Færsluflokkur: Ferðalög

Færeyingar mega brúka píkur frá og með þarnæsta sunnudegi

  Margir Færeyingar eru spenntir og fullir tilhlökkunar.  Færeysk yfirvöld hafa sent frá sér tilkynningu þess efnis að daginn eftir að lögmaður Færeyja snýr heim úr Íslandsreisu megi Færeyingar brúka píkur.  Þannig hljómar tilkynningin:  "Frá sunnudegnum 15. oktober er aftur loyvt at brúka píkur.
Tað kann hugsast, at sumir verða freistaðir at seta píkurnar upp undir komandi vikuskiftið, en ikki ráðiligt at seta píkurnar undir til dømis fríggjadagin ella leygardagin, bara frá sunnudegnum."

  
 


mbl.is Lögmaður Færeyja í heimsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórfurðulegur göngumáti

  Þessi vesalingur ólst upp á óróleika jarðskjálftasvæði.  Fyrir bragðið lærði hann ekki að ganga eins og annað fólk.  Þess í stað færir hann sig um set með þeim furðulega hætti sem sjá má í meðfylgjandi myndbandi.  Þetta vekur kátínu hjá þeim sem á vegi hans verða.  Það er að segja öðrum en þeim sem hann bókstaflega hittir fyrir.  Þeir árekstrar geta orðið blóðugir og ljótir.  Af tillitssemi við börn og viðkvæma hafa þannig senur verið klipptar úr myndbandinu.  Maðurinn er stórhættulegur umhverfi sínu og ástæða til að vara fólk við að reyna að leika háttsemi hans eftir.     


Broslegar merkingar

merking í s-afríku4

  Þessi bráðfyndnu merki eru af raunverulegum merkingum og eru - að því er ætla má - sett upp af alvörugefnu fólki sem fattar ekki hvað þetta kemur spaugilega út.  Það er brandarinn út af fyrir sig.  Ég er ekki klár á því hver eru skilaboðin á merkinu hér fyrir ofan.  Mér dettur helst í hug að verið sé að vara fólk í hjólastól við að fara hratt niður brekku framundan.  Annars geti þeir lent í krókódílskjafti.

merking í s-afríku7

Varúð!  Spennið brjóstahaldara og takið út úr ykkur gervitannagóma;  mjög holóttur vegur.

Notalegt tjaldstæði á strandrunnasvæði.

augl4

Varúð vegna lágflugs!

merking í s-afríku2

Bavíanar

(er myndin af apa?)

merking í s-afríku5

Haldið ykkur lengst til vinstri

merking í s-afríku3

Hérna gerðist ekkert 1897

furðumynd26

Hugsanlega tákna þessar merkingar að vegurinn sé lokaður.  Það er að segja til hægri,  vinstri og beint áfram.  Merkinu sem bannar að ekið sé til baka hlýtur eiginlega að vera ofaukið.


Smásaga - byggð á raunverulegum atburði

Afríka

  Gösli hefur alltaf haft það gott.  Hann hefur stofnað ýmis fyrirtæki sem fóru vel af stað.  Hann var með góðar hugmyndir og góðar vörur.  En óþolinmæði í að verða ríkur hefur valdið því að hann hefur áráttu til að grípa til ólöglegra flýtileiða að markmiðinu.  Honum sést ekki fyrir og dæmin hafa endað ýmist með málaferlum og/eða kollsteypu (gjaldþroti).  Um tíma varð hann að flýja land á meðan mál fyrndust og viðskiptavinum sem töldu sig svikna rynni reiði.

