Færsluflokkur: Matur og drykkur

Íslendingar mjakast hægt í humátt að nútímanum

skömmtunarseðill bjórFyrsta aldarþriðjung ævi minnar var bannað að selja bjór á Íslandi.  Utan Keflavíkurflugvallar,  vel að merkja.  Fólk laumaðist til að kaupa bjór af bandarískum hermönnum á Vellinum.  Þeim þótti þetta vitaskuld vera furðulegt og geggjað.  Og jafnframt verulega sprenghlægilegt.  Þeir voru allir af vilja gerðir að hjálpa til við smygl á bjór ofan af Velli.  Þaðan barst hann í bílförmum áratugum saman. 

  Bjórbannið stóð frá 1915 til 1989.  Eitthvað var um að veitingastaðir hefðu á boðstólum svokallað bjórlíki.  Þar var Kláravíni blandað út í óáfengt öl.  Eftirspurn var góð.  En þetta var meiriháttar kjánalegt.  

  Svo mátti ekki selja áfengi á skemmtistöðum á miðvikudögum  (þann dag átti að renna af mönnum).  Það mátti ekki sýna sjónvarpsdagskrá á fimmtudögum (það átti að vera fjölskyldukvöld) og ekki allan júní-mánuð (þá átti fjölskyldan að njóta sumarfrís).  Það mátti ekki selja mjólk nema í sérstökum mjólkurbúðum.  Það mátti ekki selja útvarpstæki nema í útvarpsverslun ríkisins.  Það mátti ekki selja ost nema í Osta- og smjörsölunni.  Það mátti ekki hafa verslanir opnar lengur en til klukkan 18.00.  Nema á föstudögum.  Þá mátti hafa opið til klukkan 19.00 (það þurfti að sækja formlega um leyfi til þess).  Á laugardögum máttu verslanir vera opnar á milli klukkan 11.00 til 14.00.  Allt lokað á sunnudögum og hátíðisdögum.

 Það mátti ekki halda rokkhljómleika í námunda við hátíðisdaga ríkiskirkjunnar.  Gríntímaritið Spegillinn var gert upptækt og útgefandinn sendur í gjaldþrot vegna góðlátlegs gríns um fermingarbörn.  Það var guðlast.  Engu mátti muna að Spaugstofan hlyti sömu örlög fyrir orðaleik um að Jesú gæfi blindum sýn (í útfærslu Spaugstofunnar gaf Jesú blindum áskrift að sjónvarpsstöðinni Sýn).  

  Það mátti ekki selja föt eða annað utandyra í göngugötu.  Sala á vöfflum bökuðum á staðnum utandyra var stöðvuð af því að það vantaði 4 cm upp á lofthæð þar sem deigið var hrært.  Ábúðafullir embættismenn fengu gott "kikk" út úr því að passa upp á að strangasta lögstaf væri fylgt í hvívetna.    

  Svona mætti lengi lengi lengi telja.  Enn í dag er starfandi manna- og hundanafnanefnd sem bíður á bak við skírnarfontinn og stekkur fram þegar henni mislíkar nafn.  Bann,  bann, bann!

  Ísland var og er ótrúlega forpokað land.  Öll skref í átt frjálsu og nútímalegu samfélagi eru stigin seint og hægt og mæta öflugu mótlæti.  

  Árið 2015 er það uppsláttarfrétt í fjölmiðlum að veitingastaðir tengdir bensínsölu ætli að selja bjór með mat.  Danskan Tuborg bjór í örfáa daga á örfáum matsölustöðum. Það að þetta sé frétt og til umfjöllunar á bloggsíðum sýnir hvað Ísland á langt í land með að komast inn í nútímann.  Í nágrannalöndum þykir sjálfsagt að kaupa bjór í úrvali á bensínstöðvum,  hverfissjoppum og hvar sem er.     


mbl.is Bjór á bensínstöðvum Olís
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umdeildir kleinuhringir, sleiktir og ósleiktir

krummi mótmælir DD 

1100 mann hafa "lækað" frétt mbl.is af væntanlegri opnun kleinuhringjastaðarins Dunkin´Donuts á Laugavegi 3.  Formleg opnun verður um mánaðarmótin júlí/ágúst.  Eða því sem næst verslunarmannahelginni.  Flest "lækin" eru komin frá lögregluþjónum.  Þeir eru spenntir fyrir kleinuhringjunum.  Einkum þeim sem hafa mikið af glassúr.  Jafnframt hefur myndast mikill þrýstingur frá lögregluþjónum á landsbyggðinni um að fá í sitt þorp útibú frá DD kleinuhringjum.  

