Færsluflokkur: Ferðalög

Böðlast í Belfast

  Ég viðraði mig í Belfast á Norður-Írlandi yfir frjósemishátíð vorsins,  páskana (kenndir við frjósemisgyðjuna Easter - eða Eoster samkvæmt eldri stafsetningu).  Ástæðan fyrir áfangastaðnum er sú að fyrir tveimur árum skrapp ég til Dublin í írska lýðveldinu.  Þar kunni ég afskaplega vel við mig.  Heimamenn eru mjög félagslyndir,  glaðlegir og ræðnir.  Þegar ég settist inn á pöbb leið aldrei á löngu þar til einhverjir settust hjá manni til að spjalla.  Allir kátir og hressir.  

  Guinness-bjórinn á Írlandi er sælgæti.  Hann er ekkert góður á Íslandi.  Bragðgæðin ráðast af því að hann verður að vera splunkunýr og ferskur af krana.  

  Í Dublin var mér sagt að Belfast væri afar ólík Dublin.  Það væri eins og sitthvort landið.  Fólkið ólíkt.  Sitthvor gjaldeyrinn (evra í Dublin, enskt pund í Belfast).  Sitthvor trúarbrögðin (kaþólikkar ráðandi í Dublin,  mótmælendatrúar í Belfast og níðast á kaþólska minnihlutanum).  

  Fyrir tveimur áratugum eða svo var Belfast hættusvæði.  Ferðamenn hættu sér ekki þangað.  Trúfélögin drápu um 100 manns á ári,  slösuðu ennþá fleiri og sprengdu í leiðinni upp allskonar mannvirki og bíla.  Breski herinn fór hamförum,  dómsmorð voru framin á færibandi.  Bítillinn Paul McCartney kom lítillega inn á þetta í laginu "Give Ireland back to the Irish".

  Ég skemmti mér mun betur í Dublin en í Belfast.  Inn í samanburðinn spilar að veitingastaðir og verslanir voru meira og minna í lás yfir hátíðisdagana í Belfast.  Og þó að einstakur matvörumarkaður væri opinn þá mátti hann ekki afgreiða bjór - þó að bjórinn væri að glenna sig um búðina.

  Ég skrapp á pöbba í Belfast.  Ólíkt í Dublin héldu kúnnar sig út af fyrir sig.  Blönduðu ekki geði við aðkomumenn.  Ég nefndi þetta við tvær gestkomandi Dublínar-dömur á gistiheimilinu mínu í Belfast.  Þær könnuðust vel við þennan mun.  Tiltóku að auki að Dublín-búum þyki sérlega gaman að spjalla við Íslendinga.  Ólíkt öðru fólki svari þeir ekki spurningum með jái eða nei heldur með því að segja stuttar sögur.  Sennilega eru það ýkjur. Og þó?

      


Wow til fyrirmyndar í vandræðalegri stöðu

  Í gærmorgun bloggaði ég á þessum vettvangi um ferðalag frá Brixton á Englandi til Íslands.  Ég dró ekkert undan.  Það gekk á ýmsu.  Ferð sem átti að taka rösklega tvo klukkutíma teygðist upp í næstum því sautján klukkutíma pakka.  

  Flug með Wow átti að hefjast klukkan 10.45 fyrir tveimur dögum.  Brottför frestaðist ítrekað.  Um hádegisbil var farþegum tilkynnt að þetta gengi ekki lengur.  Það væri óásættanlegt að bíða og hanga stöðugt á flugvellinum í Brixton.  Farþegum var boðið í glæsilegt hádegisverðarhlaðborð á Brixton hóteli.  Það var alvöru veisla.  Á hlaðborðinu var tekið tillit til grænmetisjórtrara (vegan), fólks með glúten-óþol og örvhentra.

  Í eftirrétt voru allskonar ljúffengar ostatertur og súkkulaðiterta.  Fátt gerðist fram að kvöldmat.  Þá var röðin komin að öðru og ennþá flottara hlaðborði.  Síðan fékk hver einstaklingur inneignarmiða upp á 11 sterlingspund (1500 ísl. kr.) í flugstöðinni í Brixton.

  Eflaust var þetta allt samkvæmt baktryggingum Wow.  Allt til fyrirmyndar.  Flugmaður Wow í Brixton olli vandræðunum. Ættingjar hans tóku hann úr umferð.  Kannski vegna ölvunar hans.  Kannski vegna ölvunar þeirra.  Kannski vegna alvarlegra vandamáls.  Sjálfsagt að sýna því skilning og umburðarlyndi.