  Hann á góða konu.  Hún hefur haldið heimilinu gangandi með því að vinna tvöfalda vinnu.  Jafnframt standa að henni ríkir ættingjar sem eru örlátir við að hlaupa undir bagga fjárhagslega þegar vindar blása þannig.
.
  Eitt sinn helltist yfir Gösla áhugi fyrir að smíða flugvélamódel í stærðinni 1/10.  Hann lét konuna ekki vita af þessu.  Leigði sér verkstæði úti í bæ og hóf smíðar.  Hann taldi konunni trú um að hann væri að vinna í næsta viðskiptamódeli sem myndi gera þau rík. 
  Næstu mánuði sat Gösli við smíðar.  Hann er laghentur og allt gekk vel.  Hann málaði á flugvélamódelið viðeigandi merkingar og þetta var allt hið glæsilegasta.
  Loks var flugvélamódelið fullsmíðað.  Gösli blés til veislu uppi á Sandskeiði.  Bauð vinum sínum upp á grill,  kartöflusalat og bjór smygluðum ofan af Keflavíkurvelli.  Þetta var áður en bjór varð leyfilegur á Íslandi. 
  Eftir vel heppnaða veislu var flugvélamódelið sett í jómfrúarflug með fjarstýringu.  Flugvélamódelið fór á loft með stæl við mikil fagnaðarlæti og klapp.  Áður höfðu viðstaddir hlaðið hrósi á Gösla og dáðst að flugvélamódelinu.
  Þegar flugvélamódelinu var snúið við ruglaðist Gösli í ríminu.  Hann réði ekki við að stýra því með öfugum formerkjum.  Hugsanlega var bjórnum eitthvað um að kenna.  Allt fór í rugl.  Módelið krassaði og mölbrotnaði.
  Þá varð Gösla að orði:  "Það er eins gott að konan vissi aldrei af þessu.  Annars þyrfti ég að sofa í stofusófanum næsta mánuðinn."
----------------------------------------
  Fleiri sögur og örleikrit (flest skáldskapur):
- Miðaldra maður
- Leyndarmál stráks

Klúður

brúðurin í sleik við vinkonu

  Kunningi minn hélt tvö heimili.  Eitt í Reykjavík og annað í þorpi í töluverðri fjarlægð frá Reykjavík.  Hann vann og vinnur í Reykjavík en kona hans og börn bjuggu í þorpinu.  Þar eyddi kunninginn helgum í faðmi fjölskyldunnar.  Svo brá við eina aðfaranótt fimmtudags að hann þurfti að sækja eitthvað á heimili sitt í þorpinu.  Hann var að vinna til miðnættis í bænum.  Allir voru sofandi í þorpinu og hann læddist inn til sín og gætti þess að vekja enga.  Er hann opnaði dyr svefnherbergisins sá hann konu sína sofa þar værum svefni ásamt manni sem hann kannaðist við.

  Kunninginn læddist aftur út og brunaði til Reykjavíkur.  Daginn eftir hringdi hann í konuna og spurði:  "Hvernig getur þú gert mér þetta; að draga upp í hjónarúm okkar annan mann?"  Konan svaraði:  "Þér kemur það ekki við."  Svo skellti hún á og svaraði ekki fleiri símtölum frá kunningjanum.

  Kunninginn var niðurbrotinn og miður sín.  Hann sá í hendi sér að hjónabandið var búið.  Hann ákvað að skella sér til Keflavíkur og sletta ærlega úr klaufunum á laugardagskvöldinu.  Pantaði sér hótelherbergi og var mættur í það síðdegis á laugardeginum.  Hann var þreyttur eftir kvöldvakt í vinnu á föstudeginum og lagði sig á hótelherberginu.  Hann vaknaði sprækur um klukkan 9,  skellti í sig nokkrum koníaksskotum,  fór í sturtu,  rakaði sig og klæddi í sparifötin.  Fór síðan niður í borðsal og pantaði veglegan kvöldmat.  Þjónninn svaraði að einungis morgunmatur stæði til boða.  Kunningjanum þótti það einkennilegt og gerði athugasemd.  Eftir smá spjall um morgunverð sagði þjóninn:  "Kíktu hér út um glugga.  Hér er ekkert um að vera.  Allt steindautt á sunnudagsmorgni í Keflavík."