  Ekki fagna allir innrás DD.  Tónlistarmaðurinn frábæri Oddur Hrafn Björgvinsson - þekktastur sem rokkstjarnan Krummi í Mínus - hefur stigið fram og lýst yfir vanþóknun á þessu ullabjakki.  Og uppskorið á Fésbók hátt í sex hundruð "læk" á það.  Ekkert frá lögregluþjónum.  Krummi veit hvað hann syngur.  Einn besti söngvari landsins,  flottur lagahöfundur og túlkandi í hljómsveitum á borð við Esju og Legend.  

  Það er alltaf gott þegar poppstjörnur láta sig varða samfélagsmál.   

  Ég veit ekki hvernig á að túlka viðhorf bandarísku söngkonunnar Ariana Grande til kleinuhringja.  Hún hefur viðbjóð á þeim og merkir þá með slefi í búðum sem selja þá. Sleikir þá svo lítið ber á. Það er ekki til eftirbreytni.  Ef hún er með hundaæði,  herpes eða alnæmi þá er hætta á að hún smiti kleinuhringjaætur af þessum sjúkdómum.  Ástæða er fyrir íslenska DD staði og viðskiptavini til að vera á varðbergi gagnvart sleiktum kleinuhringjum.  

  Ég hef ekki smekk fyrir kleinuhringjum.  En þeim mun meiri smekk fyrir Legend, Esju og Mínus.  Hvort sem er harðkjarnarokki eða Kurts Weills-legri efnistökum. 

 

mbl.is Dunkin´Donuts fer ekki framhjá neinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er lag að græða á túrhestum

 

  Útlendingar sem leggja leið sína til Íslands eru vanir að reykja kannabis.  Sumir snæða það eins og hvert annað grænmeti með mat.  Aðrir taka það í nefið.  

  Á Íslandi bregður svo við að þessir menn eru flokkaðir í hóp með morðingjum,  nauðgurum og öðrum ofbeldishrottum.  Fyrir bragðið þurfa túrhestarnir fyrir komu til Íslands að ná sambandi við glæpaklíkur hérlendis.  Þær sjá þeim fyrir kannabisi strax við komu á flugvelli í Sandgerði.

  Þessi kannabissala sogar til sín helling af erlendum gjaldeyri sem hverfur eins og dögg fyrir sólu ofan í vasa neðanjarðarglæpamanna.  Þeir fara umsvifalaust með gjaldeyrinn úr landi til að kaupa allskonar eiturlyf í útlöndum.  Jafnvel rítalín.

  Þessu þarf að breyta.  Peningnum væri betur komið í íslenska hagkerfinu til að létta undir við launagreiðslur til starfsmanna heilbrigðiskerfisins.  Dómsmálaráðherra eða utanríkisráðherra eða einhver þarf að hliðra til í flugstöðinni.  Leyfa Fríhöfninni eða einhverri annarri verslun í flugstöðinni að koma sér upp söluborði með góðu úrvali af hágæða kannabisefnum.  Þar getur góður sölumaður reitt helling af útlendum seðlum upp úr vösum hálfrar annarrar milljón túrhesta á næsta ári.  Ef vel gengur þá á þarnæsta ári líka.   


mbl.is Panta kannabis áður en þeir lenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævintýri í Skerjafirði

bike cave innréttingar

 

 

 

 

 

 

 

 

  Þegar ekið er eftir Suðurgötu í átt að Reykjavíkurflugvelli er ástæða til að beygja ekki inn Þorragötu heldur halda áfram sem leið liggur að Einarsnesi.  Sama skal gera þegar ekið er eftir Njarðargötu.  Nema í því tilfelli er best að beygja til hægri við Þorragötu og til vinstri þegar komið er að Suðurgötu.

