Færsluflokkur: Ferðalög

Færeyskt fjör

  Vegna færeysku fjölskyldudaganna á Stokkseyri um verslunarmannahelgina er ekki annað hægt en taka þátt í stemmningunni.  Fjörið er byrjað þegar þetta er skrifað og leikar æsast verulega er líður að kveldi.  Það er stöðugur straumur glaðbeittra ferðalanga til Stokkseyrar.  Sjá dagskrá á www.stokkseyri.is.


Bráðnauðsynlegt að leiðrétta

  chopinjohnlennon-logo

  Í Fréttablaðinu í dag er skemmtileg og fróðleg grein eftir Þorvald Gylfason,  prófessor.  Þar er margan fróðleik að finna um Brasilíu og þarlenda músík.  Það er vel.  Brasilísk músík hefur verið hornreka í íslenskum fjölmiðlum - þó þungarokkssveitirnar Sepultura og Soulfly njóti hér töluverðra vinsælda.

  Grein Þorvaldar hefst á þessum orðum:  "Brasilía er mér vitanlega eina land heimsins, þar sem alþjóðaflugvöllur heitir í höfuðið á tónskáldi. Flugvöllurinn í Ríó de Janeiro er kenndur við bossanóvakónginn Tom Jobim."

  Þetta er ekki rétt.  Alþjóðaflugvöllurinn í Varsjá í Póllandi heitir Fryderyk Chopin í höfuðið á samnefndum píanóleikara og einu höfuðtónskálda klassísku rómantísku músíkurinnar.  Í Varsjá er Chopin í hávegum og margt annað þar ber hans nafn.  Það minnir mig á að ég á eftir að láta Stefán bróðir fá staup merkt Chopin síðan ég skrapp til Póllands fyrr á árinu.

  Alþjóðaflugvöllurinn á Englandi heitir Liverpool John Lennon Airport í höfuðið á samnefndum söngvara og tónskáldi.

 

 


Besta veðrið um verslunarmannahelgina

jógvanhansenangilika1kristianblak2

  Ég hef verið að skoða veðurspá helstu veðurfræðinga landsins til að komast að því hvar besta veðrið verður núna um helgina,  verslunarmannahelgina.  Ég hef einnig haft samband við svokallaða sjáendur.  Þeir sjá sýnir, "framtíðar-flass" sem í tíma og rúmi er andstæða "flash-back" af því tagi er margir gamlir LSD neytendur upplifa óvænt.

  Af þeim gögnum sem ég hef skoðað virðast allar vísbendingar benda á einn stað:  Besta veðrið um helgina verður á Stokkseyri.  Það fer vel á því.  Svo skemmtilega vill til að á Stokkseyri er jafnframt glæsilegasta dagskrá helgarinnar í boði.  Yfirskriftin er "Föroyskt landnám Stokkseyri".  Undirskriftin er "Færeyskir fjölskyldudagar á Stokkseyri um verslunarmannahelgina".

  Margir af helstu tónlistarmönnum Færeyja,  um 20 manns,  halda uppi fjölbreyttri dagskrá fram á nótt alla helgina.  Þar bera hæst fiðlusnillingurinn Angelika Nielsen,  gullfallegt undrabarn sem lærði skrautskrift hjá mér þegar hún var á fermingaraldri.  Það var á 3ja daga námskeiði í Færeyjum.  Hún missti af fyrsta deginum en sló öllum nemendum við nánast um leið og hún settist við skriftir.  Það kom ekki á óvart að fylgjast með henni síðar dúxa í tungumálum,  fiðluleik og hverju öðru sem hún hefur tekið sér fyrir hendur. 

  Píanóleikarinn Kristian Blak er potturinn og pannan í allri færeyskri músík.  Mikill stuðbolti á sjötugsaldri sem leikur jöfnum höndum dansmúsík,  djass,  klassík,  þjóðlagamúsík og rokk í ýmsum þyngdarflokkum.  Jafnvel pönkrokk þegar sá gállinn er á honum.

  X-factor stjarnan og kyntröllið Jógvan opnar færeysku dagskrána með hljómleikum á föstudagskvöldinu.  Af vinsælum lögum hans sem spiluð eru sem mest í útvarpi má ætla að hann sé léttpoppari.  En hann er líka hörku rokkari þegar þannig liggur á honum.

