemmtilegt verkefni.

  Meðal þeirra sem ég heilsaði upp á var styttan af Þrándi í Götu.  Vegna þess hvað Þrándur var þver fyrir og stóð fast á sínu er styttan af honum lárétt. 

færeyjar - jens og þrándur 

   Þessi túlkun á Þrándi er snilld.  Hverjum öðrum en Færeyingum dytti í hug að heiðra frumkvöðul í menntun og baráttu gegn skattgreiðslum til Noregs og kristnitöku á þennan hátt? 

  Það var frekar rólegt í Götu og nágrannabyggðum á Austurey undanfarna daga.  Verslanir meira og minna lokaðar.  Einnig veitingastaðir,  pöbbar og svo framvegis.  Kannski hafði þetta eitthvað með frjósemishátíðina Páska að gera.  Eða extra langa föstudaginn,  skyrdaginn og hvað þeir heita þessir skrítnu dagar.  Hitt veit ég að Færeyingar fjölmenntu í kirkju dag eftir dag.  Ekki veit ég hvað þeir voru að gera þar.  Ég hafði öðrum hnöppum að hneppa en fylgjast með því. 

  Að venju var rosalega gaman í Færeyjum.  Það þarf ekki að nefna það.  Þó ég geri það.  Gestrisni slík að í heimsókn á sitthvort heimilið vorum við Ingólfur nestaðir er við kvöddum.  Verra var að í flugvélinni á leiðinni heim lentum við í einelti af hálfu flugfreyjanna.  Sem annars voru frábærar. 

færeyjar - flugfreyjur

  Þannig var að við sátum aftast í troðfullri vél.  Drykkir,  samlokur og sælgæti var borið í farþega.  Það var byrjað að dekstra við þá sem fremstir sátu.  Síðan þeir sem næst fremst sátu.  Og þannig koll af kolli.  Þegar röðin var komin að okkur Ingólfi var bakkað aftur fremst í vélina og fyllt á glös hjá þeim sem fremstir sátu.  Þannig gekk það um hríð.  Loks þegar kom að okkur í annarri atrennu lentu flugfreyjurnar á kjaftatörn við þá sem sátu í næstu sætaröð fyrir framan okkur.  Liðið er svo skemmtilega afslappað og ljúft.  Áður en yfir lauk var samt ekki hjá því komist að eineltinu linnti.  Allir voru glaðir þegar upp var staðið.

  Við hlið mér í flugvélinni sat "næstum" 10 ára strákur (eins og hann orðaði það).  Hann var hjá færeyskum föður sínum yfir páskana og á íslenska mömmu á Akureyri.  Í klifri upp í heiðloftið blátt var ókyrrð.  Nokkuð hressileg.  Stráksi varð verulega hræddur.  Fullyrti að flugvélin myndi hrapa.  Hann bar færeyska ömmu sína fyrir því.  Hún hafði kvatt hann sérlega hlýlega vegna þess að illa veðraði og flugvél hrapaði í Danmörku nokkrum dögum áður.  Rifjaðist þá upp vögguvísa eftir Halldór Laxness:

  Sofnaðu svínið þitt

svartur í augum.

  Farðu í fúlan pytt

fullan af draugum.

  


Suzuki bílar - ekki fyrir Íslendinga

suzuki1 

 Að undanförnu hef ég legið í vangaveltum.  Þær hafa meðal annars snúist um hvaða bíl ég eigi að kaupa mér.  Nú er rétti tíminn til að kaupa bíl,  eins og margt annað.  Eftir töluverða rannsóknarvinnu var ég kominn langleiðina með að kaupa Suzuki.  Þegar það var svo gott sem afráðið fór ég að skoða heimasíðu Suzuki umboðsins.  Þá komst ég að því að slóðin er Suzuki bilar (www.suzukibilar.is).  Þetta hafði ég ekki áður hugleitt:  Að Suzuki sé bílinn sem bilar.  Ég brá við skjótt og ætlaði að hringja í umboðið til að spyrjast frekar um þetta vandamál með Suzuki.  Hvort bilanir í Suzuki snúi að mótornum,  ljósabúnaði eða hvort stöðug vandamál sé með dekkjabúnaðinn,  spindla eða legur. 

  Í þann mund sem ég var að slá símanúmeri umboðsins inn heyrði ég hljóma í auglýsingatíma í útvarpinu:  "Suzuki bílar - fyrir skynsamt fólk."  Þetta tók af allan vafa:  Suzuki er ekki fyrir Íslendinga.     


Lögreglan verður að taka á þessu. Svona má alls ekki leggja bílnum

bíl lagt 1bíl lagt 8

  Það er hörmung að sjá hvernig sumir leggja bílnum sínum,  eins og glöggt sést á meðfylgjandi myndum.  Það er ekkert tillit tekið til annarra bíla.  Menn - eða kannski aðallega konur? - leggja alveg hiklaust sínum bíl utan í bíl annarra.  Jafnvel þannig að erfitt sé fyrir eiganda þess bíls að komast inn í hann.  Eða þá að bílum er lagt þannig að ómögulegt er fyrir aðra bílstjóra að komast leiðar sinnar.  Lögreglan verður að fara að taka á svona framkomu af röggsemi.  Á meðan það er ekki gert færa bílstjórar sig stöðugt upp á skaftið. 

  Bílstjórinn á neðstu myndinni má eiga það að hann beið í bílnum á meðan konan hans skrapp inn í sjoppu.  Hann var frekar snöggur að færa bílinn ef aðrir bílstjórar þurftu að komast framhjá.

bíl lagt 7bíl lagt 5bíl lagt 2bíl lagt 4bíl lagt 3bíl lagt 6bíl lagt 10bíl lagt 9


mbl.is Lögreglumaður sýknaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bílar framtíðarinnar

smart bíll

  Þrátt fyrir tímabundna verðlækkun á olíu af og til hækkar hún og hækkar í verði til lengri tíma litið.  Bílaframleiðendur eru hver á fætur öðrum farnir að laga sig að kröfum markaðarins.  Bílarnir eru að færast hratt í það form sem kallast "smart":  Sparneytnir, litlir og liprir í stórborgarumferð þar sem stöðugt erfiðara er að finna laus bílastæði. 

  Hér eru nokkrar tegundir sem verið er að kynna á markað næstu ára.  Fyrst er það Smorvette: 

smart - smorvette

Smaudi A3 AWD:

smart - smaudi A3 AWD

Smamboghini:

smart - smamborghini

 Smerrari:

smart - smerrari

 Smorche:

smart - smorsche

 Smustang:

smart - smustang

 Þessi ferðamáti er að verða æ sjaldgæfari í Reykjavík og víðar.  Mun algengara er að einungis ein einangruð manneskja sé í hverjum bíl.

vörubíll hlaðinn fólki


mbl.is Olía lækkar í verði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.