  Við Einarsnes stendur ævintýralegasta veitingahús landsins,  Bike Cave.  Nafnið eitt og sér (hjólahellir) staðfestir að þetta er ekki hefðbundið veitingahús.  Samt er það afskaplega "kósý" og heimilislegt í aðra röndina.  En líka "töff" og "öðruvísi" í hina röndina.

bike cave vespurbike cave fyrir utan 

 

 

 

 

 

 

 

  Þegar komið er að húsinu vekur athygli að fyrir utan er fjöldi mótorhjóla.  Aðallega svokallaðar vespur.  Þegar inn er komið blasa við allskonar hlutir sem tengjast viðgerðum á hjólum.  Á gafli hússins er stór rennihurð.  Stærstu mótorhjól komast lipurlega inn í hús.

  Veitingahúsið Bike Cave er nefnilega einnig hjólaverkstæði.  Verkstæði þar sem hjólatöffarinn gerir sjálfur við hjólið sitt með bestu græjum (lyfta,  hjólastandur, dekkjavél,  jafnvægistillingarvél,  stærsta og fullkomnasta verkfærakista...) og varahlutum og getur notið aðstoðar fagmanns á staðnum.  Reynslan hefur kennt að gestum þykir sömuleiðis gaman að hlaupa undir bagga.  Í Bike Cave eru allir ein stór fjölskylda.  

bike cave mótorhjól  

 

 

 

 

 

 

 

  Ástæðan fyrir vespunum fyrir utan Bike Cave er sú að veitingahúsið er líka reiðhjóla- og vespuleiga.  Staðurinn er í göngufæri frá Reykjavíkurflugvelli.  Það er bráðsniðugt fyrir ferðamenn utan af landi - eða útlendinga - að hefja Reykjavíkurdvöl á því að fá vespu hjá Bike Cave.  Þaðan í frá er leigubílakostnaður úr sögunni en auðvelt að skottast út um allt á litlu vespunni.  

   Margt fleira er í boði í Bike Cave.  Til að fátt eitt sé nefnt má tiltaka að þar er þvottavél og þurrkari. Svokallað "laundromat".  Viðskiptavinurinn hendir í þvottavél,  sest síðan niður með kaffibolla og gluggar í dagblöð og hjólatímarit sem liggja frammi.  Eða fer í internet í tölvu staðarins.

  Risastór flatskjár er á vegg.  Hann nýtur vinsælda meðal gesta þegar íþróttaviðburðir eru í beinni útsendingu.

bike cave píanó

 

 

 

 

 

 

 

 

  Í einu horni staðarins er "svið" (ekki upphækkað),  "diskókúla" og hljóðkerfi með hljóðnema - og píanó í grennd.  Þarna troða upp trúbadorar og hver sem er.  Upplagt fyrir nýliða (leikmenn) til að spreyta sig fyrir framan áheyrendur;  vini og kunningja.   

bike cave kjötsúpa

 

 

 

 

 

 

 

 

  Þar fyrir utan:  Þetta er veitingahús.  Eitt ódýrasta og besta veitingahús landsins.  Dæmi:  Ljúffeng kjötsúpa kostar 995 kr.  Til samanburðar kostar kjötsúpudiskurinn 1200 kr. í kaffiteríu Perlunnar, 1490 kr. í Café Adesso,  1590 kr. í Kænunni og 1790 kr. í Matstofunni Höfðabakka.

 Matseðil Bike Cave má sjá með því að smella HÉR  bike cave sukkulaðikaka

 


Hlegið að hryðjuverkasamtökum

ss sam simon

 

 

 

 

 

 

 

 

  Bandarísku hryðjuverkasamtökin Sea Shepherd boðuðu komu sína til Færeyja um miðjan júní.  Þar hyggjast þau standa vakt fram í október.  Yfirlýstur tilgangur er að koma í veg fyrir hvalveiðar eyjaskeggja.  Raunverulegur tilgangur er þó fyrst og fremstur sá að safna fjárframlögum frá vellauðugum rokkstjörnum og kvikmyndaleikurum.