  Simme var fyrsta færeyska súperstjarnan á Íslandi.  Fyrir hálfri öld átti hann hug og hjörtu Íslendinga með laginu um Rasmus.  Þá kom hann einmitt til Íslands og tryllti Íslendinga upp úr skónum.

  Nánar um dagskrána má lesa á www.stokkseyri.is.  Myndirnar efst eru af Jógvani,  Angeliku og Kristian Blak.     

 


Spennandi hljómleikar 25. júlí

 solstafir1


Bíllinn sem hvarf

ósýnilegur bíll

  Ég hef efasemdir um allt sem kallast "yfirnáttúrulegt".  Tel eðlilegar og náttúrulegar skýringar nærtækari en skilgreininguna "yfirnáttúrulegt".  En margt er skrítið og ég kann ekki skýringar á öllum slíkum fyrirbærum.  Áðan ók ég í rólegheitum frá Hafnarfirði til Reykjavíkur.  Umferð var lítil.  Á leiðinni frá gatnamótunum í Garðabæ og í átt að Kópavogi ók á undan mér á hægri akrein nýlegur lítill rauður fólksbíll.  Hann fór hægar yfir en ég.  Þess vegna tók ég framúr. 

  Ég leit í hliðarspegilinn til að vita hvort ég væri kominn nægilega langt fram fyrir bílinn til að beygja aftur inn á hægri akrein.  En það sást enginn bíll í speglinum.  Ég leit aftur fyrir mig og kom heldur ekki auga á bílinn.  Það er til fyrirbæri sem kallast "svartur blettur" eða "dauðapunktur".  Það er punktur sem sýnir ekki í hliðarspeglinum bíl sem er staðsettur við hægra afturhorn míns litla sendibíls.  Það var sama hvernig ég horfði í spegilinn eða aftur fyrir mig.  Bíllinn sást ekki. 

  Ég beygði á hægri akrein eftir að hafa fullvissað mig um að þar væri ekki þessi bíll að flækjast fyrir.  Allt gekk vel.  Bíllinn sást ekki í baksýnisspeglinum.  Bíllinn var horfinn.  Það er enginn hliðarvegur þarna til hægri sem bílinn gat beygt út á.  Þetta var dularfullt.  Ég ók út í kant.  Stöðvaði bíl minn og fór út.  Horfði í allar áttir.  Rauði bíllinn var horfinn.

  Hvað var í gangi?  Var þetta huldubíll?  Hafði ég séð ofsjónir?

  Er huldufólk að aka um þjóðvegi landsins á huldubílum?  Hvaðan fær huldufólkið huldubíla?

  Ég er ekki vanur að sjá ofsjónir.  Held ég.  Að vísu er ég á pensillínkúr,  á verkjalyfjum,  bólgueyðandi og acidophilus.  Veldur sú blanda ofskynjunum? 

  Einn möguleikinn er sá að ég sé geðveikur og rugli saman ímyndun og raunveruleika.  Útiloka það ekki.  Eða er til enn ein skýring sem mér yfirsést?   


Skúbb! Fyrrverandi þingmaður sigurvegari á Landsmóti UMFÍ

  sigurjon

  Gífurlegur fjöldi er nú á Akureyri vegna Landsmóts UMFÍ.  Ég fylgist ekki með íþróttaviðburðum (ef hnefaleikar eru undanskildir ásamt strandblaki kvenna).  En meistarinn Magnús Geir Guðmundsson (www.meistarinn.blog.is) var svo elskulegur að senda mér skýrslu um hápunkta mótsins.  Fyrst  hann slær því ekki upp á sínu bloggi bregð ég við skjótt og skúbba hér:

  Keppt var í sjósundi yfir Eyjafjörð.  Af hátt í fjörtíu keppendum sigraði með glæsibrag Sigurjón Þórðarson formaður Ungmennafélags Skagafjarðar,  Hegranesgoði og fyrrverandi alþingismaður Frjálslynda flokksins.  Ég sló á þráðinn til Sigurjóns.  Hann var að vonum ánægður með árangurinn.  Sigurinn kom honum á óvart.  Þetta er í fyrsta skipti sem hann prófar sjósund. 

  Sigurjón var 29 mínútur að synda yfir fjörðinn en flestir aðrir um þrjú korter.  Vegalengdin var vel á annan kílómetra.  Sennilega tæpur hálfur annar.