  Kunninginn hafði sofið af sér laugardagskvöldið og það var kominn sunnudagsmorgunn.  Kunninginn var orðinn það hreifur af koníakinu að ekki var um annað að ræða en drekkja sorgum sínum áfram á hótelinu og bölva fram að næstu nótt.  Helgin ónýt.  Eins og hjónabandið.


Taktu laugardagskvöldið frá

plakat-sólstafir

  Það verður heldur betur líf og fjör og skemmtilegt næstkomandi laugardagskvöld.  Það er betra og öruggara að taka laugardagskvöldið frá í tæka tíð.  Þetta gefur fólki úti á landsbyggðinni gott tækifæri til að bregða sér í borgarferð og þeim sem eru staddir erlendis ástæðu til að skjótast upp á Klakann og velta sér upp úr ónýtri krónu.

  Eins og sést á myndinni hér fyrir ofan eru það risarnir tveir í íslensku þungarokki,  Sólstafir og XIII,  sem munu troða upp í Sódómu Reykjavík á laugardaginn,  klukkan 22.00.  Um Sólstafi vísa ég til http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/919886/.  Þetta verða síðustu hljómleikar Sólstafa á Íslandi í bili.  Hljómsveitin er þétt bókuð erlendis næstu vikur og gott ef hljómsveitin er ekki búsett í Bretlandi.

  XIII verður með "classic line up" af meistaraverkinu  Salt  sem kom út 1993.


Hugljúf saga fyrir svefninn

navado kona

  Þessi saga er sögð vera sönn.  Hún segir frá Sallý sem var að keyra heim til sín eftir sölutúr um Norður-Arizona.  Þá kom hún auga á aldraða Navajo-indíánakonu sem gekk hægt eftir vegarkantinum.  Sallý stoppaði bílinn og bauð Navajo-konunni far.  Hún kinkaði kolli án þess að segja neitt og settist þakklát inn í bílinn.

  Sallý reyndi að hefja samræður en sú gamla var ekki ræðin.  Hún svaraði játandi með því að kinka kolli eða neitandi með því að hrista höfuðið.  Hinsvegar virti hún áhugasöm innréttingu bílsins fyrir sér hátt og lágt,  líkast til óvön að sitja í fínum bíl.  Skyndilega varð þeirri gömlu starsýnt á brúnan bréfpoka sem var skorðaður við hliðina á ökumannssætinu.  Forvitni hennar leyndi sér ekki.  Sallý benti á pokann og sagði:  "Þetta er koníaksflaska sem ég fékk fyrir kallinn minn."

  Navajo-konan varð undrandi á svipinn.  Svo kinkaði hún samþykkjandi kolli og sagði:  "Góð skipti."

 


Gott ráð

 bíll með aukabúnaði

  Ég fór á veitingastað.  Við næsta borð sátu tvær konur.  Af aldri þeirra og orðum mátti ráða að þær væru mæðgur.  Dóttirin fékk símtal.  Auðheyrt var að hringjandinn var að boða bíl hennar á verkstæði.  Er símtalinu lauk tjáði hún mömmu sinni frá því að bíllinn færi á verkstæði daginn eftir og verði þar að minnsta kosti í tvo daga.

  "Hvernig ferðu þá að með börnin?" spurði mamman kvíðin.  Dóttirin sagðist ekki vita það.  Hún hefði engan pening til að taka leigubíl.  Þær mæðgur vandræddust yfir þessu í góða stund og veltu fyrir sér ýmsum möguleikum,  sem gengu ekki upp þegar betur var að gáð.

  Allt í einu glaðnaði yfir dótturinni og hún segir:  "Ég fæ bara bíl lánaðan á einhverri bílasölu."

  Mamman hafði efasemdir um þessa lausn.  En dóttirin var sannfærð.  Allt væri frosið á bílasölum.  Það færi illa með bílana að láta þá standa óhreyfða mánuðum saman.  Bílasalar myndu taka því fagnandi að einhver vildi liðka gamlan bíl fyrir þá.