  Á dögunum blésu samtökin í herlúðra og héldu blaðamannafund í Færeyjum.  Þar ætluðu þau að upplýsa heimspressuna um baráttuna gegn hvalveiðum Færeyinga og svara spurningum.  Fjórir vígalegir fulltrúar SS komu sér makindalega fyrir við fundarborð og höfðu með sér bæklinga og fleiri gögn til að dreifa meðal blaðamanna,  ljósmyndara,  útvarpsfréttamanna og sjónvarpsfólks.

  Aðeins einn fjölmiðlamaður mætti á fundinn.  Það var kvikmyndatökumaður færeyska sjónvarpsins,  Kringvarpsins.  Niðurlútir og skömmustulegir reyndu SS-liðar að bera sig vel og gera gott úr þessu.  Kvikmyndatökumanninum var boðið að leggja spurningar fyrir gestgjafana.  Sjónvarpsmaðurinn afþakkaði það.  Sagðist ekkert hafa við SS að tala.  Við það varð fundurinn ennþá vandræðalegri og kvikmyndatökumaðurinn hélt á brott.

  Blaðamannafundurinn hefur þegar verið útnefndur neyðarlegasti blaðamannafundur aldarinnar.

  Um helgina bar svo við vart varð við marsvínavöðu (grind) í Færeyjum snemma morguns.  Hvalurinn var í snatri veginn fyrir framan nokkra SS-liða sem áttu að standa vakt en höfðu sofnað.  Vakti þetta ennþá meiri kátínu heimamanna en blaðamannafundurinn.  Nú eru SS uppnefndir Sleep Shepherd.

hvalur og fiskur

 

 

 

 

 

 

 

 

  SS gáfu um daginn út yfirlýsingu þess efnis að í sumar yrði öll áhersla lögð á baráttuna gegn hvalveiðum Færeyinga.  Skip samtakanna yrðu kölluð frá Asíu og Ástralíu og plantað í færeyska firði.  Þar á meðal eitt aðal skipið,  Sam Simon.  Einhverra hluta vegna hefur það ekki ennþá skilað sér til Færeyja heldur lagðist við bryggju í Tromsö í Noregi.  Þar virðist það vera í reiðuleysi og án tilgangs.   

diskur fyrir hvalkjöt


Varasöm matvæli

 Oft er ekki allt sem sýnist þegar kemur að mat í útlöndum.  Sjálfur formaður Framsóknarflokksins,  Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur vakið athygli á því.  Hann hefur sagt frá veirum eða einhverju álíka í útlendu kjöti sem breytir hugunarhætti og hegðun heilu þjóðanna;  það með svo afgerandi hætti að enginn framsóknarmaður finnst í öllu útlandinu.  Ekki einu sinni í Kína þó að það sé fjölmennasta land heims.

  Margur Íslendingurinn hefur bjargað sér frá hættulegri kjötvöru í útlöndum með því að seðja sárasta hungrið með rjómaköku.  Betra er að skoða kvikindið vandlega.  Oft leynist padda í henni.   

aðskotahlutur í mat - padda í rjómaköku 

 

 

 

 

 

 

  Enn aðrir snúa sér að súkkulaðibollu.  Í henni leynist iðulega súkkulaðiormurinn ægilegi.

aðskotahlutur í mat - ormur í súkkulaðibollu

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ýmsir veðja á ferskt salat í útlöndum.  Salat er bara gras.  Hvað getur verið varasmat við gras?  Mörg dýr lifa góðu lífi á grasi.  Salat geymir samt eitt og annað fleira en grasið grænt.  Til að mynda haus af eðlu.

aðskotahlutur í mat - eðluhaus í fersku salati

 

 

 

 

 

 

 

 

  Svo ekki sé talað um blessaða músina.  Hún finnur sér ætíð leið í allskonar mat og drykk. 