  Aðrir starfsmenn Wow stóðu sig með prýði í hvívetna.  Allan tímann spruttu þeir óvænt upp undan borðum og út úr ósýnilegum skápum.  Stóðu skyndilega við hliðina á manni og upplýstu um stöðu mála hverju sinni.  Þeir kölluðu ekki yfir hópinn heldur fóru eins og jó-jó á milli allra 200 farþega.  Gengu samviskusamlega úr skugga um að hver og einn væri vel upplýstur um gang mála.  Til viðbótar vorum við mötuð á sms-skilaboðum og tölvupósti.

  Dæmi um vinnubrögðin:  Þegar rútur mættu á flugvöllinn til að ferja okkur yfir á Bristol-hótel þá höfðu nokkrir farþegar - miðaldra karlar - fært sig frá biðskýli og aftur inn á flugstöðina.  Erindi þeirra var að kaupa sér bjórglas (eða kaffibolla) til að stytta stundir.  Ég spurði rútubílstjóra hvort að ég ætti ekki að skottast inn til þeirra og láta vita að rúturnar væru komnar.  "Nei," var svarið.  "Far þú inn í rútu.  Við sjáum um alla hina.  Við förum ekki fyrr en allir hafa skilað sér.  Í versta falli látum við kalla eftir vanskilagemsum í hátalarakerfi flugstöðvarinnar."  

  Mínútu síðar sá ég bílstjórann koma út úr flugstöðinni með kallana sem laumuðust í drykkina.

  Ég gef starfsfólki Wow hæstu einkunn fyrir aðdáunarverða frammistöðu í óvæntri og erfiðri stöðu.  Ég ferðast árlega mörgum sinnum með flugvél bæði innan lands og utan.  Ófyrirsjáanleg vandamál koma af og til upp.  Stundum með óþægindum og aukakostnaði.  Á móti vegur að frávikin krydda tilveruna,  brjóta upp hversdaginn.  Eru ævintýri út af fyrir sig.  Viðbrögð starfsfólks flugfélaganna skipta miklu - mjög miklu - um það hvernig maður metur atburðarrásina í lok dags.  Í framangreindu máli skiluðu jákvæð, fagleg og, já, fullkomin viðbrögð starfsfólks Wow alsáttum farþega - þrátt fyrir næstum því sólarhringslanga röskun á flugi.            

    


Aðgát skal höfð

  Á morgun spillist færð og skyggni.  Hlýindakafla síðastliðinna daga er þar með að baki.  Við tekur fljúgandi hálka, él, hvassviðri og allskonar.  Einkum á vestari hluta landsins.  Þar með töldu höfuðborgarsvæðinu.  Þá er betra að leggja bílnum.  Eða fara afar varlega í umferðinni.  Annars endar ökuferðin svona:

klaufaakstur aklaufaakstur bklaufaakstur cklaufaakstur dklaufaakstur e   


mbl.is Snjór og hálka taka við af hlýindum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hneyksli ársins

  Á dögunum fór allt á hliðina í Færeyjum.  Samfélagsmiðlarnir loguðu:  Fésbók,  bloggsíður og athugasemdakerfi netmiðla fylltust af fordæmingum og undrun á ósvífni sem á sér enga hliðstæðu í Færeyjum.  Umfjöllun um hneykslið var forsíðufrétt, uppsláttur í eina dagblaði Færeyja,  Sósíalnum.  Opnugrein gerði hneykslinu skil í vandaðri fréttaskýringu.

  Grandvar maður sem má ekki vamm sitt vita,  Gunnar Hjelm,  lagði í stæði fyrir fatlaða.  Hann er ófatlaður.  Hann vinnur á sjúkraflutningabíl og hefur hreina sakaskrá.

  Hann brá sér í bíó. Að því loknu lagði hann bíl í svartamyrkri og snjóföl í bílastæði.  Hann varð þess ekki var að á malbikinu var stæðið merkt fötluðum.  Ljósmynd af bíl hans í stæðinu komst í umferð á samfélagsmiðlum.  Þetta var nýtt og óvænt.  Annað eins brot hefur aldrei áður komið upp í Færeyjum.  Viðbrögðin voru eftir því.  Svona gera Færeyingar ekki.  Aldrei.  Og mega aldrei gera.