  Konan hringdi í 118 og bað um að sér yrði gefið samband við einhverja bílasölu í Reykjavík.  Það gekk lipurt fyrir sig.  Konan kynnti sig og bar upp erindið.  Bílasalinn spurði greinilega hvort viðgerð á bíl hennar tengdist bílasölu sinni á einhvern hátt.  Nei,  bílinn var í viðgerð á verkstæði úti í bæ og hún hafði bara hringt í einhverja bílasölu af handahófi. 

  Bílasalinn tók erindinu illa.  Konan þuldi upp fyrir hann sömu rök og hún hafði áður sagt mömmu sinni.  Allt kom fyrir ekki.  Er símtalinu var lokið án árangurs stundi konan undrandi og hneyksluð:  "Djöfull sem bílasalar eru hrikalega heimskir!"


Veitingahússumsögn

humarhumar-a-ponnu

 - Réttur:  Humar og humarsúpa

 - Staður:  Við fjöruborðið

 - Einkunn:  ***** (af 5)

  Um verslunarmannahelgina borðaði ég tvívegis á veitingahúsinu Við fjöruborðið á Stokkseyri.  Í fyrra skiptið vorum við fjögur sem fengum okkur humarsúpu.  Ég er mikið fyrir humarsúpu og hélt að ég væri búinn að smakka allar bestu útgáfur af humarsúpu,  bæði innanlands og utan.  Humarsúpan Við fjöruborðið toppaði allt.  Bragðsterk með mildu tómatbragði og góðu langvarandi eftirbragði. 

  Súpan fyrir okkur fjögur var borin fram á súpudiskum með 3 - 4 stórum humrum.  Jafnframt var borin fram súpuskál með vænum skammti af humrum svo vel útilátin að okkur var um megn að klára úr skálinni.  Meðlæti var brauð bakað á staðnum,  hvítlauksdressing og eitthvað fleira sem ég smakkaði ekki.  Þegar gekk á hvítlauksdressingu bætti þjónninn annarri skál af henni við.

  Daginn eftir var humarsúpa í forrétt og humar í aðalrétt.  Meðlæti var blandað grænmeti af ýmsu tagi í mörgum skálum,  kartöflur og fleira.  Humarinn var borinn fram í stórri skál sem við skömmtuðum okkur sjálf af.  Þegar minnkaði í skálinni var bætt við.  Þetta var "eat as much as you can".   

  Humarinn var ferskur og snöggsoðinn.  Dálítil handavinna var að "fiska" hann úr skelinni sem gerði dæmið bara skemmtilegra.  Við fengum blauta klúta til að þrífa á okkur puttana eftir frábæra máltíð.

  Við fjöruborðið á Stokkseyri er tvímælalaust einn albesti veitingastaður landsins.  Ég hlakka til að fara aftur á þennan stað og hlakka til að bjóða útlendingum upp á veitingastað sem er á heimsmælikvarða.    

www.fjorubordid.is 

 


Hlegið að Haraldri

færeyski hesturinn haraldur

  Nokkrir Færeyingar sem ég hitti um helgina voru sammála um að fyndnasta karlmannsnafn sem þeir heyra á Íslandi sé Haraldur.  Færeyingarnir eiga erfitt með að halda niðri í sér hlátrinum þegar Íslendingur er kynntur fyrir þeim sem Haraldur.  Ástæðan er sú að í Færeyjum er nafnið Haraldur einungis notað á hesta.  Fyrir Færeyingum hljómar nafnið eins og ef fyrir okkur væru kynntir menn undir nöfnum á borð við Sörli eða Snati.

  Jafn fyndið þykir Færeyingum þegar Íslendingur kynnir sig sem Örlyg.  Þegar Íslendingur heilsar Færeyingi þannig:  "Sæll,  ég er Örlygur" heyrir Færeyingurinn hann aðeins segja:  "Sæll,  ég er fáviti."  Orðið örlygur þýðir nefnilega fáviti á færeysku. 

  Myndin er af færeyska hestinum Haraldri.  Til gamans má geta að það eru aðeins 50 hestar í Færeyjum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.