aðskotahlutur í mat - mús í fersku salati

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Meira að segja í gosdósirnar.  Þetta er þráhyggja.  Hún vill vera hluti af fæðu mannsins.

aðskotahlutur í mat og drykk - mús í Pepsi

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman.  Það er músarkenningin í hnotskurn

aðskotahlutur í mat - mús í niðursneiddu brauði

 

 

 

 

 

 

 

 Djúpsteiktir kjúklingabitar luma stundum á skemmtilegu viðbiti í formi flugu.

aðskotahlutur í mat - fluga í kjúklingabita


mbl.is Fundu áratugagamalt frosið kjöt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýraníð í Kína og á Íslandi

  Kínverjar beita hunda hrottalegu ofbeldi á árlegri hundaátshátíð í borginni Ylin. Þeir eru fláðir lifandi og steiktir lifandi.  Þetta á reyndar ekki aðeins við um hunda.  Á þútúpunni má finna mörg myndbönd af Kínverjum að flá lifandi loðdýr.  Þar fyrir utan: Vestrænir ferðamenn fjölmenna á hundaátshátíðina.  Þeir ljósmynda dýraníðið í bak of fyrir,  taka af því myndbönd og skemmta sér vel.  Á þann hátt espa þeir heimamenn upp í að ganga sem lengst í dýraníðinu gestunum til mikillar gleði.

  Íslendingar hafa ekki úr háum söðli að detta þegar rætt er um dýraníð.  Hérlendis hefur tíðkast til áratuga að gelda gelti.  Þeir eru hvorki deyfðir né svæfðir.  Enda rýta þeir eins og stunginn grís af sársauka.  Í leiðinni er rófan skorin af þeim. 

  Margoft hafa farið í umferð á netinu myndbönd af Íslendingum beita hross ofbeldi.  Athæfið hefur verið klagað og kært.  Ég minnist þess ekki að neinn hafi fengið dóm fyrir.  Í mesta lagi hefur verið tekið af ofbeldismanninum loforð um að draga verulega úr ofbeldinu.

  Á sumrin stundar margur Íslendingurinn það sport að krækja öngli í fisk.  Aðal skemmtunin við það er að láta fiskinn engjast sundur og saman í örvæntingarfullri baráttu við að sleppa.  Þegar hann er orðinn örmagna þá er hann dreginn í land,  öngullinn rifinn úr honum og skepnunni hent stórslasaðri aftur út í ána.  Svo er hún veidd aftur og aftur uns hún er orðin viti sínu fjær af hremmingunum og nær aldrei að vinna sig út úr angistinni. 

  Átölulaust fær fólk að innrækta hunda til að selja fyrir háar fjárupphæðir.  Dýrin eru fárveik og sárkvalin af verkjum vegna innræktarinnar.

  Þá bregða margir Íslendingar landi undir fót;  ferðast til Spánar og Portúgals.  Þar borga þeir beinharðan gjaldeyri fyrir að horfa á heimamenn murka lífið úr nautum.  Það tekur heilu og hálfu tímana að stinga nautið nógu oft í bakið til að það drepist.  Eini tilgangurinn með nautaati er skemmtanagildið.

  Sama má segja um hanaat sem margir Íslendingar sækja í Mexíkó, Bandaríkjunum og víðar.  Íslendingar eru dýraníðingar.  Þeir skemmta sér sjaldan betur en við að horfa á dýr kveljast.

  

  


mbl.is „Viðbjóðsleg meðferð á hundum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frönskurnar og franskarnar

   Í fyrirsögn fréttar á mbl.is segir "Frönskurnar seldust upp".  Í meginmálstextanum er sagt frá því að "franskarnar seldust upp á fjórum klukkustundum".  Það er gaman að þessu.  Gott að nýr veitingastaður í Reykjavík fái góðar viðtökur.  Hinsvegar vekur orðalagið í fréttinni athygli.  Ekki að það sé neitt rangt við það.  Ég hef bara ekki heyrt þessi orð áður.    