  Gunnari Hjelm var eðlilega illa brugðið. Fyrir það fyrsta að uppgötva að stæðið væri ætlað fötluðum.  Í öðru lagi vegna heiftarlegra viðbragða almennings.  Hann var hrakyrtur,  borinn út,  hæddur og smánaður.  Hann er eðlilega miður sín.  Sem og allir hans ættingjar og vinir.  Skömmin nær yfir stórfjölskylduna til fjórða ættliðar.

  Svona óskammfeilinn glæpur verður ekki aftur framinn í Færeyjum næstu ár.  Svo mikið er víst.  

i_stae_i_fyrir_fatla_ailla lagt við gleraugnabúð 

 


Alltaf reikna með því að farangur skemmist og verði viðskila

  Allir sem ferðast með flugvél verða að gera ráð fyrir því að farangur fylgi ekki með í för.  Hann getur átt það til að ferðast til annarra áfangastaða.  Jafnvel rúntað út um allan heim.  Farangur hegðar sér svo undarlega.  Þetta er ekki eitthvað sem gerist örsjaldan.  Þetta gerist oft.  Ég hef tvívegis lent í þessu.  Í bæði skiptin innanlands.  Í annað skiptið varð farangurinn eftir í Reykjavík þegar ég fór til Seyðisfjarðar að kenna skrautskrift.  Hann kom með flugi til Egilsstaða daginn eftir.  Í millitíðinni varð ég að kaupa námskeiðsvörur í bókabúð í Fellabæ og taka bíl á leigu til að sækja farangurinn þegar hann skilaði sér.  

  Ég sat uppi með útgjöld vegna þessa óbætt.  Ekkert að því.  Það kryddar tilveruna.  

  Í hitt skiptið fór ég til Akureyrar. Farangurinn kom með næstu flugvél á eftir einhverjum klukkutímum síðar.  Það var bara gaman að bíða í kaffiteríunni á Akureyrarflugvelli á meðan.  Þar voru nýbakaðar pönnukökur á boðstólum.

  Eitt sinn heimsóttu mig hjón frá Svíþjóð.  Farangurinn týndist.  Ég man ekki hvort að hann skilaði sér einhvertíma.  Að minnsta kosti ekki næstu daga.  Hjónin neyddust til að fata sig upp á Íslandi.  Þeim ofbauð fataverð á Íslandi.  Kannski fóru þau í vitlausar búðir í Kringlunni.    

  Vegna þess hversu svona óhöpp eru algeng er nauðsynlegt að taka með í handfarangri helstu nauðsynjavörur.  

  Ennþá algengara er að farangur verði fyrir hnjaski.  Það er góð skemmtun að fylgjast með hleðsluguttum ferma og afferma.  

        


mbl.is Töskunum mokað út fyrir flugtak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjólkurþamb

  Fyrsta verk splunkunýrra, farsælla og ástsælla forsetahjóna,  Guðna Th. Jóhannessonar og Elizu Reid,  var að heimsækja Sólheima.  Þar er rekið vistheimili fyrir skemmtilegt fólk með allskonar þroskafrávik. Að óreyndu mátti ætla að með þessu væru forsetahjónin að votta vistmönnum virðingu sína.  Sem áreiðanlega var meiningin.  

  Þá bregður svo við að tvær þekktar fatlaðar konur fordæma heimsóknina.  Lýsa henni sem svo að vistmenn á Sólheimum séu gerðir að sýningargripum og blessun lögð yfir aðskilnað fatlaðra frá "heilbrigðum".  Sjónarmið út af fyrir sig.

  Í fréttum Stöðvar 2 var sagt frá heimsókninni.  Vistmaður var inntur eftir því hvernig honum lítist á nýju forsetahjónin. Svarið var þetta vel rímaða gullkorn: "Gott fólk sem drekkur mikla mjólk!"

  


mbl.is Breytingar á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heitt íste

  Ég kom við í kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur.  Þangað kom líka par sem talaði - að ég held - frönsku áður en það fór að skoða matseðilinn.  Svo pantaði það sér drykki í hálfgerðum tungumálaörðugleikum.  Strákurinn spurði á bjagaðri ensku hvort að hægt væri að fá heitt íste (Ice Tea).  Þetta hljómar eins og mótsögn.  Ég er ekki nógu mikill heimsborgari né vel að mér í tedrykkju til að átta mig á því hvort að tedrykkjufólk tekur almennt svona til orða.

íste 


Smásagan Veiðiferð. Bönnuð börnum!

  Hvað er betra í heiminum en að vera aleinn uppi í óbyggðum í heila viku;  með veiðistöng og nóg af köldum bjór?  Þetta hugsar Brandur um leið og hann sporðrennur ljúffengri nýgrillaðri bleikju.  Klukkutíma áður synti hún hamingjusöm í nálægum lækjarhyl ásamt nánustu ættingjum og æskuvinum.