Skúbb! Færeysk stórhátíð á Stokkseyri

kristianblakangelikajens marniEyðun & TerjikvönnKBY-Ygg

  Dagana 31.  júlí,  1.  ágúst og 2.  ágúst næstkomandi verður haldin færeysk stórhátíð í Draugasetrinu á Stokkseyri.  Þar verður boðið upp á feitan pakka af fjölbreyttri færeyskri tónlist og færeyskum dönsum.  Fjörið hefst með dansleik klukkan 22.00 föstudaginn 31.  júlí.  Jens Marni  og félagar leika fyrir dansi.  Dansleikurinn verður brotinn upp með færeyskum dansiharmónikuspili og innslagi frá  Simme  og hljómsveit.  

  Þetta er í annað sinn á hálfri öld sem Simme skemmtir á Íslandi.  Í fyrra skiptið kom hann hingað 1959.  Þá naut hann gífurlegra vinsælda hérlendis með lögum sem margir muna vel eftir,  svo sem  Kenna tit Rasmus  og  Sunnukvöld í plantasjuni.

  Laugardaginn 1.  ágúst hefst dagskrá með fótboltakeppni Færeyjar-Ísland klukkan 15.00.  Klukkan 19.00 flytja fiðlusnillingurinn gullfallega  Agelika Nielsen,  píanóleikarinn Kristian Blak og hljómsveit dagskrána  Heygar og dreygar.  Klukkan 20.00 tekur Simme við.  21.00 flytja Hilmar Joesen,  Angelika og Kristian Blak dagskrána  Álvastakkur.  Hálftíma síðar hefst færeyskur dans þar sem kyrjaður verður söngurinn um  Ólaf Riddararós.  Klukkan 23.00 blása Eyðun & Terji til dansleiks.  Ég sá þá spila í Færeyjum fyrir nokkrum vikum.  Þá spilaði James Olsen með þeim á trommur og söng.  Meðal laga á dagskrá þeirra var   Talað við gluggann  eftir Bubba Morthens.     

  Dansleikur Eyðuns & Terjis verður brotinn upp með innslagi frá Simme,  harmónikuspili og færeyskum dönsum.  

  Dagskrá sunnudagsins 2.  ágúst hefst með helgistund í umsjón  Matine  klukkan 11.30.  Um tónlist sjá Angelika & Kristian Blak ásamt hljómsveit.  Klukkan 15.00 er söngdagskrá í höndum - eða raddböndum öllu heldur - Jens Marni,  Kims Hansen,  Terjis & Eyðuns og Simme.  Klukkan 16.00 er það færeyski dansinn  Dvörgamöy.  Við tekur klukkan 22.00 dansleikur með Kim Hansen og hljómsveit.  Eins og fyrri kvöld verður hann brotinn upp með innslögum frá Simme,  harmónikuspili og færeyskum dansi.

  Þetta er spennandi og vönduð dagskrá.  Ég hvet alla sem geta valdið vettlingi að láta þessa glæsilegu stórhátíð ekki framhjá sér fara.

  Ljósmyndin efst til vinstri er af Kristian Blak (www.kristianblak.com).  Honum til hægri handar er fiðlusnillingurinn Angelika Nielsen (http://www.facebook.com/people/Angelika-Nielsen/590996554).  Þriðja myndin er af Jens Marni (http://www.myspace.com/jensmarni). 

  Kíkið líka á:  http://www.simme-musikkhus.fo/main.html

  Mynd númer 4 er af Eyðunni & Terji.  Mynd númer 6 er af plötuumslagi hljómsveitar Angeliku,   Kvönn.  Mynd númer 7 er af plötuumslagi Kristian Blak og Eivarar,  Yggdrasil.


Mikilvægt að leiðrétta

fiskbúfiskbúðin Heimur hafsins

  Dr.  Gunni er bráðskemmtilegur penni,  flottur tónlistarmaður og vel vakandi öflugur neytendafrömuður.  En enginn er alltaf fullkominn.  Bakþankar Fréttablaðsins í dag eru skrifaðir af Dr.  Gunna.  Þar veltir hann ýmsu fyrir sér og spyr margs.  Þar á meðal hvers vegna engin fiskbúð sé á Akureyri. 

  Þetta er villandi spurning.  Á Akureyri er að finna eina bestu fiskbúð landsins.  Hún heitir Heimur hafsins og er staðsett á Tryggvagötu 22,  við hliðina á Axels bakaríi.  Síminn er 578 6400.   Orðstír Heims hafsins nær langt út fyrir Eyjafjörð.  Matgæðingar úr Skagafirði og Þingeyjasýslu sækja stíft í þessa frábæru fiskbúð.

  Nú standa sumarfrí og hringferðir Íslendinga sem hæst.  Það er hið versta mál ef ferðamenn úr öðrum landshlutum keyra í gegnum Akureyri standandi í þeirri trú að þar sé engin fiskbúð.

  Heimur hafsins er í eigu Hallgríms Guðmundssonar,  fyrrum aðstoðarmanns Sigurjóns Þórðarsonar fyrrverandi alþingismanns,  og Huldar S.  Ringsted snyrtifræðings.  Þau heiðurshjón eru bæði harðlínu andstæðingar kvótakerfisins.


Fróðlegt og hjálplegt húðflúr

kort af færeyjum 1

  1972 ákvað ég að fá mér húðflúr.  Það var ekki eftir neinu að bíða.  Ég brá við skjótt og skellti mér í Tattú & skart í dag og fékk mér húðflúr.  Ég hef oft heyrt talað um að það sér rosalega sársaukafullt þegar húðflúrið er skrapað ofan í húðina.  Mér er lítið um sársauka gefið og hugleiddi að laumast til að bera á mig staðdeyfandi krem áður en mætti yrði á svæðið.  En gleymdi því.  Var eitthvað annars hugar.  Sem betur fer.  Svanur húðflúrari tjáði mér að staðdeyfiefni eyðileggi æskilegt viðnám húðarinnar þegar verið er að húðflúra.  Þar fyrir utan var aðgerðin alls ekki sársaukafull.  Þvert á móti var hún notaleg.  Þetta var eins og nett og gott krafs eða klór.

  Ég er staðráðinn í að fá mér fleiri húðflúr.  Það er svo assgoti gott.  Að þessu sinni lét ég húðflúra yfir allan hægri framhandlegginn landakort af Færeyjum.  Það smellpassaði hæð og lengd og mun auðvelda ferðalög mín um Færeyjar í framtíðinni.  Þá þarf ég ekki annað en bretta upp ermi til að sjá hvar ég er staddur og hvert skal næst halda. 

  Svo heppilega vildi til að Svanur húðflúrari bjó í Færeyjum á áttunda áratugnum og var því á heimaslóðum þegar hann skellti á mig landakortinu.

  Næsta húðflúr verður á vinstri handlegg.  Það verður mynd af rennilás.  Hjálpið mér að finna einfalda grafíska mynd af rennilás.


Ég festist í lyftu

hópmynd af slökkviliðsmönnum

  Í gær rétt slapp ég við að festast í lyftu.  Ég var ekki jafn heppinn kvöldið áður.  En í gær tókst ungri systurdóttur minni með snarræði að forða mér frá því að lenda í sömu vandræðum.  Hún fylgdi mér snöfurlega niður á jarðhæð í lyftunni og passaði af samviskusemi upp á að allt gengi fyrir sig á besta veg.  Forsagan er sú að kvöldið áður heimsótti ég systir mína og hennar fjölskyldu í orlofsíbúð bænda í fjölbýlishúsi í Reykjavík.  Þau eru utan af landi.  Þegar ég yfirgaf partýið hjá þeim í fyrrakvöld festist ég í lyftunni.  Ég fór í lyftuna og beið eftir að lyftan skilaði mér á jarðhæð.  Ég beið og beið í lyftunni.  Stóð þar aleinn og lyftan skilaði mér ekki á jarðhæð.  Ég tók upp á því að raula íslensk dægurlög til að stytta mér stundir.  Þegar mínútur liðu og ekkert gerðist fór ég að ókyrrast.  Eftir 10 mínútur lokaður inni í lyftunni sljákkaði í söng mínum og ég fór að velta fyrir mér vandamálinu.  Enda kominn með leið á íslensku dægurlögunum sem ég raulaði.  Þá áttaði ég mig loks á að ég hafði aldrei ýtt á hnappinn í lyftunni sem átti að bera mig niður á jarðhæð.  Ég brá við skjótt og ýtti á þann hnapp.  Það var eins og við manninn mælt:  Ég var á augabragði kominn á jarðhæðina.

  Daginn eftir tók systurdóttir mín að sér að halda utan um dæmið.  Hún fylgdi mér í lyftuna,  ýtti á hnappinn fyrir jarðhæð og fylgdi mér alveg út að útidyrum blokkarinnar.  Þetta gekk hratt og vel fyrir sig.  Ég festist ekki í lyftunni. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.