  Er þetta unglingamál að tala um franskar kartöflur sem frönskurnar og franskarnar?  Eða eru þetta nýyrði sem eiga að krydda tunguna? Eða er þetta gamalt og rótgróið tungutak sem hefur farið framhjá mér í öll þessi ár? 

franskar

 


mbl.is Frönskurnar seldust upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hér færð þú nýsteikta kótelettu og meðlæti

kótelettur

  Um helgina fór fram á Selfossi hátíðin Kótelettan 2015. Þriggja daga hátíð helguð kótelettunni.  Hugmyndin er góð.  Framkvæmdin var líka hin besta í alla staði.  Skilst mér.  Kótelettuunnendur lögðu land undir fót frá öllum landshornum.  Sumir færðu til sumarfrí sitt og utanlandsferðir til að komast í kótelettubita.  Einn kunningi minn brosir allan hringinn eftir helgina.  Hann náði ókeypis munnbita af gómsætu lambakjöti og náði að auki að kaupa heila nýsteikta kótelettu á aðeins 500 kr.  Akstur hans til og frá Keflavík var þess virði.  "Veðrið var líka frábært," sagði hann.

  Fæstir vita að á góðum degi er mögulegt að komast í kótelettu á nokkrum veitingastöðum á höfuðborgarsvæðinu.  Þar á meðal á þessum stöðum:

Kænan,  Hafnarfirði.  Verð 175cotelette0 kr.

Matstofan Höfðabakka.  Verð 1790 kr.

Pítan,  Skipholti.  Verð 2195 kr.

Múlakaffi  2250 kr.

Fljótt og gott á BSÍ  2890 kr.  

  Á öllum veitingastöðunum nema Pítunni eru kóteletturnar með raspi.  Ég held að það sé séríslensk útgáfa.  Að minnsta kosti hef ég ekki séð kótelettu í raspi í útlöndum.  kótelettur með raspi

  Á Pítunni eru kóteletturnar bornar fram með bakaðri kartöflu og fersku salati. Á hinum stöðunum fylgir þeim salatbar, soðnar kartöflur, súpa, brauð og kaffi.  Mjög lystugir fá ábót.

  Á Pítunni og Fljótt og gott eru kótelettur í boði alla daga.  Á hinum stöðunum er það tilfallandi.  Hægt er að fylgjast með því á heimsíðum þeirra og Fésbókarsíðum.

  Á BSÍ eru kaldar kótelettur afgreiddar í bílalúgu allan sólarhringinn.  Verðið er 2250 kr.

 

  

 


Menn bjarga sér

siginn_fiskur

 

 

 

 

 

 

 

 

  Ég fékk mér að borða á matsölustað.  Skömmu eftir að ég settist niður og tók til matar míns stóð aldraður maður upp frá borði fjarri mínu.  Hann hafði hugsanlega lokið við sína máltíð vegna þess að stefnan var tekin á útidyrnar.  Ferðin sóttist seint.  Maðurinn átti erfitt með gang. Hann riðaði allur,  sveiflaðist fram og til baka og til hliða, fór fetið og studdi sig við öll borð og stóla er á vegi urðu.  Hvað eftir annað lá við að hann félli í gólfið.  En hann tók þetta á seiglunni.  

  Mér varð hugsað til þess að kallinn þyrfti endilega að fá sér göngugrind.  Hann gæti hvorki boðið sér né öðrum upp á svona óstöðugt og erfitt göngulag.  Hann var allt að því ógangfær.

  Skyndilega spratt á fætur miðaldra maður sem hafði setið á næsta borði við þann aldraða.  Hann greip tvo stafi og tók á sprett á eftir hinum.  Kallaði:  "Fyrirgefðu,  eru þetta ekki stafirnir þínir?"  

  Sá aldraði rak upp stór augu,  hristi hausinn eins og hneykslaður á sjálfum sér,  tók við stöfunum og sagði afsakandi:  "Gat nú skeð!"

  Kominn með stafina í hendur gekk sá gamli styrkum fótum og hnarreistur út í sólina.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.