  Brandur stendur upp, ropar og skolar mataráhöld í hylnum.  Hann gengur frá grillinu og kemur því fyrir í farangursgeymslu húsbílsins.  Það fer að rökkva innan skamms.  Þrátt fyrir bjór í maga þá sest hann undir stýri og ekur af stað.  Hann verður hvort sem er ekki kominn til byggða fyrr en upp úr miðnætti.

  Ferðin gengur eins og í sögu.  Hann leggur í bílastæðið fjarri húsinu.  Konan er greinilega sofnuð.  Myrkur grúfir yfir.  Hann vill ekki vekja hana.  Læðist hljóðlega inn,  afklæðist og leggst upp í rúm þétt við frúna.  Svefninn sækir strax á.  Hjónarúmið er miklu mýkra og betra en beddinn í húsbílnum.  Í þann mund sem hann er að svífa inn í draumaland þá vaknar lostakústur.  Eftir vikufríið vill hann sitt.  Í svefnrofanum hlýðir Brandur kallinu og bregður sér á bak.  Það er hvorki tölt né brokkað heldur þeysireið á harðastökki með kröftugum rykkjum og hnykkjum í allar áttir.  Hamagangurinn er slíkur að stæðilegt rúmið leikur á reiðiskjálfi.

  Að leik loknum leggst Brandur á bakið og blæs eins og hvalur.  Hann er alveg búinn á því.  Munnurinn er þurr og þorsti sækir á.  Hann læðist fram í eldhús og fær sér vatnssopa.  Út undan sér tekur hann eftir veikum bláum bjarma í hálflokuðum stofudyrunum.  Hann læðist að og stingur höfði varlega inn um dyragættina.  Við stofuborðið situr eiginkonan.  Hún er með fartölvu fyrir framan sig.  Hún kemur strax auga á Brand, rífur af sér heyrnartól og kallar hálf hvíslandi:  "Hæ, elskan!  Ég heyrði þig ekki koma.  Amma í Kanada kom áðan í heimsókn.  Hún ætlar að vera hjá okkur í nokkra daga áður en hún fer norður.  Hún er orðin svo hrum,  97 ára,  skökk og stirð og bakveik að ég leyfði henni að sofa í hjónarúminu. Við sofum bara í gestaherberginu á meðan." 

blerikja

 

 

 

 

 

 

 

 

 

_______________________

  Fleiri smásögur HÉR.

   

              


G!Festival í Götu

  Eins og stundum áður brá ég mér á G!Festival.  Það er haldið í neðri hluta þorpsins Suður-Götu á Austurey í Færeyjum.  Um ferðina og hátíðina má lesa á visir.is með því að smella H É R.  Ástæða er til að smella á myndirnar þar - og á þessari síðu - til að stækka þær.

  Suður-Gata er eitt þriggja samliggjandi þorpa sem mynda í sameiningu þúsund manna þorpið Götu.  Hin eru Norður-Gata og Götukleif (Götugjógv).  Á þessari mynd er Suður-Gata (410 íbúar) næst okkur og Norður-Gata (565 íbúar) fjærst.  Götukleif (52 íbúar) er á milli.  Þar er grunnskólinn,  kirkjan og félagsheimilið.  Það er hagkvæmt.

gata

 

 

 

 

 

 

 

 

  Hérlendis er Gata þekkt vegna orðatiltækis um Þránd í Götu.  Þegar hindrun er í vegi er sagt að þar sé Þrándur í Götu.  Þrándur var uppi 945-1035.  Hann var frumherji í menntun í Færeyjum og barðist gegn skattgreiðslum Færeyinga til Noregs og kristnitöku.  Hann var mikill trúmaður og aðhylltist ásatrú. Í Götu er myndarleg stytta af honum.  Þar stendur hann bísperrtur láréttur;  snilldar túlkun á því hve þver og fastur fyrir hann var.

þrándur í götu

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Meðal skemmtikrafta á G!Festival var færeyska tónlistarkonan Konni Kass.  Hún kemur fram á Airwaves í haust.

  Á föstudeginum var ljúft að sjá og hlýða á kvæðarokksveitina Hamradun.  Hljómsveitin Týr kom upp í hugann.  Kannski ekki skrýtið.  Söngvarinn,  Pól Arni,  söng á sínum tíma lögin með Tý sem Íslendingar kynntust fyrst.  Þar á meðal gömul kvæðalög á borð við "Ormurin langi" og "Ólavur Riddararós".  Við nánari hlustun á Harmadun kemur í ljós að hljómsveitin hefur fundið sinn eigin heillandi stíl.  

