Færsluflokkur: Matur og drykkur
5.5.2014 | 21:31
Lögregluþjónar í vondum málum
Fönix - eða réttara sagt Phoenix - er höfuðborg Arizona ríkis í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þetta er jafnframt fjölmennasta borg Arizona. Nú eru tveir lögreglumenn þar í borg í vondum málum. Þeir voru á vakt þar sem þeir áttu að sitja inni í lögreglubíl, drekka kaffi og maula kleinuhringi, og vera tilbúnir að sinna útkalli.
Innra eftirlit lögreglunnar stóð lögreglumennina að því glóðvolga að spila Olsen, Olsen á vaktinni. Vissulega drukku lögreglumennirnir samviskusamlega sitt kaffi og mauluðu kleinuhringi með glassúr. En þeir biðu ekki nógu einbeittir og vakandi eftir útkalli á meðan þeir spiluðu Olsen, Olsen. Þeir hafa verið leystir frá störfum í lögreglunni tímabundið á meðan lögregluyfirvöld í Fönix ráða sínum ráðum og ákveða hvað skal með löggur sem spila Olsen, Olsen. Lögregluþjónar um gervöll Bandaríki Norður-Ameríku fylgjast spenntir með framvindu mála - á milli vonar og ótta. Niðurstaðan mun setja fordæmi.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.4.2014 | 22:19
Páskar í Vesturheimi - III
Matur og drykkur | Breytt 30.4.2014 kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.4.2014 | 02:03
Páskar í Vesturheimi


Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 02:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.4.2014 | 22:29
Bókin "Gata, Austurey, Færeyjar, Eivör og færeysk tónlist"
Nýverið kom á markað bók. Hún heitir "Gata, Austurey, Færeyjar, Eivör og færeysk tónlist". Svo einkennilega vill til að hún hefur hvarvetna fengið lofsamlega dóma og umsagnir. Það er gaman. Verulega gaman. Eðlilega hefur líka verið bent á örfáa hnökra. Fyrst og fremst tæknilega. Engin stórslys. Stærsti gallinn er að 3 orð duttu aftan af einum kafla. Það kemur ekki að sök. Þau skipta ekki máli. Engu að síður skrítið vegna þess að orðin voru með í endanlegu umbroti sem sent var til prentsmiðjunnar.
Almennt virðist sem fólk finni sitthvað áhugavert og skemmtilegt í bókinni. Færeysk-íslenska orðabókin í bókinni vekur alltaf kátínu. Einhverjir hafa prófað með lystugum árangri mataruppskriftir Eivarar. Aðrir skemmta sér konunglega við að skoða allar myndirnar. Enn öðrum þykir gaman að lesa fróðleik um Færeyjar. Margt kemur mörgum á óvart. Áhugasamir um tónlist Eivarar fá endalausar vangaveltur og upplýsingar um hana.
Bókin er ekki bundin við neinn aldurshóp. Ég hef orðið var við unglinga sem lesa hana sér til gamans og alveg upp í fólk á níræðisaldri. Á Fésbók hef ég rekist á nokkur skemmtileg "komment" um bókina og vísanir í hana.
Þessa mynd rakst ég á. Hún er á Fésbókarsíðu Færeyings, Eiler Fagraklett. Ég þekki hann ekki en kannast við bókina á myndinni. Textinn við myndina er: The Icelandic invasion of all things Faroese continues...
Á Fésbókarsíðu færeysku tónlistarkonunnar og fatahönnuðarins Laila av Reyni er þessa mynd að finna undir textanum "Kul bók":
Þetta "kommentaði" Margrét Traustadóttir á Fésbók:
Átti rólega morgunstund eftir útivist og las bókina Eivor sem mér áskotnaðist í jólagjöf og nú var röðin komin að henni og hún var kláruð. Hef alltaf dáðst að þessari söngkonu. Takk Jens Gud góð lesning og gaman hvernig þú tvinnaðir meðfram inn Færeyskum fróðleik
Þetta "kommentaði" Ásdís Kristjánsdóttir á Fésbók:
Get mælt með bókinni Eyvör,Gata,Austurey,Færeyjar. Stórskemmtileg bók, fróðleg og með flottum myndum. Er nú byrjuð á Ég man þig eftir Yrsu og hún lofar góðu ég hef aldrei verið mikill lestrarhestur en það er að breytast
Hér er ítarleg umsögn Bubba um bókina: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1356456/ (copy/paste)
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1356456/
Þannig var bókin afgreidd í héraðsfréttablaði norð-vesturlands: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1338804/
Og í vikublaðinu Reykjavík: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1337565/
Bara svo fátt eitt sé tínt til. Mér skilst að bókin sé ódýrust í verslun Smekkleysu á Laugarvegi 35.
Matur og drykkur | Breytt 18.4.2014 kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.4.2014 | 00:31
Lulla frænka og jólaöl
Þegar ég var í Myndlista- og handíðaskólanum á áttunda áratugnum var stranglega bannað að selja bjór á Íslandi (nema á Keflavíkurvelli). Þingheimur taldi bjór vera stórhættulegan drykk sem myndi tortíma mannkyninu. Ég hafði efasemdir og bruggaði dökkan bjór. Líka vegna þess að námslánin dugðu ekki til að ég gæti styrkt ríkiskassann með myndarlegum fjárframlögum í gegnum vínbúðir ÁTVR. Þrautalending var að brugga bjór.
Svo bar við eitt sunnudagskvöld að ég tappaði bjórnum á flöskur. Allt var á kafi í snjó (úti, vel að merkja) og ófærð. Þá birtist Lulla frænka skyndilega í útidyrunum hjá mér. Hún var alveg ónæm fyrir muni á færð og ófærð. Það vissi enginn til þess að hún hefði einhvertíma lent í vandræðum á Skodanum sínum vegna ófærðar. Þó hlýtur það að hafa gerst. Ég hef áður sagt frá því þegar öll umferð lá niðri í Reykjavík vegna brjálaðs veðurs. Allt lamaðist. Fólk komst hvorki til vinnu né í skóla. Öryrkjabíllinn fór hvergi. En Lulla brunaði á sínum bíl frá Skúlagötu til Hvíta bandsins efst á Skólavörðustíg. Og aftur til baka um kvöldið. Eins og ekkert væri.
Jæja, nema það að komin inn á gólf hjá mér rak Lulla augu í bjórinn. Það hýrnaði heldur betur yfir kellu. Hún klappaði saman höndum og hrópaði í fögnuði: "Þetta lýst mér á! Húrra! Ég hef ekki fengið jólaöl frá því að ég var krakki. Nú ber vel í veiði. Ég verð að fá glas af jólaöli hjá ykkur."
Ég vildi ekki upplýsa Lullu um að þetta væri bjór. Lögreglan hafði alltaf töluverð afskipti af Lullu og aldrei að vita hvað hún segði laganna vörðum í ógáti. Það var, jú, ólöglegt að brugga áfengan bjór. Ég brá á það ráð að segja Lullu að ölið væri ókælt og ekki tilbúið til drykkjar. En Lulla var viðþolslaus af löngun og sagði að það gerði ekkert til. Jólaöl væri það besta sem hún fengi hvort sem það væri kælt eða ókælt.
Ég hellti í hálft glas. Lulla skellti því í sig í einum teyg og ískraði af ánægju: "Helltu almennilega í glasið, drengur! Þú átt nóg af þessu. Þetta er sælgæti." Lulla var ekki vön að vera frek. Nú lá rosalega vel á henni. Ég hlýddi. En hafði nettar áhyggjur af þessu. Lulla hafði aldrei bragðað áfengi. Hún hafði óbeit á því.
Lulla drakk frekar hratt úr fulla glasinu og vildi meira. Hún fékk aftur í glasið. Drakk heldur hægar úr því. Að því loknu sagði hún: "Ég er kominn með svima." Hún var orðin þvoglumælt. Ég notaði tækifærið og sagði: "Það borgar sig ekki að drekka meira af ölinu. Það er ekki alveg tilbúið til drykkjar."
Lulla féllst á það. Sagðist ætla að koma sér heim. "Þetta er ekkert óþægilegur svimi," útskýrði hún. "En ég ætla samt heim og leggja mig."
Eftir að hafa kvatt heimilisfólkið og þakkað fyrir sig fór Lulla fram í forstofu og tróð sér í stígvél. Það gekk brösulega. Lulla vaggaði óstöðug yfir stígvélunum og slagaði utan í vegg. "Þetta er furðulegt," tautaði hún. "Það er eins og fæturnir hitti ekki í stígvélin. Ég vona að ég sé ekki að fá matareitrun."
Áhyggjur mínar jukust. Það hvarflaði að mér að hvetja Lullu til að taka leigubíl. Jafnharðan vissi ég að enga leigubíla var að fá í þessari ófærð. Að lokum komst Lulla í bæði stígvélin eftir heilmikið puð. Hún slagaði út í bílinn sinn. Ég fylgdist með út um glugga. Lulla kveikti sér í sígarettu um leið og hún settist inn í bílinn. Hún setti bílinn ekki í gang næstu 40 mínútur. Keðjureykti bara inni í bílnum. Loks ræsti hún bílinn og brunaði af stað í gegnum snjóskaflana.
Þegar ég áætlaði að Lulla væri komin heim til sín hringdi ég í hana. Mér til óblandinnar gleði svaraði hún í heimasímann. Heimförin hafði gengið vel. Ég spurði hvernig sviminn væri. Lulla svaraði: "Hann er notalegur. Ég ætla að leggjast en ekki sofna strax."
---------------------------------------
Fleiri sögur af Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1371568/
---------------------------------------
Hans klaufi
--------------------------------------
Fyrir þremur áratugum eða svo stýrði Bryndís Schram ofur vinsælum barnatíma Sjónvarpsins. Fjölmiðlakannanir mældu mjög gott áhorf. Það einkennilega var að uppistaðan af áhorfendum voru miðaldra og eldri karlmenn.
Líkt þessu er hlustendakönnun á vinsælum barnatíma í færeyska útvarpinu.

Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2014 | 01:03
Óhollur matur sem er hollur
Fátt tekur meiri breytingum í áranna rás en kenningar um hollustu og óhollustu hinna ýmsu matvæla og drykkjar. Margt sem var hollt í gær er óhollt í dag. Annað sem var óhollt í gær er hollt í dag. Inn í umræðuna blandast kenningar á borð við það að litlu máli skipti hvernig hádegisverður er samsettur. Ennþá minna máli skipti hvernig morgunmatur er samsettur. Öllu skipti hvað sé í kvöldmatinn. Líkaminn vinni léttilega úr öllu sem neytt er fyrir klukkan 15.00 á daginn. Það þurfi hinsvegar að gæta að því sem látið er inn fyrir varir um kvöldið.
Af matvælum sem áður voru talin óholl en eru í dag holl má nefna: Egg, beikon, kartöflur, súrdeigsbrauð, mjólkur-jógúrt, heitt kakó og kaffi.
Tökum dæmi: Egg innihalda mikið af kólesteróli. Fyrir það hafa þau verið hædd og smánuð. Kölluð lífshættulegar kólesteról-sprengjur sem beri ábyrgð á fjölda hjartasjúkdóma.
Í dag liggur fyrir að kólesteról skiptist í vont kólesteról og gott kólesteról. Eggið inniheldur góða kólesterólið. Það styrkir hjartað og margt fleira. Stútfullt af vítamínum, steinefnum og allskonar. Öflug vísbending um hollust eggs er að það getur breyst í unga. Heilbrigðan unga með gott hjarta.
Það má líka nota spælt egg fyrir húfu.
Lengi hefur því verið haldið á lofti að matvæli tapi öllum vítamínum, steinefnum og næringarefnum við hitun í örbylgjuofni. Hvert fara þessi efni? Nú er búið að komast að því. Þau safnast saman í neðra vinstra hornið í ofninum. Það eina sem þarf að gera er að grípa með lúkunni utan um ósýnilega hrúguna og strá næringarefnunum yfir matinn.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.4.2014 | 21:46
Hrátt sjávarfang er lífshættulegt
Á uppvaxtarárum mínum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar var fiskmeti ánægjulega oft á borðum. Allra handa fiskur og silungur. Ýsa og þorskur voru oftast í matinn. Stundum var þorskurinn saltaður vel og lengi, vikum saman. Það var ekkert nætursaltað. Þetta var alvöru saltfiskur. Ýsan var stundum látin hanga. Sigin ýsa er meiriháttar sælgæti. Af og til var lúða, rauðspretta eða rauðmagi.
Allur var fiskurinn soðinn í langan tíma. Látinn malla í korter eða 20 mínútur. Eða steiktur í drjúga stund.
Síðari tíma kenningar ganga út á að best sé að snöggsjóða eða snöggsteikja fisk. Þær má til sanns vegar færa. Þannig er fiskurinn þéttari, bragðmeiri og hollari. Gallinn við þetta er að hringormurinn stendur af sér svona stuttan hita. Að vísu dasast hann og verður töluvert ringlaður. En það er ekki lystugt að borða iðandi orm. Hann getur lifað um tíma í maganum. Síðan borar hann sig í gegnum allskonar líffæri. Það er ekki þægilegt þegar um kannski 3ja - 4ra cm langt kvikindi er að ræða.
Á allra síðustu árum hefur færst í vöxt að fólk snæði hrátt sjávarfang. Japanski þjóðarrétturinn suchi er í ört vaxandi hávegum hafður. Tískufyrirbæri. Bæði sem veisluréttur og partýsnakk. Svo eru það hráar ostrur, laxatartar, hörpuskel og sashimi.
Vandamálið með hrátt sjávarfang er að það er löðrandi í spriklandi ormum, flóm, lús og allskonar óþverra. Sumum finnst "töff" að snæða þannig mat. Vandamálið er að þetta veldur magakveisum, matareitrun og bráðaofnæmi. Sá sem eitt sinn fær bráðaofnæmi við að snæða hrátt sjávarfang verður að sniðganga sjávarrétti það sem eftir er ævinnar. Um líf og dauða er að tefla.
Ostrur eru iðulega á glæsilegustu veisluborðum. Þær eru ofan á ísklakahrúgu og snæddar hráar. Kokkur sagði mér að það sé ólystugt að sjá vatnið eftir að veisluhöldum lýkur, ostrurnar uppétnar og ísklakarnir bráðnaðir. Aðeins vatn eftir. Yfirborð þess er allt á hreyfingu, krökkt af lús.
Ef að ég man rétt eru einhversstaðar í Gamla testamentinu fyrirmæli um að einungis skuli borða sjávardýr með hreistur og ugga. Eða eins og Bítillinn Ringo Starr orðaði það í Atlavík: "Ekkert sem skríður."
Í splunku-Nýja testamentinu fjölfaldar Jesús nokkra fiska og mettar fjöldann. Ágreiningur er um hvort að fiskurinn var hrár, marineraður, soðinn eða steiktur. Maður sem hefur rannsakað þetta útilokar að fiskurinn hafi verið djúpsteiktur.



Ormalausir hoppa hátt
og hendast yfir slána.
Fyrr var oft í koti kátt
og klofað yfir rána.
.
![]() |
Hringormur veldur bráðaofnæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt 3.4.2014 kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.3.2014 | 21:54
Fjörið hefst á þriðjudaginn
Laila av Reyni er færeysk tónlistarkona, fatahönnuður, stílist og innanhúsarkítekt. Hún er hátt skrifuð á öllum þessum sviðum. Til að mynda hefur hún ítrekað hannað fatnað á fulltrúa Danmerkur í Miss World; einnig á Eivöru og fleiri stjörnur. Á undanförnum árum hefur Laila verið þekkt bakraddasöngkona í Færeyjum. Á síðasta ári sendi hún frá sér plötu með frumsömdu efni. Platan fékk afskaplega lofsamlega dóma og var tilnefnd til færeysku tónlistarverðlaunanna FMA 2014.
Núna er Laila stödd á Íslandi, meðal annars til að fylgjast með tískusýningu í Hörpu. Hún ætlar líka að stíga á stokk og syngja fyrir Íslendinga. Hljómleikarnir bera yfirskriftina "Litli Íslandstúrinn 2014 * 1. - 5. apríl". Með í för er færeysk-íslenski dúettinn Sometime. Hann er skipaður Rósu Ísfeld oog Danna, kenndum við Maus.
Fjörið hefst þriðjudaginn 1. apríl í Lucky Records á Rauðarárstíg. Það er ekki aprílgabb. Hljómleikarnir byrja klukkan 16.30 og standa til klukkan 18.00. Ókeypis aðgangur.
Næstu hljómleikar eru fimmtudaginn 3. apríl í Café Rosenberg við Klapparstíg. Þeir byrja klukkan 21.00. Miðaverð er 2000 kr.
Daginn eftir, föstudaginn 4. apríl, fá Akranesingar að njóta skemmtunar. Þá eru hljómleikar í Gamla Kaupfélaginu. Þeir standa frá klukkan 23.00 til 03.00. Miðaverð er 2000 kr. í forsölu en 2500 við hurð.
5. apríl er "Langur laugardagur" í miðbæ Hafnarfjarðar. Þá er opið hús í Fjörukránni á milli klukkan 13.00 til 17.00. Margt er þar um að vera á vegum Menningar & listafélags Hafnarfjarðar, Norrænu Ferðaskrifstofunnar, Hönnunar í Hafnarfirði o.fl. Boðið verður upp á ýmsar uppákomur, færeyskt smakk, glaðning fyrir börn og sitthvað fleira, ásamt því sem seldar verða nýbakaðar vöfflur og kaffisopi.
Klukkan 18.30 er í boði, fyrir aðeins 5000 kr., færeysk veislumáltíð og lokahljómleikar "Litla Íslandstúrsins". Heimsfrægur færeyskur stjörnukokkur, Birgir Enni, töfrar fram bestu fiskisúpu í heimi, matreiðir lamb og fleira góðgæti. Í leiðinni fræðir hann gesti um leyndarmálið á bakvið veisluna.
Hljómleikarnir hefjast klukkan 21.30. Ef einungis þeir eru sóttir er miðaverð 2000 kr.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2014 | 00:15
Ódýrasta heimsreisan II
Í fyrradag benti ég ykkur á leið til að komast í heimsreisu fyrir aðeins brot af því sem hefðbundin aðferð kostar í beinhörðum pengingum. Uppskriftina má sjá með því að smella á eftirfarandi slóð: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1360942/ . Ferðin hófst í Evrópu. Drífum okkur þá til Ástralíu. Til þess þarf að komast yfir mauk sem heitir Vegemite. Ég veit ekki hvort að það fæst hérlendis. Ef ekki er áreiðanlega hægt að kaupa eina krukku fyrir lítinn pening í gegnum einhverja póstverslun. Vegemite má til að mynda finna á fésbók. Vegemite er smurt á ristað brauð. Með því er drukkið te og hlustað á AC/DC á meðan. Þar með ertu í Ástralíu.
Næst er það Ameríka. Byrjum á Grænlandi. Þar er það dökkt brauð úr rúgi. Heldur ljósara en íslenska rúgbrauðið. Á það er sett smjör og salami sneiðar. Á aðra brauðsneið er settur smurostur. Þessar vörur eru innfluttar frá Danmörku. Algengt er að mjólkurglas sé drukkið með og fylgt eftir með frekar bragðdaufu kaffi. Meðfram hljómar hljómsveitin Inneruulat.
Frá Grænlandi liggur leið til Kanada. Tökum einföldu útgáfuna (sleppum djúpsteiktu hálfmánunum sem súrkáli, kartöflum, ávöxtum og kjöti. Þeir eru hvort sem er bara til spari). Einfalda hversdagsútgáfan samanstendur af eggjahræru, litlum pylsum (sausage), ristuðu franskbrauði, beikoni og djúpsteiktum kartöflukökum sem kallast hash brown. Þær eru lagaðar úr stöppuðum soðnum kartöflum og formaðar í litlar kökur.
Til gamans má geta að lengi vel var í Keflavík (eða Njarðvík) veitingastaður í húsi Skeljungs þar sem nú er verslunarmiðstöð Hagkaups, Bónus og fleiri verslana. Þar var borðið upp á hash browns með mat. Á tímabili var ég með nokkur skrautskriftarnámskeið í Keflavík. Á leið minni til kennslu snæddi ég á þessum veitingastað. Bað alltaf um hasskökur með matnum (og átti við hash browns). Einn daginn sagði konan sem rak staðinn eitthvað á þessa leið: "Þetta er alveg ferlegt að þú kallir hash browns hasskökur. Ég var að afgreiða fólk hér og varð á í hugsunarleysi að spyrja hvort það vildi franskar eða hasskökur með matnum. Þegar fólkið varð undarlegt á svipinn áttaði ég mig á því hvað það hljómaði illa að kalla hash browns hasskökur."
Þetta var útúrdúr. En með kanadískum morgunverði er af nógu að taka í kanadískri músík.
Frá Kanada er stutt til Bandaríkjanna. Einkennandi þar eru svokallaðar bandarískar pönnukökur. Þær eru það sem við köllum lummur. Litlar, þykkar og sætar pönnusteiktar lummur. Ofan á þær nýsteiktar er sett stórt smjörstykki sem bráðnar yfir þær. Síðan er sýrópi hellt yfir í svo miklu magni að það flýtur yfir lummurnar og út á diskinn. Á allra síðustu árum er vinsælt að hafa súkkulaðibita í lummunum.
.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.3.2014 | 20:16
Hvað er í gangi?
Ég átti leið um Garðabæ áðan. Mér datt í hug að koma við í Ikea og kaupa sænska gosdrykki. Þegar á reyndi missti ég alla lyst á drykkjarföngum. Hvert sem litið var blasti við undarleg sjón. Það var eins og æði hafi runnið á mannskapinn.
![]() |
Saltkjötið ekki lengur á túkall |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)