   Annika Hoydal hefur átt hug og hjörtu Færeyinga í hálfa öld.  Að vísu bar skugga á þegar hún kom fram nakin í danskri bíómynd á hippaárunum.  Þá bannaði færeyska ríkisútvarpið lag með henni.  Það var sagt vera ósiðlegt.  En þetta gekk hratt yfir.  Í dag tekur fjöldinn hraustlega undir söng Anniku.  Það er gaman að sjá hvað vinsældir hennar ganga þvert á alla aldurshópa. 

  Eivör hefur tekið þátt í G!Festivali frá upphafi, 2002.  Aðeins örfáu sinnum hefur hún ekki komið því við að mæta.  Hún er á heimavelli í Götu í bókstaflegri merkingu.  Þar fæddist hún og ólst upp.  Þar búa systkini hennar,  móðir,  amma og æskuvinirnir.  Hún er drottning í Færeyjum og DrottningIN í Götu með stórum  staf og ákveðnu8m greini.  

  Færeyskir rokkunnendur unnu heimavinnuna fyrir G!Festival.  Þeir höfðu greinilega kynnt sér tónlist íslenska bandsins á hátíðinni,  Agent Fresco;  sungu með í þeim lögum sem oftast eru spiluð á þútúpunni. 

  Gæsla var fjölmenn og áberandi í sjálflýsandi vestum.  Einnig hjúkrunarfræðingar og læknir.  Hópurinn var á stöðugu rölti um allt hátíðarsvæðið.  Þegar á vegi urðu unglingar sem greinilega höfðu sloppið í bjór var staldrað við;  vatni hellt í glas og viðkomandi hvattir til að sturta því í sig.  Hlaut það hvarvetna góðar undirtektir.  

  Á VIP svæðinu (fyrir fjölmiðlamenn,  útsendara plötufyrirtækja og tónlistarhátíða,  tónlistarfólkið og annað starfsfólk) var útibú frá skemmtistaðnum Sirkusi í Þórshöfn.  Sá staður er nákvæm eftirmynd af skemmtistaðnum Sirkusi sem stóð við Klapparstíg í Reykjavík.,  Eigandi Sirkus er Sunneva Háberg Eysturstein.  Hún er einnig þekkt sem vinsæll plötusnúður og stjórnmálamaður.

  Bróðir Sunnevu,  Knut Háberg Eysturstein,  er líka vinsæll plötusnúður.  Hann hefur sent frá sér nokkrar sólóplötur og spilað í ýmsum hljómsveitum,  til að mynda á G!Festivali með Sakaris.

sunneva - knut

sirkus

.  


Túrhestarnir bjarga sér

  Ljósmyndir sem Garðar Valur Hallfreðsson tók á bílaþvottaplani á Egilsstöðum hafa vakið athygli.  Þær hafa farið eins og hvítur stormsveipur um netheima.  Á þeim sjást kviknaktir erlendir ferðamenn skola af sér ferðarykið,  gestum og gangandi til skemmtunar og nokkurrar undrunar.  

  Fyrir nokkrum dögum átti ég erindi að bensínstöð Neins í Fossvogi.  Ég þurfti að yfirfara loftþrýsting í dekkjum.  Á bílaþvottaplaninu birtist bíll eins og þruma úr heiðskýru lofti.  Út snöruðust tveir ungir menn.  Þeir töluðu útlensku.  Þeir báru út á planið handfylli af óhreinum borðbúnaði:  Djúpum og grunnum glerdiskum, skálum í ýmsum stærðum,  glös,  bolla,  hnífapör,  ausur, sleifar,  sax og sitthvað fleira.  Jafnframt stóran tóman bala.  Svo hófust þeir handa:  Tóku bílaþvottaburstana og skrúbbuðu leirtauið hátt og lágt.  Balann fylltu þeir af vatni og sprautuðu uppþvottasápu í.  Þangað stungu þeir uppvaskinu að þvotti loknum.  Að endingu skoluðu þeir allt og þurrkuðu samviskusamlega.  

  Túrhestarnir bjarga sér.  Þeir þurfa ekki uppþvottavél.

  Einn kom inn í kaffihús á dögunum og pantaði heitt íste (Can I have a hot ice tea?). 

túristar    


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband